Mánudagur 02.05.2016 - 08:33 - 7 ummæli

Reykjavík – „Bláa Bókin“ – skipulagsmál fyrir meira en 50 árum.

 

 

photo

Lesandi síðunnar sendi mér þrjú eintök af hinni svokölluðu „Bláu Bók“ sem sjálfstæðismenn  í bæjarstjórn Reykjavíkur gáfu út fyrir kosningar á árum áður. Þetta eru eintök frá árunum 1954, 1962 og 1966. Þetta eru mikil rit í stóru broti með mikið af myndum og allskonar upplýsingum á 35-50 síðum.

Hér að neðan koma nokkrar myndir úr Bláu bókunum 1962 og 1966.

photo 21

Að ofan er hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1983 sem kynnt var í Bláu bókinni. Þarna sér maður tröllaukið gatnakerfi sem var er til þess að þjóna einkabílnum í miðborginni. Ef rýnt er í uppdráttinn sést Laugavegurinn sem hugsaður var sem aðal verslunargata borgarinnar ásamt götunum í Kvosinni.

Óhemju mikið af gömlum húsum eru látin víkja fyrir einkabílnum.

Grettissgata átti að verða meiriháttar safnbraut inn og út úr miðborginni. Nánast öll hús beggja vegna götunnar hefðu þurft að víkja vegna breikkunnar hennar. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg hefði þurft að víkja enda er það í miðju götustæðinu sem átti að liggja vestur að Garðastræti um Austurvöll. Suðurgata átti að liggja i gegnum Grjótaþorpið  og rústa því og tengjast svo Tryggvagötu.

Þetta skipulag var að mestu unnið af færustu erlendu sérfræðingum sem völ var á ásamt fremstu arkitektum og skipulagsmönnum landsins. Þetta sýnir manni í raun að maður á að taka álit sérfræðinga með fyrirvara.

11

Að ofan er teikning sem sýnir þvergötur Grjótaþorps milli Aðalstrætis og Garðastrætis þar sem er tröppukerfi en engir bílar. Þetta eru verslunargötur fyrir fótgangandi vegfarendur. Mér sýnist höfundarnir hafi gert ráð fyrir að hundahald í borginni yrði leyft. En enginn er REMAX loftbelgurinn!

photo 2Hér eru kosningaloforð sjálfstæðismanna vegna frágangs gatna á árunum 1962-1971. Gulu göturnar var búið að malbika á þessu kosningaári. Grænu göturnar átti að malbika á árunum 1962-1964. Bláu á árunum 1965-1968 og þær rauðu á árunum 1969-1971. Ekki veit ég annað en að þetta hafi allt meira og minna gengið eftir. Það kom mér á óvart hvað í raun er stutt síðan að götur borgarinnar voru malbikaðar.Ég man þegar Þósgata og Baldursgata voru malargötur þar sem „sprautubílar“ óku um og sprautuðu vatni á göturnar til þess að binda rykið á góðviðrisdögum.

photo 31

Það vekur athygli hvað bílaflotinn var glæsilegur í Reykjavik 1962. Bandarískir eðalvagnar raða sér meðfram götunum meðan minni bílar viðast hafa valið sér stæði inni á miðju Hallærisplaninu. Ég man að fólk sat gjarna inni í bílum sínum meðfram götunni, hlustaði á „Kanann“ og horfði á fólkið sem labbaði „Rúntinn“.

photo 41

Að ofan er skissa úr bæklingnum frá 1962 sem sýnir Fossvog og Fossvogsdal. Þarna eru hitaveittankarnir í Öskjuhlíðinni til vinstri og nokkur byggð í suðurhlíð Fossvogsdals. Það virðist vera gert ráð fyrir nokkurri hafnarstarfssemi í Fossvogi.

photo 11

Að ofan má lesa hvernig fjármunum var varið á árinu 1964. Málaflokkarnir eru nokkuð öðruvísi skilgreindir en nú. Til að mynda er einn flokkurinn „Íþróttamál, útivera og listir“  sem tóku 3,95% af fjárhagsáætluninni, heilbrigðis og hreinlætismál 9,5%, gatnagerð og umferðamál 17,27% og stærsti flokkurinn sem voru félagsmál tóku 25,1% af fjárhagsáætlun borgarinnar og 0,1% til mótöku erlendra gesta og annarrar risnu!

photo 111Hér er varið að grafa og leggja svokallað Kringlumýrarræsi sem lagt var beinustu leið út í sjó.

photo 2111

Hér er verið að steypa Miklubrautina.

Einn aðalhöfundur Aðalskipulags Reykjavíkur 1962-1983 var Peter Bredstorff prófessor við arkítektadeild listaháskólans í Kaupmannahöfn. Hann var þá álitinn einn sá alfrasti á sínu sviði á Norðurlöndunum. Skipulagið þótti nútímalegt og framúrskarandi á sínum tíma. En það átti engu að síður stóran þátt í að gera Reykjavík að þeirri dreifðu bílaborg sem hún er orðin.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Erlendur

  „Þetta skipulag var að mestu unnið af færustu erlendu sérfræðingum sem völ var á ásamt fremstu arkitektum og skipulagsmönnum landsins. Þetta sýnir manni í raun að maður á að taka álit sérfræðinga með fyrirvara“.

  Rétt!

  En það má ekki gleyma stjórnmálamönnunum!!!!!!!

 • Strandhraðbrautin er ekki mjög sjarmerandi og það hefði verið vont að sjá á eftir gömlu húsunum, en mér finnst þessi mynd af Hverfisgötu og Grettisgötu sem breiðstrætum alveg ágæt tilhugsun. Meira pláss á slíkum götum fyrir strætó og hjólareinar.

 • Orri Ólafur Magnússon

  Þakka ykkur fyrir þessa ákaflega áhugaverðu og lærdómsríku baksýn . Niðurrifsæðiið á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var reyndar ekkert sér-íslenskt fyrirbæri ; maður, málum kunnugur, sagði mér frá því að á þessu tímaskeiði hefðu fleiri gamlar – aðallega frá 19. öld og upphafi þeirrar 20ugustu – verið rifnar niður í Þýskalandi en spegjuflugvélar Bandamanna hefðu grandað í allri heimstyrjöldinni ( ! ) Auðvitað græddu byggingarverktakar á tá og fingri á þessum árum, bæði hér og erlendis, enda miklir „uppgangstímar“ þegar öllu gömlu – nema handritunum ( ! ) – var fargað og steinsteypu hellt í sárin. Þess má geta hér til gamans í leiðinni að á þessum árum voru listaverk ýmissa „stórmeistara“ rómanísku stefnunnar og „Historisismans“ frá öndverðri og miðri 19. ´fáaanleg á alþjóðlegum uppboðum fyrir „slik og ingenting“ : Alma – Tadema fyrir 50 sterlingspund ( nú á dögum : min. 100 þús pund ) Sama átti við „art nouveau“ húsgögn og listmuni – allt nánast á gjafvirði. 19. öldin – að undanskildum Impressionistunum – var afskrifuð sem einskis nýtt rusl. Svona breytast tímarnir og mennirnir með þeim ( „Tempora mutantur nos et mutamur in illis“ ). Sennilega hafa vatnaskilin orðið árið 1973 þegar arabískir olíufurstar skrúfuðu fyrir bensínið : Vesturlandabúar fengu – til þess neyddir – stuttan umhugsunarfrest í miðjum æðibunuganginum.

 • Þór Saari

  Gleymum því ekki að borgarstjóri Reyjavíkur á þessum tíma (1959-1972) var Geir Hallgrímsson sem einnig var bílasali en hann og fjölskylda hans átti eitt af stærri bílaumboðum landsins til áratuga. Bíla/úthverfaskipulagið fyrir Reykjavík sem gert undir stjórn hans gaf því vel í vasann með aukinni bílasölu. Gott ef þau áttu ekki Shell líka og hafa því grætt á bensínsölu líka. Færustu sérfræðingar hvað?

 • Einar Jóhannsson

  Á þessum árum hefur opinber umræða um skipulagsmál verið í skötulíki og allar ákvarðanir lagðar í hendur sérfræðinga og stjórnmálamanna eingöngu. Þetta er öðruvísi í dag, nú er allt opnara. M.a.vegna umræðna eins og hér á þessari sóðu!

 • Þetta virðast vera hinar merkustu bækur sem gefnar voru út á námsárum mínum og ég hef ekki séð þær fyrr. Á þessum var meira mál en nú að gefa út mikið myndskreyttar bækur í lit þannig að bækurnar hafa kostað sitt. Sjálfstæðisflokkurinn var með öruggan meirihluta í Reykjavík allt fram til 1978 og ég reikna fremur með að bækurnar hafi verið gefnar út á vegum Borgarinnar en Sjálfstæðisflokksins – svona formlega séð.

  Við lok þessa tímabils var Borgarspítalinn tekinn í notkun. Hann var byggður af mikilli reisn á besta stað í austurjaðri byggðarinnar í ört vaxandi borg – eins og Landspítalinn nærri 40 árum áður. Það er því miður ekki sama reisnin yfir áformum núverandi stjórnvalda um næsta stórátak í sjúkrahúsmálum okkar.

 • Sveinn Jónsson

  Mér var hugsað til þess að þessar niðurrifshugmyndir voru sennilaga 5 ára gamlar þegar ungir aðgerðasinnar björguðu Bernhöftstorfunni frá niðurrifi. Þetta er sjokkerandi og vekur mann til umhugsunar um skipulagsáætlanir almennt. Ætli það sem verið er að gera í dag í skipulagi líti jafnvitlaust út eftir fimmtíu ár og okkur virðast nú þessar 50 ára áætlnir sem kynntar eru hér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn