Sunnudagur 25.09.2011 - 23:06 - 28 ummæli

Deiliskipulag íbúðahverfa – Þá og síðar

.

Fyrir 25-30 árum voru skipulögð íbúðahverfi í Reykjavík þar sem manneskjan var sett í fókus. Ég nefni dæmi um Suðurhlíðar sem eru milli Kringlumýrarbrautar  og Fossvogskirkjugarðs. Síðar var eitt skipulag í sama anda gert í framhaldi af deiliskipulagssamkeppni. Það var á svokölluðum BÚR reit vestur í bæ þar sem nú heitir Aflagrandi.

Deiliskipulögin miðuðu við þarfir íbúana við leik og störf. Húsin voru fjölbreytileg og það var beinlínus hvatt til fjölbreytni. Í Suðurhlíðum er að finna raðhús með fimm íbúðum sem teiknaðar eru af fimm mismunandi arkitektastofum.  Húsin mynduðu manneskjuleg rými sín á milli.

Göturnar voru mjóar og sveigðust til þess að hægja á bifreiðaumferð og gefa götulífinu meira svigrúm. Einkabíllinn var víkjandi og seitlaðist eftir húsagötunum innan um gangandi vegfarendur. Bílarnir voru víkjandi. Börn að leik og gangandi áttu réttinn. Þarna voru engar gangstéttar og göturnar voru það sem kallað er “shared streets” í dag en voru þá kallaðar “vistgötur”.

Þessi skipulög virka vel og stuðla að auknum samskiptum íbúanna með nágrannavörslu og fleiri félagslegum gæðum.

Á þeim var þó einn galli sem rekja má til þess að borgin vildi ekki að Skipulagsstjóri Ríkisins staðfesti deiliskipulögin. Af einhverjum ástæðum komst borgin upp með þetta á þeim tíma. Af þessum sökum var opnuð leið til þess að lóðarhafar gætu byggt stærri hús en höfundar skipulagsins gerðu ráð fyrir.

Það var synd.

Í framhaldinu þegar skipulagsvinna í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal hófst var af einhverjum ástæðum vikið frá þeim hugmyndum sem lágu að baki Suðurhlíða og BÚR lóðar. Önnur áratuga gömul hugmyndafræði tók við.  Það var hugmyndafræði sem var í anda þess sem gerðist 40-50 árum áður t.d. á Högunum, í Vogunum og Leitunum í Reykjavík.  Sú hugmyndafræði byggðist á því að einkabíllinn væri fyrirferðameiri í íbúðahverfunum í stað þess að styrkja mannlífið milli húsanna í anda Jan Gehl.

Ég skildi aldrei hversvegna þetta afturhvarf til fortíðar varð ofaná. Sennilega var ástæðan sambland af þekkilngarleysi, áhugaleysi, kjarkleysi og þýðlyndis. Maður saknaði einskonar „skipulagsástríðu“ og hugmyndaauðgi.

Deiliskipulagið sem tók við var líka með LEGO kubbalegri húsum þar sem lífið á götunni og grenndarsamfélagið skipti ekki eins miklu máli. Skilmálar kölluðu eftir einsleitari húsum og svonefndur “gámastíll” tók við af fjölbreytileikanum.

Maður skynjaði vaxandi skilningsleysi á manneskjunni og lífinu milli húsanna.

.

Húsin sem eru á myndinni að ofan eru teiknuð af  Birni H. Jóhannessyni arkitekt  eru í Suðurhlíðum. Húsin að neðan eru teknuð af Finni Björgvinssyni og Hilmari Þór Björnssyni arkitektum standa við Aflagranda. Ekki er vitað hver teiknaði önnur hús á myndunum.

Deiliskipulagið við Suðurhlíðar var unnið af Valdísi Bjarnadóttur arkitekt. Skipulagið á BÚR lóð var unnið í samkeppni af arkitektastofu Finns Björgvinssonar og Hilmars Þórs Björnssonar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Útvarp Matthildur

    Fyrir einum 40 árum var þáttur á RUF, “gufunni” sem án efa var undanfari “Spaugstofunnar”.

    Þar var áberandi karakter sem kallaður var “skipuleggur”. Hann vildi setja stífelsi í Tjörnina og flytja hana upp í Árbæ þar sem hún gæti verið með hinu gamla draslinu.

    Þetta var beitt gagnrýni sem skilaði sér ekki eins og dæmin sanna.

    Nú veit ég að þeir sem hér er verið að gagnrýna lesa þennan ágæta pistil. Kunna þeir ekki að verja verk sín? Eða er þetta óverjanlegt athæfi?

    Auðvitað höfðu þeir sitt til málanna að leggja og voru að vinna í takt við anda þeirrar stundar sem þeir höfðu til þess að hafa áhryf. Og unnu vel!

    Þau þurfa að sýna metnað og taka þátt í umræðunni þvi ekki trúi ég því að þetta sé gert af illvilja eða ásetningi.

    Hér er tengill að útvarpi Matthildi:

  • Þorgeir Jónsson

    Jóhann

    Þú misskilur þetta. Í þeim hverfum í Skandinavíu sem þétt og lágt hugmyndin er notuð komast bílar alla leið, en aðeins þegar með þarf. Hér á landi hafa þessi hverfi þurft að hafa bílskúra við útidyrnar. Þetta er meira spurning um hugarfar en skipulag. Þú ættir að skoða bílalestina sem ekur eftir Kringlumýrarbrautinni úr Fossvoginum í bæinn kl 8:00-9:00
    á hverjum virkum morgni. Einn stúdent í hverjum bíl á leiðinni í skólann. Þú þarft ekki að fara oft til að spurning vakni. Er þetta í lagi?
    Arkitektar hafa ekkert barist fyrir bíllausum hverfum sérstaklega. Hins vegar verða hverfin mun flottari án bíla í anddyrinu. Það er bara svoleiðis… Arkitektar ættu að berjast fyrir manneskjulegu umhverfi…og bíllaus hverfi verða sjáfkrafa þannig

  • Sælir,

    Af hverju eruð þið arkitektar svo á móti því að hægt sé að
    aka að íbúðarhúsum? Þið vitið hvernig veðrið er á íslandi.
    Þessi draumur um ítalska gamla götumynd í anda Fellini
    verður aldrei möguleg. Þessi hverfi sem þið eruð að dásama eiga það öll sammerkt að vera með eignir sem verr er að selja
    en á öðrum stöðum.

    Jóhann

  • Þorgeir Jónsson

    Gallinn er hugmyndafræði tíðarandans. Hentistefnan er ríkjandi hugmyndafræði (Pragmatismi) og skiptir engu úr hvað pólitískri átt vindarnir blása. Þetta er örsök allra mistaka sem menn hafa gert eftir 1990. (líka í stjórnmálunum) Við skiptum um flokk á miðju þingi. Hættum við skipulag, breytum skipulagi, förum ekki eftir gildandi skipulagi, förum ekki einu sinni efitir þinglýstum skjölum sýslumanna. Þessi stefna er vonandi á undanhaldi. Dæmi eru um að sama dag og deiliskipulag er lögfest í B-hluta stjórnartíðinda er lögð inn umsókn um breytingar hjá skipulagsyfirvaldi. Heilu hverfin hafa verið deliskipulögð, en 5 árum síðar hafa komið fram breytingar á nær öllum lóðum þess. Er þetta slök vinna hjá okkur arkitektum? Held ekki.
    Hvers vegna eru gömlu staðirnir í einkaeigu s.s Reykjalundur, Sólheimar og fleiri staðir um land allt betur lukkaðir skipulagslega en þar sem yfirvöld hafa skipulagt.
    Erþetta ekki vitlaus hugmyndafræði?

    ps. Auðvitað er ekki allt gallað…..innan um eru perlur, en síðan ekki sögunnar meir.

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Knútur Jeppesen aðhylltist vissulega þétt og lágt skipulag sem kemur vel fram í verkum hans eins og Ártúnsholtinu og Hamarahverfi. Þessi hverfi eru skipulögð eftir sömu hugmyndafræði og bæði hverfin eru eftirsótt íbúðarhverfi. Hvorugt hverfanna hefur þó megnað að standa undir nærþjónustu. Í Ártúnsholti var lengi haldi frá lóðum fyrir verslanir þangað til menn gáfust upp og byggðu þar íbúðir og í Hamrahverfi var hverfisverslunin lögð niður fyrir um 2 árum. Sem sagt hæfilega stór og vel skipulögð íbúðarhverfi falla ekki að bílismanum og nútíma verslunarháttum.

  • Ein hverfishönnun sem mér þykir mjög áhugaverð er í efri hluta Stekkjarhvammsins í H.fj. , þar er ekkert aðgengi fyrir bíla að húsunum, það er fyrir neðan í bílskúrum og bílastæðum, það er eins konar vegur fyrir gangandi vegfarendur að samföstum húsunum http://ja.is/hradleit/?q=stekkjarhvammi (ýtá kort e-s staðar)

  • Sigurður

    Þetta er leiðinda karp hér að ofan sem ég vildi vera laus við. Aðalatriðið er að afturför virðist hafa átt sér stað i deiliskipulagsmálum i Reykjavik eftir 1990. Er það ekki ljóst?

  • Lómagnúpur

    Mér sýnist nú Pétur Örn ekki vera að „láta alla hafa það“, eins og einhver Hrekkjalómur vill meina.

    Pétur Örn er réttilega einungis að gagnrýna pólitíkusa, embættismenn og dindla valdakerfisins, sem hafa enga framtíðarsýn aðra en sleikjurnar úr aski búrtíkanna í eftirpartíinu á Hruna.

  • Pétur Örn Björnsson

    Er þetta það eina vitræna, sem þú hefur um málin að segja Hrekkjalómur?

  • Hrekkjalómur

    Já Pétur Örn,
    Láta alla hafa það. Enda ert þú bestur og veist allt. Allir hinir eru fífl.

    Hrekkjalómur

  • Pétur Örn Björnsson

    Segi það nú bara beint út:

    Meðan borgarskipulagið er notað til að útdeila sér og sínum verkefni, þá verður aldrei um neina „skipulagsástríðu“ að ræða.

    Þá er einungis skarað eld að eigin köku og dútlað við blómaskreytingar í hátæknigörðum Hringbrautanna, þar sem hver og einn í þeim hóp hleypur hala-rófu hringinn í forheimskun tossabandalaganna.

    Menn geta náð í siðfræðiprófessor og malað um siðfræði, en skíturinn er samt jafn augljós þeim sem á horfa og alveg sama hvað tossabandalagið sussar á þá sem afhjúpa helgislepjuna.

  • Pétur Örn Björnsson

    Tek svo undir með Sveinbirni Guðmundssyni:

    „Það þarf bara að segja það upphátt og þannig að allir heyri: „Borgin hefur staðið sig illa í skipulagsmálum síðustu áratugina“.“

    Og einnig þessi orð Hilmars:

    „Hafi þetta átt póltískar rætur þá er eðlilegt að gera þær kröfur til sérfræðinga á borð við yfirmenn skipulagssviðs og ráðgjafa þeirra að halda umræðunni lifandi. Malda í móinn og bæta í umræðuna. Láta af þýlyndinu.“

    Það vita allir að þetta á sér pólitískar rætur. Gráðugir verktakar stýrðu pólitíkusum og þeir stýrðu borgarskipulaginu.
    Enginn metnaður, bara hugsað um stundargróðann og þægilega innivinnu … er það þannig enn ????

  • Pétur Örn Björnsson

    Hilmar, alveg hárrétt, en ég vildi bara benda á þetta, því fæst dettur af himnum ofan, bara sisona.
    Annars allt í gúddí, því pistill þinn frændi er þarfur, sem flestir þínir fyrri.

  • Hilmar Þór

    Pétur Örn

    Neðra Breiðholt sem hannað var að Stefáni Jónssyni, Knúti Jeppesen, Guðrúnu Jónsdóttur, Reyni Vilhjálmssyni og fl. var byggt á skýrri hugmyndafræðilegri sýn. Það á líka við um stórann hluta Árbæjarskipulagsins. En þessi skipulög vöru gerð fyrir þann tíma sem er hér til umræði. Þ.e.a.s. tímann eftir 1990.

  • Pétur Örn Björnsson

    tímsetning … má svo sem standa, en ég meinti … tímasetningu:-)

  • Pétur Örn Björnsson

    En þetta er oft spurning um forgöngu og sporgöngu og tímsetningu.

  • Pétur Örn Björnsson

    Knútur Jeppesen og fleiri komu nú eitthvað nálægt „tæt lav“ í skipulagi hér, eða er það ekki Hilmar minn?

  • Steinarr Kr.

    Hilmar Þór, áttu þá ekki líka við blokkirnar í Fellunum, en þær snúa þannig að framhliðarnar snúa að einhverjum görðum og gögnustígum, en bakhliðarnar að bílastæðum. Þar átti að vera líf á milli húsanna, en flestir upplifa þetta öfugt við það sem lagt var upp með.

    Ein best heppnuðu hverfin í Reykjavík er vesturbær, sunnan Hringbrautar. Byggt þannið að nóg er af plássi, göngustígar þvera hverfin og stytta gönguleiðir og síðan sambland af breiðum götum (Hofsvallagata er dæmi) og mjórri íbúðargötum þar sem hraða er sjálfkrafa haldið niðri. Þarna er gott svæði til útivistar og áður var þarna talsvert verslunarrými sem í dag er því miður eiginlega öllu búið að breyta í íbúðir. Þarna sést líf, mannlíf sem fólk er að sækjast eftir.

  • Hilmar Þór

    Ef maður á að afsaka þessa þróun þá er hægt að halda því fram að tíðarandinn hafi verið andsnúinn lágri þéttri byggð allar götur síðan í lok níunda áratugar síðustu aldar og ekki hafi verið við þetta ráðið. Menn vildu bara ekki vistgötur og manneskjulegt umhverfi.

    Menn vildu greiða einkabílnum góða og hindrunarlausa leið og dreifa byggðinni. Það tókst þó flestir sem véla um þessi mál hafi vitað betur.

    En frá því 1990 til okkar dags er langur tími og of langur til þess að skilja hvað tafði frjóa nýhugsun í skipulagsmálum eða af hverju raddir ástríðufólks í skipulagsmálum heyrðust ekki. Var þeim ekki hleypt að umræðunni eða var bara engin umræða?

    Maður veltir fyrir hvernig tíðarandinn gat stoppað þennan feril algerlega. Það er ekki óeðlilegt að þróunin hafi hægt eitthvað á sér en stöðnun og afturför þarf frekari skýringar við.

    Hafi þetta átt póltískar rætur þá er eðlilegt að gera þær kröfur til sérfræðinga á borð við yfirmenn skipulagssviðs og ráðgjafa þeirra að halda umræðunni lifandi. Malda í móinn og bæta í umræðuna. Láta af þýlyndinu.

    Svo finnst mér að fræðasamfélagið hefði átt að láta til sín heyra. Þá er ég að tala um skipulagsdeildir HÍ, HR, Hvanneyri og ekki síst arkitektúrdeild LHÍ. Það þarf að veita embættismönnum og ráðgjöfum þeirra stanslaust fræðilegt og hugmyndafræðilegt aðhald.

    Hugmyndafræði Jan Gehl þar sem lífið milli húsanna var sett á oddinn var komin á beinu brautina hér á landi uppúr 1980. Svo vék hún eins og við vitum.

    Fyrir utan Suðurhlíðar og á Búr reit var vísir af þessum þankagangi að finna í Skjólunum, við Borgarspítala, við Austurbrún og tilraunareitir í Breiðholti eins og komið hefur fram.

    Þetta voru allt metnaðarfyllri og nútímalegri deiliskipulög en flest þeirra sem á eftir komu.

  • Hrekkjalómur

    Jón,
    Hverfin við Elliðavatn voru ekki hönnuð af arkítektum. Ekki heldur af skipulagsfræðingum. Heldur var það kontoristi hjá Kópavogsbæ sem vann undir stjórni hins mikilhæfa Gunnars Birgissonar bæjarstjóra sem gerði þetta hryllilega skipulag. Það er sennilega leitun að öðrum eins óskapnaði.

    Hrekkjalómur

  • Sveinbjörn Guðmundsson

    Það er enginn að halda því fram að svokölluð þétt lág byggð eigi að vera ríkjandi og allstaðar. Hinvegar er furðulegt að upplifa að henn hafi verið úthýst gjörsamlega og að hún eigi hvergi skjól í íslensku deiliskipulagi nokkursstaðar. Það væri gaman að heyra einhverja skýringu á því.

    Sennilega er það rétt hjá Helga Hallgrímssyni að þessi hverfi eru of lítil til þess að möguleiki sé að koma upp þjónustu. Sjáið t.d. Bryggjuhverfið í Grafarvogi. Það er of lítið til þess að geta borið matvöruverslun, leikskóla eða aðra þjónustu. Borgin hafði ekki úthald til að klára hverfið og fór í þess stað að þvælast upp í Úlfarsárdal þar sem fólki er gert að búa án þjónustu við ömurlegar aðstæður. Ef bryggjuhverfið hefði klárast væri það með eftirsóttustu hverfum borgarinnar.

    Það þarf bara að segja það upphátt og þannig að allir heyri: „Borgin hefur staðið sig illa í skipulagsmálum síðustu áratugina“.

  • Þetta er akkúrat öfugt við nýju hverfin við Elliðavatn. Nóg er af „opnum svæðum“ þar. Húsin eru langt frá götum, helst skal vera grasræma á milli götu og gangstéttar, og svo gangstéttar og húsa. Það geta verið tugir metra á milli þyrpinga, þarna er skilið eftir „náttúrulegt“ svæði, óbyggðir melar. Ég leyfi mér að efast um þann arkitektúr…

  • Þorgeir Jónsson

    Bútasaumsaðferðin heitir vinnulagið í Reykjavík. Umrædd hverfi bera það með sér að nýjar hugmyndir komast í framkvæmd og virðast virka vel en svo er úthaldið búið og bútasaumsskipulagið getur haldið áfram. Úr þessu hefur svo orðið þessi furðulega skipulagða borg sem útlendingar eiga bágt með að skilja.

    Gott dæmi er furðu-deiliskipulagið í Úlfarsfelli þar sem margir arkitektar hafa lent í miklum erfiðleikum með þetta skipulag. Mikill aukakostnaður hefur fylgt því að uppfylla brunatæknilega hönnun húsanna vegna óeðlilegrar fjarlægðar milli húsanna í skipulaginu.

    „Þétt og lágt“ er skipulagsform sem hefur virkað vel á norðulöndum og einnig hér á landi eins og umfjöllunin hér sýnir. En það er ekki verið að fylgja hugmyndafræðinni eftir alla leið svo þessi hverfi verða oft að einangruðum hverfum „milli lífs og dauða.“

    Nýjar hugmyndir á Íslandi verða oft eins og þegar mamma keypti græna papriku í fyrsta skipti. Hún hafði ekki hugmynd um hvernig ætti að matreiða ávöxtinn, svo hún byrjað á því skræla hann eins og hún var vön að gera við epli.

    „Þétt og lágt“ var atlaga að bílismanum. Bíla átti að útiloka frá hverfinu með því að koma þeim fyrir í bílastæðahúsum nægilega nálægt hverfunum. Þetta var ekki gert í þeim hverfum sem skipulögð voru með þétt og lágt hugmyndafræðinni hér á landi. Nei bíllinn skildi vera í anddyrinu eða beint fyrir framan íbúðina. Myndirnar sem eru hér fyrir ofna eru ekki sýndar með bílum, en hvernig eru myndirnar þegar allir eru heima…?

  • Hrekkjalómur

    Veit ekki hvað GGJ á við með „lágt“ í sínu „þétt og lágt“-dæmi. Á hann við 4-6 hæðir eins og eru reglan í borgum í Evrópu, þar sem randbyggðir eru algengar meðfram götunum. Eða á hann við svona raðhúsa-dæmi eins og í Suðurhlíðum?

    Suðurhlíðarnar eru mjög skrítið hverfi. Að láta börn og bíla deila götunum eins og þar er gert er náttúrulega ekkert annað en klikkun. Bílarnir fara ekkert sérstaklega hægt um – maður hefur jafnvel séð dæmi um hraðakstur um kræklóttar göturnar þar. Ótrúlegt hvað þar verða sjaldan slys. Sennilega vegna þess hve þar eru fá börn.

    Lómur

  • Helgi Hallgrímsson

    Fínar hugsjónir í þessum hverfum en spurning hvort þetta hafi virkað. Ég hef nokkuð oft átt leið um suðurhlíðahverfi og sé nánast aldrei fólk á ferli. Ástæðan fyrir því er líklega sú að það vantar alla þjónustu í hverfið, þetta er hreinræktað íbúðarhverfi. Til að kaupa mjólk eða brauð þarftu annaðhvort að fara á bensínstöðina við Kringlumýrabraut eða Sunnubúðina í lönguhlíð.
    Ég hef líka heimsótt nokkur af hinum þekktu „tæt-lav“ í nágrenni Kaupmannahafnar og þessi skortur á nærþjónustu virðist alltaf koma í veg fyrir að þessi hverfi virki sem skildi.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér Gauti að minna á Skjólin.

    Svo voru líka tilraunareitir í Breiðholti og lágu þéttu byggðirnar við Borgarspítala og uppi við Vestur- og Austurbrún.

    Þetta voru allt metnaðarfyllri og nútímalegri deiliskipulög en þau sem á eftir komu.

    Það var auðvitað einhver einbýlishúsagarða dýrkun í gangi þarna, en það eitt átti ekki að stöðva framþróunina algerlega.

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Ég vil líka nefna t.d. Frostaskjólshverfið sem mjög vel lukkað hverfi. Þessi hverfi eru öll byggð eftir hugmyndafræðinni „þétt og lágt“ sem án efa er miklu hentugri byggingarmáti við okkar aðstæður en háhýsaskipulagið.

  • Þorbergur

    Ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir almennri umræðu um deiliskipulag íbúðahverfa hér á landi……ever.
    Hér er á ferðinni þörf áminning og athyglisverður samanburður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn