Miðvikudagur 30.11.2011 - 15:28 - 7 ummæli

Vatnsberinn og Bakarapóstur

Bakarapóstur (stundum nefndur Bernhöftspóstur) var síðasta opna vatnsbólið í Reykjavík.  Hann stóð neðarlega í Bankastræti sem þá hét Bakarabrekka. Brunnurinn var annar tveggja brunna sem Tönnes Daniel Berhöft bakari gróf  fyrir meira en 150 árum.

Þegar Bankastræti var endurgert fyrir nokkrum misserum komu vel varðveiddar leyfar af brunninum í ljós. Hann er þarna enn  falinn 20-30 cm undir gangstéttaryfirborðinu.

Í sumar var stytta Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberinn (1937) fluttur  frá holti við Veðurstofuna  og komið fyrir á horni Lækjargötu og Bankastrætis þar sem henni var upphaflega ætlaður staður. 

Í upphafi var styttan hugsuð á þessum stað m.a. vegna nálægðar  við helstu vatnsból bæjarins Tomsensbrunn, Bakarapóst o fl.

Nú er styttan kominn á viðeigandi stað. Það er að minnstakosti álit þeirra sem þekkja sögu Reykjavíkur. En hvað um hina? Ferðamaður sem lítur styttuna augum á horni Bankastrætis og Lækjatrgötu veltir fyrir sér staðsetningunni.  Af hverju er stytta af manneskju að burðast við að bera tvær þungar vatnsfötur á þessum stað?

Ef  Bakarapósturinn yrði gerður sýnilegur og látinn standa uppúr gangstéttinni mundi sagan og styttan lifna við, öllum til ánægju og vegfarendum til umhugsunar.  Styttan og brunnurinn mundu kallast á og segja vegfarendum sína sögu, án orða.

Flutningi styttunnar í miðbæjinn er vart lokið fyrr en búið er að gera Bakarapóstinn sýnilegan vegfarendum á ný. Póstinn þarf að byggja upp á sínum stað og færa þannig meira í líf  sögu miðbæjarinns.

Til gamans má geta þess að Bernhöftsbakarí er enn í fullum rekstri og er langelsta fyritæki landsins. Bakaríðið var stofnað 1835 og tók Bernhöft við rekstrinum 1845. Það er nú til húsa  að Bergstaðastræti 13.

Að neðan koma gamlar myndir sem fengnar eru af vef ljósmyndasafns Reykjavíkur.

Neðst til vinstri sést brunnur sem búið er að byrgja rækilega með þaki. Spölkorn þar fyrir neðan stendur Vatnsberi Ásmundar Sveinssonar nú.

Börn við torfbæi í Þingholtum. Í baksýn er myllan við Bankastræti sem hét áður Bakarabrekka. Myndin er frá því um 1890.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Stefán Benediktsson

    Upp með brunninn!

  • Góð hugmynd.

  • Guðmundur Erlingsson

    Neðsta myndin er algjörlega mögnuð, í raun ótrúlegt að það sé ekki lengra síðan en rétt rúm hundrað ár frá því Reykjavík leit svona út. Því miður eru öll kennileiti þarna horfin í dag og því varla hægt að setja myndina inn í myndband eins og þessa dásemd hér: http://youtu.be/zN1uwD7d_ZQ

  • Ég held að aumingja Ásmundur Sveinsson hefði fengið fyrir hjartað að sjá þetta.

  • Vonandi verður þetta einhvern tíman lagað, þessi stytta er svo augljóslega seinni tíma viðbót.

    Það hefði verið skömminni skárra, finnst mér, að láta hana einfaldlega hvíla á gangstéttinni, þ.e. sleppa stallinum.

    Í öllu falli velja henni annars konar stall en þennan. Hún virkar eins og henni hafi verið skellt upp á upphlaðið blómabeð.

  • Hilmar þór

    Það má kannski minna á gömlu Traðirnar sem Birna Björnsdóttir lét vera sýnilegar i fyrstuverðlaunatillögu sinni i samkeppninni um endurmótun Arnarhóls fyrir meira en tuttugu árum. Það mótar vel fyrir þeim í túninu. Traðirnar gætu fengið sitt aldagamla hlutverk að nyju með tilkomu Hörpu sem aðalgönguleið að hùsinu!
    Traðirnar sem voru aðalleiðin inn í bæinn um aldaraðir og liggja rétt undir yfirborðinu heilar, samkvæmt hugmynd Birnu og skilnings dómnefndar.

  • Sveinn Björnsson

    Góð hugmynd. Það er sjálfsagt að draga fram í dagsljósið allar sögulegar og sjáanlegar minjar. Okkar unga borg á því miður allt of lítið af sýnilegum menningarminjum. Það eru margar minjar tengdar gömlu höfninni sem eru rétt undir yfirborðinu. Þetta er líka mikilvægt fyrir stækkandi ferðamannaiðnað hér á landi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn