Miðvikudagur 01.12.2010 - 00:03 - Lokað fyrir ummæli

25 útvaldir -engum hafnað!

Margir lentu harkalega í kvöld.  Aðeins 5% frambjóðenda gátu fagnað. Önnur 5% vel við unað. Allir hinir biðu nokkuð skipbrot. Einhverjir finna fyrir höfnun. Höfnunartilfinning er slæm.  Sérstaklega ef hún fær að vaxa og dafna. þess vegna vil ég segja við þá sem ekki sáu persónulega drauma sína rætast í stjórnlagaþingskosningunum.  Liggið ekki of lengi. Rísið upp aftur til nýrra verkefna og nýrra verka.  það eitt að þið buðuð ykkur fram sýnir að þið eruð fólk með viti.  Fjöldamargir þorðu ekki að stíga þetta skref.  Þið þorðuð.  Þið eigið að vera stolt af því að hafa boðið ykkur fram. Ég ber virðingu fyrir öllum þeim sem það gerðu og það gera flestir.  Það eru svo ótal margar skýringar á því af hverju illa gekk.  Það má kannski orða þetta svona. 25 voru útvaldir. Engum var hafnað.  Næg verkefni bíða í nýju, óspilltu framtíðarþjóðfélagi sem við ætlum að móta saman.  Til hamingju með morgundaginn!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Sammála þessu.

    Það var lofsvert að bjóða sig fram og sýna með því lifandi áhuga á samfélaginu.

    Allt fyrirkomulag kosninganna var hins vegar galið.

    Umboð stjórnlagaþingsins er veikt og hefur ekki styrkst nú þegar liggur fyrir hverjir fulltrúarnir eru. Það er einsleitur hópur „þekktra andlita“.

    Íslendingar geta hins vegar aðeins sjálfum sér um kennt. Þátttakan í kosningunum var hrein hörmung og þeir sem fóru kusu fólk sem er þekkt og flest hvert á lítið erindi á þing þetta.

    Ég get ekki orða bundist.

    Mér finnst þetta er dapurleg þjóð.

  • Bragi Páls

    Sammála þér Baldur, og sammála Rósu.

    Svona kosningar lofa heldur ekki góðu upp á framhaldið ef landið verður eitt kjördæmi með persónukjöri, því einungis þjóðþekktir einstaklingar af Höfuðborgarsvæðinu munu ná kjöri til Alþingis í framtíðinni.

    Landsbyggðin mun þá verða afskipt jaðarsvæði og lýðræðishallin því mikill landsbyggðinni í óhag.

    Mér finnst þessi hópur stjórnlagaþingmann mjög einsleitur hópur af einu landssvæði sem í raun endurspeglar ekki þjóðina og landið eins og það er, né viðhorf og skoðanir landsins alls.

    Verði útkoman svona með landið sem eitt kjördæmi og persónukjöri, mun kosningaþátttaka fara minnkandi sem og virðing fyrir lýðræðinu.
    Margt fólk úti á landi mun t.d. ekki sjá neinn tilgang í því að nýta atkvæðisrétt sinn, því það veit það mun aldrei ná sínum fulltrúum inn á Alþingi hvort sem er.
    Höfuðborgarbúa munu alltaf kjósa Höfuðborgarbúa, og umfram allt mun þjóðþekkt Höfuðborgarfólk sem mun ná kjöri verði landið eitt kjördæmi með persónukjöri.
    Afleiðingar verða almennt minni kosningaþátttaka og minnkandi virðing fyrir lýðræðinu.

  • Bragi.

    Hörmuleg þátttaka á landsbyggðinni skýrir að einhverju leyti það sem þú bendir á.

    Það GÆTI breyst í kosningum í framtíðinni.

    Landsbyggðarfólk ætti að líta í eigin barm.

    Hvað veldur svo hrikalegu áhugaleysi um slíkt stórmál sem stjórnarskráin er?

    Er ekki ábyrgð þeirra sem heima sátu alveg dagljós?

Höfundur