Laugardagur 19.03.2016 - 12:18 - 12 ummæli

Arkitektaskólar í París og annarsstaðar

 

 

Ecole_Nationale_Superieure_des_Beaux-Arts

Ég hef á ferðalögum mínum oft gert mér erindi á arkitektaskólana. París er þar engin undantekning. Í gær heimsótti ég listaakademíuna  Beaux-Arts sem á sér sögu allt frá árinu 1648. Þar var frá öndverðu kennd málaralist, höggmyndalist og „móður listanna“, byggingalist ásamt fl.

Beaux-Arts hefur alltaf verið mikils metinn. Lúðvík 14 valdi útskriftarnema úr skólanum til þess að fylla Versali með myndlist og Napóleon III gaf skólanum frelsi frá stjórnvöldum árið 1863 og gaf skólanum nýtt nafn.: „L’École des Beaux-Arts”.

Árið 1898 fékk fyrsta konan aðgang að skólanum eftir að hafa sótt þrisvar um. Það var Julia Morgan frá San Fransisco sem útskrifaðist síðar sem arkitekt.

Margir þekktustu myndlistarmenn Evrópu numu þar. Má þeirra á meðal nefna Géricault, Degas, Delacroix, Fragonard, Ingres, Monet, Moreau, Renoir, Seurat, Cassandre, and Sisley. Rodin sótti þrisvar um inngöngu í skólann en var alltaf hafnað. Svona er það stundum.

Allmargir íslendingar hafa stundað nám í Beaux-Arts. Má þar nefna  arkitektana Högnu Sigurðardóttir, Jes Einar Þorsteinsson, Líney Skúladóttir og Börk Bergmann.

Byggingar skólans eru að mestu hannaðar af  Félix Duban arkitekt sem var falið verkið 1830. Hann hannaði einskonar campus á vinstri bakka Signu. Verkinu var að mestu lokið 1861.

Þegar gengið er um Beaux-Arts finnur maður fyrir sögunni og fallegar byggingarnar geisla frá sér vissri upphafningu. Miðrými aðalbyggingarnar sem er með þaki úr gleri og stáli svipað og er í Grand Palais, Bon Marcé og var í hinum horfnu Le Halles. Þetta er eitthvað það fallegasta rými sem ég hef komið í. Vinnustofur nema veita inn í rýmið og maður sér allstaðar fólk að störfum. Arkitektaskólinn er í hliðarbyggingu sem ekki er beintengd aðalbyggingunni.

Þetta er virkilega flott og umhverfi sem er mikill brunnur fyrir innblástur fyrir þá sem þarna starfa.

Hjálagðar eru nokkrar myndir sem teknar voru í gær.

+++

Skólinn minn í Kaupmannahöfn var stofnaður árið 1754 eða 106 árum síðar en Beaux-Arts og var vafalaust horft til Parísar þegar honum var komið á laggirnar. Maður sér líka skyldleikann við Beaux-Arts í nafni skólans “Kongelige Danske Akademi for de Skønne Kunster” (Beaux-Arts, Skönne Kunster, Fagrar listir). Danski skólinn fékk líka nokkuð frelsi frá stjórnvöldum með því að heyra undir menningarmálaráðuneytið meðan öll önnur menntun í Danmörku heyrði undir menntamálaráðuneytið. Maður naut þessa frelsis mjög sem nemandi en þetta lagði líka mikla ábyrgð og skyldur á nemendur. Eitt varðandi vistun skólans í menningarmálaráðuneytinu  var að þegar skólinn var settur á haustin var það við formlega athöfn í Oddfellow palæet í Bredgade. En þar var og er sennilega ennþá einn besti tónlistarsalur Norðurlanda. Viðstaddir athöfnina voru meðlimir konungsfjölskyldunnar. Í og eftir studentabyltinguna 1968 misstu stúdentar áhuga á þessum formlegheitum og ég held að þetta hafi verið lagt af.

Skólinn var til húsa í Charlottenborg við Kongens Nytorv.

+++

Starfsumhverfi nemanna í París er ekki ósvipað og í Kaupmannahöfn. Vinnuaðstaðan er í gömlum byggingum þar sem nokkrir árekstar verða í daglegum störfum við húsið. Þessir árekstrar voru að mínu mati alltaf af hinu góða og gáfu nemendum innblástur og þvinguðu þá til þess að láta undan takmörkum byggingarinnar. Mér sýndist það sama eiga við í AA skólanum í London. (Architectural Assosiation School of Architecture) sem starfræktur er í gömlum byggingum sem voru byggðar í öðrum tilgangi en að kenna þar arkitektúr.

+++

Þó ég hafi útskrifast frá skóla sem kennir hinar fögru listir; málaralist, höggmyndlist og byggingalist og er afskaplega sáttur við það, þá velti ég fyrir mér hvort arkitektanám eigi ekki frekar að tengjast almennum háskólum frekar en listaskóla. Á Íslandi yrði þá byggingalist kennd við Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík. Ástæðan er sú að arkitektastofur hafa breyst á undanförnum árum úr því að vera stúdíó eða teiknistofur í að verða frekar arkitektafyrirtæki. Stofurnar eru allar að verða meira og minna reknar á viðskiptalegum forsendum en ekki listrænum.  Arkitektaskólarnir þurfa kannski að fara að átta sig á þessu og skilgreina sig  sem viðskipta- og framleiðslufyritæki í stað listgreinar? Kannski er þessi þróun tilefni til að gera meira úr listrænni tengingu námsins til að sporna gegn henni.

photo 4

Miðrými aðalbyggingar Beaux-Arts er eitt af þeim falegustu sem ég hef séð.

photo 2

Glerþakið er úr stáli og gleri eins og algengt var fyrir hálfri annarri öld samanber Crystal Palace í London.

photo 3

Vinnurými nema opnast sum inn í miðrými aðalbyggingarinnar. Það á einnig  við um sýningarsali.

photo 3 (2)

photo 1

photo 1 (2)

Charlottenborg_København

Danska listaakademína var um langan aldur starfrækt í Charlottenborg við Kongens Nytorv í miðborg Kaupmannahafnar.

1

AA arkitektaskólinn í London, Architectural Assosiation School of Architecture, er starfræktur í gömlum byggingum sem ekki voru í upphafi hugsaðar sem skólabyggingar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Örnólfur Hall

    I- Arkitektar í ACE (Architect‘s Council of Europe) eru líka uggandi um þróunina sem kollegi Hilmar Þór talar um.
    Arkitekta-studió, fámennar – og meðalstórar arkitektastofur hafa á snarbrattann að sækja. 🙁
    Arkitekta-samsteypurnar stóru hafa meira undir sér en hinar og geta haldið úti „lobby“-istum (kynningar-eða blaðafulltrúum) til verkefnaöflunar. 😉

    II- Austurískur kollegi sagði undirrituðum að m.a. í Þýzkalandi sé talað meðal arkitekta um svokallaðan ‘fjárfestinga-arkitektúr’. 😉
    Hann segir: Við köllum þetta „Investoren-Architektur“ (fjárfestinga-arkitektur). Segir m.a.: Slíka „Kästen“ sér maður víða, þar sem fjárfestar og fjárfestingar ráða för og nefnir ákveðin nöfn „risanna“ í því sambandi. 😉

  • "Dvergur"

    Ég kalla mig „Dverg“ her vegna þess að ég er haldinn ótta við mitt starfsumhverfi. Það er nefnilega ekki vel séð af vinnuveitendum og viðskiptavinum þeirra að við sem erum á gólfinu höfum skoðanir á því sem er að gerast og því sem við erum að vinna við. Þetta er þörf umræða sem fer fram um okkar vinnu.

  • Dennis Davíð Jóhannesson

    Nýlega las ég viðtal við franska arkitektinn Jean Nouvel sem sam vakti mig til umhugsunar um stöðu arkitekta í dag, völd þeirra og virðingu, og hversu erfitt getur verið að gera góðar byggingar í núverandi starfsumhverfi en þar segir hann m.a. „Sometimes, contracts are not entirely clear and businesses have intentions that are not necessarily the same as ours. It’s always been like that, but before, architects had a certain level of power that would get them respect in these kinds of situations. As time passed and the economy advanced, things became much more complicated, like how things are today“. Að hans mati hafa arkitektar misst þau völd og virðingu sem þarf til að tryggja góða byggingarlist í flóknum heimi viðskipta. Jean Nouvel hefur nýlega sagt sig frá stóru verkefni, tónlistarhöllinni „Philharmonie de Paris“ þar sem úkoman var honum ekki að skapi, ekki var farið að hans vilja, og verkkaupinn fór sínu fram. Hann vill ekki tengja nafn sitt við bygginguna. Eru arkitektar á Íslandi hugsanlega í sömu stöðu hvað varðar völd og virðingu. Eru þeir búnir að missa þau til annarra afla í þjóðfélaginu? Hér er verðugt verkefni fyrir arkitektaskóla að takast á við. Til þess að þeir geti það, þurfa þeir að sameina það besta úr listaháskólum og almennum háskólum til að hægt sé að mennta og undirbúa arkitekta til takast á við þau flóknu og krefjandi verkefni sem bíða þeirra í heiminum í dag. Ég varpa þessu fram hér til umhugsunar.

  • Stefán Örn Stefánsson

    Takk fyrir afbragðs skemmtilega og fróðlega pistla frá París, Hilmar, þú hefur nýtt tímann vel og leyft okkur að fylgjast með í upplifun þinni og ykkar af þessari fallegu og merkilegu borg og gert það á einstaklega skemmtilegan og lifandi hátt.. Pistillinn hér að ofan vekur margar spurningar og sumar af nokkrum dvala, t.d. þessa um hvar og hvernig ætti að byggja upp arkitektanámið á Íslandi. Þegar byggingarlistardeildin var stofnuð var það nokkuð rætt og af fullri alvöru hvort hún ætti að eiga heima í Háskóla Íslands eða Listaháskóla Íslands. Það kom jafnvel til tals hvort mögulegt væri að stofna sérstakan Arkitektaskóla með bakhjarl í báðum fyrrnefndum haskólum, þ.e. þeir stæðu báðir að honum. Hugsunin var fyrst og fremst sú að halda sambandi við sem breiðastan hóp innan háskólasamfélagsins, tengja það ekki frekar við huglægar greinar en raungreinar. En ráðamenn tóku af skarið og skólinn er innan Beaux Arts rammans hér heima hvernig sem hann á svo eftir að þróast. Það skiptir kannski heldur ekki höfuðmáli hvar hann er niður kominn, eða innan hvaða kerfis, það er auðvitað innihald námsins og stefnan sem þar mótuð og nestið og nýju skórnir sem mestu máli skipta.
    Um rekstur teiknistofa mætti svo einnig ræða nokkuð en þegar stofum er lokað eða starfsemi hætt af öðrum ástæðum kemur upp spurning um varðveislu teikninga, eins og annarra skjala. Byggingarfulltrúar í mörgum sveitarfélögum hafa unnið mikið þrekvirki í skönnun og röðun og varðveislu og aðgengi að teikningasöfnum. En eitt skjalasafn liggur enn óbætt hjá garði, byggingarlistardeild Listasafns Rreykjavíkur, sem lögð var niður að óvenjulega lítt grunduðu máli, ekki bara safnið heldur rannsóknaraðstaðan sem því fylgdi. Og liggur þar enn. Sjá einnig pistilinn þinn um skipulagssýninguna í París.

  • stefán benediktsson

    „velti ég fyrir mér hvort arkitektanám eigi ekki frekar að tengjast almennum háskólum frekar en listaskóla….yrði þá byggingalist kennd við Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík…“
    Hjartanlega sammála Hilmari og hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar.

  • Hilmar Þór

    Smá athugasemd og innlegg vegna ummæla halldóranna tveggja.

    Það er auðvitað þannig nú á dögum að það er nánast útilokað fyrir einyrkja að reka teiknistofu lengur. Þar kemur einkum til vegna þess að kröfur frá hinu opinbera eru orðnar svo miklar og margslungnar að meiri hluti vinnunnar fer í að sinna þeim. Þetta bendir Halldór G. réttilega á. Það er auðvitað gæðakerfið og skráning allra ákvarðanna, skráningartöflur og þrívíðar myndir, bókhaldskröfur og margt, margt fleira.

    Einyrki getur ekki sinnt þessu öllu um leið og hann þarf að uppfylla arkitektóniskum metnaði sínum sem er eitt og sér fullt starf. Hann verður að kaupa mikið af þessarri vinnu utanfrá.

    En ég get sagt eina sögu af teiknistofu sem stóð okkur öllum þrem (Halldóri, Halldóri og mér) mjög nærri á mismunandi tímum í sögu hennar.

    Þannig var að stofunni var falið mjög stórt verkefni á þeim tíma. Eitt það stærsta (sennilega lengstærsta) sem ráðast átti í hér á landi á þeim tíma. Verkkaupi sem var í alþjóðaviðskiptum gerði miklar kröfur til byggingalistarinnar og ekki sípður að tímaáætlanir stæðust.

    Fulltrúi verkkaupans (sem ég þekkti til) sagði í þröngum hóp að hann hafi í upphafi valið þá stofu sem hann áleit þá bestu til verksins á margvislegum forsendum en áttaði sig fljótt á því að þetta var jafnframt sú eina sem valdið gat verkinu, sem átti að taka stuttan tíma. Það ver vegna þess að flestir arkitektar á þeim árum voru einyrkjar eða par meðan þessi eina var stærri með samstylltum hóp starfsmanna. (sennilega um 6 manns ef ég man rétt).

    Þannig að stærðin skiptir stundum máli.

    Þið halldórarnir vitið sjálfsagt um hvaða byggingu er að ræða og hvaða arkitektastofu.

  • Halldór Guðmundsson

    Finnst að þið skautið auðveldlega fram hjá þeirri staðreynd að kröfur eftirlitsiðnaðarins og obinbera aðila eru það sem eru að eyðileggja alla fría hugsun í þessu starfi.

    En takk fyrir þessa fræðslu Hilmar, maður má hafa sig alla við að lesa þessar færslur þínar. Hver öðrum fræðilegri.

    • stefán benediktsson

      Þetta er nokkuð „feit“ fullyrðing Halldór og þyrfti röksemdafærslu og dæma við en hafi okkur borið af leið hvað gæði verka okkar varðar, er ég sannfærður um að við getum okkur einum um kennt.

  • Þú setur fram eftirfarandi fullyrðinu: „Ástæðan er sú að arkitektastofur hafa breyst á undanförnum árum úr því að vera stúdíó eða teiknistofur í að verða frekar arkitektafyrirtæki. Stofurnar eru allar að verða meira og minna reknar á viðskiptalegum forsendum en ekki listrænum.“
    Nú rakst þú arkitektastofu í mannsaldur og ég veit ekki betur en að þú bæði hafir haft fólk í vinnu, greitt leigu og þegið sjálfur laun fyrir vinnu þína. Ég veit ekki betur en að Á stofunni hafi aldrei orðið gjaldþrota og greitt sína skatta og skyldur. Þess vegna skil ég ekki þessa fullyrðingu hér á undan. Ég þekki engan arkitekt sem ekki rekur sitt fyrirtæki fyrst og fremst til að skila metnaðarfullri hönnun. Það að reka fyrirtæki er einfaldlega gert til að vinna að arkitektúr. Það sagt, þá þarf að reka arkitektastofur eins og önnur fyrirtæki – eins og þú hefur gert með sóma þinn starfsaldur. Það er engin skömm af því að fyrirtækið sé líka traustur vinnuveitandi. Þú hefur haldið þessari ofangreindu fullyrðingu fram áður og ég skil hana ekki nú frekar en áður. Það að hafa listrænan metnað innan fyrirtækis (teiknistofu) er ekki útilokað, en þú virðist á einhvern hátt vilja setja upp einhverja tvíhyggju sem á sér ekki stað í raunveruleikanum. Þetta virkar helst eins og tilraun til að kasta rýrð á þær kynslóðir arkitekta sem á eftir þér koma í anda frasans „heimur vesnandi fer“. Ef svo er, þá er það fyllilega órökstutt og að mínu mati alrangt og þér ekki til sóma.

    • Hilmar Þór

      Jú það er rétt hjá þér Halldór að við félagarnir höfum rekið okkar teiknistofu farsællega í tæp 40 ár.

      Við höfðum það að markmiði að hafa stofuna litla og það tókst. Við vorum lengst með um 7 manns í vinnu en það voru um tíma helmingi fleiri á launaskrá.

      Við úthýstum líka verkefnum og fengum aðstoð frá öðrum stofum þegar ekki var ráðið við verkefnastöðuna.

      Stofan var stofnuð í bílskúr þar sem við láum yfir sitt hvorri spónaplötunni en fljótlega keyptum við húsnæði yfir reksturinn.

      Nú er starfsferli okkar að ljúka og höfum við ákveðið að loka stofunni þegar við göngum út. Það er ekki auðvelt vegna þess að við höfum vissar skyldur við viðskiptavini okkar.

      Það hefur komið til tals að selja stofuna í heilu lagi og fólk hefur sýnt áhuga að taka hana yfir eða fella inn í sinn rekstur.

      Teiknistofan hefur verið rekinn með ágætum hagnaði alla tíð og greitt allt sem henni ber eins og þú nefnir.

      Varðandi hugleiðingu mína um að arkitektastofur séu að þróast úr því að vera að vera stúdíó í fyritæki þá er það eitthvað sem ég hef tekið eftir í þróuninni undanfarna áratugi.

      Þetta hefur af einhverjum ástæðum skapraunað þér.

      Þegar ég hóf störf voru ekki margir launþegar starfandi. En þeim fjölgaði og þá var stofnað launþegafélag sem stuttu síðar var lagt af vegna þess m.a. að þeir voru svo fáir launþegarnir.

      Nú er stór hluti stéttarinnar launþegar ( jafnvel eigendurnir eru nú launþegar) og stofurnar flestar reknar undir sérstakri kennitölu sem hlutafélög.

      Áður voru teiknistofurnar oft reknar undir kennitölu eigandans. Þannig var mín stofa rekin fyrsu árin en síðar sem sameignarfélag og loks sem einkahlutafélag.

      Það má fara dýpra í þessa sögu en ég ber hendur fyrir mig og segi að þetta er ekki órökstudd fullyrðing heldur sannleikur og staðreynd.

      Hinsvegar er ég ekki að segja að þetta hafi verið slæm þróun. Hún var sjálfsagt nauðsynleg. Og mér dettur ekki í hug að halda því fram að fyritækin séu ekki rekin með listrænum metnaði. Ég segi bara að áherslan á viðskiptaleg markmið vega þyngra en áður og oft mjög þungt.

      Og loks þá er ég ekki og hef aldtrei gert tilraun til þess að kasta rýrð á arkitektastéttina sem heild þó ég hafi gagnrýnt einstök verk og einstaka þætti í starfi þeirra.

      Ég vil að lokum þakka þér tilskrifin. Ég hef stundum í þessum pistlum mínum verið nokkuð ögrandi einmitt til þess að “þvinga” fram viðbrögð. Það tókst núna.

      Ég vil bæta því við að enginn verður minni við það að hafa skoðun á málum og láta hana í ljós. Hinsvegar eru þeir sem hafa skoðun en setja hana ekki fram (kannski þora því ekki) dvergar í mínum huga sem ekki leggja sitt að mörkum í umræðunni samfélaginu til heilla.

  • Sigurlaug

    Svo vitnað sé í Jón Baldvin “Einstaklingshyggjan er orðin allsráðandi” allir hugsa um sjálfan sig og svo skjólstæðinginn. Þessi þróun arkitekta á sér stað allstaðar. Verkfræðingar hafa alltaf verið í viðskiptum, lögfræðingar eru farnir að reka lögfræðifyrirtæki í stað lögfræðistofa. Og það versta er að núna poppa upp læknafyritæki í stað spítala og læknastofa. Eðlilega koma arkitektar í kjölfarið. Það stutta í hinu langa er að þetta er á öllum þessum sviðum óheillaþróun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn