Föstudagur 06.04.2012 - 17:50 - 19 ummæli

Undarleg blokk fyrir 20 þúsund manns.

Á árunum 1936-1939 lét leiðtogi “Kraft durch fruende” Robert Ley byggja íbúðablokk á sex hæðum sem hýsa átti um 20 þúsund manns.  Blokkin sem byggð var í Rugen í Þýskalandi átti að verða 4.5 kílometrar á lengd.

Allar íbúðirnar höfðu útsýn til sjávar.

Þetta var þegar nasistar réðu ríkjum og allt byggðist á áætlunum með stórum patentlausnum og lífið milli húsanna skipti litlu.

Ekki náðist að ljúka framkvæmdinnni áður en stríð braust út.

Þetta er einhver undarlegasta framkvæmd í húsnæðisbyggingum síðustu aldar og dæmi um stórar patentlausnir stórhuga manna.

Húsið var byggt af nasistum í Prora við bæinn Rugen sem er í fyrrum austur Þýskalandi. Rugen er strandbær við Eystrasalt suðvestan við Borgundarhólm.

Upp úr heimstyrjöldinni var húsið notað sem flóttamannabúðir og um 1953 var það notað af rússneska hernum og síðar þeim austurþýska.

Árið 1990 yfirgaf herinn húsið sem nú er meiriháttar aðdráttarafl fyrir túrista.

Neðst er myndband sem sýnir verkið betur. Þar má sjá Adolf Hitler dáðst að áætlununum.

Hluti byggingarinnar hefur verið í mikilli niðurnýðslu

Allar íbúðir höfðu útsýn til sjávar

Arkitektastofan Atelier Kempe Thill vann samkeppni um að gefa húsunum nýtt líf fyrir ungt fólk. Hér er ein af teikningunum sem þau lögðu fram í samkeppninni árið 2004.

Að ofan er myndband sem sýnir verkið betur. Þar má sjá Adolf Hitler dáðst að áætlununum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Ösp Viggósdóttir

    Ef ríkjandi vindátt væri hafgola væri þetta frábær „vindstífla“.

  • Borghildur Sturldóttir

    …hef gist í þessum blokkum og unnið verkefni þeim tengdum þegar ég var á 3ja ári í mínu námi (árið 2001)..og er enn að melta upplifunina á þessum stað.

  • þorgeir jónsson

    Til hamingju Hilmar með afabarnið!

    …hugmyndin um „línustaðinn“ var flottari, en það var blokk sem átti að ná frá Póllandi til Parísar! Alla leið. Gasið það.

  • Pétur Örn Björnsson

    Rétt KSK
    Rugen er nú bara draumur, miðað við hátækni-martröðina
    og þarf ekki einu sinni að beita margumræddri höfðatölu.
    Martöð, þar sem staðarandinn er settur í útrýmingarbúð
    og gasaður!

  • Kæru Reykvíkingar! Horfið í kring um ykkur og þér verðið stödd í Rugen.

    Bráðum koma ferðamenn sem ætluðu til Rugen til Íslands að horfa á Landspítalann, sem er stærsta hryðjuverk mannsandans miðaða við höfðatölu.

  • Guðrún Bryndís

    Fyrirmyndarborgin Schwedt er líka skemmtilegt dæmi um ofurskipulag borga. Það sem gleymist svo oft er fyrir hvern er verið að skipuleggja.
    Og til að halda mínu striki… þá er hugmyndafræðin með fyrirhuguðum ofurspítala við Hringbraut dæmi um það hvernig skipulagið á að stýra ferðahegðun íbúa borgarinnar, gefa val um einn vinnustað fyrir alla framtíðar heilbrigðisstarfsmenn landsins, ofl.

  • Pétur Örn Björnsson

    „Kraft durch Freude var líka með skip í siglingum og á þeim gat alþýðufólk farið í sumarfrí.“ … hvert ertu að fara Egill með þessum orðum … ertu kominn í dreymna og einhverja óræða ferðabæklinga …?

    En að gríninu slepptu, þá vil ég sérstaklega taka undir grafalvarlegar og góðar athugasemdir Sigurðar Guðmundssonar og Guðlaugs Gauta. Það er kominn tími til að ræða málin af alvöru, en ekki léttúð.

    Hvert stefnum við eiginlega? … og það sem verst er að allt of mörgum virðist vera alveg sama, en hugsa bara um eigin stundarhag. Svo mjög getur mönnum verið sama um náungann, að það endi ekki með sumarfríi, heldur beiskum landflótta allt of margra, vþa. að öðrum er sama, alveg sama. Er það þannig sem Nýja Ísland á að verða????

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Við höfum gert ágætar tilraunir í þessa átt og myndum vafalaust hafa verið duglegri ef lárétt og flatt land væri ekki af skornum skammti hjá okkur. Í Bad Prora á Rügen eru 5 blokkir hver um 450 m að lengd og 6 hæðir.

    Í Breiðholti fundum við flatan blett og byggðun 320 m langa fjögurra hæða blokk. Í Kópavogi létu menn sig hafa það og byggðu 280 m langa blokk í hallandi landi og vinningstillagan í samkeppni um íbúðarbyggð í Geldinganesi byggðist á stórum samhangandi blokkum. Í Hraunbænum eigum við hátt í kílómetra af blokkum sem eru samhangandi að mestu. Svo við þurfum ekki að fara í langar skoðunarferðir.

    Ég verð að taka undir með #9 Sigurði að Vatnsmýrarskipulagið er angi af svona hugsunarhætti sem var ríkjandi á 19. öldinni um alla Evrópu við allt aðrar aðstæður en hér eru. Þetta á ekki síður við um td Höfðatorgið nýja og Landspítala verkefnið.

  • Egill Helgason

    Kraft durch Freude var líka með skip í siglingum og á þeim gat alþýðufólk farið í sumarfrí.

  • Jón Ól

    Ég er líka heillaður af arkitektúr alræðisins eins og Egill Helgason. Kíkið bara á Tempelhof í Berlín. Gaman væri ef Hilmar fjallaði um það stórvirki einhverntíma.

  • Sigurður Guðmundsson

    Þetta er talandi dæmi um hvernig „stóru patentlausnirnar“ skila sér. Við hér á landi ætluðum að leysa atvinnumál austfirðinga með einu stóru átaki: Kárahnjúkavirkjun og stóriðju. Svo ætluðum við að gera okkur að bankamiðstöð jarðarinnar eða alheimsins. Svo kom ein lausn á þéttirnarvandamálum höfuðborgarinnar. Þau vandamál átti að leysa með einu pennastriki og einsleytu skipulagi í Vatnsmýri. Og svo á að leysa heilbrygðismálin á einum stað með 290.000 fermetra byggingu við Hringbraut sem er eins og krabbamein í borgarlandslaginu og drepur alla nærþjónustu sjúkragæslunnar í Hafnarfirði, Keflavík, Hvolsvelli, Mosfellsbæ, Akranesi, Borgarnesi, Stykkishólmi , Blönduósi, Ísafirði, Akureyri, Húsavík, Egistöðum ………………………………………………………………………………………………………
    Stóru lausnirnar í þýskalandi nasismans árið 1939… ef menn hafa ekki áttað sig á því eru gagnslausar.

  • Pétur Örn Björnsson

    Já og talandi um orlofsbúðir ríkisins … eins og Marilyn nefnir:-)

  • Pétur Örn Björnsson

    Tek undir með Sæmundi Garðari Halldórssyni
    … Já, eftir hverju bíður eiginlega Nubo? … 🙂

    Og ekkert svo langt fyrir Sollu og Hjölla að fara, til að heimsækja hinn umkomulausa maulandi harðfiskdreng og gauka að honum nýrri lopapeysu, aumingjans vesalings drengnum.

  • Var þetta ekki hugsað sem sumarleyfisstaður ,,hinna vinnandi stétta“ þar sem proletariatið átti að fá sínar þrjár vikur í orlofsbúðum ríkisins?

  • Guðmundur

    Þannig að Langa vitleysa er ekkert sérlega löng eftir allt saman 🙂

  • Sæmundur Garðar Halldórsson

    Mig langar mikið til að skreppa til Rügen í Mecklenburg og gista í þessu húsi. 5 km löng bygging fyrir 20 000 gesti: Þetta er betra en Maspalomas! Annars er eyjan Rügen víst einn fallegasti staðurinn við Eystrasaltið með frábærum ströndum fyrir þá sem kjósa að eyða sumarfríinu í þessu unaðslega umhverfi. Núna er búið að innrétta farfuglaheimili í örlítlu horni af þessum þýska Kínamúr. Eftir hverju bíður Nubo okkar? Er þetta ekki draumstaður fyrir 20 000 Kínverja? Trúlega viðrar betur fyrir golfvelli þarna en á Grímsstöðum.

  • Gravestone

    Soory, there was something killed when posting. Should be: ………>power of enjoyment< was the organisation to structure the leisure time, always for the society and not for the individual person. In this sense and it's consequence it is one of the most modern buildings of the 20th century …….

  • Gravestone

    „Kraft durch Freude“, something like >power through enjoymentmodern< buildings of the 20th century. Amazing, scary, but the same time breathtaking and: inspiring, because out of our horizon and solutions. And: it is at a very beautiful spot.

    Reminds (a little bit…) on the fascist buildings in Italy (Giuseppe Terragni…..) with one difference: they have been really modern, in form, function and consciousness.

  • Egill Helgason

    Mig hefur alltaf langað til Rügen til að sjá þessi ósköp. Ég hef reyndar laumu áhuga á arkítektúr alræðisins, bæði nasista og kommúnista.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn