Mánudagur 12.06.2017 - 10:34 - 8 ummæli

Frank Lloyd Wright til sölu

 

Bandaríski arkitektinn Frank Lloyd Wright fædddist 8. júni 1867 í Wisconsin í bandaríkjunum. Síðan eru liðin 150 ár.

FLW er óumdeilanlega talinn fremstur arkitekta þar vestra fyrr og síðar. Hann hafði mikil áhrif víða um lönd. Hann sótti innbrlástur í japanska byggingalist og lét nytjastefnuna ráða ferð. En nytjastefnuna (funktionalismann) nam hann hjá meistara sínum Louis sullivan um og fyrir aldamótin 1900. FLW vann hjá fremstu arkitektum Chicagoborgar um þær mundir en það var stofa Adler & Sullivan.  Sullivan, sem FLW kallaði alltaf „meistara“ rak unga arkitektinn þegar hann komst að því að hann var að harka „framhjá“ á kvöldin og um helgar.

FLW var afbragðs teiknari eins og einkennir góða arkitekta. Hann teiknaði mikið allskonar ornament og prjál þegar hann vann hjá Sullivan.  Þetta var í raun andstætt nytjastefnunni en á þeim umbrotatímum þegar hún var í fæðingu var það sjálfsagt nauðsynlegt til að fæla viðskiptavininn ekki frá. Dæmi um þetta er Carson Pirie Scott & Co i Chicago sem  var byggt á árunum 1899-1904 þar sem FLW teiknaði prjálið á fyrstu og annarri hæð. Allt gert úr steyptu járni.  Ef grannt er skoðað þá sótti FLW líka í smiðju meistara síns Sullivan og nægir þar að nefna Getty Tomb frá 1890 og Union Station frá 1892 sem var rifin 1953-54.  Þessi hús og fleiri frá hendi Sullivans hafa greinilega haft mikil áhrif á FLW

Áhrifa FLR gætti víða. Prófessorinn minn, Jörgen Bo var undir áhrifum FLW og teiknaði hús undir japönskum áhrifum í Danmörku. Bo var mikill áhrifavaldur í danskri húsagerð uppúr miðri síðustu öld og litu margir til míns gamla prófessors til að fá innblástur. Ég man að Bo sagði eitt sinn „að maður væri fyrst orðin góður arkitekt þegar hinir góðu arkitektarnir væru farnir að herma eftir manni“.

Það hús FLW sem hér er til umfjöllunar er í St. Louis Park, stutt utan við Minneapolis og er til sölu. Húsið hefur verið í eigu sömu aðilana frá upphafi. Hjónin sem báðu arkitektinn um að hanna húsið fyrir sig eru nú um 90 ára gömul og hafa búið þarna í 50 ár.

FLW hóf hönnunarvinnuna árið 1958 , þá 91 árs gamall og lauk við alla uppdrætti áður en hann dó ári seinna þann 9 apríl 1959. Hann lifði ekki að sjá húsið fullgert. Þetta er ótrúlegt afrek af svo öldruðum manni. Hann hafði enn fullkomna stjórn á rýmisgreind sinni og höfundareinkennin voru aldrei sterkari. Hann teiknaði allt sem til hússins heyrir bæði fastar innréttingar og lausar. Hann teiknaði jafnvel loftlampa og borðlampa. Það er óhætt að segja hér eins og oft áður „Thats’s Wright all right“.

Ég bið lesendur að skoða myndirnar og reyna að átta sig á heildarmyndinni or flæði hússins. Inngangurinn og aðkoman er sérlega áhugaverð og svo er hógværðin gagnvart landslaginu áberandi en húsið stendur innst í botlangagöti þar sem er opið svæði. Landmótunin er líka áhugaverð og einstaklega vel útfærð. Húsið er frekar lítið á bandarískan mælikvarða eða um 250 m2.

En eins og áður sagði er húsið til sölu algerlega óbreytt frá hendi meistarans með húsgögnum og öllu tilheyrandi. Þeir sem hafa áhuga geta snúið sér til fasteignasölunnar: https://www.coldwellbankerhomes.com/mn/saint-louis-park/2206-parklands-lane/pid_12602097/

 Lesa má meira um FLW hér og í fleiri færslum mínum á þessu bloggi.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/19/chicago-that-is-wright-all-right/

 

 

 

 

 

Húsið er gegnheilt. Þ.e.a.s. að það hefur sömu efnismeðferð að utan og innan. Takið eftir múrsteininum. Það er múrað í svokölluðu „löberforbandt“ (danska) þar sem einungis langhlið múrsteinsins snýr fram og svo er „rulleskifte“ undir gluggum. Þetta er munstur sem mikið var notað í Evrópu um aldir. Útlitið að ofan gæti vel verið hannað af dönsku húsi.

 

Engin bílskúr fylgir húsinu sem er óvenjulegt í Bandaríkjunum en það er myndarlegt bílskýli sem sjá má á myndunum að ofan.

Að neðan koma svo í lokin tvær myndir sem sýna hvernig húsið fellur að landslaginu. En þetta er óvenjulegt frá hendi FLW sem teiknaði mikið á flötu landi eins og á preriunni vestan við Chicago og víðar. Oft byggði hann í andstöðu við landið eins og í Falling Water. Ef Falling Water hefði ekki verið slíkt snilldar hús eins og raun ber vitni þá væri það nú álitið náttúruspjöll og líklega búið að rífa það fyrir löngu.

 

Ég hef verið svo heppinn að fá að skoða mörg hús eftir FLW þ.m.t.  flest hús hans í Chicago og á preríunni vestan borgarinnar ásamt húsi hans norðan við San Fransisco. Ég hef eldrei skoðað Falling Water sem mikið er lofað. Einhvernvegin hef ég aldrei haft áhuga fyrir því kannski einkum vegna þeirra afstöðu minnar að hús eigi alltaf að vera víkjandi fyrir landslaginu. Í Falling Water byggir FLW yfir gersemin sem eru aðdráttarafl staðarnis og lætur fossniðin dynja á íbúum hússins sem sjá ekki fossinn frá húsi sínu.  Ævar Harðarson fjallaði um þetta hús í dokltorsritgerð sinni og jók það ekki álit mitt á byggingunni. En ég er þar með ekki að segja að Falling Water sé ekki gott hús. Það væri nánast Guðlast að halda slíku fram. Þvert á móti er það frábært á flesta lund og óumdeilanlega mikið listaverk.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Ég hef ekki mikið vit á þessu en segi bara eins og er að mér finnst þetta óskaplega fallegt hús og eftir að hafa lesið um það og athugasemdirnar þá skil ég betur af hverju mér finnst þetta fallegt. Þetta er hús fyrir fólk sem stenst tímans tönn en er ekki bara fyrir einhverja monthana til að stæra sig af. Slíkt er lítillætið í stæðinni.

  • Auðvitað,Hilmar, eru oft misræmi í túlkun orða og setninga.Fyrir mér vakti að benda lesendum þínum á,að FLW tókst oft meistaralega að sameina náttúru og byggingar þannig,að þau upplifðu hamingju með og í tilveru hvers annars.
    Og að þetta gerir hann svo áhugaverðann enn í dag.

  • Hilmar Þór

    Jú Gunnlaugur. þetta er kannski smá alhæfing hjá mér eða túlkunaratriði, en ég stend samt við þetta. Ég þekki ekki Solar Hemicyle en Walker House i Carmel í Californíu finnst mér vera svona „preriuhús“, eða kannski Robie Hose sem sett er á klettanöf við ströndina.Það tekur auðvitað mið af aðstæðum og landslaginu en ekki á eins viðkvæman hátt og húsið í Monnesota sem hér er verið að fjlalla um sem beinlínis leggur sig ofaná landslagið og tekur form af því. Sjáðiu bara bílskýlið sem lekur eiginlega niður brekkuna og svo er þungi hlutinn sem stendur uppúr þakinu sem heldur húshlutunum saman. Við getum verið ósammála um þetta og það er bara OK.
    Þakka þér annars fyrir athugasemdina. það koma allt of fáar almennt séð og byggingalist er of lítið rætt.

    • Ég hafði ekki tekið eftir þessum þunga byggingahluta sem stendur uppúr þakinu fyrr en bent er á hann. Hann er formlega mikilvægur þegar horft er á bygginguna í heild. Þessi hluti er sérstaklega mikilvægur þegar komið ar að húsinu.

  • Hilmar talar um að sé „óvenjulegt“ að hús FLW „falli að landslaginu“.
    En náið samband húsa og landslags er einkenni á flestum byggingum þessa meistara.Ég nefni sem sérlega góð dæmi „Solar Hemicyle“ og Walker House(Californiu).Í því sambandi má einnig benda á grein um arkitektúr FLW,sem ég birti í Lesbók Mbl. 2009,en þessa grein „Endalok sýndarmennsku í augsýn? má lesa á netinu.

  • S. Ólafsdóttir

    Grunnmynd, afstöðumynd eða snið?

  • Þetta er mjög skemmtileg færsla og sýnir mikið hugrekki höfundar að gagnrýna eitt mesta listaverk byggingalistasögunnar, Falling Water. Þessi djörfung höfundar er einn hans helsti kostur.

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir hrósið Geir. En ég er eiginlega ekki að gagnrýna húsið. Það er frekar staðsetning þess sem ég gagnrýni. En auðvitað er lausn arkitektsins sprottin útfrá staðsetningunni. En svona almenn séð finnst mér ekkert vera yfir gagnrýni hafið og svo er hrós líka gagnrýni ef út í það er farið 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn