Föstudagur 28.08.2015 - 00:04 - 13 ummæli

„You put your eyes in your pocket…….“

image

 

Fyrir réttum 6 árum byrjaði ég að blogga um arkitektúr, skipulag og staðarprýði.  Í fyrstu færslunni vitnaði  ég í 50 ára gamalt lag lag eftir Bob Dylan. þar sem hann segir: “ Something is happening here but you dont know what it is, do you, Mr. Jones?“

Þetta er úr laginu The Ballad of a Thin man af plötunni „Highway 61 Revisited“ frá árinu 1965. Þá var Dylan 24 ára gamall.

Dylan reynir ekki að skýra út kveðskap sinn enda veit hann eins og margir listamenn að um leið og hann fer að skýra út verkið er hætta á að hann tali listina úr listaverkinu.  En kunnugir segja hinsvegar að textinn fjalli um blaðamenn sem vita að eitthvað sé að gerast en skilja ekki hvað það er og spyrja í framhaldinu rangra spurninga.

Aðrir segja að Dylan hafi verið að fjalla um apana þrjá sem ekkert vilja segja, ekkert vilja sjá og ekkert vilja heyra!

Mér finnst almenn umræða um arkitektúr og skipulag bera keim af þessu. Fólk vill ekkert heyra eða sjá og þorir ekkert að segja. Allt virðist hagsmunatengt. Fólk heyrir það og sér sem gagnast því og segir bara það sem það hefur persónulegan hag af.

Á einum staðí laginu  segir Dylan .: „You put your eyes in your pocket and your nose on the ground. There ought to be a law against you coming around“.

Ætli Dylan hafi fundist hann vera að syngja fyrir  „girðingastaura“ þegar hann kyrjaði þetta eða var hann að segja því að þau væru eins og girðingastaurar?

Hér að neðst er svo mynd af öpunum þrem ásamt myndbandi  þar sem Dylan syngur „Ballad of a thin man“.

Endilega hlustið og íhugið textann.

 

Í fyrstu færslunni, fyrir sex árum, lagði ég út af  málverkinu “L´enigma di una giornata” (gáta dagsins (?) eftir ítalann Chirico.

Mig langar að ljúka þessum skrifum og þakka fyrir mig með því að skoða annað málverk sem sjá má efst í færslunni.  Málverkið sem varð fyrir valinu er eftir einn af bestu málurum landsins, Sigurð Örlygsson. Málverkið  frá árinu 1988 og er 180x240cm að stærð.

Málverkið heitir “Meðan skynsemin blundar” og sýnir mann sem er að stökkva upp á einhvern stall eða dökkan, veraldlegan metorðastiga. Eða kannski að falla af honum? Rétt hjá er annar stigi, ljós og gegnsær, kannski huglægur himnastigi. Stekkur maðurinn upp á rangan stiga án þess að ræða það við nokkurn mann?  Eða sér hann betri tækifæri í veraldlega stiganum en hinum háa gegnsæja og bjarta? Hann veit að eitthvað er að gerast en hefur ekki hugmynd um hvað það er og kannski vill hann ekkert vita hvað er að gerast.

Maðurinn hefur fyrir andliti sínu trekt. Spurningin er hvort þetta sé sjónauki sem snýr öfugt? Öfugur snjónauki gerir allt minna en það er í raun. Og þá gildir einu hvort um tækifæri eða ógnanir sé að ræða. Kannski er þetta öfugt gjallarhorn sem gerir allt sem maðurinn segir að litlu eða engu? Eða er þarna þöggun í gangi? Er þetta þöggunartrekt? Er maðurinn múlbundinn?

Og þokan umhverfis allt þetta. Er þetta þoka óvissunnar eða doðans í allri umræðunni?

Leynist  hugsanlega einhverf von í þokunni?

Hver er svo maðurinn? Er hann táknmynd einhvers? Stjórnvalda kannski?  Embættismanna? Táknmynd örlagavalda eða geðlurða? Er hann fulltrúi þeirra sem segja skoðanir sínar en enginn heyrir vegna trektarinnar eða tregðunnar?  Kannski er hann viljalaus og skoðanalaus arkitekt, án fótfestu og svífur þarna eins og fjöður í loftinu, allt eftir því hvernig vindurinn blæs í þeim tilgangi einum að halda bissnissnum gangandi  ……  „bisniss as júsúal“.

Og svo er það kvörnin, er þetta kannski púðurkvörn? Full af orku?

Er hann kannski með augun í vasanum og veit ekkert hvað er að grast? Kannski voru mistök hans að fylgja ekki hjörðinni og vera þýðlyndur. Það gefst oft vel þegar til skamms tíma er litið.

Þetta frábæra málverk setur fram milljón spurningar sem ég ætla ekki að reyna að svara. Spurningarnar og svörin er einungis að finna í augum þeirra sem horfa, heyra og kunna að sjá.

+++

Steen Ejler Rasmussen arkitekt og prófessor á Konunglegu Listaakademiunni í Kaupmannahöfn endaði öll sín skrif með kveðjunni „Med mange venlige hilsener“.  Steen var lærimeistari Halldórs Gunnlaugssonar heiðurfélaga Arkitektafélags Íslands þegar hann las við akademíuna.  Við deild Steen Ejler tók leibeinandi minn og prófessor Jörgen Bo.  Sten Ejler skrifaði reyndar heila bók sem hét þetta „Med mange venlige hilsener. (Gyldendal 1971)

Ég ætla að enda þetta á svipaðan hátt og Steen Ejler segi.:

Með mörgum vingjarnlegum kveðjum.

 

 

 

 

 

 

 


Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Guðfinna

    Er þá umræðan dauð? Þetta var tiltölulega stutt líf. Andlátinu verður saknað af fjöldanum. Arkitektar, embættismenn og stjórnmálamenn fagna eflaust andlátinu í laumi.

  • Jón Páll Hreinsson

    Ég er ekki arkitekt og ég veit ekkert um byggingar, skipulag eða hönnun utan við hina almennu þekkingu sem maður fær úr umhverfinu.

    Ég hef hinsvegar lesið flestar greinarnar á þessum vef með miklum áhuga og ánægju. Hér er að finna hreint ágæta umfjöllun um umhverfi okkar og samfélag rætt af þekkingu og með gagnrýnni hugsun.

    Mér hefur alltaf fundist hugtakið gagnrýn hugsun vera mikilvæg og ég hugsa oft til viðtals sem ég heyrði einhverntíman við Pál Skúlason heitin sem orðaði mikilvægi þess einhvern þannig að: ‘Án gagnrýnnar hugsunar verður engin framför’.

    Þessir pistlar þínir, Hlimar, eru afbragðsdæmi um góða framsetningu af gagnrýnni hugsun og hafa veitt mér innblástur, þrátt fyrir að ég viti ekkert um arkitektur 🙂

  • Jón Helgason.

    WTF
    En verður ekki aðsendum pistlum hleypt að eins og verið hefur?
    Takk og bæ.
    Kv.
    Jón

  • Það er engin leið að „læka“ þegar stórskribent hættir að tjá sig. Eg hef hinsvegar lækað síðuna oftar en mig leggur minni til 🙂

  • Dennis Davíð

    Á þessum tímamótum í lífi þínu Hilmar vil ég þakka þér fyrir upplýsandi, stundum ögrandi og oftast skemmtilegt blogg. Það hefur þann frábæra eiginleika að allir hafa þar jafna möguleika á að leggja orð í belg og taka þátt í umræðunni um arkitektúr og skipulagsmál en tjáningarfrelsið er grundvallaratriði í nútímalegri og upplýstri samfélagsskipan. Mér sýnist að töluvert margir hafi notfært sér það og þá er væntanlega tilgangnum náð. Íslendingar hafa öldum saman ekki látið múlbinda skoðanir sínar, hverjar sem þær eru og ekki heldur umræðuna og verður svo vonandi ekki í bráð. Skoðanir eru ekki einkaeign.

  • Gunnar Gunnarsson

    Hver treystir sér til að halda þessu áfram. Manni finnst eins og það verði tómarúm. Það þarf beitta gagnrýna umræðu um þessi mál.

  • Mange tak!

  • Oddur Hermannsson

    sæll Hilmar og til hamingju með afmælið.
    Pistill þinn er að þessu sinni hvöss gagnrýni og þeir taka það til sín sem eiga.

    Þú hefur farið víða og velt við mörgum steinum. Suma þeirra höfum við náð að skoða saman, þó ekki í bloggheimum. Þér hefur tekist að skapa umræðu og oft á tíðum vakið menn til umhugsunar, þó ekki alltaf. Stundum veigra menn sér við að svara fyrir um stór málefni, rís spítalinn þar kannski hvað hæst. Undrast að einhver ,,kanónan“ skuli ekki hafa miðað á þig með það í huga að hleypa af. Sjálfsagt hafa þær gert það en ákveðið að hætta við, hvellurinn vekur jú eftirtekt og reyknum gæti fylgt bál sem ekki yrði beislað. Menn og dýr hræðast óbeislaðan eldinn.

    Hugsum okkur að við sitjum saman í strætó. Farþegarnir sitja hljóðlátir og horfa útum bílrúðuna á hina undarlegu hluti umhverfis okkar líða hjá. Allir telja sig vita hvert ferðinni er heitið og í hvaða vagni þeir sitja. Strætóin silast áfram, er á heimleið fyrir suma en fyrir aðra er hann á leið útí bláinn. Þeim er semsé sama, taka bara þann vagn sem flestir fara inní og telja vagnstjórann rata. Allir treysta honum nema einn en það er farþegi sem kallar sí og æ ,,æi, þarna áttum við að beygja“ eða þá ,,nei sjáið þið þetta, þetta er merkilegur staður sem við sjáum þarna“ eða þá, ,,þetta sem við sjáum þarna hefði nú mátt gera öðruvísi“. Síðan kemur hann með ýmsar bollaleggingar, spyr spurninga um leið og hann fræðir samferðamenn sína um ótrúlegustu hluti.

    Nú síðast kallaði hann ,,Hei vagnstóri!, þú verður að staldra við, það er að verða mikill umferðarhnútur hér á horninu, menn sjá ekki fyrir hornið“ en þá var vagninn staddur við Gamla Kennaraskólann, nánar tiltekið Laufásveg 81.

    Mörgum þykir gaman að hlusta á þennan samreiðarmann sinn en veigra sér við að taka til máls í þröngum vagninum. Sumir eru feimnir, aðrir óframfærnir, örfáir latir og nokkrir hafa bara enga skoðun. Síðan fer þeim því miður fjölgandi sem er alveg sama, segja bara fokkit, líta aldrei útum gluggan en mæna föstum augum á klukkuna fremst í vagninum. Eins og tíminn sé af skornum skammti á kúlu sem verið hefur til í miljarða ára?

    Nokkrum farþeganna er farið að þykja vænt um þennan gaur sem lætur stöðugt til sín heyra. Ég er nokkuð viss um að einhverir farþeganna munu sakna hans því mér sýnist að komið sé að þeirri stundu að hann stígi af vagninum, að hann sé kominn heim. En er hann það, eru ekki einhversstaðar ósögð orð?

    Hilmar, viðleitni þín til að hafa áhrif á samfélagið með skrifum um arkitektúr, umhverfi okkar og skipulag, eru mjög þakkarverð. Ég hef notið hennar og tek undir orð Stefáns Arnar og hlakka til að sjá afrakstur hugsmíða þinna þegar fram líða stundir. Þó gaurinn sé farinn úr strætó má vel greina bergmál orða hans.

    ps.
    Veit einhver hvað vangstjórinn heitir?

    með einni vingjarnlegri kveðju frá utanbæjarmanni sem horfir stöðugt útum gluggan á leið sinni í vagninum.

  • Stefán Örn Stefánsson

    Takk fyrir ótrúlega elju og úthald á þessari síðu, Hilmar, hennar verður saknað, það bera heimsóknir og lestur hennar vott um og ummælin eða belgorðin sem fylgt hafa líka. Samfélagið okkar, hvernig sem við afmörkum það, má varla við því að missa þennan spegil af sjálfu sér og þessa vakningu, sem lang oftast fylgdi pistlunum, nýtt sjónarhorn, nýjar spurningar og gamlar ítrekaðar, yfirsýn og víðsýni út fyrir túngarðinn, upplýsingar um efni sem alla snerti en fáir höfðu gert sér grein fyrir,- þetta og meira til, sem ég kann ekki að koma orðum að, einkenndi þessar færslur og þessa síðu, skemmtilega skrifuð, án köpuryrða af nokkru tagi en af kurteisi, einlægni og faglegri reynslu og samvisku. Hafðu heila þökk fyrir frá dyggum en hljóðum lesanda sem hlakkar til að heyra frá þér aftur, hér eða annars staðar þar sem þér og lyklaborðinu hentar.

  • Björn H.Jóhannesson

    Sannarlega eru engin vandkvæði að kvitta undir ummæli Gauta hér að ofan.

    Aparnir þrír birtast í mörgum birtingarmyndum.
    Stakan hér að neðan eftir langafa minn Erlend Gottskálksson er gott andsvar og tilhlýðileg á þessum degi, 28.8.2015.

    HUGHREYSTING

    Ei skal flúa hregg né hel
    og hugurinn aldrei falla.
    Bezt er aö snúa járni í él
    og jötuns beita skalla.

  • Er verið að segja að eina rödd arkitekta á Íslandi ætli að stinga augunum í vasann?

  • Ég vona að þú sért að tala um þennan pistil þegar þú segir „ljúka þessum skrifum“ en meinir ekki öllum skrifum. Mér sýnist þú eiga afmæli í dag (28. ágúst) og ég óska þér til hamingju með daginn. Það hefur aldeilis verið akkur í þér þessi sex ár sem þú hefur haldið síðunni á floti og það hefur örugglega ekki alltaf verið létt að gera það. Og þrátt fyrir sérhagsmuni og harða samkeppni á köflum þekki ég engan sem hallmælir síðunni. Þvert á mót ljúka menn almennt miklu lofsorði á hana. Gangi þér allt í haginn félagi og vinur.

  • Nú er skarð fyrir skildi …

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn