Miðvikudagur 12.05.2010 - 19:41 - 12 ummæli

Vísinda- og stúdentagarðar við HÍ

 

05141-05-greinargerd-torgx

Í sýningarsal Skipulags- og byggingasviðs Reykjavíkur stendur nú yfir kynning á nýrri deiliskipulagstillögu við Sturlugötu nálægt Háskóla Íslands. Svæðið er vestan við Íslenska erfðagreiningu og sunnan Norræna hússins.  Tillagan er unnin af arkitektastofunni ASK í Reykjavík.

Markmiðið er að beina ákveðnum þáttum tækni- og rannsóknarsamfélagsins ásamt súdentagörðum inn á svæðið og tengja það starfssemi Háskóla Íslands.

Ég var að skoða tillöguna og þótti hún athyglisverð. Þarna eru öll hlutföll manneskjuleg og það er búið til umhverfi þar sem verður iðandi götulíf á togum og strætum. Þetta er blönduð byggð með rannsóknar- og kennslustarfssem ásamt rúmlega 300 íbúðum í stúdentagörðum. Stórkallalegum skýjaborgum sem áður voru á teikniborðinu á þessum stað hefur verið sópað til hliðar. Nú eru aðrir og huggulegri tímar og góðærishugmyndir eru farnar veg allrar veraldar.

Miðsvæðis í skipulaginu er gert ráð fyrir torgi þar sem verður þjónustuhús með fyrirlestrarsölum bóksölu, kaffihúsi o.s.frv.

Alls er um að ræða rúmlega 70 þúsund fermetra húsnæðis. Til viðmiðunar þá er það svipað magn og nýbyggingar þær sem fyrirhugað er að byggja við Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut eða tvöfalt það byggingarmagn sem Háskólinn í Reykjavík hefur í huga að byggja í Nauthólsvík.

Í greinargerð skipulagsins er lýst umhverfisstefnu þar sem áhersla er lögð á umhverfi, heilsu, borgarbrag.

Einnig er athyglisvert að í greinargerð er ætlast til að allar byggingar verði vistvænar og vottaðar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þar sem áherslan er lögð atriði á borð við heilsu, vellíðan, orkunotkun, samgöngur, byggingarefni, úrgang, landnotkun og mengun.  Þá er gerð grein fyrir ”vistvænni samgöngustefnu”,  þ.e.a.s. ferðamáta gangandi og hjólandi ásamt almenningssamgöngum. Gjald verður tekið af bílastæðum samkvæmt skipulaginu.

Eftir að ákveðið hafði verið að byggja Háskólann í Reykjavík í Nauthólsvík var Páll Skúlason fyrrverandi rektor Háskóla Íslands spurður í sjónvarpsviðtali hvað honum fyndist um að fá Háskólann í Reykjavík svona nálægt HÍ?  Hann svaraði því til að hann hefði gjarna viljað hafa hann enn nær.

Ég hef oft velt þessu svari Páls fyrir mér og þetta kemur aftur upp í hugann nú þegar maður sér að það er hægt með hógværum hætti að koma þarna fyrir byggingarmagni sem telur rúmlega 70 þúsund fermetra. Þetta er,  eins og áður er getið,  helmingi meira en HR hefur áform um að byggja í Nauthólsvík enn sem komið er. 

Bygging Háskólans í Reykjavík sem er eins og oft hefur komið fram og rökstutt, eitt af stærstu skipulagsslysum borgarinnar. Það má halda því fram að svar Páls og hugmyndin um að byggja HR nær HÍ hafi verið raunhæf og synd að skipulagsyfirvöld hafi ekki skoðað þennan möguleika á sínum tíma þegar staðarvalið var ákveðið

Hér að neðan koma tvær teikningar. Önnur sem sýnir byggðina úr lofti.  Efst til vinstri sést Oddi sem er bygging Háskóla Íslands. Að ofan er Norræna Húsið og Askja. Til hægri sést bygging Íslenskrar erfðagreiningar.

Á neðri teikningunni sést torg þar sem verða verslanir og kaffihús ásamt þjónustuhúsi fyrir fyrirlestrarsali og fl.

Loftmynd

Torg

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Guðmundur Guðmundsson

    „Vinna hér, búa þar “ Hefur verið eins konar náttúrulögmál í borgarskipulagsmálum síðustu áratugina. Það er ekki spurt hversu margar leiguíbúðir/stúdentabústaði vanti á svæðinu. Umræðan snýst um fjölda bílastæða og gjaldskyldu. Vonandi verður einhver hugarfarsbreyting í skipulagsmálum eftir þessar sö0gulegu kosningar.
    Umræðan á þessum vettvangi á fullt erindi inn á borð hjá nýrri borgarstjórn.

  • Þetta er framför svo mikið er víst. Ég mundi samt gera fyrirvara við hæð bygginga. Hæð þeirra flestra ætti að vera á bilinu 3-4 hæðir og engin hærri en ca. 6 hæðir. Bílastæði eru þarna líka of mörg í kringum byggingarnar og í kjöllurum. Er ekki kominn tími til að skipuleggja 1-2 bílastæðahús fyrir HÍ með gjaldtöku? Við byggingar ættu að vera fá stæði með hárri gjaldtöku til að tryggja að ávallt verði stæði til reiðu fyrir stuttar heimsóknir. Göngufjarlægð frá bílastæðahúsi mætti vera allt að 5-600 m. Að nota einkabíl er val og engin ástæða til að niðurgreiða þann lífsstíl með ókeypis bílastæðum. Í HR eyddi Reykjavíkurborg um 800 milljónum í að niðurgreiða þennan lífsstíl fólks.

  • Ég sé ekki betur en að mikið sé unnið með 4-5 hæða byggingar. Ef það er rétt þá verður bæði kalt og dimmt þarna, sólarlausir innigarðar sem líta svo vel út á myndum en eru andstyggilegir í raun. Ég sé ekki þessi „manneskjulegu hlutföll… iðandi mannlíf…. bóksölu og kaffihús.“ Mér finnst þetta enn vera svakalega 2007 og byggingarmagnið bendir eindregið til þess að svo sé. Ég tek þó undir með Árna að þarna eru notaðar hefðbundnar og margreyndar skipulagsaðferðir sem geta virkað vel ef menn eru raunsæir.

  • Þakka þér ummælin Árni.

    Það þekkja allir Musee D’Orsay í París. Þar var áður járnbrautarstöð en er nú eitt besta listasafn borgarinnar. Byggingin er sú sama starfssemin önnur.

    Það er til hús í miðborg Rómar sem var byggt fyrir öldum fyrir aðalsmann og hans fjölskyldu og þjónustulið. Seinna var það notað sem hótel og síðar sláturhús. Svo aftur íbúðahús fyrir dreggjar samfélagsins. Nú er það hótel enn á ný. En alltaf er þetta sama húsið að stofni til.

    Ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu að byggingar HR geti orðið að flugstöð einhverntíma. Með brú yfir á Kársnes og þaðan út á Álftarnes er flugvöllurinn í góðu sambandi við allt höfuðborgarsvæðið.

  • Árni Ólafsson

    Ánægjulegt að sjá loksins skipulagstillögu, þar sem unnið er með hefðbundna borgarmynd með götum, torgum og görðum. Það er engin ástæða til þess að láta þarfir bílaháðs fólks móta allt bæjarumhverfið.

    Hilmar – mætti ekki skoða möguleika á því að nota byggingar HR sem flugstöð – eða samgöngumiðstöð? Staðurinn er væntanlega nærtækari fyrir þá starfsemi en háskóla.

  • Gaman væri að fá svona stutta umfjöllun um deiliskipulög, stór og smá, meðan þau eru í kynningu.

    Og ekki bara þau góðu og framsýnu eins og þetta.

    Það er full ástæða til þess að fjalla um lélegu skipulögin. Jafnvel ennfrekar einmitt lélegu skipulagshugmyndirnar.

    Ég held að það sé óþarfi að vera svartsýnn Ástvaldur.

    Annars var ég á fundi Torfusamtakanna áðan. Þar kom fram að allir stjórnmálaflokkarnir vilja vel í húsverndarmálum. Það er bara eins og þeir geti það ekki.

  • Ástvaldur Tryggvason

    Ég held að það sé borin von að þessi tillaga verði að veruleika, til þess er hún alltof góð. Það er vitað að borgaryfirvöld í Reykjavík velja alltaf lakasta kostinn, það sanna dæmin.

  • Ólafur Gísli Reynisson

    Lögð er áhersla á gróðursetningu sk. götutrjáa sem einnig brjóta niður vind en ætli skoðað hafi verið hvernig þetta kemur út í ríkjandi austanátt?

  • Hákon Hrafn

    Flott umfjöllun. Ég vinn í HÍ og eitt það fyrsta sem ég gerði þegar ég byrjaði þar árið 2006 var að senda inn tillögu um að gera öll bílastæði skólans gjaldskyld. Það varð nú ekki að veruleika og sumir voru ekki „hrifnir“ af þessu, töluðu nánast eins og taka ætti öll mannréttindi af þeim. Hinsvegar var tekin upp gjaldskylda í „Skeifunni“ fyrir framan skólann og það þýðir það að maður fær alltaf bílastæði þar þegar maður þarf.

  • stefán benediktsson

    Johann! Með því að byggja íbúðir sem næst þessum stóru vinnustöðum og Sveinbjörn, skipulagsyfirvöld eiga sinn þátt í þesari framför.

  • Sveinbjörn Sigurðsson

    Þarna er um stórkostlega framför að ræða. Það hefur aldrei gerst að byggðir séu yfir 70 þúsund fermetrar af íbúða, atvinnu og skólabyggingum án gjaldlausra bílastæða.

    Háskólaumhverfi og íbúðasvæði fyrir stúdenta er kjörið umhverfi fyrir gjaldskild bifreiðastæði. Hugmyndir sem þessar mnu styrkja almenningsvagnakerfið og heilbrigðann ferðamáta eins og ganga og hjólreiðar

    Ég óska borginni, háskólanum og arkitektunum til hamingju með áræðið og frumkvæðið.

  • Og þá spyr ég hvernig í ósköpunum eigum við að geta höndlað enn meiri umferð á þetta svæði? Sama þó þetta sé vistvænt og allt það þá er því orði alltaf hent fram. Þetta bara gengur ekki upp.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn