Orðið á götunni fjallar enn á ný um málefni Framsóknarflokksins og nú hvort það verði nokkuð annað rætt á flokksþinginu en Icesave.
Málið er mér nokkuð skylt þar sem ég er ritari Framsóknarflokksins og formaður landsstjórnar sem fer með innra starf flokksins. Því vil ég gjarnan koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum sem hafa að vísu komið ítrekað fram bæði á vefsíðu flokksins og fjölmiðlum.
Málefnanefnd er kosin á ári hverju af miðstjórn flokksins og eitt helsta verkefni hennar er að undirbúa ályktanir fyrir flokksþing. Sú nýbreytni var viðhöfð að kallað var eftir tillögum frá öllum flokksfélögum af nefndinni til að gefa sem flestum flokksfélögum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að á undirbúningsstigi. Er nefndin að vinna úr þeim tillögum og mun skila af sér skriflegum drögum af ályktunum á grunni eldri ályktana flokksins og ábendinga flokksfélaga viku fyrir flokksþing.
Fyrir flokksþing undanfarinna ára hefur ekki verið venja að senda út ályktanir með jafn góðum fyrirvara og er það því enn ein nýbreytnin.
Framsóknarmenn hafa á síðustu tveimur árum unnið hörðum höndum að endurskoðun á flokksstarfi sínu. Skipuð var siðanefnd sem skilaði af sér tillögum sem hafa verið til umræðu í öllum einingum flokksins og verða þær teknar fyrir á flokksþingi til samþykktar eða synjunar. Skipuð var samvinnunefnd sem ætlað var að endurskoða allt starf flokksins til að styrkja það og gera skýrara og lýðræðislegra. Að því starfi hafa komið hundruðir framsóknarmanna á félagsfundum, kjördæmisþingum og sérstökum samvinnufundi. Tillögur að lagabreytingum verða sendar út til fulltrúa fyrir flokksþing og skýrsla nefndarinnar kynnt á flokksþinginu.
Á síðasta flokksþingi var einnig samþykkt að setja á stofn sjávarútvegsnefnd til að endurskoða sjávarútvegsstefnu flokksins. Sú nefnd er á lokametrunum og mun að sjálfsögðu kynna niðurstöður sínar á þinginu og tillögu að ályktun. Jafnframt verður mikil áhersla á önnur atvinnumál en Birkir Jón Jónsson, varaformaður flokksins, hefur leitt vinnu um atvinnumál í umboði miðstjórnar og mun nefndin skila af sér sínum tillögum inn á þingið.
Einnig munu fulltrúar geta sjálfir lagt fram tillögur og gert breytingar á þeim tillögum sem nefndir og stofnanir flokksins leggja til.
Því efast ég ekki um að fjölda mörg málefni verða rædd á flokksþinginu.
Og, já væntanlega þar á meðal Icesave.