Mánudagur 13.10.2014 - 21:43 - 7 ummæli

Ónotað íbúðahúsnæði – Fjólublár fullkomleiki

Fjólublár fullkomleiki

Aðgerðarsinnar hafa sent síðunni myndband með myndum af einum 200 tómum og niðurníddum húsum í Reykjanesbæ. Þeir kalla myndbandið „Fjólublár fullkomleiki“ eftir myndinni efst í færslunni.

Ráðist í myndbandagerðina til að vekja athygli á stöðu húsnæðismála á landinu.  Aðstandendur segja hana vera meinsemd í íslensku samfélagi. Fjölskyldur sem lent hafa á vanskilaskrá fá ekki leigt húsnæði, og bankarnir og Íbúðalánasjóður sjá ekki hag sinn í því að halda húsum við og leigja þau út. Og mörg eru að grotna niður. Á sama tíma og hundruð íbúða standa tómar er skortur  á leiguhúsnæði.

Aðstandendur myndbandsins segja að ekki sé til húsnæðispólitík á Íslandi sem passar við láglaunapólitíkina sem nú er rekin í landinu. Húsnæðismálapólitíkin sofnaði þegar fjármálastofnanirnar settust í framsætið.

Þeir upplýsa líka að um fjörutíu prósent fasteigna Íbúðalánasjóðs (ÍLS) eru á Suðurnesjum, en sjóðurinn átti þar 831 fasteign í lok ágúst s.l.

Í myndbandinu sem gert er af Guðmundi Guðmundssyni sjómanni koma fram 304 ljósmyndir Styrmis Barkarsonar grunnskólakennara af tómum húsum í Reykjanesbæ. Alls munu vera vel á annað þúsund auðar íbúðir og einbýlishús á svæðinu. Mörg húsanna eru áhugaverð frá t.d. fagurfræðilegu og byggingarsögulegu sjónarhorni að þeirra sögn. Og allt þetta á sér stað þrátt fyrir að skortur sé á íbúðahúsnæði fyrir leigumarkað eins og áður segir.

++++

Myndin efst í færslunni er tekin á augnabliki út um bílglugga á ferð fyrir meira en hálfu ári. Flestar myndanna eru þannig teknar. Fyrir nokkrum dögum var húsið ennþá autt og númerslaus bíllinn enn á sama stað.

Það er eins og tíminn hafi frosið.

Í lok myndbandsins kemur eftirfarandi texti.:

„Úr stjórnarsáttmálanum 2013: Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum i samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegan valkost um búsetuform“

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Hilmar Gunnarsson

  Bærinn er yfirfullur af sérviskulegum húsum sem er skemmtilegt að velta fyrir sér.

 • Guðmundur Guðmundsson

  Á höfuðborgarsvæðinu vantar nokkur þúsund litlar, ódýrar leiguíbúðir. Að byggja 3000 leiguíbúðir kostar ca 75 miljarða.

  Það er pólítísk og efnahagsleg áskorun að byggja þessar íbúðir, og nokkuð ljóst að markaðurinn gerir það ekki af sjálfsdáðum. Sveitarfélögin eru líka treg til af fjárhags og hugmyndafræðilegum ástæðum sem óþarfi er að rekja hér.

  Leikum okkur eitt augnablik að eftirfarandi hugmynd : Í Reykjanes standa næstum 3000 íbúðir auðar, ef hálfkláraðar byggingar eru taldar með.

  Fyrir svipaða upphæð og kostar að byggja 3000 leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu, væri hægt að leggja (flug)lest frá Reykjanesbæ og gera þannig gamla varnarliðssvæðið að nokurs konar „Breiðholti“, þaðan gæti fólk „Pendlað“ niður í miðbæ. Á gamla varnarliðssvæðinu standa ca 1200 einstaklingsíbúðir auðar um þessar mundir. 25 mínútna lestarferð í burtu vantar svo þúsundir leiguíbúða…

  Ef menn vilja er þá líka etv hægt að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

  En þetta með að koma fólki í þessi tómu hús gæti útaf fyrir sig réttlætt Lest, sem myndi að sjálfsögðu sinna flugfarþegum líka.

  Væri ekkki td hægt að nota tóm bílaplön í smáralindinni sem lestarstöð á morgnana, í stað þessa að breiða endalaust út bílastæði upp á velli ?

  Spyr sá sem ekki veit.

 • Pétur Bløndal Magnason

  Keflavík, Detroit nordursins. Var aktíf tónlistarborg á milli 1960-1970. Nei ég segji bara svona. En thetta Shrinking Cities fyrirbæri á Sudurnesjunum er mjøg áhugavert ad rannsaka. Ef e-r er ad gera lokaverkefni i Arkitektúr er thetta tilvalid verkefni ad tækla. Ekki thá bara til gera drøg ad húsnæðispólitík á Sudurnesjum (Thad tharf ad adlaga politikina eftir hverjum stad). Sudurnesin eru med lægstu menntastigid á landinu, mesta atvinnuleysid og mestu fólksflutningana frá svædinu. Størf og thjónusta er líka af skornum skammti. Jæja nóg med neikvædnina. Nú bara skora ég á Listaháskólann ad fara í samstarf med hagfrædideildinni í HÍ til ad kokka program fyrir nemendur til ad díla vid thessa áskorun sem er raunverulegri en Vedursafn eda Ljósmyndasafn eda einbýlishús vid Raudavatn. Stjórnvøld myndu bara reyna ad leysa thetta verkefni á excelskjali, arkitektastofur taka ekki verkefnid vegna thess ad thad launar sig ekki og heimafólk getur ekki hugsad sér ad búa vid svona bugad ástand og flytur til Reykjavikur eda Noregs.

 • Jón Gunnarsson

  Vilji, með hagsmuni fjöldans í sjónmáli er allt sem þarf!

 • Friðrik Friðriksson

  Minni á góða grein eftir Svan Guðmundsson formann fèlags löggiltra leigusala í Mogganum í morgun.

 • Þorlákur

  Þetta er rosalegt. Af hverju er verið að byggja nýtt húsnæði og fyrir hverja?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn