Fimmtudagur 3.11.2011 - 16:52 - 1 ummæli

LíkamsÁst

Óánægja með líkamsvöxt er landlæg meðal kvenna og er að aukast meðal karla. Kannanir benda til þess að allt að 80% kvenna séu óánægðar með líkama sinn og vilji vera grennri. Margvíslegir samfélagsþættir stuðla að þessari óánægju. Haldið er að okkur að feitt sé óæskilægt en grönnu fólki er hampað. Fólk sem er í megrun eða átaki mætir alla jafna jákvæðu viðhorfi og er hvatt áfram með hrósi. Það má því segja að við ölumst upp í samfélagi sem kennir okkur að feitt sé óæskilegt/ljótt og grannt sé gott. Þessi samfélagsskilyrði geta ýtt undir átröskun, slæma andlega líðan og síðast en ekki síst óánægju með líkamsvöxt.

Líkamsóánægja leiðir oft til þess að konur og menn reyna að breyta líkama sínum í átt að ríkjandi viðmiðum um fallegan líkama. Einungis 5 % kvenna eru með líkama ofurfyrisætu frá náttúrunnar hendi. Það liggur því í hlutarins eðli að hin 95 % sem  reyna að öðlast þetta ofurgranna útliti há erfiða baráttu við líkama sinn. Ein rannsókn sem ég rakst á bendir til þess að 82% kvenna hafa farið í megrun 10 sinnum eða oftar. Það þykir mér afar há tala. Í grunnnámi mínu í sálfræði lærðum við um kenninguna um náttúrulega kjörþyngd  (Set Point Theory). Sú kenning byggir á rannsóknum sem sýna að erfðir ákvarða að mestu leyti líkamsvöxt okkar og að líkaminn leitast við að halda sér í sínu eðlislæga formi. Þetta skýrir hvers vegna varanlegt þyngdartap er undantekningin í megrun en reglan að þyngdin„jó jó –ar” niður og svo aftur upp. Sama hversu mikið fólk neitar sér um mat og hreyfir sig á milljón þá mun líkaminn leitast við að koma sér aftur í upprunalega þyngd.  Ofsafengin „átök” við líkamann skila því yfirleitt ekki draumaþyngdinni. Rannsóknir sýna einnig að sveiflur í líkamsþyngd tengjast heilsufarsvandamálum, sem eru mörg hver nákvæmlega þau sömu og tengjast offitu…

Það þarf ekki að vafra lengi á svokölluðm kvennasíðum á netinu til að detta niður á gullfallegar konur sem eru í átaki, að byrja í átaki eða leiðbeina öðrum konum í átaki. Það sama á við um ýmis kvennatímarit; oftast lenda þær sem hafa misst flest kíló á forsíðunni og þemað í viðtalinu er að hamingjuna sé að finna í mjóum kroppi.

Um daginn stóð ég mig að því að skoða myndir af konum á leið í átak. Þarna stóðu þær á nærklæðunum og lýstu yfir óánægju sinni með líkamann og á hvaða hátt þær vildu breyta honum. Sama hvað ég rýndi þá sá ég ekki gallana sem þær töluðu um. Ég sá bara flottar konur sem valdar höfðu verið af dómnefnd til að fara í átak og fengu þar með staðfestingu á því að líkami þeirra væri ómögulegur. Þetta vakti með mér sorg og fannst mér þarna verið að gefa þeim og öðrum þau skilaboð að þær væru ekki fallegar eins og þær eru og að þær þyrftu breytinga við. Ég er orðin langþreytt á þessum skilaboðum til kvenna. Mig þyrstir í umfjöllun um konur sem geta verið öðrum konum fyrirmyndir hvað líkamsánægju varðar. Boðskapur Megrunarlausa dagsins hefur lengi verið sá að hvetja fólk til þess að hugsa um heilsu óháð holdarfari (Health at Every Size). Hugsunin er að fólk lifi í sátt við líkama sinn, stundi hreyfingu sér til skemmtunar og heilsueflingar (ekki fitubrennslu) og gefi líkama sínum góða og heilsusamlega næringu án allra öfga.

Það sem mig myndi langa til að sjá er meðtak. Meðtakið gæti heitið LíkamsÁst 2011. Orðið meðtak er dregið af því að meðtaka  þ.e. því að meðtaka líkama sinn eins og hann er. Líkamsást lýsir sér, eins og öll önnur ást, í því að fólk vill eða reynir að sýna hinum elskaða hlýju og umhyggju. Þátttakendur myndu þurfa að vera af öllum stærðum og gerðum því það er mikilvægt að svona meðtak gefi góðan þverskurð af samfélaginu og sýni allskonar fegurð. Þátttakendur myndu tjá sig um hvernig líkamsástin þeirra lýsir sér og hvernig þeir hafi öðlast þessa ást. Ég held að það væri hollt fyrir flestalla að taka þátt í svona meðtaki.  Verðlaunin fyrir þátttöku yrðu svo ekki efnisleg heldur andleg og felast í því að fólk upplifir meiri líkamsánægju og betri líðan. Margir munu svo líklega uppgötva að þegar þau eru laus úr viðjum líkamsóánægju þá skapast sjálfkrafa rými fyrir aðrar og vonandi meira uppbyggilegar hugsanir og frístundir.

Flokkar: Líkamsmynd

Þriðjudagur 18.10.2011 - 10:23 - 2 ummæli

Byltingin er hafin!

Kæru lesendur. Nú verður kynnt sú nýbreytni hér á síðunni að Líkamsvirðing verður hópblogg. Í hönd fara því vonandi hressilegir tímar þar sem pistlar birtast með örari hætti en verið hefur enda dugir ekkert minna þegar bylta á samfélaginu. Margar hendur vinna létt verk.

Flokkar: Líkamsvirðing

Fimmtudagur 13.10.2011 - 19:03 - 7 ummæli

Látum verkin tala

Jæja krakkar. Þegar þetta er skrifað hafa 156 manns gefið til kynna að þeim líki við síðustu færslu sem birtist hér á vefnum. Látum nú á það reyna hvort 156 manneskjur eru tilbúnar til að láta verkin tala og 1) hringja eða skrifa bréf til Mörtu Maríu – eða ritstjórnar Morgunblaðsins – og kvarta yfir útlits- og megrunaráherslum Smartlands, 2) hætta alfarið að fara inn á þessa miðla og hvetja vini og vandamenn til að gera slíkt hið sama, 3) skrifa tölvupóst eða hringja til Hreyfingar og lýsa yfir óánægju sinni með þær áherslur sem líkamsræktarstöðin leggur, 4) stunda ekki viðskipti við þessa líkamsræktarstöð, 5) sýna öðrum fjölmiðlum, fyrirtækjum og einstaklingum sem halda megrunarmenningunni á lofti nákvæmlega sömu viðbrögð, og 6) halda því áfram þangað til veröldin breytist.

Flokkar: Samfélagsbarátta

Þriðjudagur 11.10.2011 - 13:48 - 7 ummæli

Af hverju eru átraskanir samfélagsvandi?

Í þau fáu skipti sem baráttan gegn átröskunum hefur farið hátt hér á landi hefur mátt skynja mikla reiði og baráttuanda í fólki. Allir virðast sammála því að „eitthvað verði að gera“ til þess að stemma stigu við þessum vanda og hneykslast á því að heilu kynslóðirnar eigi bara að verða þessum illvígu geðröskunum að bráð án þess að nokkuð verði að gert. Mér hefur hins vegar alltaf þótt það einkar athyglisverð meinloka að geta viðurkennt að átraskanir séu samfélagsvandi en vera samt sem áður EKKI tilbúin að mótmæla þeirri endalausu upphafningu megrunar og mjónudýrkunar sem kemur fram í fjölmiðlum. Hvað þarf til þess að þið tengið saman punktana, gott fólk?

Hér er gott dæmi um hvernig ljós fjölmiðlanna er nýtt til þess að gera öfgafulla megrun að sjálfsögðu, ef ekki aðdáunarverðu, athæfi. Þetta er bara eitt dæmi af þúsundum og Smartland er óðum að skipa sér í fremstu röð meðal þeirra sem helst halda megrunarmenningunni á lofti hér á landi. Það ætti engin vegsemd að felast í því. Í þessari umfjöllun, sem er sett fram undir yfirskriftinni „heilsa“ (!!), greinir grannvaxin kona frá því að innbyrða ekki nema 1200 hiteiningar á dag bróðurpart vikunnar. Er kyn þótt keraldið leki? Ekki aðeins er verið að hvetja til megrunar og halda því að fólki að það sé sjálfsagt að þvinga líkama sinn til þyngdartaps með öfgafullum hætti, heldur er því haldið fram í ofanálag að þetta sé hluti af heilsusamlegu líferni.

Það sem verið er að gera hérna er að normalísera, glamúrvæða og upphefja þyngdarþráhyggju og megrunarhegðun sem mun í besta falli ekki skila neinu þegar til lengri tíma er litið (já, kynnið ykkur bara rannsóknir um árangur megrunar krakkar mínir) og í versta falli verða hluti af því sem hvetur einhverja ólánssama sál til þess að feta fyrstu sporin inn í heim átröskunar.

Undanfarin sex ár hef ég starfað við forvarnir og meðferð átraskana og rætt við ótal ungar stúlkur um þrýstinginn sem þær finna fyrir um að vera grannar. Hann er raunverulegur og breytir eldklárum og skemmtilegum stelpum í skuggana af sjálfum sér. Þær lýsa því hvernig þær lágu yfir nákvæmlega svona umfjöllunum, eins og birtast reglulega á Smartlandi, í upphafi sjúkdómsins, hvernig þær fengu þar staðfestingu á því að þær væru að gera rétt og það væri sjálfsagt að vera með þyngdina á heilanum og beita sig hörðu til að grennast. Í byrjun klöppuðu þar að auki allir fyrir þeim. Það var ekki ein einasta manneskja sem lýsti áhyggjum af því að þær væru í megrun. Æðislegt, sögðu allir, rosalega lítur þú vel út! Það var ekki fyrr en löngu seinna, þegar hegðunarmynstur átröskunarinnar var orðið kyrfilega fast í sessi, sem áhyggjuljós fóru að kvikna. Hmm. Nú er komið nóg. Nú ættirðu að fá þér að borða. En þá er það of seint.

Það er ekkert annað en sturlað hvernig við sem samfélag hvetjum átröskunarsjúklinga áfram inn í sín veikindi. Hver einasti átröskunarsjúklingur á sögu um það hvernig honum var hrósað og hampað fyrir að stíga fyrstu skrefin inn í þann skelfingarheim sem á endanum gleypir hann.  Ætli ungmenni sem verða vímuefnum að bráð hafi sömu sögu að segja? Ætli hafi líka verið klappað fyrir þeim þegar þau byrjuðu að drekka og dópa? Vá, hvað þú ert töff! Flott hjá þér! Bara passa sig að ganga ekki of langt!

Ef við viljum stemma stigu við átröskunarvandanum í þessu landi þá þurfum við að fara að bregðast harðar við þeim skilaboðum sem ýta undir þennan vanda. Við getum fengið samfélag sem einkennist af megrunaráróðri og útlitsdýrkun eða við getum fengið samfélag sem er laust við átraskanir. En við getum ekki fengið bæði.

Flokkar: Átraskanir · Megrun · Útlitskröfur

Föstudagur 7.10.2011 - 09:56 - 6 ummæli

Ruglið um hitaeiningar

Á vef matvæla- og næringarfræðafélags Íslands er að finna reiknivél þar sem hægt er að setja inn tölur um kyn, hæð, þyngd og aldur og fá útreikninga á líkamsþyngdarstuðli, efri og neðri mörkum „kjörþyngdar“ ásamt daglegri hitaeiningaþörf og upplýsingum um hversu mörgum hitaeiningum maður eyðir við að skokka. Argasta bull og megrunarþráhyggjufóður að mínu mati. Hér er ástæðan:

Það er ekki hægt að vita hversu mörgum hitaeiningum fólk brennir nema gangast undir mjög nákvæmar, tímafrekar og kostnaðarsamar mælingar. Orkunotkun er breytileg dag frá degi og því yrðu allar slíkar tölur, þótt einstaklingsmiðaðar væru, bara meðaltöl sem ættu misvel við á hverjum tíma. Allar tölur um hvað hin og þessi hreyfingin brennir mörgum hitaeiningum eru sama marki brenndar – þetta eru meðaltöl sem geta verið ansi nálægt því sem á við í þínu tilfelli eða víðs fjarri. Það er engin leið fyrir þig til að vita það. Þar að auki á „brennsla“ ekki bara við um hreyfingu, heldur nær þetta hugtak yfir alla orkueyðslu sem á sér stað í líkama þínum, öll þín líkamsstarfsemi er „brennsla“ með einum eða öðrum hætti, hvort sem það er andardráttur, hugsun, hárvöxtur eða hjartláttur.

En það sem meira er – líkami þinn getur hagrætt orkueyðslu sinni eins og honum sýnist. Þegar allt er í góðu standi, líkami þinn á nóga fitu og kolvetni til að brenna og enginn skortur er ríkjandi, þá brennir hann kannski 400 he. á sveittri æfingu. Nákvæmlega sama æfing mánuði seinna þegar þú ert komin í megrun veldur hins vegar mun minna orkutapi því þá er líkaminn farinn að spara. Þessi sveigjanleiki líkamans við orkueyðslu gerir það að verkum – auk eðlilegra sveiflna í orkuþörf frá degi til dags hjá heilbrigðu fólki – að það er lífsins ómögulegt að treysta á einhverja formúlu eða reiknivél til að vita hvað þú þarft að borða og hversu mikið. Skekkjan sem hlýtur alltaf að fylgja svo ónákvæmum reikningum verður hæglega til þess að þú of- eða vanmetur hitaeiningaþörf þína.

Það að vera sífellt að hvetja fólk til þess að telja hitaeiningar og birta formúlur og reiknivélar í þeim tilgangi elur á þeirri ranghugmynd að það sé yfir höfuð hægt, fyrir venjulegt fólk, að nálgast næringu líkama síns eins og stærðfræðidæmi – eitthvað sem inniheldur bara skýrar og klárar tölur og hægt er að reikna út með yfirveguðum hætti hvort þú ert að gera rétt eða rangt. Það er vitleysa. Í þessu reikningsdæmi eru tölurnar síbreytilegar og engin leið að henda reiður á þeim til þess að fá endanlega útkomu sem stenst. Þegar litið er til þess að að boðberar næringarjöfnunnar („kaloríur inn – kaloríur út“) hamra sífellt á því að minnstu frávik geti safnast saman yfir tíma og orðið að gríðarlegri þyngdaraukningu með árunum, þá er furðulegt að þessir sömu aðilar skuli halda aðferð að fólki sem virðist hafa í för sér óhjákvæmilega skekkju.

Sem betur fer er til önnur og mun áreiðanlegri leið til þess að komast að því hvað líkami þinn þarf að borða til að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi og þyngd. Hún er svo auðveld að smákrakkar geta framkvæmt hana, hún kostar ekkert, tekur engan tíma og er þar að auki meðfædd. Hún heitir að hlusta á líkamann. Alveg eins og líkami þinn lætur þig vita þegar hann er þreyttur eða þarf á klósettið, þá lætur hann þig vita hvenær hann þarf að borða og hversu mikið hann þarf til þess að fá nóg. Það eina sem þú þarft að gera er að læra að hlusta. Þú gast það einu sinni – ungabörn fæðast í langflestum tilfellum með hæfileikann til þess að taka inn nóg af næringu (miðað við að nóg næring sé í boði) til þess að vaxa og dafna eðlilega. Þau kunna hvorki að tala né lesa og skilja ekki mælt mál. Enginn hefur kennt þeim þetta en þetta kunna þau nú samt. Hvernig getum við skýrt það að ungabörnum takist betur að áætla orkuþörf sína en háþróuðum mæliformúlum fagaðilanna? Það verður ekki skýrt með öðru en því að líkaminn stýrir matarlyst og orkueyðslu miðað við þörf og fæðuframboð. Það er hluti af eðlilegri starfsemi hans. Ef við fáum ekki nóg að borða, þá dregur líkaminn úr óþarfa orkueyðslu. Hið öfuga gerist þegar við fáum of mikið miðað við þörf. Við missum áhugann á mat og líkaminn sóar orku eins og útrásarvíkingar sóa peningum.

Þetta kerfi er ekki fullkomið og það geta myndast aðstæður sem ná að yfirvinna það. Langavarandi fæðuskortur leiðir til þess að líkaminn klárar á endanum sínar varabirgðir, hvort sem þær eru í formi vöðva eða fitu. Langvarandi ofeldi leiðir sömuleiðis til fitusöfnunar, því er ekki að neita. Það breytir hins vegar ekki því að líkaminn leitast við að halda jafnvægi í þyngd og næringarástandi og sendir okkur reglubundin skilaboð um svengd og saðningu í þeim tilgangi. Öruggasta leiðin til að halda þessu jafnvægi er að hlýða þeim.

Flokkar: Megrun · Þyngdarstjórnun

Föstudagur 9.9.2011 - 19:36 - 3 ummæli

National Geographic

National Geographic birti nýlega umfjöllun um Heilsu óháð holdafari sem lesa má hér. Vel skrifuð grein sem útskýrir hugmyndafræði Heilsu óháð holdafari skýrt og skilmerkilega. Húrra fyrir því!

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Samfélagsbarátta

Þriðjudagur 6.9.2011 - 21:27 - Rita ummæli

Meira um Möggu

Hér má finna nokkrar skemmtilegar útfærslur á því sem gerist næst í lífi Möggu litlu sem var send í megrun fyrir skemmstu:


Flokkar: Fjölbreytileiki · Megrun · Samfélagsbarátta

Fimmtudagur 25.8.2011 - 11:57 - 2 ummæli

Michelle fer í megrun

Þetta myndband er andsvar við barnabókinni „Magga fer í megrun“ – í rímum eins og bókin sjálf. Tékkit!

Áhugasamir geta síðan lesið hér um umfjöllun LA Times um málið, sem sýnir að það finnst sko alls ekki öllum neitt athugavert við þessa bók, og minnir mann á að eflaust eiga „vel meinandi“ foreldrar, kennarar og heibrigðisstarfsfólk út um allan heim eftir að kaupa þessa bók í stóru upplagi til að kynna fyrir börnum… Hrollur.

Flokkar: Líkamsvirðing · Stríðið gegn fitu

Laugardagur 20.8.2011 - 17:09 - 2 ummæli

Megrun fyrir börn

Fréttin um megrunarbók fyrir börn (markhópurinn virðist samt aðallega vera litlar stúlkur – nema hvað) hefur farið um netheimana eins og eldur í sinu síðustu daga. Viðbrögðin hafa verið samtaka hneykslan og furða: Hvað næst, spyr fólk? Átaksnámskeið fyrir leikskólabörn? Hitaeiningateljari í nintendo vasatölvuna?

Flest virðumst við sammála um að það er eitthvað verulega rangt við að innræta litlum börnum að vera í baráttu við líkama sinn. Við vitum – mörg af biturri reynslu – að það að segja líkama sínum stríð á hendur, og neita sér um mat í von um að öðlast annan og betri, er hvorki uppbyggilegt né heilsusamlegt ferli heldur einkennist það af óánægju, minnimáttarkennd og vanlíðan. Atferlið grundvallast á því að þú sért ekki í lagi og þurfir nauðsynlega að breytast til þess að verða sjálfri þér og öðrum bjóðandi. Það að þetta takist síðan yfirleitt ekki – viðvarandi þyngdartap er undantekning frekar en regla – er saltið í sárið. Þú ert búin að skilgreina þig sem annars flokks og það stóð til að breyta því en síðan reynist það hægara sagt en gert. Hvernig verður líf þitt upp frá því? Muntu hafa sjálfstraustið í lagi? Líða vel í eigin líkama? Vera stolt af þínum sérkennum? Aldeilis ekki.

Þetta er ekki veröld sem við ættum að vilja opna fyrir börnunum okkar. Útgáfa barnabókar um megrun verður hins vegar að teljast fullkomnlega eðlilegt næsta skref þegar litið er til þeirrar umræðu sem ríkt hefur um holdafar barna fram að þessu. Allan síðasta áratuginn hafa birst linnulausar ábendingar í fjölmiðlum um að sum börn séu feit og að því verði að breyta. Okkur finnst allt í lagi þegar þessi sömu skilaboð eru sett fram í tengslum við neyðarástandið um offitu barna – þá er bara verið að taka skynsamlega á málunum. Þá er verið að hugsa um heilsuna. Ég tala nú ekki um þegar það er fagfólk sem tjáir sig, þá hljóta skilaboðin að vera hafin yfir allan vafa.

Hér er t.d. fagmanneskja sem telur það skelfilegt að þéttvöxnum börnum skuli vera boðið upp á pönsur í heimsókn hjá ömmu eða súkkulaðiköku í afmæli hjá vinum sínum:

Flest börn fara t.d. mörgum sinnum á ári í afmæli hjá vinum sínum. Fjölmörg annars konar tilefni eru tíð þar sem oft og iðulega er boðið upp á miður æskilegar neysluvörur sérstaklega fyrir börn sem glíma við ofþyngd eða hafa tilhneigingu til að þyngjast umfram kjörþyngd.

Kökur og kræsingar sérstaklega óæskilegar fyrir börn sem hafa tilhneigingu til að fitna? Hvað er til ráða? Bjóða upp á gulrætur og kálhausa í barnaafmælum? Merkja veitingar með hitaeiningafjölda svo börnin geti allavega tekið upplýstar ákvarðanir? Eða hafa sérstakt fituhorn – sérborð með hitaeiningasnauðum mat fyrir feitu krakkana svo hinir geti að minnsta kosti notið þess að vera í afmælinu. Feitu krakkarnir mega auðvitað ekki við því að kalla yfir sig aukna óvild. Kannski væri best að hætta bara að bjóða feitum börnum í afmælisveislur? Hvað hafa þau svo sem að gera í afmæli, þar sem ekkert stendur til annað en að úða í sig fitu og sætindum? Hellóóó!

Svona í fúlustu alvöru þá þurfum við að taka okkur taki. Ef við erum sammála um að veröld sem einkennist af fitukomplexum og kaloríutalningu sé ekki við barna hæfi þá þurfum við líka að hreyfa við mótmælum þegar ákveðnum hluta barna er sérstaklega beint þangað inn af því „það er þeim fyrir bestu“. Enginn hefur gott af því að líða illa yfir sjálfum sér. Og bara svo það sé á hreinu þá er ekkert lögmál að þéttvöxnum börnum sé strítt eða líði illa- hvað þá að holdafari þeirra sé um að kenna. Þetta viðgengst einfaldlega af því við leyfum neikvæðum viðhorfum í garð þéttvaxinna að ráða ríkjum. Hættum því strax í dag! Öll börn eiga rétt á yndislegri æsku. Öll börn – hvort sem þau eru grönn eða feit – eiga rétt á góðu og styðjandi umhverfi þar sem hlúð er að tilfinningalegum þörfum þeirra jafnt sem líkamlegum.

Flokkar: Megrun · Stríðið gegn fitu

Miðvikudagur 17.8.2011 - 14:12 - 6 ummæli

Glóruleysi

Jessica Weiner er ein þeirra sem hafa verið áberandi í baráttunni fyrir aukinni líkamsvirðingu undanfarin ár. Hún er höfundur bókarinnar  Life doesn’t begin 5 pounds from now þar sem hún hvetur ungar konur til þess að láta af líkamsþráhyggjunni og elska líkama sinn eins og hann er. Hún var fyrirmynd margra sem vildu öðlast aukna sátt og betri líðan í eigin líkama.

Nú hefur hún hins vegar vent kvæði sínu í kross og heldur því fram í nýrri grein í tímaritinu Glamour (sem oft  hefur vakið athygli fyrir jákvæða umfjöllun um fjölbreytileika holdsins) að ást hennar í garð líkamans hafi næstum því drepið hana. Röksemdafærslan er á þá leið að hún hafi verið svo upptekin af því að vera ánægð með líkama sinn að hún hafi lítið hugað að heilsunni og ekki gert ráð fyrir því að líkami hennar þyrfti á sérstakri umönnun að halda.

Framganga Jessicu verður því miður eflaust til að styrkja skoðanir margra um að það sé hvorki gáfulegt né gæfulegt fyrir fólk í þéttari kantinum að verða of sátt í eigin skinni. Algeng gagnrýni í garð þeirra sem hvetja til líkamsvirðingar er einmitt sú að með því sé verið að hvetja til kæruleysis gagnvart heilbrigðum lífsvenjum. Það er því dapurlegt ef játningar Jessicu Weiner verða til þess að styrkja þessar skoðanir enn frekar því þær eru byggðar á miklum misskilningi.

Jessicu hefði átt að vera kunnugt, miðað við það leiðtogahlutverk sem hún hefur tekið sér á þessu sviði, að boðskapur þeirra sem hvetja til líkamsvirðingar er ekki og hefur aldrei verið sá að heilsa og lífsvenjur skipti ekki máli. Meginatriði heilsu óháð holdafari (health at every size) eru til að mynda: 1) Að njóta þess að borða fjölbreyttan og næringarríkan mat í þeim skömmtum sem líkaminn þarf á að halda miðað við skilaboð um hungur og saðningu, 2) að hreyfa sig reglulega til að efla lífsþrótt, hreysti og gleði, og 3) að átta sig á því að líkamar koma í öllum stærðum og gerðum og semja frið við eigin líkama þrátt fyrir „ófullkomnleika“ hans. Þess vegna koma ummæli hennar hér fyrir neðan verulega á óvart:

I needed to go deeper than the mantras and speeches. To truly love my body, I had to treat it better.

Hvað hélt hún eiginlega að fælist í því að elska líkama sinn? Að hugsa fallega til hans á meðan maður neitar honum um þá umhyggju sem hann þarfnast? Það  er ekki væntumþykja heldur vanræksla.

Jæja. Með þessa nýju uppgötvun fer Jessica og gerir jákvæðar breytingar á lífi sínu. Hún lærir að borða hollari mat, fer að stunda reglulega hreyfingu og vinnur með sálfræðingi að því að laga tilfinningatengt samband við mat. Flott hjá henni. Við þetta batnar heilsufar hennar heilmikið og yfir 18 mánaða tímabil tapar hún rúmlega 10 kg.

Misskilningur Jessicu er fólginn í tvennu: Í fyrsta lagi að halda að það samræmist hugmyndafræði líkamsvirðingar að hugsa ekki um heilsuna. Ef hún hefði lifað af heilum hug samkvæmt þeirri speki sem hún kennir sig við hefði hún átt að vera búin að taka upp heilbrigðari lífsvenjur fyrir löngu.

Í öðru lagi í því að halda að áhyggjur af þyngdinni séu nauðsynlegar til þess að gera jákvæðar breytingar á lífi sínu. Hún skilur ekki að allar þær breytingar sem hún gerði samræmast að fullu hugmyndafræði heilsu óháð holdafari – það er að segja ef undan er skilin áherslan á þyngdina. En ef þyngdartap hefði ekki verið hennar megináhersla hefði hún kannski verið ánægðari og stoltari af sjálfri sér yfir þeim breytingum sem henni tókst að gera og notið betur þeirrar vellíðunar og hreysti sem hún uppskar í stað þess að láta vigtina varpa skugga á þá gleði:

But I was a little pissed off. “I’ve only lost 25 pounds?” I thought declining desserts and exercising when exhausted would have brought me a more dramatic verdict.

Áhersla á þyngd og þyngdartap bætir engu við það sem fæst með því að taka upp heilbrigðari lífshætti nema ef vera skyldi möguleikanum á svekkelsi og vanlíðan. Af hverju ekki frekar að einbeita sér milliliðalaust að heilbrigðum lífsvenjum, heilbrigðum viðhorfum og heilbrigðri sjálfsmynd og leyfa þyngdinni að lenda þar sem hún vill?

Það er sorglegt að fyrrum leiðtogi á sviði líkamsvirðingar skuli hafa opinberað hrópandi glóruleysi sitt um það hvað þessi stefna snýst en enn sorglegra að hún skuli vilja nýta þetta glóruleysi til þess að fæla fólk frá því ferli að ná sáttum við líkama sinn.

Væntumþykja er ekki hættuleg – en vanræksla getur verið það.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Líkamsvirðing

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com