Fimmtudagur 21.02.2019 - 16:01 - 8 ummæli

Umferðaöryggi gangandi yfir Hringbraut í vesturborginni.

Fyrr í mánuðinum sat ég fund Íbúasamtaka Vesturbæjar um öryggi gangandi vegfarenda við Hringbraut í Reykjavík. Mættir voru á fundinn fulltrúar allra helstu stofnanna landsins sem með umferðamál fara ásamt miklum fjölda íbúa borgarhlutans. Þarna var líka nokkur hópur af Seltjarnarnesi en Hringbraut er þeim ekki óviðkomabdi.

Sérfræðinganir voru frumælendur og þeir lýstu ástandinu með lykiltölum; fjölda bíla sem aka þarna um, hraða þeirra og fjölda óhappa og slysa undanfarna áratugi. Þetta voru allt atriði sem flestum fundargestum voru kunn og í raun tilefni fundarins. En það var fróðlegt að sjá þessar tölur settar fram á traustum grunni þar sem tilfinnig íbúa borgarhlutans var staðfest.

Meginástæðan fyrir því að ég ákvað að verja kvöldstund á þessum fundi var að heyra og kynnast einhverjum ráðum eða sviðsmyndum sem tækju á vandanum og stjórnvöld væru að vinna með. En vandinn er áratugagamall og hefur verið í umræðunni frá því að ég man eftir mér.

En uppá það var ekki boðið.

Það kom mér sérstaklega á óvart að enginn frummælenda reyfaði lausn, lausnir eða lausnaklasa. Engar sviðsmyndir sem leysa kunnu vandann. Það kom þarna fram að fulltrúar vegagerðarinnar virtust samstarfsfúsir um að leysa málið en það er þvert á það sem ég hef haldið enda lesið í fjölmiðlum að þetta sé á höndum Vegagerðarinnar og hún væri treg í taumi og borgin ætti ekki auðvelt með þetta allt saman. Á fundinum kom fram, og mér á óvart, að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin eru samstarfsfús og hafa t.a.m. ekki sett sig uppi á móti því að hámarkshraðinn sé lækkaður úr 60 km á klukkustund í 40. Það er auðvita ágætt en ekki nóg.

Í umræðum í kjölfar erindanna óskuðu nokkrir íbúar eftir brúm yfir Hringbrautina, helst á þrem stöðum eða jafnmörg göng undir hana. Þetta eru algengar lausnir víða um lönd en eru ekki góðar. Með þessum lausnum er stuðst við forsendur akandi en ekki gangandi. Ef einhver á að færa sig til í plani ættu það að vera bílarnir segja talsmenn gangandi.

+++

En þar sem ég sat þarna og hlýddi á framsöguerindin og fyrirspurnirnar spurði ég sjálfan mig. „Hvað ætli hugsuðurinn og arkitektinn Jan Gehl mundi leggja til?

Ég veit svosem ekkert um hvað hann mundi gera en veit að hann er einn helsti sérfræðingur veraldar um göngugötur og gangandi umferð almennt.

Ég held að hann mundi leggja til að fækka þeim fjölda sem þarf daglega í sínum daglegu erindagjörðum að labba yfir Hringbrautina. Hann mundi líklega gera tillögu um að gera borgarhlutana sjálfbæra þannig að það sé ekki nauðsynlegt að fara yfir Hringbrautina daglega. Þetta er hægt að gera með mörgum litlum og stórum aðgerðum. Ein væri að gera Vesturbæjarskólann að heildstæðum grunnskóla sem þjónaði öllum íbúum Vesturbæjar norðan Hringbrautar þannig að þeir þyrftu ekki að sækja Hagaskóla í 8, 9 og 10 bekk. Þá er nauðsynlegt að byggja veglegt þróttahús norðan Hringbarutar. Þannig að KR, íþróttafélag Vesturbæjar fengi einskonar útibú eða annex norðan Hringbrautar. Ég sé á skipulagshugmyndum að menn eru að ræða útisundlaug í tengslum við Vesturbugt Hafnarinnar sem mun draga úr ferðum gangandi úr gamla Vesturbænum yfir Hringbraut í Sundlaug Vesturbæjar. Með þessum og mörgum öðrum samskonar skipulagsaðgerðum væri hægt að minnka umferð gangandi yfir Hringbraut verulega. Einkum ungs fólks.

Líklegt er að Gehl muni leita í gagnabanka sinn með lausnir um hvernig best er að greiða gangandi götun sína þegar farið er yfir Hringbrautina. Þetta er vandamál sem verið er að glíma við um allan heim og lausnirnar margvíslegar. Göng og brýr eru algengastar og leiðinlegastar og henta líklega alls ekki hér við Hringbraut af margvíslegum ástæðum. Gehl mundi líklega frekar leggja fram tillögur sem væru á forsendum þeirra sem ganga en ekki þeirra sem aka.

Hann mundi liklega leggja áherslu á tvo til þrjá staði þar sem gengið væri yfir götuna í plani. Líklega við Birkimel, Hofsvallagötu og Framnesveg og líklega loka alfarið gönguleiðinni við Meistaravelli og Furumel.

Þarna yrði gangstéttin látin halda hæð og áferð yfir götuna og vera svona 10 metra breið með stalli (upphækkun) sem er þannig að ökumenn verða að hægja á sér áður en ekið er uppá og yfir gangstéttina sem verður þá þvert yfir götuna. Gangstéttarsvæðið yrði vel flóðlýst og rækilega merkt auk gönguljósa sem bragur er af. Allt með snjóbræðslu að sjálfsögðu.

Líklega yrðu lausnir hans einskonar klasi lausna í þessa veru.

Þegar ég gekk út af fundinum var ég sannfærður um að þetta væri mál sem borgin getur vel leyst og hvorki Lögreglustjórinn á Höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðin, Samgönguráðuneytið, né Samgöngustofa mundi leggja stein í þá götu að gera Hringbraut sem öruggasta fyrir gangandi vegfarendur.

+++++

Myndin efst í færslunni er fengin af Facebooksíðu Íbúasamtaka Vesturbæjar sem sýnir ökumann aka yfir gangbraut á rauðu ljósi. 10-15 cm stallur upp á gangstéttinu yfir Hringbraut mundi draga úr hættunni á þessu aksturslagi.

+++

Frummælendur á fundinum viru þessir:

Frá Vegagerð: Auður Þóra Árnadóttir – forstöðumaður umferðardeildar.
Frá Reykjavíkurborg: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir – formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur.
Frá lögreglunni: Sigríður Björk Guðjónsdóttir – lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins & Ásgeir Þór Ásgeirsson – yfirlögregluþjónn.
Frá Samgöngustofu: Gunnar Geir Gunnarsson – deildarstjóri öryggis og fræðsludeildar & Edda Doris Meyer – sérfræðingur á mannvirkjadeild
Frá samgönguráðuneyti: Jónas Birgir Jónasson – lögfræðingur á skrifstofu samgangna í Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu & Sigurbergur Björnsson – skrifstofustjóri á skrifstofu samgangna í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

++++

Uppfært 22.02.2019

Lesandi síðunnar senndi hjálagða greinargerð vegna svipaðra vandamála við Amagerbrogade í Kaupmannahöfn. Þar er einmitt notuð sú aðferð að vera með „Hævet Flade“ eða hækkaðan flöt með gangstéttarhellum þar sem gengið er yfir götuna.

https://l.facebook.com/l.php?u=https%3A%2F%2Fkk.sites.itera.dk%2Fapps%2Fkk_pub2%2Findex.asp%3Fmode%3Ddetalje%26id%3D1153%26fbclid%3DIwAR3u-z5–Epo4PZJDh4IV9HubwRldb7TOtWH1c6BFiaC2SelmJBYsoWjkpE&h=AT2aHtnofjo4C75xFGSYsUeMenh8KHK4ZPbsLKrC40S0I_2nTHkaElUXdouf-C2d_Lseduf9E862pIrxi_JqH_xoj7xz2z-_xe1A1wyKFbX2yNk398rj1kQWyA314jvP0lo

Hér eru tvær myndir ús skýrslunni.

Hér er gönguflöturinn hækkaður á stóru svæði. Þetta mætti gera á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu og yrði mun geðslegra og fallegra og ódýrara en brú eða óaðlaðandi göng.

Svona lítur lausnin út þegar búið er að lyfta gönguleiðinni upp í gangstéttarhæð og þekja hana með gangst+ettarefnum í stað malbiksins sem er merki um að þar eigi bílarnir sitt svæði. Að neðan er svo mynd fyrir breytingu. Munurinn er sláandi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Hilmar Þór

    Það er oft mikill hraði á þessum cypersamskiptum og margt skrifað sem ekki á við og ekki í takti við umræðuefnið Stefán. En mergur málsins er samt sá eins og fram kom á hverfafundinum og mér sýnist vera staðfest á fundargerðinni sem þú vísar í. Vegagerðin, lögreglan og samgöngustofa eru öll af vilja gerð til þess að bæta öryggi gangandi vegfarenda við Hringbraut. Ég get ekki séð annað. Mér sýnist, sem meira er, að það sé rétt ályktað hjá mér og fleirum að borgin hefur ekki lagt áherslu á þetta atriði og kennir svo öðrum um eins og er mjög algengt nú á dögum hjá borginni (Klóakið, Bragginn , jafnréttismál, hitaveitumál, kosningasvindl og fl sem vísað er frá pólitískum oddvitum og meirihlutanum til embættismanna, því miður) En hvað segir þú Stefán efnislega um þær úrbætur sem nefndar eru í pistli mínum? Og reynum að halda pólitískum átökum til hlés í þeirri umræðu.

  • Stefan Benediktsson

    Athugasemd þín Hilmar, frá 23. er gerð í of miklu hasti. Lesa fyrst, skjóta svo :).
    Niðurlag minnar aths. „án leyfis“ er efnislegt höfuðatriði, og á við um alla nágranna, líka Vegagerð og Borg.
    Jákvæðni er ekki samningur eða heimild og ólíkt öðrum nágrönnum þurfa opinberir aðilar afdráttarlaust ritað samþykki fyrir samstarfi.
    Í tíunda lið fundargerðar Skipulags og samgönguráðs þann 30. jan, er málið reyfað all ítarlega og má sjá að umræður opinberra aðila um lækkun hámarkshraða og aðrar slysavarnir eru ekki að byrja núna.

  • Páll Gunnlaugsson

    Þetta er fín umræða. Hef samt á tilfinningunni að fólkið sem gerði athugasemdir við hraðahindranir á Hofvallagötunni sé það sama og við sjáum núna slást fyrir lækkun ökuhraða á Hringbrautinni (og jafnvel Grensásvegi). Þetta er allt angi af sama meiði. Við þurfum að setja einkabílinn í 4 sæti!

  • Hilmar Þór

    Þetta sem þú segir hér Stefán Benediktsson held ég að sé bábilja. Það sýndi sig þarna á fundinum að hvorki Vegagerðin, samgönguráðuneytið, lögreglustjóri né samgöngustofa voru treg í taumi varðandi öryggismál á Hringbraut. Þvert á móti voru þau samstarfsfús. ‘Eg held að borgin hafi með ósanngjörnum hætti notað þetta sem þú segir sem afsökun fyrir dugleysi sínu. Og þessi dæmisaga um garðinn sem þú nefnir gengur ekki. Víðast í borgarlandinu er mikið samstarf milli nágranna um framkvæmdir í hvers annars garði. Þetta þekkjum við félagshyggjufólkið vel þótt þú þekkir það ekki. Þetta er allt spurning um samtal og samvinnu. Athugaðu það.

  • Stefan Benediktsson

    Borgin hefur lagt til lausnir en fer ekki í framkvæmdir á veghelgunarsvæði Vegagerðar frekar en menn fara ekki í framkvæmdir í annarra görðum án leyfis.

  • Ragnheiður

    Þetta vandamál er líka hér við Sundlaugarveginn. Af hverju leysir borgin ekki vandann? Lausnirnar liggja fyrir. Það sem borgin gerir er að kenna öðrum um. Vestur í bæ er þetta Vegagerðinni að kenna en hverjum er sleyfarlaginu um að kenna við Sundlaugarveg? Kannski líka Vegagerðinni?

  • Stefán Guðm.

    Það er allt flókið þar til manni er bent á lausnina og hún er ekki einföld hér. Það þarf einmitt að bregðast við á mörgun stöðum. Eingin ein “patentlausn” dugar og vilji er allt sem þarf.

  • Eiríkur G.

    Líklega er þetta rétta nálgunin. Það er engin ein lausn til á þessu vandamáli, heldur „klasi“ lausna. (aldrei hef ég heyrt þetta orð áður „lausnaklasi“ frábært orð sem er andstaða „patentlausn“)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn