Mánudagur 25.04.2016 - 20:51 - 13 ummæli

Landspítalinn – veruleikafirring?

13062413_816341858498596_1409195663931420461_n

Ég sá í fréttum RUV rétt áðan að heilbrigðisráðherra er búinn að tryggja fjármögnun á fyrsta áfanga þjóðarsjúkrahússins.

Því ber að fagna.

Það er mikilvægt að fjármögnun sé tryggð þegar uppbygging heilbrigðiskerfisins er á dagskrá. Það gladdi mig líka að heyra að ráðherrann var ekki eins einbeittur hvað varðaði staðsetningu sjúkrahússins við Hringbraut og oftast áður. Hann vitnaði ekki í gamlar skýrslur eða réttlætti staðinn á nokkurn hátt.

Nú lagði hann ekki sitt persónulega mat undir heldur sagði að hann væri að framfylgja stefnu Alþingis um staðsetninguna og það mundi hann gera þar til breyting yrði á ef svo bæri undir, ef ég skildi rétt.

Vonandi skiptir Alþingi um stefnu og og fer að vilja sérfræðinga og mikils meirihluta þjóðarinnar og tekur endalega ákvörðun um staðsetningu spítalans í kjölfar faglegrar og opinnar staðarvalsgreiningar.

Manni virðist að sumir þeirra sem halda því fram að uppbygging Landspítalans við Hringbraut sé besti staðurinn fyrir þjóðarsjúkrahúsið skjóti skollaeyrum við öllum óskum um að nýtt opið og faglegt staðarval verði gert, vera jafnvel svoldið veruleikafirrtir.

Það hefur verið óskað eftir nýrri staðarvalsgreiningu með föstum faglegum rökum í sjö ár.  Aðstandendur og þeir sem fara með almannafé fyrir okkar hönd hafa ekki tekið þátt í samtalinu um staðsetninguna að neinu marki og ekki viljað mæta óskinni um nýja faglega og óháða staðarvalsgreiningu en svarað því til að það sé of seint. Málið sé komið of langt. Ekki verði aftur snúið.

Þetta hafa þeir sagt í sjö ár.

Veruleikinn er sá að allar forsendur fyrir staðarvalinu voru brosnar fyrir sjö árum þegar óskin um nýtt staðarval kom fram af miklum þunga. Og ekki bara það, heldur hafa komið fram ný rök og vaxandi almennar efasemdir um ákvörðunina í framhaldinu. Það hefur sýnt sig að ástand núverandi bygginga er verra en talið var. Lausnin kallar á tugmiljarða fjárfestingu í nýrri gerð þyrlna m.m.. Komið er nýtt aðalskipulag, fjárhagslegar forsendur eru aðrar o.s.frv.

Allt er breytt.

Forsendurnar fyrir Hringbrautarstaðsetningunni eru brostnar og samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti almennings og næstum allir læknar búnir að átta sig á því að staðarvalið við Hringbraut þarf að endurskoða með opnum og faglegum hætti.

Nálægðin við aðalbyggingar háskólanna eru ofmetin.  Það þarf ekki að styrkja miðborgina. Það er ekki ódýrast að byggja við Hringbraut.

Það er dýrast.

Færð hafa verið rök fyrir því að það sé ekki fljótlegra að byggja við Hringbraut.

Og yfir þessu öllu er ljóst þeim sem hafa skoðaða málið að skipulagslega, samfélagslega og umhverfislega er alls ekki víst að Hringbrautin sé besti staðurinn eins og margsinnis hefur verið rakið.

Allar þessar staðreyndir og öll þessi sjónarmið hreyfa ekki við þeim sem hafa haldið utan um þessi mál síðastliðin 14 ár. Manni finnst þeir ekki átta sig á veruleikanum sem er allt annar nú en en fyrir áratug.

Það verður ekki endanlega skorið úr um þetta mál með karpi og ritdeilum eða skoðanakönnunum.

Eina leiðin til að leysa ágrenninginn  er að gert verði opið og óháð staðarvalsmat. Og það er ekki of seint að gera það.

En tíminn styttist.

Það er sjálfsagt að taka undir þegar Kári Stefánsson segir m.a. í nýlegri grein í Morgunblaðinu.:  „Ef við værum að byrja hönnunarferlið ættum við að fá landsins bestu sérfræðinga til að meta hvort það mætti reisa húsið fljótar við Hringbraut …. Ef svarið er nei, þá höfum við frelsi til þess að velja annan og betri stað, annars ekki.“ Í sömu grein segir hann að tengslin milli Landspítalans og Háskólanna skipti engu máli sem er í samræmi við það sem við þekkjum erlendis þar sem verið er að byggja háskólasjúkrahús þar sem enginn er háskólinn.

++++

Nú hefur fjármögnun verið tryggð fyrir þessa miklu framkvæmd og því er síðasta tækifæi til þess að láta af oflætinu og líta til vilja mikls meirihluta þjóðarinnar og næstum allra  lækna og láta gera faglega úttekt á stað fyrir þetta mikla hús. Við meigum engan tíma missa.

++++

Myndin efst í færslunni er af skoðanakönnun meðal lækna. Hún er opin og ekki leynileg þannig að sjá má á könnuni hvernig einstakir læknar svara. Þarna sést að 87.2% lækna (næstum allir þáttakendur) sem þátt hafa tekið í könnuninni vilja aðra staðsetningu fyrir nýja Landspítalann. Þetta er mjög athyglisvert þar sem hér eru þáttakendur í könnuninni upplýstir um hvað verkefnið gengur út á.

13055337_813968825402566_4159112154334982351_n

Að ofan er skoðanakönnun Viðskiptablaðsins sem sýnir að  36,5% landsmanna vilja byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut en 63,5% annarsstaðar þar af 50% á Vífilsstöðum.

13043242_816191681846947_1713635227525882126_n

Í Gallupkönnun frá því í síðustu viku fyrir  samtökin um betri spítala á betri stað vilja 35,7% byggja við Hringbraut og 44,6% er því andvígt. Spurningin var svona: „Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að nýr Landspítali rísi við Hringbraut?“

Þegar spurt var.: „Hvar vilt þú að nýr Landspítali rísi?“ sýndi sig að 61,5% vildu byggja annarsstaðar en við Hrinmgbraut.

Þurfa þeir sem véla um þessi mál ekki að fara að byrja að hlusta áður an það verður of seint, eða er einhver veruleikafyirring hér á ferð? Veruleikinn er að minnstakosti annar nú en árið 2002 þegar fyrsta staðarvalsskýrslan var gefin út.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Einar Jóhannsson

    Ég er hissa á að stjórnmálamenn skuli ekki sjá ljósið.

    Þeir eru nú líka vanir að haga seglum eftir vindi og nú blæs hann frá Hringbrautinni, mest til austurs og jafnvel út fyrir borgarmörkin til suðausturs að Vífilsstöðum.

    Ef hann blési beint norður á Siglufjörð mundi Kristján Möller kanski vakna af værum blundi.

  • Þetta er svo galið að það nær engri átt.

    Hinsvegar er smá von um breytingar á þessari staðsetningu vegna Pírata.

    Piratar, sem búast má við að verði stærsti flokkur landsins í kostningum í haust, hafa lýst því yfir að þeir muni vera áhugasamir að gert verði nýtt mat á staðsetningu spítalans til framtíðar.

    Maður er því milli steins og sleggju í næstu kostningum ; )

  • Berglind Hilmarsdóttir

    Fín grein.
    En firring er ekki skrifað með ypsiloni !!!
    Veruleikafirring á það að vera.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér ábendinguna Berglind. Eftir smá athugun þá sýnist mér hvorutveggja rétt. En skýrðu málið betur og ég tek afstöðu og leiðrétti eins og skot ef ástæða er til.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér kærlega ábendinguna Berglind Hilmarsdóttir. Ég er nú búinn að kynna mér málið og þú hefur rétt fyrir þér. Það heitir „veruleikafirring“ ekki „veruleikafyrring“

      Ég er búinn að laga þetta í færslunni.

      Ég er þakklátur þér fyrir athugasemdina og reyndi ekki að verja vitleysuna í mér. Heldur kynnti mér málið og komst að niðurstöðu. Ég hélt að þetta væri rétt hjá mér. Nákæmlega eins og þeir sem berjast fyrir staðsetningu Landspítalans við Hringbraut halda að þeir hafi rétt fyrir sér sem þeir hafa ekki að flestra mati.

      Það væri mikil gæfa ef þeir sem véla um staðsetningu Landspítalans mundu kynna sér málin og móta sína skoun á þæeim grundvelli.

  • Einar Jóhannsson

    Því verður ekki haldið fram að faglega hafi verið staðið að þessu.

  • Með hliðsjón af umræðum um staðarval LSH við Hringbraut hef ég að undanförnu verið að velta fyrir mér alvöruleysi okkar Íslendinga í skipulagsmálum. Auðvitað þurfum við að skipa æðstu embætti á þessu sviði vel menntuðum þungaviktarmönnum sem mark er tekið á og sem þora að hafa faglega skoðun og koma ekki beint úr skóla á opinbera spenann. Af svona álíka „kaliberi“ og seðlabankastjóra. Annars lendum við bara í hverju feninu á eftir öðru og nýtum á komandi árum sorglega illa bæði þekkingu og takmarkað fjármagn og skerðum með því almenna velferð landsmanna. Hér nægir að nefna staðarval LSH, Reykjavíkurflugvöll og skipulag ferða- og húsnæðismála. Hvað fær t.d. skpulagsstjóra ríkisins til þess að votta að LSH sé best staðsettur við Hringbraut? Í skipulagsstjóra Reykjavíkur heyrist heldur ekki bofs um þetta staðarval, svo dæmi séu nefnd..
    Nú hefur kennslu í skipulagsfræðum við Háskóla Íslands verið hætt, hugsanlega í þeirri trú að ósýnilegar hendur leiði okkur betur áfram til velsældar. Líklegra verður þó að telja að bullið á þessu sviði geti aukist til mikilla muna og ekki mun stjórnsýslan heldur skána við þetta.

  • Þarna er notuð sú aðferð sem Ómar Ragnarsson hefur kallað „Túrbínutrikkið“! Það er að undirbúa og undirbúa þar til það er orðið of seint að hætta við. Og fara aldrei faglega yfir málin. Þetta er, svo maður vitni í Styrmi Gunnarsson: „Ógeðslegt“

  • Páll Torfi Önundarson

    Það hefur verið bent á leið til þess að minnka skaðann á Hringbrautarlóðinni þannig að byggja mætti nýtt sjúkrahús síðar. Það er of stór biti fyrir stjórnmálin að taka U-beygju núna og það verður ekki gert. Barnaspítalinn er nýr, verið er að byggja sjúkrahótel.

    • Hilmar Þór

      Ég þekki vel þessa leið sem þú nefnirPáll Torfi og hef stutt hana.

      En af einhverjum ástæðum hefur hún ekki fengist rædd með faglegum hætti frekar en framkvæmdin í heild sinni.

      Í stuttu máli gekk hugmyndin út á að gera biðleik til skamms tíma þannig að byggt yrði minna og einungis ofan við gömlu Hringbraut.

      Þetta hefði veitt svigrúm til þess að vanda til byggingu þjóðarsjúkrahússins á betri stað og með hagkvæmari hætti.

      Þessi hugmynd sem þú nefnir hefur oft fengið umfjöllun á þessum vef. Slóðin er þessi:

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/02/24/husnaedisvandi-landspitalans-onnur-nalgun/

      Því miður hafa fulltrúar okkar greiðendanna skotið skollaeyrum við þessari ágætu hugmynd á sama hátt og málið í heild sinni. Þetta er auðvitað ömurleg stjórnsýsla.

      Ég vek athygli að þessi pistill birtist fyrir meira en þrem árum. Hann var líka birtur í dagblöðum. En án þess að hafa vakið upp viðbrögð þeirra sem vinna að málinu.

  • Sólveig B.

    Af hverju er aldrei neinn sem leggur orð í belg svarar þeim sem eru að benda á hugsanlega galla á þessu. Hvað er að óttast? Af hverju er ekki farið í þessa „staðarvalsgreiningu“? Það hlýtur að vera hægt að byrja á að rýna gagnrýnina og meta í kjölfarið þörfina á nýrri faglegri alsherjar greiningu á staðnum. Ef gagnrýnin er þannig að það þurfi að skoða þetta betur á skilkyrðislaust að fara í þá vinnu. Það virðist skorta vilja til þess að vinna faglega að þessu. Af hverju?

  • Var ekki einhver könnun meðal sjúkraflutningsmanna sem fór á sama veg?1

  • Guðmundur G.

    Í sjö ár hafa menn vaðið áfram af meira kappi en forsjá. Ekki er hlustað á efasemdarraddir eða svarað þeim með faglegum hætti. Mikl áhætta er tekin. Við verðm bara að vona að þetta verði í lagi, en óvissan er mikil eins og Landeyjarhöfn og Vaðlaheiðargöng. Vonandi er enginn svo samviskulaus að sitja enn a þingi eftir að hafa stutt þær samgöngubætur sem áttu að felast í höfninni og göngunum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn