Miðvikudagur 15.03.2017 - 11:55 - 15 ummæli

Uppselt á Gullfoss!

Þegar ég kom að Gullfossi í fyrrasumar var svo þröngt um vegna fólksmergðarinnar að ánægjan við að heimsækja staðinn var ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var þegar hægt var að ganga þarna um aleinn eða með sínu fólki.

Ég sá strax að timburstiginn sem gengur niður frá þjónustumiðstöðinni og bílastæðaframboðið þar fyrir neðan mundi stýra aðgenginu. Það mundu myndast biðraðir vegna þess að stiginn og stæðin tækju ekki meira. Þannig yrði aðgenginu stýrt og takmarkað vegna biðraðanna og það yrði stundum „uppselt“.

Nú les maður í Morgunblaðinu um heljarmikla framkvæmd þar sem er verið að margfalda stærð stigans svo að hann nánast ber djásninu Gullfossi ofurliði! Þetta er trappa sem minnur á eitthvað allt annað en aðgang að einhverri náttúruperlu.

Í fréttinni segir reyndar að það „verði gengið í“ að laga umhverfið og græða upp sárin vegna þessarar framkvæmdar (þó það nú væri).  Svo á að rífa gamla stigann og væntanlega græða upp sárin eftir hann.

Sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun „vonast“ að mannvirkið verði minna áberandi eftir að búið er að ganga frá umhverfinu.

Þetta er allt mjög athyglisvert, umhugsunarvert og jafnvel áhyggjuvert.

Þetta er einn af 3-4 mikilvægustu ferðamannastöðum landsins og þetta er vinnulagið. Það er bara „gengið í“ málið að því er virðist nánast umhugsunarlaust og fyrirhyggjulaust.

+++++++

Ég kannast við frönsk hjón, frá Provence, sem búa hér á landi á sumrin í svona 4 mánuði ár hvert. Þau sögðust heimsækja Gullfoss margsinnis á ári hverju með vinum sínum. Þau sögðust alltaf fara þangað um kl 8:00 á morgnanna vegna þess að eftir kl 9:00 væri ekkert varið í þetta vegna fólksfjöldans og töldu nánast uppselt á miðjum degi. Nú á heldur betur að bæta í!

+++++++

Á litum áningarstað austur á landi sem nánast enginn veit um við Hengifoss  ber maður sig öðruvísi að.  Maður er metnaðarfullur gagvart umhverfinu, náttúrunnu, menningararfinum og þeim gestunum sem þangað koma.  Maður skoðar og skilgreinir, þróar hugmyndafræði og auglýsir svo opna samkeppni um aðstöðu fyrir ferðamennina. Í keppnislýsingu er beðið um snyrtingar, aðstöðu fyrir landvörð og borð og bekki þar sem gestir geta borðað nesti sitt og hent rusli. Þessu átti að fylgja nokkuð stórt bifreiðastæði. Dómnefnarstörfum lauk í febrúar s.l. og var niðurstaðan mjög góð. Samkeppnin var á vegum Arkitektafélags íslands og Fljótsdalshrepps

+++++

Sigurvergarar voru arkitektarnir Eirik Rønning Andersen og Sigríður Anna Eggertsdóttir Zis as arkitektum.

Tillagan er frumleg og með fágað yfirbragð sem fellur vel að umhverfinu og er í góðum takti við það besta sem gerist á þessu sviði t.a.m. í Noregi þar sem menn hafa staðið sig hvað best. Höfundarnir hafa fangað anda staðarins og myndað áhugavert aðstöðurými utandyra sem er aðgreint frá bílastæðum. Aðstaðan ein er í sjálfu sér eftirsóknarverður staður þó fossinn væri ekki til staðar. Þannig þarf þetta að vera.

Hér að neðan komna nokkrar myndir af tillögunni. Myndin af galvaniseraða járnverkinu við Gullfoss er fengin af mbl.is. í dag.

+++++

Viðbót. Kl 16:40 15.03.2017

Lesandi síðunnar hafði samband og upplýsti að haldin var samkeppni um Gullfosssvæðið árið 2012. Það er því oftúlkun að segja að menn hafi  „bara „gengið í“ málið að því er virðist nánast umhugsunarlaust og fyrirhyggjulaust“ En það breytir ekki meginefni textans sem fjallar um að vanda sig í umgengni við náttúruna og takmarka álagið á liðlegan hátt þar sem þess er kostur.

http://www.honnunarmidstod.is/Frettir/Samkeppnir/skodasamkeppnir/2924

 

.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Hér er tengill á greinargerð gildandi deiliskipulag Gullfoss sem samþykkt var í júní 2014. http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/DisplayDoc.aspx?itemid=29635449173179879597
    Fjallað er um stigann í kafla 3.2.3 greinargerðar og 4.2.3 sem er umhverfisskýrsla.deiliskipulagsins.
    Í deiliskipulaginu segir m.a. eftirfarandi um stigann: „Efnisval skal falla vel að ásýnd umhverfisins og í anda vistvænnar þróunar.“
    Og í umhverfisskýrslu segir ennfremur: „Sameiginlegt mat þeirra sem að skipulaginu koma er að heppileg breidd hans sé um 3 m. Stiginn mun liggja með landslaginu eins og kostur er og verður aðgengilegri en sá sem fyrir er. Ekki verður hjá því komist að nýr stigi mun hafa sjónræn áhrif, en leitast er við að takmarka þau með vali á legu og efni.“

    Að mörgu leyti er deiliskipulagið nokkuð greinargott varðandi efnisval og útfærslur stígakerfisins – þar eru skilmálar um viðartegundir í handrið og palla, sniðmyndir af svífandi stígum, kveðið á um samræmi í hönnun o.fl. Margar deiliskipulagsáætlanir eru mun óljósari þegar kemur að skilmálum um efni og útlit….enda virðist því oft illa tekið af framkvæmdaraðilum að hafa of ítarlega og bindandi skipulagsskilmála um slík útfærsluatriði.

    Maður spyr sig hvort hér hafi verið nægilega vel fylgt eftir markmiðum og skilmálum deiliskipulagsins á framkvædmastiginu.

  • Stefán örn Stefánsson

    Það má kannski geta þess hér, áður en kemur að nýrri færslu að við Grétar Markússon teiknuðum gömlu timburtröppurnar sem eru þarna við hliðina á hinum nýju um 1990, þær eru sem sé komnar hátt á þrítugsaldurinn. Þær voru og eru þægilegar til gangs, 140 cm milli kjálka með tilheyrandi pöllum, þrepin voru úr 2″x4″, þær löguðu sig að landinu, voru í upphafi málaðar í umhverfislitnum, dökkgrænum,viðhaldið var lítið sem ekkert, held að varla hafi verið borinn pensill að þeim síðan.

  • Sigríður A Eggertsdóttir

    Það væri áhugavert að skoða dómnefndarálitið, ef þessi lausn sem er framkvæmd núna var sú besta sem kom fram í samkeppninni þá hefði átt að lýsa út samkeppni á nýtt og skerpa kröfur til hönnunar og aðlögunar að staðháttum. En dómnefndarálitið virðist ekki vera að finna á netinu…

  • Finnur Birgisson

    Ég sakna þess að arkitektarnir sem unnu samkeppnina skuli ekki hafa blandað sér í þessa umræðu. Getur ekki verið að þessi blessaða trappa hafi bara alls ekki verið viðfangsefni í samkeppninni? Allavega gat ég hvergi komið auga á hana þegar ég reyndi að rýna í verðlaunatillöguna á vef Umhverfisstofnunar. En það væri æskilegt að einhver af aðstandendum framkvæmdarinnar stigi nú fram og gerði grein fyrir þessu.

    • Hilmar Þór

      Reynsla mín er almennt sú að menn verja ekki verk sín. Ég veit akki af hverju það er en oftast sennilega af því þeir eiga ekki gott með að tjá sig. Ég er þess fullviss að þeir sem hönnuðu þessar tröppur hafa mikið vopnabúr sér til varnar en kunna ekki eða vilja ekki að nota það. Hugsanlegt er að hönnuðirnir hafi orðið undir í baráttu við verkkaupa vegna útfærslunnar en vilja ekki styggja hann með því að segja söguna eins og hún er. Þetta er alger tilgáta hjá mér.

  • Hilmar Þór

    Það sem einkum vakti athygli mína þegar ég sá myndina efst í færslunni í Mogganum var ekki sérstaklega hvað ósmekkleg trappan var.
    Heldur fremur, eins og fram kemur í pistlinum aukið aðgengi. Ég set spurningu við það og kalla pistilinn „Uppselt á Gullfoss“ samkvænt frönskum kunningjum mínum.
    Ég þekki vel til í Frakklandi og í París. Þar í borg er mikið af listasöfnum sem mikil aðsókn er að. Ég nefni Louvre og Gare d´Orsey. Það síðarnefnda er í gamalli járnbreutarstöð. Iðulega um miðjan dag er biðröðin inn á safnið milli 4 og 5 hundruð metra löng. Þarna kom upp vandamál með stjórn á gestafjölda, aðgangsstýringu. Rætt var um að hækka inngangseyrinn um einjhverja upphæð til þess að minnka aðsóknina. Sú hugmynd féll ekki í góðan jarveg vegna þess að stjórnendurnir vildu að sem flestir hefðu aðgang að listaverkunum áháð efnahag. Þá komu upp hugmyndir um að opna fleiri dyr inná fyrrum járnbrautarstöðina og hleypa bara eins mörgum inn og kæmust fyrir. Þetta var afareinfalt enda nánast öll vesturhlið hússind einar stórar breiðar dyr. Þetta töldu menn ekki ráðlegt vegna þess að það mundi draga úr upplifuninni. Það mundi halla á listaverkin ef fjöldinn yrði of mikill. Þá varð niðurstaðan sú að gera ekkert og láta fólk bara bíða. Þá yrði lendingin sú að þeir sem mestan áhuga gefðu og best kunni að njóta listaverkanna legðu á sig klukkutíma bið eftir að berja djásnin augum.
    Ein leið til þess að minnka og dreifa ásókninniað Gullfossi gæti verið að hafa svona 500 merta langa flotta gönguleið frá bifreiðastæðum og þjónustumiðstöð að fossinum. Það eru mörg ráð til í handraðanum. Ef maður nennir að velta þessu fyrir sér.
    Þetta er megin inntakið í pistlinum. Ég tel að trappan sé of breið og afkasti of miklu þannig að fjöldin mun gera Gullfoss óaðlaðandi sem náttúruupplifun fyrir utan að ég segi það kinnroðalaust að ég geri meiri kröfur til fegurðarinnar á hinu manngerða en meta má af þessari einu mynd í Morgunblaðinu.

  • Ekki óháður

    þettar er algerlega metnaðarlaust og til skammar. Niðurlæging Gullfoss par exellance.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Gott innlegg hjá Steinari. Ég vil bara segja að setningin „Við Hengifoss eru menn heppnir að hafa tíma“. er ekki sanngjörn vegna þess að um leið er verið að segja að aðrir hafi ekki haft tíma. Það er ekki rétt. Tíminn var nægur. Málið er að Hengifossmenn voru fyrirhyggjusamir og tóku sér tíma. Fólksfjöldinn við Gullfoss og víðar virðist hafa komið aftan að fólki. Eins undarlegt og það nú er. Það skortir þá fyrirhyjjgu á flestum stöðum, fyrirhyggju sem Hengifossmenn höfðu.

  • Steinar Frímannsson

    Það er ef til vill ekki sanngjarnt að bera saman tölvugerða teikningu úr samkeppni og síðan raunverulegt útlit annars staðar á framkvæmdatíma. Hinu er ekki að neita að öll þessi framvkæmd við Gullfoss hefur verið hörmungarsaga. Fyrir um það bil tveimur árum var sett heimsmet að sögn þáverandi forsætisráðherra og veitt fé í að endurnýja stiga við Gullfoss. Síðan var ekkert gert meira það árið. Síðast liðið sumar kom grafa sem færði gamla stigann og gróf rás niður í brekkuna þar sem stiginn hafði verið. Leið svo og beið. En, viti menn, það leið ekki ár frá þessum viðburði þangað til menn héldu áfram. Og nú blasir báknið við. Reyndar ekki fullbúið, og verður vonandi ekki svona þegar því er lokið. Hér hefur sennilega verið reynt að byggja nógu stórt fyrir þá umferð sem fer um svæðið. Og önnur sjónarmið hafa vafalaust ráðið líka. Margir arkitektar þekkja það að það þarf stundum að gera málamiðlanir milli margs konar sjónarmiða. Og þá verða auðvitað ekki allir sammála.
    En það ber að fagna því að þessari framkvæmd við stigann kemur til með að ljúka innan fárra ára.
    Hitt er svo verra, að ofuráherslan á að undirbúa vel og vanda sig í öllu ferlinu er víða að eyðileggja náttúruperlur. Það virðist mega eyðileggja landið með ágangi, en til þess að koma í veg fyrir það þarf að fá alls konar leyfi og standa í alla vega samkeppnum til þess að allt sé nú verðlaunabært. Svo þegar kemur að framkvæmdinni er náttúruperlan ekki til staðar heldur eitthvert drullusvað í besta falli, oft er jarðvegurinn einfaldlega runninn til sjávar. Við Hengifoss eru menn heppnir að hafa tíma. Það er ekki eins mikill ágagngur þar, ennþá. En ýmsum öðrum stöðum er enginn tími til að halda samkeppni. Það þarf að gera eitthvað strax. Og sleifarlag Umhverfisstofnunar dugir engan veginn varðandi framkvæmdahraða.

  • Torfi Stefán

    Ein vangavelta með annars prýðisgóða teikningu fyrir austan en hver er aðstaða landvarðar í þessu húsi fyrir utan salerni? Er gert ráð fyrir mataraðstöðu eða vinnuaðstöðu þarna á teikningunni sem ég sé ekki? og svo ég haldi áfram í leiðinlegri praktík þá væri áhaldaskúr oft vel þeginn við svona störf.

    • Hilmar Þór

      Jú Torfi þetta er sennilega rétt hjá þér. Kannski les ég teikningumna alver rétt. Það er þarna aðstaða fyrir starfsmann, snyrting og þ.h.
      Á grunnmyndinni er þetta rými nr 1 og kallað Afgreiðsla/Sýning 28m2.
      Það er gert ráð fyrir að fólk matist utandyra sýnist mér. Annars veit ég það ekki.
      Þakka þér samt ábendinguna.

  • Sumar samkeppnir heppnast og aðrar ekki. Menn þurfa að vanda sig margfalt meira við Gullfoss en Hengifoss bara vegna þess að þangað koma margfalt fleiri. En því er bersýnilega öfugt farið. Það er sjàlfsagt að þurfa að bíða í biðröð við Gullfoss og ástæðulaust að stækka tröppurnar svona rosalega.

  • Gunnar Gunnarsson

    Það er auðséð á þessum sananburði að það er til þekking í landinu til þess að gera þetta vel og peningarnir rúlla í tonnatali inn í landið vegna ferðamennskunnar. Af hverju eru menn að vaða svona áfram eins og við Gullfoss eins og hér kemur fram? Ekki vantar peningana.

  • stefán benediktsson

    Þetta er harmleikur. Harmleikur um hugmyndafræðilegt stefnuleysi stjórnvalda gæti ekki gerst víða. Sjáið þið í huganum gesti taka, teikna eða mála mynd af þessu mannvirki vegna annars en burðargæða?
    Fyrir tæpum 20 árum samþykktu Finnsk stjórnvöld stefnu í Arkitektúr. Að henni stóðu Listráð Finna og menntamálaráðuneytið því þetta var jú menntastefna.
    Stjórnvöld allra Norðurlanda styrkja samkeppnishald m.a. í Arkitektúr. Samkeppni á forsendum opinbers stuðnings styrkir kröfu um opna samkeppni og siðferðilega og kostaðarlega vitund, keppenda og keppnishaldara. Lýðræði og gagnsæi en ekki það reddast.

  • Einar Erlendsson

    Ég sá þetta í Morgunblaðinu í morgun og hugsaði það sama. Hvað er í gangi þarna, er ekki komið nóg af vitleysunni?

    Það styrkir málstað pistilsins að bera þetta saman við það sem vel er gert eins og austur á Héraði.

    Takk fyrir að vekja á þessu athygli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn