Þriðjudagur 13.03.2012 - 08:45 - 3 ummæli

Icelandair Group – Viðbygging

Nýlega voru kynnt áform um að bæta hæð ofan á skrifstofubyggingu Icelandair Group á Reykjavíkurflugvelli.

Nálgun arkitektanna vakti athygli mína vegna þess að þeir hafa lagt áherslu á staðinn, staðaranda og bygginguna sem fyrir er í stað þess að tengja lausnina arkitektóniskt við tíðaranda nútímans.

Hugmyndin sprettur af húsunum sjálfum sem eru í hugum margra táknmynd um bjartsýnisanda sjötta áratugarins. Tákmynd um áræðni frumkvöðla flugsins og ferðamannaiðnaðar skömmu áður en þotuöldin reið í garð  fyrir hálfri öld.

Höfundar sýna þessum menningararfi virðingu og reyna frekar að klára það verk sem þarna var hafið, en að nálgast það á forsendum okkar tíma.

Það er ánægjulegt að sjá  lausnina og skynja þá virðingu sem borin er fyrir tíðaranda þeim sem ríkti þegar húsið var byggt.

Þetta verk vekur mann til umhugsunar um viðbyggingar almennt, tengsl þeirra við staðinn og tíðarandann annarsvegar og við nútímann hinsvegar. Svona viðfangsefni hafa verið umdeild um áratugi þar sem menn velta fyrir sér hvora leiðina eigi að fara.

Nýja hæðin, sú fjórða verður alls um 1.400 fermetrar að stærð.

Hótel Loftleiðir og skrifstofubyggingin voru teiknaðar á Teiknistofunni Tómasarhaga 31, sem var fyrirrennari núverandi TARK arkitekta. Í þá daga voru eigendurnir þrír, þeir Gísli Halldórsson arkitekt, Jósep Reynis arkitekt og Ólafur Júlíusson byggingafræðingur sem sá um byggingar Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli  fyrir hönd teiknistofunnar Tómasarhaga 31.

Færslunni fylgja tvær ljósmyndir sem fengnar eru hjá TARK arkitektum.  Efst í færslunni er tölvumynd sem sýnir að ofanábygging skrifstofuálmunnar nær um það bil sömu hæð og núverandi hótelbygging og styrkir þar með samhverfuna.

Myndin að neðan er hluti efstu myndarinnar þar sem áhersla er lögð á að sýna hvernig byggingarnar mætast.

Með því að tvísmella á myndirnar stækka þær.

Sjá einnig færslu: http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/19/demanturinn-a-hotel-loftleidum/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Guðmundur

    Hér vaknar spurningin um hvort TARK séu „uppbyggingarsinnar“ eða „verndunarsinnar“??

  • Jens Helga

    Þessi rúmlega 50 ára hús þóttu ekki par falleg fyrir nokkrum árum en hafa nú gengið í endurnýjun lífdaga og skilningur fólks á byggingum þessa tíma að vakna. Góðu heilli.

  • Ó. Sveinsson

    Skemmtileg pæling. Ég spyr sem leikmaður: Af hverju eru arkitektar að hanna hús sem eru í andstöðu við það sem er fyrir á staðnum eins og víða má sjá?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn