Laugardagur 18.12.2010 - 11:35 - 6 ummæli

Þið sem erfiði og þunga eru hlaðnir……

Ég hef í tvígang hrósað ríkisstjórninni sem ég tel að standi sig mjög vel við að vinna úr þeim ósköpum sem voru á borðum þegar hún tók við.  Sumir verða ofsareiðir og virðast á þeirri skoðun að ríkisstjórnin sé slæm.  Oft eru þetta ungmenni alin upp í ást á flokki og trúa því sem forustumenn þeirra flokka segja sem forystumenn stjórnarandstöðu.  En nú er komið að því að hrósa þingmönnum yfirhöfuð.  Þingmenn eru yfirleitt yfir meðallagi í greind og dugnaði og leggja sig alla fram í þágu lands og lýðs.  Sumir eru flokksblindari en aðrir, enn aðrir þverhausar að upplagi, en allir eru að reyna að gera sitt besta.  Þeir vinna flestir heil ósköp í þágu lands og þjóðar.  Á þeim hvílir sú erfiða skylda að láta stöðugt til sín taka og líf þeirra allt er undir smásjá.  Sem sagt jólakveðja til þingmanna og þeir geta alltaf komið hingað þurfi þeir að létta á sér. Hvar í flokki sem þeir standa.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.12.2010 - 09:35 - 27 ummæli

Ríkisstjórninni hrósað!

Enn skal ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hrósað.  Það er mín skoðun að þessi ríkisstjórn eigi eftir að fara inn í söguna sem einhver sú albesta sem við höfum haft. Tekur við versta búi sem nokkur ríkisstjórn hefur tekið við. Hér stefnir nú allt í rétta átt. Atvinnuleysi minna en spáð var. Hagvöxtur meiri.  Skuldir minnka hraðar en búist var við.  Þrjátíu og tveggja manna meirihluti virðist ætla að standa bærilega saman.  Þessari fyrstu vinstri stjórn lýðveldisins virðist ætla að takast það ætlunarverk sitt að leiða þjóðina upp úr kreppunni.  Stjórnarandstaðan er bitllítil enda stutt um liðið frá Hruninu mikla.  Eina ógnin er fólkið yzt til vinstri í VG.  Það er gott að geta hrósað ríkisstjórninni.  Það mættu fleiri gera – venja sig af öfgum og nöldri. En auðvitað er þetta erfitt.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.12.2010 - 21:12 - 9 ummæli

Fyrirlítum nafnlausan skipulegðan áróður!

Lútherskur prestur er kallaður öfgasinni fyrir það að lýsa yfir ánægju með ríkisstjórn lands síns.  Miðaldra karlar skrifa óhróður undir stelpunöfnum. Prestar mega ekki hafa skoðanir. Þeir mega samt örugglega vera í flokksráðum eða á flokkslínum, en þeir mega ekki hafa skoðanir. Samræmdur nafnlaus áróður virðist stundaður gegn mönnum.  Á netinu eru menn ekki að tjá skoðanir sínar heldur þar til að traðka á skoðunum annarra. Þeir óttast skoðanir annarra.  Þeir elska  völd.  Svona Ísland viljum við ekki.  Sameinumst um að fyrirlíta nafnlausan óhróður, sérílagi skipulegan nafnlausan óhróður.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.12.2010 - 23:28 - 16 ummæli

Blygðunarlaus tilraun til þöggunar!

Í hvert skipti sem maður skrifar eitthvað annað en skógrækt, hrósar ríkisstjórn, skýtur á flokksræðið já eða spillingu fyllist athugasemdakerfið af rætnum skrifum um léleg gæði undirritaðs, hrakleg orð um menntun hans og það sem versta er,  atvinnumissi er hótað með þeim hætti að sóknarbörn muni nú ekki láta sér það lynda að viðkomandi hafi þessar skoðanir. Þetta er kerfisbundið og þrátt fyrir ungæðingsleg nöfn eins og heiða eða kalli er nokkuð augljóst að sumt af þessu er skrifað af fullorðnu fólki (a.m.k. af nafninu til).  AMX hefur farið í svipaðan farveg og reynt að grafa undan mér sem presti fyrir það að hafa skoðanir sem þeim líkar ekki og það eru fullorðnir menn, sérstaklega þegar varaþingmaðurinn Óli Björn var þar, en hann er ekkert unglamb lengur. Friðbjörn sonur Ketils og þeir eru yngri menn og geta enn bjargað sóma sínum.

Ég er ekki sá eini sem verð fyrir barðinu á þessum ósköpum. Það er grátlegt að vita til þess að hópur manna á öllum aldri greinilega úr sömu smiðjunni skuli fá það af sér að að rakka aðra niður nafnlaust eða með nöfnum sem ekki er hægt að staðsetja. Það hefur ekkert að gera með skoðanir eða málfrelsi.  Þetta er blygðunarlaus tilraun til þöggunar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.12.2010 - 11:32 - 10 ummæli

Hungraður var ég og……?

Óneitanlega einn af albestu köflunum í hinni helgu bók, Bíblíunni:

,,Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. 32Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. 33Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri. 34Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. 35Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, 36nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.
37Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? 38Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? 39Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? 40Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.
41Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans. 42Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, 43gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín.
44Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki? 45Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. 46Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“ “

(Úr 25. kafla Mattheusarguðspjalls)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.12.2010 - 20:24 - 16 ummæli

Þrautseigja og hugrekki einkenna stjórnarfarið!

Sennilega eigum við núna bestu ríkisstjórn frá stríðslokum og verstu stjórnarandstöðu frá landnámi.  það fer hrollur um flesta þegar hún tekur til máls.  Hreyfingin er þó með áhugaverð sjónarmið á köflum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er með þrautseigju og þolinmæði að snúa erfiðu tafli við.  Íslendingar eru nú á leið upp úr kreppunni les ég í breskum blöðum. Icesave er að leysast farsællega. Umfangsmiklar rannsóknir standa yfir á fjársvikum.  Það er sama hvar borið er niður. Þrautsegja og hugrekki einkenna stjórnarfarið. Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Daði og Atli Gíslason hljóta að sitja hjá við fjárlög  í samráði við forystu flokks síns til þess að halda í óánægjufylgi. Engin félagslega gáfuð manneskja færi að skerast úr leik þegar fyrsta vinstri stjórn lýðveldisins er að ná markverðum árangri við hrollvekjandi aðstæður og stöðugt niðurtal sem sennilega á rætur sínar ekki síst  í því að forsætisráðherrann er kona.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.12.2010 - 13:25 - 10 ummæli

Feitir Sunnlendingar!

Sunnlendingar eru afar feitir.  Sérstaklega Árnesingar.  Af Árnesingum eru Selfyssingar feitastir.  Ég hafði orð á þessu þegar ég kom til starfa við Sunnlenska fréttablaðið fyrir tíu árum.  Hafði búið Í Reykjavík og á Höfn og sá strax að þetta fólk var öðruvísi. Sérstaklega eru ungar konur feitar.  Offita er sem faraldur meðal þeirra.  Fólkið fékk sér kjöt og sósur í hádeginu.  Það hafði ég ekki séð lengi.  Vinir mínir á Höfn og í Reykjavík átu fisk og grænmeti í hádeginu. Nú er komið í ljós að Íslendingar eru afar feitir á heimsvísu.  Að mínu viti eiga Sunnlendingar metið hér innanlands.  Hefur nokkur rannsakað það annars.  Það þarf ekki að taka það fram að samstarfsmenn mínir hlógu að hugarburði mínum  gera sjálfsagt enn.  Hvergi á byggðu bóli taka menn minna mark á því sem aðfluttir segja en á Suðurlandi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.12.2010 - 14:17 - 1 ummæli

ECRI og Wilkileaks!

Að minnst kosti tvisvar beindi ECRI (Evrópunefndin gegn kynþáttamisrétti) því til íslenskra stjórnvalda að erlendar konur sem giftust íslenskum karlmönnum væru settar í hræðilega aðstöðu ef þær ættu það á hættu að vera vísað  úr landi færu þær fram á skilnað. Í skýrslu ECRI sem unnin var 2006 sést að íslensk stjórnvöld tala niður vandann, gera lítið úr honum. Nú kemur á daginn með hjálp Wilkileaks að bandaríski sendiherrann leit þetta sömu augum og ECRI.  Enn á ný kemur í ljós að Íslendingum þótti ófínt að hlusta á ráðleggingar erlendis frá.  Er það svo enn?

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.12.2010 - 21:39 - 4 ummæli

Hvernig vinna íslenskir diplómatar?

Bandaríkjamenn eru brjálæðislega flottir.  Þegar Hillary kemur í heimsókn veit hún allt um þá sem hún hittir. Þessi er með samanbitna kjálka en það segir ekkert um skapferli hennar, segir í leiðbeiningum hennar.  Sá næsti er prúður en ræður engu í sínum flokki.  Þeim þykir gott að fá tollfrjálst brennivín og þeir spyrja bara um fangaflutningavélar til þess að þagga niður í stjórnarandstöðunni.  Ég vann einu sinni sams konar skýrslu fyrir ónefndan yfirmann minn.  Hann glansaði í gegnum alla heimsóknina. Talaðu um hesta við þennan sem þú hittir kl. þrjú stóð á blaðinu.  Þessi sem þú hittir kl. fimm er Framsóknarmaður að langfeðratali. Segðu að Framsókn sé kjölfestuflokkur.  Sá næsti stundar skógrækt, var næsta leiðbeining, en hefur annars mest  gaman af því að tala um enska boltann og heldur með Liverpool, haltu með líka.  Segðu:  ,,þetta verðrur erfitt meðan Gerrard er meiddur en við eigum þó besta framherja í heimi í Owen.“   Hvernig vinna annars íslenskir diplómatar í útlöndum? Væri ekki ráð að heimta þær skýrslur?  Má í efnisleysi þeirra finna skýringu á því að ávallt er talað um íslenska ráðamenn í háfgerðum vorkunnartón?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.12.2010 - 00:03 - 3 ummæli

25 útvaldir -engum hafnað!

Margir lentu harkalega í kvöld.  Aðeins 5% frambjóðenda gátu fagnað. Önnur 5% vel við unað. Allir hinir biðu nokkuð skipbrot. Einhverjir finna fyrir höfnun. Höfnunartilfinning er slæm.  Sérstaklega ef hún fær að vaxa og dafna. þess vegna vil ég segja við þá sem ekki sáu persónulega drauma sína rætast í stjórnlagaþingskosningunum.  Liggið ekki of lengi. Rísið upp aftur til nýrra verkefna og nýrra verka.  það eitt að þið buðuð ykkur fram sýnir að þið eruð fólk með viti.  Fjöldamargir þorðu ekki að stíga þetta skref.  Þið þorðuð.  Þið eigið að vera stolt af því að hafa boðið ykkur fram. Ég ber virðingu fyrir öllum þeim sem það gerðu og það gera flestir.  Það eru svo ótal margar skýringar á því af hverju illa gekk.  Það má kannski orða þetta svona. 25 voru útvaldir. Engum var hafnað.  Næg verkefni bíða í nýju, óspilltu framtíðarþjóðfélagi sem við ætlum að móta saman.  Til hamingju með morgundaginn!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur