Þriðjudagur 14.08.2012 - 12:26 - 5 ummæli

Grunnskólinn hefst í næstu viku

 

 

Framkvæmdastjóri danska arkitektafélagsins, Jane Sandberg, vekur athygli á því í nýlegu fréttabréfi, að þúsundir ungra barna eru um þessar mundir að hefja skólagöngu sína. Á Íslandi hefst grunnskólinn einnig á flestum stöðum í byrjun næstu viku.

Hún segir að þetta séu mikilvæg tímamót hjá þessum börnum sem munu verða fulltrúar landsins í framtíðinni og skapa hana.

Framkvæmdastjórinn telur að það sé úrslitaatriði  að grunnskólinn taki  á móti þeim þannig að þau fái  skapandi menntun sem tryggir áframhaldandi þróun og vöxt samfélagsins.

Hún segir að ef  við drögum verklag arkitektúrs inn í skólastarfið munum við fá einstaklinga út úr grunnskólanum sem geta leyst vandamál á skapandi og upplýstan hátt þar sem í fyrirrúmi er þjálfun í samstarfi og þolinmæði er sýnd hvað fjölbreyttar þarfir og mismunandi sjónarmið varðar.

Í samræmi við þetta vinnur danska arkitektafélagið hörðum höndum að því að arkitektúr og hönnun fái meira rými í grunnskólanum því þar liggur krafturinn sem hefur áhryf á hvernig landið byggist í framtíðinni. 

Danska arkitektafélagið er meðvitað um að í vel menntuðum og upplýstum neytendum felast tækifæri til þess að skapa góða framsækna byggingarlist.

Þessar hugleiðingar danska framkvæmdastjórans eru tímabærar og eiga ekki síður við hér á landi. Það hefur margt verið skrifað um þessi mál hér á landi en lítið gert annað en að árétta þetta í nýlegri Menningarstefnu hins opinbera í Mannvirkjagerð.

Hér eru slóðir að færslum þar sem fjallað er um arkitektúr í grunnskólanum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/13/arkitektur-i-grunnskolunum/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/30/arkitektur-og-grunnskolamenntun/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/21/fraedsla-i-byggingarlist/

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/16/byggingarlistin-er-utundan/

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hilmar Þór

    Athyglisvert er það sem Guðmundur nefnir að ofan.

    Í Danmörku segir hann að sé “menntunarskylda” (undervisningspligt) meðan á Íslandi sé “skólaskylda”. (skolepligt)

    Ég man að þegar ég stundaði nám á Akademíunni í Kaupmannahöfn heyrði hún undir “Menningarmálaráðuneytið”(Kulturministeriet) meðan Kaupmannarhafnarháskóli heyrði undir “Menntamálaráðuneytið” (Undervisningsministeriet).

    Í svipinn virðist þetta vera orðhengilsháttur sem litlu máli skiptir, en svo er auðvitað ekki.

    Annað sem ég vil nefna er að ég hef verulegar áhyggjur af Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð frá 2007. Það virðist enginn fylgja henni eftir svo sjáanlegt sé!

  • Guðmundur

    Það er vert að benda á að það er einn grundvallarmunur á danskri og íslenskri menntastefnu: Á meðan á Íslandi er skólaskylda er menntaskylda í Danmörku (undervisningspligt). Þetta er kerfislægur munur sem hlýtur að endurspeglast í skólastarfinu, sama hversu mikið kennarar og skólayfirvöld reyna að brjóta upp formið (sem þeir vissulega reyna af miklum mætti og oft með góðum árangri). Á meðan einblínt er á skólann sem stað, stofnun, jafnvel geymslu hér á landi, er áherslan á að mennta börn í Danmörku. Þetta endurspeglast líka í arkitektúrnum. Það fer fremur lítið fyrir fegurð og sköpunargleði í flestum yngri skólabyggingum (af hverju er t.d. stærðfræðiálman ekki sexstrend? Eða fullkomin hringlaga hvelfing í anda Pantheon í Róm?). Af hverju fá arkítektar leyfi til að fá útrás fyrir sköpunargleðina í kirkjubyggingum en ekki skólabyggingum? Væntanlega af því að hér er skólaskylda, ríkinu ber skylda til að reisa skólabyggingar fyrir öll börn með sem minnstum tilkostnaði. Innihaldið, sjálf menntunin, vill mæta afgangi.

  • Það hlýtur að vera rými fyrir svona kennslu í grunnskólanum. Væri ekki hæft að skapa stöðurgildi fyrir nokkra nú atvinnulausa arkitekta? Tengja þetta kannski myndmennt, sögu og handmennt!!

  • Jóhann ólafsson

    Hér er kafli úr menningarstefnunni. Allt eru þetta fögur fyrirheit. En hvað með efndirnar. Hver ber ábyrgð á framkvæmdinni. Eru það skólastjórnendurnir sjálfir eða ráðuneytið?

    „Skilningur á hönnun og byggingarlist hefst á unga aldri þar sem börn og unglingar nálgast umhverfi sitt oft með opnari hætti en þeir sem eldri eru. Kennsla á þessu sviði býður upp á þverfaglega nálgun við lista- og verknám en einnig við sögu, samfélagsfræði, stærðfræði og náttúrufræði. Kynningu og kennslu í hönnun og byggingarlist þarf að tengja markvisst aðalnámskrá leik- grunn- og framhaldsskóla. Gera skal fjölbreytt námsefni sem hentar ólíkum aldurshópum með áherslu á íslensk dæmi og samhengi þeirra við umheiminn. Einnig þarf að þjálfa leiðbeinendur í kennslu á þessu efni. Kennsla í sköpunarferli hönnunar frá hugmynd til verks spannar vítt svið frá rökhugsun að listrænni vinnu og verkþjálfun og eflir sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Hún hentar vel til að örva sköpun og opnar augu nemenda fyrir hinu manngerða umhverfi. Fylgja þarf eftir og þróa tilraunaverkefni á þessu sviði.”

    P.s. Þessi tilvitnun er fengin úr fyrri færslu um málið orðrétt úr menningarstefnunni.

  • Frábær hugleiðingar hjá dönum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn