Sunnudagur 29.12.2013 - 11:00 - 13 ummæli

Fléttað inn í borgarvefinn.

Fléttað inn í borgarvefinn.

Samkeppni arkitekta um stækkun Wallraf Richartz safnsins í miðborgarkjarna Kölnarborgar er nýlega lokið. Safnkostur safnsins er umfangsmikill fjársjóður klassíkra málverka  frá miðöldum fram á 20. öld en að auki  Fondation Corbund, trúlega glæsilegasta safn impressionista utan Frakklands. Verkefni samkeppninnar var að hanna sérstaka byggingu fyrir Corbundsafnið og skildi aðkoma nýbyggingar vera í því húsi sem fyrir er og með tengingu neðanjarðar. Markmiðið með þeirri skipan er  að í náinni framtíð verða tveir hlutar að einni heild. Á reitnum,sem stendur til boða er auk safnsins gert ráð fyrir íbúðarhúsum,verslunum m.a. fyrir myndlist og álíka rými : fylling í skarð gamals borgahluta nálægt Rínarfljóti.

Verðlaunatillagan var í hópi þeirra fáu , sem töldu eðlilegt að safnið verði sýnilegt og með sýningarsali á þrem hæðum, þó að safnið hafi upphaflega viljað hafa einn stóran sýningarflöt neðanjarðar.

Massi safnbyggingarinnar nýju er mjög ríkjandi og eini gluggi efri hæða er fyrst og fremst einskonar „sjónlína“ til gamla safnsins. En massinn er brotinn upp með mynstri tígulsteina, „ornament“ í  Rómverskum anda, en Rómverjar lögðu grunninn að Kölnarborg fyrir um 2000 árum. Slík mynstur tígulsteina eru að vísu alls ekki óþekkt í borginni þó ekki séu þau mjög áberandi.  

Meðferð steinsins bendir sterklega til þess að hér er á ferðinni „klassisk“ skynjun á arkitektúr,sem telja verður til undantekninga í byrjun 21. aldar,skynjun sem notar massiva ,þykka byggingarhluta, náttúrlegan tígulsteinn,einfalda heild og hefur almenna skýrskotun sem einkennir„klassíkar“  byggingar. Skynjun þessi er í anda arkitektsins Louis Kahn, en hann vildi  fyrst og fremst nálgast „frumteikn“ og nota þau sem form í grunnmyndir sínar og byggja með náttúrulegum byggingarefnum og láta massann virka.

Með þessari tillögu opnast upp ýmsar dyr,sem módernisminn lokaði fyrir. Dyr sem opnast á stað,sem einmitt hentar einkar vel fyrir slíkar hugmyndir.

Vissulega má halda því fram að nýtt hús  sé alltaf í einhverskonar samhengi,hvort sem er í borg eða náttúrinni, sem sagt arkitektar vinna aldrei „ex nihilo“. Vaxin umhverfi borga kalla þó á að fyrir hendi sé næmleiki og tillitsemi í samtali þess nýja við það gamla ef hver persónuleiki á að halda reisn sinni.     

Gamli bærinn í Köln var upphaflega byggður af Rómverjum og vökul augu sjá víða þau spor. Tillagan vísar beint til rómveskrar hefðar borgarinnar og tekur jafnframt mið af helstu staðareinkennum: en þetta tvennt  er sett í „tímalausa“ mynd sem fer vel og er hægt að segja að eigi heima á þessum stað.

„Around the corner“ kalla höfundar tillögunnar, þeir Christ+Gantenbein, Basel, nálgunaraðferð sína  og eiga þá við bæði  rými og tíma. En hún felur í sér að leita ekki langt yfir skammt eftir lausnum heldur þróa hugmyndir eingöngu út frá því sem staðurinn býður uppá.

Ítalir tala um að á þann hátt sé flétt  inní „tessuto urbano“ , borgarvefinn.

Líkja má svona vinnuaðferðir við gerð fúgu,sem fléttar sjálfstæðar raddir saman í eina heild.

Raddir sem fléttast saman og eru samt sjálfstæðar og spyrja má hvort þetta sé ekki eðlileg aðferð við að byggja borg ?

Slík nálgun er hins vegar lítið notuð í dag, en spyrja má hvort ekki sé komið nóg komið af egóisma og mainstream í stjörnuarkitektúr samtímans?

Tillagan gefur vonir um ,að safnbyggingin nýja verði með tímanum í hópi þeirra bygginga,sem Köln geti verið stolt af og þar með orðið fyrirmynd fyrir verk ,sem þróað er upp úr einkennum rótgróinna borga eins og Köln. Sú aðferð á reyndar ekkert síður erindi til borga, sem eiga sér styttri sögu að baki eins og t.d. Reykjavíkurborg.

Köln í des. 2013

Gunnlaugur Stefán Baldursson

.

.

Grein þessi barst síðunni frá Gunnlaugi Stefáni Baldurssyni arkitekt sem starfað hefur í Þýskalandi að mestu síðan hann lauk námi frá háskólanum í Karluhe. Hann hefur verið umsvifamikill arkitekt og rekið sína eignin stofu Siegen í Þýskalandi fra 1990, tekið þátt í samkeppnum með ágætum árangri auk þess að stunda kennslu í byggingarlist.

Efst og strax hér að neðan eru myndir af samkeppnistillögunni sem hér er til umfjöllunar og svo koma nokkrar myndir af Wallraf Richartz safninu í miðborgarkjarna Kölnarborgar

Sjá einnig umfjöllun Gunnlaugs um verk Louis I. Kahn á þessari slóð:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/25/louis-i-kahn-og-songvar-vidisins/

köln wallraf-richardz museum 2

 

 

Efni um staðhætti (genius loci) í eftirfarnadi greinum (Lesbók)Mbl. á vefnum.:

„Endalok sýndarmennsku í augsýn?“ 27.6.09

„Perlur með sögu og sál“ 16.01.10

„Samhljómar líðandi og liðinna tíma“ 10.07.11

Á Eyjunni, arkitektur,skipulag staðarprýði:

„Louis Kahn og söngvar víðsins“ 25.03.13    

.

.

.

30.12.2013

Eftirfarandi upplýsingum um höfund bætt við:

Gunnlaugur Stefán Baldursson settist  að í Kölnarborg  1973 þá nýútskrifaður arkitekt frá háskólaum í Karlsruhe.Hann vildi starfa í Miðevrópu í alþjóðlegu umhverfi og vera óháður  pólitískum og álíka samböndum,þ.e. að nálgast verkefnin eingöngu á faglegum grundvelli.

Hann fékk tækifæri til að starfa sem sjálfstæður arkitekt þegar hann vann samkeppni um aðalbækistöðvar ADAC í Köln 1984.

Gunnlaugur stofnaði 1990 teikinstofu í háskólabænum Siegen, nálægt Köln, þegar hann fékk 1. verðlaun fyrir tillögu af byggingu ZESS stofnuninnar við háskólann þar í borg. Jafnframt því fékk hann verkefni við endurgerð og breytingum á elstu kirkju borgarinnar,Martinikirkju, og nánasta umhverfi hennar .Það verk hlaut að framkvæmdum loknum hin eftirsóttu BDA verðlaun.

Undirstaðan fyrir fagvinnu Gunnlaugs er sá skilningur hans ,að byggingar falli eðlilega inní umhverfi og staðhætti.Auk þess vill hann forðast  of persónulegt dálæti, opna með nýjungagirni nýjar dyr og flétta saman hefð og nýjustu tæknimöguleika.     

Verkefni Gunnlaugs eru enn í dag árangur í arkitektasamkeppnum.

Nýlega var tillaga hans í samkeppni fyrir „samskiptamiðstöð“  stórfyrirtækis sem starfar á alþjólegum markaði ,valin til útfærslu.

Gunnlaugur Stefán hefur auk þess verið virkur á öðrum sviðum fagsins,bæði í samvinnu       við háskóla m.a. sem guest critic,auk fyrirlestra og kennslu.Hann hefur skrifað fjölda faggreina m.a.hefur hann hér á Eyjuni fjallað um Louis Kahn og nýjar byggingar í Evrópu og á Íslandi.

Benda má einnig á grein hans :„endalok sýndarmensku í augsýn?“ (Lesbók Mbl. 27.06.09) þar sem fjallað er um sambandið milli bygginga og saðareinkenna.

   Að neðan koma myndir af nokkrum verka Gunnlaugs. Ef smellt er tvisvar á myndina stækkar hún og verður skýrari.

ÜBERSICHT projekte2

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Örnólfur Hall

    — Það er von að efi læðist í huga Jóa um traustið.

    — Fróðlegt væri að vita hvað meistari ERRÓ segir nú, undir rós, um áætluðu báknin öll sem loka dýrmætri útsýn frá miðborginni og Arnarhóli.

  • „Er arkitektum treystandi?“ spyr Jói með réttu þegar það sem fyrir 4 árum stóð til að byggja í nágrenni Kvosarinnar er litið augum.
    Það jákvæða bergmál sem „flétt inní borgarvefinn“ hefur fengið sýnir,að skilningur á mikilvægi skipulagsmála miðbæjarins fer vaxandi
    Á svæðinu milli Hörpu og Kvosarinnar er veigamikið,að byggð taki mið á Kvosina í hæð og efnisvali og að starfsemi á jarðhæð sé fjölbreytt.
    Þessi mál þarf að ræða efnislega á málþingi,sem haldið verður í Hörpunni 16.janúar ( kl.15 til 17) og hvet ég hérmeð alla til þátttöku!!

  • Hér eru myndir af fyrirhuguðum aðalstöðvum Landsbankans við hlið Hörpu:
    http://blog.pressan.is/hjalmarsveinsson/2010/01/26/midborg-landsbankans-myndir/

    Þessi tillaga er unnin af heimsfrægum stjörnuarkitekt í samvinnu við staðkunnuga íslenska arkitekta.

    Ég spyr eins og barnið í ævíntýrinu.

    „Er kóngurinn ekki í neinum fötum?

    Er arkitektum treystandi?

    Fléttist þessi bygging inn í borgarvefinn?

    Eigum við von á einhverju svona í nálægð við Hörpu?

  • Örnólfur Hall

    Af SAMFLÉTTINGU & SKIPULAGI í AUSTURHÖFN

    —Ekki verður sagt að Harpa samflétti sig við borgarvefinn eða falli að anda (karakter) Reykjavíkur og er eins og „kjúriositet“ á Austurbakkanum – eins og glöggur kollegi orðaði það forðum.
    — Þarna á nú að planta, samkvæmt nýju skipulagi, miklum byggingar-massa (hóteli, banka o.fl.) inn á viðkvæmt strandsvæði og öll útsýn og opnun er fyrir bí.– Þessu er pakkað við glerstássbáknið ‚okkar allra‘ sem er þá orðið \’hornreka\’ þarna og getur bara sýnt sæmilega óhrjálegustu hliðina (austur), með misbrýndu steypunni, særoksbörðu, flekkóttu og skellóttu.

    — Annars er það mjög góð tillaga hjá Gunnari Gunnarssyni að kveðið sé á um að efnisval á komandi byggingum samfléttist eldri byggð.

    __ Undirritaður vill líka þakka (fv. samstarfskollega) Gunnlaugi S. fyrir góða og tímabæra grein og óska til hamingju með mögnuð verk.

  • Björn H. Jóhannesson

    Greinin hans Gunnlaugs er mjög góð ; um nálgunina og samhengið í arkitektúrnum, verkið virðir forsendurnar og umhverfið. Tvær síðustu myndirnar,eru ekki af viðbyggingu Wallraf Richartz safnsins þeirra. Christ+Gantenbein.

    Gott að fá innlegg kollega með ”tveggja heima sýn”, fín verk og praksis í eyjunni í norðri og á meginlandi álfunnar.

  • Pétur Örn Björnsson

    Um stund fyllist maður smá vellíðunarkennd. Kannski enn sé von til að menn vakni til vitsins sem þeir í Köln hafa hér greinilega gert. Nánast sem þetta hús hafi alltaf verið ætlað að vera þar sem það er.

  • Greinin er ljósgjafi og hvatting til að þroska næmleika sem flestra fyrir miklvægi staðareinkenna á Íslandi almennt.
    Nærtækt neikvætt dæmi er Harpan,sem er sambandslaus við Kvosina bæði hvað hæð og efnisval snertir.
    Þessi grein gæti e.t.v. haft áhrif á að það sem á næstunni rís umhverfis Hörpuna eins og Gunnar bendir á hér að ofan.

  • Hefur verið gerð rannsókn á því hver er samnefnari fyrir hús í hinum ýmsu bæjum og bæjarfélögum á Íslandi? Ef hann eða þeir (geta verið nokkrir í hveju smáþorpi) finnast þá er hægt að hanna harmóniska bæji og bæjarhluta. Annars ekki.

    Hvað einkenir Reykjavík. Hvað einkennir Kvosina? (Svona byggingarlega.)

  • Örnólfur Hall

    — Undirritaður vill líka benda á skrif kollega Gunnlaugs Stefáns um aðrar byggingar sem fléttast vel saman við gamalt (Ghent: Torglausn við 3 turnbyggingar frá miðöldum).
    — M.a. sagði Gunnlaugur:.. „Eins og ég benti á hér hjá Hilmari (29.4.) sniðgekk dómnefnd allar staðreyndir þegar hún rökstuddi val sitt á Miesverðlaununum.
    Byggingin í Ghent,sem ég þekki persónulega,fléttist eðlilega saman við það sem vaxið hefur umhverfis, þveröfugt við sýndarmennsku Hörpunnar.
    Í Ghent er vísbending á það hvernig nýjar byggingar geta fallið inn í staðareinkenni: með virðingu fyrir umhverfi samhliða eigin tign“…..

    — PS: Lausnin var rómuð hjá UNESCO og fékk 7 sinnum fleiri atkvæði arkitekta og áhugafólks í Evrópu en verkið sem hlaut Mies-prísinn. – Þetta vakti og vekur enn spurningar og furðu t.d. arkitekta í Þýskalandi og Sviss.
    — A. Borghi formaður ACE (Samband Evrópu-arkitekta) stýrði þessari atkvæðagreiðslu.

  • Gunnar Gunnarsson

    Það þarf oft ekki mikið til þess að árangur náist í „samfléttingunni“. Hér er augljóst efnisvalið sem gerir handverkið sýnilegt og áþreyfanlegt.

    Frábært umfjöllunarefni.

    Í nýju skipulagi við Hörpu má ekki gleyma samfléttingunni til dæmis með að gera kröfur um efnisval sem samfléttar nýju húsin (hótel og banka) við eldri byggð Kvosarinnar.

  • „Fléttað inn í borgarvefinn“

    Falleg og lýsandi yfirskift á góðri og áhugaverðri grein.

  • Ragnhildur

    Það gleður mitt hjarta að sjá að einhvers staðar í heiminum vinna menn með arfinn en leyfa nútímanum að taka sinn réttmæta sess.

  • Hilmar Þór

    Þetta er stórgóð grein hjá Gunnlaugi sem fjallar um það stöðuga viðfangsefni arkitekta að flétta byggingar inn í umhverfið eða að byggja við eldra hús.

    Eftirfarandi setning vekur sérstaka athygli og bent er á af gefnu tilefni:

    „Verkefni samkeppninnar var að hanna sérstaka byggingu fyrir Corbundsafnið og skildi aðkoma nýbyggingar vera í því húsi sem fyrir er ………….“

    Í nýlegri samkeppni um viðbyggingu við Sundhöllina í Rekjavik hafði dómnefnd ekki tilfinningu fyrir mikilvægi þess að viðhalda gamla inngang Guðjóns Samúelssonar og völdu að gera nýjan inngang um viðbygginguna.

    Já, þú munt ganga inn í þetta agaða flotta hús um viðviggigu.

    Þetta var synd sem sannar að helstu mistök í samkeppnum má oftast(alltaf) rekja til dómnefnda.

    Sjá:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/11/24/sundhollin-utilaug-i-midborgina/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn