
Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlýtur Evrópsku Menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleiðar/ Europa Nostra verðlaunin 2016
Evrópusambandið og Europa Nostra tilkynntu þann 7. Apríl s.l. að Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlyti Evópsku Menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleifðar fyrir árið 2016. Sigurvegurum verður formlega afhent verðlaunin við sérstaka athöfn, sem leidd verður af Tibor Navracsics og Plácido Domigo, kvöldið 24 Maí í sögulega Zarzúela leikhúsinu í Madríd.
Við endurnýjunina sem hófst árið 2009 var mikil virðing borin fyrir upphaflegum efniviði og handverki. Notað var timbur úr gamla húsinu eins og hægt var og gömlu handverki.
Þegar það er haft í huga að um 70% arkitekta í t.a.m Frakklandi vinna að endurbyggingum eldri húsa en einungis milli 2-4% hér á landi verður það að teljast stórviðburður að íslendingum hlotnast virðulegustu verðlaun á sviði endurbygginga eldri húsa í álfunni. Einkum vegna þess að hér á landi er almennt lítil virðing borin fyrir menningararfleifðinni þegar kemur að gömlum húsum. Jafnvel þó að einungis 0,3% húsa í Reykjavík séu t.d. frá árinu 1907 eða eldra veigra menn sig við að leggja í endurnýjun þeirra fáu húsa sem til eru. Þeir vilja frekar rifa þau!
Þessi verðlaun efla vonandi skilning almennings og stjórnmálamanna á mikilvægi menningararfleifðarinnar fyrir samfélagið og hagkerfið. Endurbygging gamalla húsa byggir brýr á milli nútímans, framtíðarinnar og fortíðarinnar. Ekki veitir af. Manni virðist sem núverandi kynslóð hér á landi botni ekkert í þessu þegar horft er til niðurrifs húsa hér í Reykjavík að undanförnu.
Ég hef jafnvel heyrt arkitekta flokka kollega sína í annarsvegar verndunarsinna og hinsvegar uppbyggingasinna eins og um sé að ræða andstæðinga þar sem verndunarsinnar eru vondir og uppbyggingasinnar góðir og bjartsýnir. Þetta er hinn mesti misskilningur sem ber vott um þekkingarleysi og/eða skort á umburðalyndi.
Evrópusambandið og Europa Nostra benda á það augljósa að húsavendun ýtir undir hagvöxt, eflir sjálfbæra þróun og hvetur til félagslegrar þátttöku, samfélagslegrar ábyrgðar og samheldni – sem skiptir meira máli nú, en nokkurn tíma áður.
Þetta þurfa íslenskir arkitektar og stjórnvöld að átta sig á. Endurnýjun eldri húsa og húsavernd er talin hluti af „Skapandi Evrópa“ (e. Creative Europe) verkefninu og skiptir miklu máli varðandi alla uppbyggingu og jákvæða og þroskandi menningu meðan niðurrif er nánast ekkert annað en ómenning í flestum tilfellum.
++++++
Hér kemur hluti úr dómnefndarálitinu eins og það kom fram í frettatilkynningu:
Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði
„Verkefnið fólst í endurbyggingu og flutningi Franska spítalans til Fáskrúðsfjarðar þar sem hann var upprunalega byggður. Auk spítalans voru kapella, sjúkraskýli og Læknishús á sama stað, sem einnig voru gerð upp eða endurbyggð. Nafn spítalans má rekja til stofnunar hans árið 1904 til að sinna fjölda franskra sjómanna sem veiddu við strendur Íslands í um 400 ár. Við upphaf síðari heimstyrjaldarinnar hættu þeir siglingum til Íslands. Þrátt fyrir tilraunir bæjarfélagsins til að halda spítalanum gangandi var honum fljótt lokað og húsið flutt yfir fjörðinn og breytt í íbúðarhús. Árið 1980 var húsið endanlega yfirgefið og lagðist í eyði. Uppbyggingarverkefnið, sem hófst árið 2009, fólst í samstarfi arkítekta, verkfræðinga og handverksmanna Minjaverndar og innan bæjarfélagsins undir stjórn Minjaverndar.
Þetta var stórt verkefni með það að markmiði að endurlífga þetta markverða tímabil í sögu bæjarfélagsins með því að breyta spítalanum í hótel og safn til minningar um hinn mikla fjölda sjómanna sem fórust við strendur Íslands og á spítalanum. Virðing var borin fyrir upprunalegum efniviði og handverki við endurbyggingu hússins, timbur úr gömlu byggingunni var endurnýtt og gömlu handverki beitt til hins ítrasta. “Verkefnið endurvekur ákveðið tímabil í Evrópskri sögu með því að rifja upp þessa tengingu milli Frakklands og Íslands. Samstarfshópurinn hefur lagt sig fram um að varðveita þessa merku og viðkvæmu byggingu sem og hina áhugaverðu arfleifð sem hún stendur fyrir“, sögðu dómarar verkefnisins.
“Endurgerð byggingar eins og Franska spítalans fyrir ólíka starfsemi er vandasamt verk. Úrlausn og úrræðasemi samstarfshópsins er sérlega góð. Sú ákvörðun að blanda saman upplýsandi safni og fallegu hóteli er mark um virðingu hópsins fyrir sögu hússins og áherslu þeirra á að auka aðgengi allra að arfleifð hennar.“ Byggingin er staðsett í stórbrotnu og fallegu landslagi Fáskrúðsfjarðar og hefur laðað ferðamenn að þorpinu og þar með endurvakið stöðu þess sem athvarf fyrir þá sem eru langt að heiman.“
++++
Það er ástæða til þess að óska þeim sem stóðu að verkinu til hamingju en þeir eru Þorstein Bergsson hjá Minjavernd, Arkitektarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson hjá arkitektastofunni ARGOS. Árni Páll Jóhannesson setti upp glæsilega sögusýningu í húsinu sem er hluti af verðlaunaverkefninu.
Sýning Árna Páls fjallar um fiskveiðar frakka sem hófust á Íslandsmiðum árið 1614 og stóðu yfir árlega fram að fyrri heimsstyrjöld 1914. Talið er að um 400 skútur hafi farist á Íslandsmiðum á einni öld frá 1810 til 1914. Allur aðbúnaður sjómannanna var hörmulegur.
Færslunni fylgja frábærar ljósmyndir sem teknar voru af Guðmundi Ingólfssyni hjá Ímynd. Efst er mynd af sýningu í húsinu sem unnin er af Árna Páli Jóhannesson Að neðan koma svo nokkrar ljósmyndir innan úr byggingunu og frá því þegar endurbyggingin átti sér stað.
+++++
Þarna er í raun um að ræða þyrpingu húsa með spítalanum, læknishúsinu, kapellu og líkhúsi. Allt umhverfi og bryggjan eru til fyrirmyndar.

Í þessum gömlu húsum er efniskenndin og handverkið áþreyfanlegt. Maður sér pensilstrokur málarans og spónafar trésmiðsins.
Það er í sjálfu sér upplifun að gista á hótelum sem þessum. Það þekki ég frá Flatey á Breiðafirð þar sem sömu aðilar hafa staðið að uppbyggingu og hóteli í á annað hundrað ára gömlum húsum. Maður sér þssa nálgun víða. Ég nefni Búðir á Snæfellsnesi þó það sé aðeins á annan hátt. Fyrir ferðamanninn er gistingin hluti af upplifuninni þegar svona er búið að þeim. Það er hún ekki þegar gestum er vísað í hin svokölluðu „gámahótel“ sem víða er boðið upp á og jafnvel látin ryðja gömlum húsum úr vegi.
Sjúkrahúsið er nú glæsilegt hótel. Ekki er annað að sjá en að hægt sé að koma fyrr nútimalegri hótelstarfssemi í aldagömlum húsum ef vilji og hæfileiki þeirra sem að standa er fyrir hendi. Maður veltir fyrir sér hvort ástæðan fyrir niðurifi eigi sér stað sé vegna hins gagnstæða; vilja- og hæfileikaleysi.
Kapellan
Hér er hluti hússins komið á örubíl og lagt af stað til Fáskrúðsfjarðar.
Ástand hússins var ekki gott þegar hafist var handa. En ljóst er að það var hvergi nærri því að vera onýtt.

Sagt hefur verið að arkitektarnir hjá ARGOS teikni „með hjartanu“
Í læk sem liggur meðfram húsunum til sjávar hefur verið komið fyrir allnokkrum sæbörnum hnullungum þar sem kappað hefur verið í nöfn nokkurra þeirra skipa sem fórust við Íslandsstrendur á öldum áður.
