Miðvikudagur 26.10.2016 - 12:40 - 17 ummæli

Landspítalinn – Ný staðarvalsgreining er nauðsynleg.

untitledkjhkjhiuy

Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að forsvarsmenn Nýs Landspítala ohf og þeirra sem hafa unnið að málinu umnanfarin 16 ár hafni nýrri faglegri, opinni og óháðri staðarvalsgreiningu?

Er líklegt að embættismenn og stjórnmálamenn sem unnið hafa að uppbyggingu við Hringbraut í áratugi vilji nýha staðarvalsgreiningu eða fari að segja það sína skoðun um að byggja eigi á öðrum stað?

Í sjö ár hefur breiður hópur fólks óskað þess að ný staðarvalsgreining verði gerð. Þessi ósk er komin fram og studd með þéttum rökum og vítækum stuðningi alls almennings.

Skoðanakannanir sýna að mikill, meirihluti lækna, hjúkrunarfólks, sjúkraflutningamanna vilja nýjan spítala á betri stað og hafna Hringbrautarúrræðinu. Það sama er uppi á teningnum hjá miklum meirihluta alls almennings!

Embættismenn og stjórnmálamenn hafa öll þessi ár borið við að það sé of seint að standa faglega að undirbúningnum hvað þetta varðar og hafnað því að ný staðarvalsgreining verði gerð!

Af hverju?

Ég tel mig vita svarið.

Landspþversn

Langsnið

Efst er mynd af Landspítalalóðinni fullbyggðri og hér rétt að ofan sniðmyndir í landið. Þetta er yfirgengilega fyrirferðamikið. Margir telja að þessi áætlun stangist á við Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð sem undirrituð var af tveim ráðherrum, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Illuga Gunnarssyni.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.10.2016 - 00:03 - 4 ummæli

Pælingar um fagurgala í skipulagi og verklag stjórnvalda

Miðbær-1963lett

Hér kemur annar hluti greinar Hjörleifs Stefánssonar arkitekts um fagurgala í borgarskipulaginu og verklag stjórnvalda. Hér er beitt gagnrýni fagmanns á ferðinni um verklag þegar kemur að skipulagi borgarinnar og endurskoðun fyrri skipulagsákvarðanna. Hjörleifur er lausnamiðaður og skapandi í skrifum sínum.

+++++

Þegar stjórnendur borgarinnar eru spurðir hvers vegna sífellt sé gengið á söguleg gildi miðborgarinnar með alltof stórum byggingum er svarið oftast á þá leið að nýtingarhlutfall lóðanna hafi verið ákveðið fyrir löngu og ekki sé hægt að skerða það nema greiða eigendunum stórfé í skaðabætur. „Þetta er fyrri borgarstjórn að kenna” er sem sagt svarið!!!

Þeir kjósa að líta svo á að tímbundin skipulagsákvörðun um heimild til að auka nýtingu lóðar sé eign sem ekki verði aftur tekin nema gegn endurgjaldi.

Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt.

Borgaryfirvöldum ber lagaleg skylda til að endurskoða skipulagsákvarðanir eftir því sem þörf krefur, meðal annars þegar gildismat samfélagsins tekur breytingum. Þetta gildir jafnt um nýtingarhlutfall lóða sem og aðra þætti skipulagsins.

Skipulagsákvæði um að byggja megi meira á tiltekinni lóð er vísbending um að verðmæti húsa á lóðinni geti vaxið að uppfylltum margvíslegum skilyrðum. Til að svo verði þarf eigandinn að hafa getu og vilja til að ráðast í framkvæmdir og hann þarf að láta af því verða.  Þegar hann hefur með lögmætum hætti aukið við húsakost lóðar sinnar hefur verðgildi eignar hans vaxið.

Ef hann ræðst ekki í framkvæmdir eykst ekki verðgildi eignarinnar.

Það er því vægast sagt undarlegt að Reykjavíkurborg kjósi að líta svo á að henni sé ekki heimilt að skerða nýtingarhlutfall lóða nema gegn endurgjaldi.

Um þetta atriði hafa menn rætt í að minnsta kosti 30 ár. Engu máli skiptir hvaða stjórnmálaflokkur fer með völd í borgarstjórn, alltaf er sagt að eignarrétturinn sé varinn í stjórnarskrá okkar og alltaf er látið sem skipulagsákvæði um nýtingarhlutfall lóða skapi eignarrétt á því sem lóðareigandi getur haft væntingar um að gerist þegar hann hefur aukið við byggingar á lóð sinni. Það er hreint út sagt með ólíkindum að svona málflutningur viðgangist og ber vott um að samfélag okkar sé gegnsýrt af hagsmunagæslu fyrir hönd braskara. Ég veit ekki hvaða önnur orð sé hægt að hafa um þetta.[2]

Hugsum okkur dæmi:

Borgarhverfi er endurskipulagt og gert ráð fyrir verslunarmiðstöð og almenningsvagnastöð. Húseignir og lóðir í nágrenninu hækka í verði vegna væntinga um þróun hverfisins sem skipulagið vekur.

Hækkandi orkuverð, umhverfismál og breytt gildismat í víðum skilning leiðir síðar til þess að almenningssamgöngur eru endurmetnar og skipulagáætlunum breytt. Almenningsvagnastöðin verður byggð á öðrum stað en áður var ætlað. Væntingar manna um verðgildi lóðanna bregðast. Markaðsverð þeirra lækkar vegna brostinna vona en lóðir í námd við nýja staðinn hækka í verði vegna nýrra væntinga.

Ég býst við flestum þætti fráleitt að samfélaginu bæri að greiða lóðaeiendum bætur fyrir brostnar vonir í tilviki sem þessu. Ótal atriði hafa áhrif á vonir og væntingar manna og jafnvel olíukreppa í Miðausturlöndum getur leitt til breytinga á lóðaverði í New York og Reykjavík.

Skipulagsáætlanir eru nefnilega alls ekki jafngildi loforða. Þær eru hins vegar lögformleg, samfélagsleg yfirlýsing um hvert skuli stefnt í uppbyggingu og þróun borgarinnar hverju sinni miðað við gefnar forsendur. Breytist grundvallarforsendur ber að breyta skipulaginu út frá hagsmunum heildarinnar.

Þegar sett voru ný skipulagslög árið 2012 gafst tækifæri til þess að taka af allan vafa í málum af þessum toga. Hægt hefði verið að kveða skýrt á um að skaðabótaréttur myndist ekki þótt skipulagsákvæðum sem lóðahafar byggja væntingar á sé breytt vegna almannahagsmuna.

Umhverfisráðherra sem lagði fram lagafrumvarpið var gerð grein fyrir mikilvægi þess að það yrði gert en kaus að gera það ekki.

Ráðherrann hafði áður setið í skipulagsnefnd Reykjavíkur og hefði átt að skilja hversu mikilvægt væri að nota ný skipulagslög til þess að leiðrétta þennan hræðilega “misskilning” sem notaður hefur verið áratugum saman til þess að réttlæta ákvarðanir sem heimila einstaklingum og fyrirtækjum að byggja þannig að það veldur skemmdum á miðbænum.

Hann kaus að gera það ekki.

En það dugir ekki að láta deigan síga.

Við megum ekki láta þennan vesældóm viðgangast lengur. Nú skulum við vona að þeir sem skilja nauðsyn nýrrar stjórnarskrár og eru reiðubúnir til þess að berjast fyrir henni, taki í taumana og sjái til þess að næsta borgarstjórn verji sameign okkar í miðbænum fyrir ágirndinni.

++++++

Efst í færslunni er mynd af hugmyndum ungra efnilegra arkitekta um  uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur frá árinu 1963.  Þessi mynd er 20 árum yngri en hugmyndir Einars Sveinssonar húsameistara Reykjavíkur frá 1943 sem sýnd var með fyrri færslu Hjörleifs. Þessar  myndir og fyrirhugaðar framkvæmdir við Austurhöfn segja okkur að við þurfum að halda vöku okkar og veita stjórnmálamönnunum aðhald. Hér er slóð að pistli sem fjallar um þetta:

 

 

Reykjavík 1963 – framtíðarhugmyndir

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.10.2016 - 13:00 - 7 ummæli

„Fagurgali sem fagurfræði“

Untitled

 

Hér birtist pistill eftir Hjörleif Stefánsson arkitekt hjá Gullinsniði. Hjörleifur hefur verið virkur í umræðunni um arkitektúr og skipulag um áratugaskeið. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um efnið og þar á meðal bók um byggingarsöguleg einkenni Reykjavíkur. Bókin heitir „Andi Reykjavíkur“ og kom út árið 2008 og ætti að vera kennsluefni í öllum framhaldsskólum landsins.

Þetta er fyrri pistill af tveim.

++++++

Fagurgali sem fagurfræði

Tilgangslaust er að tala um Reykjavík sem fallega eða ljóta borg.

Heppilegri nálgun er að íhuga hvaða þættir það eru í byggðinni sem snerta tilfinningar okkar á jákvæðan og neikvæðan hátt.[1]

Sá þáttur í borgarumhverfinu sem hefur einna mest áhrif á okkur er söguleg vídd byggðarinnar. Því greinilegri sem ummerki liðinna tíma eru í byggingum, götum og torgum, þeim mun meira aðdráttarafl hefur borgin.

Dýrategundin maður laðast að gamalli byggð.

Hrörnun og forgengileiki eru líka hluti af þessu afli sem dregur manninn til sín.

Lengst af hafa arkitektar og skipulagsfræðingar nálgast viðfangsefni sín á grundvelli hugmynda sem studdar eru fagurfræðilegum vangaveltum án þess að skeyta mikið um söguleg gildi. Skipulagsfræðingurinn vill að borgin mótist eftir einni fagurfræðilegri hugmynd, einu gildismati. Þetta gerðist árið 1927 þegar stefnt var að því að borgin yrði endurbyggð og aftur 1963 þegar nýtt Aðalskipulag  stefndi að endursköpun borgarinnar á grundvelli tæknihyggju og umferðarskipulags.  Fagurfræði af þeim toga sem hér um ræðir virðist vera gagnslaus og í versta falli hættulegur fagurgali. Hún einblínir á mjög takmarkaðan þátt í umhverfissköpuninni.

Ekki var nóg með að fagurfræði módernismans liti fram hjá sögulegu gildi borgarumhverfis  heldur lýsti hún beinlínis stríði á hendur fyrri stíltegundum.

Æ síðan hefur arkitektastéttin haldið á lofti þeirri kennisetningu að nýjar byggingar eigi ekki að bera keim af eldri húsum. Mikilvægast sé að fylgja tíðarandanum sem reyndar er mótaður af stjörnuarkitektum heimsins hverju sinni og hinir minni spámenn fylgja hver eftir sinni getu. Frumleiki í sköpun bygginga var settur á stall. Mikilsvert þótti að hver bygging væri einstök og vekti athygli – lítið eða ekkert var skeytt um að hún félli að umhverfi sínu og styrkti einkenni þess.

Ný bygging var sögð falleg þótt hún ylli skaða á eldri byggð sem er þrungin merkingu og aðdráttarafli.

Við ættum að fara varlega með fegurðarhugtakið. Átta okkur á því að fegurð í merkingunni fullkomleiki út frá gildismati augnabliksins er ekki eftirsóknarverð.  Sögulegt umhverfi með mannlegum byggingum og smágerðum fyllir okkur miklu meiri vellíðan, ánægju og gleði en nýbyggt hverfi með einsleitum byggingum með alþjóðlegum blæ þótt þær fylgi tíðarandanum út í æsar.

Óhætt er að segja að Reykjavík sé sá staður sem mestu máli skiptir fyrir flesta íslendinga.

Þar er að finna vitnisburð um fyrstu byggð í landinu, lítið verslunarpláss á 18. öldinni, stjórnsýslusetur á 19. öldinni, útgerðabæ og höfuðborg á 20. öldinni og ferðamannastað á 21. öldinni.

Miðbærinn sem heild er sameign þjóðarinnar, mikilvægasti og dýrmætasti staður landsins. Hann hefur táknrænt og tilfinningalegt gildi fyrir hvert og eitt okkar.

Á löngu tímaskeiði þegar kennisetningar arkitekta og skipulagsfræðinga um alþjóðlega byggingarlist voru allsráðandi og almenningur og borgaryfirvöld uggðu ekki að mikilvægi þess að gæta að sögulegum gildum byggðarinnar, breyttist yfirbragð miðbæjarins mikið og söguleg ummerki  ýmist hurfu eða slævðust meira en góðu hófi gegnir.

Smám saman hefur þetta breyst og núorðið er almenningur og borgaryfirvöld meðvituð um mikilvægi sögulegrar byggðar, að umhverfið eigi að vera margbreytileg , að forðast eigi að láta tískusveiflur samtímans ná tökum á miðborginni. En samt sem áður er stöðugt gengið á söguleg gildi miðbæjarins.

Hér komum við að merkilegu íhugunarefni: Ef það er satt sem hér hefur verið fullyrt að það sé í mannlegu eðli að söguleg vídd umhverfis skapi vellíðan og hamingju þá skipti sköpum að skilja hvaða öfl eru að verki sem leitast við að eyðileggja slík umhverfisgæði.

Skoðum nokkur dæmi frá ýmsum tímum:

Skuggahverfið í Reykjavík byggðist að mestu leyti undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20 af sjómönnum og verkamönnum. Til að byrja með tómthús úr torfi og grjóti, seinna lítil timburhús og steinbæir úr tilhöggnu grjóti. Í byrjun 20. aldar hófst þarna atvinnuuppbygging, trésmiðjan Völundur, Kveldúlfsskálarnir, Sláturfélag Suðurlands o.fl.

Þegar halla tók á seinni hluta aldarinnar höfðu fyrirtækin ekki lengur þörf fyrir þetta  húsnæði og gamla Skuggahverfisbyggðin þótti ekki búa yfir neinu sem vert væri að varðveita.

Athafnamenn sáu að þarna væri hægt að reisa íbúðir fyrir þá sem kynnu að meta nálægðina við miðbæinn og að auki fengju íbúðirnar útsýni yfir sundin.

Borgarstjórn féllst á þetta og heimilaði niðurrif merkilegra atvinnuhúsa. Í staðinn risu háhýsi sem skyggðu á gömlu Skuggahverfishúsin og eyðulögðu það eðlilega jafnvægi milli byggðar og landslags sem fyrir var.

Enda þótt mat manna á gömlu Skuggahverfisbyggðinni hafi breyst síðan og nú sé talið brýnt að varðveita sem mest af henni, þá er enn verið að byggja háhýsi við Skúlagötu sem eyðileggja fyrir gömlu byggðinni fyrir ofan. Þessi nýju hús kunna að vera vel hönnuð og jafnvel falleg í þeim þrönga skilningi sem ég hafnaði í upphafi máls míns. En þau vekja manni slæmar tilfinningar. Þau eru alþjóðleg í útliti og víða um heim rífa menn nú hús af þessum toga þar sem þau skemma gamla og viðkvæma byggð.

Það afl sem hér er að verki heitir ágirnd.

Nýlegra dæmi má taka af Landsímahúsinu við Austurvöll. Þegar hér er komið sögu blandast varla nokkrum manni lengur hugur um að miðbæjarbyggðin sé mikilvægasti hluti borgarinnar. Eigendur Landsímahússins eru vafalítið sama sinnis. En þeir telja vænlegast að breyta húsinu í hótel og vilja hækka húsið og byggja við það með þeim hætti að það rýrir gildi miðbæjarins og borgarstjórn sem á að gæta hagsmuna heildarinnar fellst á áform þeirra.

Til þess að fá fleiri gesti en ella rýra þeir sögulegt gildi miðbæjarins sem dregur að gestina.

Aftur er það ágirnd sem knýr áfram eyðilegginguna.

Enn eitt dæmið og það nýlegasta er að eiga sér stað á þessum misserum. Nú er svo komið að borgaryfirvöld reka skipulagsstefnu í miðbænum sem í aðalatriðum snýst um að varðveita, bæta við og fylla í skörð. Það er þó engin tilviljun að þetta gerist einmitt þegar flestar fjárfestingar í fasteignum í miðbænum eiga rætur sínar í ferðamannaþjónustu en gamli bærinn laðar að ferðamennina. Hagsmunir fjárfestanna kallar á nýja skipulagsstefnu.

Miklu máli skiptir núorðið að lóðir séu ekki sameinaðar, heldur skuli varðveita smágert byggðamynstur sem birtist í lóðafjölda og smæð þeirra. Lóðafjöldi endurspeglar eigendafjölda og fjölbreytileika.

En þetta hentar ekki alls kostar þeim sem reka hótelin. Stórt hótel með fjölda herbergja er hagstæðari rekstrareining en lítil. Fjölbreytileiki miðbæjarins dregur að hótelgestina en smæð rekstrareininga í samræmi við húsastærðirnar skilar ekki hámarks hagnaði.

Þess vegna knýja þeir fram heimild til þess að hótelin þeirra teygi sig yfir nokkrar lóðir. Húsin endurspegla gamlan fjölbreytileika frá þeim tíma þegar hver lóð var sérstök eining en eitt og sama hótelið teygir sig um mörg samliggjandi hús.

Hvað varðar útlit húsanna viðhelst fjölbreytileikinn að miklu leyti en þegar kemur að innihaldinu ríkir fábreytnin.

Borgarstjórn hefði getað séð til þess að smæðin og fjölbreytnin í starfsemi húsanna hefði haldist í hendur við margbreytilegt útlit þeirra. Miðbærinn hefði verið enn áhugaverðari fyrir vikið.

Enn einu sinni er það ágirnd sem er hvatinn.

Þegar baráttan stendur milli fegurðar hins smáa og hagkvæmni hins stóra þá heggur sá er hlífa skyldi.

Þeirri skelfilegu áráttu að vilja eyða því sem manni þykir vænst um hefur Oscar Wild lýst vel í ljóðinu The Ballad of Reading Goal þar sem segir í snilldarþýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:

 

Því allir myrða yndi sitt,

þess engin dyljist sál:

Vopn eins er napurt augnaráð

og annars blíðumál;

til verksins heigull velur koss,

en vaskur maður stál!

+++++++

[1] Sjá Andi Reykjavíkur. Hjörleifur Stefánsson, Forlagið 2008.

[2] Sjá: Kjarninn 20. júlí 2015. Athugasemdir við ummæli formanns skipulagsráðs í  blaðaviðtali 18. júlí 2015. Hjörleifur Stefánsson

+++++++

Efst í færslunni er mynd af miðbæjarskipulagi frá árinu 1943 gert á teiknistofu Húsameistara Reykjavíkur sem var stjórnað af Einari Sveinssyni arkitekt.

Margar tillögur um umbreytingu miðborgarinnar þóttu framsýnar og góðar á sínum tíma en þær hafa ekki elst vel. Á myndinn sést að hugmyndin var að rífa öll húsin í miðborginni.  Það standa aðeins örfá hús eftir, Alþingishúsið og Dómkirkjan og sennilega Natan & Olsen og Hótel Bor ásamt fl.. Þá er gert ráð fyrir breiðgötu í gegnum Grjótaþorpið frá Túngötu að Tryggvagötu og jafnvel niður að höfn. Þessi hugmyn var aftur tekin upp á aðalskipulaginu 1962-84.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.10.2016 - 23:57 - 16 ummæli

Fagurfræðin í Borgarskipulaginu: „Er þetta ekki á svoldið háu plani?“

14606434_10155313036586679_4714426592622531255_n

Þegar frummælendur höfðu talað á fundi á Kjarvalsstöðum í gærkvöld spurði Hjálmar Sveinsson fundarstjórann Gunnar Hersvein fundarstjóra hvort þetta sé ekki á háu plani?

Gunnar svaraði ekki, en ég svaraði spurningunni fyrir sjálfan mig játandi.

Fyrsti frummælandinn var Hjálmar Sveinsson formaður Umverfis og skipulagsráðs. Hann er með BA-próf í heimspeki og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og er MA í heimspeki, þýskum fræðum og bókmenntum frá Freie Universität Berlin.

Næst tók til máls Guðbjörg R Jóhannesdóttir sem útskrifaðist með meistaragráðu í Values and the Environment frá Lancaster University og doktorsgráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands.

Mér fannst þau aldrei ná alminnilega niður á jörðina. Þau töluðu eins og gert var á Akademíunni í Kaupmannahöfn í gamla daga þegar ég var þar við nám. Þetta voru meira svona heimspekilegar skilgreiningar um fegurðina. Eins og að fegurðin sé í augum sjáandans og að fegurðin sé byggð á upplifun þar sem sagan skiptir kannski meira máli en formið. Að fegurðin væri víkjandi t.a.m. í myndlistinni og að fegurðin tengdist jafnvel frekar réttlæti og sannleika en forminu.

Kennisetningar á borð við „De gustibus non est disputandum“ eru fyrir löngu úreltar. Allir vita að t.a.m.  symmetrían er falleg. Sama á við um gullinsniðið. Hvorutveggja á rætur að rekja til manneskjunnar sem gengur upp í gullinsniðið og er symetrisk. Le Corbuslier sagði að ef við göngum útfrá að manneskjan sé falleg þá er allt sem gengur upp í manneskjuna fallegt. Svo er auðvitað alltaf „fallegt í Borgarfirðinum þegar vel veiðist“

Þetta eru auðvitað mjög spennandi pælingar og mér leiddist aldrei. En ég velti samt fyrir mér hvort svona fræðileg djúp pæling á erindi á borgarafund sem umhverfis- og skipulagssvið boðar til um fagurfræðina í borgarskipulaginu hér í borg.

Þá tók til máls Hjörleifur Stefánsson og loks Margrét Harðardóttir  en þau hafa bæði starfað sem arkitektar hér í borg á verið með hendurnar á öllum þeim viðfangsefnum sem varða byggingar nýrra húsa, endurnýjunnar gamalla og skipulag af öllu tagi. Þau hafa verið virk í umræðunni um fagurfræði borgarskipulagsins í sínum  raunveruleika. Þau náðu niður á jörðina í sínu máli. Töluðu um fjárfesta og græðgi.

Hjörleifur nefndi hina sögulegu vídd og þá staðreynd að fólk laðast að sögulegri gamalli byggð. Hann taldi almennt tíðarandann vondan ef ég skildi rétt og að menn hefðu tilhneigingu til að skemma það sem þeim þætti væntum. Hann sagði líka að ábyrðin lægi hjá stjórnálamönnum frekar en arkitektum og fjárfestum. Hann taldi stjórnmálamenn valda meiru um niðurstöðuna en arkitektar og athafnamenn  Þetta er líklega rétt hjá Hjörleifi. Arkitektar ganga til verka sinna með hagsmuni verkkaupa að leiðarljósi. Hvort heldur hann er sveitarfélag eða húsbyggjandi. (Arkitektar geta ekki á sama tíma þjónað heildarhagsmunum borgaranna og sérhagsmunum húsbyggjandans eins og allr vita). Arkitektar halda sér síðan innan þess ramma skipulagsins sem stjórnmálamennirnir hafa mótað með ráðgjöfum sínum.

Margrét taldi að hógværu byggingarnar væru oftast fallegastar og að fegurðin fengist ekki með einhverjum flýtiaðferðum, hún er ekki fljótfengin. Hún vék að Skuggahverfinu þar sem hugmyndin virtist vera „útsýnið er mitt en umhverfið þitt“.

Eftir framsögu vou leyfðar nokkrar fyrirspurnir.

Bjarni Reynarsson spurði um hið smágerða og fíngerða umhverfi sem fyrirheit eru gefin um í AR2010-2030 og var líklega með uppbyggingu við Austurhöfn í huga. Hjálmar valdi að nota Hljómalindarreitin milli Hverfisgötu og Laugaveg sem dæmi um framkvæmd þess makmiðs að skapa fíngert umhverfi fyrir fólk. Sem er eitt af frábærum markmi’ðum AR2010-2030. Þarna hefði Hjálmar getað notað tækifærið og skýrt skipulagið við Austurhöfn, sem mikið er í umræðunni,  fyrir fundargestum en láðist að nota tækifærið.

Gestur Ólafsson arkitekt gerði annarsvegar athugasemd við að það væru ekki fagmenn sem sætu í skipulagsráði og hinsvegar að það væri nánast orðin reglan að arkitektar tækju að sér að deiliskipuleggja fyrir borgina (eða lóðarhafa) og í framhaldinu teiknuðu þeir svo húsin fyrir lóðarhafa. Þetta taldi hann slæmt verklag. Sem vissulega er fullkomleg rétt hjá honum. Ég áttaði mig ekki á svari Hjálmars við þessu.

Magnús Skúlason arkitekt i og fyrrverandi formaður bygginganefndar í Reykjavík lýsti áhyggjum sínum af því að umfjöllun um byggingalist væri ekki markviss. Hún hefði ekki vissan stað í kerfinu. Áður var umfjöllunin tvískipt. Annarsvegar skipulagsnefnd sem fjallaði um skipulagið og hinsvegar bygginganefnd sem fjallaði um byggingamál.  Ég tek undir þetta hjá Magnúsi. Þetta var betra áður. Og svo skipuðu arkitektar og sklipulagsfræðingar meirihluta í þessum nefndum á árum áður ef ég man rétt. Sem var gott.

Pétur Árannsson arkitekt taldi þemað „fegurð“ reynsluvísindi og að hið fumlega ætti frekar að vera undantekning en reglan. Menn ættu að leggja meiri áherslu við hönnun að vera „venjulegur“ en „frumlegur“ ef ég skildi rétt. Hann nefndi frábærann hönnuð, Einar Erlendsson, í þessu sambandi. (Einar teiknaði Mjólkurfélagshúsið i Hafnarstræti o.m.fl.) Sennilega mundi þessi þankagangur hjálpa til við að auka fegurðina í borgarlanslaginu.

Fundarstjóri á fundinum  sem var óvenju vel sóttur af talsvert á annaðhundrað manns var Gunnar Hersveinn heimspekingur.

++++

Þetta var fróðlegur og ánægjulegur fundur en hann missti marks að mínu mati. Það hefði verið betra ef fundurinn hefði ekki verið á svo háu plani. Það hefði verið betra fyrir umræðuna hefði þetta verið lágstemmtara. Ekki var minnst á „Menningarstefnu hins opinbera í mannviskjagerð“ frá 2007 á fundinum sem vissulega tekur á þessum málum öllum.

++++

Ég velti fyrir mér af hverju umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar er að halda fund um fræðilega skilgreiningu fegurðarinnar svona almennt séð og svífandi. Þó hún þurfi auðvitað að vera skýr. Af hverju ekki er gengið beint í málin?

Ég hefði viljað fá umfjöllun um stjórnun, verklag til að hámarka fegurð borgarinnar okkar.  Einhverja umfjöllun um staðarandann og „regionalisma“ staðarins og menninguna hér. Hvert við viljum fara og hvernig við getum komist þangað. Hvar erum við stödd?

Ég er t.d. fullviss um að deiliskipulagið við Austurhöfn var vanreifað og lítið unnið. Það hefði verið heppilegt dæmi sem einskonar „case study“ hvað fagurfræði borgarskipulagsins varðar og gott umfjölluarefni og góður útgangspunktur á fundi sem þessum.

Það er í mínum huga ljóst að skilmálar skipulagsins við Austurhöfn voru slæmir. Höfundar þess misstu þar af miklu tækifæri sem lá fyrir framan þá. Þeir hefðu getað notfært sér skilgreiningar um staðarandann sem var í Kvosarskipulaginu frá 1986. Þeir hefðu getað lesið bók Hjörleifs um Anda Reykjavíkur. Þeir hefðu getað notað tækifærið og látið bolverkið sem falið var undir yfirborðinu vera forsendu í deiliskipulagsgerðinni.  Allavega tryggt að það kæmi ekki öllum á óvart þegar byrjað var að grafa.

Stjórnmálamenn tóku upplýsta ákvörðun og samþykktu þetta skipulag. Og ábyrgðin er þess vegna þeirra. Nú eru húsin nánast fullhönnuð og sitt sýnist hverjum. Ábyrgðin er ekki skipulagshöfundanna nema að takmörkuðum hluta og ekki heldur húsahönnuðanna. Ábyrgðin  stjórnmálamannanna sem samþykktu þetta fyrir okkar hönd.

Þegar ég segi að stjórnmálamennirnir tóku upplýsta ákvörðun um deiliskipulagið þá segi ég það vegna þess að þessar athugasemdir  (flestar) komu fram í athugasemdum þegar deiliskipulagið var auglýst.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.10.2016 - 14:44 - 8 ummæli

„Fagurfræðin í borgarskipulaginu“

Screen-Shot-2016-10-09-at-00.24.15-768x753

Það er ánægjulegt til þess að vita að Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar skuli nú efna til fundar undir yfirskriftinni „Fagurfræðin í borgarskipulaginu“.  Þarna hafa verið valdir afskaplega færir frummælendur sem hafa velt þessum hlutum fyrir sér lengi. Hjörleifur Stefánsson, einn frummælanda, hefur skrifað heila bók um staðaranda Reykjavíkur sem auðvitað skiptir miklu máli og er kannski meginstoðin undir  fagurfræði borgarskipulagsins hér í Reykjavík. Ég er ekki viss um hvort þessi svokallaði „kassa/gáma-stíl“ sem hefur verið mjög áberandi undanfarið eigi við hér í Reykjavík þó hann sé ágætur víða annarsstaðar, einkum í arkitektatímaritunum.

Það er löngu tímabært að borgin boði til þessa fundar, um efni sem hefur ekki fengið mikið svigrúm í umræðunni um húsbyggingar og skipulag.

 

14590253_914516625321206_4272935749744121372_n

Það hefur lengi verið beðið og kallað eftir útlitsmyndum af nýja Marriott hóelinu sem á að rísa við austurhöfnina. Það birtist loks mynd af húsinu á mbl.is í gær.  Hana má sjá hér að ofan.  Mér sýnist þetta sé hliðin á hótelinu sem snýr til vesturs, að höfninni! Ég sakna skýrskotunar til hafnarinnar og Reykjavíkur svona hreynt útlitslega. Svo gæti verið skemmtilegt ef starfsemin, minnstakosti á jarðhæð, tengdist á einhvern hátt hafnarstarfssemi. Kannki veiðarfæraverslu, fiskbúð, sýningarrými sem er sérhæft starfsemi Reykjavíkurhafnar um aldir eða eitthvað annað og frumlegra. En það kemur eðlilega ekki fram á þessari einu mynd.  Útlit hússins virðist mér snyrtilegt á alþjóðlegan mælikvarða en það gæti eins staðið við Orchard Road i Singapore!

14590306_914516675321201_5371690978149961734_n

Hér er svo mynd af húsinu við hliðina á Marriott hótelinu, Nýja Hafnartorginu.  Þetta er mynd sem við þekkjum og fólk hefur tjáð sið kröftuglega um.  Einhver sagði í því samband eða það væri ekki einkamál neins að byggja hús og sérstaklega í miðborginni. Það varði almannahagsmuni sem borgaryfirvöld eiga að gæta. Þess vegna er það ánægjulegt að Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur skuli nú efna til fundar um fagurfræðina í borgarsipulaginu. Það verður spennandi að hlýða á erindi þeirra frábæru einstaklinga sem þarna tala.

Mætum öll á þriðjudginn á Kjarvalsstöðum kl 20:00.

++++++

Að neðan er svo auglýsing frá Nýjum Landspítala ohf, þar sem auglýst er eftir  þátttaendum í útboði um fullnaðarhönnun Rannsóknarhúss Háskóla Íslands á lóð Landspítalans við Hringbraut.

Auglýsingin birtist í sama blaði og hin áhugaverða auglýsing efst í færsluni.

Þetta er einhvað það dapurlegasta sem ég hef augum litið og varðar húsahönnun, skilpulag og þar með er talin fagurfræðin í borgarskipulaginu.

Í auglýsingunni stendur :„Ekki er gefin einkunn fyrir hæfni og reynslu og því mun tilboðsfjárhæð hafa 100% vægi í hönnunarútboðinu“.

Hér virðist metnaðarleysið vera algert og fagurfræði eða annað í borgarskipulaginu ýtt algerlega til hliðar. Menn óska bara eftir ódýrum teikningum ef ég skil þetta rétt. Innialdið og listræn nálgun sem áhersla er lögða á í Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð er ýtt til hliðar og ekki lagt mat á. Maður veltir fyrir sér hvort þetta útboð og þessi nálgun, sé í andstöðu við umræðuefnið á fundinum á Kjarvalsstöðum þriðjudaginn.

Þetta algera metnaðarleysi Nýs Landspítala ohf gagnvart Háskóla Íslands, Landpítalanum, fagurfræðinni í borgarlandslaginu er opinberað í þessari auglýsingu.

Það er eins og menn átti sig ekki á að það kostar bæði fjármuni og tíma að hugsa sig um.  Það kostar líka fjárhæðir að vanda sig.

Ég er alveg hissa á þessu þó svo að ég viti að þetta er í vissum takti við það sem á undan er gengið.

 

14563416_1312278565450267_252549855578813447_n

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.10.2016 - 17:43 - 11 ummæli

Niðurrif – Brotið blað í Reykjavík

IMG_6949

Í Morgnblaðinu í morgum mátti lesa að meirihluti umhvefis- og skipulagsráðs Reykjavíkur lagðist gegn því að að heimilað yrði að rífa niður hús við Freyjugötu 16 á horninu við Valastíg og húsið við hliðina sem er nr 35 við Bragagötu og stendur á horni Bragagötu og Freyjugötu.

Umhverfisráð telur að “húsverndunarsjónarmið og varðstaða um byggðarmynstur gömlu Reykjavíkur verði að vera í forgangi þegar þess sé kostur”.

Við sem höfum fylgst með þessum málum vitum hinsvega að tækifærið til þess að standa vörð um byggðamynstur Reykjavíkur liggur alltaf fyrir og hefur alltaf legið fyrir hendi og verið besti kosturinn.

Húsin sem um ræðir eru frá þriðja áratug síðustu aldar og virðast í sjálfu sér ekki sérlega merkileg út af fyrir sig en eru mikilvæg og merkileg í þeirri bæjarmynd sem við elskum og ferðamennir koma til þess að sjá og upplifa.

Hér er brotið blað í skipulagsmálum í Reykjavík hvað verndun húsa og byggðarmynstur varðar. Borgaryfirvöld sýna hér í fyrsta sinn svo eftir sé tekið að þeim er annt um borgina okkar, staðaranda hennar og einkenni. Þau reyna hér að standa í lappirnar með hagsmui heildarinnar að leiðarljósi.

Það er auðvitað komin tími til. Borgaryfirvöld hafa undanfarið dregið lappirnar hvað þetta varðar undanfarin ár eða hitt sem er líklegra haft við ofurefli að etja.

Þetta er ekki létt verk fyrir kjörna fulltrúa okkar í borgarstjórn. Andstæðingarnir eru oft öflugir fjáraflamenn, löngu úr sér gengin deiliskipulög og síðast en ekki síst ráðgjafar landeigenda og jafnvel borgarinnar sjálfar, skipulagshöfundarnir sem unnið hafa þessi deiliskipulög fyrir landeigendur og oft fyrir borgina sjálfa. Og það versta er, eins og margoft hefur verið bent á þá hafa þessir ráðgjafar stundum leikið tveim skjöldum. Deiliskiulagt fyrir borgina og almannahafsmuni og samtímis eða í beinu framhaldi hannað byggingarnar með sérhagsmuni landeigenda að markmiði.

Það gengur auðvitað ekki og ætti að banna.

En til hamingju Reykvíkingar að okkar kjörnu fulltrúar hafi nú loks spyrnt við fótum með það að markmiði að vernda og varðveita staðaranda Reykjavíkur og séreinkenni hennar.

+++++

Myndirnar sem fylgja voru teknar í dag af umræddum húsum.

Sjá einning eftirfarandi færslu:

Niðurrif eldri húsa í Reykjavík

IMG_6947

IMG_6948

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.9.2016 - 10:57 - 2 ummæli

Ásmundur Sveinsson og byggingalistin.

c503759a0e3930ea3ec02dc8cb1f9765

„Ég vildi óska þess að skólarnir ynnu mikið að því að opna augu mannverunnar svo þau gætu notið þess sem þau sjá og fundið til ef eitthvað er heimskulega unnið eða vitlaust gert“.

Þetta sagði Ásmundur Sveinsson myndhöggvari  sem var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Hann var þeirrar skoðunar að listin ætti heima hjá fólkinu sjálfu sem hluti af landslagi borgarinnar og honum var annt um að á Íslandi byggðist borg sem væri bæði „praktísk og falleg“.

Nýlega var sýndur sjónvarpsþáttur á RUV um Ásmund Sveinsson (1893-1984) myndhöggvara undir heitinu „Íslendingar“. Í þættinum fjallar Ásmmundur nokkuð um byggingar og byggingalist. Ég leyfi mér að drepa á nokkrum atriðum, orðrétt.

Ásmundur var sannfærður um að það væri ómögulegt að leggja stund á abstraktlist án þess að áhugi fyrir byggingarlist sprytti fram. Hann vildi opna augu Íslendinga fyrir umhverfi sínu og að Reykvíkingar hefðu skoðun á því hvernig borg þeir byggðu.

Íslendingar geta rifist um vísur — en ekki götur og hús

„Í því sambandi hef ég verið dálítið svæsinn,“ sagði Ásmundur í sjónvarpsviðtali við RÚV 1970. „Ég hef verið að segja að Íslendingar eru bókaormar; þeir geta rifist um vísu og geta eytt mörgum dálkum í blöðum um hvort vísan sé rétt kveðinn, eða kannski bara alls ekki kveðin. Það er náttúrulega allt í lagi, ég vil hafa góðar vísur.

En hafa þeir ekki auga fyrir því að nú er verið að byggja nýja borg hér og eyða mörgum milljónum í það? Það er aldrei rifist um götur og hús í blöðunum. Ég vil láta vera krítik á þessu! Þegar arkitekt gerir gott, þá á að hæla honum, en ef hann gerir vont, þá á að húðskamma hann. Þetta er ekki gert! Og af hverju? Af því að fólki er sama hvað það sér. Það er ekki búið að opna augun fyrir því að við erum að skapa hér bæ, sem við eigum öll.“

Ásmundur sagði að ábyrgð þeirra sem komu að uppbyggingu Reykjavíkur væri mikil gagnvart komandi kynslóðum.:

„Ég held að það þurfi bæði í skólum og víða bara að koma við þetta, að maður hafi nautn af að gera fallegan bæ og praktískan,“ sagði hann í sama viðtali. „Ég er alveg handviss um að næsta kynslóð krítíseri þennan bæ miklu meira heldur en einhverja vísu, hvort hún sé illa kveðin eða alls ekki kveðin. Því þetta þýðir svo mikið í framtíðinni. Það er framtíðin sem á að taka við þessum bæ og okkar villur verða áreiðanlega reiknaðar.“

 

++++++++

Hér er tengill að umfjöllun RUV

http://ruv.is/frett/ef-arkitekt-gerir-vont-tha-a-ad-hudskamma-hann

++++++++

Torbergur-Tordarsson-Espera1

Ég leyfi mér að vitna aftur í textabút úr Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson (1883-1974) sem var af sömu kynslóð og Ásmundur Sveinsson.

Gömlu mennirnir voru greinilega mjög áhugasamir um byggingalist.

“Allir Íslendingar kunna að lesa bækur.

En hversu margir kunna að lesa hús?

Það er meiri íþrótt að kunna að lesa hús en að geta lesið bækur.

Húsið er hugsun, sem hefur hæð, lengd og breidd.

Bókin er vöntun á hugsun, sem aðeins hefur lengd.

Húsið er sannleikurinn um líf kynslóðanna.

Bókin er lygin um það”.

++++++

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.9.2016 - 14:25 - 4 ummæli

Guðrún Jónsdóttir arkitekt, 1935 -2016

AR-706109971

 

Guðrún Jóns­dótt­ir arki­tekt og heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands lést á Land­spít­al­an­um við Hring­braut 2. sept­em­ber sl., 81 árs að aldri.

Ég heyrði fyrst af Guðrúnu þegar ég var í námi í byggingarlist í Kaupmannahöfn þegar hún var kosin formaður Arkitektafélags Íslands árið 1971.

Í þá daga var allnokkur umræða um byggingarlist og skipulag í Arkitektafélaginu. Haldnir voru 6-8 félagsfundir árlega um ýmislegt sem snerti skipulags- og byggingarmál fyrir utan sjálfsögð hagsmunamál stéttar arkitekta.

Guðrún var áberandi í umræðunni, einkum hvað varðaði verndun eldri húsa og skipulagsmál. Hún var ástríðufull í sínum málflutningi og leyndi sér ekki ást hennar og umhyggja fyrir því sem vel var gert, hvort heldur það var gamalt eða nýtt.

Ræddar voru hugmyndir, húsafriðun og skipulag með málefnalegum hætti, lausnamiðað en alls ekki átakalaust. Einstakar byggingar voru einnig á dagskrá. Þetta voru fróðlegir fundir og afar skemmtilegir. Maður missti helst ekki af einum einasta fundi.

Það sem vakti sérstaka athygli mína á þessum fundum var málflutningur eldri kynslóðarinnar sem var lausnamiðaður og veitti sterka viðspyrnu í mörgum málum. Þar var málflutningur Guðrúnar Jónsdóttur engin undantekning. Hún var ástríðufull og tilfinningarík og flutti mál sitt með festu og faglegum rökum og var fylgin sér.  Tekist var á um þéttingu byggðar og margt fleira. Hún slakaði aldrei á þessum einlæga áhuga sínum og þátttöku í umræðunni. Ég heyrði síðast í henni í viðtali í þætti Lísu Pálsdóttur, Flakk, núna snemmsumars þar sem hún ræddi skipulag Landspítalans af hógværð og festu. Viðtalið var tekið við sjúkrabeðið á Landspítalanum þar sem hún lést.

Guðrún var ráðin forstöðumaður Þróunarstofnunar Reykjavíkur og í framhaldi Borgarskipulags Reykjavíkur 1980­‑1984. Á þessum tíma beitti hún sér fyrir þéttingu byggðar vestan Elliðaáa og vildi draga úr útþenslu borgarinnar, það gerði hún þó með öðrum hætti en við erum að kynnast þessa dagana.

Þarna var lagt upp með lága, þétta byggð inni á vannýttum reitum borgarinnar. Ég nefni Suðurhlíðar og svæðin við Vesturbrún og Austurbrún og skipulag og samkeppni um lága, þétta byggð við Frostaskjól o.fl.

Íbúðabyggð var henni hugleikin enda nam hún list sína á Konunglegu dönsku Listaakademíunni hjá færustu mönnum á Norðurlöndum á þessu sviði, professorunum Viggo Möller-Jensen og Tyge Arnfred.

Eitt var þó verkið sem því miður náði ekki fram að ganga en það var endurskipulagstillaga hennar í Skuggahverfinu þar sem lögð var áhersla á sjálfsprottið umhverfi þar sem verndun eldri húsa var veitt verðskulduð athygli.

Ég hef aldrei séð þetta skipulag en Guðrún bauðst til að sýna mér það við tækifæri og skýra út. Þetta tækifæri hefur nú runnið mér úr greipum sökum sinnuleysis af minni hálfu. En ég hef á tilfinningunni að faglegur metnaður Guðrúnar í þessu verki og festa hennar og trúnaður við þau faglegu gildi sem að þessu skipulagi lágu hafi kostað hana stöðuna, að hluta til að minnsta kosti.

Það er vissulega missir að arkitektum eins og Guðrúnu sem var ástríðufull í allri sinni framgöngu í skipulags- og byggingarmálum.

Blessuð sé minning hennar.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2016 - 12:25 - 14 ummæli

Hallgrímskirkja v.s. Grundtvigskirkja

Ibsen_1

Grundtvigskirkjan í Kaupmannahöfn og Hallgrímskirkja í Reykjavík eiga margt sameiginlegt.

  • Þær eru báðar reistar í nafni helstu sálmaskálda landanna, prestanna Hallgríms Péturssonar á Íslandi(1614-1674) og N.F.S. Grundtvigs í Danmörku (1783-1872).
  • Þær eru báðar byggðar á hæð, Bispebjerg og Skólavörðuholti.
  • Þær eru báðar byggðar á tuttugustu öldinni og eru gegnheilar. Það er að segja að sama efni og áferð er utan á kirkjunum og innan.
  • Þær eru báðar gotneskar í aðaformmáli en sækja innblástur í aðstæður á staðnum. Grundtvikskirkjan í hefðbundinn danskan arkitektúr og Hallgrímskirkja að hluta til í íslendskt landslag (!).
  • Þær eru báðar sterk kennileiti þar sem þær standa umkringdar tiltölulega lágri byggð.
  • Báðar hafa þær inngang sem veitir að götu með lágreistum húsum.
  • Þær eru báðar þrískipa.
  • Þær eru báðar hannaðar af sterkustu arkitektum sinnar kynslóðar, Guðjóni Samúelssyni (1887-1950) og P.V.J Klint (1853-1930). Kaare Klint sonur Jensen Klint (1888-1954) kláraði bygginguna fyrir föður sinn, en hann var jafnaldri Guðjóns.
  • Kirkjurnar voru báðar lengi í smíðum. Það var byrjað fyrr á Grundtvigskirkju eða árið 1921 eftir samkeppni sem haldin var 1912-13 og smíðinni lauk 1940. Byrjað var á Hallgrímskirkju 1945 0g var hún vígð 1986.
  • Kirkjurnar tvær eru álíka langar, Grundtvigskirkja er 70 metrar og Hállgrímskirkja er  69 metrar.
  • Kirkjurnar eru svipaðar að stærð. Hallgrímskirkja er 1676 m2 að flatarmáli  og manni sýnist að Grunndtvigskirkja sé svipuð að stærð, kannski aðeins stærri. Margir telja Hallgrímskirkju stærstu kirkjuna á Íslandi. Það stendur meira að segja á nokkrum Wikipediasíðum og ferðabæklingum. Því fer víðs fjarri, Grafarvogskirkja er langtum stærri í fermetrum talið eða  2890 m2. Sennilega eru sætin eitthvað fleiri í Hallgrímskirkju sem er auðvitað líka mælikvarði.

það sem greinir kirkjurnar að er bísna margt og hallar þar oft á Hallgrímskirkju nema kannski það að Hallgrímskirkja er sennilega þekktari en Grundtvigskirkjan í Danmörku.

Grundtvigskirkja sver sig í hefðirnar í danskri byggingalist meðan Hallgrímskirkja er meira svona „kjúriositet“ svipað og verk Gaudis í Barcelona. Ekki endilega góð byggingalist en forvitlileg og jafnvel skemmileg og með fallega vinkla á nokkrum stöðum. Gaudi í Barcelona og Hallgrímskirkja í Reykjavík laða að sér ferðamenn.

Hjálagt eru nokkrar ljósmyndir af Grundtvigskirkju sem var byggð úr viðhaldsfríum gulum dönskum múrsteini samkvæmt aldagamalli hefð og tvær af Hallgrímskirkju sem er byggð úr steinsteypu sem var skigreind sem „varanlegt efni“ um miðja síðustu öld en er það auðvitað ekki eins og dæmin sanna.

Maður veltir fyrir sér hvort Guðjón Samúelsson hafi sótt innblástur til kollega síns í Danmörku þegar hann lagði drögin að helsta kennileiti Reykjavíkurborgar, Hallgrímskirkju.

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

 

Rune_Brimer

Inngangur Gruntvigskirkju er þrí skiptur eins og turninn, faðirinn, sonurinn og hinn heilagi andi. Súlnaskipan innandyra er einnig með skýrskotun til dulinnar þekkingar.

Ibsen_2

Hliðarskip Grundtvigskirkju.

Ibsen_4

Miðskip Grundtvigskirkju.

1380371_4699874234199_379070906_n

Miðskip Hallgrímskirkju.

 9_-Hallgrímskirkja

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.8.2016 - 10:37 - 24 ummæli

Niðurrif eldri húsa í Reykjavík

photo 5

Aldrei hafa jafn mörg hús í Reykjavík verið rifin á jafn stuttum tíma til þess að vikja fyrir nýbyggingum og undanfarin misseri.

Þetta er auðvitað tímaskekkja. Þetta er verklag sem ekki er notað lengur þar sem ég þekki til. Menn eru almennt hættir að vinna svona í gömlum borgarhlutum.

Á flestum öðrum stöðum eru gömlu húsin endurnýjuð, aðlöguð nútímaakröfum og nýrri starfssemi þegar það þá við. Það er byggt við þau í samræmi við það sem fyrir er og eins og aðstæður gefa tilefni til. Fólki þykir vænt um borgirnar sínar og umhverfið.

Mér hefur verið sagt að meira en 70% af vinnu arkitekta í Frakklandi gangi út á þetta; Að endurnýja og  aðlaga eldri hús að samtímanum og nýum hlutverkum þeirra.

Hér á landi er þetta sennilega nálægt 4%. Hin 96% arkitekta vinna við að byggja nýtt. Oft á lóðum þar sem gömul hús  stóðu fyrir. Og gildir, að því er virðist, einu hvort þau séu friðuð og falleg. Menn virðast ekki leggja mat á gersemin. Þeir virðast helteknir af nýbyggingarfíkn.

+++

Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að nú vinnur Skipulagsráð Reykjavíkur að því að 117 ára gamalt friðað hús við Veghúsastíg í Reykjavík verði rifið.

Þetta er merkilegt sögufrægt, lítið og sérlega fallegt hús sem stendur fallega þar sem það er. Umhverfis húsið standa falleg timburhús og einn gamall steinbær að Klapparstíg 19, sem nýtur sérstöðu sinnar í krafti umrædds húss, Veghúsa. En Veghúsastígur dregur nafn sitt af þessu litla húsi sem er einungis um 30 m2 að grunnfleti.

Nú hyggja borgaryfirvöld á að samþykkja að friðað hús,Veghús við Veghúsastíg í Reykjavík, verði rifið. Það verður að líkindum rifið fyrir hagsmuni fjáraflamanna sem vilja ávaxta pund sitt.

Húsið sem gaf götunni nafn var byggt árið 1899 og er því 117 ára um þessar mundir. Þetta er sérlega fallegt hús sem gefur nærliggjandi umhverfi sterkt yfirbragð. Þetta litla hús er að stofni til um 30 fermetrar að grunnfleti með kjallara og risi.

Það verður eftirsjá af þessu húsi fyrir næsta nágrenni og Reykjavíkurborg alla.

++++

Þetta fallega sögulega litla hús sem myndin er af efst og neðst íærslnni hefur verið notað af útigangsfólki fengið að drabbast niður af ásetningi að því er virðist.

En af hverju vill borgin láta rífa friðað hús sem auk þess er sögulegt, fallegt og mikilvægt fyrir nærliggjandi umhverfi?

Ég veit það ekki og skil það ekki, en tel skýringuna vera að finna í gamalkunnu skipulags stefi sem svona mál festast stundum í.

Við gerð deiliskipulaga verða oft til aukinn byggingaréttur sem gengur kaupum og sölum. Bankar lána út á byggingaréttinn svipað og út á óveiddan fisk í sjónum.  Þetta endar svo með því að útilokað er að það borgi sig að kaupa húsin og gera þau upp vegna spáverðs og skulda sem vilja verða til í þessu ferli. Þegar þannig stendur á borgar sig ekki að halda húsunum við og þau eru sett í skammtímaleigu m.a. í þeim tilgangi að láta þau drabbast niður þar til þau verða nær ónýt.

Þessi ganga um þennan dimma táradal nær nánast alltaf fullum skilningi borgaryfirvalda sem ganga til liðs við fjáraflamennina í andstöðu við staðaranda Reykjavíkur og vilja mikils hluta borgarbúa.

Þetta er einmitt tilfellið hér þegar Veghús eru á dagskrá. Húsið var látið drabbast niður og svo er það látið víkja fyrir nýju deiliskipulagi.

Þarna leggjast allir, að því virðist, á eitt til þesss að losna við þetta ágæta, fallega friðaða hús. Eigendur vilja ávaxta pund sitt og njóta velvilja og stuðning borgarskipulagsins til að ná sínu fram. Allt á kostnað arfleifðarinnar, staðarandans og almannahagsmuna.

++++

Ég gerði mér ferð niður á Veghúsastíg til þess að geta lagt mat mitt á húsið og umhverfi þess og sá strax að hér er sorglegt lítið slys í uppsiglingu, sem er hluti af miklu stærra máli þar sem  sterk öfl ráða ferðinni og   eru að verki í miðborg Reykjavíkur innan Hringbrautar.

Á þrem svæðum sem eru innan við 200 metrum frá Veghúsastíg 1. hafa undanfarið verið rifin niður fjöldi ágætra bygginga til þess eins að auka nýtingu lóðanna og byggja hagkvæmari og söluvænlegri hús fyrir eigendur fasteignanna.

Að neðan koma myndir sem ég tók á símann minn af þessum svæðum.

 

photo 1

Á lóð á horni Hverfisgötu og Frakkastígs stóðu að mig minnir þrjú hús sem nú eru horfin.

photo 2

Lóðum við Frakkastíg milli Laugavegar og Hverfissgötu hafa verið sameinaðar í nýju deiliskipulagi frá árinu 2013. Þarna voru rifin 6-8 hús sum um 100 ára gömul. Í staðin kemur nýbygging sem ég átta mig ekki á hvernig mun líta út.

 

photo 4

Hér á lóðunum umhverfis stórhýsi Sindra að Hverfisgötu 42  er verið að breyta í samræmi við deiliskipulag frá 2015.  Þarna stóðu ágæt hús sem nú eru horfin.

fr_20160407_036298-640x360

Hér er svo í lokin þekkt dæmi um niðurrif nú i sumar þar sem allnokkur hús voru látin víkja fyrir nýbyggingum. Þeirra á meðal eitt sem samkomulag var um að látið væri standa. Þetta er hinn svokallaði Naustareitur á mótum Tryggvagötu, Norðurstígs og Vesturgötu.

Hér í blálokin koma svo tvær myndir af steinbænum að Klapparstíg 19,  og Veghúsum sem mætast á opnu svæði til suðvesturs á horni Veghúsastígar og Klapparstígs.

photo 2

 

photo 1

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn