Mánudagur 09.01.2017 - 22:57 - 10 ummæli

Vegamótastígur – Gamalt hús flutt – Nýtt hús byggt

 

 

15822858_10154950115523281_2929064311313900075_n

Í dag var húsið Vegamótastígur 9 lyft af sökkli sínum og flutt á baklóð að Grettisgötu 54. Þessi framkvæmd hefur verið mikið í umræðunni og sitt sýnist hverjum.

Í stuttu máli virðist hér vera á ferðinni skipulag sem ber öll megineinkenni verklags sem ekki fæðir af sér bestu hugsanlega niðurstöðu fyrir umhverfið.  Skipulagið virðist vera unnið með hagsmuni lóðarhafa að leiðarljósi og jafnvel á kostnað umhverfisins.

Það er almennt álitið að skipulagið eigi að þjóna heildinni meðan hús sem er byggt inn í skipulagið eigi að þjóna einkahagsmunum lóðarhafa. Þess vegna var það á árum áður ekki talið gott að sami aðilinn geri deiliskipulagið, jafnvel á reikning lóðarhafa og hannaði svo húsin í beinu framhaldi. Þá er hætta á að skipulagið þjóni lóðarhafa fyrst og fremst og hagsmunir heildarinnar víki. Menn vildu að þarna kæmu tveir ráðgjafar að verkinu. Annar, sá sem gerði  deiliskipulagið, hafði hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hugsaði um vegfarandann og borgarbúann. Svo kæmi húsahönnuðurinn og hannaði hús fyrir notandan. Ef svo kæmu upp einhverjir hagsmunaárekstrar þá tækjust þessir tveir ráðgjafar á.

Ef rýnt er í uppbygginguna við Vegamótastíg  þá sést strax að sömu aðilarnir gerðu deiliskipulagið og hönnuðu húsið. Þá vaknar spurningin hver gætti hagsmuna heildarinnar, vegfarandans, í þessu ferli. Það hlýtur þá að vera borgin og skipulags- og umhvefisráð.

vegamotastigur

Að ofan er teikning af fyrirhugaðri byggingu sem kemur í stað þeirrar sem var flutt. Því verður ekki haldið fram að þessi bygging fari illa þarna. Enda tekur hún mið af húsi Máls og Menningar, Rúblunni, að verulegu marki.  En maður hefði líka viljað að nýbyggingin tæki mið af aðliggjandi húsi við Grettisgötu og auðvitað helst að gamla húsinu nr. 9 við Veghúsastíg. Það er frá 1904 og óvenju fallegt að formi til. Þar bjuggu líka þeir Kjarval og Laxness um tíma þó það skipti litlu máli í þessu samhengi.

En maður spyr sig hvernig þetta hefði litið út ef menn hefðu sæst við nýtingarhlutfall uppá 3.0 í stað 5,0 og gamla húsinu Vegamótastíg 9 gefið tækifæri til að standa. Það hefði örugglega ekki þjónað lóðarhafa jafn vel en flestir vegfarendur hefðu líklega tekið þeirri niðurstöðu fagnandi.  Það hefði sennilega orðið niðurstaða skipulagshöfundar sem falið væri að gæta að heildinni og staðarandanum. Hann hefði sennilega reynt að halda gamla húsinu á sínum stað og færa sól og il í stíginn og bjórgarðinn handan götunnar (Vegamót). Hann hefði unnið sína vinnu með hagsmuni heildarinnar og vegfarandans að leiðarljósi. Gamla húsið hefði getað orðið glæsileg aðkoma í flott hótel á þessum stað. Kannski með tengingu í húsin við hliðina, Rúbluna og húsin við Grettisgötu.

 

vegamotastigur_7_9_17_11_20151-page-001

Ef rýnt er í deiliskipulagið sem liggur til grundvallar framkvæmdarinnar þá sér maður að byggingamagnið er gríðarlegt. Menn hafa gætt hagsmuna lóðarhafans vel ef ég skil þetta rétt.  Í stað gamla hússins sem var 137 m2 kemur stórbygging uppá fimm hæðir og tvöföldum kjallara. Alls tæplega 2000 fermetrar . Byggingamagnið á lóðunum er 14 faldað.

Þarna er byggingamagnið hámarkað með nýtingarhlutfall uppá 4,9. En það þýðir að byggingarnar eru um 5 sinnum stærri að grunnfleti en lóðin. Til samanburðar má nefna að nýtingahlutfallið er víða í Skuggahverfinu um 2,0 og fer upp í um 4,5 þar sem það er mest. En þar standa 17-19 hæða hús.

Eins og lesa má af skilmálum gerir deiliskipulagið ráð fyrir að að þarna verði eitt bifreiðastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelstarfssemi.  Í skilmálum er gert ráð fyrir að þessum stæðum verði komið fyrir í tveim kjöllurum hússins. Lauslega reiknað ætti bílastæðaþörfin því að vera um 15 stæði vegna byggingarainnar, þar sem eitt á að henta fötluðum. Teikningarnar gera ekki ráð fyrir einu einasta stæði. Ekki einu sinni fyrir „drop off“ stæði fyrir leigubíla þrátt fyrir að þarna verði gistirými fyrir tæplega 80 manns og meðalstór veitingastaður.

Það er rétt að taka fram að í skilmálum er gefin heimild  til þess að kaupa sig frá þessari kröfu. Það er eð segja að borginnni er greitt fyrir að falla frá þessari kvöð. Það þýðir ekki að þörfin hverfi. Það er í almennt ekki hægt að kaupa sig frá frumþörfum. Þarfirnar hverfa ekki þó greidd sé einhver fjárhæð.  Það er hinsvegar hugmyndin að þegar svona stendur á er hægt að greiða sig frá því að þörfinni sé fullnægt á sjálfri lóðinni.  Þá vaknar skylda borgarinnar til þess að fullnægja þörfinni einhversstaðar í grenndinni. Þó ég þekki það ekki þá geri ég ráð fyrir að borgin sé að vinna að byggingu meiriháttar bílastæðahúss einhversstaðar þarna nærri því þetta er ekki eina framkvæmdin sem keypt hefur sig frá því að útvega bifreiðastæði fyrir hús. Við vitum um stór bílastæði á hafnarsvæðinu sem fyrirhugað er að byggja en ég veit ekki hvort þau eiga að koma í stað þeirra sem menn hafa greitt sig frá þarna á Vegamótastíg og þar um kring.

Það er rétt að upplýsa að núgildandi deiliskipulag byggir á deiliskipulagi frá í apríl 2002 sem var endurskoðað í apríl árið 2008 og mynd er sýnd af hér að neðan. En í því skipulagi var bætt við neðri kjallara.  Núgildandi deiliskipulag er frá því í Júli 2015. Þessi mikla nýting á rætur sínar að rekja allar götur til skipulagsins frá árinu 2002.

 

15871828_10154875079644291_7730425769366875353_n

Að ofan má sjá eldri tillögu að húsi á sömu lóð. Þarna hefur gamla húsinu verið lyft uppá þak nýbyggingarinnar. Þetta virkar framandi en er svoldið skemmtilegt.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Elín Sigurðardóttir

    Ég get ekki séð að það þjóni heildarhagsmunum að Morgunblaðshöllin og höll Máls og menningar gnæfi yfir umhverfinu um ókomna tíð sem tákn um gamla tíma. Það er jákvætt að almenningur (einkahagsmunir lóðarhafa) setji sinn svip á borgina.

  • Magnús Skúlason

    Þú fyrirgefur mér Hilmar ef ég fer ekki rétt með.
    En þessi nýbygging er hneyksli. Eitt að að flytja húsið úr stað en þessi rosalega nýting lóðar með hækkun yfir Grettisgötu 3 og að bora síðan niðrí jörðina fyrir bílakjallara( þétting byggðar ofaní jörðina) með tilheyrandi langtíma ónæði fyrir íbúa og annað fólk í nágrenni er ekki boðleg.
    Það er mikið að hjá yfirvöldum þessarar borgar.

  • Guðbjörg

    Ein spurning.

    Hvaðan kom óskin um þetta mikla nýtingarhlutfall fram?

    Hver bað um þessa miklu nýtingu?

    Lóðarhafar, arkitektarnir sem gerðu skipulagið, arkitektarnir sem teiknuðu húsið eða skipulagsyfirvöld?

    Er þetta ekki aðalatriðið?

  • Gott mál.
    Flott að losna við þessa tvö brunagafla.

  • Magnús Skúlason

    Enn og aftur. Geta borgaryfirvöld nánast aldrei trappað niður byggingarmagn í löngu úreltu skipulagi. Þessi hræðsla borgarinnar við bótakröfur standast ekki. Á það hefur verið bent af löglærðum sem leikum að láta þá á það reyna fyrir dómstólum. Það læðist að manni sá grunur að gott sé að fá meira í borgarsjóðinn. Það hefur heyrst.

    En sorry Hilmar ég er ekki sammála þér að sniðugt væri að lyfta gamla húsinu uppá einhvern úr mælikvarða steypuklump. Eíns og mishepnaður brandari.
    Ætti það að vera fordæmisgefandi í húsvernd, bara fýra húsum upp á þak nýbygginga? Segi nei takk.

    Þetta er einungis áframhaldandi græðgisvæðing sem tengist lítt þéttingu byggðar.

    Líst vel á hugmynd þína um varðveislu hússins á sínum stað ásamt niðurtrappaðri nýbyggingu að norðan.

    • Hilmar Þór

      Jú Magnús, Þetta með að setja húsið upp á þak er auðvitað bara brandari enda stóð í færslunni í upphafi að þetta væri „hlægilegt“ sem ég skipti út fyrir „skemmtilegt“ bara af minni alkunnu hógværð. Mér fannst orðið hlægilegt of gildishlaðið.

  • Karl Pétur

    Sannarlega stórt og mikið stykki á þessum litla reit. Ef ég má þó segja þrennt þessu til varnar (án þess að málið sé mér skylt að öðru leyti en að ég vinn í nágrenninu):

    A) Nánast aldrei er skortur á bílastæðum á þessu svæði.
    B) Þarna virðist vera gerð tilraun með að brúa bilið milli fótgangandi umferðar á Skólavörðustíg og Laugavegi um Vegamótastíg, sem mér finnst til bóta.
    C) Þetta bílastæði bakvið Rúbluna mátti alveg missa sín.

    • Hilmar Þór

      Það er alveg rétt hjá þér Karl Pétur.
      það er nánast aldrei skortur á bifreiðastæðum þarna um þessar mundir. Það þekki ég vel hafandi starfað í næsta nágrenni Vegamótastígs um áratugaskeið.
      Hinsvegar er ljóst að ef áfram er haldið sem horfir koma upp vandræði sem einungis er hægt að leysa með tvennum hætti. Það er að koma upp bifreiðastæðum þarna einhversstaðar í nágrenninu eða að stórauka og bæta þjónustu almannaflutnigakerfisins.
      Ég bendi bara á að í hótelinu verða 38 tveggja manna herbergi auk veitingastaðar fyrir um 60 manns. Við bætast allstór hópur starfsfólks og flutningar aðfanga til og frá húsinu vegna starfsseminnar.
      Þetta kallar á aukningu umferðar fólks sem notar aðstöðuna eða vinnur þar. Þessu fólki þarf að koma á staðinn einhversstaðar frá og aftur frá staðnum. Kannski gangandi frá áningarstöðum almannaflutninga, kannski frá almennum bifreiðastæðahúsum. Spurningin er bara þessi.: Hvaða afleiðingar hefur það fyrir miðborgina og samgöngumálin ef vistöðulaust er byggt án þess að fyrir liggi skýr úrræði í þessum málum?
      Einhver veit auðvitað svarið við þessu. Ég veit það ekki en hef mesta trú á almenningssamgöngum og að fólk gangi frá einhverjum „höbbum“ líkt og við þekkjum frá stórborgum eins og París og minni borgum eins og Como á Ítalíu svo maður tali nú ekki um Feneyjar!

  • Helgi Gunnars

    Meiri nýting en á lóðum þar sem standa 17-19 hæða hús. Það er vissulega mikið. Það hefur verið svigrúm til þess að lækka húsið við Grettisgötu eins og bent er á.

    • Hilmar Þór

      Ég bendi á að hornlóðir gefa oft tækifæri til þess að auka nýtinguna og svo vil ég taka fram að ég er í prinsippinu fylgjandi mikilli nýtingu innan borgarinnar. Svo menn séu ekki að mistúlka skrif mín.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn