Fimmtudagur 16.08.2012 - 10:06 - 24 ummæli

“Vansagt um Vatnsmýrarskipulag”

 

“Í starfi borgarfulltrúa felast eflaust margar ánægjustundir. Sagt er að þar ofarlega á blaði sé úthlutun nýrra byggingalóða. Kunnugt er,  að Reykjavík telur sig þar vera í harðri samkeppni við nágrannasveitarfélögin um búsetu nýrra íbúa,  þ.e. nýrra skattgreiðenda. Þótt enginn skortur sé á lóðum af ýmsu tagi þegar litið er á höfuðborgarvæðið sem eina heild, telja sumir borgarfulltrúar Reykjavíkur að megintromp þeirra hljóti að vera að geta boðið upp á nýja íbúðabyggð á flugvallarsvæðinu.

Af hverju stoppa þar?

Væri ekki tilvalið að fylla upp í Reykjavíkurhöfn og bjóða einnig þar upp á nokkrar nýjar íbúðablokkir, – fyrst greiðar, hagkvæmar og nútímalegar samgöngur við höfuðborgina skipta engu máli?”

Þetta er hluti lokaorða í athyglisverðri grein sem Leifur Magnússon verkfræðingur skrifaði í Morgunblaðið í gær.

Leifur er vel kunnugur öllu sem varðar flugmál og hefur starfað að flugmálum fyrir einkaaðila og hið opinbera í áratugi.   Þetta er rökföst grein sem allir þeir sem láta sig skipulagsmál varða ættu að lesa.

 Að ofan er mynd sem sýnir hvernig tengja má miðborg Reykjavíkur um Skerjafjörð þar sem er að finna milli 700 og 800 hektara byggingalands sem er landfræðilega miðsvæðis þegar á höfuðborgarsvæðið allt er litið. Þetta er kjörland til bygginga á láglendi við sjóinn og  með tiltölulega litlum tilkostnaði er hægt að tengja það náið miðbæjarkjarna Reykjavíkur og sveitarfélaganna í nágrenninu.

Er ekki kominn tími til að sameina þessi sveitarfélög að einhverju marki?

Hér eru slóðar að fyrri færslum um Vatnsmýrina:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/07/26/tharf-flugvoll-a-reykjavikursvaedid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/12/08/reykjavikurflugvollur-flokkusaga/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%e2%80%9cnull-lausn%e2%80%9d/

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/11/02/framtid-reykjavikurflugvallar/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

 • Magnus Geir Gudmundsson

  @Sigurður Ingi Jónsson, Jafn mikið og einstaklingar fá þegar leigusamningar þeirra eru útrunnir og þeir þurfa að leita sér að nýjum hýbýlum, semsagt ekkert.

  Þetta svæði er eign borgarinnar og fá fyrirtækin sem þar starfa leyfi til þess að byggja og ákveðin leigusaming sem er framlengjanlegur af borginni.

  Þú talar um upplýsingar um farþegaflóru og bendir á að þær upplýsingar séu einhverstaðar á netinu?
  Væri fínt ef þú værir svo vænn að vitna í heimildir, væri til í að lesa þetta.

 • Sigurður Ingi Jónsson

  Það er lenska þegar rætt er um flugvöllinn í Vatnsmýrinni að fram þeysa menn sem ekkert hafa lagt á sig til að kynna sér málefnið. Meira að segja formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar hefur haldið því fram að fargjöld í innanlandsflugi séu niðurgreidd um 80% af almannafé. Þá dúkkar ævinlega einhver upp sem heldur því fram að farþegar í innanlandsflugi séu flestir að ferðast sjálfum sér að kostnaðarlausu, nema þegar viðkomandi er að fara beint til Benidorm.

  Það er hreinasta móðgun við upplýst fólk sem tekur þátt í umræðum af þessu tagi að bjóða upp á annan eins þvætting. Gögn um farþegaflóruna liggja fyrir á netinu fyrir þá sem vilja vita hvað þeir eru að tala um.

  Nóg um það. Mig langar að beina orðum mínum að Gísla Marteini þar sem ég tel hann geta upplýst mig um eitt atriði sem ég hef ekki fundið enn.

  Mikið hefur verið rætt um verðmæti lands í Vatnsmýri. Nefndar voru 600 milljónir á hektara fyrir allnokkru síðan, framreiknað er það mun hærra. Á því verði lætur nærri að jarðnæði ríkisins í Vatnsmýrinni sé 100 milljarða króna virði.

  Borgin er að vísu búin að úthluta tugum af þessum verðmætu hektörum úr sínum hluta á undanförnum árum, endurgjaldslaust, til HR, HÍ og deCODE. Þar af er stór hluti notaður undir gjaldfrjáls bílastæði.

  Nú vill svo til að ríkið á stóran hluta Vatnsmýrarsvæðisins. Þá eru þar fyrirtæki með alls kyns rekstur og hundruðir starfsmanna, einnig eiga einstaklingar og lögaðilar eignir á svæðinu. Kemur þá að spurningu minni:

  Hvað gerir Reykjavíkurborg ráð fyrir að veita miklum fjármunum til að kaupa upp jarðnæði, eignir og greiða í skaðabætur til þeirra sem sviptir verða rekstrarforsendum og framfærslu svo byggja megi þéttbýlasta hverfi borgarinnar?

 • Guðmundur Guðmundsson

  Sleppum nú af okkur 101 beislinu um stundarsakir og kíkjum eins og 12 kjörtímabil, (ca 50 ár) fram í tímann :

  Er þá ekki lestarkerfi svarið við mörgum af ofangreindum spurningum ? Það gæti gert SV hornið að einu Atvinnu /Búsetu og skipulagsvæði.

  Hugsum okkur td. tvær járnbrautir.

  Önnur liggur frá Keflavík og þjónar Suðurnesjum, Leifstöð og Gamla varnarliðssvæðinu sem þar með fær nýtt gildi. Lestin þræðir síðan Reykjanesbrautina og er einnig burðarásinn í almenningssamgöngum í þéttbýlinu frá Kringlumýri að Straumsvík. Lestin þjónar ennfremur framtíðar Iðnararsvæðum útmeð Reykjanesbrautinni.

  Hin brautin liggur frá enda Hringbrautar upp í Mosfellssveit og er einnig meginstoðin í Almenningssamgöngum á þessari leið. Að sjálfsögðu er stoppistöð í göngufæri við stóra vinnustaði eins og Landspítalann, háskólann, etc. Þessar brautir mætast síðan á heppilegum stað sem yrði samgöngumiðstöð höfuðborgarinnar.
  Hluti brautarinnar lægi í stokk neðanjarðar(td. hluti hringbrautar) ásamt annari umferð. Land sem losnar tengir hverfi saman og þéttir byggð.

  Kerfi þetta skilar margs konar samfélagslegum ávinningi : Svæðið breytist í eitt atvinnu og búsetusvæði.

  Aukið jafnvægi í notagildi og verðmæti byggingarlands á SV svæðinu. Raunhæfur valkostur skapast fyrir þá sem vilja lifa bíllausu lífi.

  Rvk.Flugvallarmálið leysist af sjálfu sér ef flutningur verður ofan á. Landsbyggðin millilendir í Kef og fer beint í flug til útlanda, eða tekur lestina í bæinn .

  Kerfið myndi flýta fyrir sameiningu Sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

  Á tímum R listans var gerð hagkvæmnikönnun á „Fluglest“ frá Leifstöð til Rvk. Útkoman var neikvæð, (flug)farþegafjöldi stóð ekki undir stofnkostnaði og Rekstri.

  Nokkrum árum síðar kom fram þverpólitísk tillaga um nýja hagkvæmnikönnun á Lestarkerfi fyrir allt SV svæðið .Þar var horft á málið í stærra samhengi og tínd til ofangreind sjónarmið. Þessi umræða lagðist í dvala eftir Íslenska efnahagshrunið.

  Lestarkerfi Fyrir SV hornið væri Andhverfan við Kárahnjúka, og hugsanaganginn sem setti þær framkvæmdir í gang.

  Kárahnjúkar „Borguðu“ sig, bókhaldslega í Krónum og aurum. Enn sést þó ekki fyrir afleiðingarnar af Kárahnjúkum í formi Efnahagsbólu og Jöklapeningum sem fylgdu í kjölfarið.

  Lestarkerf i“ borgar“ sig ekki frekar en aðrar almenningssamgöngur sem eru að öllu jöfnu reknar með tapi.

  Kerfið gæti hinsvegar skilað næstu kynslóðum samfélagslegum ávinningi á við margar virkjanir og Álver.

 • Stefán Benediktsson

  BVP bendir á hlutverk flugvallarins sem umferðamiðstöðvar. Sú umferðarmiðstöð er kostuð af öllum landsmönnum en ekki notuð af þeim sem búa vestan linu sem draga má úr botni Dýrafjarðar í Skálafellsjökul. Íbúar á þessu svæði um 3/4 landsmanna verða að treysta á bílinn til allra flutninga og svo kannski þ
  yrlu þegar lífið liggur við. Ef síðan er dreginn klukkutímahringur kringum Ísafjarðar-, Akureyrar- og Egilstaðaflugvöll fækkar þeim sem notað geta flugvöllinn í Vatnsmýri sér til eiginlegs gagns.

 • afhverju ekki að leysa húsnæðisvandan í Reykjavík með því að ryðja burt öllum húsum í miðborginni og Vesturbænum sem eru lægri en 3 hæðir og byggja síðan nýjar blokkir í þeirra stað og í öllum þeim ótal görðum sem eru að finna fyrir framan og aftan hús?

  Í öllum þessum „alvöru“ borgum útí heimi eru íbúðir venjulega +5 hæðir og kannski garður í miðjunni á milli nokkura blokka. Hver sá sem keyrir í gegnum miðbæin í dag sér það sama og hann sér þegar hann keyrir um úthverfin. þarna er sama hönnun. smábær sem stækkaði og byggði fleiri smábæi í kringum sig.

  á meðan borgarfulltrúar geta rifist um flugvöllinn, þá þurfa þeir ekki að facea alvöru vandamál varðandi pláss undir húsnæði framtíðar borgarbúa.

 • Hvaða helvítis rugl er þetta að bera saman höfnin við flugvöllinn? Tvö mjög ólík svæði.

  Það er hins vegar athyglisvert að Hilmar og Verkfræðingurinn vilja taka höfnina undir íbúðabyggð. Gaman væri að sjá þá hugmynd útfærða frekar.

  P.s. Íbúðabyggð í Vatnsmýrinni er einmitt fyrirhuguð þar sem greiðar, hagkvæmar og nútímalegar samgöngur við höfuðborgina skipta öllu máli.

 • Björn Vignir Sigurpálsson

  Þörf umræða eins og alltaf en umræða sem hlýtur að vera stöðugt til endurmats. Sjálfur var ég eindreginn stuðningsmaður þess að flugvöllurinn færi þegar um hann var kosið á sínum tíma. Með tímanum hef ég hins vegar fengið bakþanka – meðal annars eftir rökræður við marga glögga landsbyggðarmenn sem segja eðlilega að ekki megi horfa til þröngra hagsmuna Reykjavíkur vegna þess einmitt að hún sé höfðborg landsins alls og þar með samgöngumiðstöð allra byggðarlaga þess.

  Einhvert athyglisverðasta sjónarmiðið i þessari umræðu allri er að vegna þess að Íslendingar hafi aldrei tekið upp lestarsamgöngur þá þjóni flugvöllurinn í Vatnsmýrinni hlutverki aðalbrautarstöðvarinnar sem er að finna í hverri þeirri höfuðborg sem eitthvað má sín – og tekur þar umtalsvert rými miðsvæðis í hverri slíkri borg. Þess vegna sé þetta verðmæta svæði sem er lagt undir flugvöllinn réttlætanlegt. Ég er eiginlega kominn á þá skoðun líka.

 • Stefán Benediktsson

  GMB hefur skýrt stöðu Vatnsmýrarmálsins vel og svarað vangaveltum manna um breytt skipulag málefnalega og engu þar við að bæta. Tveim mikilvægum atriðum í málflutningi Leifs verð ég þó að bregðast við. Uppfylling í höfnina er ekki sambærileg við nýtingu flugvalllarlandsins, því höfnin stendur vel undir sér en flugvöllurinn ekki. Stór hluti flugvallarlandsins skilar engum leigutekjum og stór hluti innanlandsflugs er niðurgreiddur í ofanálag, við bestu aðstæður. Það er ennfremur alröng forsenda sem Leifur gefur sér að Reykjavík sé í samkepni við önnur sveitarfélög um fólk. Reykjavík hefur haldið fast við niðurstöður svæðisskipulagsins um skiptingu íbúafjölgunar milli sveitarfélaga. Bætt nýting á stoðkerfi Reykjavíkur með uppbyggingu á illa nýttum svæðum skilar af augljósum ástæðum meiru fyrir minna.

 • Sverrir Bollason

  Uppbygginga borgarhluta getur ekki farið fram í einangrun frá stöðu og fyrirsjáanlegri þróun á öllu byggðarsvæðinu. Vegna þess að atvinna borgarbúa er að mestu leyti vestarlega á nesinu, í og við miðborgina er eðlilegt að fólk leitist við að búa þar. Það má heldur ekki líta framhjá því að eiginlegt borgarumhverfi með þeim gæðum sem það hefur er fjarverandi á öllum stöðum nema í miðborginni.
  Uppbygging á stórum vinnustað, Landspítalanum er í farvegi. Þá er fyrirsjáanlegur vöxtur á þekkingariðnaði hvers kyns í Vísindagörðum HÍ.
  Það að fólk sæki í auknum mæli í gæði borgarumhverfisins og að vöxturinn í íslensku atvinnulífi fari fram í þekkingarfyrirtækjum bendir sterklega til þess að uppbygging íbúðar húsnæðis sé mjög aðkallandi á þessu svæði.
  Með því skapast ekki bara áhugavert borgarumhverfi sem nærist á gömlum merg heldur næst fram aukið jafnvægi í dreifingu atvinnu og búsetu.
  Ein gildra sem nokkrir í þessari umræðu falla í er að athuga kostnað og ávinning af einstökum lausnum, sbr athugasemd Þorgeirs hér að ofan. En það er röng aðferðarfræði þegar umræðan snýst um valkosti, þá verður að bera saman mismuninn á tveimur eða fleir valkostum. Ég get fullyrt að heildarsparnaður samfélagsins og ávinningur af því að byggja upp í Vatnsmýri er á við stofnkostnað margra flugvalla.

 • Þetta Vatnsmýrar – mál vekur spurningar um lýðræðið okkar. Mig minnir að þátttakan í atkvæðagreiðslunni um flugvöllinn á sínum tíma, hafi aðeins verið um og yfir 30%, þar af var rúmlega helmingur fylgjandi því að leggja niður flugvöllinn. Það voru því u.þ.b. 20% Reykvíkinga sem voru fylgjandi því að leggja niður flugvöllinn. Reykvíkingar eru helmingur þjóðarinnar.

  Með réttu má segja, að baki ákvörðun um framtíð Vatnsmýrarinnar var 10% þjóðarinnar. Helmingur þjóðarinnar hafði ekki lýðræðislegan rétt að kjósa þá.

  Leiðréttið mig ef þetta er ekki rétt.

  Sem innlegg í umræðuna um fyrirhugaða byggð þarna:

  Þetta er botnlaus mýri, (nema þar sem flugbrautirnar eru) Veit einhver hvað kostar að gera þetta svæði byggingarhæft?

  Ríkið hefur ráðist í miklar framkvæmdir á flugbrautum, m.a. framkvæmt þar umfangsmikil jarðvegsskipti. Væntanlega þarf að reikna það dæmi inn í greiðslurnar fyrir landið sem ríkið á. Eftir stendur verulegur kostnaður við jarðvegskipti annars staðar.

  Miðað við stærðina reiknast mér til að um 50 milljarðar fari í að gera þetta svæði byggingarhæft fyrir lagnir í jörð, ef allt er reiknað með.

  Er ekki viturlegra að fjárfesta í neðanjarðar gatna- og lestarkerfi í Reykjavík og fá í kaupbæti byggingarland sem er stærra enn Vatnsmýrin. Jarðgöng frá Fossvogi í Laugardal og frá Umferðarmiðstöðinni að Grensás skapa miklu stærra byggingarsvæði. Ég er hræddur um að nýtnigarhlutfallið fari yfir ásættanleg mörk í Vatnsmýrinni ef fyrirhuguð byggð á að standa undir stofnkostnaðinum.

 • Þorbergur

  Er hægt að ræða uppbyggingu í Vatnsmýri af einhverri alvöru fyrr en búið er að leysa samgöngur höfuðborgarinnar í lofti?

 • Frábær hugmynd Ólafs að byggja á báðum stöðunum. Mælt í tíma er maður kominn hálfa leið til Keflavíkur þegar komið er suðurfyrir Hafnarfjõrð!

 • Hvernig stendur á því að það er aldrei talað um það í opinberri umræðu að hækka hámarkshraða á Keflavíkurbrautinni. T.d. í 130 km eins og er í Danmörku á sambærilegum vegum, já eða bara 120 km. Litlar breytingar þyrfti að gera aðrar en að taka niður þessa misráðnu ljósastaura.

  í þessum umræðum er byggð í Vatnsmýri og á Álftanesi sett upp sem andstæður en ég tel að best væri að byggja upp bæði svæðin. Ef brúin er komin yfir á Álftanes væri hægt að gera áfram stutt göng undir Hafnarfjarðarhöfn, ca. 1,5 km. Þannig gætu alþingismenn og háskólakennarar, keyrt þessa 40 km að Suðurgötu á 20 mínútum. Þetta er ekki jafn óraunhæft og lestin til Keflavíkur sem þyrfti miklu fleiri farþega til að hægt væri að réttlæta þá framkvæmd.

  Gísli þú virðist vera eini maðurinn í þínum flokki sem þorir að tala máli Reykvíkinga, kærar þakkir.

 • Til að svara Flygli, sem ekki vill koma fram undir nafni:

  1. Um fyrirvarana sem settir voru við undirskrift umhverfisráðherra við aðalskipulagið á sínum tíma er þetta að segja: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þá borgarstjóri sagði í fréttum þegar Aðalskipulagið var samþykkt árið 2002:„Vatnsmýrin er inni í skipulaginu sem byggt svæði […] Nefndin á að fjalla um það hvort það sé hægt að ná einhverri málamiðlun milli borgarinnar og samgönguyfirvalda. Ef hún kemst ekki að niðurstöðu þá stendur þetta skipulag og byggt verður í Vatnsmýrinni.“

  Í svari við fyrirspurn á Alþingi tveimur árum síðar sagði Siv Friðleifsdóttir sem var umhverfisráðherra þegar skipulagið var samþykkt: „Niðurstaða nefndarinnar, samanber skilabréf hennar dags. 1. desember 2003, var að þau sjónarmið samgönguyfirvalda að halda tveggja flugbrauta flugvelli í Vatnsmýrinni og áform Reykjavíkurborgar um aðra landnýtingu í Vatnsmýrinni færu ekki saman. Niðurstaða um tillögu til breytinga á skipulagi næðist því ekki í nefndinni. Nefndin taldi eigi að síður mikilvægt að borgaryfirvöld í Reykjavík og samgönguyfirvöld tækju upp formlegar viðræður um framhald málsins. Þetta varð niðurstaðan. Menn náðu ekki saman þannig að vinnslu þessa máls er lokið í umhverfisráðuneyti. En breytist forsendur og komi upplýsingar fram um annan vilja þá færi þetta mál að sjálfsögðu í hefðbundna vinnslu.“

  Fyrirvarinn var að athuga hvort hægt væri að komast að annarri niðurstöðu, og það tókst ekki. Aðalskipulagið stendur því fullgilt.

  2. Landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins eru góðar og mikilvægar. Í fyrsta skiptið núna ákvað landsfundur að álykta að innanlandsflug ætti að vera í Vatnsmýri og hvergi annarsstaðar (áður hafði verið talað um Stór-Höfuðborgarsvæðið). Fjöldi fundarmanna var á móti þessari ályktun og ég talaði meðal annars gegn henni. En svona var þetta samþykkt. Fjöldi annarra ályktana voru samþykktar og aðrar felldar. Eiga allir þeir sem verða undir á svona lýðræðislegum samkomum að skipta um skoðun? Er Leifur (og Flygill) að mælast til þess að t.d. ESB sinnar í Sjálstæðisflokknum (sem eru margir, og sumir fyrrverandi ráðherrar) skipti um skoðun eða segi sig úr flokknum ella? Varla. Að minnsta kosti vil ég hafa á Alþingi og í sveitarstjórnum fólk sem hefur sannfæringu og berst fyrir henni, en skiptir ekki um hugsjónir, eftir því hvernig vindar blása og hvað nýjustu skoðanakannanir segja. Stundum verða skoðanir manns ofan á, stundum ekki. Ég tek tillit til ályktananna, en get ekki farið að berjast fyrir því að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni um aldur og ævi, þótt mínir ágætu vinir og samherjar á síðasta landsfundi hafi ályktað þar um. Og ég mun heldur ekki berjast fyrir þeirri ályktun landsfundar að flytja eigi fleiri opinber störf úr höfuðborginni og út á land. Með því væri ég að bregðast skyldum mínum sem borgarfulltrúi Reykvíkinga.

 • Hilmar Þór

  Jú, við Gísli Marteinn erum ekki sammála um framtíð Vatnsmýrarinnar og það er svosem allt í lagi. Ég skynja ágrenningin þannig að Gísli Marteinn sé fulltrúi Reykvískra kjósenda sinna og honum ber að gæta hagsmuna þeirra. Og það gerir hann af mikilli hugsjón og elju. Ég sé málið í stærra samhengi.

  Gísli Marteinn hefur sterka sýn hvað varðar framtíðar Reykjavíkur sem borgar. Ég man ekki eftir öðrum stjórnmálamanni sem er eins áhugasamur og lausnamiðaður og hann hvað varðar borgarumhverfi og samgöngur í borg og ég er honum nánast alltaf sammála og styð hann til allra góðra verka.

  En eins og áður segir greinir okkur á um flugvöllinn.

  Ástæðan er sú að ég horfi ekki til hagsmuna Reykjavíkurborgar og íbúa hennar eingöngu. Ég horfi til höfuðborgarsvæðisins og landsins alls.

  Til að svara spurningu Gísla Marteins um hver sé ástæðan fyrir því að Álftanesið er ekki eftirsóknarverðara en raun ber viti er svarið: Samgöngur eða öllu heldur skortur á góðum samgöngum.

  Samgöngur við Álftarnesið eru ekki góðar, hvernig sem á er litið. Þær eru slæmar.

  Ég held að ég brjóti ekki trúnað þegar ég segi reynslusögu sem ég upplifði í kjölfar færslu þar sem hugmyndin um að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni áfram og tengja Áltanesið með brú um Kárnesið og þétta byggðina þar, var kynnt hér á vefnum.

  Fjárfestingaraðilar og hagsmunaaðilar varðandi Kársnes, höfðu samband og tjáðu mér að landverð á Kársnesi og Álftarnesi muni hækka verulega ef umrædd tenging kæmist á. Samgöngur frá Kárnesi og Álftarnesi til miðborgarinnar og allrar þjónustu væru svo lélegar að þær héldu land- og íbúðaverði niðri. Svæðin væru ekki eftirsóknarverð.

  Einn aðilinn var alvarlega að velta fyrir sér að fjármagna brú frá Karsnesi að HR. Hann taldi að íbúðaverð á öllu Kársnesinu mundi hækka í verði og sérstaklega þær byggingar sem hann hafði í huga yst á nesinu. Hann taldi þó að til þess að af þessu gæti orðið þyrfti Kópavogsbær að koma að málinu og jafnvel vegagerðin.

  Ég fullyrði að ef svona tenging kæmist á mun Álftarnesið verða eftirsótt til búsetu og fasteigna og landverð hækka umtalsvert þannig að þrýstingur á Vatnsmýrina sem byggingarland mun minnka.

  Ég vil að lokum þakka Gísla Marteini fyrir þáttöku hans í umræðum hér á vefnum. Hann hefur lagt mikið til málanna og dýpkað umræðuna um leið og hann hefur sýnt okkur inn í flókin heim forsendna skipulagsákvarðana. Ég ber mikla virðingu fyrir störfum Gísla Marteins að skipulagsmálum borgarinnar og hlakka til að fylgjast með honum á þeim vettvangi.

  Ég vil nota tækifæri til þess að lýsa því yfir að ég sakna þáttöku kollega minna í skipulagsumræðu almennt þó tveir hafi tjáð sig hér að ofan í þetta sinn, þeir Árni Ólafsson og Jón Guðmundsson.

 • Það eru tveir athyglisverðir punktar úr grein Leifs, sem Gísli Marteinn skautar framhjá.

  Í fyrsta lagi fyrirvarar með Aðalskipulagi Reykjvíkur þar sem stendur m.a.; „Uppbygging í Vatnsmýri og tímasetning hennar er háð flutningi á flugstarfsemi af svæðinu“
  Í öðru lagi, skýr samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

  Ein spurning verður svo alltaf stór í þessari umræðu; Hvernig á að leysa vanda sjúkraflugsins?

 • Árni Ólafsson

  Höfuðborg = Samgöngumiðja landsins
  Samgöngumiðja í Keflavík = Keflavík verður höfuðborg
  Höfuðborg í Keflavík = Friður og ró í Reykjavík
  🙂

 • Jón Guðmundsson

  Flugvöllur í Vatsmýri er tímaskekkja. Þeir sem hafa hæst um nauðsyn flugvallar í miðborginni greiða fæstir fyrir herlegheitin úr eigin vasa. Flugfarið er yfirleitt greitt af því opinbera eða í gegn um skattkerfið. Innanlandsflug er ekki valkostur fyrir fjölskyldur og almenna launamenn. Þess utan er innanlandsflug frá Keflavík í raun vænlegri kostur fyrir landsbyggðina sem getur þá virkjað möguleika beins tengiflugs frá Keflavík við umheiminn án viðkomu í Kvosinni.

  Norðlendingar hafa haldið hátt á lofti heilögum rétti sínum til lendinga og flugtaka í miðbænum. Þeir vildu einnig leggja vegtolla á allar leiðir inn og út úr borginni til að fjármagna Vaðlaheiðargatið.

  Borgarbúar mega prísa sig sæla að enn skuli vera til einn borgarfulltrúi sem þorir að standa með hagsmunum íbúa Reykjavíkur og halda á lofti rökum heilbrigðrar skynsemi. Gísli Marteinn á hrós skilið fyrir að beygja sig ekki undir þunga áróðursvél flugvallarkórsins.

 • Sæll Hilmar. Ég er ósammála þér í þessu máli. Þú gerir þó betur en Leifur, því hann eyðir heilli grein í að ræða skipulagsmál í Reykjavík án þess að nefna einu orði hvar við eigum að reisa framtíðarbyggðina. Allt frá 2002 hefur meirihluti borgarfulltrúa í Reykjavík (sama hverjir hafa farið með völdin) talið að við ættum að hafa blandaða byggð í Vatnsmýri, frekar en flugvöll. Ríkið, sem á og rekur flugvöllinn, skellir skollaeyrum við þessu og gerir ekkert í því að finna flugvellinum nýjan stað. Þetta verður æ einkennilegra sem innanríkisráðherra ítrekar oftar að Reykjavík ráði því sjálf hvernig skipulagt verður í Vatnsmýri. Allir þeir sem tala um óvissu í því sambandi, eða um misvísandi skilaboð, hafa ekki fylgst vel með. Í gildi er aðalskipulag frá 2002, þar sem það liggur alveg skýrt fyrir að N/S brautin verður lögð af árið 2016.

  En þú semsagt nefnir valkost. Þinn valkostur er að byggja á Álftanesi í staðinn. Það er að mínu mati illa ígrunduð hugmynd frá þér og er þá Bleik brugðið, því fáir setja fram jafn snjallar hugmyndir í skipulagsmálum og þú.

  En um Álftanes er það að segja að ef það er svona ákjósanlegur staður, hvers vegna er þá ekki meiri ásókn í að búa þar? Hvers vegna hefur Álftanesbær ekki selt lóðir eins og heitar lummur? Eins og þú veist er fermetraverð þar miklu lægra en í hverfunum umhverfis Vatnsmýrina. Fyrir verð einnar 140 fm hæðar í Vesturbænum getur þú fengið miklu stærra raðhús og jafnvel einbýlishús á Álftanesi. Hvers vegna skyldi það vera? Betri vegi og brýr er hægt að leggja en það er nú ekki eins og Hafnarfjarðarvegurinn / Kringlumýrarbrautin sé einhver sveitavegur í dag. Bílar aka á uppundir 100 km hraða á hverjum degi beina leið niður á Miklubraut eða alla leið niður í Borgartún, ef þeir vinna í banka. Ég held að hraðbrautaskipulag muni ekki auka ásókn í Álftanes.

  Ástæða þess að fermetraverð er hæst í hverfunum umhverfis Vatnmýrina (Hlíðum, Miðbæ, Vesturbæ) er sú að þau hverfi er vel í sveit sett, í orðsins fyllstu merkingu. Mjög margir (vissulega ekki allir) og sérstaklega ungt fólk vill búa á svæði þar sem það getur komist í vinnu, þjónustu, mannlíf eða til vina, án þess að þurfa að setjast upp í bíl. Þetta sýnir líka tölfræðin. Yfir 20% heimila í miðborginni hafa ekki aðgang að bíl. Þetta eru þau hverfi þar sem flestir nota strætó, ganga og hjóla. Miklu færri munu gera það á Áltanesinu.

  Ég er í borgarmálunum til að berjast fyrir ákveðnum hugsjónum. Þær ganga út á að Reykjavík verði borg með lífsgæðum sem jafnast á við bestu borgir heims. Við getum gert það. Við eigum framúrskarandi góð úthverfi í tengslum við einstaka náttúru. Gerum þau ekki að gegnumaksturshverfum, með því að þenja byggðina áfram út, hvort sem er útá Álftanes, Geldinganes eða Úlfarsfell. Byggjum frekar inn á við, á brúnu svæðunum sem þegar hafa verið tekin undir iðnaðarsvæði.

  Og af því stundum er talað um að við höfum ekki efni á að byggja nýjan flugvöll, þá sýndi úttekt samgönguráðuneytisins og Reykjavíkur að sá kostur að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýri og reisa blandaða byggð í staðinn væri „afgerandi hagkvæmari frá þjóðhagslegu sjónarmiði en A-kostirnir (flugvöllur áfram í Vatnsmýri).“ (Kafli 5.7. Niðurstöður hagrænnar úttektar, bls.78).

  Annars þakka ég þér enn fyrir frábær skrif á þessa síðu og þú virðist líka laða að þér málefnalega og vel skrifandi lesendur sem taka þátt í spjallinu. Takk fyrir það!

 • „Get organized“

  Sveitarfélög stórreykjavíkursvæðin eiga að sameinast þannig að smákómgaveldið leggist niður. Ég held að aðalskipulag eigi að vinna af aðila sem ekki býr á svæðinu. T.d á Akureyri. Eða javnvel erlendis. Þeir sem hér búa eru of inviklaðir í smákóngabaráttu, pólitík og einkavinavæðingu skipulagsmála.

  Svo virðist fólk ekki átta sig á því að við höfum ekki peninga til þess að byggja nýjan flugvöll hér á svæðinu.

 • Les ekki Moggann.

  Tilvitnunin er góð.

  Er þessi grein aðgengileg á netinu?

 • Sammála ykkur. Góð grein hjá Leifi.

  Þegar þetta mál er skoðað þá leynir sér ekki að unnið er markvisst að því á Suðurnesjum, að grafa undan tilvist Reykjavíkurflugvallar.

  Það sama á við um stjórnendur Isavia. Þeim er þó einhver vorkunn, þar sem skilaboð frá stjórnmálamönnum eru svo misvísandi. Stjórnsýsla skipulagsmála á SV-landi, á þar ábyggilega stóran þátt.

  Það er hinsvegar ljóst að það er til skammar hvernig haldið hefur verið utan um þetta mál….tíminn er að renna út.

 • Jón ólafsson

  Ef myndirnar tvær sem fylgja færslunni eru skoðaðar sést hvað þetta er einkennileg umræða.

  Í Vatnsmýrinni eru um 140 ha lands sem er í nánast fullri notkun. Þar liggja fjárfestingar uppá milljarða.

  Á neðri myndinni sést hvað er í boði handan Skerjafjarðar. Þar eru mili 7 og 8 hundruð ha kjörlendis til uppbyggingar borgarsamfélags. Á neðri myndinn kemur líka í ljós hve flugvöllurinn er vel staðsettur m.t.t. alls höfuðborgarsvæðisins og líka landsbyggðarinnar ef farið er út í það.

  Í raun er þetta umræða fáránleikans.

  Góð grein hjá Leifi Magnússyni.

  Flugvöllinn kjurt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn