Fimmtudagur 07.07.2011 - 13:58 - 29 ummæli

“Gulli Helga byggir”

Kollegi minn vakti athygli á sjóvarpsþættinum “Gulli byggir” þar sem Gulli Helga húsasmiður hefur verið fenginn til þess að endurnýja og breyta kjallara í 65 ára gömlu húsi í Reykjavík.  Allt er tekið upp og úr gerð sjónvarpsþáttaröð.

Þetta getur orðið skemmtilegt og fróðlegt sjónvarpsefni sem ber að taka fagnandi.

Undir leiðsögn Gulla og fagmanna á hverju sviði vinna að verkinu íbúar og eigendur húsnæðisins, ásamt vinum og ættingjum.  Eftir því sem virðist hefur enginn arkitekt eða tæknimaður verið kallaður til.  Hinsvegar er leitað ráðgjafar innanhússarkitekts.

Það vakti athygli kollega míns að ekki kom að breytingunum löggiltur arkitekt og var það tilefni þess að hann leitaði til Byggingafulltrúaembættisins í Reykjavík.  Þá kom í ljós að ekki voru skráðar neinar teikningar í tölvukerfi embættisins vegna yfirstandandi breytinga og endurnýjunar hússins Nesvegur 48.  Einungis er að finna frumgögn í skjalasafni þess.  Þau gögn sem starfsmenn embættisins gátu bent honum  á  eru aðalteikning frá árinu 1946 og upprunaleg teikning af ofnalögnum.

Það er rétt hjá kollega mínum að þarna vantar nokkuð á þær ráðleggingar sem Gulli Helga færir áhorfendum.  Viðhald húsa er ekki byggingaleyfisskylt en eftir að hafa horft á þáttinn sýnist mér að þarna sé verið að breyta lögnum, herbergjaskipan virðist vera breytt og fl. Slíkar breytingar þarf að gera uppdrætti af og sækja um formlegt leyfi til framkvæmdanna.

Byggingafulltrúa er kunnugt um þetta tiltekna mál og hlýtur að taki á því og gera rótæka athugasemd við verklag og ráðgjöf Gulla Helga því fólk má ekki halda að svona megi fara fram án þess að það sé skráð og samþykkt. Þetta þarf hann að gera svo eftir sé tekið. Geri hann það ekki er það ámælisvert enda gerir embættið athugasemdir af minna tilefni en þessu í sínum daglegu störfum.

Það má enginn byggja í leyfisleysi, heldur ekki Gulli Helga.
Þátt Ríkisjónvarpsins má sjá á eftirfarandi slóð:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4580055/2011/07/04/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (29)

  • Ég er ansi hrædd um að þetta sé hvorki mistök né gleymska hjá Gulla….heldur kæruleysi og heimska. Á Pressuni (8.7.2011)er eftirfarandi haft eftir Gulla:

    “Þetta er mesta bull sem ég hef heyrt. Auðvitað á að senda inn teikningar til byggingafulltrúa og stundum er það gert áður og stundum eftirá. Ég þarf bara að athuga hvort ekki sé búið að því”

    “Athuga hvort ekki sé búið að því”. Samkvæmt öllum reglum má ekki hefja framkvæmdir nema samþykkt liggi fyrir. Og samþykktin er ekki gerð eftirá.

    Og svo er eitthvað talað um að það sé innanhúshönnuður sem skrifar upp á teikningarnar fyrir Gulla og gæti það verið ástæða fyrir óánægju arkitektanna. Því er bara þannig háttað að innanhússhönuðir hafa ekki heimild til þess að skrifa uppá aðaluppdrætti og þeir gera ekki lagnateikningar.

    Af hverju lætur maðurinn umræðuna ganga hér vikum saman án þess að leiðrétta „bullið“ með einu stuttu kommenti? Það er af því að þetta er ekkert bull.

    http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/log-brotin-i-vinsaelum-sjonvarpsthaetti—mesta-bull-sem-eg-hef-heyrt-segir-gulli-helga?page=2&offset=50

  • Sennilega hefur Gulli gleymt einhverjum nauðsinlegum formsatriðum sem hann á eftir að lagfæra. Þáttaröðin er ekki búin. Varðandi arkitekta þá er ástæðulaust að gera lítið úr þeirra starfi

  • Magnus Jonsson

    Búinn að starfa með fagaðilinum í þessu í mörg ár og í fleiri tilfellum en hitt „teiknar“ arkitektin 2-3 strik og skilgreinir þannig að öll ábyrgð á útfærslu festingum burðaþoli osfr.. lendir á iðnaðarmanninum.
    Í einhverjum tilfellum hefur maður lent í að arkitektin kemur eftir að búið er að smíða og teiknar upp það sem var gert.

    Nú svo hefur maður oft lent í jafnvel í stærri verkum að verktakinn á að koma með ódýrustu launs sem möguleg er þannig að hönnunin lendir oftast á vertaka. Og greinilega skiptir engu hvaða uppdrættir liggja inní hjá húsameistara þegar framkvæmt er eftir ódýrustu lausn…

  • Jón Ólafs.

    Íbúðin sem Gulli er að endurnýja er frá árinu 1949.
    Nú ætti einhver fræðingurinn að svara því hvort íbúðin sé samþykkt, eða ekki, svör óskast.

  • Að mínu mati hafa arkitektar minna en ekkert vit á húsbyggingum, nema þeir séu með að lágmarki sveinsréttindi í húsasmíði og 5 ára starfsreynslu sem húsasmiðir. Eða meistararéttindi í húsasmíði.
    Það ætti engin listaspíra að fá leyfi til að kalla sig arkitekt. Það getur hvaða leikskólakrakki teiknað hús.
    Svo ættu arkitektar að vera gerðir ábyrgir fyrir öllum göllum sem koma fram í þeim húsum sem þeir teikna.

  • Þorbjörn

    Þetta eru bara mannleg mistök sem maður bíður eftir að verð leiðrétt. Annars er þetta mjög góður þáttur hjá Gulla

  • Gerðarmóri

    Þetta er ekkert að lagast

  • Takk fyrir reynslusögurnar Hilmar. Ég hef aldrei sótt um neins konar leyfi til byggingafulltrúa. En þetta yfirvald hefur alveg hræðilegt orð á sér og þannig hefur það verið frá því að elstu menn muna.

    PS Hinn æsispennandi þáttur Gulla Helga heldur áfram. Mér finnst menn bera sig alveg ótrúlega vel miðað við allan þann hrylling sem kemur í ljós þegar klæðningar eru rifnar burt. Halda bara ótrauðir áfram og brosa gegnum tárin. Fá Feng shui meistara til að halda uppi móralnum. Svo yndislega íslenskt.

    En svo ég haldi áfram að nöldra aðeins út af þáttagerðina. Ég hefði viljað vita aðeins meira um það hvernig þetta innflutta sænska hús er byggt. Og um brunann. Lá trégólfið þá undir vatni (eftir heimsókn slökkviliðs) og morknaði svo í rólegleitunum ofan á forskalningunni næstu árin?

  • Hilmar Þór

    Anna R. spyr Pál um reynslusögur. Allir starfandi arkitektar kunna margar slíkar. Ég nefni tvær frá því nú í vor

    Sótt er um að setja flatann þakglugga á þak 25 ára gamals fjölbýlishúss. Þetta er staðlaður Veluxgluggi. Þarna er um að ræða umsókn um að auka gæði hússins bæði tæknilega og starfrænt. Allur frágangur er í samræmi við lög og ströngustu reglur.

    Málinu var frestað vegna þess að gera þurfti betur grein fyrir sorpmálum. ……Sorpmálum sem ekki koma umsókn um nýjan þakglugga við.

    Annað dæmi.

    Sótt er um að endurnýja millibyggingu í gömlu húsi. Millibyggingin var úr sér gengin og nánast ónýt. Hönnuð er ný bygging í hæsta gæðaflokki og allt í samræmi við skipulag og allar reglur. Starfssemi var ekki breytt og engin breyting gerð vegna brunavarna.

    Máliðnu var ítrekað frestað vegna, skipulagsmála (sem hvergi hallaði á) brunavarna sem ekkert breyttust, heilbrigðismála sem heldur ekkert var hróflað við.

    Þarna er ekki við starfsmenn sveitarfélaganna að sakast, þvert á móti. Heldur er það verklagsreglur sem þeim er gert að vinna eftir sem eru steinn í götu allra sem að málum koma. Þeim þarf strax að breyta.

  • @Páll: Hvað hefurðu fyrir þér í þessu?

    Hefur þú rekið þig á veggi hjá byggingafulltrúa? Blessaður nýttu þér þennan vettvang og komdu með reynslusögur.

  • Páll Gunnlaugsson

    Ætli menn hafi ekki vitað sem er, að ef sækja ætti um til byggingafulltrúa fyrir upptökur hefði þátturinn verið tilbúinn til sýninga árið 2015.

  • Úlfar, það er gott að geta gert sjálfur við sitt hús og jafnframt breytt því að eigin geðþótta. Lögin í Danmörku eru þannig að þú sem eigandi berð sjálfur ábyrgð á þinni eign, En þegar þú selur húsið, þá mun verða gerð tilsynrapport um húsið framkvæmd af löggiltum eftirlitsmanni.
    Ef ekki er vandað til verks og húsið uppfyllir ekki staðla samkvæmt byggingareglugerð, þá kemur stór mínus í verðmati húsins þíns.

    Allt sem ekki er í lagi við sölu húsins, lækkar verð þess allverulega.

    Þess vegna vil ég ítreka það að lög og reglur um íbúðarhúsnæði eru fyrst og fremst gerð í þágu neytendaverndar. sá sem kaupir íbúðarhúsnæði á að geta gengið að því vísu að húsið sé í lagi, bæði hvað varðar frágang á lögnum,einangrun og efnisvali og einnig að allar lágmarkskröfur í sambandi við t.d. flóttaleiðir ef til bruna kemur séu í lagi.

  • Ulfar Bilddal

    Mikið er ég feginn að vera fluttur af klakanum ég á gamalt hús hér i danmörku sem að eg er að gera upp.
    Og það kemur engu möppudýri við hvernig ég ætla að hafa það
    mitt hús ég ræð hvað ég geri við það.

  • Alltaf sama helvítis fagrunkið sem gamlir fagrunkarar hafa samið til að vernda nýja fagrunkara. Eign er eign og réttur fólks til þess að nýta það sem það á réttilega ætti ekki að vera bundin geðþóttaákvörðunum byggingafulltrúa.

  • Heiða og Gulli Helga eru af gamalli íslenskri kynslóð sem við þurfum að losa okkur við. Það er „þetta reddast“ kynslóðin.

    Það er ekkert annað um þetta að segja en að undirbúningur þáttanna var ekki nægjanlega vandaður. En það má „redda“ því.

    Og það gerist vonandi í næsta þætti.

    Enda eiga allir rétt á uppreisn æru sinnar, fyrirgefningu mistaka sinna og Gulli, þessi geðþekki sómamaður, á að fá tækifæri til að bæta sig.

    Þessi tímabæra og góða þáttaröð á ekki annað skilið og það má ekki skemma frumkvæðið þó mistök hafi átt sér stað.

    En samt “ með lögum skal land byggja og með ólögum eyða“

    Við bíðum öll eftir viðbrögðum byggingafulltrúa borgarinnar.

  • Þetta var skemmtilegur þáttur þar sem Iðnaðarmenn REDDA SÉR og ekkert kjaftæði !

    Enda þurfa þeir oft á tíðum að redda vitleysuna eftir alla fræðingana sem aldrei hafa haldið á hamri …

    Þetta verður flott og hættið þessu væli.

  • Þér er fyrirgefið Hilmar Þór. Það væri gaman að sjá róttæka athugasemd frá byggingafulltrúa. Hvað gerir hann t.d. þegar framkvæmdir brjóta í bága við þinglýstar kvaðir? Gefur hann út leyfi eða býður hann þolandanum að fara í mál?

  • Hallur Kristvinsson

    Vil koma á framfæri að í þættinum kemur fram að hönnuðurinn sé innanhússhönnuður. Þetta er ekki rétt því viðkomandi er ekki með lögverndað starfsheiti, menntun viðkomandi er mér ekki kunnugt um.
    Löggilta innanhússhönnuði / innanhússarkitekta má finna á eftirfarandi slóð: http://www.idnadarraduneyti.is/leyfisveitingar/handhafar-leyfa/nr/588

    Varðandi breytingar á (eldra) íbúðarhúsnæði er áhugavert að kynna sér drög að nýrri byggingareglugerð sem væntanlega byggir á mannvirkjalögum.

    Sjá: http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Drog-byggingareglugerd.pdf
    Sjá þar grein: 2.3.5 Minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi.

    Er ekki í drögunum gengið lengra en í gildandi reglugerð?

    Er það framför að teknu tillilti til neytendaverndar?

    Ef einhver er nú hönnuðurinn við slíklar breytingar, hvað þá með tryggingar?

    Margar fleiri spurningar vakna.

    Orðið „minniháttar“ vekur athygli en eðlilegra hefði verið að sleppa því miðað við innihaldið.
    Margt annað í reglugerðardrögunum vekur athygli en það er önnur saga.

  • Gerðarmóri

    Með lögum skal land byggja, nema þegar Gulli Helga er að byggja

  • Sigurður

    Hér er byggingareglugerðin.
    http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Byggingarreglugerd.pdf
    Ef það er verið að breyta húsinu, þá er alveg skýrt að það þarf að sækja um leyfi til þess, og láta teikna breytingarnar.

    Þessi skylda er alls ekki bundin við breytingar á burðarviki.

  • Jón Guðmundsson

    Þetta eru mjög klaufaleg mistök við þáttagerð af þessu tagi sem gengur beinlínis út á að leiðbeina fólki.

    Ég trúi ekki öðru en að Gulli Helga lagfæri þetta í næsta þætti með huggulegu og fræðandi viðtali við einhvern hjá embætti byggingafulltrúa þar sem fólki er leiðbeint varðandi samþykktir allskonar.

    Það verður hann að og hlýtur að gera.

    Það má ekki gleymast að þetta er fræðsluefni, skemmtilegt fræðsluefni sem á mikla möguleika.

    Svo þarf að sýna grunnmyndir eins og Anna R. biður um

  • Steinarr Kr.

    Ég bý í gömlu húsi. Myndi gjarnan vilja komast í lagnateikningar, þó ekki væri til annars að skilja hvað menn voru að hugsa í viðhaldi og breytingum í gegn um tíðina. Liggur við að það ætti að vera skylda að tilkynna (ekki endilega til samþykktar) allar breytingar og láta byggingafulltrúa frá teikningar.

  • Ég hef búið í fjórum öðrum löndum í hinum vestræna heimi og fullyrði að íslendingar eru alveg sér á báti þegar kemur að breytingum og endurbótum á híbýlum sínum. Gott ef þetta er ekki aðalhobbíið á landinu. Og íslenskar konur eru oft alveg ótrúlega öflugar í smíðavinnunni; þær henda sér hiklaust út í framkvæmdir upp á eigin spýtur ef þeim finnst karlinn ekki nógu áhugasamur og drífandi. Það er líka mjög algengt að menn leggi út í metnaðarfullar endurbótaframkvæmdir án þess að eiga fyrir þeim, þeir stíla bara uppá að komast langleiðina á eigin vinnuafli og vinanna/ættingjanna.

    Þannig að mér finnst mjög skrítið að ekki skuli hafa verið gerðir fleiri svona þættir í gegnum tíðina, þ.e. „raunveruleikaþættir“ um venjulegt fólk sem er að reyna að breyta og bæta heima hjá sér. Það er alveg örugglega mikill áhugi fyrir hendi.

    Ég held að þessi þáttur Gulla Helga geti orðið góð skemmtun. Hugmyndin er góð. Útfærslan er hinsvegar svona dáldið svona köflótt eða kekkjótt. Og það er verulegur galli að menn virðast vilja skauta framhjá hlutum á borð við nauðsyn þess að fá formleg leyfi fyrir hlutunum. Og nauðsyn þess að leggja fram teikningar sem fara í skjalaskrár (þar sem aðrir, t.d. framtíðareigendur hússins, geta gengið að þeim). Og að menn vilji vita sem minnst af fagmönnum á borð við arkitekta.

    Kom það t.d. einhvern tíman fram hvert planið er hjá húseigandanum?

    Ef fólk fer út í svona framkvæmdir — þ.e. gera upp einhverja íbúðarnefnu í kjallaranum hjá sér — þá held ég að mál númer eitt tvö og þrjú sé að ganga þannig frá hlutunum að það verði í framtíðinni hægt að gera íbúðina að sjálfstæðum eignarhluta með nýjum eignarskiptasamningi. Ganga þannig frá hlutunum að hún sé samþykktarhæf (hjá byggingarfulltrúa). Eða a.m.k. að það væri hægt að gera hana samþykktarhæfa með mjög litlum tilkostnaði.

    Mér fannst sama og ekkert fjallað um svona grundvallaratriði í fyrsta þættinum. Enginn virðist t.d. hafa lesið byggingareglugerðir.

    Mesta púðrið og lengsti tíminn fór í umfjöllun um breytingar á vatnsinntökum hússins. Fyrirhugaðar lagnabreytingar voru margoft teiknaðar upp fyrir mann. Geisp. Ég hafði miklu meiri áhuga á að sjá grunnmynd af kjallaraíbúðinni sem til stóð að breyta. Henni brá að vísu fyrir en stóð á skjánum í u.þ.b. 2 sekúndur.

  • Hér er um að ræða eðlilega, endurnýjun íbúðar að ræða og krefst ekki samþ. teikninga, pípulögn endunýjuð, raflögn endurnýjuð, ekki var hægt að sjá að átt væri við burðarvirki húsins, þannig að samþ. teikningar þarf ekki fyrir eðlilegu viðhaldi.

  • Hilmar Þór

    Elín Sigurðardóttir verður að fyrirgefa mér ónákvæmnina. Ég átti við tæknimenn á borð við raflagnahönnuð, lagnahönnuð, burðarþolshönnuð og arkitekt.

    Flestir iðnaðarmenn sem komu fram í þættinum stóðu sig með prýði og það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.

  • Ég sá a.m.k. einn rafvirkja í þættinum. Er hann ekki tæknimaður?

  • Rúnar i Guðjónsson

    Þessi þáttur er með þeim skemmtilegri sem ég hef séð í íslensku sjónvarpi í lengri tíma.
    Iðnaðarmenirnir koma fram eins og þeir eru klæddir og segja hlutina, eins og þeir sjá þá frá sínum bæjarhóli.

    En eigandinn er sá sem ber endanlega fjárhagsábyrgð á þessari framkvæmd, Gulli ráðleggur henni samkvæmt sínu hyggjuviti og ég efast ekki um heilllindi hans, en samkvæmt nýju mannvirkjalögum gæti það gerst að ef núverandi eigandi selur húsið, að nýr eigandi eigi skaðabótakröfu vegna þessa að húsið uppfyllir ekki kröfu mannvirkjalaga.

    Mannvirkjalögin eru nefnilega fyrst og fremst neytendavernd.
    Þau verja venjulegt fólk fyrir því að verið sé að selja því „gallaða“ vöru, sem er í þessi tilviki breyting á eldra húsnæði.

  • Gulli Helga veit eins og margir hönnuðir að það að sækja um lögbundin leyfi til byggingafulltrúa fyrir hinni minnstu breytingu er bara tómt vesen. En það réttlætir ekki hegðun Gulla.

    Embættismennirnir þvæla málum fram og til baka og bæta við athugasemdum við atriði sem jafnvel ekki er verið að sækja um breytingu eða endurbótum á. Það er skiljanlegt að fólk reyni að sneiða framhjá slíkri embættisfærslu.

    Þjónustulundin er líka þannig á þeim bænum að hin minnstu mál geta orðið stórmál.

  • Guðrún Ingvarsdóttir

    Orð að sönnu Hilmar – og ekki var það betra með píparann í þættinum sem glotti ut í annað og sagði að það væri óþarfi að teikna lagnir – þær væru hvort sem er alltaf teiknaðar eftir á….. ekki beinlínis til fyrirmyndar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn