Þriðjudagur 11.8.2015 - 07:20 - 10 ummæli

Flatey og Halldór Kiljan Laxness

 

Place_337_2___Selected

Halldór Kiljan Laxness lætur eftirfarandi falla um Flatey á Breiðafirði í bók sinni Dagleið á Fjöllum (útg 1937):

+++

„Það var að morgni dags snemma í júní. Ég steig þá í fyrsta sinn á land í þessari yndisey þar sem öll mannverk höfðu yfirbragð fortíðarinnar, en náttúran svip hinnar eilífu fegurðar. Æðarkollurnar litu vingjarnlega til mannanna, og það var næstum hægt að taka þær í fang sér. Mér hefur alltaf síðan fundist hér ríkja annað tímabil en í öðrum hlutum heims; að þessi eyja sé utan við almanakið. Alltaf þegar ég stíg á land í Flatey síðan, finn ég þessa eilífðarkennd. Það er kannski af því að ég var svo ungur þegar ég kom hingað fyrst, að mér fannst ég sjálfur vera eilífur; að gista einn mánuð, tvo mánuði, á fallegum stað, aðeins til að mega liggja guðslangan daginn í þanginu og horfa á hreyfingar fuglanna og hlusta á kliðinn, það var eins og annar lítill greiði við sjálfan sig og allt aðrir dagar en nú, þegar maður kemur þreyttur af langferð til góðs vinar seint um kvöld og verður að leggja af stað í býtið að morgni – – – –

– – – –  Það eru liðin fimmtán ár.

Mér er aftur vísað á tvö vesturherbergin uppi á lofti í gesthúsinu eins og þegar ég kom hér fyrst. Það er aftur björt júnínótt eins og þá. Aftur horfi ég á þessi lágreistu rifluðu hús og hlýði á klið sjófuglsins fyrir utan gluggann eins og þá, hinir liðnu áhyggjulausu dagar tvítugsáranna koma til mín aftur, óendanlegir, án kvölds. Og ég finn allt í einu, að þessi kliður sjófuglsins er mér meira virði en öll heimsins tónlist, sem ég þó elska svo mikið. Kannski er þetta sjálf óskanna en þar sem sælan býr, þar sem tíminn líður ekki“

+++

Það hefur lítið breyst í Flatey og Vestureyjum síðan Halldór Kiljan Laxnes skrifaði þetta. Flatey er enn „utan almanaksins“,  hreyfing fuglanna og kliðurinn er sá sami og þarna standa þau enn „lágreist rifluð húsin“.

Mér er minnisstætt þegar ég var lítill drengur í Svefneyjum að maður tók æðarkolluna „í fangið“ af hreiðrinu og lagði hana til hliðar. Hún horfði á meðan maður tók hluta af dúninum, skygndi eggin, tók eitt eða tvö, lagaði svo hreiðrið til og lagði kolluna aftur á hreiðrið og gekk að næsta hreiðri.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/28/husin-i-flatey-i/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/06/21/hella-flatey-og-serkenni-stadanna/

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/12/09/ranakofinn-i-svefneyjum-elsta-hus-a-islandi/

 

http://www.ruv.is/sites/default/files/styles/1000x563/public/80122215.jpg?itok=Kd9dWl8t

 

flatey-660x330

 

https://ullarsokkurinn.files.wordpress.com/2011/05/kria1.jpg

http://www.skessuhorn.is/images/Mynd_1648239.jpg

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.8.2015 - 16:03 - 7 ummæli

Hörputorg og Hafnargarðurinn

Horpuborg jpeg

 

Það er sérlega ánægjulegt þegar „leikmenn“ tjá sig um arkitektúr skipulag og staðarprýði af þekkingu og ástríðu. Þetta er það sem við þurfum, almennan upplýstan notanda umhverfisins sem segir sína skoðun. Notandur sem eru gagnrýnir og lausnamiðaðir.

Arkitektúr og skipulag er allt of mikilvægt svið að það sé óhætt að láta arkitekta og stjórnmalamenn eina um málið.

 Einn þeirra leikmanna  sem eru virkir í umræðunni um arkitektúr og skipulag er Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir og prófessor sem skrifaði eftirfarandi grein í Morgublaðið fyrir nokkrum dögum. Þetta er athyglisverður og skemmtilegur lestur sem ég mæli með.

 

Hörputorg og Hafnargarðurinn?

París

Flestu fólki líkar vel við miðborg Parísar. Skyldi það vera tilviljun? Nei, ástæðan er sú að borgin var skipulögð með það fyrir augum að hún væri harmónísk, þ.e. að byggingar féllu að hver annarri með ákveðnu mynstri, sem George-Eugene Haussmann sagði fyrir um. Sem dæmi var ætlast til þess að byggingar sem stæðu hlið við hlið væru sex hæðir og svalir væru á 3. og 6. hæð. Verslanir á 1. hæð og góðar íbúðir fyrir ofan. Arkitektar og verktakar gátu ekki leyft sér, að byggja hvað sem þeim sýndist á úthlutaðri lóð.

Reykjavík

Reykjavík byggðist upp frá lokum átjándu aldar en eiginlegt götuskipulag varla fyrr en um 100 árum síðar. Vegna lágrar sólstöðu og skuggavarps voru menn framan af á því að hús ættu varla að fara yfir 3-4 hæðir. En hér var enginn Haussmann og er ekki enn þótt markir merkismenn hafi lagt til byggingasögu Reykjavíkur. Byggðin varð því sundurleit en samt nokkuð í samræmi við 4 hæða hugmyndina innan gömlu Hringbrautarinnar, sem hér er til umfjöllunar.

Verktakaskipulag

Eftir síðari heimsstyrjöld varð breyting og svo virðist sem vaxandi stefnuleysi hafi ráðið för en að verktakar hafi fengið að valsa frjálslega um. Verktakar tóku að byggja hús sem harmónera mörg hver ekki við umhverfið, þ.e. gömlu byggðina, auk þess sem ekki hefur verið gætt að því að tryggja mannlíf í miðborginni með brottflutningi verslunar og íbúa þaðan.

Mætti lesandinn ímynda sér hvernig Reykjavík liti út ef ekki væri Morgunblaðshöllin og nýbyggingar við hana, Landssímahúsið við Austurvöll, viðbótin við Útvegsbankahúsið (Héraðsdóm) og svarta furðuverkið á Lækjartorgi. Í staðinn væru lægri og smærri hús í samræmi við gamla umhverfið í kring. Ímyndið ykkur Ingólfstorg. Sá sem þetta ritar sér birtuna og sólina streyma inn í götur og torg ef ekki væru þessi hús. Hann fagnar því einnig, að endurbyggð voru gömul hús við Lækjartorg eftir brunann mikla og að forðað var niðurrifi gamalla húsa á mótum Skólavörðustígs og Laugavegar þar sem verktakar höfðu stórvaxnar hugmyndir. Á sama tíma jókst því miður skuggavarpið í Skuggahverfinu vegna nýrra háhýsa.

Hvar er Haussmann?

En áfram skal byggja og enn eru N.N. verktakar á ferð. Enginn veit hverjir þeir eru eða hver gaf þeim valdið. Þeir tilkynna bara fyrirætlanir sínar. Skipulagsyfirvöld og kjörnir fulltrúar almennings segjast engu ráða vegna furðulegrar skaðabótaskyldu gagnvart verktökunum. Hver leyfði kjörnum fulltrúum að gefa frá sér vald og ábyrgð? Birtar hafa verið myndir af fáránlegum hugmyndum að hóteli við Lækjargötu þar sem langeldurinn stóð. Og nú síðast birtist risavaxið deiliskipulag sunnan við Hörpu, sem augljóslega mun loka sjónlínum úr miðborginni að Hörpunni og Esjunni. Maður sýpur hveljur og veltir því fyrir sér hvort við Reykvíkingar getum virkilega ekki fundið einhvern Haussmann? Kaupstaðurinn á að vera fagur og mannvænn þótt vissulega þurfi að tryggja að hann sé ekki dautt safn gamalla húsa.

Tillaga

Á myndinni efst  er fyrirliggjandi deiliskipulag sunnan við Hörpu, ég kalla það Hörpuborg. Byggingarmagn Hörpuborgar er 62.000 fermetrar eða jafn stórt og fyrri áfangi fyrirhugaðra nýbygginga Landspítalans, sem sprengja á niður í gömlu Hringbrautina (annað byggingarslys í uppsiglingu, sem ég hef fjallað um áður og bent á lausn á). Ég er talsmaður þess að reist verði hótel við Hörpuna á norðvesturbakka lóðarinnar en tillaga mín er sú að ekki verði byggt austanvert á lóðinni frá Hörpu að Lækjartorgi og að svarta húsið á Lækjartorgi verði rifið. Holan við Hörpuna verði notuð að hluta til þess að hleypa Geirsgötu í stokk neðanjarðar/sjávar og undir hótelbygginguna eða komi upp sunnan við hótelið. Með þessum hætti myndast stórt torg, Hörputorg, sem væri gönguleið frá Hörpu alveg að Lækjartorgi og myndi kallast á við Arnarhól (sjá mynd 2) og myndi nýtast til mannfagnaða borgarbúa. Gamli hafnargarðurinn fengi að standa á Hörputorgi og etv yrði Lækurinn opnaður á ný. Útsýni að Hörpu og Esjunni og frá Hörpunni að Lækjargötu væri tryggt. Íhuga ætti að auki að minnka byggingarmagn á suðvesturhluta lóðarinnar og setja þar niður smærri og lægri byggingar. En stóru húsin, þ.m.t. höfuðstöðvar Landsbankans, verði utan gamla kaupstaðarins.

Höfundur er læknir, áhugamaður um fegurð og mannlíf í gömlu Reykjavík.

 

Horputorg jpeg2

 

HafnargarðurinnMynd 2. Holan við hörpuna yrði notuð fyrir Geisgötu sem yrði neðanjarðar og gamli hafnarkanturinn fléttaður inn í Hörputorg sem samnýttist Arnarhól.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.7.2015 - 17:00 - 9 ummæli

BRT – Samgönguás Reykjavíkur?

Indy-Connect_Explaining-BRT

Nú er fólk að stinga saman nefjum og velta fyrir sér hvaða samgöngukerfi henti fyrir samgönguás Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.

Nærliiggjandi er að skoða hefðbundinn strætó. En sennilega mun hann ekki standast væntingar.

BRT eða Bus Rapid Transit er samgöngukerfi sem byggir á svipaðri hugmynd og hin svokölluðu léttlestarkerfi nem að BRT ekki á teinum heldur venjulegum dekkjum og fer aðeins hægar. Þetta er mun ódýrara en léttlestarkerfin. Þetta eru í raun rafdrifnir fólksflutningabílar sem aka í sérrými og eru mjög afkastamiklir miðað við fjárfestingu. Miklu hagkvæmara en léttlestar. Engir teinar og engar loftlínur og umferðaljós eru styllt þannig að BRT er alltaf á grænu ljósi!.

Lagðar hafa verið fram hugmyndir að svipuðu kerfi þar sem ekið er eftir einni akrein í báðar áttir. Það er að segja að farartækin nota eina akrein nema stoppistöðvum sem eru einskonar brautarpallar þar sem þau mætast. Þetta kerfi er það aleinfaldasta sem ég ef heyrt um og að líkindum það langódýrasta.

Bæjaryfrvöld taka frá eina akrein á leið kerfisins.  Í Reykjavík væri það leiðin eftir samgönguásnum frá Vesturbugt að Keldum. Stoppistöðvar væru með um 7-800 metra millibili og á þeim mætast vagnarnir á mikilvægum stöðum á leið sinni í sitt hvora áttina.

Vagnarnir í kerfinu verði rafdrifnir og ekki er lengra milli vagna en 5 mínútur. Aðgengi er á sama plani og gangstéttarnar og vagnarnir taka við barnavögnum, hjólastólum og reiðhjólum. Og að sjálfsögðu með Wi-Fi þónustu.

Samgönguás aðalskipuags Reykjavíkur er sennilega merkilegasta einstaka nýjungin í því merkilega skipulagi og ég hef heyrt að borgin hyggist hefja vinnu við að útfæra hugmyndina nánar.  Aðalatriðið í þeirri hugmyndavinnu er að sníða sér stakk eftir vexti. Finna lausn sem samfélagið hefur efni á. Leita leiða til þess að koma á fót starfrænum, hagkvæmum og góðum almenningsflutningum milli skilgreindra tveggja höfuðpóla Reykjavíkurborgar sem byggir á sögulegum grunn,. Vesturbugt-Keldur.  Þannig væri hægt að skapa virka línulega borg á þéttasta svæði hennar og tengja restina af borginni þannig að allir verði í göngu eða hjólafæri við samgönguásinn.. Aðrir samgöngúásar tengdust svo þessum meginás eins og tilefni er til og þörf krefur og aðalskipulag og svæðaskipulag kallar eftir.

Byrja mætti á þvi að kaupa svona 8 litla rafdrifna almenningsvagna og hefja rekstur þeirra sem allra fyrst á þesari tæplega 9 km leið. Mikilvægt er að strax í byrjun verði boðið uppá þjónustustig sem er yfir væntingum sem svarar til þess að það komi vagn á um 5 mínútna millibili.

Ef þetta tekst vel verður ekki aftur snúið og fasteignaverð mun hækka meðfram samgönguásnum og íbúðahverfi í grennd munu blómstra með minni einkabílaumferð og skemmtilegra götulífi. Niðurstaðan yrði enn betri borg fyrir fólk.

 

 

Samgönguás

Hér að ofan er Google mynd þar sem samgönguásinn er lauslega teiknaður inn. Hann gæti legið frá Vesturbugt með fyrstu stoppistöð á Kalkofnsvegi sem er um 800 metrar þaðan. Svo yrði stoppað t. d. við Frakkastíg, Hlemm, Kringlumýrarbraut, Laugardalshöll, Glæsibæ, Skeiðarvog, Súðarvog Funahöfða og að lokum Keldur.

Þvert á þessa línu koma svo þveranis með öðrum almenningssamgöngum eins og sjá máað neðan  á uppdrætti úr nýlegu svæðaskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

 

Höfuðborgarsvæðið 2040

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.7.2015 - 00:06 - 8 ummæli

Betri stað fyrir betri spítala

adalskipulag_framhlid-3

Fljótlega eftir að ákveðið var að sameina sjúkrahúsin í Reykjavík var samin skýrsla um staðsetningu sameinaðs sjúkrahúss. Skýrslan var gefin út í janúar 2002 og er að mestu faglega unnin og til þess fallin að taka ákvörðun um staðsetningu við Hringbraut.

Síðan skýrslan var gefin úr hefur allt breyst í umhverfinu, hvort heldur varðar skipulagslegt umhverfi, félagslegt eða fjárhagslegt. Staðsetning sjúkrahússins við Hringbraut stenst ekki lengur þann veruleika sem nú blasir við 13 árum síðar.

Ástæðurnar eru margar. Nægir þar að nefna umferðamálin.

Á skipulagi sem stuðst var við árið 2002 voru fyrirhuguð göng frá Landspítalanum undir Öskjuhlíð með tengingu við Kringlumýrarbraut í Fossvogi, og áfram undir Kópavog og alla leið að Reykjanesbraut við Smáralind. Önnur göng áttu að koma undir Þingholtin með tengingu spítalans við Sæbraut nálægt Hörpu. Gert var ráð fyrir mislægum gatnamótum á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Leggja átti Miklubraut í stokk við Klambratún. Flugvöllurinní Vatnsmýri og starfsemi þar var snar þáttur niðurstöðunnar.

Nú liggur fyrir nýtt aðalskipulag Reykjavíkur þar sem allt þetta er lagt á hilluna.

Árið 2004 var samin önnur skýrsla. Þar segir m.a. „…besti kosturinn er án efa bygging nýs sjúkrahúss frá grunni en ef ekki verður ráðist í svo fjárfreka framkvæmd nú verður að skoða aðrar leiðir“. Útreikningar hafa sýnt að það er um 20 milljörðum ódýrara að byggja á nýjum stað en að endurnóta og byggja við núverandi húsnæði. Þar fyrir utan hagnast þjóðfélagið um milljarða á ári hverju við að flytja sjúkrahúsið nær þungamiðju búsetunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þriðja skýrslan sem stundum er nefnd kom svo í febrúar 2008. Sú skýrsla er rýr og byggir ekki á neinum tilgreindum gögnum sem vitnað er í. Það er fullkomlega óábyrgt að byggja ákvörðun um staðsetningu spítalans á henni.

Þegar gögn málsins eru skoðuð er því ljóst að skipulagslegar forsendur staðarvalsins eru að langmestu brostnar.

Áhyggjur þeirra sem telja að bygging nýs spítala geti tafist vegna endurskoðunar á staðarvalinu eru skiljanlegar. Slík endurskoðun er hinsvegar nauðsynleg og mun ekki seinka opnun sjúkrahússins þó að byggingaframkvæmdir hefðust nokkrum mánuðum síðar en nú er áformað.

+++++

Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu í gær.

+++++

Myndin efst í færslunni er  af Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024,  sem staðfest var 20. desember 2002. Þar má sjá þær umferðatengngar göng sem voru fyrirhugaðar þegar staðarvalsskýrslan frá 2002 var unnin og tengdust Landspítalanum. Ekkert stendur eftir af þessum áætlunum í aðalskipulaginu sem samþykkt var í fyrra.

Er það verjandi fyrir ráðherra heilbrigðismála, fjármála og umhverfismála að leyfa að framkvæmdir fyrir um 100 milljarða verði hafnar við Hringbraut á grundvelli þeirra gagna sem  liggja fyrir?

Nýtt faglegt stðarval verður að fara fram af óháðum aðilum þar sem tekið er mið af núverandi aðstæðum. Ef svo ólíklega vill til að niðurstaðan verði Hringbraut þá er rétt að haga framhaldinu í samræmi við það.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.7.2015 - 13:44 - 15 ummæli

Landsbankinn og borgarlandslagið.

 

Hagsmunagæslumenn almennings, þingmennirnir Elín Hirts og Gunnlaugur Þór Þórðarsson og margir fleiri hafa gert athugasemdir við fyrirætlanir Landsbankans um að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir bankann. Þau hafa fært ýmis siðfræðileg og hagræn rök fyrir því að þetta sé ekki skynsamlegt.

Í Fréttablaðinu í morgun svarar bankastjórinn Steinþór Pálsson fyrir hönd bankans  án nokkurra skipulagslegrar eða samfélagslegrar röksemdarfærslu. Hann segir einungis að fjarfestingin muni skila sér í reikninga bankans. Með öðrum orðum telur hann að fjárhagslegir hagsmunir bankans eigi að ráða för. Ekkert annað.

++++

Því er haldið fram að bankarnir hér á landi  hafi grætt um 500 miljarða frá endurreisn þeirra eftir Hrun.

Þetta er stjarnfræðileg upphæð.

Hún er svo stór að engin skilur hana.

Þetta jafnast á við um fimm fullbúna nýja Landspítala. Eða 15 þúsund meðalstórum íbúðum og enn aftur rúmlega einum meðal fjölskyldubifreið til allra fjölskyldna í landinu og meira en það o.s.frv.

Fyrirtæki sem svona er statt fyrir þarf að líta til samfélagsins.  Hugsa minna um eigin hag og meira til almennings.  Bankinn getur ekki lifað án samfélagsins en samfélagið getur vel komist af án Landsbankans.  Þess vegna þarf bankinn að sýna samfélagslega ábyrgð þegar svona stendur á.

++++

Ég ætla ekki  að hætta mér frekar inn á þessar brautir heldur líta til bankans í borgarlandslaginu og staðsetningu hans í tengslum við aðalskipulag borgarinnar.

++++

Eitt af því sem aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 gengur út á er að skapa meira jafnvægi í landnotkuninni þannig að draga megi úr umferð einkabifreiða og gera borgina sjálfbærari.

Bent hefur verið á að það eru of mörg atvinnutækifæri í vesturhluta borgarinnar og of lítið framboð af íbúðahúsnæði. Atvinnutækifærin eru flest vestan Kringlumýrarbrautar meðan búsetan er að mestu í austurhluta borgarinnar.

Aðalskipulagið bregst við þessu með þéttingu byggðar og fjölgun íbúða í vesturhlutanum og uppbyggingu íbúðahúsnæðis  á  Vatnsmýrarsvæðinu. Hún þarf til mótvægis að fjölga atvinnutækifærum austar í borginni. Hluti af lausn vandans er að  koma upp öflugum almenningssamgöngum frá Vesturbugt að Keldum sem stuðla að línulegri borg þar sem atvinnutækifæri og búseta yrðu fléttuð saman inn í borgarvefinn.

Fyrir 13 árum höfðu menn miklar áhyggjur af miðbörginni og töldu hana vera að slummast og deyja. Nú árið 2015 er hún orðin svo sterk að það þarf að huga að mótvægisaðgerðum. Dreifa álaginu varðandi verslun, skemmtanir og þjónustu. Færa tilboðin um atvinnutækifæri austar í borgina í tengslum við samgönguásinn um leið og íbúðum fyrir fólk sem býr í borginni verði fjölgað í vesturhlutanu: Kannski að Landsbankinn ætti að framselja lóð sína undir íbúðahúsnæði. Kannski sérhannað fyrir aldraða, einhleypa og námsmenn? Það er eðlilegt út frá samfélaginu og þróuninni að fjölga íbúðum við Austurhöfn og færa almenna skrifstofustarfssemi austar.

Landsbankinn gæti því haft höfuðstöðvar sínar áfram í sínu glæsilega sögulega húsi meðan stoðdeildir yrðu annarsstaðar.  Auðvitað er þetta ekki jafn hagkvæmt fyrir bankann og hann mun ekki græða eins mikið.  En fórnarkostnaðurinn kæmi samfélaginu, borgarlandslaginu og aðalskipulaginu AR2010-2030 til góða.

++++

Efst í færslunni er vinningstillaga BIG arkitekta og félaga að höfuðstöðvum Landsbankans sem var gerð fyrir Hrun. Að neðan er svo skýringarmynd af svæðinu við Austurhöfn.

++++

Það má bæta því við að þessi gamli banki, elsti banki landsins ætti frekar sitja sem fastast á sínum stað og hlúa þannig að sögu sinni í sínu merkilega gamla húsi við eina elstu götu borgarinnar.  Núverandi húsnæði bankans er líklega starfrænt ekki jafn hentugt og hugsanleg nýbygging. En ímynd bankans og það traust sem er samtvinnað gömlu byggingunni við Austurstræti er með þeim hætti að varla er metið til fjár.

Svo er sagt að þróuniní bankastarfssemi verði sú að ekki þurfi höfuðstððvar bankalengur  eins og við þekkjum í dag.  Talað er um lágverðsbanka („low cost banking“). Menn muni nota símann sin í ríkara mæli til þess að sinna bankaviðskiptum, svokallaða „mobile money“ sem dregur verulega úr kosnaði neytandans varðandi bankamviðskipti. Þetta hefur Thomas Möller fjallað um á Hringbraut.is og telur þessa þróun vera á leið hingað til lands.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.7.2015 - 16:44 - 16 ummæli

Lækjargata – Hin sögulega vídd

 

11665570_10207512092586131_3281059351348502681_n

Birkir Ingibjartsson er einn örfárra arkitekta sem taka þátt í almennri umræðu um skipulag og arkitektúr.

Það ber að þakka honum og þeim kollegum hans sem tjá sig opinberlega um þennan mikilvæga málaflokk.

Birkir  tjáir sig eins og flestir á málefnalegan hátt og er upplýsandi.

Hann hikar ekki við að leggja sínar hugmyndir fram til þess að lífga upp á umræðuna með það að markmiði að reyna að laða fram góða niðurstöðu í kjölfarið og ná sáttum ef þannig stendur á.

Í ummælum við síðasta pistil  á þessum vef segir hann m.a. um fyrirhugaðar byggingar við Lækjargötu:

„Að ætla byggja lægra en 4 hæðir á þessum stað væri sóun á afar góðu byggingarlandi og erfitt að mínu mati að réttlæta slíka stefnu. Meira byggingarmagn = meira fólk = sterkari miðbær.

Við götuna (Lækjargötu) standa nú bara eftir 2-3 hús sem eru lægri og því erfitt að sjá hver rökin fyrir því eru að temja hæð nýbygginga á þessum stað við 3 hæðir. Miklu raunhæfara væri að leyfa þessum lægri húsum að vaxa um 1-2 hæðir. Húsin hinum megin götunnar liggja nokkuð tilbaka frá götunni og sitja þar að auki ofar í landinu. Á milli hinna stærri húsa og þeirra smærri sem sitja ofar myndast því að mínu mati mun sterkara og jafnara göturými þar sem báðar hliðar götunnar talast á í stað þess þau sem ofar sitji drottni yfir þeim lægra settu…!

Það breytir því ekki að ég sé enga ástæðu fyrir því að leyfa ekki Bankanum að standa. Tillaga Glámu/Kím vitnar í raun til bankans með sínu uppbroti og því væri áhugavert að vita af hverju honum er ekki leyft að standa.

Ósk verkkaupa er mín ágiskun.

Ef bankinn fær að standa við hlið tveggja ~4 hæða nýbygginga verður uppbrotið mun sterkara og byggingin mun aðlagast mun betur að götunni auk þess sem hinni sögulegu vídd götunnar er haldið til haga og á lífi“

++++

Skoða má tillöguna um hótelið við Lækjargötu á eftirfarandi slóð:

http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/

++++

Efst er mynd þar sem Birkir hefur gert í framhaldi af athugasemdinni við síðustu færslu og fellt gamla Iðnaðarbankahúsið inn í vinningstillöguna, þannig að saga götunnar og bankans er gefið áframhaldandi líf.

Þarna varpar Birkir með myndrænum hætti, sjónarmiði margra arkitekta og annarra, inn í umræðuna.

Ég þakka Birki Ingibjartsyni fyrir það.

Strax hér að neðan er tillaga sú sem verkkaupi kýs að byggja og neðst kemur svo mynd af Lækjargötunni áður en húsin sunnan við bankabygginguna brunnu. Í öðru þeirra bjó hinn ástsæli dómkirkjuprestur Sr. Bjarni Jónsson.

 

821957

Reykjavik Laekjargata, anno 1962

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.7.2015 - 08:12 - 22 ummæli

Lækjargata – Fortíðarþrá?

 

Aðalstræti -1021

Fyrir helgina var sagt frá niðurstöðu i samkeppni um nýtt hótel  við Lækjargötu í Reykjavík. Húsið á að standa á horninu við Vonarstræti þar sem nú eru bifreiðastæði og byggingin sem Iðnaðarbankinn lét reisa yfir starfssemi sína fyrir hálfri öld. Tillagan gerir ráð fyrir að hús Iðnaðarbankans víki fyrir nýbyggingum. Sem er sennnilega óþarfi. Iðnaðarbankahúsið er þarna og gæti fært mikilvæga sögu áfram til komandi kynslóða.

Það er skemmst frá því að segja að tillögunni var afar illa tekið. Það vakti athygli mína að hinir mætustu menn voru jafnvel stóryrtir og vildu ekki sjá þessa byggingu á þessum stað. Uppnefndu tillöguna og kölluðu hana „kassagerðararkitektúr“ og þaðan af verra.

Hvernig ætli standi á því?

Sennilega er það vegna þess að mönnum þykir vænt um Lækjargötuna og telja hana eina merkilegustu götu borgarinnar. Það er sennilga líka vegna þess að fyrir nokkrum áratugum unnu aðgerðarsinnarnir í Torfusamtökunum sigur í baráttu sinni og komu í veg fyrir að gömul hús við Lækjargötu, Bernhöftstorfan, yrði rifin og  ráðuneytisbygging kæmi í staðinn.

Menn muna líka eftir því að 1986 var samþykkt deiliskipulag fyrir Kvosina. Þar var mikil rannsóknarvinna lögð fram til þess að átta sig á anda staðarins og sögulega vídd Kvosarinnar. Niðurstaðan var sú að lagðir voru fram skýringaruppdrættir sem gáfu til kynna hvernig byggingar í Kvosinni og nágrenni hennar gætu litið út. Það var fundinn einskona arkitektóniskur samnefnari fyrir Kvosina. Þessar leiðbeiningar hafa haldið og margir vonuðust eftir að þær næðu yfir stærra svæði í framtíðinn. T.a.m. hafnarsvæðið allt norður að Hörpu.

Þriðja atriðið og það sem mestu máli skiptir í þessum framgangi í umræðu um arkitektúr og skipulag er að fólk almennt er farið að hafa meiri áhuga á efninu en verið hefur og hefur áttað sig á að umræðan og skoðanir þess skiptir máli. Það segir að umhverfið sé of mikils virði til að láta arkitekta, fjárfesta og stjórnmálamenn eina um málið.

Almennir borgarar eru í ört vaxandi mæli farnir að hafa skoðun á skipulags- og byggingarmálum og láta hana hiklaust í ljós.

Því ber að fagna.

+++++

Ég fyrir minn hlut hef ég nokkrar áhyggjur af þessari tillögu að nýju hóteli við Lækjargötu. Hún tekur ekki mið af þeim húsum sem fyrir eru í götunlínunni til beggja handa við húsið og húsanna handan götunnar. Hún tekur ekki mið af og þeim vísbendingum sem Kvosarskipulagið gaf fyrirheit um. Þá er ég ekki bara að tala um hæð hússins eða nýtingarhlutfall (sem er að sögn minna en deiliskipulagið leyfir).

Ég er að hugsa um arkitektóniska nálgun, gluggasetningu, efnisval, þök og fl. sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Heldur skynjar maður þetta, þetta er líka tilfinningamál eða innsæji sem ástæðulaust er að vanmeta.  Tillöguna skortir tillitssemi og skilning á því andrými sem er að finna í götunni, andrými sem fólk vill viðhalda. Höfundarnir og dómnefnd virðast ekki hafa fylgst með umræðunni og/eða ekki hafa sama skilning á mikilægi götunnar og flestir þeir sem um þessi mál véla eða tekið þátt i umræðunni.

+++++

Efst í færslunni er skissa úr Kvosarskipulaginu frá 1986 sem hefur haldið að mestu allar götur síðan. Nokkur hús við Aðalstræti hafa verið byggð samkvæmt deiliskipulaginu. Líka nokkur nýju húsanna við Lækjargötu. Deiliskipulagið einkennist af tiltölulega grönnum byggingum sem mótast að vissu marki af gömlum lóðarmörkum.

 

Varðandi aukinn  áhuga fólks á arkitektúr og skipulagi þá vek ég athygli á  teikningu sem Magnea Guðmundsdóttir arkitekt hefur teiknað af því hvernig „endurlífga“ mætti lækinn sem er undir götunni og breyta götumyndinni eins og sjá má hér að ofan. Þetta er að vissu marki fortíðarþrá sem virkar, ef marka má reynslu víða um lönd.

Hugmyndin felur í sér að helmingi núverandi akstursleiðar verði breytt í eins konar síki eins og þekkt eru í ýmsum borgum.  Þetta var gert með svipuðum hætti í Árósum í Danmörku með þeim afleiðingum að fasteignaverð hækkaði við götuna og mannlíf bættist verulega.

Þó Magnea hafi sett þetta svona fallega fram á hugmyndin sér langa sögu. Sennilega allt frá því að lækurinn var settur í stokk á sínum tíma en hann var þá a vissu marki opið klóak. En þarna rennur ekki lengur skolp. Deiliskipulag Kvosarinnar frá 1986 sem áður var nefnt tók á þessu og staðaranda Kvosarinnar allrar.

Að ofan er falleg hugmynd að byggingum á umræddum stað sem ég fann á netinu og var sett þar inn í tilefni umræðunnar um helgina. Ég veit ekki hvaðan hún er kominn eða hver er höfundurinn. Þarna sést hvernig húsin taka tillit til gamalla lóðarmarka í formi, efnisvali og/eða lit, sem tengir nýbygginguna við sögu staðarins og anda hans.

07.07.2008:

Það hefur nú verið upplýst að teikningin að ofan er skýringarmynd vegna deiliskipulags á reitnum. Deiliskipulagið var gert af THG arkitektum árið 2008.

Að ofan má sjá byggingar, nýjar og gamlar við Aðalstræti í Reykjavík. Þarna eru að mestu  nýbyggingar sem ná frá Vesturgötu í norðri að Túngötu í suðri. Þetta eru nánast allt Hótel. Nyrstu húsin eru ný og byggð amkvæmt Kvosarskipulaginu frá 1986. Þá kemur Morgunblaðshöllin sem er vissulega stílbrot en segir samt sína sögu á sama hátt og hús Iðnaðarbamkans í Lækjargötu gerir þar.  Sögu sem ástæðulaust er að þurrka út. Fast við Morgunblaðshúsið er hús Tryggingarmiðstöðvarinnar sem byggt er samkvæmt Kvosarskipulaginu. Næst kemur elsta hús Reykjavíkur sem er hluti Innréttinganna. Svo er það Ísafoldarhús Björns Jónssonar ráðherra.

Þá koma þrjú hús þar sem eitt er gamalt og tvö ný. Þau eru byggð samkvæmt sérstöku deiliskipulagi Grjótaþorps að ég held og teiknuð af Argos arkitektum.  Nýtingarhlutfall þarna errúmlega 2.  Öðru nýju húsanna hefur verið gefð útlit Fjalarkattarins sem var áður þar sem bygging Tryggingarmiðstöðvarinnar er nú. Svo er það gamalt hús sem þarna hefur verið í meira en 100 ár og loks nýbygging á horninu sem hefur turn sem er söguleg skýrsakotun til hússins Uppsala sem þarna stóð áður.

Svona á að byggja í 101

821970

821957

Að ofan eru tvær myndir af umræddri tillögu að hóteli við Lækjargötu. Það verður að segjast eins og er að sá sem þetta ritar þekkir tillöguna eingöngu af takmörkuðum upplýsingum sem komið hafa fram í fjölmiðlum um helgina.

——-

06.07.2015. kl 15:30. Hér er bætt við slóð að tillögunni og tilheyrandi greinargerð.:

http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/

 

++++

Að neðan koma svo aftur tvær teikningar af húsum við höfnina. Þau eru sama marki brennd og eru ekki sérlega reykvískar. Þessar byggingar „flétta sig ekki inn í borgarvefinn“ eins og Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt, hefur stundum orðað það við svipaðar aðstæður. Í mínum huga er þetta alþjóðlegur óstaðbundinn arkitektúr sem er óttalega leiðinlegur almennt séð ef leyfilegt er að alhæfa útfá þessum takmörkuðu upplýsingum. Þessar byggingar hafa ekki verið mikið í umræðunni og vekja ekki eins mikil viðbrögð og húsið í Lækjargötu. Sennilega vegna þess að fólki finnst ekki eins vænt um hafnarbakkann og Lækjargötu.

 

06.07.2015. jkl 15:30.  Hér að neðan kemur síða úr deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 til glöggvunar. Hún sýnir útlit að Lækjargötu til austurs fyrir og eftir. Af einhverjum ástæðum er myndin teigð í hæðina. Ég bið afsökunnar á því.

Lækjargata 1986170

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.7.2015 - 11:06 - 6 ummæli

Betra Breiðholt í endurnýjun.

IMG_2727

Því hefur oft verið haldið fram að það eigi aldrei að rífa nein hús, heldur endurhæfa þau og aðlaga þörfum líðandi stundar, byggja við þau og/eða breyta.  Þetta á bæði við einstakar byggingar og skipulög.

Sagt hefur verið að hús og borgir séu eins og lifandi vefur, eins og tré.

Christopher Alexander sagði reyndar  „A CITY IS NOT A TREE“, sem er auðvitað rétt þó það sé líka rangt. Það er alltaf verið að byggja við hús og borgir, og tré eru alltaf að vaxa í ýmsar áttir út frá rótinni.

Nú er að hefjast endurbætur á efra Breiðholt sem  er um þessar mundir 45 ára gamalt. Stóra blokkin við Æsufell var samþykkt árið 1970.

Breiðholtið er nú í svokölluðu hverfaskipulagsferli.

Skipulagið gekk í upphafi út á að koma verslun og þjónustu fyrir inni við miðju hverfinu og raða íbúðahúsinum umhverfis.  Allt átti að vera í göngufæri og við hendina. Byggðin var þéttust næst þjónustunni og skólunum svipað og hefur tíðkast í borgum og bæjum um aldir.

En verslunarhættir breyttust með almennri eign einkabifreiða og verslun og þjónusta fluttist Úr íbúðahverfunum inn á iðnaðar- og hafnarsvæði. Þetta gerðist með velþóknun skipulagsyfirvalda. Við það losnaði húnæði á góðum stöðum víðsvegar í borgarlandslaginu. Líka í Breiðholti.

++++

Hér fylgja nokkrar myndir af aflögðu veslunarhúsnæði  sem breytt hefur verið á snilldarhátt í íbúðir.

Verkið er unnið hjá GP arkitektum af Guðna Pálssyni arkitekt. Myndirnar sem fylgja eru teknar Af Sigurgeir Sigurjónssyni ljósmyndara.

Breytingin á húsinu byggist á deiliskipulagi frá 2005. Þá mátti byggja 2 hæðir ofan á húsið, hafa 19 íbúðir og 13 bílastæði.  Á þessu ári fékkst  samþykkt breytt deiliskipulag og fjölga  íbúðum í 24 og bílastæði  sem áður voru undir húsinu voru ærð út fyrir bygginguna.

Húsið er steypt, neðsti hlutinn klæddur með steinsteyptum plötum 8 mm þykkar, sem eru sagaðar niður ( plötur 150×300 sm) og skrúfaðar á trégrind. Timburklæðning er grófhefluð fura lituð ljós. Furan er norrænn viður og á betur við hér á okkar slóðum en mahognílitaða klæðningin, sem hefur verið ansi mikið notuð hér á Íslandi. Allstaðar eru svalir  1.6m á dýbt með handriði úr hertu gleri.

Aðkoma að íbúðum er frá svalagangi að norðanverðu sem er ekki það besta sem menn kjósa en sennilega eini möguleikinn hér.

Þetta er mjög gott dæmi um hvernig nota má þær fjárfestingar sem fyrir eru til þess að endurnýja það umhverfi sem fyrir er og sýnir að óþarfi er að rífa allt og byggja upp á nýtt.

++++

Heimasíða GP arkitekta er þessi:  http://gpark.is/

IMG_2733

IMG_2730

IMG_2726

IMG_2728

Að neðan koma svo þrjár ljósmyndir af húsinu áður en hönnuðurinn kom að verkinu.

IMG_2734

 

IMG_2737

IMG_2736

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.6.2015 - 22:56 - 10 ummæli

Ártúnshöfði – Elliðaárvogur – Úrslit í samkeppni.

ellidahofn-c2-kort

Síðdegis í dag voru kynnt úrslit í humyndasamkeppni um rammaskipulag við Elliðaárvog, Ártúnshöfða og Bryggjuhverfi.

Það gladdi mig mjög að höfundar vinningstillögunnar sýndu skilning á þeirri heildarmynd sem aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 dregur upp. En ein sterkasta einstaka hugmynd í skipulaginu er samgönguás þess. En samgönguás aðalskipulagsins verður hryggjarstykki borgarinnar þegar fram líða stundir ef vel tekst til og mun binda hana saman sem eina línulega borg í stað þess að vera samansafn  af  sundurleitum úthverfum.

Samkvæmt AR2010-2030 á samgönguásinn að liggja frá Örfirisey austur að Keldum. Þarna er fyrirhuguð þétt almenningsumferð með háu þjónustustigi.  Það er ekki víst að þessi hugmynd nái fram að ganga nema skipulagsyfirvöld hlúi að henni við hverja einustu skipulagsákvörðun sem tekin er, stórar og smáar. Ég má til með að geta þess að í nýlegu deiliskipulagi við Austurhöfn var ekki tekið nægjanlegt tillit til hugmyndarinar. Það olli mér áhyggjum.

Vinningstillagan ryður braut fyrir þessa mikilvægu hugmynd mun betur en aðrar tillögur í samkeppninni og festir ásinn nánast í sessi verði hún að veruleika. Þetta er meira mál en margan grunar og jafnvel skipulagsfólk sér ekki það gríðarlega tækifæri fyrir borgina alla sem í honum felst að mér sýnist. Það sem einkennir vinningstillöguna er fyrst og fremst samönguásinn en  einnig  áhersla á lýðheilsu, sjálfbærni og vistvæna hugsun.

Tillagan skapar skýrar einingar í heildstæðu hverfi með margvíslegri útfærslu byggðarreita sem býður upp á fjölbreyttar húsagerðir sem að vísu mættu vera fjölbreyttari. Hún gerir ráð fyrir aðlaðandi og fjölbreyttum almenningsrýmum og góðu samspili sjávar, lands og byggðar. Og það mikilvægast er að í tillögunni er verslun og þjónust staðsett m.t.t. samgönguáss og í göngufjarlægð frá öllum íbúðum og atvinnutækifærum.

Vinningstillagan var unnin af Arkís arkitektum ehf, Landslagi ehf, Verkís hf með aðstoð Dr. Bjarna Reynarssonar og uppfyllti best og flest markmið aðalskipulags Reykjavíkur eins og segir í dómnefndaráliti.

Aðrir þáttakendur voru Batteríið arkitektar, Teiknistofan Storð, VSB verkfræðistofa.  Karl Kvaran, OLGGA ofl.  Gláma Kím, Kurt og Pí, Efla, Studio Vulkan.  Teiknistofan Tröð, Mannvit.

Samtals reiknar tillagan með u.þ.b. 816.200 m² viðbótarbyggingarmagni og 5100 íbúðum í 3-5 hæða húsum.

++++

Að neðan koma nokkrar áhugaverðar myndir sem fengnar voru á vef Reykjavíkurborgar. Á efstu myndinn sést skýrt hvar samgönguásinn mun liggja og hvar miðhverfi sjálbærs borgarhluta er myndaður á krossgötum. Hjólreiða- og göngustígur liggur liðlega um elliðaárósa inn í hverfið og í gegnum það.

+++++

Ég mæli eindregið með að lesendur kynni sér dómnefndarálitið og vinningstillöguna nánar sem finna má á eftirfarandi slóðum.

Álti dómnefndar 

Verðlaunatillagan

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/#comments

 

 

 

 

 

ellidahofn-06

fr_20150623_017853fr_20150623_017852

ellidahofn-tjorn

bryggja3Verðlaunahafar, dómnefnd ásamt borgarstjóra og formanni umhverfis- og skipulagsráðs: Matthildur Kr. Elmarsdóttir, Björn Ólafs, Egill Guðmundsson, Björn Axelsson, Sunna Kristinsdóttir, Magnea Guðmundsdóttir, Þráinn Hauksson, Guðjón L. Sigurðsson, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Darió Nunes, Björn Guðbrandsson,Svava Þorleifsdóttir, Gísli Rafn Guðmundsson, Dagur B. Eggertsson og Hjálmar Sveinsson.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.6.2015 - 12:47 - 11 ummæli

Nýr spítali á 173 dögum!

u00-fig2

Í lok nítjándu aldar var krafan um sjúkrahús í Reykjavík mjög hávær.

Þörfin var mikil.

Bæjarstjórn Reykjavíkur var tilbúin að leggja til fé en Alþingi ekki. Árið 1901 kom tilboð frá St. Jósefssystrum í Landakoti um að reisa og reka fullkomið sjúkrahús í Reykjavík. Alþingi tók því tilboði fegins hendi en vildi þó hvorki veita kaþólikkum styrk eða lán til verkefnisins. Spítalinn var reistur 1902 fyrir söfnunarfé frá Evrópu.

Margir höfðu horn í síðu systranna vegna trúar þeirra.

Hornsteinninn var lagður í upphafi framkvæmdanna þann 26 apríl 1902, reisugildi var haldið eftir 44 daga eða 9. júní 1902 0g húsið vígt, fullbúið og tekið í notkun 16. október 1902 eða réttum 173 dögum síðar.

Á þessum tíma voru engin rafmagnsverkfæri, engir kranar, engar tölvur og engin gæðakerfi. Í þessu samhengi veltir maður fyrir sér hvort maður hafi gengið götuna til góðs.

Spítalinn var stórhýsi á sínum tíma. Það var kjallari, tvær hæðir, og ris. Í upphafi voru 40 sjúkrarúm í byggingunni en fjölgaði ört eftir þörfinni. Spítalinn sem á horni Túngötu og Ægisgötu.

Þegar sjúkrahúsið var opnað bjuggu 7296 manns í Rykjavík en nú búa þar 122 þúsund eða 17 sinnum fleiri.

40 rúma sjúkrahús árið 1902 svarar til 686 rúma sjúkrahúss í dag.

+++++

Nú 113 árum síðar er verið að ræða staðsetningu nýs Landspítala og hefur sú umræða staðið nánast stanslaust í 13 ár.

Maður spyr sig hvernig standi á því?

++++

Efst er mynd af Landakotstúni, tekin milli 1920 og 1930. Frá vinstri eru Landakotsskóli,
prestbústaðurinn, spítalinn og Landakotskirkja sem síðar varð íþróttahús ÍR.
Sigurjón Jónsson bóksali tók myndina.

photo d

 

photo b

Landakotsspítali var stórhýsi á sínum tíma ens og má sjá á myndinni að ofan.

photo a

Að ofan er skemmtileg mynd sem tekin er á Túngötunni framan við spítalann. Takið eftir moldargötunni og girðingunum. Sennilega hefur fé gengið laust í borginni á þessum tíma.

Spítalinn var rifinn árið 1964.  Að neðan er mynd af rústum hans.

u00-fig4

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn