Töluvert er fjallað um húsnæðisvanda hér á landi. Mér hefur þótt áhugavert að lesa ýmsar innlendar skýringar á ástæðum vandans. Hins vegar hef ég saknað þess að ekki sé horft meira til hvað erlendir sérfræðingar sem fjallað hafa um húsnæðisvanda á heimsvísu segja um bæði orsakir og lausnir til að tryggja nægt framboð af hagkvæmu íbúðarhúsnæði.
Í skýrslu McKinsey um að auka framboð af hagkvæmu íbúðarhúsnæði á heimsvísu er bent á fjórar leiðir til að lækka verð og tryggja framboð. Í fyrsta lagi þarf að vera nægt framboð af lóðum. Þar benda þeir til dæmis á fjárhagslega hvata til að nýta það land sem er til staðar, nýta land í eigu hins opinbera, þétta byggð og að hluti af skipulögðu byggingarlandi sé heyrnamerktur hagkvæmum íbúðum. Í öðru lagi að auka hagkvæmnina í framleiðslu húsnæðis hvort sem litið er til hönnunar, byggingarefna eða framleiðsluna sjálfa. Í þriðja lagi er bent á mikilvægi þess að tryggja hagkvæmni í rekstri og viðhaldi húsnæðisins og í fjórða lagi er bent á hvernig megi draga úr kostnaði þeirra sem kaupa og aðstoða þá sem byggja við að fjármagna sig.
Í skýrslu Lyons Housing Review er fjallað um húsnæðiskrísuna í Bretlandi, ástæður hennar greindar og tillögur lagðar fram til úrbóta. Þar er taldar tvær meginástæður vandans: Í fyrsta lagi er bent á skort á landi. Sá skortur hafi skekkt markaðinn fyrir lóðir, dregið úr hraða framleiðslu nýrra íbúða og búið til fjárhagslega hvata til að eignast og selja land. Sveitarfélög hafi ekki haft nægar valdheimildir til að tryggja að íbúðarhúsnæði sé byggt þar sem þau vilja byggja og að sum hafa ekki viljað axla ábyrgðina af því að mæta húsnæðisþörfinni. Í öðru lagi er bent á að áður hafi bæði hið opinbera og einkaaðilar framleitt íbúðarhúsnæði. Í dag væri treyst á örfá stór byggingafyrirtæki og einstaklingar og verktakar byggja aðeins brot af því sem þeir byggðu áður. Á sama tíma hefur hið opinbera byggt mun minna, þrátt fyrir að hagnaðarlaus félög hafi gert sitt til að mæta þeirri þörf sem varð til við brotthvarf hins opinbera af markaðnum.
Má ekki alveg heimfæra niðurstöður þessara sérfræðinga yfir á stöðuna hér á landi?
Framboð af lóðum er takmarkaðar en áður. Verðið er hærra. Byggingariðnaðurinn fékk mikið högg fyrir hrunið þegar framboð af fjármagni þurrkaðist upp. Vélar voru seldar úr landi og iðnaðarmenn fluttu erlendis í leit að vinnu. Þegar verkamannabústaðakerfið var lagt niður hætti ríkið að byggja íbúðir og sveitarfélög hafa lítið byggt af íbúðum. Eftir hrun minnkaði mjög eftirspurn eftir húsnæði vegna skuldsetningar heimila, minni kaupgetu, auknu atvinnuleysi og takmörkuðu framboði af lánsfé.
Eftir hrun settum við svo met ár eftir ár í hversu fáar íbúðir við byggðum.