Sunnudagur 21.01.2018 - 14:44 - 13 ummæli

„Að byggja sér fortíð“

„Að byggja sér fortíð“

Í umræðunni um verndun húsa og viðhald þeirra skiptast sjónarmiðin í tvö horn. Annarsvegar er hópur sem vill meðhöndla eldri byggingar af mikilli varfærni og telur jafnvel að vernda þurfi nánast öll hús á tilteknum svæðum og hinsvegar hópur sem telur að verndunarsjónarmiðin tefji fyrir framþróun og skemmi fyrir. Talað er annars vegar um verndunarsinna og hinsvegar uppbyggingarsinna, sem hvort tveggja eru gildishlaðin orð í þessu samhengi. Hinir svo kölluðu uppbyggingasinnar tala jafnvel um að verndunarsinnar séu „að byggja sér fortíð“

Með þessum málflutningi eru búnar til tvær andstæðar fylkingar en það er ósanngjarnt því svoleiðis er þetta ekki. Á sama hátt mætti þá tala um nýbyggingarfíkla annars vegar og menningarsinna hins vegar. Þeir sem viðhafa slíkt tal stilla sjónarmiðunum hvoru andspænis öðru og skipta fylgjendum í tvo andstæða hópa, líkt og andstæðar pólitískar fylkingar væru að takast á. Uppbyggingarsinnarnir spyrja til að mynda hvernig miðborg við viljum eiga þegar horft er til Reykjavíkur. Þeir spyrja „hvort við viljum að miðborgin sé safn eða lifandi miðborg“ og gefa sér þannig að þetta séu andstæður. Eins og miðborg sem samanstendur af gömlum húsum geti ekki verið lifandi? Uppbyggingarsinnarnir spyrja líka „hvort við viljum leiktjöld eða „raunveruleg“ hús“. Eins og gömul hús og gamlar borgir á borð við Kaupmannahöfn, París og Róm séu hvorki raunverulegar né lifandi heldur „leiktjöld“.

Verndunarsinnar benda á að borgir séu yfirleitt hvergi meira lifandi en þar sem virðing er borin fyrir gömlum húsum og staðarandanum. Þeir halda því fram, þvert á rök uppbyggingarsinna, að menningarstig þjóða komi fyrst fram í því hvernig þær umgangast menningararfinn.

Uppbyggingarsinnar halda því fram að byggingarlistin eigi að spegla menningu og anda þess tíma er mannvirkið var reist. Það er að segja að maður eigi alltaf að byggja í samræmi við það sem er í tísku á hverjum tíma. Jafnvel er talað um að gömul hús eigi að víkja fyrir nýjum og nútímalegri húsum þegar þannig stendur á. Verndunarsinnar segja á móti að menningarstigið megi lesa af því hvernig menn fara með gömlu húsin og að næg tækifæri séu til þess að reisa byggingar sem eru í takt við tíðarandann utan gömlu borgarhlutanna.

Í öllu starfsumhverfinu eru lög og viljayfirlýsingar um hvernig byggja skuli innanum það sem fyrir er. Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er tekið á þessu skipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið og sagt að hér sé átt við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð segir meðal annars að áhersla skuli lögð „á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ Í stefnunni segir að góð hönnun sé „nátengd stað og notkun“ og feti „varlega um tímabundnar sveiflur tískunnar hverju sinni“. Í raun er hér verið að hvetja til staðbundinnar byggingarlistar, „regionalisma“.

Þetta eru góð fyrirheit sem „uppbyggingarsinnar“ ættu að gefa sér tíma til að kynna sér og starfa eftir.

++++

Efst í færslunni og hér styrax að neðan koma dæmi um nýbyggingar sem byggðar eru í samræmi við markmið Aðalskipulag Reykjavíkur og Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð.  Svo koma umdeildar byggingar við Laugaveg sem endurspegla sjónarmið „uppbyggingarsinna“. Neðst er svo ágæt nútímaleg bygging í Reykjavík, sem gæti staðið hvar sem er í víðri veröld.

++++

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Egill Helgason

    Höfðabyggingarnar neðst eru afleitar, einfaldlega vegna veðurfarsins í kringum þær. Ég geng þarna oft framhjá, það er mikið skuggavarp og svo magna þær upp vind og slagveður. Að því sögðu þá er sjálfur turninn ekki ólaglegur.

    En ég verð að segja eins og er að ég er einna minnst hrifinn af efstu myndinni, Aðalstrætinu. Þar er eins og pastiche af gömlum húsum sem voru þar einu sinni og margir sakna. En eru svo alsendis ófullnægjandi miðað við þau.

    • Óskar Arnórsson

      Nú opinbera ég eflaust fáfræði mína, og ég hef ekki varið meiri tíma á Borgartúni en hver önnur manneskja, en ég hef aldrei gefið mikið í pælingar um veður í kring um háarbyggingar. Mér hefur oft fundist það helst ráðast af óveðurskýji yfir höfði þeirra sem finnst þær ljótar í útliti og vilja sjá lægri byggð út af öðrum ástæðum. Er það bara vitleysa í mér? En þar sem þú sjálfur telur turninn ekki ólaglegan frekar en ég, Egill, þá gerist þú víst ekki sekur um það!

      Skuggavarp hins vegar er að sjálfsögðu staðreynd, og er upphaf að zoning-lögunum í New York þar sem ég bý, sem voru þau fyrstu sinnar tegunadar í heiminum. Mér finnst hinir myrku gangar innan um stórhýsin neðst í Manhattan vera á meðal fallegustu borgarýmanna, þó myrk séu. Er ekki skuggavarp bara afleiðing þess að búa í borg, og sjálfsagt að fólk takist á um það eins og annað?

      Vantar ekki bara fleiri turna, og þá þéttar saman? Myndi það slá eitthvað á slagviðrið?

      En hvað hótelið á Aðalstræti varðar erum við sammála.

    • Sigurður Viktor Úlfarsson

      Sammála Agli varðandi Borgartúnið við turninn. Þar á horninu myndast óvenjusterk veður og stundum hefur þurft að vakta hornið við Hamborgarafabrikkuna og hjálpa fólki til að koma í veg fyrir slys. Fólk hefur hreinlega fokið þegar það hefur komið fyrir hornið með tilheyrandi hættu.

    • Gréta Björnsson

      Sæll Óskar

      Háar turnbyggingar (og bæjarskipulag almennt) hafa gríðarleg áhrif á veðurfar í nærliggjandi bæjarrýmum. Það er vel hægt að byggja háa turna og passa upp á að það verði ekki meira rok en annarsstaðar, en það krefst þess að það sé meðvitund um áhrif komandi bygginga á veðurfarið. Ég skil hérna eftir tvo linka þar sem fjallað er um veður og arkitektur.

      Fyrri linkurinn er á Vindmiljø i Arkitekturen eftir Søren Nielsen Bjerg, sem er samantekt hans á rannsóknum um vind i byggðu umhverfi.

      http://www.re-ad.dk/ws/files/39545731/Vind.pdf

      Seinni linkurinn er grein um rannsóknir um veðurfar á Grænlandi og áhrif þess á byggingar og hvernig er hægt að „vinna með veðrinu“

      Ég veit líka að Henning Larsen Arkitekter hafa unnið mikið með vind og veður í byggingum og bæjarrýmum og mig minnir að það hafi einhverntíma verið opinn aðgangur að hluta á rannsókn sem þau auga um „Urban Environment – Development of Comfort Criteria for Urban Planning“ en finn það ekki núna.

      Helgarlesturinn um að hvassviðri í kringum turnbyggingar er meira en óveðurský yfir höfði þeirra sem finnst þær ljótar í útliti. Vona að þú lesir dönsku 🙂

  • Mér finnst stundum að sumir tali eins og það megi byggja nánast hvað sem er og hvernig sem er á gömlum grónum svæðum bara að það sé ekkert líkt því sem fyrir er eða fyrir var.

  • Óskar Arnórsson

    Sæll Eiríkur, það er ekki svo einfalt, við Hilmar lítum t.d. báðir á okkur sem húsverndarsinna, en við erum ósammála um uppbygguna innan um alla húsverndunina.

  • Eiríkur G.

    Af hverju eru menn sífellt að grafa þessar skotgrafir. Það er vel hægt að sætta þessi sjónarmið. Uppbyggingarsinnar eiga að halda sig fjarri miðborginni og láta sérfræðinga um gömul hús og gamalt umhverfi og um gamla borgarhlutann eins og Aðalstrætið og hornið Austurstræti/Lækjargata eru góð vitni um.

  • Óskar Arnórsson

    Sæll Hilmar,

    Takk enn og aftur fyrir ágæta færslu sem fær fólk til að hugsa.

    Ég get vel ímyndað mér að flestir arkitektar séu blanda af uppbyggingarsinnum og húsverndarsinnum, t.d. ég sjálfur. Þessir arkitektar eru búnir að meðtaka gagnrýni 7. áratugarins á niðurrif gamalla húsa og byggða svipað og þú, og myndu aldrei hugsa sér að mæla með slíku, en eru sama sinnis gagnrýnir á þessa sömu arfleifð.

    Ég myndi til dæmis lýsa sjálfum mér sem verndarsinna að því leyti að ég myndi helst aldrei láta rífa nokkuð hús. Þá á ég jafnt við um Tanngarð fyrir neðan Hringbraut og Laugarveg 4-6. Ég myndi aldrei tala um gömul hús eða verndaða gamla byggð sem „leiktjöld“. Þannig gengur dæmi þitt um Kaupmannahöfn og París ekki alveg upp.

    Leiktjöld eru t.d. hverfi í þýskum borgum sem sumir á Íslandi hafa hampað mjög, eins og Frankfurt, Dresden og það sem verið er að gera í Berlín, þar sem kommúnistabyggingar eru rifnar og 200 ára gamlar prússneskar byggingar endurbyggðar í staðinn. Það væri gaman að heyra hvað þú hefur að segja um fyrirbærið „staðaranda“ í því samhengi. Eru ekki margir andar sem takast á þar, andi þýska heimsveldisins, andi nasismans, kommúnistadraugurinn frægi, og fleiri? Hver vinnur? Kannski bara ósýnilega höndin?

    Á Íslandi hefur svolítið verið byggt af slíkum húsum á undanförnum áratugum. Hótelið við Aðalstræti, sem þú sýnir mynd af við færsluna þína efst, er gott dæmi um slíkan arkitektúr. Það er svona arkitektúr sem fólk gæti réttilega nefnt leiktjöld, disneyvæðingu, o.s.frv. Ég vil taka það fram að ég ber mikla virðingu fyrir arkitektunum sem hönnuðu þessa byggingu–það erfiðasta við að tala um byggingar er að þær eiga sér hönnuði, en svona arkitektúr hefur ekkert með húsvernd að gera, og er fullkomið dæmi um að „byggja sér fortíð.“

    Svona arkitektúr hefur verið tíska síðustu ára, sérstaklega í miðbæ Reykjavíkur, og mun í framtíðinni vera talað um þessar byggingar sem „spegla síns tíma,“ alveg eins og aðrar. Ég held að þau sem tala gegn þessum arkitektúr geri það ekki síst í nafni húsverndar. Fyrir okkur er besta form húsverndar gagnrýnin hugsun um samtímann. Það gerir fólk ekki með að byggja hús sem vitna gagnrýnislaust í nítjándu aldar nýlendustefnu og tala um að það sé að byggja í „gömlum stíl.“ Þannig lýsir framkvæmdarstjóri Lindarvatns, Davíð Þorláksson, sem annars kemur vel fram, sumum bygginganna sem rísa eiga á Landssímareitnum í frábæru hlaðvarpi Magneu Guðmundsdóttur og Guðmundar Kristjáns Jónssonar, Aðförinni, 2. apríl 2017. Rétt eins og bygging PKdM á Borgartúni „gæti staðið hvar sem er í víðri veröld,“ má sama segja um sumar byggingarnar við Hljómalindarreitinn eða nýja hótelið við Hafnarstræti. Meira hafa þær ekki að gera með „staðarandann“ en svo.

    Það sem er miður við þessar byggingar er að þær gera meira ógagn en gagn þegar kemur að húsvernd–allt í einu hætta raunverulega gömlu húsin að skipta máli, þegar alltaf er hægt að rífa þau, bæta við hæðum, en setja síðan hallandi þök og klæða með bárujárni til að særa fram staðarandinn. Hins vegar eru byggingar eins og Þjónustuskáli Alþingis eftir Batteríið, Hverfisgata 71A eftir Stúdíó Granda og bygging PKdM við Laugarveginn kannski hinar sönnu húsverndunarbyggingar, því þær undirstrika á það sem er raunverulega gamalt í kring um sig. En það er nú kannski meira bara próvókasjón.

    Að lokum, þá finnst mér afleitt að orðið „stíll“ komi fyrir í Aðalskipulagi Reykjavíkur ef það gerir svo. Fyrir mér eiga yfirvöld aldrei að leiðbeina um eitthvað sem er svo huglægt. Ég hef sjálfur reynt að leita að tilvitnuninni um stílinn í netútgáfunni, þar sem ég er búsettur erlendis og ekki með pappírinn fyrir framan mig, en hef hvergi fundið:

    http://reykjavik.is/thjonusta/adalskipulag-reykjavikur

    Ég held því áfram að leita, en ef þú eða einhver lesenda þinna getur bent mér á þetta á netinu þá væri það vel þegið.

    Þar sem talsverður tími fór í að skrifa þetta svar gæti væri gaman ef þú birtir það á síðunni þinni. Þannig myndu þessar umræður eflaust ná út fyrir lesendahóp athugasemdakerfisins!

    • Hilmar Þór

      Okkur greinir á um nokkur atriði Óskar. Ekkert mikilvægt en ég mun reyna að svara síðar.

      Mér finnst sjállfsagt að nefna stíl í aðalskipulagi þegar það á við.

      Setningin sem vitnað er í og þú leitar að er á síðu 152 í skipulaginu efst til hægri og er í heild sinni svona:

      „Hér er átt viðalmenn einkenni, grunnbyggðarmynstur, hæðir húsa og hlutföll, en einnig eftir atvikum stíl“.

      Svo kemur

      „Meta þarf þetta í samhengi við markmið um eflingu byggingarlistar í samtímanum“

      Þakka þér þínar ágætu athugasemdir hér á bloggi mínu.

    • Óskar Arnórsson

      Sæll Hilmar,

      Já, einmitt, takk fyrir það, þú bentir mér á þetta í bókinni þinni um daginn líka sem svar við annarri athugasemd. Mér finnst bara skrítið að ég finn þetta hvergi í rafrænu skjölunum og var að vona að einhver lesenda þinna gæti hjálpað mér að leita.

  • Lesa menn þá ekki opinber markmið svæðisins seþ þeir eru að teikna í?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn