Þriðjudagur 18.09.2012 - 12:16 - 6 ummæli

Hljómalindarreitur og Brynjureitur í kynningu

 

 

 

Síðdegis á morgun verður haldinn kynningafundur um ný deiliskipulög á svokölluðum Brynjreit og Hljómalindarreit í miðborg Reykjavíkur. 

Þetta eru mikilvægir staðir í hjarta borgarinnar. 

Reitirnir liggja báðir að Laugavegi og samanlagt eru þeir um fjórðungur lengdar Laugarvegar frá Bankastræti inn að Snorrabraut.

Það er ánægjulegt að vera vitni að því að byrjað sé á að endurskoða reitina innan gömlu Hringbrautar. Gildandi skipulög eru flest mjög umdeild og telja margir að þau hafi valdið grenjavæðingu víða á svæðinu. Menn hafa hætt að halda húsum sínum við vegna fyrirheita um mun meiri nýtingu á lóðum sínum samkvæmt heimildum sem falin voru í skipulagsgerðinni.

Með kynningunni á morgun er brotið blað í þessum málum, það kveður við nýjan tón og því ber að fagna.

Í aðalatriðum felast breytingarnar í því að minnka byggingarmagnið, minnka niðurrif eldri húsa ásamt því að vernda götumyndir og yfirbragð þannig að  “íbúar þekki borgina sína á ný og séu sáttir við umhverfið”  eins og það er orðað. Þá er lögð áhersla á vistvæna bakgarða og gönguleiðir innan reitanna.

Manni sýnist að reitirnir báðir hafi batnað mikið frá fyrra skipulagi þó ég átti mig ekki á því af hverju þurfi að láta húsin Laugaveg 27 víkja ásamt Laugaveg 29 sem verslunin Brynja er í. En reiturinn hefur uppá síðkastið verið nefndur eftir þeirri starfsemi sem þar hefur verið í tæp 100 ár.

En svör við þeirri spurningu og fleirum fæst á fundinum á morgun sem haldinn verður að Hverfisgötu 33  milli kl 16.00 og 18.15

Ágætt myndefni og nánari skýringar er að finna á eftirfarandi slóð:

https://www.facebook.com/#!/media/set/?set=a.10151199072940042.499308.405625165041&type=3

Sjálft skipulagið er að finna á eftirfarandi slóð:

Brynjureitur, deiliskipulag (PDF)  
Brynjureitur, skýringaruppdráttur (PDF)  

Hljómalindareitur, deiliskipulag (PDF)  
Hljómalindareitur, skýringaruppdráttur (PDF) 

Frá þessari hugmyndafræði um mikið niðurrif og mikla uppbyggingu virðist borgin vera að hverfa, góðu heilli.

Að skipulaginu standa Reykjavíkurborg og Fasteignafélagið Reitir sem hafa unnið skipulagið í nánu samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Guðmundur

    Í dag er Hljómalindarreiturinn fullur af lífi, þar er kaffihús á horninu og um helgar á góðviðrisdögum er Hjartagarðurinn fullur af lífi og uppákomum. Í sumar spiluðu tónlistarmenn bæði í Hjartagarðinum og á lóðinni við hliðina á Hemma og Valda. Alltaf líf, og þetta er að miklu leyti sjálfssprottið, þó borgin hafi gert vel í að hlúa að því. Vissulega þarf að laga ýmislegt í umhverfinu, en vonandi verða nýjar framkvæmdir ekki til að drepa þennan líflega stað.

  • Á skýringarmyndunum eru Laugavegur 27 og 29 (Brynja) látin standa. Er það ekki ætlunin?

    • Hilmar Þór

      Þetta er svoldið óskýrt Hlynur. Á skýringarmyndinni má skilja að húsin Laugavegur 27 og 29 verði óbreytt. En á skipulagsuppdrættinum er þetta óbreytt frá fyrra skipulagi. Þ.e.a.s. að auka megi byggingamagnið á þessum lóðum verulega. En þetta er ekki reyfað í texta í þessari endurskoðun. Sennilega er þetta skýrt í fyrra skipulagi.

      Mér sýnist það mega hækka húsin um einar þrjár hæðir. Sennilega er ekki auðvelt að gera það án þess að húsin verði látin víkja.

      Ég veit ekki hvað er ætlunin en svona les ég skipulagsuppdráttinn

  • Snæbjörn

    Ánægjulegt að sjá hvað mildara er tekið á einkennum Laugavegarins og gott að skipulagsmenn hafi það að leiðarljósi að maður „þekki Laugarveginn aftur“ eftir skipulagsbreytinguna.

    Það var góð kynning á hafnarskipulaginu í Kastljósi áðan. gaman væri ef þar væri fjallað um þetta mál og fleiri.

  • Björn Helgason

    Það er ekki auðvelt að átta sig á þessum PDF skjölum. Allavega ekki fyrir venjulegt fólk.

  • „Batnandi mönnum er best að lifa“
    En samt, það þarf að þyrma sem flestum húsum í götumyndinni!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn