Miðvikudagur 30.3.2011 - 09:35 - Rita ummæli

Hallar á eldri konur?

Ég sendi velferðarráðherra fyrirspurn um eldri borgara og kynbundna heilbrigðistölfræði.   Ástæðan var sænsk rannsókn sem ég rakst á sem virtist hugsanlega benda til þess að eldri konur væru líklegri til að verða fyrir slysum eða fá verri læknisþjónustu en eldri karlar.

Svör ráðherrans gefa til að kynna að mikilvægt er að kyngreina þessa upplýsingar, og aðeins nýlega var byrjað á því þótt gögnin séu til.  Konum virðista vera hættara við fallslysum en körlum, en þá frekar heima við.  Á heilbrigðisstofnunum  eru karlar ívíð líklegri til að detta, vera vannærðir og með legusár en konur.  Dæmið snýst svo við þegar heim kemur.

Mér fannst einnig athyglisvert hvernig ráðherrann kemur sér undan að svara spurningu minni um af hverju ekki er minnst á eldri borgara í tillögum ríkisstjórnarinnar að nýrri áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára sem lögð var fram á Alþingi 30. nóvember 2010?

Þar segir ráðherrann: „Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á jafnrétti kynjanna í tillögum að nýrri áætlun í jafnréttismálum og að kynjasjónarhorni sé beitt við alla ákvarðanatöku og stefnumótun er við kemur öllum hópum samfélagsins þ.m.t. eldri borgurum.“

Blabla…

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.3.2011 - 14:44 - 7 ummæli

Berjum á einstæðum mæðrum…

Aðalfrétt RÚV í hádeginu var að jafnréttisstýra taldi að einstæðar mæður væru hugsanlega að eignast fleiri börn til að fá hærri framfærslustyrk.  Síðan var talið upp í fréttinni að ekki aðeins ættu einstæðar mæður í meiri fjárhagsvandræðum heldur sýndu tölur frá Barnaverndarstofu að börnin þeirra eru líklegri til að eiga í áfengis- og vímuefnavanda (þriðjungur) og vera undir eftirliti barnaverndarnefnda (40%).

Hvers konar umfjöllun er þetta eiginlega, – að halda því að fram að einstæðar mæður séu einfaldlega að eignast börn sér til framfærslu og tala um þessar fjölskyldur sem einsleitan hóp? Skv. upplýsingum Hagstofunnar þá voru einstæðar mæður 25,38% barnafjölskyldna í landinu árið 2010.  Þeim virðist fækka lítillega árið 2011, eða 25,27% (sem stemmir ekki alveg við fréttina en kannski er Velferðarvaktin og jafnréttisstýra með „réttari“ tölur).  Þetta hlutfall skýrir  að mestu leyti af hverju börn einstæðra mæðra eru um þriðjungur af þeim börnum sem leitar sér aðstoðar við vímuefnavanda.  Erfiðara er að greina töluna um eftirlit barnaverndarnefnda án frekari upplýsinga. Ég get því ekki séð að þessar tölur eigi að gefa okkur ástæðu til að fara rannsaka hvort konur séu að eignast börn sér til framfærslu!

Einstæðar mæður eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar, sem og ástæður þess að þær eru einar að ala upp börnin sín.  Í okkar samfélagi er mjög erfitt að hafa bara eina fyrirvinnu á heimili.  Lítið þarf til að endar nái ekki saman: allt frá langvarandi veikindum eða eitt gott verðbólguskot.  Launamunur kynjanna er einnig staðreynd og einstæðar mæður hafa mismunandi stuðningsnet til að tryggja sér og börnum sínum betri framfærslu s.s. með námi.

Vandinn er og verður ójöfnuður og efnahagskreppa í íslensku samfélagi, – ekki fjölskyldan sjálf og allra síst einstakar konur 😉

Tæklum hann frekar en að berja á einstæðum mæðrum með óvandaðri og fordómafullri umfjöllun á borð við þessa.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.3.2011 - 11:41 - 3 ummæli

Þorsteinn Víglundsson: Líf sem samvinnumaður

Í gær var haldið málþing í tilefni 75 ára afmælis tímaritsins Bliks, sem var blað málfundafélags Gagnfræðiskólans í Vestmannaeyjum á vegum Söguseturs 1627 og Bókasafns Vestmannaeyja.

Ritstjóri og drifkrafturinn á bakvið Blik var Þorsteinn Víglundsson, skólastjóri Gagnfræðiskólans.  Þorsteinn var ekki bara skólastjóri og öflugur útgefandi, heldur var hann einnig einn af stofnendum Sparisjóðs Vestmannaeyja og sparisjóðsstjóri, aðalhvatamaðurinn að stofnun og byggingu Byggðasafns Vestmannaeyja og tók þátt í stofnun Kaupfélags alþýðu og Kaupfélags Vestmannaeyja.

Fjallað var um sögu Þorsteins og konu hans Ingigerðar Jóhannsdóttur, og var ég virkilega hugsi eftir erindin.

Þorsteinn var mjög umdeildur maður, jafnvel svo að sumar fjölskyldur í Eyjum völdu frekar að senda börnin sín upp á land en að setja þau í Gagnfræðiskólann. Hins vegar tel ég að það sýnir og sannar hvað er hægt að gera þegar við höfum hugsjónir og reynum að lifa lífi okkar í samræmi við þær.

Í lífi Þorsteins endurspeglast sterkt hugsjónir samvinnunnar.  Hugsjónir um að styrkur hinna smáu liggur i samvinnu, hugsjónir um samfélagslega ábyrgð og ábyrgð hvers einstaklings á eigin lífi, hugsjónir um sterk siðferðisleg gildi, menntun og mannrækt.

Að við berum öll ábyrgð á samfélagi okkar, og getum öll haft áhrif á það til hins betra.

Að hvert og eitt okkar skiptir mál, til að byggja betra samfélag.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.3.2011 - 12:15 - 2 ummæli

Föstudagsstemming

Vikan er búin að vera annasöm. Hún byrjaði með umræðu um stöðu Íbúðalánasjóðs, slæmum fréttum af hagvexti og rúllaði svo áfram með einu versta viðtali sem ég hef séð í Kastljósi (yepp, Ragnar Önundarson að réttlæta samkeppnisbrot) og úrskurði kærunefndar jafnréttismála að Jóhanna Sigurðardóttir af öllum mönnum hafi orðið uppvís að broti á jafnréttislögum.

Ó já, svo dó Elizabeth Taylor.

Púff…loksins kominn föstudagur.

Því ætla ég að sleppa því að tjá mig eitthvað um allt ofangreint (allavega í dag 😉 og skrifa frekar um mat.

Ragnar Freyr, eyjubloggari, er í miklu uppáhaldi hjá mér og hann mælir með steiktum kjúklingi með rjómasveppasósu, ekta frönskum og þrílituðu ítölsku salati. Með kjúklingnum fer einnig vel hin fullkomna ofnsteikta kartafla, raunar með hverju sem er eða bara sér, –  alltof tímafrekt að tvísteikja franskar kartöflur.

Ragnar Freyr  kynnti Ree Drummond fyrir mér.  Ree kallar sig Pioneer woman og býr á sveitabæ í Oklahoma ásamt kúrekanum sínum. Varúð: Styður notkun á landbúnaðarafurðum, sérstaklega rjóma, smjöri og mikið af rauðu kjöti og hlýtur að vera framsóknarmaður.

Held ég prófi graskerspæið hennar næst.

Nammmm.

Flokkar: Matur

Fimmtudagur 24.3.2011 - 19:04 - 6 ummæli

„Ekki-pólitísk“ ráðning

Niðurstaðan kærunefndar jafnréttismála hefur verið rædd fram og tilbaka síðustu daga. Niðurstaða nefndarinnar var að forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög með ráðningu karls sem skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, frekar en jafn hæfa konu. 

Eftir að hafa hlustað á skýringar hjá bæði Jóhönnu og Hrannari B. Arnarsyni, aðstoðarmanni hennar, velti ég fyrir mér hvort hugsanlega hafi önnur sjónarmið ráðið meira en þau faglegu (sem þau halda fram) og kynið (sem kærunefnd jafnréttismála heldur fram). 

Getur verið að hræðslan við ásakanir um pólitíska ráðningu hafi gert það að verkum að þeir sem komu að ráðningarferlinu hafi ekki getað metið konuna á réttlátan máta?  

Því allt hafi verið gert til að tryggja að hér yrði „ekki-pólitísk“ ráðning…

– jafnvel á kostnað jafnréttis?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.3.2011 - 12:17 - 3 ummæli

Þrotlaust strit og púl

Steingrímur J. Sigfússon er mikill verkmaður og hefur af miklum dugnaði einhent sér í verkefnin frá því að hann fór í ríkisstjórn líkt og hann hefur iðulega útskýrt fyrir landsmönnum. 

Á Alþingi í gær ítrekaði hann þessi skilaboð sín: „Þetta er þrotlaust strit og púl, erfið vinna og flórmokstur, sem við höfum verið í til að skapa hér grunninn að nýju og betra samfélag.“

Vandinn er að stritið og púlið getur verið töluvert skaðlegt eins og endurreisn fjármálakerfisins, uppbygging atvinnulífsins, Icesave 1, 2 og 3 og endalausar breytingar á skattkerfinu sýna og sanna.

Þ.e.a.s. þegar maður veit ekki hvað maður er að gera…

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.3.2011 - 08:17 - 3 ummæli

AGS og stefnuyfirlýsingin

Félagar Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason gengu úr þingflokki Vinstri Grænna í fyrradag og sendu frá sér yfirlýsingu í tilefni þess. Þar fjalla þau m.a. um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hversu andstætt það er hugsjónum Vinstri Grænna:

„AGS – Áður en VG fór í ríkisstjórn var flokkurinn einarður andstæðingur AGS enda stríðir stefna sjóðsins gegn uppbyggingu velferðarsamfélagsins. Nú er forysta VG ásamt Samfylkingu orðin að eins konar málsvara AGS á Íslandi í anda þess sem var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Stefna AGS hefur sætt gagnrýni hagfræðinga víða um lönd sem talað hafa fyrir hægari aðlögun við að vinna sig út úr efnahagskreppu.“

Ég hef lengi velt fyrir mér hver sé ástæða þess að ekki var lögð meiri áhersla á að endursemja um efnahagsáætlun AGS áður en þau gengu frá stefnuyfirlýsingunni, þannig að áætlunin yrði í meira samræmi við áherslur vinstri flokka.   Írar kusu t.d. nýja ríkisstjórn sem hafði það að meginmarkmiði að endursemja við AGS og ESB um efnahagsáætlun landsins. 

Af hverju var svona auðvelt að kasta þessum hugsjónum til hliðar?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.3.2011 - 10:00 - 3 ummæli

Heimilin gegn kröfuhöfum: 20-110

Íbúðalánasjóður hefur verið í fréttum að undanförnu vegna væntrar afskrifaþarfar sjóðsins. Eftir því sem ég skil stöðuna þá virðist þrennt skýra að verulegu leyti erfiðleika Íbúðalánasjóðs:

  1. Farið var í átak við að fjölga leiguíbúðum á markaði og eru umtalsverð vanskil hjá leigufélögum.
  2. Í neyðarlögunum var Íbúðalánasjóði gert að taka yfir íbúðalán hjá fjármálastofnunum sem voru í rekstrarerfiðleikum.  Ekki liggur fyrir hversu hagkvæm þau viðskipti voru fyrir sjóðinn né hversu umfangsmikil þau voru.
  3. Stjórnvöld fóru í almenna leiðréttingu á húsnæðislánum, svokallaða 110% leið.  Kostnaður Íbúðalánasjóðs við hana var fyrst áætlaður 29 milljarðar kr.  að hámarki en er nú talinn verða um 21,8 milljarðar að hámarki þegar búið er að taka tillit til aðfararhæfra eigna.

Alls eru lán að verðmæti 75 ma.kr. í vanskilum, eða um 10% af heildarútlánum sjóðsins.  Til samanburðar má benda á að vanskilahlutfall í hinu nýja og endurreista bankakerfi stjórnvalda er talið vera 30-40%.

Þetta segir okkur að ein lykilástæða fyrir þörf Íbúðalánasjóðs á fjármagni frá ríkissjóði og skattgreiðendum er 110% leiðin.

Hvað er 110% leiðin?

Það sem 110% leiðin gerir er að leiðrétta á almennan máta húsnæðislán heimilanna, eða fyrst og fremst það verðbólguskot sem varð í hruninu = 20% leið okkar Framsóknarmanna.

Munurinn er sá að við ætluðum aldrei að láta ríkissjóð fjármagna leiðréttinguna, heldur erlenda kröfuhafa í gegnum afskriftir af lánasafni bankanna. Stjórnarliðar, með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í broddi fylkingar, töldu að þetta væri ekki hægt og eyddu miklum tíma og orku í að útskýra fyrir okkur hversu ómöguleg þessi hugmynd væri.

Því hlýtur það að hafa verið áfall fyrir þá að sjá nýjustu ársreikninga Arion banka og Íslandsbanka þar sem lánasöfn þeirra eru uppfærð um rúma 25 ma. kr. vegna betri heimta.  Þessum milljörðum er þannig skilað aftur til kröfuhafa í stað þess að nýta þetta svigrúm til nauðsynlegrar leiðréttingar á lánum íslensks almennings.

Enda varð að hugsa um aumingja fjármagnseigendurna, – erlendu kröfuhafana…

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.3.2011 - 17:06 - 2 ummæli

Hljótt um Lýsingu

Í Viðskiptablaðinu var að finna litla frétt um fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu sem ég tel ástæðu til að vekja athygli á. 

Þar sagði: „Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing er samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins enn rekið á undanþágu Fjármálaeftirlitsins vegna þess að fyrirtækið uppfyllir ekki skilyrði um eigið fé. Allt frá því að Hæstiréttur dæmdi gengistryggð lán í krónum ólögmæt heur staða Lýsingar verið tvísýn. Í lok árs 2009 var eiginfjárhlutfall Lýsingar 11,2% en frá þeim tíma hefur staðan versnað mikið.  Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er nú neikvætt, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.  FME vildi ekki tjá sig um stöðu Lýsingar þegar eftir því var leitað.  FME getur veitt fyrirtækjum 6 mánaða frest til að uppfylla skilyrði um eigið fé, og síðan aftur ef því er að skipta.“

Þessu til viðbótar má bæta við að kröfur vegna ofgreiðslu frá lántakendum verða líklega almennar kröfur ef til formlegs gjaldþrots kemur. 

Því er það undarlegt hvað lítið heyrist frá Lýsingu, sem og okkar ágæta Fjármálaeftirliti…

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.3.2011 - 09:46 - 5 ummæli

Sögur af götunni

Orðið á götunni fjallar enn á ný um málefni Framsóknarflokksins og nú hvort það verði nokkuð annað rætt á flokksþinginu en Icesave.

Málið er mér nokkuð skylt þar sem ég er ritari Framsóknarflokksins og formaður landsstjórnar sem fer með innra starf flokksins.  Því vil ég gjarnan koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum sem hafa að vísu komið ítrekað fram bæði á vefsíðu flokksins og fjölmiðlum. 

Málefnanefnd er kosin á ári hverju af miðstjórn flokksins og eitt helsta verkefni hennar er að undirbúa ályktanir fyrir flokksþing.  Sú nýbreytni var viðhöfð að kallað var eftir tillögum frá öllum flokksfélögum af nefndinni til að gefa sem flestum flokksfélögum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að á undirbúningsstigi.  Er nefndin að vinna úr þeim tillögum og mun skila af sér skriflegum drögum af ályktunum á grunni eldri ályktana flokksins og ábendinga flokksfélaga viku fyrir flokksþing. 

Fyrir flokksþing undanfarinna ára hefur ekki verið venja að senda út ályktanir með jafn góðum fyrirvara og er það því enn ein nýbreytnin.

Framsóknarmenn hafa á síðustu tveimur árum unnið hörðum höndum að endurskoðun á flokksstarfi sínu.  Skipuð var siðanefnd sem skilaði af sér tillögum sem hafa verið til umræðu í öllum einingum flokksins og verða þær teknar fyrir á flokksþingi til samþykktar eða synjunar.  Skipuð var samvinnunefnd sem ætlað var að endurskoða allt starf flokksins til að styrkja það og gera skýrara og lýðræðislegra.  Að því starfi hafa komið hundruðir framsóknarmanna á félagsfundum, kjördæmisþingum og sérstökum samvinnufundi. Tillögur að lagabreytingum verða sendar út til fulltrúa fyrir flokksþing og skýrsla nefndarinnar kynnt á flokksþinginu. 

Á síðasta flokksþingi var einnig samþykkt að setja á stofn sjávarútvegsnefnd til að endurskoða sjávarútvegsstefnu flokksins.  Sú nefnd er á lokametrunum og mun að sjálfsögðu kynna niðurstöður sínar á þinginu og tillögu að ályktun.  Jafnframt verður mikil áhersla á önnur atvinnumál en Birkir Jón Jónsson, varaformaður flokksins, hefur leitt vinnu um atvinnumál í umboði miðstjórnar og mun nefndin skila af sér sínum tillögum inn á þingið.

Einnig munu fulltrúar geta sjálfir lagt fram tillögur og gert breytingar á þeim tillögum sem nefndir og stofnanir flokksins leggja til.

Því efast ég ekki um að fjölda mörg málefni verða rædd á flokksþinginu.

Og, já væntanlega þar á meðal Icesave.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur