Föstudagur 6.5.2016 - 12:40 - Rita ummæli

Staða ungs fólks 2004 og 2014

Nýlega var þeirri spurningu varpað fram í breska blaðinu Guardian hvort ungt fólk hefði dregist aftur undir fyrirsögninni „Young people bear the brunt of Generation Y‘s economic woes“.  Töluverð umræða skapaðist um stöðu ungs fólks hér á landi í framhaldinu.

Óskaði ég því eftir upplýsingum úr lífskjararannsókn EU-SILC hjá Hagstofu Íslands þar sem staða ungs fólks á aldrinum 25-29 ára var borin saman við heildarhópinn á árunum 2004 til 2014 til að kynna fyrir ríkisstjórn.  Spurt var um búsetu, nám, tekjur, eignir, skuldir, atvinnuþátttöku og atvinnuleysi.  Einnig var spurt um mat hópsins á skort á efnislegum gæðum, erfiðleika við að ná endum saman og byrði húsnæðiskostnaðar.

Í niðurstöðunum er staðfest að ráðstöfunar- og atvinnutekjur ungs fólks eru lægri árið 2014 en 2004 miðað við miðgildi þeirra á föstu verðlagi m.v. verðlag 2014.  Þessu er öfugt farið með heildarhópinn, tekjur hans voru hærri árið 2014 en 2004. Inn í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir námslánum. Margt fleira hefur breyst.  Ungt fólk er líklegra til að búa hjá foreldrum sínum árið 2014 en 2004 og hærra hlutfall þeirra er í námi núna, eða rúmlega 31% samanborið við rúm 26% árið 2004.  Færri áttu eigið húsnæði með áhvílandi láni og fleiri eru á almenna leigumarkaðnum.  Eignir höfðu aukist lítillega, og skuldir lækkað og gilti það bæði um unga fólkið og heildarhópinn árið 2014 í samanburði við 2004.

Þegar spurt er um byrði húsnæðiskostnaðar, skort á efnislegum gæðum og erfiðleika við að ná endum saman hefur staðan hins vegar batnað hjá ungu fólki. Lægra hlutfall þeirra segir  húsnæðiskostnað íþyngjandi og er munurinn meiri milli 2004 og 2014 hjá fólki 25-29 ára hvort sem þeir búa sjálfstætt eða hjá foreldrum, en hjá heildarhópnum.  Þegar teknir voru saman 25-29 ára í foreldrahúsum sem fannst mjög erfitt, erfitt eða nokkuð erfitt að láta enda ná saman var hlutfallið 51,7% árið 2004 en var komið niður í 40,8% árið 2014. Á sama tíma stóð samtala hlutfalls heildarhópsins hjá þeim sem fannst erfitt, erfitt eða nokkuð erfitt að ná endum saman nokkurn veginn í stað eða 47,4% árið 2004 og 47,5% árið 2014.  Þegar spurt var um skort á efnislegum gæðum voru 5,7% ungs fólks í þeirri stöðu árið 2014 en 11,7% árið 2004.

Þannig má greina umtalsverðar breytingar á lífsháttum ungs fólks á þessu tíu ára tímabili.  Þessi þróun endurspeglar á margan hátt þá umfjöllun sem finna mátti í greinum Guardian um hina sk. Y-kynslóð á alþjóðavísu og má líka sjá í öðrum breytingum sem athygli hafa vakið á borð við áhuga á minna húsnæði, sjálfbærri lífsstíl, minni kosningaþátttöku sem og að giftast seinna og eignast börn seinna.

Ungt_folk_greining_25-29_ara_2004-2014

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.4.2016 - 14:11 - 2 ummæli

Smáíbúðahverfið

Á fundi Tiny Homes á Íslandi um smáhýsi flutti Sigríður Björk Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Vistbyggðaráðsins áhugavert erindi.

Hún lagði áherslu á að við gætum bæði lært af okkar eigin húsasögu og hvað aðrar þjóðir væru að gera til að takast á við húsnæðisvandann.  Rakti hún svo sögu Smáíbúðahverfisins sem fyrirmyndar íslenskt dæmi um smáhýsi og frumkvöðlakraft einstaklinga.

Smáíbúðahverfið er hverfi í austurbæ Reykjavík, í Sogamýrinni og norðan Hæðagarðs.

Kort_smaibudahverfi

Tilurð Smáíbúðahverfsins má rekja til áranna eftir seinni heimsstyrjöldina og þess mikla húsnæðisskorts sem var í Reykjavík.  Mikil fólksfjölgun var á svæðinu, innflutningshöft komu illa við byggingaframkvæmdir og fólk flutti inn í herskála um leið og herinn losaði þá.   Til að bregðast við þessu setti borgarstjórn á stofn nefnd árið 1950 sem var falið að koma með tillögur um smáhúsahverfi fyrir fólk í húsnæðisvanda.  Nefndin lagði til að hverfið yrði staðsett í Sogamýrinni, norðan Hæðargarðs.

Efnt var til samkeppni um smáhús og fór hún fram meðal arkitekta um smáhús, sem voru ýmist lítil einbýlishús, sambyggð einlyft hús eða tvílyft hús.  Teikningarnar voru  miðaðar við hámarksstærð 80 fermetra, þó var hægt að byggja í áföngum, fyrst 55 fermetra, síðan mátti stækka í 80 fermetra, svo loks að seinna mætti stækka húsið í nærri 100 fermetra.

Teikningar_smaibudahverfi_1

Sveitarfélagið hjálpaði til, gerði lóðirnar byggingahæfar, lagði götur og ræsi og hafði menn á launum við eftirlit og til aðstoðar. Heilu fjölskyldurnar hófu að byggja sitt hús, og mátti víða sjá alla meðlimi fjölskyldna með skóflu í hönd, grafandi grunna og svo síðar að slá upp fyrir húsunum.

Smaibudahverfi_teikningar_3

Einhverjir fengu lán hjá lánadeild smáíbúða sem komið var á fót snemma ársins 1952.  Hins vegar voru takmörk á þeim og urðu flestir að treysta á eigið fé eða lánsfé frá vinum og vandamönnum.  Var hverfið nánast fullbyggt árið 1955.

Smaibudahverfi_teikningar_2

Sýnir hverfið því einkar vel hvað fólk getur áorkað þegar allir leggjast á eitt.

Í dag er Smáíbúðahverfið enn þá eitt vinsælasta hverfi borgarinnar.

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

Sunnudagur 3.4.2016 - 11:49 - Rita ummæli

Húsnæðismál á heimsvísu

Í heimsókn minni til New York fyrir páska, á 60. kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna, átti ég mjög áhugaverðan fund með aðstoðarframkvæmdastjóra UN – Habitat.  Sú stofnun Sameinuðu þjóðanna vinnur að betra þéttbýli til framtíðar og undirbýr nú heimsráðstefnu um húsnæði og sjálfbæra þróun byggða, í samræmi við ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 66/2007, eða svokallað Habitat III.

Í umræðuskjali ráðstefnunnar um húsnæðismál kemur fram að skortur á hagkvæmu húsnæði er ekki séríslenskt fyrirbæri, heldur alþjóðlegt vandamál.  Vandamál sem fer vaxandi með stækkun þéttbýlis í heiminum.  Fjórðungur þeirra sem búa í þéttbýli búa í skuggahverfum eða óskipulögðum byggðum.  Þetta á ekki hvað síst við fátækustu og viðkvæmustu einstaklinga hvers samfélags.  Þar má nefna konur, innflytjendur, fatlað fólk, sjúka, unga, aldraða og hinsegin fólk.

Vandinn er ekki hvað síst sá að hagkvæmt húsnæði er sjaldan vandað og vandað húsnæði er sjaldan hagkvæmt.

Í skjalinu má finna nokkuð harða áfellisdóma yfir stefnumörkun stjórnvalda um heim allan.  Þar segir meðal annars: „Almennt á meirihluti ríkis- og sveitarstjórna í vandræðum með að uppfylla þarfir íbúa fyrir húsnæði. Efnaminnstu og viðkvæmustu heimilin finna mest fyrir þessu þar sem þau hafa ekki notið uppsveiflu á húsnæðismarkaði og aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum hafa skilað þeim litlu. Aðgerðir til að auka framboð húsnæðis fyrir konur, förufólk, flóttamenn, fatlað fólk og minnihlutahópa hafa litlu skilað til þessa. Inngrip stjórnvalda á húsnæðismarkaði hefur verið í lágmarki og víða eru þau hætt að bjóða upp á húsnæði, lóðir, þjónustu og jafnvel að setja skýrar reglur.“1

Í stað þess að litið sé á húsnæði sem hluta af félagslegum réttindum eða mannréttindum þá hefur það orðið að söluvöru.  Húsnæðismál hafa ekki verið í forgangi þegar kemur að því að deila úr sameiginlegum sjóðum og víða hefur félagslegt húsnæði verið selt.  Dregið hefur verið úr húsnæðisstuðningi, og þar sem þeim hefur verið viðhaldið er hann oftast ómarkviss og ósjálfbær.

Áfram heldur gagnrýnin.

Bent er á að markaðsöflin hafi lítinn áhuga á að sinna þeim sem eru með lægstu tekjurnar.  Stjórnvöld um heim allan hafa átt í erfiðleikum með að fá verktaka og fjármálastofnanir til að fjárfesta, byggja og lána til efnaminni heimila og samfélagslegra verkefna.  Í staðinn hafa þessir einkaaðilar einbeitt sér að þeim efnameiri.  Enginn skortur er á stórum lúxusíbúðum, á meðan fáir byggja litlar og hagkvæmar íbúðir.

Stjórnvöld víðast hvar hafa stutt við séreignastefnuna.  Staðreyndin er samt sú að eftir því sem fólki fjölgar í borgum og bæjum, fjölgar leigjendum, – ekki hvað síst eftir því sem húsnæði verður dýrara og framboð á lóðum minna.  UN Habitat bendir á að það þarf ekki að vera slæmt fyrir samfélög, að því gefnu að framboð sé tryggt: „Hægt er að sýna fram á um allan heim að leiguhúsnæði eykur hreyfanleika íbúa, bætir vinnumarkaðinn og möguleika á atvinnu, dregur úr vanda í tengslum við kyn, menningu eða fötlun og styrkir félagsleg og efnahagsleg tengsl.“2

Mér þótti margt áhugavert í þessu skjali, – ekki hvað síst áherslan á að húsnæðismál eru mannréttindamál.  Huga verður að rétti allra til húsnæðis og þá sérstaklega þeirra sem búa við erfiða félagslega og efnahagslega stöðu.

Það tel ég vera kjarnann í þeirri húsnæðisstefnu sem við mörkuðum í vor í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Að við eigum að huga að öllum heimilum.

Heimild:

Habitat III issue papers – 20 Housing.

Tilvitnanir á ensku:

1. „But overall the majority of national and local governments are still struggling to meet the housing needs of their respective populations. The poorest and vulnerable households are the most affected as they have been untouched by the housing market and limitedly benefited from housing policies and regulations.  Efforts to improve access to adequate housing for women, migrants, refugees, people with disabilities, indigeneous and minorities have made little progress so far.  Government interference in the housing sector has been minimal and many have almost withdrawn from housing provision, land supply, procurement, servicing and even regulation.“

2. „Across, the world, evidence shows that rental housing contributes to enhance residential mobility, improve labour market and livelihood opportunities, can acommodate gender, cultural and disability concerns, and strengthen social and economic networks.“

Flokkar: Húsnæðismál

Laugardagur 27.2.2016 - 09:06 - Rita ummæli

Jöfnuður á Íslandi eykst

Jöfnuður hefur verið að aukast á Íslandi og er nú vandfundið það land þar sem bilið á milli þeirra sem hafa lægstar tekjur og hæstar tekjur er minna en hér. Í Félagsvísum 2015 sést að munurinn á tekjum Íslendinga hefur ekki mælst minni í áratug. Þar kemur fram að svokallaður Gini-stuðull var lægri árið 2014 en allt tímabilið 2004-2013. Gini-stuðullinn mælir hvernig samanlagðar tekjur allra einstaklinga í landinu dreifast. Stuðullinn nær frá 0 upp í 100, þar sem 0 þýðir að allir hafi jafnar tekjur en 100 að sami einstaklingurinn hafi allar tekjurnar. Gini-stuðullinn var 22,7 árið 2014 samanborið við 24,1 árið 2004 og 29,6 árið 2009.

Dregur saman með efsta og lægsta tekjuhópnum
Þá kemur einnig fram í tölunum hvað þeir sem hæstar tekjur hafa (20% tekjuhæstu) hafa mörgum sinnum hærri tekjur en hinir tekjulægstu (20% tekjulægstu). Nýjustu tölurnar sýna að þeir hafa nú ríflega þrefaldar tekjur hinna tekjulægstu (3,1) en höfðu fjórfaldar tekjur (4,2) sama hóps árið 2009. Þá hefur lágtekjuhlutfallið á Íslandi, þ.e. einstaklingar sem mælast undir lágtekjumörkum, ekki verið lægra síðan árið 2004. Þá mældust 10% landsmanna undir lágtekjumörkum en hlutfallið er nú komið í 7,9%. Lágtekjumarkið miðast við tekjur upp á 182.600 kr á mánuði.

Það eru sannarlega gleðifréttir að jöfnuður í samfélaginu sé að aukast.  Það er hluti af því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í að vinna gegn ójöfnuði. Það getum við gert með beinum og óbeinum hætti. Við þurfum sterkt öryggisnet en mikilvægast er að skapa heilbrigt umhverfi og stýra efnahagsmálum vel þannig að fólk hafi næga atvinnu auk aðgangs að fyrsta flokks menntun og velferðarþjónustu.

Heimilunum í landinu vegnar betur núna og það er ánægjulegt að þeim heimilum sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda hafi farið hratt fækkandi. Það er hins vegar ljóst að eignastaða fólks er mun ójafnari en tekjurnar og þess vegna er mjög mikilvægt að við styðjum vel við fólk á húsnæðismarkaði og hjálpum þeim sem vilja eignast eigið heimili.

Við erum að vinna í þeim málum á mörgum vígstöðum og það mun stuðla að áframhaldandi bættri stöðu heimilanna.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.2.2016 - 08:53 - Rita ummæli

Mínimalismi og byggingarreglugerð

Fyrir nokkru spurði ég hvort geymsla væri grunnþörf? Þörf okkar fyrir að geyma dót væri orðin svo mikil að hin aldagömlu viðmið um að geta sofið, eldað mat, farið á klósett og þvegið þvott í íbúðarhúsnæði okkar dugðu ekki lengur til heldur yrði ríkið að setja reglur um möguleika okkar til að geyma dót.

Sérgeymsla ætti að fylgja íbúðum og tilgreint var hversu stór hún ætti að vera að lágmarki miðað við stærð íbúðar.

Mitt persónulega svar var stórt nei og nú hefur umhverfisráðuneytið tekið sér stöðu með mínimalisma og hagkvæmu húsnæði í nýjum drögum að byggingarreglugerð.  Lagt er til að tekin verði út ákvæði um að geymsla eigi að vera manngeng í íbúðarhúsnæði og hverjar stærðir hennar eiga að vera.  Þetta þýðir að geymsla getur t.d. verið stór geymsluskápur fyrir 100 þúsund krónur eða 16 m2 4,8 milljóna króna manngenga geymsla með glugga, og allt þar á milli.

Allt eftir því sem við viljum og höfum efni á.

Í anda mínimalismans vil ég þó eindregið hvetja fólk til að íhuga vel hvað er í kössunum í geymslunni.

Myndi það breyta einhverju ef allt í kössunum myndi hverfa?

Yrði lífið verra? Eða betra?

Hugsanlega miklu betra.

 

 

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

Föstudagur 26.2.2016 - 08:28 - 1 ummæli

Meira af Sigrúnarhúsum

Í síðasta pistli fjallaði ég um 25m2 hús sem heimilt verður að byggja án byggingarleyfis samkvæmt drögum að breytingum á byggingarreglugerðinni sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur kynnt.  Góðar ábendingar bárust við pistlinum, ekki hvað síst er varðaði stærð húsanna og lofthæð.

Í drögunum er talað um að hámarkshæð þaks frá yfirborði jarðvegs má vera 3 m.  Bent var á að í Svíþjóð megi „nockhöjd“eða hæð frá yfirborði jarðvegs til efsta hluta þaksins vera 4 m sem breytir miklu ef ætlunin er að setja upp svefnloft í húsinu.  Lesendur höfðu einnig ýmsar skoðanir á stærð húsanna, og töldu að heimilt ætti að vera að byggja allt að 50 m2 hús án byggingarleyfis.

Einnig kom ábending um að sums staðar í Bandaríkjunum mættu sveitarfélög með ákveðinn íbúafjölda ekki krefjast byggingarleyfis vegna þessara húsa.  Það væru einfaldlega of miklir fjárhagslegir hvatar til að krefjast byggingarleyfis sbr. gjaldskrár sveitarfélaganna.

Jafnframt kviknaði spurning um hvort almennt ætti að þurfa að tilkynna t.d. breytingar á votrými eða eldhúsi til sveitarfélaganna.  Það krefst tíma bæði hjá þeim sem byggir,  hönnuðum að vinna teikningar og byggingafulltrúa að meta hvort krefjast eigi byggingarleyfis eða ekki.

Allt kostar þetta fleiri krónur.

Hvað finnst ykkur?

 

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

Fimmtudagur 18.2.2016 - 09:16 - 2 ummæli

Sigrúnarhús?

Í tillögum að breytingum á byggingarreglugerð sem Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra kynnti nýlega má finna fjölmargar nýjungar.  Markmið breytinganna er að lækka byggingarkostnað vegna íbúða sem er í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar um aðgerðir á sviði húsnæðismála.

Ein af nýjungunum er að fjölga á minniháttar framkvæmdum sem verða undanþegnar byggingarleyfi, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Þar undir myndu t.d. falla lítil hús á lóð sem geta að flatarmáli verið að hámarki 25m2.  Húsin getur verið gestahús, bílskúr, vinnustofa o.þ.h.  Samkvæmt tillögunni eru ákvæði um að fjarlægð frá glugga eða hurð húss, svo og frá útvegg timburhúss.  Mesta hæð þaks má vera 3 m og skal hönnunin uppfylla kröfur til íbúðarhúsnæðis eftir því sem við á. Aðeins þarf að tilkynna fyrirhugaða framkvæmd til sveitarfélagsins og leggja fram hönnunargögn áður en framkvæmdir hefjast.  Ef sveitarfélagið gerir ekki athugasemdir innan 21 dags er hægt að hefja framkvæmdir.

Attefallshus_Dreams_Coffee_AB

Lítil hús á borð við þessi hafa einnig verið nýtt með ágætum árangri víða til að þétta byggð og bregðast við breyttu fjölskyldumynstri og öldrun þjóða.  Þannig geta húsin nýst sem litlar íbúðir fyrir háskólanemann á heimilinu sem vill smá fjarlægð frá foreldrunum eða til útleigu þegar barnið flytur að heiman. Í Bandaríkjunum hafa þessi hús stundum verið kölluð „granny pods“ þar sem aldraðir ættingjar búa sjálfstætt en njóta um leið nálægðar við fjölskyldu sínar.

Granny_pods

 

planritning-attefallshus-med-loft

 

Í Svíþjóð eru sambærileg hús kölluð Attefallshús í höfuð á Stefan Attefall sem var þá húsnæðismálaráðherra þegar húsin voru leyfð þar.  Hver veit, kannski verða litlu húsin okkar kölluð Sigrúnarhús í framtíðinni?

Attefallshus_2

Flokkar: Húsnæðismál

Þriðjudagur 5.1.2016 - 17:23 - Rita ummæli

Dæmigert áramótaheit – nema þetta er ókeypis.

Nú er sá tími ársins runninn upp þegar ég íhuga iðulega hvort ég eigi að gerast styrktaraðili einhverra góðra líkamsræktarstöðva. Nýtt ár, nýtt líf, og ný ég með hjálp spinning, tabata og yoga. Þar sé ég mig fyrir mér í nýjum flottum íþróttaskóm og -galla að takast á við enn eitt áramótaheitið. Oft nær það ekki lengra en svo að ég mæti í 4-5 skipti og svo eru það aðeins regluleg styrktarframlög til stöðvarinnar næstu mánuðina með sjálfvirkum færslum á kreditkortið.

Ég rek þessa andúð mína á líkamsrækt og hollri hreyfingu aftur í grunnskóla.  Leikfimi var sá hluti skólans sem ég þoldi ekki.  Þrisvar í viku átti ég skyndilega að geta hlaupið, hoppað yfir tréhesta og klifrað upp reipi, – allt eitthvað sem ég forðaðist eins og pestina í mínu daglega lífi sem hinn fullkomni bókaormur. Einkunnaspjaldið bar áhugaleysi mínu skýrt merki og oft bölvaði ég djöfullegu samsæri menntayfirvalda um að draga niður meðaleinkunn mína…

Þegar ég fór sjálf að ráða meira yfir mínum tíma gerði ég þó nokkrar tilraunir til að byrja að hreyfa mig af einhverju viti.  Mestur árangur minn á því sviði var að klára hálft maraþon, – rétt áður en tímatöku lauk, á þrjóskunni einni saman enda búin að tilkynna þátttöku mína opinberlega og komin með fullt af áheitum fyrir gott málefni.  Ég lagðist svo í rúmið í viku með þær verstu harðsperrur sem ég hef nokkurn timann upplifað og hef ekki hlaupið síðan.

Þessi hegðun er víst nokkuð algeng, þ.e.a.s. að gerast árlegur styrktaraðili líkamsræktarstöðva á grundvelli þeirrar tálsýnar að innra með okkur búið lítið bælt líkamsræktartröll. Svo algeng er hún að atferlisfræðingar hafa lagst í rannsóknir og skilgreiningar á henni.

Ekki nóg með það heldur er viðskiptalíkan margra stöðva skipulagt í kringum nákvæmlega þessa hegðun, ekki hvað síst hjá þeim sem rukka lægstu ársgjöldin.  Í grein á NPR er fjallað um bandaríska líkamsræktarkeðju sem heitir Planet Fitness.  Mánaðarlegt gjald hennar er um $10 til $20 og eru að jafnaði um 6.500 meðlimir á hverri stöð.  Hins vegar getur hver stöð aðeins tekið á móti um 300 manns hverju sinni, sem veldur engum vandræðum þar sem langflestir láta aðeins örsjaldan sjá sig.

Áramótaheitið í ár er því að spara peninginn og taka mínimalistann á þettaMarkmiðið er 18 mínútur af hreyfingu á dag og hún á ekki að kosta neinar krónur, einkunnir eða nýja íþróttaskó.

Aðalvopnið verður YouTube þar sem má finna snilldarsíður um líkamsrækt, sem kosta ekkert umfram nettenginguna.    Má þar nefna BeFIT með fjöldann allan af myndböndum meðal annars með Jillian Michaels, Denise Austin, Jane Fonda, Scott Herman, Kym Johnson og fleiri.

Einnig Blogilates með Cassy Ho.  Æfingarnar hennar er mjög fínar, sem og ráðleggingar um matarræði.  Best er þó myndbandið hennar um The „perfect“ body.

Og að lokum Yoga with Adriene sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér en hún er að byrja nýtt ár með Yoga Camp.

Hér má finna fleiri fína tengla.

Ég vonast til að þetta geti verið raunhæf leið til að ná árangri fyrir engan pening í stað þess að ná engum árangri fyrir fúlgur fjár 🙂

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.12.2015 - 11:43 - 1 ummæli

Guðjón Samúelsson og íbúðir

Fáir hafa haft jafn mikil áhrif á íslenska byggingalist og Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins 1920 til 1950.  Nokkur umræða hefur skapast um hugmyndir hans um viðbyggingu við Alþingi og sýnist sitt hverjum.  Hins vegar tel ég að við getum nýtt verk Guðjóns sem uppsprettu hugmynda mun víðar en þar.

Guðjón Samúelsson hannaði nefnilega nokkur af vinsælustu íbúðarhúsum höfuðborgarinnar þar með talið verkamannabústaðina sem afmarkast af fjórum götum; Hringbraut, Hofsvallagötu, Ásvallagötu og Bræðraborgarstíg, Bankahúsin svokölluð við Framnesveg og Hamragarða við Hávallagötu.

Ég er sérstaklega hrifin af verkamannabústöðunum við Hringbraut enda saga þeirra einkar merkileg þegar litið er til hagkvæmra byggingalausna á samfélagslegum forsendum.  Árið 1930 hóf Byggingarfélag alþýðu undirbúning að byggingu þeirra á lóðinni með samkeppni.  Niðurstaðan varð þó að nýta ekki samkeppnistillögurnar heldur fela Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins að hanna húsin.  Með honum starfaði Einar Erlendsson, fulltrúi á skrifstofu Húsameistara ríkisins.

Framhlid_Verkamannabustadir

Húsin voru reist á árunum 1931-1935, en fyrstu íbúðirnar voru teknar í notkun í maí árið 1932. Verkamannabústaðirnir við Hringbraut eru samfelld tveggja hæða húsaröð sem mynda hring umhverfis reitinn með 110 55 m2 íbúðum og sameiginlegum húsagarði í miðju. Hringbraut_GS_innra_skipulag

Sambyggingin skiptist upp í sjálfstæð stigahús með fjórum íbúðum.  Forgarðar í sólarátt eru götumegin meðfram Hringbraut, en annars eru húsin byggð þétt við gangstétt. 

Hringbraut_GS

Í lok umfjöllunar bókarinnar Hæg breytileg átt (2015) um þátt félagslegra íbúða í húsagerðarsögu 20. aldar er nefnt að áratugum seinna er enn bent á verkamannabústaðina við Hringbraut sem „…frábærlega vel heppnað dæmi um borgarbyggð sem er manneskjuleg og vistvæn í nútímaskilningi, augljóslega mótuð að íslensku veðurfari og byggingarháttum.“ af erlendum sérfræðingum í borgarskipulagi og arkitektúr.

Fyrirmynd verkamannabústaðanna við Hringbraut er grein sem Guðjón Samúelsson skrifaði nokkrum árum áður með útfærslum á hagkvæmum og betri húsnæðislausnum.  Í henni má finna aðra tillögu frá Guðjóni sem minnir á Bankahúsin svonefndu við Framnesveg, sem hann teiknaði stuttu síðar og Landsbankinn kostaði í því skyni að opna augu fólks fyrir kostum bygginga af þessari gerð.  Þar fléttast misstórar húsagerðir saman í eina lengju, og annað hvert hús með burst fram á götu.  Húsin eru undir sterkum enskum áhrifum, þannig að hver íbúð hafi sérinngang og eigin garð sem nota mætti til bæði matjurtaræktar og skrúðgarðyrkju. Um er að ræða 12 íbúða sambyggingu, raðhús á þremur hæðum.

Óhætt er að segja að Guðjón hafi með hönnun húsanna aðlagað alþjóðlegar strauma að þjóðlegum einkennum í byggingarlist, burstabæinn sjálfan.

Bankahusin_Framnesvegi

Annað hús sem snertir mitt samvinnu- og framsóknarhjarta er Hamragarðar við Hávallagötu sem Guðjón teiknaði og var byggt af SÍS sem skólastjórabústaður fyrir Jónas frá Hriflu.

Hamragardar_Havallagata

Heimildir:

Aron Freyr Leifsson (2012), Íbúð verkamannsins á teikniborði arkitektsins – áhrif funksjónalisma á hönnun verkamannabústaðanna við Hringbraut, lokaritgerð við hönnunar- og arkitektúrdeild, Listaháskóli Íslands.

Bankahúsin Framnesvegi 20 til 26 B, Reykjavík, friðuð (2010), Minjastofnun.is 11. nóv. 2010.

Hæg Breytileg Átt (2015)

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

Föstudagur 27.11.2015 - 08:01 - Rita ummæli

Hitt bréfið

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur