Miðvikudagur 19.10.2011 - 08:57 - 29 ummæli

Vesturbær sunnan Hringbrautar

.

Á morgunn,  fimmtudag,  verður haldinn fundur  á vegum Hvefisráðs Vesturbæjar undir yfirskriftinni: “Hofsvallagatan – íbúafundur um götu og skipulag hverfis” .

Fundurinn hefst klukkan 20.00 í Yale sal á hótel Sögu og stendur til kl 22.00.

Það er um að gera að mæta.  Þetta er ekki bara spennandi fyrir íbúa á svæðinu heldur líka alla sem láta sig skipulag og samráðsferil varða.

Framundan eru breytingar á Hofsvallagötunni. Hverfisráðið vill að íbúar verði með í nýrri hönnun alveg frá byrjun.  Samráðsferlið hefst með fundinum á morgunn og stendur yfir í vetur. Ýmsum spurningum verður varpað fram:

* Hvernig drögum við úr hraða bílanna?
* Hvernig aukum við öryggi barna á leið í skóla, sund og aðrar tómstundir?
* Hvernig stuðlum við að aukinni umferð gangandi og hjólandi?
* Hvernig gerum við götuna fallegri?

Það eru margar spennandi spurningar sem  gaman verður að taka þátt í að finna svör við.

Hofsvallagatan er nú of  breið og kallar á hraða gegnumakstursumferð og  er að margra mati ógn við öryggi og lífsgæði Vesturbæinga.

++++

Fyrir rúmu hálfu ári  hélt  Hverfisráð Vesturbæjar fund undir yfirskriftinni „Vesturbær til framtíðar“ .  Gísli Marteinn Baldursson borgafulltrúi, sem einnig er formaður Hverfisráðs Vesturbæjar átti frumkvæði að fundinum. Gísli Marteinn er mjög áhugasamur um aðra hugsun um skipulags- og samgöngumál í borginni en ríkt hefur og  talað skynsamlega um málaflokkinn. Hann, bað mig sem gamlann og rótgróinn vesturbæing að koma með innlegg á fundinn í vor. Ég átti að reifa hugmyndir mínar um Vesturbæinn sunnan Hringbrautar í framtíðinni.

Það er tilefni nú til þess að rifja eitthvað upp af  þeim hugmyndum sem kynntar voru á fundinum í vor.

Hugmyndirnar gengu út á framtíð Vesturbæjarins sem sjálfbært hverfi með virkri hverfismiðju og lítilli bifreiðaumferð og mikið af gangandi og hjólandi vegfarendum.  Markmiðið var að skapa umhverfi þar sem öll dagleg þjónusta er aðgengileg  í göngufæri frá heimilum fólks.  Matvöruverslun og öll dagleg þjónusta væri færð inn í hverfið og íbúðum og atvinnutækifærum fjölgað.

Megin aflið fólst í því að gera Hofsvallagötuna að vistgötu og skapa þar hverfismiðju með verslun, þjónustu og iðandi mannlífi.  Sýndir voru möguleikar á að fjölga bæði íbúðum um nokkur hundruð í hverfinu og færa fleiri atvinnutækifæri inn í Vesturbæinn sunnan Hringbrautar.

Hjálagðar er  sýnishorn af þeim teikningum sem lagðar voru fram á fundinum um  „framtíð Vesturbæjar“ í fyrravetur.

Efst er yfirlitsmynd yfir hverfið sem var til umfjöllunar,  Reykjavík 107.  Þar má glöggt sjá að miðja hverfisins er milli Sundlaugar Vesturbæjar og Hagatorgs.  Þarna er þegar landfræðileg miðja og starfræn miðja.  Hugmyndin var að skerpa þessa mynd og auka þjónustuna á þessu svæði um leið og umferðaöryggi og mannlíf er aukið og bætt. Lagt er til að borgarhlutinn verði gönguvænni og vistvænni.

 

Í hugmyndunum er gert ráð fyrir að Hofsvallagata verði með seitlandi bifreiðaumferð frá Hringbraut þar til skömmu áður en komið er að Hagamel.  Þar tekur við hrein vistgata, „shared street“  með seitlandi bílaumferð sem heldur svo áfram að grænu svæði þar sem nú eru skólarnir, kirkjan og Hagatorg.  Á vistgötunni hafa hvorki bílar né gangandi forgang.  Þarna hefst miðhverfi borgarhlutans þar sem er að finna alla þjónustu svo sem fjölbreytta verslun,  veitingastað/hverfisknæpu, heilsugæslu, bókasafn, stjórnsýslu, banka, pósthús, áfengisverslun, bakarí, menningarstarfssemi og hvað annað sem borgarbúar þurfa að sækja. Nú er þarna Melabúðin og Vesturbæjarapótek.

Byggingarnar eru til staðar og þetta er miðsvæðis.  Svæðið er stutt frá öllum skólum hverfisins og í göngufæri frá flestum heimilum borgarhlutans.  Svæðið yrði svo í góðum tengslum við virkt  almenningavagnakerfi borgarinnar.

 

Tillagan lýsti einnig tækifæri sem fellst í að breyta Hagatorg úr núverandi mynd í opið svæði.

Í stað hringtorgsins er skapaður garður hverfisins, „miðgarður“,  þar sem allar helstu stofnanir hans eru staðsettar; Kirkjan,  Leikskóli,  Hagaskólinn og Melaskólinn.  Göturnar milli Melaskóla og kirkju og kirkju og Hagaskóla eru lagðar niður og gerðar að hlykkjóttum garðstígum fyrir gangandi og hjólandi.

Með þessari útfærslu mun hverfið eignast góðan og fallegan garð auk þess að stuðla  að umferðaöryggi og hvetjandi umhverfi án þess að það bitni að marki á bifreiðaumferð. Þessi hugmynd mun heldur ekki draga út mikilvægi þeirra glæsibygginga sem við torgið standa. Þær munu njóta sín enn betur frá skemmtilegu útivistarsvæði sem er öllum til heilla.

Við sameiningu skólalóðanna og lóð kirkjunnar með hringtorginu skapast gríðarleg tækifæri fyrir bæjarhlutann til margskonar útivistarathafna.  Svæðið breytist úr ólögulegu stofnanasvæði með gatnakerfi sem sker það í sundur, í heillegt útivistarsvæði.  Hugsanlega má koma þarna fyrir duftkirkjugarði eða duftvegg fyrir nokkur þúsund ker.

Með þessu skapast einning tækifæri til þess að stækka skólana og mæta þannig vaxandi hús´æðisþörf. Aðalbyggingu Melaskólans má lengja til suðurs þar sem Neshagi er nú og nota um leið tækifærið og gera hann þannig að hann henti fötluðum.

Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu og sjá hvort takist að gera Vesturbæinn  Reykjavík að heilsteyptu sjálfbæru hverfi í daglegum störfum íbúanna.  Þessi fyrirmynd gæti orðið módel til fyrirmyndar fyrir aðra borgarhluta.  Ég efast ekki um að víðast má bæta hverfin verulega.

Svona Vesturbær yrði til fyrirmyndar sem borgarhluti þar sem sjálfbærni og skemmtilegt mannlíf er markmiðið.

Endilega tvísmellið á teikningarnar þá stækka þær og verða skýrari.

Hér strax að neðan kemur svo teikning eftir arkitektana Gretar Markússon og Stefán Örn Stefánsson sem er tillaga að endurgerð umhverfisins við Grásleppuskúrana við Ægisíði. En þeir eru hluti af demöntum borgarhlutans.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (29)

  • Algjörlega.

  • Bogi Melaskólans kemur boga hringtorgsins ekkert við, enda var það ekki lagt fyrr en löngu eftir byggingu skólans.

    En til þess að heiðra minningu Hagatorgsins verður skautasvellið hringlaga.

    Er þetta ekki rétt hjá mér, Desmond?

  • Bjarni Jensson

    Ef einhverjir sem rada einhverju I borginni lesa tetta blogg ta ma telja vist ad dagar Hagatorgs i nuverandi mynd eru taldir. Og ef Afram er haldid verdur Vesturbaer sunnan Hringbrautar fyrirmynd annarra hverfa I borginni. Afram med tessa vinnu strax.

  • Þetta Hagatorgsmál er bara borðleggjandi og kostar ekki mikið til að byrja með. Bara örþunnt moldarlag ofaná malbikið og svo þökur…… Svona 800 kr fermeterinn!!!! Er þetta ekki einmitt svona „allskonar skemmtilegt“ sem Gnarr var kosinn útá?

  • Fínar hugmyndir með Hagatorgið. Einnig að gera Hofsvallagötu að boulevard með trjám, hjólastígum og minna malbiki. Bendi á að rétt sé að gera hið sama við Kaplaskjólsveg og opna hann út á Hringbraut a. m.k fyrir hægri beygju til austurs.

    Mikilvægast er að þrengja að bílaumferðinni, þannig hægist á henni. Þetta gerist með þrengri götum og hraðahindrunum.

    Ég held að skoða verði allar götur í heild eins og við gerðum í (gamla) Vesturbænum fyrir meira en 30 árum þegar við lokuðum Vesturgötunni fyrir gegnumumferð Seltirninga með einstefnu vestast í götunni, settum hraðahindranir á völdum stöðum og fengum 30km hámarkshraða. (Fyrsta hverfið í borginni)

  • Vil benda á að það er líka keyrt alltof hratt á hinum hluta Hofsvallagötunnar, þ.e. milli Túngötu og Hverfisgötu. Finnst þurfa að hafa það einnig í huga í þessari vinnu.

  • Steinarr Kr.

    Legg til að menn lesi blogg Gísla Marteins á Eyjunni, þar eru fleiri upplýsingar.

  • Logi Björnsson

    Flottar hugmyndir en því miður með einum stórum galla (frá mínu sjálfhverfa sjónarhorni 😉 ).

    Ef Hofsvallagatann verður að vistgötu við Melabúðina þá mun það þýða að enn muni aukast umferðin gegnum Hagamel til vesturs og er hún nógu mikil og nógu hröð fyrir.

    Ef Hagamelur (að minnsta kosti vestan megin við Hofsvallagötuna) yrði einnig gerður að vistgötu og enn mikilvægara að hún yrði gerð að botnlanga við Kaplaskjólsveg þá gætum við minnkað þá gríðarlegu og hröðu umferð sem fer þarna um daglega í dag. Þetta er 30km/h gata í dag en ég er viss ef lögreglan myndi mæla þarna á venjulegum degi þá færu allt að 50% bíla á +50km/h.

    kveðja
    Logi

  • Sveinn Jónsson

    Afsakið……þarna í skólaumhverfinu átti að standa

  • Sveinn Jónsson

    Þetta er ekki eins róttækt og sýnist. Hagamelur og Dunhagi geta vel borið umferðina sem nú er á Fornhaga og Neshaga. Mér finnst ekki eins vitlaust og sumum að hafa þarna litinn duftkirkjugarð og styð eidregið að þarna sé gerði með skepnum eins og ám og geitum. Það er uppeldislega skynsamlegt þarna i skaumhverfinu

  • Góðir punktar hjá þér Steinarr. Ég man að Egill Helgason vitnaði einhverntíman í að Guðmundur Andri Thorsson hefði kallað Hagatorg: Champs Elysees Reykjavíkur.

  • Steinarr Kr.

    Smá söguleg tilvitnun. Melaskóli er byggður í boga, sem rímar við hringtorgið, þannig að ef það fer, slitnar þessi tenging. Það er eiginlega synd að aðrar byggingar, sem allar komu síðar skyldu ekki hafa haldið áfram með þessa hugsun, en þá hefði torgið þarna haft yfir sér heilstæðari svip.

    Síðan er allt í lagi að til séu stór græn svæði (eins og torgið er) sem eru ekki notuð á neinn hátt. Svona svæði virka sem lungu og opna svæði upp.

    Finst líka vanta að hugað sé að svæðinu í kring um Vesturbæjarlaug, þar er stórt afgirt tún sem ekki er nýtt á neinn hátt og er eflaust í eigu borgarinnar.

  • Ingibjörg Dalberg

    Hugmyndir Hilmars eru afar áhugaverðar, manneskjulegar og hlýlegar. Eins og kemur fram hjá Gísla Marteini virðumst við vera ,,grænni“ en margir aðrir borgarbúar og því sýnist mér tillaga Hilmars henta okkur aldeilis vel. Auðvitað róttæk, en það er bara spennandi. Hofsvallagötunni verður að breyta frá núverandi formi.
    Hofsvallagatan hefur í áranna rás orðið hraðbraut fyrir Seltirninga. Rúm 90% bíla sem aka á ofsahraða suður götuna beygja til hægri vesturúr. Ég er Stefáni Guðmundssyni sammála um úrræði; Seltirningar eiga ekki að nýta Hofsvallagötuna sem hraðbraut til síns heima og stofna íbúum, sér í lagi börnum í lífshættu.
    Tillögur okkar sem búum við götuna eru nokkurn veginn svona:
    1) Hámarkshraði lækkaður í 30 km eins og allar aðrar götur í hverfinu.
    2) Hraðahindranir og zebra stígar.
    3) Hægri akrein til vesturs fjarlægð við Ægisíðu.
    4) Afmörkuð bílastæði, eins og við allar aðrar götur í hverfinu.
    Svo má að sjálfsögðu gera hjólastíga… þó ég sjái ekki hvernig það verður gert án þess að bílastæði verði fjarlægð frá íbúum. Eins og sumir segja:,,Not in my back garden“ : )
    Hlökkum til að heyra meira á morgun á Sögu!

  • Tjörvi Bjarnason

    Áhugaverðar hugmyndir sem þarna koma fram – það er rétt að það þarf að hægja á umferðinni í Vesturbænum og víðar en tilraunir til þess hafa gjarnan mistekist að mínu mati. Að búa til einstefnugötur er ekki alltaf lausnin, eins og t.d. Suðurgatan við kirkjugarðinn og Vesturgatan sanna. Maður er í endalausum hringakstri.

    Stóru göturnar eru vandamál og Hringbrautin kannski sú varasamasta. Ég bý á Ránargötu og verð að segja að Tryggvagatan og Mýrargatan eru veruleg ógn við krakkana mína sem eru komin á þann aldur að vilja skoða heiminn. Hvernig er hægt að tempra umferðaræðar eins og þessar?

    Varðandi Hagatorgið þá er tilgangsleysi þess nær algjört. Ég starfa í höll bænda og sæi það sem jákvæðan hlut fyrir Hótel Sögu að gera breytingar á skipulagi torgsins. En frábið mér að fá duftkirkjugarð fyrir framan lobbýið! Það kunna að finnast einhverjir í kristilega armi Framsóknarflokksins sem hrífast af þeirri hugmynd en má ég þá frekar biðja um hross eða sauðfé á beit!

    /TB

  • Virkilega forvitnilegar tillögur! Mér hefur einmitt alltaf fundist Hagatorg vannýtt svæði, bara risastórt ekki neitt.

  • Þakka þér Hilmar enn og aftur fyrir þín góðu skrif hér.

    Þá vil ég líka þakka góðar og innihaldsríkar umræður hérna, sem ég held að endurspegli vel mismunandi sjónarmið í þessum málum.

    Hugmyndir Hilmars eru fremur róttækar, og það verður gaman að sjá hvernig þeim verður tekið á fundinum á morgun (fimmtudag) en ég hef fengið leyfi Hilmars til að varpa þeim þar upp. Það er mikilvægt að enginn upplifi þetta þannig að til standi að ‘útrýma bílunum’. Óskir íbúanna eru mjög einfaldar og sanngjarnar að mínu mati: Minni hraða! Þeir sem vilja aka í gegnum hverfið okkar eru velkomnir, og eru hvattir til að versla í Melabúðinni í leiðinni. En þeir þurfa þá líka að sýna þá kurteisi að aka ekki eins og vitleysingar, því þá er gatan ömurleg. Börn skjótast mjög reglulega yfir götuna þar sem engin gönguljós eru. (Börn á austanverðum Reynimel sem eiga leikfélaga vestan Hofsvallagötu hlaupa yfir götuna þar, frekar en að ganga niður að ljósunum við Melabúð og aftur uppeftir). Svo leyni ég því ekki að ég vona að fleiri velji í framtíðinni þá góðu samgöngumáta: fætur, hjól eða strætó annað slagið og blandi því saman við bílferðir sínar.

    Reyndar er það þannig að þótt 70% Reykvíkinga fari einir á bíl til og frá vinnu er þetta hlutfall aðeins um 50% meðal Vesturbæinga.

    Vona að ég sjái ykkur sem flest á Hótel Sögu á morgun og þar gefst tækifæri til að spjalla um þessi mál.

  • Magnús Stefánsson

    @Steinarr,

    Ég er sammála þér að Suðurgatan og Hverfisgatan var fíaskó. Varðandi Hofsvallargötuna, ég get ekki ímyndað mér að nokkur er sáttur við hana eins og hún er. Þá er bara að finna bestu lausn……..

  • Magnús O.

    Bjó þarna rétt hjá þar til fyrir stuttu – nógu og slæmt var að komast að heiman og aftur heim þrátt fyrir það þetta væri ekki komið til framkvæmda.

    Er ólýsanlega ánægður með að vera fluttur og vonandi þarf ég aldrei aftur vestur fyrir Kringlumýrarbraut…..

  • Steinarr Kr.

    @Magnús, skv. pósti sem ég hef séð frá menntasviði Reykjavíkur á að leysa vandamál Melaskóla með lausum kennslustofum, semsagt minka leiksvæði krakkanna. Hvernig kæmi það út þessari grænu hugmynd hér að ofan?

    Hagaskóli getur ekki bætt 7. bekknum við vegna húsnæðisvanda. Þess vegna var ég að benda á að það væri vanhugsað að þétta byggðina í þessu hverfi með því að fjölga íbúðum.

    Ég er einn af þeim sem nota alla mögulega samgöngumáta, bíl, strætó og reiðhjól. Bý í vesturbæ og vinn austan Snorrabrautar. Ég þori ekki að nota fíaskó eins og Suðurgötu eða á sínum tíma Hverfisgötu til að hjóla á. Sem gerir það að verkum að maður tekur öllum hugmyndum um breytingar með mikilli varúð, sérstaklega, eins og ég benti á hér að ofan að oft virðist unnið að einhverjum hugmyndum, án þess að hugsa dæmið til enda.

  • Stefán Guðmundsson

    Ekki hafa áhyggjur af umferðinni. Þessi snilldarhugmynd mun verða til þess að þeir sem eiga erindi úá Seltjarnarnes munu ekki nota Hofsvallagötuna til þess að stytta sér leið, heldur velja leiðina vesturúr, meðfram sjónum(Eiðsgranda(?) út á Nes.

  • Magnús Stefánsson

    @Steinar, reyndar er það ekki alveg rétt hjá þér að skólarnir eru í húsnæðisvanda, Vesturbæjarskóli er það, hinir ekki svo mikið.

    Og ekki hafa svona miklar áhyggjur af „andbílafasistar eins og Besti flokkurinn og Gísli Marteinn“, það er enginn að fara að taka bílinn þinn.

  • Steinarr Kr.

    Þetta eru skemmtilegar hugmyndir sem leggja ætti fram sem grunn að frekari umræðu, en gallalaus er þessi tillaga ekki.

    Það þarf að skoða í þessu samhengi að Hofsvallagata, hvort sem mönnum líkar það eða ekki er stofnbraut í gegn um vesturbæinn. Því verður ekki svo auðveldlega breytt, en ef þið skoðið kort (af stærra svæði en sýnt er hér á myndum) myndar Hofsvallagata með Ægisgötu eina heillega ásinn þvert í norður suður í gegn um hverfið. Þess vegna yrði þessi gata vonlaus sem vistgata, eða alrýmissvæði. Hins vegar má alveg leggja í vinnu að laga götuna til, gera t.d. hjólastíga á hana og þess háttar. Huga jafnvel um götuna alveg frá Ægisíðu og upp að Landakoti.

    Íslendingar eru ekki að fara að hætta að nota einkabílinn og eiginlega síður þegar andbílafasistar eins og Besti flokkurinn og Gísli Marteinn reyna sitt besta (Ég er sjálfur Sjálfstæðismaður og hef stutt Gísla Martein).

    Síðan veltir maður fyrir sér þörfinni á frekari byggingum á þessu svæði, m.a. með tilliti til þess að skólarnir í vesturbæ eru nú þegar í húsnæðisvandamálum. Þarna þarf að hugsa heilstætt líka.

  • Magnús Stefánsson

    Flottar tillögur, þið fáið mitt atkvæði.

    mbk
    Magnús
    Neshagi 13

  • Algjörlega sammála GH algjör snilld að breyta þessu í rómantískt skautasvell í staðin fyrir þetta auða Hagatorg. Dagskráin yrði þá cirka svona…..skella sér á skauta, svo í Vesturbæjarlaugina……..og enda svo í gamla ísnum í ísbúðinni frægu. Kveðja Maxi

  • mjög áhugaverðar tillögur, það sem íbúar í nærliggjandi götum hafa væntanlega mestar áhyggjur af er hvert umferðin í hverfinu muni færast við þetta, því jú fólk hættir ekki að keyra heldur velur sér aðrar leiðir.

    en annars þá hef ég alltaf séð Hagatorgið fyrir mér sem skautasvell á veturna ekki ósvipað svellinu sem er á Kongens Nytorv í Köben.

  • Páll Baldvin Baldvinsson

    Skemmtilegar illögur en miðast við þrönga hagsmuni. Suðurbæjarparturinn af svokölluðum Vesturbæ hefur alltaf verið dálítið sjálfhverfur. Bæði svæðin eru illa hugsuð og sjálfsagt að þrengaj umferð um þau þó gott væri að vita hvaða áhrif það hefur, færist umfrðarþungi til. Það var raunin þegar einstefna var sett á Vesturgötu, Öldugötu og Bárugötu, umferðin lagðist með þunga á Túngötu og Tryggvagötu svo þær eru núna illfærar gangandi, beljandi bílafljót.

    Hofsvallagatan er friðsöm þarna niðurfrá, en háskaleg frá rótum Túngötu þar sem hún er við grunnskóla, kirkju og elliheimili/sjúkrahús. Það er alltaf hættan þegar ráðist er í svona lausnir (reyndar svo dýrar að það verður örugglega ekki af þeim – við erum enn að bíða eftir viðbyggingu við Sundlaug Vesturbæjar sem var gerð 1956) að vandinn færist til.

    Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að svokallaður vesturbær ætti aðeins að ná að Hringbraut og þar fyrir sunnan taki við annað hverfi – Melarnir, Sauðagerðissvæðið og Kaplaskjólin. Allt eru þetta gömul nöfn, sum lifa önnur eru gleumd. þannig lá gamli Sandvíkurvegurinn einmitt gegnum Hagatorgið – aldagömul leið. það er ekki síst vegna .þess að hagsmunir okkar sem búum norðanvið Hringbraut eru allt aðrir en þeirra sem búa sunnanvið – eins og þessar fallegu tillögur bera gott vitni um.

    Páll Baldvin Baldvinsson

  • Jón Guðmundsson

    Þetta eru frábærarar tillögur, það ætti að vera borðleggjandi að virkja landflæmi hringtorgsins fyrir fólk og gróður.
    Þetta er skólabókardæmi um hvernig er hægt að sækja verðmætt land úr helgreip bílismans.

  • Egill Helgason

    Flottar hugmyndir!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn