Sunnudagur 14.4.2013 - 11:42 - 3 ummæli

Stjórnarliðar og peran

Af hverju eru við framsóknarmenn að kalla eftir heildstæðri áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna?  Ástæðan er einföld.  Í gildi er áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem Árni Páll Árnason, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri kynntu sem sína.

Í þeirri áætlun er aðeins fjallað um hvernig eigi að aflétta snjóhengjunni.  Nánast ekkert er fjallað um uppgjör föllnu bankanna, – með smá undantekningu.

Þar segir: „ Endurfjármögnun gömlu bankanna er afstaðin og aðgerðir til að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja liggja nú fyrir í endanlegri mynd.“ Þar segir einnig: „Gjaldeyrisforði Seðlabankans er nú í sögulegu hámarki og nemur 47% af landsframleiðslu ársins 2010, en búast má við að forðinn dragist saman þegar slitastjórnir gömlu bankanna hefja greiðslur til kröfuhafa.“

Engin önnur áætlun liggur fyrir.

Hvergi er talað um heildstæða áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna þar sem tekið er á bæði uppgjöri föllnu bankanna og snjóhengjunni.

Samtök atvinnulífsins voru ekki alveg sátt við þessa áætlun og  kynntu því sína eigin í maí 2012.  Við það tilefni sagði Árni Páll Árnason að eina leiðin til að afnema gjaldeyrishöftin væri upptaka evru. Friðrik Már Baldursson talaði hins vegar við sama tækifæri um mikilvægi trúverðugra hótana og þrýsting gagnvart eigendum erlends gjaldeyris.

Í millitíðinni hafði nefnd um afnám gjaldeyrishaftanna, skipuð fulltrúum þingflokkanna, verið að störfum, en stjórnarandstaðan hafði krafist þess að hún yrði skipuð til að fá betri heildarsýn á vandann.  Niðurstaða þeirrar vinnu var meðal annars að í bréfi dagsettu 20. desember 2012 komu þeir á framfæri áhyggjum sínum af fréttum af fyrirhugðum nauðsamningum hinna föllnu banka og skipulagðri útgreiðslu gjaldeyris til kröfuhafanna í kjölfarið.

En í ljósi þess að menn sáu þetta allt fyrir er áhugavert að kíkja á ályktanir nokkurra flokka um afnám gjaldeyrishaftanna árið 2013.

Flokksþing framsóknarmanna 2013: „“Afnám fjármagnshafta er mikilvægt til að ná fram heilbrigði í efnahagsmálum og innleiða  markaðsskráningu íslensku krónunnar. Heildstæð áætlun um afnám fjármagnshafta er nauðsynleg í ljósi þess að vandinn er mun stærri en áætlað hefur verið. Lausnir varðandi skuldaskil gömlu bankanna, „snjóhengjuna“ og ýmis önnur atriði þurfa að vera hluti af slíkri  áætlun. Tryggja þarf að þrotabú gömlu bankanna fái ekki heimildir til gjaldeyrisútflæðis fyrr en heildstæð áætlun um losun hafta liggur fyrir. Slík áætlun þarf að taka tillit til þess að kröfuhafar gömlu bankanna hafa hagnast mjög á sínum viðskiptum og eðlilegt er að þeim ávinningi sé skipt á milli þjóðarinnar og kröfuhafa. Við afnám hafta er brýnt að traust umgjörð sé um gjaldeyrismarkaðinn til framtíðar og að fyrir liggi trúverðug peningastefna. Þá er mikilvægt að koma í veg fyrir að hugsanleg skammtíma veiking íslensku krónunnar í kjölfar haftaafnáms leiði til sjálfvirkrar hækkunar lána í landinu og þar með skuldaaukningar heimila og fyrirtækja.”

Vinstri Grænir landsfundur 2013: „Verkefnin framundan í efnahagsmálum eru ærin og meðal annars þarf að losa um aflandskrónur samkvæmt þeirri áætlun sem samþykkt hefur verið og gerir ráð fyrir útgönguskatti á þá fjármuni.“

Samfylkingin landsfundur 2013: „Samfylkingin vill að unnið verði áfram með Evrópusambandinu, Evrópska seðlabankanum og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að lausn á vanda krónunnar og útskiptingu hennar fyrir evru. Trúverðugleiki áætlunarinnar, sem unnið er eftir, skiptir einn og  sér miklu máli. Því trúverðugri og gegnheilli sem áætlunin og framtíðarsýnin er, því  minni verður hvati til að selja krónueignir við fyrsta tækifæri og valda þar með því að krónan veikist hratt. Áætlun sem unnin er í samvinnu við ESB, Evrópska seðlabankanna og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn með þátttöku í evrópska myntsamstarfinu sem miðar að upptöku evru hefur þann trúverðugleika sem til þarf svo áætlunin skili árangri.“

Svo mörg voru þau orð.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.4.2013 - 13:08 - 9 ummæli

Af hverju heimilin?

Ýmsir hafa áhyggjur af Framsóknarflokknum og stefnu hans, einkum nú fyrir kosningar.  Nú virðast áhyggjurnar einkum vera tvíþættar.  Annars vegar að þeir sem skulda eigi að fá skuldaleiðréttingu og hins vegar að flokkurinn hyggist „þjóðnýta“ hagnað erlendra vogunarsjóða.

Svo virðist nú líka vera sérstakt áhyggjuefni að allt stefnir í að framsóknarmenn verði í stöðu til að hrinda þessari stefnu sinni í framkvæmd eftir kosningar.

Afstaða okkar framsóknarmanna er skýr.  Við viljum að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Heimili þessa lands skulu ekki sitja ein uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns.  Ýmsir sjá ofsjónum yfir þessu loforði.  Í þessum hópi kann nefnilega að vera fólk sem getur vel greitt af lánunum sínum eða fólk sem leyfði sér að kaupa of stórt heimili, eða bara ekki „rétt“ fólk.

Í huga okkar framsóknarmanna snýst þetta ekki um að velja út einstaka hópa. Það er ekki okkar að ákveða hverjir „eiga skilið“ að fá lán sín leiðrétt. Þeir sem voru með verðtryggð húsnæðislán urðu fyrir skaða í hruninu.  Hann þarf að bæta.

Hverjum dettur í hug að eftir jarðskjálfta myndu fulltrúar Viðlagatryggingar ganga á milli húsa í sömu götu, safna upplýsingum um tekjur og þjóðfélagsstöðu eigenda þeirra – og handvelja svo þá sem ættu rétt á bótum.  Segja: „Nei, nei, – húsið þitt er allt of stórt og þú ert með allt of háar tekjur. Þú getur nú vel borgað þennan skaða sjálfur, þú færð engar bætur.“

Ljóst er að við höfum ekki gjaldeyri til að greiða út hinar svokölluðu krónueignir hinna föllnu banka.  Ekki heldur hina svokölluðu snjóhengju.  Þess vegna erum við með gjaldeyrishöft. Í mínum huga, í huga okkar framsóknarmanna kemur einfaldlega ekki til greina að drekkja okkur, börnunum okkar, barnabörnunum okkar, íslenskum ríkissjóði um ókomna framtíð í skuldum í erlendri mynt til að borga út kröfur þessara aðila.

Kröfur sem byggjast á gengi sem búið er til í Seðlabanka Íslands, gengi sem byggist á gjaldeyrishöftunum.

Menn þurfa einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir.

Einhverjir kunna að kalla það þjóðnýtingu. Ef ríkissjóður tæki þennan ávinning til eigin nota, án þess að skila honum áfram til heimilanna væri fyrst hægt að tala um þjóðnýtingu. Við köllum þetta raunsæi, – við veljum einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir og að standa með þjóð okkar.  Það höfum við alltaf gert og munum alltaf gera.

Langflestir, fyrir utan einstaka öfgamenn, eru sammála um mikilvægi þess að gæta að hagsmunum Íslands við uppgjör föllnu bankanna og afnám gjaldeyrishaftanna.  Ágreiningurinn liggur hins vegar í því hvernig eigi að nýta svigrúmið sem skapast við uppgjörið.  Afstaða framsóknarmanna er enn á ný skýr.  Heimilin eru gangverk efnahagslífsins.  Þau munu alltaf á endanum standa undir útgjöldum ríkissjóðs í gegnum skattgreiðslur sínar.  Ef heimilin eru að drukkna í skuldum, kaupa þau ekki vöru og þjónustu. Fyrirtæki hækka þá ekki laun starfsmanna, ráða ekki nýtt fólk, fara ekki í nýjar fjárfestingar.  Tekjur ríkissjóðs standa þá í stað eða dragast saman.

Þetta er ástæða þess að fjárfestingar hafa verið í sögulegu lágmarki, þetta er ástæða þess að hagvaxtaspár ganga ekki eftir.

Með því að leiðrétta skuldirnar fer gangverkið aftur af stað.

Þetta er ekki aðeins hugmyndafræði okkar framsóknarmanna.  Þetta er sú hugmyndafræði sem Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur talað fyrir og byggir á kenningum John Maynard Keynes.  Krugman hefur jafnvel réttlætt að ríki með eigin gjaldmiðil skuldsetji sig til að koma gangverki efnahagslífsins í gang.  Hann bendir einnig á að fjárfestar hafa sýnt að þeim er nokk sama hvort halli sé á ríkissjóðum, svo lengi sem ríkissjóðir standa í skilum með erlendar skuldir sínar.

Hann segir það ekki forgangsmál að skera samfélög inn að beini til að greiða upp skuldir ríkissjóðs.

Forgangsmálið er að gera heimilum og fyrirtækjum kleift að vaxa og dafna. Það gerum við með því að létta af þeim skuldafjötrunum. Þannig aukum við skatttekjur ríkissjóðs og gerum honum kleift að greiða niður skuldir sínar.

Þess vegna eru heimilin í forgangi hjá Framsókn.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.4.2013 - 08:15 - 1 ummæli

Heildstæð áætlun um afnám haftanna

Það er ánægjulegt að sjá frétt Fréttablaðsins um erlendar krónueignir.  Vonandi taka stjórnvöld og Seðlabankinn þetta til sín, – en ég hef haft nokkrar áhyggjur af að  ekki sé verið að leggja næga áherslu á heildstæða áætlun um afnám haftanna.

Skilaboð nefndar um afnám gjaldeyrishafta eru skýr og í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins.

„Afnám fjármagnshafta er mikilvægt til að ná fram heilbrigði í efnahagsmálum og innleiða  markaðsskráningu íslensku krónunnar. Heildstæð áætlun um afnám fjármagnshafta er nauðsynleg í ljósi þess að vandinn er mun stærri en áætlað hefur verið. Lausnir varðandi skuldaskil gömlu bankanna, „snjóhengjuna“ og ýmis önnur atriði þurfa að vera hluti af slíkri  áætlun. Tryggja þarf að þrotabú gömlu bankanna fái ekki heimildir til gjaldeyrisútflæðis fyrr en heildstæð áætlun um losun hafta liggur fyrir. Slík áætlun þarf að taka tillit til þess að kröfuhafar gömlu bankanna hafa hagnast mjög á sínum viðskiptum og eðlilegt er að þeim ávinningi sé skipt á milli þjóðarinnar og kröfuhafa. Við afnám hafta er brýnt að traust umgjörð sé um gjaldeyrismarkaðinn til framtíðar og að fyrir liggi trúverðug peningastefna. Þá er mikilvægt að koma í veg fyrir að hugsanleg skammtíma veiking íslensku krónunnar í kjölfar haftaafnáms leiði til sjálfvirkrar hækkunar lána í landinu og þar með skuldaaukningar heimila og fyrirtækja.“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.4.2013 - 09:07 - 2 ummæli

Ekkert skjól í skattaskjólum

Danir hafa sent skýr skilaboð um að þeir sem eiga falda fjármuni í skattaskjólum eiga að koma með þá heim til Danmerkur.  Þeim hefur verið gefinn frestur til 30. júní, borga af þeim skatta og sektir en losna í staðinn við lögsókn og hugsanlega fangelsisvist. Fleiri lönd hafa verið að fara þessa leið, þ.á.m. Þýskaland og Bretland.

Þetta kom fram í viðtali við skattrannsóknarstjóra í morgun.

Engin kostakjör, engin sérstök fjárfestingaleið, – heldur harkan sex hjá frændum okkar Dönum.

Þetta finnst mér eitthvað sem við ættum að skoða í fullri alvöru.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.4.2013 - 12:27 - 3 ummæli

Eplakaka og spjall

Flokkar: Matur

Miðvikudagur 3.4.2013 - 14:25 - 22 ummæli

Ertu til í slaginn?

Umræðan um uppgjör hinna föllnu banka og afnám gjaldeyrishaftanna, samhliða skuldaleiðréttingu er ekki einföld eða auðskiljanleg.

Þá sást greinilega á síðasta pistli hagfræðingsins Gunnars Tómassonar.

Þar talar hann um að leiðrétting á lánum Íbúðalánasjóðs verður „…ekki mætt með vanskilalánum/froðu í efnahagsreikningum Íslandsbanka og Arionbanka.“  Og dregur þar að leiðandi þá ályktun að Íbúðalánasjóður, ríkissjóður eða lífeyrissjóðirnir myndu því þurfa að bera stóran hluta af 20% afskriftum húsnæðislána í boði okkar Framsóknarmanna.

Ég þekki Gunnar af góðu einu, en hér hefur hann aðeins hlaupið á sig.

Því vil ég benda honum á lesefni frá ágætlega talnaglöggum mönnum sem hafa þó hingað til ekki talist til framsóknarmanna þar sem þeir útskýra hvað við erum að tala um.

Í fyrsta lagi nokkuð skilmerkilegan pistil frá Vilhjálmi Þorsteinssyni þar sem hann útskýrir vandann við uppgjör föllnu bankana og hvar svigrúm gæti hugsanlega myndast.  Vilhjálmur er að vísu ekki viss um að rétt sé að nýta hugsanlegt svigrúm til handa heimilunum, og svo hefur hann áhyggjur af alþjóðlegum skuldbindingum okkar.

Skilja þar leiðir með okkur Vilhjálmi.  Ég er nefnilega sannfærð um að fátt sé skynsamlegra en að koma til móts við heimilin.

Hér er einnig ágætur pistill frá Stefáni Ólafssyni, þar sem hann spyr hvor Framsókn hafi rétt fyrir sér.  Þar skrifar hann: „Seðlabankastjóri hefur sagt að eigendur þessara fjármuna geti þurft að sætta sig við allt að 75% afskriftir af þeim við samninga um losun erlendra eigna þrotabúanna, eða með beitingu skattlagningarvalds ríkisins. Þetta væru um 300 milljarðar, meira en nóg fyrir 20% afskriftum á skuldum heimilanna. Reikningurinn félli ekki á skattgreiðendur.

Spurningin er þá hvort það sé rétt að þetta fé geti komið til ráðstöfunar stjórnvalda, sem myndu síðan nota það til að lækka skuldir heimilanna?

Framsókn heitir heimilunum því. Það er mikilvægt.“

Í þriðja lagi er ágæt umfjöllun á Eyjunni um snjóhengjuna.  Þar segir t.d. Róbert Wessman: „Við eigum möguleika á að afskrifa með beinum eða óbeinum hætti þessa 800 milljarða snjóhengju og megum því ekki fara aðrar leiðir né skapa væntingar um að erlendir aðilar fái þessa fjárhæðir greiddar að fullu í erlendri mynt.  Slíkt væri gert á kostnað heimilanna í landinu og myndi skerða lífskjör í landinu um ókomna tíð.“

Þannig er fólk ótengt Framsóknarflokknum, jafnvel harðir andstæðingar okkar í stjórnmálum, að rökstyðja að þetta sé hægt.

Eftir að þeir kynntu sér málið.

Við erum tilbúin að taka slaginn fyrir Ísland.

Vonandi aðrir líka.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.3.2013 - 09:42 - 3 ummæli

Kýpur með morgunsólinni

Morgunstundinni var eydd við lestur hinna ýmsu erlendra fjölmiðla og álitsgjafa um krísuna á Kýpur.

Flest allt af þessu hljómar kunnuglega. Í greiningu Paul Krugmans virðist vandi Kýpurs liggja í alltof stóru bankakerfi sem lokkaði til sín erlent fjármagn í formi innistæðna með lágum vöxtum og hagstæðu skattaumhverfi eða svokölluð skattaparadís.  Mikið af fénu kom frá Rússlandi og snéri fljótt þangað aftur í gegnum ýmsar „fjárfestingar“.  Nægjanlega stór hluti var þó eftir til að streyma m.a. í fjárfestingar á Grikklandi og  á innlendan fasteignamarkað.   Afleiðingin var innlend verðbóla, þar sem verð ekki hvað síst á fasteignamarkaði blés út.

Þegar afskrifa varð skuldir hjá Grikklandi, voru það meðal annars kýpverskir bankar sem þurftu að afskrifa.  Stjórnvöld standa því frammi fyrir gjaldþroti bankanna eða björgunarpakka Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og evrópska Seðlabankans, hið svokallaða þríeyki. Þríeykið lofaði að lána 10 milljarða evra, en Kýpverjar þyrftu sjálfur að koma með 5,8 milljarða evra.  Tillaga þríeykisins var að hluti Kýpurs yrði fjármagnaður með skatti á bankainnistæður.

Þingið hikstaði, hafnaði tillögunni, sendi fjármálaráðherrann til Rússlands í leit að peningum og Rússar afþökkuðu pent.  Vildu heldur ekki neinn skatt á innistæður og vilja heldur ekki að bankarnir fari á hausinn því þá tapa þeir og rússneskir innistæðueigendur fullt af pening.

Nýjustu tillögurnar er ríkisvæðing ýmissa eigna s.s. lífeyrissjóða og kirkjunnar, gjaldeyrishöft og endurskipulagning banka í góða banka og slæma banka. Ýmsir telja að niðurstaðan verði á endanum skattur á bankainnistæður, yfir ákveðnu lágmarki.  Enn á svo eftir að lofttæma fasteignabóluna, samkeppnishæfni landsins er í rúst, og björgun bankakerfisins mun drekkja ríkinu í skuldum.

Rússar hóta þá að fara = sbr. gjaldeyrishöft og þeirra eigin útgáfa af snjóhengju.

Krugman mælir með að Kýpur taki aftur upp eigin gjaldmiðil, einhvers konar útgáfu af íslensku leiðinni og bæti þannig samkeppnishæfni landsins.  Möguleiki sem er væntanlega ekki til í orðabók ýmissa háttsettra embættis- og stjórnmálamanna í Evrópu.

En hver hefði heldur trúað því að evruríki gæti endað uppi með gjaldeyrishöft?

Kannski er kjarni vandans sá sem Krugman bendir á (og Eva Joly): „But step back for a minute and consider the incredible fact that tax havens like Cyprus, the Cayman Islands, and many more are still operating pretty much the same way that they did before the global financial crisis. Everyone has seen the damage that runaway bankers can inflict, yet much of the world’s financial business is still routed through jurisdictions that let bankers sidestep even the mild regulations we’ve put in place. Everyone is crying about budget deficits, yet corporations and the wealthy are still freely using tax havens to avoid paying taxes like the little people.

So don’t cry for Cyprus; cry for all of us, living in a world whose leaders seem determined not to learn from disaster.“

Lærum við nokkurn tímann?

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.3.2013 - 11:58 - 9 ummæli

Málstofan Alþingi

Þegar vandi kemur upp þá fer ég alltaf að huga að lausnum.  Vandinn skilgreindur, lausn A, B og C möguleg, velja eina og skrifa tillögu.  Væntanlega er það ein af ástæðunum að mér líkar vel vinnan mín og vinnustaðurinn, Alþingi, – að við erum alla jafna að leita leiða og lausna í málunum sem við erum að fjalla um.

En ekki alltaf.

Stundum hættum við að tala um ég, við og það sem sameinar okkur, og förum að segja þú, þið og einblína á allt sem skilur á milli.

Við hjónin reyndum þetta aðeins fyrstu sambýlisárin, sögðum: „Þú skilur mig ekki, og þú gerir þetta aldrei…“ og skelltum hurðum.

Ákváðum svo að hætta þessu.  Reyna frekar að ræða málin, stundum jafnvel að sleppa því alveg að ræða málin, virða einfaldlega ólíkar skoðanir hvors annars.

Er ég með einhverja lausn?

Nei, en allavega tillögur.  Í fyrsta lagi myndi ég vilja sjá ákvæði í stjórnarskrá um að minnihluti Alþingis geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Í öðru lagi að umræðum inn á Alþingi yrðu sett ákveðin tímamörk.  Í þriðja lagi að stjórnarandstaðan fengi auknar fjárveitingar til reksturs þingflokkanna og í fjórða lagi að meiri hefð yrði fyrir samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu áður en mál eru lögð fram á Alþingi.

Eflaust er auðvelt að sitja hér og skrifa þetta sem stjórnarandstöðuþingmaður.  Gleyma því svo þegar maður er kominn hinum megin við borðið.

Þess vegna er kannski ágætt að setja þetta út á veraldarvefinn, – til áminningar fyrir mig og þig.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.3.2013 - 09:18 - Rita ummæli

Ódýrari pilla = hraustari börn?

Skipta ódýrari getnaðarvarnir máli?  Þetta er spurning sem fræðimennirnir Andreas Madestam og Emilia Simeonova leituðu svara við rannsókn sinni á áhrifum ódýrari getnaðarvarnarpillu á líf kvenna og fjallað erum í frétt á Dagens Nyheter.

Niðurstaðan virðist vera já.

Ódýrari pillur þýddu ekki bara færri fóstureyðingar hjá ungum stúlkum, heldur virtust börn þeirra þegar þau fæddust vera hraustari og ólíklegri til að fæðast fyrir tímann eða með lága fæðingarþyngd. Konurnar sem fengu ódýrari pillur voru einnig líklegri til að ljúka langskólanámi og þar af leiðandi hafa hærri laun yfir starfsævina. Börn þeirra virtust einnig standa sig betur í skóla seinna meir.

Landsþingið Gävle, í Norður Svíþjóð, byrjaði fyrst að bjóða konum undir tvítugu ódýrari getnaðarvarnarpillu fyrir um tuttugu árum síðan á sérstakri móttöku fyrir ungt fólk.  Ástæðan var sú að kostnaðurinn við pilluna var talinn geta verið hindrun fyrir reglubundna notkun og að niðurgreiðslan gæti því dregið úr ótímabærum þungunum og fóstureyðingum.  Mörg önnur landsþing fylgdu svo í fótspor Gävle, og réttlættu það með því að þar með myndi draga úr kostnaði við fóstureyðingar.  Niðurgreiðslan er ólík á milli landshluta.  Landstinget Västmanland niðurgreiðir allar hormónagetnaðarvarnir til kvenna upp að 25 ára aldri. Sjúklingur greiðir 25 SEK fyrir þriggja mánaða skammt eða 490 kr.  Í Stokkhólmi eru ákveðnar tegundir hormónagetnaðarvarna niðurgreiddar til kvenna upp að 22 ára aldri.  Sjúklingur greiðir 30 SEK fyrir sex mánaða skammt eða 590 kr.

Rannsóknin svaraði ekki af hverju þessi munur er til staðar, – aðeins að hann er til staðar.

Madestam sjálfur svaraði því til að væntanlega hefði þetta með möguleika kvenna á að velja,  að velja að eiga börn seinna á ævinni.

Í skýrslu starfshóps velferðarráðherra um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14-23 ára kom fram að Ísland rekur lestina í notkun á hormónagetnaðarvörnum á Norðurlöndunum.  Notkunin hjá konum á aldrinum 15-49 ára hefði minnkað.  Eina undantekningin væri notkun á neyðargetnaðarvarnarpillunni, en þar væri notkunin hvað mest.  Fóstureyðingum hefði þó fækkað umtalsvert, og eru færri hér en á Norðurlöndunum (fyrir utan Finnland).

Ég myndi telja að þetta væri ábending til okkar, – um þörf á breytingu er varðar niðurgreiðslu og notkun á pillunni hjá ungum konum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.3.2013 - 10:08 - 1 ummæli

RÚV og stærðfræðin

RÚV birti í gær niðurbrot á kjördæmi úr síðustu Gallup könnun.  Fréttamenn RÚV virðast hafa átt í eilitlum erfiðleikum með að útskýra niðurstöður síðustu skoðanakannana, – en voru nú komnir með þetta.

Það hlyti að hafa fjölgað gífurlega á landsbyggðinni síðustu vikur.

Þar sem ég og flestir aðrir landsmenn höfðum ekki orðið vör við þessa búferlaflutninga, – ákvað ég að kíkja aðeins á tölurnar.

Nýjasta kjörskrá er frá 2012.  Miðað við hana og prósenturnar sem gefnar voru upp í fréttinni er þetta fjöldi atkvæða sem við myndum fá í einstökum kjördæmum:

  • Rvk-S 8.564
  • Rvk-N 5.890
  • Suðvestur (Kraginn) 18.773
  • Norðvestur 7.707
  • Norðaustur 8.708
  • Suður 12.078

Samtals 61.721

  • SV-hornið 54%
  • Landsbyggðin 46%

Mesta aukningin er í Kraganum, Reykjavík-Suður og Suðurkjördæmi ef miðað  er við kosningarnar 2009.

Ég bíð svo spennt eftir næstu fréttaskýringu.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur