Fimmtudagur 27.08.2015 - 10:11 - 18 ummæli

Umræðan um skipulagsmál.

http://s3.amazonaws.com/rapgenius/vitruvius.jpg

Ég hef oft efast um sjónarmið mín og þær ályktanir sem ég dreg af ýmsum áætlunum sem varða skipulag og byggingalist. En ég styðst eins og ég get við fagleg sjónarmið sem lögð eru fram og geri mér far um að reyna að skilja það sem liggur á borðum. Eflaust hef ég stundum rangt fyrir mér varðandi einstaka mál.

Stundum tekst mér ekki að skilja hvert menn eru að fara og þess vegna reyni ég að skapa umræðu um efnið á þessum vef og víðar í von um að umræðan verði upplýsandi og lausnamiðuð.  Stundum reyni ég að þvinga fram viðbrögð með því að vera svolítið ögrandi. Geri mér jafnvel upp skoðanir. Það tekst stundum að laða fram viðbrögð en ekki alltaf.  Það er hinsvegar ekki óalgengt að ég fái viðbrögð á netfang mitt, eða þeir hringi. Þetta eru oftast aðilar sem tengjast viðkomandi máli beint og segjast ekki vilja taka þátt í opinberri umræðu um málið.  Oft „stöðu sinnar vegna“

Gott dæmi um þetta eru áformin um að byggja Landspítala við Hringbraut.  Ég hef skrifað pistla um þessa spurningu í sex ár, velt ýmsum steinum og leitað svara við aðkallandi spurningum.

Sannast sagna skil ég ekki af hverju það gengur svona illa að ná upp faglegri og lausnamiðaðri opinberri umræðu um þetta mikla mál.

Þetta hefur nánast verið einræða þó þeim sem eru svipaðrar skoðunnar og ég hafi fjölgað verulega.

Ég hef líkt þessu við samtal við girðingastaur. Samtalið er ekki gagnvirkt. Þeir sem véla um þessi mál fyrir hönd skattgreiðenda taka nánast ekkert þátt í umræðunni.  Svara nánast engu og leiða umræðuna hjá sér.  Það er líklega vegna þess að þeir telja þögnina vera bestu vörnina í vonlausri málefnalegri stöðu sinni. Kannski eru svörin ekki fyrir hendi!

Þeir sýna með þessu vissa forherðingu, yfirlæti eða jafnvel hroka gagnvart hinum leitandi sem auðvitað borga allan reikninginn.

Eins og kom fram í nýlegum pistli mínum hafa vandaðar skoðanakannanir sýnt að um 70% lækna eru óánægðir með staðsetninguna við Hringbraut og svipað hlutfall hjúkrunarfólks. Um 85% sjúkraflutningamanna eru andsnúnir staðsetningunni við Hringbraut. Einungis 31%  landsmanna sem valdir voru í vönduðu úrtaki af MMR eru hlynntir staðsetningunni við Hringbraut. 69% eru ekki sannfærðir. Fjárhagsleg  og skipulagsleg rök benda til þess að uppbygging við Hringbraut sé óheppileg. Jafnvel röng.

Það hefur verið óskað eftir faglegu staðarvali í ein sex ár án nokkurra viðbragða.

++++

Arkitektar hafa ekki tjáð sig mikið um málið. Sennilega vegna þess að stór hluti þeirra hefur komið að málinu eða eiga persónulegra hagsmuna að gæta.

Ég spurði á fésbókarsíðu arkitekta þar sem eru skráðir um 500 arkitektar og ástríðufullir áhugamenn um skipulag og arkitektúr  um efnið.

Ég bað sérfræðingana sem lesa FB síðu arkitekta um að taka þátt í umræðunni og gera mér og fjölda annarra sem efast um staðsetninguna við Hringbraut þann greiða að róa okkur og sannfæra okkur um að Hringbrautargangan sé gengin til góðs. Ég óskaði eftir faglegum rökstuðningi fyrir staðarvalinu.

Okkur sárvantar fagleg skipulagsleg rök fyrir staðsetningunni við Hringbraut.  Ég auglýsti  beinlíns eftir þeim.

Enginn svaraði í fyrstu svo ég endurtók bón mína til sérfræðinganna nokkrum dögum seinna.

++++

Þá kom eitt svar .

Það var frá ágætum kollega mínum úr teyminu sem vann að deiliskipulaginu sem nú liggur fyrir og er væntanlega vel að sér í þessu máli.

Hann byrjaði á því að hnýta í okkur sem erum að leita svara við sjálfsögðum faglegum og velrökstuddum  spurningum vegna staðarvalsins og sagði orðrétt að það væri „auðvelt að strá ryki í augu almennings með einföldum upphrópunum sem er vitað að valda ursla. Ábyrgðarlaus gagnrýni fagmanna getur tafið mál eins og bráðnauðsynlega uppbyggingu Landspítalans“. 

Það er ekki beint málinu til framdráttar að byrja svona. Hann segir mig og fl. vera með ófaglega og  óábyrgar upphrópanir til þess eins að valda usla!!!.  Þessi tilvitnun upplýsir ekkert og er einungis til þess fallin  að draga úr umræðunni. Þarna virðist reynt að þagga niður í fólki og kæfa umræðuna. 

Svona ummæli draga úr áhuga fólks fyrir að ræða arkitektúr og skipulagsmál opinberlega. Maður missir eiginlega áhuga á samtalinu þegar svona svar birtist frá fagmanni sem ætti að þekkja vel til málanna og hefur af þessu atvinnu.

Maður sem ber samfélagslega ábyrgð vegna vinnu sinnar og á að sýna þeim sem borgar honum launin virðingu og þakka þann áhuga sem viðkomandi sýnir verki hans.

Skipulagshöfundurinn vísaði ekki í nein gögn máli sínu til stuðnings eða skipulagsrök vegna staðsetningarinnar, sem kom á óvart og er varla boðlegt.

Það verður samt að geta þess að  hann fann þrjár ástæður fyrir því að byggja skyldi við Hringbraut. Engin þeirra byggði á skipulagslegum forsendum.

Atriðin þrjú voru þessi, orðrétt:

“Hafa ber í huga að ekki er um nýja lóð að ræða. Landspítalinn tók til starfa 20. des. 1930. Það er því bráðum komin 85 ára reynsla af staðsetningunni við Hringbraut.”

Í öðru lagi:

“Ekki verður séð að gagnrýnendur núverandi staðsetningar séu sammála um neinn annan ákveðinn kost. “

Og að lokum:

“Verði hætt við frekari uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut og hann byggður annarsstaðar mun það óhjákvæmilega seinka opnun á nýjum spítala um að a.m.k. 3 ár.”

Svo kom „læk“ hjörðin sem lækaði eins og um væri að ræða íþróttakappleik þar sem menn halda auðvitað með sínu liði skilyrðislaust og oftast líka umhugsunarlaust.

++++++

Því hefur verið haldið fram að við sem erum í vafa um staðsetninguna við Hringbarut „skellum skollaeyrum við staðreyndum“ og „sjáum ekki heildarmyndina“. Mér sýnist þvert á móti að aðstandendur framkvæmdarinnar skjóti skollaeyrum við gagnrýninni og velja að svara engu eins og dæmin sanna. Þögn þeirra hefur komið málinu í þá stöðu sem það er nú í.  Fullkomna óvissu!

Að ofan eru dæmi um svörin sem fást. Þau eru ekki faglegs- eða skipulagslegs eðlis heldur bera einkenni flótta frá málefnalegri umræðu.

Forsvarsmenn verkefnisins hafa líka sagt okkur að þeir hafi fengið það verkefni frá Alþingi að undirbúa byggingu spítalans við Hringbraut og ekki annarsstaðar (Þarna virðist Alþingi hafa tekið til sín skipulagsvaldið). Það er að segja að þeir vilja ekki ræða staðsetninguna með faglegum hætti og bera fyrir sig boð frá Alþingi.  Þarna er á ferðinni alger skortur á hinni svokölluðu „samfélagslegu ábyrgð“ hjá fagfólkinu, sem er mikið rómuð um þessar mundir og mikið kallað eftir.

Það má líka skjóta því hér inn að við sem erum í vafa um staðsetninguna skoðum þá heildarmynd sem Aðalskipulag Reykjavíkur hefur dregið upp. Við skoðum líka þá félagslegu mynd sem við blasir og þá fjárhagslegu mynd sem nýlega var dregin upp.

Fylgjendurnir sýnist mér vera að skoða heildarmynd sem þeir sjálfir hafa skapað og er að margra mati ekki lengur í tengslum við þann veruleika sem blasir við í dag. Það hefur verið sýnt fram á að hinar svokölluðu staðarvalsskýrslur, sem eru þrjár, standa ekki undir nafni þó stundum sé vitnað í þær. Ég er til dæmis fullur efasemda um hvort borgarstjórinn og heilbrigðisráðherra hafi nokkurntíman lesið skýrslurnar og kynnt sér þó þeir hafi vitnað í þær. Til þess eru þeir of vandaðir menn. En þeir fara ekki rangt með því skýrslurnar benda á Hringbraut.

+++++

Draga má þá ályktun af því sem að ofan stendur að það virðist ekki nokkur leið að ná upp faglegri og málefnalegri umræðu um þetta mikilvæga mál. Menn ýmist svara ekki eða hlaupa útundan sér.

Manni fallast hendur.

++++++

Myndin efst í færslunni er eftir Leonardo da Vinci en tilvitunin er meira en 2000 ára gömul og er eftir Marcus Vitruvius Pollio (70-80 f.kr – 15 e.kr) sem var fræðimaður sem einbeitti sér að byggingalist.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

 • Hilmar Þór

  Ég átti um klukkutímalangt samtal við borgarstjóra um málið í síðustu viku og varð þess áskynja að hann hefur kynnt sér skýrslurnar þrjár (eða fjórar). Þannig að ég efast ekki lengur um að hann hafi lesið eitthvað af þeim. En hvenær hann las skýrslurnar, fyrir eða eftir pistilinn að ofan, láðist mér að spyrja.

 • Ég hef ekki séð nein haldbær rök fyrir þessari staðsetningu. Menn hafa fleygt fram ýmsum skoðunum eins og „Háskólasjúkrahús“. Það hefur engin útskýrt hvaða þýðingu það hefur fyrir staðarval annað en að það er styttra fyrir nemendur sem nemur kannski 3ja mínútna akstri, 10 mínútna göngu eða 5 mín á reiðhjóli miðað við Fossvoginn. Með fullri virðingu fyrir læknanemum þá eru það ekki haldbær rök.

  Svo hefur heilbrigðisráðherra notað sem rök að hann hafi skipt um skoðun eftir að hafa skoðað málið. Hvergi hafa rökin fyrir því komið fram opinberlega. „Skoðun“ er ekki „rök“. Nýr Landspítali mun standa í a.m.k 100 ár. Ef við spyrjum okkur að því hvernig spítala og hvar við viljum hafa hann eftir 50-100 ár þá kemur Hringbraut einfaldlega ekki til greina.

  Það sem pirrar mann mest er að svona vinnubrögð í lýðræðisríki eru ekki mönnum bjóðandi þegar þriðjungur þjóðarinnar er jafn vel eða betur menntaður og með meiri reynslu en pólítíkusarnir sem fara með málið.

  Takk fyrir að halda umræðunni gangandi.

 • Ég var hluti af hópi háskólanema í MS námi í fjármálum sem skoðaði ákvörðunarferlið við að velja staðsetningu LSH með hliðsjón af kenningum um hagræna ákvarðanatöku. Okkar niðurstaða var sú að ákvörðunin bæri þess öll merki að hafa í raun verið tekin áður en farið var af stað með raunverulegt ákvörðunarferli og allt sem á eftir fór hafi hafi í raun haft það að markmiði að undirbyggja þá ákvörðun.

  Dæmi: Hverjum dettur í hug að staðsetja risa spítala í miðbæ borgar til að „styrkja“ miðbæinn? Hvernig verður það að rökum í ákvörðunarferli um staðsetningu spítalans? Var það hluti af breytunum að staðsetning spítalans ætti að „styrkja“ nánasta umhverfi hans? Voru aðrar staðsetningar metnar með tilliti til þessara breytu? Virðist ekki vera því gögnin bera það ekki með sér. Og er ekki eðlilegra að næsta nágrenni spítalans styrkti starfsemi HANS en ekki öfugt? Lundabúðir gera það ekki…

  Það virðist einhvern veginn liggja í augum uppi að búið hafi verið að taka ákvörðun og á einhverjum fundi hafi hrokkið upp úr einum fundarmanni…“svo mun þetta styrkja miðbæinn“. Og aðrir á fundinum sagt…“Já…frábært…bætum þessu inní skýrsluna“!!

  Svona nemendaleikfimi er auðvitað ekkert síðasta orðið í þessu en það sem ég vil rifja upp er að þetta var árið 2009!!…5 árum áður en umræðurnar sem nú standa sem hæst komu upp og samsökin um Betri spítala tóku til starfa.

  Og nú þegar það er augljóst að staðsetningin styrkir ekki nánasta umhverfi sitt heldur hreinlega veikir það, þá er því haldið fram að það sé of seint að bakka…

  Þeir sem tala um færslu Hringbrautar og Barnaspítalann sem breytu í þessu dæmi ættu að kynna sér eitt hagrænt hugtak sem er „sokkinn kostnaður“…

  Fyrir utan það að þegar nýr spítali verður risinn og tekinn í notkun verður hvorutveggja framkvæmdin orðin ca. 30 ára gömul og menn farnir að huga að endurnýjun Barnaspítalans og þá spyr ég…hvar?

 • Guðni Pálson

  Umferðaleg staðsetning við Hringbraut.
  Þetta er eins og að reyna að troða körfubolta gegnum golfkúlugat.

 • Guðni Pálson

  Í þessari grein sinnni finnst mér Hilmar takast að lýsa hreint ótrúlega vel ferli umræðu sem er komin á algjöra villigötur.
  Villigötur vegna þess að annar aðilin að þessari umræðu telur sig ekki þurfa að svara.

  Ef svar kemur er það frá okkar mjög svo ágætu kollegum sem unnið hafa til skiptis að verkefninu til fleirri ára ásamt tilheyrandi klappikór.

  Þar er okkur, sem erum líka arkitektar, líka kollegar og höfum líka unnið alveg ágætis verk á breiðum grundvelli fagsins kennt um faglega að afvegaleiða umræðuna.
  Þá skín aðeins eitt í gegn. Maður bítur ekki höndina sem fæðir. Enda rökin tilhæfulaus þvæla.

  Það að þessi umræða muni tefja framkvæmdir.

  Í kvöldfréttum var ein aðalfréttin að ekki væri fæðingadeild í fyrsta áfanga.
  Fæðingdeildin er í 60 ára gömlu húsnæði.

  Ef þeir sem virðast ráða ferðinni og þurfa ekki að svara geta ekki klárað innri undirbúning betur en þetta.
  Verður það að teljast verkefninu til bóta að það sé tafið eins og hægt er, þannig að staðsetning og innra skipulag sé eins og það á að vera.
  Rétt.

  • Hilmar Þór

   Þakka þér þetta Guðni.

   Ég hafði ekki tekið eftir þessu sem þú nefnir og varðar fæðingardeildina sem ekki er með í húsrýmisáætlunninni og ekki er fundin staður í hinum svokallaða “Meðfrðarkjarna” sem er uppá tæpa 60 þúsund fermetra.

   Þú vekur þarna athygli á því að enginn svarar lækninum, henni Ebbu Margréti Magnúsdóttur, sem vakti máls á þessu.

   Hún skrifaði grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni “Það sem ekki má segja”.

   Greinin birtist 13. Ágúst síðstliðinn eða fyrir 15 döum þar sem hún vekur athygli á þessu og áréttar þöggunina (samanber fyrirsögnina).

   Enginn er til svara.

   • Ekki höfundur þarfagreiningarinnar.
   • Ekki neinn frá Nýr Landspítali ohf
   • Enginn úr Spítalteyminu.
   • Engnn úr stjórn Landspítalans
   • Enginn úr hónum “Spítalinn okkar”

   Bara enginn.

   Þetta er lýsandi dæmi um ástandið, þöggunina og hrokann.

   Bar þetta gefur tilefni til þess að vera fullur efasemda og tortryggni.

  • Guðni Pálson

   Smá viðbót.
   Ef nýr spítali yrði byggður á öðrum stað gætu Land- og Borgarspítali starfað áfram án truflunar þar til nýr spítali er tilbúin.
   Er það ekki eitthvað til umhugsunar

 • Gunnar Sigurðsson

  Það er rosalegt að heyra þessa reynslusögu af því hvernig arktetar skiptast á skoðunum og tala saman. Skipulaghöfundurinn gleymir sér í sinni einangrun og svarar eins og þetta sé skotgrafarhernaður. Hann hefur greinilega ekert í höndunum og skammar bara fyrirspyrjandann fyrir að spyrja.

  Ég er ekki hissa þó mönnum „fallist hendur“

  Asmundur er klár á að þetta er röð skipulagsmistaka alveg síðan nýja Hringbrautin var lögð. (Gata-gata-bílastæði gata-bílastæð-gata…….. Samanber mynd í fyrri færslu) Henni var kröftuglega mótmlt af samtökunu „Betri Byggð“ (Eða Betri Borg).

 • Ásmundur

  Hilmar, mig minnir að helstu rökin fyrir staðarvalinu á sinum tíma hafi verið að staðsetningin myndi styrkja miðbæinn, sem þá var á fallandi fæti, auk þess sem nálægðin við HÍ var talin mjög mikilvæg.

  Það er nú þegar búið að verja milljörðum í verkefnið. Þar telur mest færsla á Hringbraut og barnaspítalinn. Segja má að barnaspitalinn sé fyrsti áfangi nýs spítala.

  Hringbrautin var færð til suðurs eingöngu vegna fyrirhugaðs spítala. Ef hann verður byggður annars staðar er færsla Hringbrautar ekki bara óþörf heldur til mikillar óþurftar. Þá hefði fyrri lega hennar þjónað borginni betur.

  Ég held að það sé óraunhæft að gera sér vonir um að stjórnvöld ákveði að byggja spítalann annars staðar og viðurkenna þar með að færsla Hringbrautar og bygging barnaspítalans hafi verið mistök.

  • Hilmar Þór

   Akkúrat Ásmundur.

   Spítalinn átti að styrkja miðbæjinn. Þessi rök halda ekki lengur. Miðbærinn er orðinn svo sterkur að fjölskyldur með meðallaun og þar undir hefur ekki efni á að búa þar. Meirihluti starfsfólks spítalans eru með meðallaun eða minna að mér er sagt og hefur ekki efni á að búa í grennd við vinnustað sinn.

   Já að er búið aðað sóa (þú segir verja)miljörðum í verkefnið vegna þess að það var ekki nægjanlega hugsað og rannsakað. Menn hafa borið þetta saman við Vðlaheiðargöng, Landeyjarhöfn og fl.

   Ég held að við ættum að endurskoða þetta og spara á annað hundrað milljarða eins og bent hefur verið á.

   En ég er eins og þú, nokkuð svartsýnn.

 • Baldi kaldi

  Voru þetta svörin við einlægri ósk um faglega umræðu?

  Það er einmitt það.

  Nú kannast ég við mig.

  Nú er ég kominn heim til mín.

 • Sigurður Hr. Sigurðsson

  Er þetta etv. svo stórt og umdeilt mál að það þurfi íbúakosningu til að fá niðurstöðu í það?

 • Ásmundur

  Ég tel að umræðum um staðsetningu spítalans eigi að vera lokið fyrir löngu. Tími framkvæmda er hafinn enda hefur miklu fé verið varið í undirbúning og hönnun.

  Fyrir meira en tíu árum tók ég þátt í umræðum um staðsetninguna og var þá á móti þessari staðsetningu og taldi Fossvoginn betri kost.

  Mótmæli á þeim tíma, meðal annars af hálfu lækna, skiluðu engum árangri. Hver helbrigðisráðherrann á fætur öðrum samþykkti þessa staðsetningu eftir að hafa skoðað málið.

  Það er mjög brýnt að fá nýjan spítala sem fyrst. Að hætta við byggingu hans við Hringbraut mun trúlega fresta því að hann verði tekinn í notkun um mörg ár enda er engin samstaða um hvar hann eigi að rísa.

  Einnig aukast líkur á að spítalinn verði ekki byggður til að þóknast þeim sem vilja einkavæða heilbriðiskerfið þrátt fyrir að reynsla annarra þjóða sýni að slíkt kerfi veitir bæði verri þjónustu og er dýrara í rekstri.

  Hvar voru þeir sem mótmæla mest núna fyrir 10-15 árum? Þá var rétti tíminn til að mótmæla. Ef nógu margir hefðu mótmælt staðsetningunni þá hefði það kannski borið árangur. Nú er það of seint.

  • Hilmar Þór

   Það er rétt hjá þér kollegi að umræðunum um staðsetningu hefði átt að vera lokið fyrir löngu.

   Gallinn er bara sá að þær hafa aldrei farið fram með þáttöku þeirra sem að staðsetningunni standa. Enda má segja að faglegt staðarval liggi ekki fyrir.

   Þú spyrð hvar þeir voru fyrir 10-15 árum sem mótmæla mest núna?

   Ég hef tvennt við þetta að athuga. Það eru ekki margir sem mótmæla staðsetningunni. Að minnsta kosti ekki ég.

   Ég hef bara verið að biðja um faglegt staðarval og rök fyrir Hringbrautarstaðsetningunni. Ég hef fundið úmislegt að henni og spur eins og fjölmargir aðrir. en engin svör fengið.

   Ég hef óskað eftir samtali um þessi mál. Það hefur földi folks gert. Það var haldin stór ráðstefna í ráðstefnusal Íslenskrar Erfðagreiningar fyrir 6 árum. Þar var andrúmið eins og verið það hefur verið síðan; eins og verið væri að tala við “girðingastaur”.

   Þá og í framhaldinu höfðu aðstandeendur mörg tækifæri til þess að sannfæra okkur efasemdarmenn. Þeir hefðu átt að taka þátt í umræðunni. Nú eða miklu frekar að setja ´gang nýtt faglegt staðarval sem byggðist á því umhverfi sem þá var, árið 2009. Eins og þú veist er umhverfið allt annað en var þegar skýrslan fá 2002 var samin.

   Varðandi hvað fólk var að hugsa fyrir 10-15 árum þá er því til að svara á þá var allt umhverfið annað eins og áðr er getið.

   Borgarskipulagið var annað annað og peningarnir fyrir framkvæmdunum stóðu nánast á bankabók.

   Þú veist þú eins vel og ég og aðrir arkitektar og verkfræðingar að það er bæði hagkvæmara og fljótara að byggja á “green field” en að enduhæfa gamlar byggingar og byggja við þær.

   Því er haldið fram að opnun spítalans muni ekki seinka neitt þó hann verði fluttur.

   Og að lokum þetta: Það er aldrei of seint að taka í skipsstýrið og sveigja framhjá ísjakanum.

   Ég ætla ekki að blanda einkarekstri heilbrigðisþjónustunnar í þetta en ég er nokkuð sanfærður um að sameining sjúkrahúsanna um aldamótin voru mistök.

   En það er allt annað mál.

 • Þetta er dæmigerður þöggunar inngangur:

  „auðvelt að strá ryki í augu almennings með einföldum upphrópunum sem er vitað að valda ursla. Ábyrgðarlaus gagnrýni fagmanna getur tafið mál eins og bráðnauðsynlega uppbyggingu Landspítalans“.

  Höfundur þessa hefði getað stytt mál sitt og bara sagt „Þegið þið“!

 • Hilmar Þór

  Ég hef bæði verið spurður hvort ég hafi svarað þessum þrem atriðum sem kollegi minn nefndi á FB síðu Íslenskra arkitekta og ég hef líka verið beðinn um að birta þau hér sem ég að sjálfsögðu geri hér og nú.

  Ég svaraði þessum rökstuðningi eins vel og ég gat á Facebooksíðunni og læt þau fylgja hér með lið fyrir lið:

  +

  “Hafa ber í huga að ekki er um nýja lóð að ræða. Landspítalinn tók til starfa 20. des. 1930. Það er því bráðum komin 85 ára reynsla af staðsetningunni við Hringbraut.”

  Þetta eru auðvitað engin skipulagsleg rök. Reykjavík var allt önnur borg fyrir 85 árum. Með sömu rökum mætti halda því fram að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni vegna þess að hann hafi verið þar í 96 ár, eða frá árinu 1919. Hvorutveggja Landspítalinn og flugvöllurinn voru á þeim tíma utan borgarinnar eða á jaðri hennar.

  +

  “Ekki verður séð að gagnrýnendur núverandi staðsetningar séu sammála um neinn annan ákveðinn kost. “

  Þetta eru heldur engin skipulagsleg rök. Gagnrýnendur benda ekki á neinn annan stað en Hringbraut þó þeir sjái mikla annmarka á honum. Þeir vilja bara að það fari fram faglegt staðarval sem er í samræmi við veruleikann eins og hann er í dag. Þó svo að nokkrir staðir blasi við þegar horft er á borgarlandslagið þá gerum við ráð fyrir að fagleg greining muni benda okkur á einhvern góðan stað, “besta staðinn” sem menn verða svo sammála um.

  Það gæti eins verið Hringbraut.

  +

  “Verði hætt við frekari uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut og hann byggður annarsstaðar mun það óhjákvæmilega seinka opnun á nýjum spítala um að a.m.k. 3 ár.”

  Þarna er heldur ekki um skipulagsleg rök að ræða fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut. Og það er ekki gagnrýnendum að kenna ef einhver töf verður heldur illa rökstuddri staðsetningunni. Ég minni líka á að það var upplýst á fjölmennum fundi um mitt ár 2010 (ef ég man rétt) að framkvæmdir við gatnagerð mundu að líkindum hefjast í nóvember 2011.
  Síðan eru liðin tæp 4 ár.

  Það er líka nokkuð ljóst að opnun spítalans mun ekki seinka þótt menn vandi til verka og fari í faglegt staðarval. Hinsvegar mun upphaf framkvæmda seinka eitthvað.

  Aðstandendur spítalans hafa haft 6 ár til þess að rökstyðja staðsetninguna en í þess stað skellt skollaeyrum við málefnalegri gagnrýninni frá grasrótinni.

  +

  Lengra var svar mitt ekki.

 • Helgi Hallgrímson

  Ég hef ekki blandað mér í umræðuna um staðsetningu spítalans. Ástæðan er einfaldlega sú að mér finnst bæði þeir sem eru með og á móti staðsetningunni við Hringbraut færa ágæt rök fyrir sínu máli. Þar að leiðandi er ég á báðum áttum í málinu.

  • Hilmar Þór

   Það er fullkomlega eðlilegt að vera á báðum áttum og það ætti líka að vera þannig að maður gæti treyst þeim sem er falið verkefni af þessum toga fyrir hönd almennings.

   En þegar þeir svara ekki málefnalegri gagnrýni og hreyta í þá sem spyrja spurninga ónotum. Þá fyllist maður auðvitað tortryggni og verður fullur efasemda.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn