
Fyrir helgina var sagt frá niðurstöðu i samkeppni um nýtt hótel við Lækjargötu í Reykjavík. Húsið á að standa á horninu við Vonarstræti þar sem nú eru bifreiðastæði og byggingin sem Iðnaðarbankinn lét reisa yfir starfssemi sína fyrir hálfri öld. Tillagan gerir ráð fyrir að hús Iðnaðarbankans víki fyrir nýbyggingum. Sem er sennnilega óþarfi. Iðnaðarbankahúsið er þarna og gæti fært mikilvæga sögu áfram til komandi kynslóða.
Það er skemmst frá því að segja að tillögunni var afar illa tekið. Það vakti athygli mína að hinir mætustu menn voru jafnvel stóryrtir og vildu ekki sjá þessa byggingu á þessum stað. Uppnefndu tillöguna og kölluðu hana „kassagerðararkitektúr“ og þaðan af verra.
Hvernig ætli standi á því?
Sennilega er það vegna þess að mönnum þykir vænt um Lækjargötuna og telja hana eina merkilegustu götu borgarinnar. Það er sennilga líka vegna þess að fyrir nokkrum áratugum unnu aðgerðarsinnarnir í Torfusamtökunum sigur í baráttu sinni og komu í veg fyrir að gömul hús við Lækjargötu, Bernhöftstorfan, yrði rifin og ráðuneytisbygging kæmi í staðinn.
Menn muna líka eftir því að 1986 var samþykkt deiliskipulag fyrir Kvosina. Þar var mikil rannsóknarvinna lögð fram til þess að átta sig á anda staðarins og sögulega vídd Kvosarinnar. Niðurstaðan var sú að lagðir voru fram skýringaruppdrættir sem gáfu til kynna hvernig byggingar í Kvosinni og nágrenni hennar gætu litið út. Það var fundinn einskona arkitektóniskur samnefnari fyrir Kvosina. Þessar leiðbeiningar hafa haldið og margir vonuðust eftir að þær næðu yfir stærra svæði í framtíðinn. T.a.m. hafnarsvæðið allt norður að Hörpu.
Þriðja atriðið og það sem mestu máli skiptir í þessum framgangi í umræðu um arkitektúr og skipulag er að fólk almennt er farið að hafa meiri áhuga á efninu en verið hefur og hefur áttað sig á að umræðan og skoðanir þess skiptir máli. Það segir að umhverfið sé of mikils virði til að láta arkitekta, fjárfesta og stjórnmálamenn eina um málið.
Almennir borgarar eru í ört vaxandi mæli farnir að hafa skoðun á skipulags- og byggingarmálum og láta hana hiklaust í ljós.
Því ber að fagna.
+++++
Ég fyrir minn hlut hef ég nokkrar áhyggjur af þessari tillögu að nýju hóteli við Lækjargötu. Hún tekur ekki mið af þeim húsum sem fyrir eru í götunlínunni til beggja handa við húsið og húsanna handan götunnar. Hún tekur ekki mið af og þeim vísbendingum sem Kvosarskipulagið gaf fyrirheit um. Þá er ég ekki bara að tala um hæð hússins eða nýtingarhlutfall (sem er að sögn minna en deiliskipulagið leyfir).
Ég er að hugsa um arkitektóniska nálgun, gluggasetningu, efnisval, þök og fl. sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Heldur skynjar maður þetta, þetta er líka tilfinningamál eða innsæji sem ástæðulaust er að vanmeta. Tillöguna skortir tillitssemi og skilning á því andrými sem er að finna í götunni, andrými sem fólk vill viðhalda. Höfundarnir og dómnefnd virðast ekki hafa fylgst með umræðunni og/eða ekki hafa sama skilning á mikilægi götunnar og flestir þeir sem um þessi mál véla eða tekið þátt i umræðunni.
+++++
Efst í færslunni er skissa úr Kvosarskipulaginu frá 1986 sem hefur haldið að mestu allar götur síðan. Nokkur hús við Aðalstræti hafa verið byggð samkvæmt deiliskipulaginu. Líka nokkur nýju húsanna við Lækjargötu. Deiliskipulagið einkennist af tiltölulega grönnum byggingum sem mótast að vissu marki af gömlum lóðarmörkum.

Varðandi aukinn áhuga fólks á arkitektúr og skipulagi þá vek ég athygli á teikningu sem Magnea Guðmundsdóttir arkitekt hefur teiknað af því hvernig „endurlífga“ mætti lækinn sem er undir götunni og breyta götumyndinni eins og sjá má hér að ofan. Þetta er að vissu marki fortíðarþrá sem virkar, ef marka má reynslu víða um lönd.
Hugmyndin felur í sér að helmingi núverandi akstursleiðar verði breytt í eins konar síki eins og þekkt eru í ýmsum borgum. Þetta var gert með svipuðum hætti í Árósum í Danmörku með þeim afleiðingum að fasteignaverð hækkaði við götuna og mannlíf bættist verulega.
Þó Magnea hafi sett þetta svona fallega fram á hugmyndin sér langa sögu. Sennilega allt frá því að lækurinn var settur í stokk á sínum tíma en hann var þá a vissu marki opið klóak. En þarna rennur ekki lengur skolp. Deiliskipulag Kvosarinnar frá 1986 sem áður var nefnt tók á þessu og staðaranda Kvosarinnar allrar.
Að ofan er falleg hugmynd að byggingum á umræddum stað sem ég fann á netinu og var sett þar inn í tilefni umræðunnar um helgina. Ég veit ekki hvaðan hún er kominn eða hver er höfundurinn. Þarna sést hvernig húsin taka tillit til gamalla lóðarmarka í formi, efnisvali og/eða lit, sem tengir nýbygginguna við sögu staðarins og anda hans.
07.07.2008:
Það hefur nú verið upplýst að teikningin að ofan er skýringarmynd vegna deiliskipulags á reitnum. Deiliskipulagið var gert af THG arkitektum árið 2008.

Að ofan má sjá byggingar, nýjar og gamlar við Aðalstræti í Reykjavík. Þarna eru að mestu nýbyggingar sem ná frá Vesturgötu í norðri að Túngötu í suðri. Þetta eru nánast allt Hótel. Nyrstu húsin eru ný og byggð amkvæmt Kvosarskipulaginu frá 1986. Þá kemur Morgunblaðshöllin sem er vissulega stílbrot en segir samt sína sögu á sama hátt og hús Iðnaðarbamkans í Lækjargötu gerir þar. Sögu sem ástæðulaust er að þurrka út. Fast við Morgunblaðshúsið er hús Tryggingarmiðstöðvarinnar sem byggt er samkvæmt Kvosarskipulaginu. Næst kemur elsta hús Reykjavíkur sem er hluti Innréttinganna. Svo er það Ísafoldarhús Björns Jónssonar ráðherra.
Þá koma þrjú hús þar sem eitt er gamalt og tvö ný. Þau eru byggð samkvæmt sérstöku deiliskipulagi Grjótaþorps að ég held og teiknuð af Argos arkitektum. Nýtingarhlutfall þarna errúmlega 2. Öðru nýju húsanna hefur verið gefð útlit Fjalarkattarins sem var áður þar sem bygging Tryggingarmiðstöðvarinnar er nú. Svo er það gamalt hús sem þarna hefur verið í meira en 100 ár og loks nýbygging á horninu sem hefur turn sem er söguleg skýrsakotun til hússins Uppsala sem þarna stóð áður.
Svona á að byggja í 101


Að ofan eru tvær myndir af umræddri tillögu að hóteli við Lækjargötu. Það verður að segjast eins og er að sá sem þetta ritar þekkir tillöguna eingöngu af takmörkuðum upplýsingum sem komið hafa fram í fjölmiðlum um helgina.
——-
06.07.2015. kl 15:30. Hér er bætt við slóð að tillögunni og tilheyrandi greinargerð.:
http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/
++++
Að neðan koma svo aftur tvær teikningar af húsum við höfnina. Þau eru sama marki brennd og eru ekki sérlega reykvískar. Þessar byggingar „flétta sig ekki inn í borgarvefinn“ eins og Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt, hefur stundum orðað það við svipaðar aðstæður. Í mínum huga er þetta alþjóðlegur óstaðbundinn arkitektúr sem er óttalega leiðinlegur almennt séð ef leyfilegt er að alhæfa útfá þessum takmörkuðu upplýsingum. Þessar byggingar hafa ekki verið mikið í umræðunni og vekja ekki eins mikil viðbrögð og húsið í Lækjargötu. Sennilega vegna þess að fólki finnst ekki eins vænt um hafnarbakkann og Lækjargötu.

.jpg)
06.07.2015. jkl 15:30. Hér að neðan kemur síða úr deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 til glöggvunar. Hún sýnir útlit að Lækjargötu til austurs fyrir og eftir. Af einhverjum ástæðum er myndin teigð í hæðina. Ég bið afsökunnar á því.

++++
Skoða má tillöguna um hótelið við Lækjargötu á eftirfarandi slóð:
http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/
++++
Efst er mynd þar sem Birkir hefur gert í framhaldi af athugasemdinni við síðustu færslu og fellt gamla Iðnaðarbankahúsið inn í vinningstillöguna, þannig að saga götunnar og bankans er gefið áframhaldandi líf.
Þarna varpar Birkir með myndrænum hætti, sjónarmiði margra arkitekta og annarra, inn í umræðuna.
Ég þakka Birki Ingibjartsyni fyrir það.
Strax hér að neðan er tillaga sú sem verkkaupi kýs að byggja og neðst kemur svo mynd af Lækjargötunni áður en húsin sunnan við bankabygginguna brunnu. Í öðru þeirra bjó hinn ástsæli dómkirkjuprestur Sr. Bjarni Jónsson.