Mánudagur 11.04.2011 - 09:36 - 8 ummæli

Verkamannabústaðir friðaðir

Katrín Jakobsdóttir menningarmálaráðherra friðaði þann 17. mars s.l. verkamannabústaðina og mannvirki á Héðinsvelli við Hringbraut. Þetta gerði hún að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þarna er um að ræða verkamannabústaðina bæði austan og vestan Hofsvallagötu.

.
Þessi íbúðahús við Hringbraut eiga sér merkilega sögu. Þau voru byggð samkvæmt fyrstu lögum hérlendis um verkamannabústaði.  Margar nýjungar voru í húsunum. Má þar nefna að baðherbergi fylgdi hverri íbúð og ákveðið var að hafa rafmagnseldavélar í íbúðunum, en þær voru þá afar fátíðar. Höfðu menn mismikla trú á rafmagni til eldunar en svo fór að samþykkt var tillaga minnihluta í bæjarstjórn um að íbúarnir í verkamannabústöðunum ættu kost á slíku.  Til öryggis var þó einnig leitt gas inn í íbúðirnar.

Ég ætla ekki að rekja sögu húsanna hér heldur drepa stuttlega á aðkomu arkitektanna og þeirra hugmyndum.

Í framhaldi lagasetningarinnar 1929 var haldin samkeppni um húsin. Fyrstu og önnur verðlaun í keppninni hlutu þeir félagar arkitektanemin Gunnlaugur Halldórsson(1909-1986) og arkitektinn Arne Finsen (1890-1945). Eftir því sem mig minnir unnu þeir tillöguna meðan Gunnlaugur var hér á landi  í sumarleyfi frá námi sínu á Konunglegu Listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Svo einkennilega vildi til að hvorug tillaga þeirra félaga var valin til útfærslu heldur var Guðjóni Samúelssyni (1887-1950) húsameistara ríkisins falið verkið. Skýringuna þekki ég ekki.

Húsin vestan Hofsvallagötu voru byggð í samræmi við hugmyndir um randbyggð sem Guðjón og Guðmundur Hannesson læknir höfðu áður kynnt.

Hús Guðjóns eru verkamannabústaðirnir vestan Hofsvallagötu sem byggðir voru á árunum 1931-1932. Húsin eru samfelld tveggja hæða húsaröð með fram götum sem var ríkjandi stefna  í skipuilagsmálum.

Síðari hluti verkamannabústaðanna austan Hofsvallagötu voru byggðir á árunum 1936-1937 eftir uppdráttum Gunnlaugs Halldórssonar eftir að hann var kominn heim frá námi.

Við hönnunina fylgdi Gunnlaugur hugmyndafræði funktionalismans bæði hvað skipulag og sjálf húsin varðar. Þannig að í stað randbyggðar meðfram götum hannaði hann þrjár húsalengjur þar sem ein var stölluð meðfram Hofsvallagötu. Þannig náðist sól inn í allar stofur og hvert hús hafði friðsælan garð í sólarátt þar sem gengið var inn í húsin.

Ef bera á áfanga þeirra kolleganna Guðjóns og Gunnlaugs saman leikur ekki í mínum huga vafi á að Gunnlaugs hluti er framsýnni, félagslegri og skemmtilegri en hluti húsameistara ríkisins. Velta má fyrir sér hvað hafi ollið því að Guðjóni hafi verið falið fyrri áfangi vekamannabústaðanna þegar það lá fyrir að Gunnlaugur og Arne Finssen fengu bæði fyrstu og önnur verðlaun. Ekki var hægt að bera við reynsluleysi vegna þess að Arne hafði þegar mikla reynslu og hafði m.a. teiknað Siglufjarðarkirkju á þessum tíma. Það er almælt að Guðjón Samúelsson naut mikils stuðning ráðamanna hér á landi alla sína tíð og vann mikið í skjóli Jónasar frá Hriflu. M.a. af þessum ástæðum  fékk hann fleiri tækifæri en nokkur annar íslenskur arkitekt hefur nokkurn tíma fengið eða mun að líkindum nokkurn tíma fá.

Daninn Arne Finsen og arkitektaneminn Gunnlaugur Halldórsson nutu ekki samskonarr tengsla.

Efst er mynd tekin síðasta sumar af aðkomu í stölluðu húsin þar sem gengið er um sólríkan einkagarð. Við stöllunina náðis betri dagsbirta inn í íbúðirnar.  Gluggasetning  og sprossun gluggana er athyglisverð og var nýjung um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Að neðan eru myndir af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur teknar fyrir og um miðja síðustu öld. Það er ekki ofmælt að halda því fram að Gunnlaugur var snillingur í sínu fagi.

Hér eru stölluð húsin áberandi böðuð í sól.

Skýlið við leikvöllinn er teiknað af Einari Sveinssyni og Ágústi Pálssyni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Árni Ólafsson

    Hilmar: Það getur verið rétt að hús Gunnlaugs séu „flottari“ og skipulagið nútímalegra og opnara. En randbyggðin með sólríkum inngarði er að mínu mati mun áhugaverðara og betra búsetuumhverfi. Það sem síðar kom með sundraðri rýmislausri bæjarmynd nútímaborgarskipulags var oft á tíðum beinlínis skelfilegt – t.d. þar sem íbúðarblokkum er raðað eins og fransbrauðum í hillu í bakaríi.

    Og það er athyglisvert að í báðum þessum áföngum gömlu verkamannabústaðanna eru íbúðirnar sem næst eins.

    Þetta er ekki metingur milli áhangenda Guðjóns annars vegar og Gunnlaugs hins vegar – þótt nöfn þeirra séu notuð til þess að einkenna viðfangsefnin. Þetta eru pælingar um búsetuumhverfið – borgarskipulagið.

  • Hilmar Þór

    Það er sameiginlegt með vínsmökkun og byggingalist að allir hafa nokkuð rétt fyrir sér, hver eftir sínu höfði. Í raun er þetta spurning um hvaða gleraugu menn bera á nefinu eða út um hvaða glugga er horft og hvert.

    Varðandi sjónarmið kollega minna Árna Ólafssonar og Stefáns Benediktssonar þá get ég verið sammála þeim báðum ef horft er á verkamannabústaðina þar sem pro og con er sett í exelskjal.

    En ef ég horfi á þessa tvo áfanga verkamannabústaða með hjartanu þá kysi ég Gunnlaugs hús fremur en Guðjóns af þeim ástæðum sem ég nefndi í upphafi. Auk þess vil ég bæta við að í húsum Gunnlaugs eru forgarðar en engir bakgarðar.

    Randbyggðin reyndist vel en var um það bil að renna sitt skeið þegar verkamannabústaðirnir voru byggðir 1931-1932. Það var komið annað betra sem tók betur mið af aðstæðum. Maður sér þetta greinilega í nýlegum húsum BIG í Kaupmannahöfn og NY þar sem ein hlið randbyggðarinnar er lækkuð eða henni sleppt til þess að hleypa sólinni að eða gefa kost á betra útsýni. Nýlega var verðlaunuð tillaga um uppbyggingu í Vatnsmýri þar sem úr sér gengin randbyggðarhugmynd er meginuppistaðan. Það er ekki fagnaðarefni heldur klár afturför. Hægt er að mynda borgarrými með öðrum og liðlegri aðferðum en randbyggðinni.

    Maður þarf að fara varlega þegar Guðjón Samúelsson er gagnrýndur því hann er í miklu dálæti, verðskulduðu dálæti, enn þann dag í dag og mun verða um langa framtíð. En það breytir því ekki að sumt af því sem hann gerði er gagnrýni vert. og það gerðist stundum að öðrum tókst betur til eins og hér í þegar Verkamannabústaðirnir við Hringbraut eru til umræðu.

  • stefán benediktsson

    Smá vörn fyrir Guðjón. Innigarðslausnin er „félagslegri“ þótt íbúðagæði séu ekki jafngóð í öllum tilvikum.

  • Mér finnst nú verkamannabústaðir Guðjóns miklu fallegri. Ég skil ekki af hverju ný hverfi í Reykjavík eru ekki oftar hönnuð með þeim hætti. Þetta er fullkomið skipulag sem hefur svínvirkað frá tíma Rómaveldis (er það ekki annars?).

    Allar götur verða heilsteyptar og fallegar og bakgarðurinn skjólgóður. Bílastæðahúsin gætu svo verið undir öllu saman ef þess þarf.

    Svo gamalt en samt svo hentugt.

  • Árni Ólafsson

    Mér var kennt það á sínum tíma að þarna við Hofsvallagötuna væru skilin milli gamla og nýja tímans. „Gamla borgarskipulagið” hans Guðjóns Samúelssonar öðrum megin en nútími Gunnlaugs Halldórssonar hinum megin. Það var ekki fyrr en ég kynntist þessu umhverfi nánar að ég áttaði mig á því hvílík afturför fólst í hinum nýju straumum.

    Upplausn hefðbundinna borgarrýma, götu torgs og garðs, er ekki lykillinn að góðu bæjarumhverfi. Þetta eru ólík rými með ólík hlutverk og eiga að hafa ólíka eiginleika.
    Gríðarlegur gæðamunur er á útivistarsvæðum þessarra tveggja húsaþyrpinga þar sem inngarðurinn (skýrt afmarkað rými) við hús Guðjóns er vin í eyðimörkinni, í skjóli fyrir skarkala götunnar og umferðarhávaða – ómetanlegt útivistarsvæði inni í miðri borginni. Garðrýmið – leikvöllurinn við hús Gunnlaugs er opið og bílar eru alls staðar hringinn í kring um húsin. Það er varla vært á leiksvæðinu fyrir umferðarhávaða.
    Með verkamannabústöðunum var Guðjón að kenna Íslendingum að byggja borg með hefðbundnum hætti – þar sem hefðbundin rými borgarinnar voru hráefnið. Fúnksjónalisminn með sínum nýju straumum og ferska blæ sópaði því út af borðinu.

  • Sigríður Ólafsdóttir

    Þetta eru yndisleg hús. Eina sem vantar eru svalir, en það var víst ekki búið að finna þær upp á þessum tíma.
    Af hverju er ekki byggt meira af litlum tveggja hæða blokkum með einkagarði ein og hér?

  • Guðmundur

    Mæli eindregið með heimildarmyndinni „Íslensk alþýða“ eftir Þórunni Hafstað, sem fjallar um þessi hús og íbúana þar (http://www.imdb.com/title/tt1773853/).

  • Jóhannes G.

    Það var virkileg afturför þegar verkamannabústaðakerfið var lagt af. Í þessum húsum Gunnlaugs er skýrt hvað kerfið leysti úr læðingi húsnæðismálum og hugmyndum til betri húsakosts. Með því að markaðsvæða húsnæðiskerfið stöðvaðist þróunin. Verktakarnir reyndu bara að mæta óskum markaðarins (markaðurinn er almennt illa upplýstur um húsnæðismál og mismunandi húsagerðir) og engar nýjungar litu dagsins ljós. Engin þróun og alger stöðnun. Egar tilraunir, engin hugsun og engar nýjungar. Félagslega húsnæðiskerfið hafði svigrúm til breytinga og framþróunar eins og dæmin sanna. Þar á meðal þetta 80 ára gamla dæmi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn