Mánudagur 12.08.2013 - 19:55 - 12 ummæli

Víkurkirkjugarður og Landsímareitur

Geir biskup góði (1761-1823)

Eftirfarandi grein barst síðunni frá Örnólfi Hall arkitekt f.a.í.  Í fylgibréfi segir höfundur að ekki megi túlka skrifin sem gagnrýni á það vandaða  deiliskipulag sem nýlega var samþykkt á svokölluðum Landsímareit, heldur er tilgangurinn með greininni að minna á minninga-og sögulegt gildi Víkurgarðs. En eins og fram kemur eru þarna jarðsettar 30 kynslóðir Reykvíkinga. Þetta er fróðleg og skemmtileg grein sem hér má lesa. Efst er mynd af Geir Vídalín, biskupi góða (1761-1823) og neðst er teikning höfundar sem sýnir umfang Víkurkirkjugarðs á sínum tíma.

Um Víkurkirkjugarð

Á upplýsingasíðu Reykjavíkurprófastsdæma frá 2002 er saga kirkjugarða í Reykjavík rakin í stuttu máli. Segir þar um kirkjugarðinn við Aðalstræti að kirkja hafi risið við höfðingjasetrið í Reykjavík eftir að kristni var innleidd á Þingvöllum árið 1000. Talið er að Þormóður, sonur Þorkels mána, hafi látið reisa kirkju framan við bæ sinn og reist grafreit umhverfis hann. Staður þessi var þar sem nú eru mót Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Segir þar að Víkurgarður hafi síðar verið nefndur Fógetagarðurinn og hann hafi enst Reykvíkingum til greftrunar í rúm 800 ár. Var hann 40×80 metrar að flatarmáli þegar hætt var að nota hann árið 1838. Þá segir einnig að ætla megi að jarðneskar leifar 30 kynslóða Reykvíkinga hvíli í garðinum.

Samkvæmt uppgefinni stærð hefur garðurinn náð vel undir núverandi byggingar til norðurs og austurs og að hlið Austurvallar sem snýr að Thorvaldsenstræti.Schierbeck landlæknir fékk svo leyfi bæjaryfirvalda árið 1883 til breyta kirkjugarðinum í skrúðgarð.

Á fræðsluskildi í Fógetagarðinum stendur: Kirkjugarður Reykvíkinga frá upphafi kristni til 1838. Síðast jarðsett 1883. Hér stóð Víkurkirkja til 1796.

Geir Vídalín biskup og kirkjugarðurinn

Einn þeirra merku manna sem hvíla í Víkurkirkjugarði er Geir biskup Vídalín (1761-1823) sem alþýðan kallaði „hinn góða“ vegna manngæsku hans og örlætis.

Geir biskup góði lét stækka kirkjugarðinn til austurs þegar þrengja tók um greftrunarpláss í garðinum. Síðar tóku ráðamenn af honum völd, og jafnframt fjárráð, þegar í óefni var komið varðandi fjármál biskupsstólsins. Geir er sá eini af biskupum landsins sem hefur verið úrskurðaður gjaldþrota, sökum gafmildi sinnar og gæsku. Boð Herra síns rækti hann út í ystu æsar. Við öreigakost bjó hann síðan í einu af húsum Skúla fógeta, frænda síns, til dauðadags 1823 og var jarðaður í þeim hluta (Reit Geirs) garðsinssem hann hafði látið stækka og svo vígt.

 Hjá Espólín má finna frásögn af útför Herra Geirs en þar segir á þá leið að engum hafi verið boðið til hennar nema þeim sem honum skyldu fylgja. Embættismenn og stúdentar skiptust þá gjarnan um að bera níðþunga kistu sem var gerð af heilum plönkum með skrúfnöglum og vó umgerðinnærri fjórum vættum. Þrek- og gildvaxinn Geir var fullar fjórar vættir sjálfur. – Fjórar vættir töldust um 160 kg. Þannig að biskup og kista hafa vegið um 320 kg. Hér mun því hafa þurft til heila tylft embættismanna eða stúdenta.

 Gæti  það gerst að kista og bein biskupsins góða og velgjörðarmanns hinna snauðu í Reykjavík kæmu í ljós þegar farið verður grafa fyrir nýbyggingum eða kemst hann hjá yfirvofandi raski og fær að hvílaþarna áfram í ró og spekt og þá e.t.v. með spaka túrista sem nágranna?

Nýja deiliskipulagið á Landssímareitnum

Mönnum hefur verið tíðrætt um nýja deiliskipulagið á Landssímareitnum og menningar-verðmætin þar, Víkurkirkjugarð og legstaði.- Samkvæmt þessu skipulagi fær Víkurkirkjugarður svokallaða hverfisvernd sem á að vera sama eðlis og gildir fyrir Hólavallakirkjugarð (þ.e.a.s. vernd frá sjónarmiði menningarsögu, minningarmarka og skipulögð vöktun sérstaks trjágróðurs).

Við lagningu símalína (undir gangstéttum) umhverfis garðinn, á 6. áratugnum, virðist lítil nærgætni eða virðing (grafarhelgi) hafa verið viðhöfð. Mannabein, leggir og jafnvel höfuðbein, lágu á víð og dreif í uppmokstrinum eins og fram kemur í fréttum á þeim tíma.

 Þór Magnússon fv. þjóðminjavörður skrifaði athyglisverða grein í Mbl. fyrir nokkru undir fyrirsögninni: Hver á kirkjugarðinn? Þar segir Þór meðal annars: „Nú er boðað að breyta eigi Landsímahúsinu í hótel og viðbygging skuli ná út að Kirkjustræti. Ef að líkum lætur mun það stórhýsi fara verulega út í kirkjugarðinn. Þá má spyrja: Hver á kirkjugarðinn? Mega skipulagsyfirvöld ráðstafa kirkjugarðsstæði, legstöðum, eftir sinni þóknan?“

Rétt er að árétta orð Þórs í greininni: „Ástæða er til að fara sér hægt, kanna mörk hins gamla kirkjugarðs og ganga síðan frá honum eins og kirkjugarði sæmir.“

 Hver er aðkoma  Biskupsembættis og viðkomandi sóknarnefndar að þessu skipulagi?

Hvað varð um tillögu um fornleifagröft á svæðinu semlögð var fyrir borgarráð fyrir rúmum áratug?

 

30 kynslóðir Reykvíkinga hvíla í garðinum-lett

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    Hvenær var Víkurkirkjugarður lagður niður, þ.e. legsteinarnir fjarlægðir og reitnum umbreytt í e-k almenningsgarð?

    Og hvað varð um legsteinana? Ég veit um legstein sem sat í grjóthleðslu í Grjótaþorpi (og er enn til) svo eðlilegt er að álykta að hann sé ættaður úr Víkurkirkjugarði. Kannski var mönnum frjálst að hirða legsteinana þegar þeim var rutt burt, hvenær sem það nú var, og nota í eitthvað praktískt.

    Ég man eftir því þegar var verið að grafa mikla skurði í garðinum — allt svæðið var gjörsamlega undirlagt. Ég hef verið svona þriggja eða fjögurra svo þetta var fyrir 1960. Verkamennirnir (það var náttúrlega grafið með skóflum) röðuðu hauskúpunum og lærleggjunum og öðrum heillegum beinum jafnóðum á skurðbarmana. Þetta var mjög dramatísk sjón og ekki skrítið að maður skuli muna þetta.

    En það er mjög mikil synd að borgaryfirvöld skuli ekki hafa áhuga á að heiðra minningu þessa forna grafreits reykvíkinga með því á einhvern hátt uppfæra þennan litla blett með tilvísunum til fortíðar og sögu og skapa „quiet spot in future busy downtown, a place to chill, to relax, even to meditate“ eins og Norbert Grabensteiner kemst að orði.

    • Örnólfur Hall

      —Það er mjög athyglisvert þetta sem Anna Th. segir og lýsir og ég þakka henni kærlega fyrir þetta innlegg. – Æðibunu- og gleypugangurinn og vanvirðan virðist stundum ekki eiga sér nein takmörk þegar til framkvæmda kemur sem kosta mikla peninga. — Þá skifta bein og hauskúpur forfeðranna engu máli og allir þegja líka Kirkjan og prestastéttin sem mega gjarnan skammast sín fyrir þögnina..—Ég skil það vel að Anna muni þetta ljóst eftir að hafa horft á þetta sem lítið barn. Þessa dramatísku uppstillingu á hauskúpunum og beinunum. — Ég er hissa á áhugaleysi núverandi borgaryfirvalda á þessum grafreit 30 kynslóða Reykvíkinga.

  • Heimir Janusarson

    Hver á aflagðann kirkjugarð?Samkv lögum um kirkjugarða er það á hreinu.

    .33. gr. Niðurlagðan kirkjugarð má ekki nota til neins þess sem óviðeigandi er að dómi prófasts (prófasta). Ekki má þar jarðrask gera né reisa nein mannvirki. Þó getur [ráðuneytið]1) veitt undanþágu frá þessu, að fengnu samþykki [kirkjugarðaráðs].2)

  • Páll Torfi Önundarson

    Mín tillaga er þessi:

    1. Fjarlægja Landssímahúsið og opna Austurvöll yfir Víkurkirkjugarð alveg að Aðalstræti. Þá mun bæði kvöld- og morgunsólar njóta í stækkuðum garði/torgi miðsvæðis í Reykjavík og látnum Reykvíkingum yrði sýndur sómi. Að auki munu þá fallegu húsin í Aðalstræti blasa við frá Austurvelli – og „NASA“ standa áfram.

    2. Byggja á Ingólfstorgi, t.d. nýtt hótel, og reyna að láta það hús ríma við gamla bæinn; myndi e.t.v. vera möguleiki að fá MBL höllina til að ríma við bæinn með þessum hætti. Hugsa að veðursælla yrði á stækkuðum Austurvelli heldur en á Ingólfstorgi. Rímar þetta ekki dálítið við tillögur Norberts hér að ofan?

    Þessi tillaga er dálítið í stíl við tillögu mína um stækkun Landspítala þannig að rími við eldri byggð og að tryggja fergurðina, ekki bara functionalitet.

  • Garðar Garðarsson

    Bygging alveg út við Kirkjustrætið mun verða til þess að ekki mun notið sólar í Víkurgarði á morgnana. Og eftir kl. 6 á kvöldin munu nýbyggingarnar sinn hvoru megin við Landsímahúsið og svo hækkun Landsímahússins auka skuggavarp inn á Austurvöll töluvert, t.d. mun sólríkt útisvæði gesta veitingastaða við Vallarstrætið minnka töluvert á kvöldin og það mun fyrr en nú er.

  • Eftir að hafa gert mér mynd í huganum af tillögu Grabensteiner þá er ég heillaður. Hin sögulega vídd (hugtak Hjörleifs Stefánssonar) skiptir mjög miklu máli. Ég gæti séð nöfn, fæðingardag og dánardag allra þeirra sem jarðsettir hafa verið í Víkurkirkjugarði greypta í steinbekki kirkjunnar eins og Grabensteiner lýsir þeim. Þetta eru kannski svona 4000-6000 nöfn(?) Bekkirnir munu upplifast sem nytjaskúlptúr til hvíldar og „a place to chill“ ens og sagt er

  • Hilmar Þór

    Norbert.

    Þakka þér fyrir athugasemdina sem er sanngjörn og rétt. Áður en lengra er haldið skal það upplýst að ég var einn af þeim sjö einstaklingum sem sátu í dómnefnd í samkeppni um svokallaðann Landsímareit á sínum tíma. Þáttakendur í samkeppninni áttu einnig að setja fram tillögur um frágang opnu svæðanna tveggja, Ingólfstorgs og Vikurgarðs.

    Samkeppnin var afskaplega flókin og voru þar á vogarskálunum ekki bara útisvæðin tvö heldur einnig deiliskipulagið með húsahæðum og starfssemi heldur einnig innra fyrirkomulag húsanna og útlit þeirra.

    Þetta var ekki auðvelt og oft var það þannig að einstakir höfundar lögðu fram framúrskarandi lausnir á einstökum hlutum verkefnisins meðan að eitthvað vantaði á annarsstaðar. Þetta var allt skoðað og raðað í forgangsröð. Niðurstaða náðist sem almenn sátt var um í dómnefnd. Vafalaust var enginn dómnefndarmaður fullkomlega sáttur. Og hefðu vafalaust flestir dómaranna viljað hafa niðurstöðuna eitthvað öðruvísi. En samkomiulag náðist um röðun í verðlaunasæti og sú niðurstaða hefur verið kynnt og rökstudd.

    Varðandi ykkar lausn á Víkurgarði þá er hún mjög áugaverð og nokkuð í takti við þessa færslu hér á vefnum.

    Mér þætti fullkomlega ástæða til þess að þú hefðir samband við oddvita fyrstuverðlaunahafa, Pál Gunnlaugsson sem skrifar hér að ofan, og kynntir honum hugmynd ykkar. Því var nefnilega þannig háttað að í deiliskipulaginu sem samþykkt hefur verið er nánast ekkert unnið með útisvæðin og fullkomlega eðlilegt að skoða ykkar hugmyndir varðandi Víkurgarð í því ljósi enda er hún mjög góð og gefur tækifæri til frekari þróunnar á margvíslegan hátt.

    Ég fjallaði um deiliskipulagið fyrir nokkru og nefndi einmitt að útisvæðunum væri illa eða lítið gerð skil í deiliskipulaginu. Kannski má lagfæra það með því að þróa ykkar hugmynd.

    Slóðina má finna hér.

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/02/21/framurskarandi-deiliskipulag-landsimareitur/

    Þú afsakar að ég skrifi á íslensku. Þú bjargar því einhvernveginn.

    • Örnólfur Hall

      Við lestur pistils virðist mér tillaga Norberts Grabensteiners og félaga mjög áhugaverð og heillandi og væri fróðlegt að fá að skoða hana nánar. – Eins tek ég eindregið undir með Eysteini.

    • Örnólfur Hall

      Hvar má nágast ‘concept’ Gabensteiners, Hilmar ?

  • Dear Hilmar,
    our concept in the competition for Kvosin was one of few trying to excavate the layer of historical ground. Create a quiet spot in future busy downtown, a place to chill, to relax, even to meditate. We suggested to bring up the floorplan of Reykjavik’s first church, have a standing stone on the former place of the Altar, have laying stones (cubes) where benches might have been. And in addition no big building between Landsimahus and Kirkjustraeti.
    Bring up a spot making the city richer with a special quality based on the history in the interpretation of today to transform it in to the brain of the city and their people.
    Like the article very much, thanks for that.

  • Páll Gunnlaugsson

    Við Örnólfur ætlum að standa á „grafarbakkanum“ og leita langafa hans þegar að því kemur. Fróðleg grein hjá Örnólfi.

    • Örnólfur Hall

      — Kollegi Páll minnist á langafa minn. – Það var af ráðnum hug að ég nefndi hann, Rasmus P. Hall (1819-1869), ekki til sögu í greininni. – Ég hef það ekki staðfest að hann hvíli þarna eins og Geir góði en það eru mjög sterkar líkur á því. Hann finnst hvergi í Hólavallakirkjugarði en þar liggur langamma, Anna M. Hall (sem dó 1912) ein með sér umgerði. – Fróður safnvörður, um efnið (kirkju-registur o.fl.), tók undir þetta með mér. – Formlega var hætt að grafa þarna 1838 en þó ekki alveg og síðast var grafið þar 1883.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn