Föstudagur 10.01.2014 - 21:16 - 10 ummæli

Le Corbusier og höfundareinkennin

Eftir að arkitektar fóru að breyta vinnustöðum sínum úr arkitektastofum í arkitektafyritæki hefur hallað mikið á svokölluð höfundaeinkenni í byggingarlistinni.Byggingarlistin hefur að margra mati flast svoldið út við þessa breytingu.

Áður en fyritækin urðu algeng þekktu kunnátumenn verk einstakra arkitekta þegar þeir sáu þau.

Þetta er sama  og þegar talað er um tónlist, myndlist eða ritlist. Allir kunnáttumenn geta strax séð hver samdi tónverkið, málaði málverkið eða skrifaði bókina.

Þetta á við um alla listamenn, íslenska arkitekta jafnt sem erlenda.

Þau leyndu sér ekki höfundareinkenni Gunnlaugs Halldórssonar, Gísla Halldórssonar, Helga og Vilhjálms Hjálmarssona svo maður tali nú ekki um Högnu Sigurðardóttur o.s.frv.

Sama á við um þá erlendu, Alvar Aalto, Mies van der Rohe, Jörn Utzon, Corbusier og jafnvel minni spámenn á borð við Henning Larsen og Jörgen Bo. Þeirra verk báru svo sterk  höfundareinkenni  að enginn velktist í vafa um hver var höfundurinn.

Þetta er ekki hægt lengur þegar verk arkitektafyritæjanna eiga i hlut. Það er óljóst hver er höfundurinn. Höfundaeikennin eru að hverfa. Þegar þannig stendur  má kannski segja að listin hverfi svoldið úr byggingalistinni og verður meira svona iðnhönnun(!) Það er í raun að verða þannig að arkitektarnir sjálfir vita varla hver hannaði þó skráð sé hvaða einstaklingar unnu að verkinu.

Það er enginn í vafa hver málaði Guernicu eða samdi 9, symphoníuna. Það var bara ein persóna sem skapaði. Ekki tugir eð hundruð sérfræðinga og alls ekki tvö, þrjú eða fjögur fyritæki.

Svona er allt að breytast.

Einhverjir munu sennilega staldra við og segja að ég skilji ekki arkitektafyritækin og hvernig þau starfa. Jú ég geri það og er meðvitaður um að þau eru rekin  á öðrum forsendum en stofurnar. Þau eru í bissniss.

Le Courbusiere hafði sterk höfundareinkenni þó hann hafi oft skipt um nálgun á verkum sínum eins og Picasso í sínum verkum. En höfundareinkennin eru alltaf til staðar. Teiknistofa Corbusier og studio Picassos lögðust af eftir þeirra dag. Arkitektafyrirtækin halda áfram eins og um skipafélag sé að ræða.

Hjálagt eru nokkrar myndir af einu verki Le Corbusier. Á myndunum má skynja nærveru listamannsins í nánast hverju borði í steypumótunum

Þegar Le Corbusier var á Indlandi árið 1951 til þess að teikna byggingarnar í Chandigarh. nýrri höfuðborg í Punjab héraðs árið 1951 bað borgarstjórinn þar hann um að teikna höfuðstöðvar fyrir Mill Owners Assosiation í Ahmedabad.

Borgarstjórinn fór fyrir félagsskapnum.

Arkitektinn tók að sér verkið og lauk byggingunni árið 1954. Þetta er ótrúlega vel gerð byggin sem vert er að studera nánar

Það má bæta því við að Guðjón Bjarnason, íslenskur arkitekt er með nokuð umsvifamikla arkitektastarfssemi á Indlandi um þessar mundir. Gaman væri að fjalla um það hér á þessarri síðu við tækifæri.

Sjá hér færslu um srkitektafyritæki:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/11/09/%E2%80%9Carkitektafyrirtaeki%E2%80%9D/

AD Classics: Mill Owners' Association Building / Le Corbusier

Meistarinn virðist hikandi þar sem hann gengur upp stigann upp á þakgarð byggingarinnar

AD Classics: Mill Owners' Association Building / Le Corbusier

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hilmar G.

    Yfirskrift stafræna arkitektúrsins er að afmá höfundareinkenni. Mér finnst gleymast í umræðunni um „tölvuvæddan arkitektúr“ að hann er margskonar. Annars vegar „rafrænir blýantar“ þar sem höfundurinn er fær um að gefa arkitektúrnum sína áritun/höfundareinkenni. Svo er það arkitektúr sem nýtir sér styrk örgjörvans til hins ýtrasta með krefjandi reikniaðgerðum (computation). Þarna er geometrían tengd saman með „rofum“ og hver rofi hefur sína virkni (parameter), og samtengdir mynda þeir heild sem kalla má stafrænt módel af byggingu. Á þennan hátt geta byggingarhönnuðir prófað hönnunarákvarðanir í rauntíma og séð áhrif þeirra á loka afurðinni með því að fikta í rofunum. Til að þetta sé hægt verður að vera til staðar gríðarlega öflugur tölvukostir og oft sérsniðinn hugbúnaður. Arkitektar eins og Frank Gehry og Zaha nýta sér þetta mikið á ólíkan hátt þó. Á norðurlöndunum má nefna arkitekta eins og 3XN og Snøhette sem að hafa að mestu nýtt þessa tækni til að hanna yfirborð bygginga. Geometría Zaha kemst næst því að vera hrein stærðfræðileg geometría, á meðan að Gehry notar tölvu páverið til að túlka eða yfirfæra höfundareinkenni sín yfir á stafrænt form.

    En tölvubyltingin kallar líka á að handverksmaðurinn verði að lokum köttaður út úr byggingarferlinu með því að nýta sér meira tölvustýrða róbóta sem eru fæddir af þrívíða módelinu, beint frá arkitektinum.

    Í þeim arkitektaskólum sem boða þetta „fagnaðar erindi,“ eru handskissur bannaðar og þú færð bágt ef að þín höfundareinkenni endurspeglast í geometríunni. Það sem þeir horfa mest til núna er hvernig þú getur stærðfræðilega túlkað staðarhætti og veðurfarslega þætti og fengið geometríuna bregðast við þessum þáttum. Þetta er rómantík í sjálfu sér og mun ná einhverskonar fótfestu að lokum. Spurningin er svo hvort við leitum ekki aftur til rótanna, í höndina sem er svo miklu tengdari tilfinningalífinu en rafrásir. Eða hvað?

  • Ótrúlega flott mynd efst þar sem maður greinir hvernig hliðin er reituð í kvadrata. Og gróðurinn fléttast um framhliðina(?) og gefur henni patínu tímans sem eru rúm 60 ár
    Maður er eiginlega orðlaus. Sérstaklega þegar maður er nánast viss um að allt er starfrænlega fullkomið.
    Þakki ekki þessa arkitekta sem Gunnlaugur bendir á en ætla að kynna mér þá.

  • Gunnlaugur Stefán Baldursson

    Menn eins og Le Corbu voru þá og eru enn undantekningar.
    Í dag má sem dæmi nefna Sviss (þar sem Le Corbu hóf feril sinn) sem enn státar af álíka undantekningum,t.d. Olgiati og Zumthor: magnaður arkitektúr!
    Höfundareinkenni eru í raun ekki aðalatriðið, heldur skilningur á að „flétta rétt inní umhverfið“,eins ég fjallaði um nú á árámótunum hér á Eyjunni.
    Ég kynnti unga kollega frá Sviss,sem tekst að ná sannfærandi „karakter“ í byggingu þó þeir að eigin sögn séu á móti „höfundareinkennum“ og þeim egoisma sem menn eins og Le Corbu hafa í miklum mæli.
    Einmitt þessvegna hefur þeim tekist að gera arkitektúr,sem í dag er til fyrirmyndar !

  • Steinþór

    Arkitektúr þarf að vera persónulegur, staðbundinn og skemmtilegur ekki svona alþjóðlegur og leiðinlegur eins og nú ríður röftum.

  • Ég hef talað fyrir aðgerðum í þessu efni eða þeirri að arkitektafélagið dragi sig útúr hönnunarmiðstöð. Í hönnunarmiðstöð erum við með tísku- og skartgripahönnuðum sem eru að hanna og markaðsetja vörulínur (-allt gott um það sem slíkt). Í staðinn sé ég fyrir mér tengingu við myndlist enda er byggingarlist ein myndlistargreinanna. Myndlist hefur í heila öld verið sterkasta listgreinin þegar kemur að heimtingu listræns frelsis eða „persónulegrar tjáningar“. Í þessu samhengi væri hægt að eiga von á almennilegu styrkjakerfi fyrir byggingarlistamenn til að þróa „persónulegan“ arkitektúr án viðskiptavinar. Þannig sé ég fyrir mér frjálsa arkitektamenningu þar sem ólíklegri nýjungar skjóta upp kollinum og framsækið fólk getur gripið arkitekta sem því líkar til að gera einmitt sinn „persónulega“ arkitektúr.

    • Guðmundur

      Hvað varðar persónulega tjáningu er ekki úr vegi að rifja upp orð Hundertwassers:

      „Painting and sculpture are now free, inasmuch as anyone may produce any sort of creation and subsequently display it. In architecture, however, this fundamental freedom, which must be regarded as a precondition for any art, does not exist, for a person must first have a diploma in order to build. Why?

      Everyone should be able to build, and as long as this freedom to build does not exist, the present-day planned architecture cannot be considered art at all. Our architecture has succumbed to the same censorship as has painting in the Soviet Union. All that has been achieved are detached and pitiable compromises by men of bad conscience who work with straight-edged rulers.“
      (http://www.hundertwasser.at/english/texts/philo_verschimmelungsmanifest.php)

      Skemmtilegt rant, sem ber þess skýr merki að vera skrifað á hátindi módernismans í arkítektúr.

  • Ég man ekki til þess að okkur hafi þótt þetta svo einfalt þegar ég og mínir jafnaldrar komum heim frá námi Oddur. Látum vera með höfundareinkennin en hitt er verra að það er eins og metnaðurinn hverfi með þeim. Amk að hluta.

  • Þetta er auðvitað bæði gott og slæmt.

    Já byggingalistin víkur fyrir öðrum hagsmunum með glóbaliseringunni og stóru teiknistofunum.

    Við unga fólkið höfum á brattann að sækja.

    Þegar Hilmar var ungur var þetta allt auðveldara fyrir unga fólkð sem átti sjens.

    Nú meikar þetta ekki sens.

    • Hilmar Þór

      Það er að vissu marki rétt hjá Oddi að hlutirnir voru einfaldari þegar ég byrjað í mínu fagi fyrir um 40 árum. Það sem maður þurfti var borð, stóll,T-stika, þríhyrning, blýant, yddara og strokleður auk pappírsnins. Svo þurfti maður auðvitað að hafa kunnáttu/hæfileika í faginu. En mikilvægast var að vera í einhverri klíku eða eiga sterkt tengslanet því samkeppnir voru afar sjaldgæfar.

      Nú þarf maður allt þetta og að auki tölvu og fjölda forrita auk þess að eiga sterk tengslanet. Áður kostaði útbúnaðurinn nánast ekki neitt. Nú kostar hann sennilega nokkuð á aðra milljón að lágmarki. Það gildir einu hvað þú ert fær í faginu ef þú kannt ekki á öll forritin og átt allar græjurnar.

      Verst við allann þennan tæknibúnað nú til dags er að mikill tími fer í allskonar tölvu- og tæknivandamál og umræður tengar þeim. Að læra á forritin o.þ.h. Tími til hreinna arkitektóniskra hugleiðinga er miklu minni nú en áður

      En fyrirstaða unga fólksins í den tid var að klíkusamfélagið var innmúrað og þú áttir ekki möguleika gegn því. Þú komst ekki þangað inn. Menn töld sig eiga kúnnann. Hvort heldur það voru sveitafélög, fyritæki eða stofnanir.

      Samkeppnur voru mjög fáar. Náðu ekki að vera einusinni á ári.

    • Dennis Davíð

      Já Hilmar klíkusamfélagið var aðalþröskuldurinn hér áður fyrr og samkeppnirnar of fáar. Það var ekki fyrr með tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins eða EES-samningsins svokallaða árið 1994 að hlutirnir foru að breytast með innleiðingu tilskipana ESB. Þá var m.a. gerð sú krafa að öll stærri opinber verkefni þyrftu að fara í einhvers konar samkeppni og að ekki mætti mismuna mönnum í forvali. Það er áhugavert að þarna er jöfnuðurinn og lýðræðið að koma að utan, frá Evrópu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn