Þriðjudagur 14.07.2015 - 13:44 - 15 ummæli

Landsbankinn og borgarlandslagið.

 

Hagsmunagæslumenn almennings, þingmennirnir Elín Hirts og Gunnlaugur Þór Þórðarsson og margir fleiri hafa gert athugasemdir við fyrirætlanir Landsbankans um að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir bankann. Þau hafa fært ýmis siðfræðileg og hagræn rök fyrir því að þetta sé ekki skynsamlegt.

Í Fréttablaðinu í morgun svarar bankastjórinn Steinþór Pálsson fyrir hönd bankans  án nokkurra skipulagslegrar eða samfélagslegrar röksemdarfærslu. Hann segir einungis að fjarfestingin muni skila sér í reikninga bankans. Með öðrum orðum telur hann að fjárhagslegir hagsmunir bankans eigi að ráða för. Ekkert annað.

++++

Því er haldið fram að bankarnir hér á landi  hafi grætt um 500 miljarða frá endurreisn þeirra eftir Hrun.

Þetta er stjarnfræðileg upphæð.

Hún er svo stór að engin skilur hana.

Þetta jafnast á við um fimm fullbúna nýja Landspítala. Eða 15 þúsund meðalstórum íbúðum og enn aftur rúmlega einum meðal fjölskyldubifreið til allra fjölskyldna í landinu og meira en það o.s.frv.

Fyrirtæki sem svona er statt fyrir þarf að líta til samfélagsins.  Hugsa minna um eigin hag og meira til almennings.  Bankinn getur ekki lifað án samfélagsins en samfélagið getur vel komist af án Landsbankans.  Þess vegna þarf bankinn að sýna samfélagslega ábyrgð þegar svona stendur á.

++++

Ég ætla ekki  að hætta mér frekar inn á þessar brautir heldur líta til bankans í borgarlandslaginu og staðsetningu hans í tengslum við aðalskipulag borgarinnar.

++++

Eitt af því sem aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 gengur út á er að skapa meira jafnvægi í landnotkuninni þannig að draga megi úr umferð einkabifreiða og gera borgina sjálfbærari.

Bent hefur verið á að það eru of mörg atvinnutækifæri í vesturhluta borgarinnar og of lítið framboð af íbúðahúsnæði. Atvinnutækifærin eru flest vestan Kringlumýrarbrautar meðan búsetan er að mestu í austurhluta borgarinnar.

Aðalskipulagið bregst við þessu með þéttingu byggðar og fjölgun íbúða í vesturhlutanum og uppbyggingu íbúðahúsnæðis  á  Vatnsmýrarsvæðinu. Hún þarf til mótvægis að fjölga atvinnutækifærum austar í borginni. Hluti af lausn vandans er að  koma upp öflugum almenningssamgöngum frá Vesturbugt að Keldum sem stuðla að línulegri borg þar sem atvinnutækifæri og búseta yrðu fléttuð saman inn í borgarvefinn.

Fyrir 13 árum höfðu menn miklar áhyggjur af miðbörginni og töldu hana vera að slummast og deyja. Nú árið 2015 er hún orðin svo sterk að það þarf að huga að mótvægisaðgerðum. Dreifa álaginu varðandi verslun, skemmtanir og þjónustu. Færa tilboðin um atvinnutækifæri austar í borgina í tengslum við samgönguásinn um leið og íbúðum fyrir fólk sem býr í borginni verði fjölgað í vesturhlutanu: Kannski að Landsbankinn ætti að framselja lóð sína undir íbúðahúsnæði. Kannski sérhannað fyrir aldraða, einhleypa og námsmenn? Það er eðlilegt út frá samfélaginu og þróuninni að fjölga íbúðum við Austurhöfn og færa almenna skrifstofustarfssemi austar.

Landsbankinn gæti því haft höfuðstöðvar sínar áfram í sínu glæsilega sögulega húsi meðan stoðdeildir yrðu annarsstaðar.  Auðvitað er þetta ekki jafn hagkvæmt fyrir bankann og hann mun ekki græða eins mikið.  En fórnarkostnaðurinn kæmi samfélaginu, borgarlandslaginu og aðalskipulaginu AR2010-2030 til góða.

++++

Efst í færslunni er vinningstillaga BIG arkitekta og félaga að höfuðstöðvum Landsbankans sem var gerð fyrir Hrun. Að neðan er svo skýringarmynd af svæðinu við Austurhöfn.

++++

Það má bæta því við að þessi gamli banki, elsti banki landsins ætti frekar sitja sem fastast á sínum stað og hlúa þannig að sögu sinni í sínu merkilega gamla húsi við eina elstu götu borgarinnar.  Núverandi húsnæði bankans er líklega starfrænt ekki jafn hentugt og hugsanleg nýbygging. En ímynd bankans og það traust sem er samtvinnað gömlu byggingunni við Austurstræti er með þeim hætti að varla er metið til fjár.

Svo er sagt að þróuniní bankastarfssemi verði sú að ekki þurfi höfuðstððvar bankalengur  eins og við þekkjum í dag.  Talað er um lágverðsbanka („low cost banking“). Menn muni nota símann sin í ríkara mæli til þess að sinna bankaviðskiptum, svokallaða „mobile money“ sem dregur verulega úr kosnaði neytandans varðandi bankamviðskipti. Þetta hefur Thomas Möller fjallað um á Hringbraut.is og telur þessa þróun vera á leið hingað til lands.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Snorri Gunnarsson

    „Við þröngvum ekki verslun og þjónustu (atvinnutækifærum) inn í ómögulegt skipulag. Við verðum að nýta uppbyggingu næstu áratuga til að laga skipulag austurhluta borgarinnar og skapa þannig betra jafnvægi á milli búsetu og atvinnu innan hvers svæðis með blandaðri byggð en nú er. Ferðalög íbúa milli ólíkra borgarhluta, þar með talið vestur í miðbæ, verður að leysa með öflugri almenningssagöngum.“

    Það þarf að koma á jafnvægi í borgarskipulaginu með því að koma í veg fyrir þörfina fyrir þessa miklu fólksflutninga vestur eftir Nesinu. Það er sem betur fer vel framkvæmanlegt. Mikið er af illa nýttu landi í austurhluta borgarinnar sem gefur færi á þéttingu byggðar og betri borgarbrag. Öflugar almenningssamgöngur eru góðra gjalda verðar en þær verða aldrei lausn á þessu vandamáli. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að koma í veg fyrir þessa miklu fólksflutningþörf. Það er best gert með því að byggja öflugan athafnakjarna þar sem styst er til sem flestra íbúa borgarinnar.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Ég vil taka annan pól í hæðina en margir. Ég vil nálgast umræðuna með því að fagna því að Landsbankinn skuli horfa til miðbæjarins, og ræða með uppbyggilegum hætti hvernig best má leysa úr hans málum þar. Mér leiðist neikvæðnin, hvetjum heldur Landsbankann og aðra til að sýna ábyrgð í skipulagsmálum.

    Þegar Landsbankinn kynnti það að hann ætlaði að halda sig við hugmyndir um uppbyggingu í miðbænum, á minni skala en fyrir hrun, voru mín fyrstu viðbrögð jákvæð. Ég hugsaði sem svo að bankinn gæti með þessum hætti sýnt samfélagsábyrgð í skipulagsmálum. Með því að velja höfuðstöðvunum stað í miðbæ Reykjavíkur fannst mér bankinn vera að sýna miðbænum viðringu, og um leið að halda tengslum við sögu sína. Kvosin var, er og verður miðbær höfuðborgarinnar. Þar hefur verið Landsbanki (gamall eða nýr) allt frá stofnun á nítjándu öld.

    Vissulega má halda því fram að Landsbankinn nái þessum markmiðum best með því að halda núverandi höfuðstöðvum. Ég tek á vissan hátt undir það. Við skulum leyfa Landsbankanum að rökstyðja betur mat sitt á því. Við sem eigendur og viðskiptavinir verðum að krefjast þess af honum að hann sýni hagsýni í rekstri. Sumir halda því fram að hann geri það ekki með byggingu nýrra höfuðstöðva, ég vil ekki dæma um það.

    Ég lít svo á að því fjölbreyttari starfsemi sem sér hag sinn í að vera í miðbænum, því betra fyrir borgina. Skipulagsmarkmið ættu að samræmast því. Markmiðið á að mínu mati einmitt að vera að berjast gegn þróun í átt til fábreyttni í miðbænum. Þó gistiþjónusta, veitingasala og ferðamannaverslun styrki miðbæinn viljum við ekki að hún ryðji öðru í of miklum mæli frá sér. Munum að Landsbankinn er eini bankinn sem sinnir í dag bankaþjónstu í miðbænum. Er það æskileg þróun?

    Til að taka dæmi dettur mér í hug Eimskipafélagið. Gamlar höfuðstöðvar þess í miðbænum eru hótel í dag. Mér finnst merkilegt að enginn minnist á það í umræðunni.

    Þessi umræða á að sjálfsögðu við ýmsa aðra þjónustu en bankaþjónustu. Einnig felur hún ekki í sér að ekki sé mikilvægt að auka framboð íbúðahúsnæðis í vesturhluta borgarinnar.

    Það er áratuga verk að rétta af austur-vestur jafnvægi borgarinnar. Að mínu mati er vandamálið komið til af því að á vissum tímapunkti á seinustu öld hættu menn að skipuleggja borgina sem vef, og notuðust heldur við botnlangavendi sem bundnir eru saman með stofnbrautum. Hið síðarnefnda er mjög ófrjótt umhverfi fyrir atvinnusköpun, en hið fyrrnefnda er alls ekki óheppilegt umhverfi fyrir fjölbreytta íbúabyggð.

    Við þröngvum ekki verslun og þjónustu (atvinnutækifærum) inn í ómögulegt skipulag. Við verðum að nýta uppbyggingu næstu áratuga til að laga skipulag austurhluta borgarinnar og skapa þannig betra jafnvægi á milli búsetu og atvinnu innan hvers svæðis með blandaðri byggð en nú er. Ferðalög íbúa milli ólíkra borgarhluta, þar með talið vestur í miðbæ, verður að leysa með öflugri almenningssagöngum.

  • Árni Ólafsson

    Landsbankanum ætti að breyta í alvöru sparisjóð (sjálfseignarstofnun eða samvinnufélag) með samfélagslega ábyrgð.
    Banki, sem skilar milljarðahagnaði í samfélagi eins og okkar, ber vitni um að eitthvað sé að í löggjöf og umgjörð starfseminnar. Það er prinsippmál að samfélagið nái taki á þessu fyrirtæki í almannaeigu og beiti því markvisst sem heilbrigðum samkeppnisaðila við einkabankana – í stað þess að reka hann á sama hátt og þeir eru reknir.
    Hins vegar má bera flutning aðalskrifstofu bankans úr gamla bankahúsinu í Austurstræti saman við áform Kópavogsbæjar um að flytja bæjarskrifstofunnar í einhvern glerturn inni í Smárahvammi. Þar með missir bærinn andlitið – og bankinn hugsanlega líka.

  • Ég var í dómnefnd á sínum tíma, þegar BIG vann. Prógramm samkeppninnar fyrir höfuðstöðvar Landsbankans gerði ráð fyrir helmingi fleiri fermetrum, en bankinn ætlaði að nýta sjálfur, umframfermetrana átti að selja og með því fjámagna byggingu bankans. Verið var að „troða“ eins miklu byggingamagni á þennan reit og mögulegt væri. Þetta var svo sannarlega 2007 með Björgúlf Guðmundsson sem formann dómnefndar.
    Mér finnst eftir á að hyggja og í ljósi þess sem að gengið hefur á í þessu þjóðfélagi og bankinn stór þátttakandi í hvernig fór, algjör fyrra að reisa þessar höfuðstöðvar á þessum stað. Þeir sem að stjórna þessum banka í dag ættu að sjá sóma sinn í að halda lágum prófíl og koma sinni starfsemi fyrir á látlausan og skynsamlegan hátt, en ekki flagga gróða síðustu ára þennan hátt.

    • málfars-fasistinn

      algjör firra að reisa þessar höfuðstöðvar á þessum stað

  • Sverrir Ólafsson

    16.500 fermetrar gera um 165 sæmilega stórar íbúðir. Lóðin kostaði víst 58 þúsund á byggðan fermetir. Það er um 5.8 millur á 100 fermera íbúð sem er alls ekki mikið. Ef þetta yrði gert verður kannski grundvöllur til þess að reka matvöruverslun í miðbænum og gera Miðbæjarskólann aftur að barnaskóla. Það yrði líka styttra fyrir bankastarfsmennina að aka úr Grafarvogi og Garðabæ inn í Skeifu í vinnuna þar sem þeir sitja allan daginn og okra á viðskiptavinunum.!

  • Spældur, svikinn og bitur

    Gróði bankanna er of mikill:

    „Þetta jafnast á við um fimm fullbúna nýja Landspítala“.

    Þeir virðast stjórnlausir, ábyrgðalausir gagnvart kúnnanum og samfélaginu og veruleikafyrrtir gagnvart öllu umhverfinu.

    Ojbarasta

  • Þorsteinn

    Svona fyritæki eins og Landsbankann á að virkja til að styrkja adalskipulagið í framkvæmd. Almennar skrifstofur færu þá inn í Mula eða inn á þróunarsvæðið í Skeifunni og styrkti þau svæði verulega. Aðalstöðvarnar áfram í gamla virðulega húsinu við Austurstræti og íbúðir fyrir barnlaus fólk á núverandi bankalóð við Austurhöfn.

  • Gunnlaugur

    Bara svo því sé haldið til haga þá er Landsbankinn ekki nema 7. ára gamall

    • 1886 var hann stofnaður og er því að stofni til 129 ára! Svo var hann“endurstofnaðir“ árið 2008!

    • Hér er söguvefur Landsbankans, ef einhver hefur gaman af honum. Hann er skapaður árið 2006, og að fletta í gegn um söguna minnir á hrollvekju þar sem áhorfandinn veit að aðalpersónan er við það að kalla yfir sig eitthvað hræðilegt, þó hún átti sig ekki á því sjálf.

      Það er dálítið svekkjandi að sjá svo viðkomandi karakter, sem átti að vera dauður, í framhaldsmynd með sama plotti…

  • Sæll Hilmar,

    „Fyrir 13 árum höfðu menn miklar áhyggjur af miðbörginni og töldu hana vera að slummast og deyja. “

    Bara fyrir forvitnissakir – ertu með einhverjar heimildir eða hlekki fyrir þessu?
    Bestu kveðjur.

    • Hilmar Þór

      Upp úr aldamótunum átti Laugavegurinn í vandræðum sem verslunargata. Mörg tóm verslunarrými voru við götuna og margar verslanir stöldruðu stutt við. Verslunarmenn hótuðu að flytja annað. Húsum í miðbænum var illa haldið við og húsaleiga lág. Afskaplega lítið var byggt af nýju húsnæði á svæðinu. Um þetta má lesa víða. Í ágætri staðarvalsskýrslu fyrir Landspítalann (frá 2002 sem nú er úrelt) er ein af meginrökum fyrir staðsetningunni við Hringbraut einmitt sú að styrkja þurfi miðborgina. Síðan 2002 hefur húsaleiga og fasteignaverð hækkað gríðarlega á svæðinu. Venjuleg fólk með meðltekjur hefur varla efni á að búa þarna lengur. Svo sterkur er borgarhlutinn orðinn. Venjulegt fólk flutt út og ferðamenn flutt inn í staðinn. Vonandi svarar þetta að einhverjum hluta spurningu þinni Dagur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn