Laugardagur 25.08.2012 - 09:21 - 8 ummæli

LSH – Skipulag auðnarinnar?

„Það er mikilvægt að gera hlutina rétt, en það er enn mikilvægara að gera réttu hlutina”

Þessi fræga kennisetning úr verkefnastjórnun kemur í huga þegar maður veltir fyrir sér  auglýstu deiliskipulagi Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut.

Og af hverju gerir hún það.

Þegar framtíðarstaðsetning spítalans var ákveðin á sínum tíma var gert ráð fyrir um 70 þúsund fermetra nýbygginga til viðbótar við það sem fyrir var (ég rúnna tölurnar af) eða samtals um 140 þúsund fermetra byggingamagn til að fullnægja húsnæðisþörf LHS við Hringbraut til framtíðar.

Í fyrirliggjandi deiliskipulagi er verið að kynna um 280(!) þúsund fermetra byggingamagn á svæðinu þar af 220 þúsund fermetrar í nýbyggingum.

Getur þetta verið satt og rétt?

Þrír óháðir erlendir sérfræðingar sem falið var að meta húsnæðisþörf spítalans töldu  að heildarbyggingamagn sjúkrahússins þyrfti að vera milli 120 og 135  þúsund fermetrar þegar staðurinn var ákveðinn.

Danska ráðgjafafyritækið Ementor taldi að 50 þúsund fermetra nýbygging dygði þannig að heildarhúsnæðisþörfinni yrði fullnægt með 120 þúsund fermetrum.

Sænska arkitektastofan White taldi að það þyrftu 15 þúsund fermetra í viðbót við áætlun dananna eða 135 þúsund alls.

Norska arkitektastofan Momentum taldi 130 þúsund fermetra nægja til þess að fullnægja húsnæðisþörf spítalans.

Nú liggja  fyrir áætlanir um að byggja um 220 þúsund fermetra  nýbygginga á svæðinu þannig að heildarmagnið verði 280 þúsund.

 Þessir fermetrar eru að vísu ekki allir sjúkrahússins en þeir eru allir á þessari lóð og á þessum stað. Sumir fermetrarnir eru vegna HÍ og annarrar starfsemi.

Maður veltir fyrir sér hvort þessi staður hefði verið valinn ef forsendan hefði í upphafi verið 290 þúsund fermetra byggingamagn. Hefði ekki þurft að endurskoða staðarvalið í þessu ljósi. Kannski var það gert. Eða hvað?

Þótt ég hafi kynnt mér málið nokkuð og átt samtöl við þá sem að málinu koma er ég sannfærður um að betur er heima setið en af stað farið í þessu máli. Hugsanlega gæti ég látið sannfærast um að byggja nýbyggingu fyrir spítalann upp á 70-80 þúsund fermetra  þarna eins og ráðgjafarnir erlendu lögðu til, en 210 þúsund viðbótarbyggingar eru of mikið eins og allir sem skoða málið hljóta að sjá.

Ég er þeirrar skoðunnar að lóðin beri ekki þetta mikla byggingarmagn.

Þetta deiliskipulag er nú í kynningu og gefst fólki tækifæri til þess að gera við það athugasemdir til 4. september n.k.´

Ég óttast að deiliskipulgið leiði af sér einskonar skipulag auðnarinnar. Það verði einungis byggður lítill hluti þessarrar miklu áætlunar. T.d. að meðferðarkjarninn verði byggður og að svo verði hlé. Kannski um áratugi. Þá mun standa þarna ríflega  58 þúsund fermetra risabygging án nokkurra skipulagslegra tengsla við umhverfið.

Ein albesta grein sem skrifuð hefur verið um skipulagsmál undanfarin mörg ár birtist í tímariti Máls og Menningar fyrir nokkrum misserum og er eftir Hjálmar Sveinsson skipulagsráðsmann. Greinin nefnist  „Skipulag auðnarinnar“. Það er áhugavert að lesa hana með fyrirliggjandi deiliskipulag í huga. Einkum vegna þess að maður óttast að þessar stórhuga hugmyndir gangi ekki eftir vegna þess að þjóðin ráði hvorki við fjárfestinguna né reksturinn og  svæðið  fái ásýnd „skipulags auðnarinnar“ eins og Hjálmarlýsir henni í grein sinni, og svo verði um áratugi.

Grein Hjálmars  hefst svona:

„Sá sem ekkert vissi um þróun þjóðfélagsins en stæði við horn Austurstrætis og Lækjargötu í Reykjavík í ársbyrjun 2009 og virti fyrir sér malargrunn sem þar er og leifar af gömlu timburverki, horfði svo yfir Lækjartorg í átt að hálfbyggðu stórhýsi út við sjóinn, sem minnti helst á svarta klettaeyju vegna umfangs síns, mannleysis, ljósleysis og fjarlægðar frá byggðinni, myndi tæplega draga þá ályktun að þetta auðnarlega umhverfi í miðri höfuðborg væri afrakstur eins mesta velmegunarskeiðs sögunnar. Honum gæti dottið í hug að efnahagskreppa hlyti að hafa ríkt í þessu landi í langan tíma og nú færi henni vonandi að ljúka……“

Ég mæli með greininni sem hægt er að nálgast á eftirfarandi slóð:

http://www.hjalmar.is/page11/page10/page10.html

Ef einhverjar tölur eru rangar eða rangt túlkaðar í færslunni væri ég þakklátur fyrir athugasemdir.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Pétur Örn Björnsson

    Steypuæði er velþekkt fyrirbrigði. Þá rennur á suma berserkjaæði og skeyta þeir þá engu um stað né stund.

    Þeir fá rörsýn, uþb. 2″ rörsýn og sjá ekkert út fyrir þvermál rörsins, missa allan perspektívískan sans.

    Stundum missa þeir plötu niður í öllum hamaganginum og æðinu. Þá æpa þeir samt áfram, steypa, tóra, steypa,steypa, tóra, steypa áfram for helvede.

    Þeir verða á mannamáli, steypuóðir.

    Frétt á ruv.is

    Geislatæki Landspítalans biluðu
    Fyrst birt: 21.07.2012 18:22, Síðast uppfært: 22.07.2012 11:48

    Einu geislatæki landsins sem notuð eru til krabbameinsmeðferðar biluðu bæði í síðustu viku en eru nú komin í lag. Senda þurfti sjúklinga í krabbameinsmeðferð heim vegna þessa. Tækið er komið fimm ár fram yfir æskilegan notkunartíma og ekki hafa fengist fjármunir til kaupa á nýju tæki.

    Á Landspítalanum við Hringbraut eru einu geislatækin á landinu sem notuð eru til meðferðar á krabbameini. Tækin eru tvö og eru þau í stöðugri notkun. Annað tækið er átta ára en hitt er sautján ára. Í nágrannalöndunum eru þessi tæki endurnýjuð á tíu til tólf ára fresti, enda eykst bilanatíðnin mikið eftir það. Eldra tækið á Landspítalanum er farið að bila nokkuð oft, en svo vildi til í síðustu viku að bæði það og nýrra tækið biluðu á sama tíma. Það varð til þess að senda þurfti nokkra krabbameinssjúklinga heim án þess að þeir fengju meðferð þann daginn.

  • Gunnar Jónsson

    Það er ekki ástæða til að óttast að þarna verði auð svæði og malargryfjur í framtíðinni. Þessi sjukrahúsbygging verður að koma ekki seinna en strax og hún mun gera það

  • Ef bílastæðin koma ekki fyrr en í síðari áfanga þá verður þetta eitt stórt bílastæðaflæmi á að líta um langt árabil (eins og sjá má á uppdráttum 1. áfanga).
    Ég skoðaði greinargerð dags.2626. mars uppf. 7. juni 2012 HB. Þar er heildarbyggingamagn 274.718 m2 með 53.400 m2 bílsatæðahúsi. Svo ekki vantar mikið uppá tölur Hilmars.
    Þetta er hið versta mál.

  • Eftirfarandi er tafla sem má finna í gögnum hönnuða.

    Byggingarmagn án bílgeymsla 1. áf m2 heild m2
    Núverandi byggð 73.610 73.610
    Ný byggð 93.300 148.400
    Rif -1.441 -3.941
    Samtals 165.469 218.069

    280 þús er sennilega talan þegar búið er að bæta við bílgeymslum en það er væntanlega ekki í þeim tölum sem vitnað er í frá öðrum sérfræðingum. Eða hvað?

    Það svæði sem rúmlega 50 þús m2 byggð rís á og kemur ekki í fyrsta áfanga, fara undir bílastæði í byrjun. Sem er ekki óskynsamlegt. Einhversstaðar verða vondir að vera. 😉

  • Pétur Örn Björnsson

    Er ekki kominn tími til að Hjálmar rifji upp kynni sín við eigin gömlu grein.
    Hann virðist alveg hafa steingleymt sjálfum sér einhvers staðar á leiðinni
    í annarlegum anda seinni áranna.

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Enn ein snilldargreinin úr penna Hilmars! Ég er þeirrar skoðunar að staðsetning nýja Landspítalns við Hringbraut hafi verið vafasöm og ákvörðunin tekin á röngum forsendum þegar heidarbyggingarmagn á lóðinni átti að vera 120 þús. ferm. Nú á að byggja um 290 þús. ferm. eins og Hilmar segir. Þetta er fáráðlegt að mínu mati!

  • Páll Torfi Önundarson

    Sá sem þetta ritar hefur endurtekið bent á leið til þess að stækka núverandi byggingar á Hringbrautarlóðinni um 60-70 þúsund fermetra, samtals um 130.000 fermetra, sem væri þá sambærlilegt við að tveir „Borgarspítalar“ væru byggðir á lóðinni (á efri lóðinni). Þetta er vel hægt. Og ásýnd borgarinnar myndi ekki breytast mikið með gamla spítalann áfram í forgrunni. Hugmynd mín hefur m.a. verið kynnt á þessari síðu, í Morgunblaðinu, á almennum fundum og í síðast í Fréttablaðinu þar sem kynnt var sameiginleg tillaga mín og Magnúsar Skúlasonar, arkitekts. Ég kynnti útfærslu okkar Magnúsar á fundi skipulagsráðs í október s.l. að ósk ráðsins sjálfs. Kynningin, sem tók mestan tíma fundar Skipulagsráðsins og fékk mjög jákvæð viðbrögð, var ekki bókuð í fundargerð ráðsins, sem athugasemd við deiliskipulagstillögu Spital en var það að sjálfsögðu. Síðar var mér sagt, að höfundar núverandi deiliskipulasuppdráttar (Spital og bygginganefnd spítalans) hafi tjáð skipulagsráði að hugmyndin væri óframkvæmanleg. Voru þeir rétti umsagnaraðilinn um það?

    Ég hefur endurtekið reynt að koma því sjónarmiði á framfæri, að ef byggja eigi við Hringbraut (fyrir því eru góð rök að mínu mati) þá þurfi að byggja hentugt hús af hæfilegri stærð með góðri tengingu við gömlu húsin. En til þess að stórslysið fari ekki í framkvæmd þá verða málsmetandi menn að sameinast um aðra tillögu eða lausn.

    Ég hef lagt fram mín tillögu (sem er ennþá órýnd af óvilhöllum sérfræðingum) en hefur aðeins verið dæmd ónothæf af aðilum sem fá milljarða til að koma sinni eigin tillögu á framfæri gegn vilja borgarbúa. Svona eru vinnubrögðin. Svo þarf að hugsa um fegurð borgarinnar líka; ekki ramma miðborgin inn í virkisvegg. Ég lýsi eftir þess vegna arkitekt með fegurðarskyn (má vera með hauspoka), sem er til í að gera þrívíddarmynd af tillögunni. Nokkrir hafa talað við mig, en segjast óttast um að fá ekki verkefni ef þeir berjast opinberlega gegn hugmyndum Spital.

  • Jón Halldórsson

    Það hlýtur að vera krafa borgarinnar að stjórnvöld klári dæmið innan segjum 10-15 ára. Ef það er tryggt þarf ekkert að óttast. Annars verður þetta hið versta mál allt saman.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn