Þriðjudagur 4.2.2014 - 21:27 - 17 ummæli

Fléttað inn í landslagið.

P1000185

Hér kemur grein eftir Gunnlaug Baldursson arkitekt sem hefur starfað í Þýskalandi frá námslokum. Hann fjallar hér um afar áhugavert efni sem varðar okkur íslendinga sérstaklega nú þegar ferðaþjónusta er orðinn einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar.

 

Fléttað inn í landslagið

Nýlega fjallaði ég á Eyjunni um samhengi nýbygginga og borgarumhverfis („fléttað inní borgarvefinn“).  Þegar fjallað er um sama tema, samhengi bygginga og náttúru mætti mögulega ræða um arkitekta eins og Wright ,sem þróaði verkin út frá staðareinkennum og umhverfi,  höfundareinkenni voru honum ekkert sem máli skipti.

Ég vel annan veg og rýni í uppbyggingu á  eyju ,sem á ýmsan hátt  er hliðstæð Íslandi:

Upprunalegt landslag, engin iðnarþróun, engin vaxin borgmenning. Og mikil ásókn ferðamanna í upprunan og náttúruöflin eins og nú er óðum að vaxa á Íslandi.

En ef augum er bent að kanríeyjunni Lanzarote er hún gjörólík Íslandi varðandi skilning á byggingaformum. Eyjarbúar gerðu sér á réttum tíma grein fyrir  sambandi bygginga og landslags, hefðum og staðareinkennum. Heilsteyptur arkitektúr er ekki tilviljunarkenndur stíll, ekki hönnun egóista og fjárfesta og ekki tískufyrirbrigði eins og t.d. föt, bílar eða húsgögn.

Sameiginlegt átak samfélagsins er miklvægt fyrir samband bygginga og menneskjunnar.

Fyrir nokkrum áratugum var  eyjan svo til óþekkt eldfjallaland, þakið stórum svörtum sandi og hraunbreiðum, fátækt og líf erfitt. Ferðamenn,sem vildu njóta upprunalegrar náttúru og sjávarlofts, höfðu enga aðstöðu, sem jafnast á við þær kröfur,sem fjöldinn gerir.

Breytingin varð á örfáum áratugum og mest uppúr aldamótum framm að hruninu 2008. Allt nokkuð hliðstætt þeirri þróun, sem Ísland  er nú og næstu árin að ganga í gegnum. Og nýjasta dæmið um ferðamannamiðstöð við Selfoss bendir á, að  skilning á málefninu vantar almennt enn á Íslandi.

Allt lék á þunnum þræði

Þegar uppbyggingin á Lanzarote hófst uppúr 1970  var það gæfa, að réttur maður var til staðar.

Cesar Manrique , fæddur á eyjunni 1919,  nam málaralist og kvikmyndagerð (1945/68 í Madrid og New York). Þegar hann settist aftur að á eyjunni, um að bil sem uppbyggingin hófst, ákvað hann að taka virkan þátt í að sérkenni landsins og upprunaleg menning fengju að halda sér, þrátt fyrir „byltingu“ í móttöku ferðamanna. Í byrjun útþennslunnar gerðu fáir sér grein fyrir, að landslag, arkitektúr og  vaxinn menningararfur er dýrmæt eign, sem nú hékk á mjög þunnum þræði.

Með aðstoð vina hóf Manrique kerfisbundna rannsókn á einkennum og arfleið Lanzarote og birtust niðurstöðurnar í bók 1974: Lanzarote arquitectura inedita. Bókin undirstrikar það, að engin rök eru fyrir því að hverfa frá byggingarformum,sem þróuð voru útfrá staðháttaum í aldaraðir. Byltingar eru oftast ekki til heilla. Byggingamenning felst ekki síst í því, að virða náttúruna og rækta arfleiðina.

Manrique, er ekki arkitekt, en fær m.a. þau verkefni,að skapa nokkra staði, sem verka sem „aðdráttarafl“ fyrir eyjuna og ferðamenn.

Þau hús og hótel, sem verða til í hópi  samvinnumanna og yfirvalda  eru mælikvarði fyrir allt, sem byggt er síðar: eyjan heldur í eigin hefð ,gamallt og nýtt lifa áreynslulaust í sátt og samlyndi.

Eyjarbúar virðast hafa orðið sammála um, að góð heild bygginga er ekki tilviljun, hún vex með samfélaginu.

Spor þessa skilnings sjást ekki einungis í byggingum: auglýsingaspjöld við þjóðvegi eru bönnuð, rafmagnslínur trufla ekki landsalagið, og áberandi virðing er fyrir umhverfi og upprunalegu landi.

Eftir lát Manrique,1992, var eyjan í  heild sinni sett á skrá UNESCO sem „biosphere reserve“.

Að innan útávið

Áhugi minn á Manrique vaknaði  þegar ég hafði tækifæri til að kynnast honum persónulega 1986 og uppgötvaði, að báðir vorum við aðdáendur F. L. Wright.

Þá á ég aðallega við samband bygginga og umhverfis, en einnig það hvernig Wright þróar byggingar sína að innan útávið. Wrightemað „að innan útávið“  hef ég kynnt áður, m.a. í Lesbók Mbl. („endalok sýndarmennsku í augsýn“,27.06.09).

Ég uppgötvaði  á Lanzarote, að Manrique skapar oft  fremur ljóslítið innirými, þannig að ytra umhverfi verður áhrifameira. Slík rými hafa einmitt líka „ opinberan“ karakter. Þetta Wrighttema setur Manrique á svið í frumlegum tilbrigðum. Dæmi: „útsýninsaugu“  Mirador del Rio. Veitinga og útsýnisstaður, felldur efst inní og hluti af 500 metra háum klettum, sem falla frammí Atlandshafið. Frá hringlaga torgi er gengið í gegnum þröng bogadregin göng inní sal með miklið úsýni yfir hafið og eyjarnar í kring. Slíkir staðir lifa í minnigu ferðamanna!

Fyrir uppbyggingu ferðamannaaðstöðu á Ísandi má mikið læra af þannig stöðum á Lanzarote.

Þessi og álíka byggingar fyrir ferðamenn eru fléttaðar inní landslagið og ekki „soliter Musteri“, eins og t.d. það  fyrirbrigði ,sem nú er kynnt sem “ íslensk ferðamannamiðstöð“ við Selfoss.

 Fléttað inní íslenskt landslag

Hverfum til Íslands: þegar ferðamaður lítur yfir ný byggðarhvefi sjávarplássa greinir hann afar mismunadi hús, gjarna raðað eins og frímerkjum á umslag.

Samhengi við næsta umhverfi  er oftast takmarkað. Hver eru íslensku einkennin í húsagerð?

Nefna má stað eins og Seyðisfjörð, en hann státar af „því gamla“ og er eitt af fáeinum frávikum.

Ég spyr : hefur t.d. það sem nú er kynnt sem ferðamannamiðstöð við Selfoss íslenskan „staðaranda“ ?

 

 

Grein þessi barst síðunni frá Gunnlaugi Stefáni Baldurssyni arkitekt sem starfað hefur í Þýskalandi að mestu síðan hann lauk námi frá háskólanum í Karluhe. Hann hefur verið umsvifamikill arkitekt og rekið sína eignin stofu Siegen í Þýskalandi fra 1990, tekið þátt í samkeppnum með ágætum árangri auk þess að stunda kennslu í byggingarlist.

Eftirfarandi pistlar eftir Gunnlaug Stefán Baldursson hafa áður birst á þessum vef:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/05/02/perla-i-berlin-mies-verdlaunin-2011/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/12/29/flettad-inn-i-borgarvefinn/

Louis I. Kahn og söngvar víðisins.

Að neðan koma nokkrar ljósmyndir af mannvirkjum á Lanzarote  sem Cesar Manrique hafði með að gera en þeir Cesar og Gunnlaugur voru vel kunnigir. Myndirnar eru frá Mirador del Rio sem fallað er um í greininni.

612664395a40232133447d33247d383634363839

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.2.2014 - 23:04 - 30 ummæli

Grín eða alvara í byggingarlistinni?

 

http://www.mbl.is/tncache/frimg/dimg_cache/e360x300/7/20/720104.jpg

Í fjölmiðlum var nýlega sagt frá því að Gatnamót ehf. áformi að byggja stóra þjónustu- og ferðamannamiðstöð við gatnamót Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar ofan við Selfoss.

Hugmyndin er  að byggja 10-12 þúsund fermetra byggingu sem hýsa á ýmsa þjónustu fyrir ferðamenn. Þarna á m.a. að vera e.k. eldfjalla- og landmótunarsýning. Að ofan eru frumdrög af þessari miklu byggingu sem vissulega vekja athygli.

Það er auðvitað sjálfsagt að byggja upp þjónustu fyrir ferðamenn og upplýsa þá um mótun landsins og selja þeim veitingar og fleira. Slík upplýsingastarfssemi gæti líka gagnast skólakerfinu ef vel er á haldið.

Hinsvegar þurfa allar áætlanir í ferðamennsku að styrkja grunnþjónustu þess svæðis sem þjónustunni á að koma fyrir. Þá er ég ekki einungis að hugsa um innihaldið heldur ekki síður skipulag og arkitektur.

Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þessi bygging muni hafa á verslun- og þjónustu i Hveragerði og á Selfossi. Er ekki sjálfsagt að tengja þetta bæjarfélugunum þannig að starfsemin styrki þá sem veita nú þegar þjónustu við ferðamenn innan þéttbýlisins?.  Er ekki mikilvægt að starfsmenn geti sótt vinnu þarna fótgangandi? Ég hef einnig efasemdir um þá byggingarlist sem hér er kynnt og áformað er að byggja á þessum fallegu gatnamótum undir Ingólfsfjalli.

Hvers á Köguarhóll að gjalda, nú eða Hekla og önnur eldfjöll sem blasa við feðalöngum um land allt?  Spurt er hvort þetta sé ekki of sjoppulegt fyrir þjóð sem vill taka sig alvarlega í ferðamálum. Það vaknar líka upp spurningin um hvort þetta sé grín eða alvara?

Er ekki einhver gullgrafarastíll byggingarlistarinnar hér á ferðinni. Er þetta táknmynd um gullæði ferðaþjónustunnar?

Hvenær ætli gullæðinu linni í þessu Klondike, og svæðið  yfirgefið?

Sjá einnig:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/19/vinnubudahotel/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.1.2014 - 23:54 - 21 ummæli

Deiliskipulag Austurhöfn

 

Það spunnust miklar umræður í síðustu færslu minni um deiliskipulag Austarhafnarinnar í Reykjavík sem nú er í kynningu.

Færslan var reyndar um Hótel við Hörpu sem kynnt var í fjölmiðlum í síðustu viku. Það kom fram við kynninguna að umræddar teikningar eru í vinnslu og á engan hátt endanlegar og  að búast megi við einhverjum breytingum á þeim við frekari vinnslu.

Öllum er ljóst að að þessu verki standa flinkir arkitektar sem eru auðvitað að gera sitt besta miðað við gefnar forsendur. Athygli er vakin á þvi að þeir eru að vinna samkvæmt deiliskipulagstilögu sem nú er í kynningu og við verðum að gera ráð fyrir að umrædd frumdrög séu í samræmi við deiliskipulagsákvæði hennar.

Þegar lesendurnir sáu hver gæti orðið niðurstaðan töldu þeir að einhverju væri ábótavant í skipulagsskilmálunum og kom þar margt til.

Ég vil aðeins gera stuttlega  grein fyrir stöðu skipulagsins og sögu þess sem er orðin alllöng.

Deiliskipulagstillagan sem nú er í kynningu kemur í kjölfar annarrar sem var samþykkt fyrir nokkrum árum og var gerð af THL arkitektum í Danmörku í félagi við Batteríið og TT arkitekta hér á landi. Helsta breytingin er sú að gatnakerfinu er breytt til verulegra bóta og húsin lækkuð nokkuð.

Undanfari deiliskipulags THL, Batterís og TT arkitekta var hluti af einkaframkvæmdarsamkeppni um ráðstefu og tónlistarhúss á svæðinu. Þar á undan var haldin ágæt hugmyndasamkeppni um svæðið sem gaman væri að skoða aftur.

Þetta er langur ferill. Sennilega svo langur að fólk hefur misst sjónar af meginmálinu þangað til nú þegar kynntur er árangurinn í fallegum þrívíðum teikningum.

Þegar fólk sá teikningarnar opnast augu þeirra fyrir hugsanlegum göllum í deiliaskipulaginu.  Þáttakendum umræðunnar finnst deilskipulagið og skilmálar þess ekki laða fram þann Austubakka sem það vonaðist eftir.

Ég held að allir sem hafa tjáð sig um Austurbakkaskipulagið vilji  vel og er umhugað um skipulag hafnarinnar. Þeim þykir vænt um Reykjavík og vilja vel. Þeir telja að með þáttöku sinni í umræðunni öðlist þeir skilning á því sem þarna fer fram. Það ber að þakka þeim sem láta arkitektúr og skipulag til sín taka í opinberri umræðu.

Ég ætla hér að tæpa á nokkru atriðum sem komu fram. Bæði frá þeim sem styðja deilskipulagið og frá þeim sem eru fullir efasemda. Þetta eru nokkrar setningar sem eru afritaðar beint úr texta nokkurra þeirra sem þátt tóku í umræðunni við síðustu færslu.

 Hér kemur runan sem ég dró út úr um 60 athugasemdum frá tugum áhugasamra um framtíð Reykjavíkurhafnar. Annars vísa ég á fyrri færslu fyrir mjög áhugasama.:

  • Skipulag og borgarmynd þessarar hönnunar er mjög góð, og er eins og sagði áður algjör stefnubreyting á landinu til betri vega. Hins vegar er vel hægt að gagnrýna arkitektúr hótelsins verulega.
  • Þetta eru ljótar byggingar í góðu skipulagi.
  • Í fyrsta lagi þá vinnur arkitektúrinn gegn skipulagshugmyndinni með því að brjóta illa upp blokkarformið niður í móderníska klumpa og meðfylgjandi vindstrauma. í stað borgarmyndar fáum við Breyðholtið í miðborgina
  • Vonandi fáum við meiri fjölbreytni eins og er einkennandi fyrir byggðina í Kvosinni og gefur henni lit, líf og mælikvarða. Þar eru engin tvö hús eins.
  • Mér verður hugsað til Lækjargötunnar. Mér finnst hún vera órjúfanlegur hluti af þessu skipulagi, enda er verið að framlengja götumynd hennar norður að Hörpunni. Skalinn á byggingunum meðfram henni er nokkuð ólíkur þeim í kringum Austurvöll og norður að Tollhúsi. Ég held það sé rétt að halda því þannig, og vinna einmitt að því að skali bygginganna þar á milli,
  • Er það minnimáttarkennd eða einhvers konar masókismi sem veldur því að arkitektar eru sífellt að tuða yfir tveimur fallegustu nútímabyggingum á Íslandi, Hörpu og Hallgrímskirkju.
  • Harpa og Hallgrímskirkja eru byggingar sem túristar vilja helst  sjá og þykja fallegar.
  • Það skipti ekki máli hvernig Hallgrímskirkja og Harpa líta út. Þær séu vinnsælar vegna stærðarinnar, staðsetningarinnar og starfsseminnar.
  • Menn telja að rofið milli miðborgarinnar og hafnarinnar sé of mikið. Tengslin séu ekki  sýnileg lengur.
  • Af hverju gerir skipulagið ekki ráð fyrir lóðréttri deilingu með hlutföllum eins og er í kvosinni og deiliskipulagið frá 1986 gerði ráð fyrir með sögulegri skýrskotun.
  • Out of that ask yourself for the necessity of massive building structures and create something out of the adventure to sample the urban connection.
  • – The suggested structure plan is developed in south – north direction at the lowest part of the city where there once was a water as connection between Tjörnin and the sea. Laekjargata is a natural border in the topography of the city center, so let’s think about it and develop a solution out of this fact, play with the different levels, with the axis of sight, and please don’t forget the wind and your weather.
  • Þetta er nú þegar orðið gamaldags og leiðinleg lausn.
  • Þessar byggingar gætu verið hvar sem er í heiminum. Þær hafa ekkert með Ísland, Reykjavík framtíðina eða þetta nýja skipulag að gera. Það hefði verið betra að nota eitthvað af Íslenskum efnivið og formum, við, bárujarni, steinsteypu os.frv. Gera eitthvað sem tekur tillit til staðarins og lítur fram tímann líka og bæta við skipulagið frekar en að vinna gegn því.
  • Efnisval og útlitshönnun byggingana ber einnig með sér lítið ímyndunarafl.
  • Arkitektar eru frekar illa launuð stétt með lítið starfsöryggi, og oft eru það frekar kúnnarnir sem hanna byggingarnar en arkitektin.
  • Verkefni þessara bygginga sem rísa á milli Hörpunnar og Kvosarinnar er í mínum huga að trappa niður stærð Hörpunnar að því sem fyrir er.
  • Hins vegar finnst mér þessi tillaga af 5 íbúðarblokkum í anda 6. áratugarins, sem allar eru nákvæmlega eins, of einsleitar og þrúgandi. Vonandi fáum við meiri fjölbreytni eins og er einkennandi fyrir byggðina í Kvosinni og gefur henni lit, líf og mælikvarða. Þar eru engin tvö hús eins.
  • Hef aldrei skilið þetta skipulag, enda alltaf sýnt þannig að horft er til norðurs. Mikið væri gaman að sjá þetta „módel“ þar sem horft er til suðurs, þannig að hægt væri að sjá tengslin við núverandi byggð, ekki við Hörpuna.
  • … og undarleg þessi árátta að hafa útlitið eftir gömlum margtuggðum tískuklisjum.“Við viljum vera öðruvísi og nútímalegir eins og allir hinir“.
  • Hvar er staðarandi Reykjavíkur í þessu skipulagi?
  • Ekkert af ofangreindu á að koma upplýstum fagmönnum á óvart og vaknar því óneitanlega sú spurning hversvegna menn velja hér að fara gegn betri vitund, skapa tortryggni og skemmta skrattanum.

Hér að neðan eru nokkrar myndir sem fengnar eru frá deiliskipulagskynningunni. Það er rétt að benda á að þessir massar sem sýndir eru á tölvumyndunum sýna ekki útlit húsanna, heldur umfang og fyrirkomulag þeirra. það er svo arkitekta hússanna að gefa þemi ásýnd sem hentar staðnum og anda hans.

Kynningu á skipulaginu má sjá hér:

http://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skipogbygg/skjol/264436.pdf

 

  • Svona mun Austurhöfnin líta út samkvæmt nýju deiliskipulagi.

Svona lítur nýja deiliskipulagið út séð frá Lækjargötu.

 

Byggingar eru lækkaðar á Austurhafnarreitnum.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.1.2014 - 23:00 - 64 ummæli

Hótel við Hörpu

 

Samkvæmt Morgunblaðinu í morgun er stefnt er að því að framkvæmdir við nýtt hótel við hliðina á Hörpu og íbúðarhúsnæði á nærliggjandi lóð hefjist á þessu ári og ljúki á fyrri hluta ársins 2017. Þetta er mikill hraði því deiliskipulagið hefur ekki verið samþykkt ennþá.

Heildarfjárfesting verkefnisins er áætluð um 14 milljarðar, en í heild verða rúmlega 250 herbergi í hótelinu og 90 íbúðir, auk verslana í þeim fimm byggingum sem verða reistar næst hótelinu.

Þetta er gríðarmikil framkvæmd.  Skilja má að hótelbyggingin án bifreiðageymslna sé um 16.400 fermetrar.

Eins og sjá má á myndunum að ofan eru þetta mikil hús sem hafa allt önnur hlutföll en jafnvel stærstu hús kvosarinnar. Það er vissulega áhyggjuefni. Margir telja eðlilegt að hlutföll húss á þessum stað verði reitað niður í minni og fjölbreytilegri einingar sem henta miðborginni og því gönguumhverfi sem stefnt er að þarna. Á heimasíðu T-Ark, hönnuðunum, er gefið undir fótinn um að þetta eigi eftir að þróast og taka breytingum (til bóta)

Ég hef vissu fyrir því að þessar byggingar verða hlutaðar niður sjónrænt á síðari stigum þannig að ásýnd þessa borgarhlut henti betur fótgangandi fólki og því umhverfi sem er þarna í grenndinni.

Athugasemdarfrestur vegna skipulagsins rennur út þann 3. febrúar nk. Á heimasíðu borgarinnar má kynna sér skipulagið nánar. En þar má lesa þessa gyldishlöðnu setningu: 

Geirsgata verður falleg borgargata í stað þess að vera hraðbraut og fyrirhuguð byggð í Austurhöfn verður lægri en fyrri áform gerðu ráð fyrir. Þannig er komið í veg fyrir að byggingarnar skyggi sem minnst á sjónlínur að Hörpu.

Hér er slóðin að kynningu borgarinnar. Endilega skoðið hana.

http://reykjavik.is/frettir/nytt-deiliskipulag-fyrir-austurhofn

Myndirnar eru fengnar af heimasíða T-Ark: http://tark.is/#frttir

Sjá einnig:http://blog.dv.is/arkitektur/2012/03/13/iceladair-group-vidbygging/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/12/01/arkitektastofa-70-ara/

Að neðan kemur skemmtileg teikning úr ferðamannabækling. Á henni er hægt að glöggva sig á stærðarhlutföllum húsa í miðborginni. Það hlýtur að vera sjálfsagt markmið skipulagsyfirvalda að halda mælikvarðanum sem þarna er og fólk sækist eftir.

Húsin tvö, Tollstöð og Hafnarhúsið skera sig þarna úr, Þau eru langstærst hingað til ef Harpa er undanskilin.

Það ber að forðast að byggja stærri og fyrirferðameiri hús á þessu svæði. Það má auðvitað gera á því undantekningar þegar um menningarhús er að ræða eins og Hörpu. En hótel og fjármálabyggingar eiga að sýna kurteysi lúta fyrir því gamla sem fyrir er með virðingu, enda er það mælikvarði Kvosarinnar  öðru fremur sem gerir hana eftirsóknarverða.

Ég vek athygli á stórhýsi Seðlabankans þarna á myndinni og risabyggingu fiskifélagsins við Skúlagötu sem hvorutveggja virðast smáhýsi við hlið Hörpu og verða enn minnimáttar þegar nýbyggingar í Austurhöfn rísa ef fram heldur sem horfir.

Ég ber fullt traust til arkitektanna og kjörinna fulltrúa og treysti því að þeir lagi þessar miklu byggingar að umhverfinu og horfi þá til Kvosarinnar fremur en til Hörpu sem hefur og á að hafa algera sérstöðu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.1.2014 - 14:38 - 15 ummæli

Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins 1980-86

Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins  var rekin á árunum 1980-86. Þá lauk gerð Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 1985-2005 sem sveitarfélögin treystu sér ekki til að samþykkja nema „til viðmiðunar“ að því er ég best veit.

Skipulagsstofan tók á ýmsum málum eins og að flytja reiknilíkan umferðar hingað til lands frá Danmörku. Stofan tók líka frárennslismál svæðisins í gegn og lagði grunn að hjólreiðastígakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og gaf út fréttablaðið Skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins, sem var eftir daga Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins áfram gefið út undir nafninu AVS.

Þetta var á tímum 0-grunns áætlana og sveitarstjórnarmenn héldu að það væri vænlegt að binda stýrið fast á skútunni eftir að þetta svæðisskipulag 1985-2005 var í höfn og verkefninu þvi lokið.

það var auðvitað misskilningur.

Mest held ég annars að þessi Skipulagsstofa hafi farið í taugarnar á embættismönnum Reykjavíkur sem voru vanir að eiga alltaf síðasta orðið í samskiptum sveitarfélaganna.

Efst er mynd af umræðutillögu sem tók á stofnbrautarkerfi höguðborgarsæðisins. Þetta er auðvitað prinsipp tillaga sem hugsuð til þess að nálgast einhverja lausn á þessum málum sem enn hefur ekki náðst sátt um 30 árum síðar.

Ef frá er tekin hugmynd um stofnbraut um fossvogsdal er þessi hugmynd eins og hún er enn á dagskrá.

Það má leiða líkur að því að sneiða hefði mátt framhjá mörgum vandræðagangi skipulagsmála höfuðborgarsvæðisins síðustu 3 áratugina ef samstaða hefði verið um að halda þessu merka starfi áfram.

Forstöðumaður Skipulagsstofunnará þessum tíma  var Gestur Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðingur.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.1.2014 - 00:06 - 19 ummæli

Byggingalistalegt uppeldi – Skólakerfið

 

Eftirfarandi er haft eftir kínverska listamanninum Ai Wei Wei um menntakerfið í Kína.

„Ég held að kerfið okkar sé holt og innantómt. Tökum mannúð, einstaklingsframtak og sköpunarkraft – á þessum gildum byggir þjóðfélag.

Hvaða uppeldi fáum við, hvaða drauma dreymir okkur?

Daglega á ég  samskipti við námsmenn frá Kína, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Hong Kong og Taivan.

Ég hef komist að því að kínverskir stúdentar hafa minnsta menntun í að átta sig á hvað er fallegt og hvað er rétt.  Þeir kunna að vera færir og listrænir, en þá skortir hæfileikann til að dæma sjálfir.

Það er sorglegt að sjá fullorið ungt fólk, 20-25 ára, sem aldrei hefur fengið kennslu í að taka eigin ákvarðanir. 

Sá sem getur það ekki finnur heldur ekki fyrir neinni ábyrgðartilfinningu. Og sá sem hefur enga ábyrgðartilfinningu skellir skuldinni á kerfið“

Ef textinn er lesin með það í huga hvað ísleningar fá lélegt (ekkert) byggingarlistarlegt uppeldi er þetta óhugguleg tilvitnun.

Sennilega tjá íslendingar sig ekki um arkitektúr og skipulag vegna þess þeir átta sig ekki á „hvað er fallegt og rétt“ – „Þeir kunna að vera færir og listrænir, en þá skortir hæfileikana til þess að dæma sjálfir“

Skólafólk og fjölmiðlafólk þurfa að taka sér tak og færa þekkingu um arkitektúr og skipulag í fremstu röð eða að minnstakosti þannig að arkitektúr standi jafnhliða bókmenntunm og örlítið framar en mydlist og tónlist í umræðunni. Arkitektúrkennsla á að vera stór þáttur í sögukennslu.

Skólafólk og fjölmiðlafólk þarf að rækta málefnalega umræðu og hvetja til hennar með umfjöllun hvarvetna.

Skólakerfið þarf að kenna ungu (barnungu) fólki að hafa skoðanir og taka ákvarðanir og segja hvað því finnst.

*********

Efst er mynd frá sýningu Ai Wei Wei í Washington DC fyrir ári.

Sjá einnig eftirfarandi pistla:

Um kennslu í byggingarlist í grunnskólum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/13/arkitektur-i-grunnskolunum/#comments

og um Wei Wei:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/11/22/weiwei-i-washington/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.1.2014 - 00:05 - 10 ummæli

Rætt um Hörpu í Hörpu

Harpaplaza-1-lowreslett

Síðdegis í dag verður efnt til málþings um mannlíf og byggingarlist í Reykjavík í tilefni þess að Harpa hlaut Mies van der Rohe verðlaunin í byggingarlist á síðasta ári. Málþingið verður í Norðurljósasal Hörpu og hefst klukkan 15.00 og verður því lokið kl 17.00 vel fyrir handboltaleik HM Ísland – Spánn 🙂

Mies verðlaunin eru ein virtustu byggingarlistaverðlaun heims og þau stærstu sem bygging á Íslandi hefur hlotnast.

Verðlaunin voru afhent 7. júní s.l. í Mies van der Rohe Pavilion í Barcelona og voru það fulltrúar frá Henning Larsen Architects, Batteríinu Arkitektum og Studio Ólafs Elíassonar sem tóku við verðlaununum. Einnig tók Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu við viðurkenningu til eiganda byggingarinnar.

Alls voru 335 byggingar í 37 Evrópulöndum tilnefndar að það sinni en verðlaunin eru veitt annað hvert ár. Þau verk sem hljóta Mies van der Rohe verðlaunin njóta alþjóðlega athygli og umfjöllun. Síðast hlaut Neues Museum í Berlín eftir David Chipperfield Architects verðlaunin (2011) og þar áður Óperuhúsið í Osló eftir Snöhetta (2009).

Í rökstuðningi dómnefndar verðlaunanna leggur formaðurinn, Wiel Arets, einkum áherslu á þrennt: „þá ákvörðun að ljúka við byggingu Hörpu þrátt fyrir kreppuna, einstaka tengingu byggingarinnar við höfnina og umhverfi Reykjavíkur og einstaka samvinnu við Ólaf Elíasson um glerhjúpinn utan um húsið,“.

Eftirfarandi spurningar verða hafðar að leiðarljósi í umræðunni: Hvernig hefur byggingin nýst þeim mörgu og ólíku notendum hússins út frá hönnunarmiðuðu sjónarhorni? Hvaða þýðingu geta Mies van der Rohe verðulaunin haft fyrir Hörpu, Reykjavík og arkitektúr á Íslandi? Hvernig tölum við um Hörpu og hvaða ímynd hefur byggingin? Hvernig vinnur Harpa með borgarumhverfinu og hvaða hlutverk viljum við að hún spili?

Í kjölfar málþingsins verður boðið til móttöku þar sem sýning Mies stofnunarinnar er uppsett.

Fyrirkomulagið verður þannig að völdum hópi fólks, sérfræðingum og fulltrúum mismunandi hópa sem tengjast Hörpu á einn eða anna hátt, verður boðið til hringborðsumræðna með fundarstjóra sem stýrir umræðunum. Áður en að umræðurnar hefjast verða haldin stutt innlegg frá 3 þeirra sem við borðið sitja. Málþingið verður haldið í Norðurljósum. Fyrirkomulaginu mætti líkja við „Kryddsíldina“ með áhorfendum, en viðburðurinn verður þó ekki útsendur.

Eftirtaldir aðilar taka þátt í hringborðsumræðunum:

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og fyrrum útvarpsmaður

Sigurður Einarsson arkitekt hjá Batteríinu

Hilmar Þór Björnsson arkitekt hjá Á stofunni arkitektum.

Ólöf Örvarsdóttir arkitekt og sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar

Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Eyjólfur Pálsson  í Epal

Egill Helgason, sinfóníuunnandi, nágranni Hörpu, menningarrýnir, þáttastjórnandi og bloggari.

******

*) Skrifin að ofan  er stytt útgáfa af texta sem fengin er frá aðstandendum málþingsins.

Hér að neðan er svo pistill um þau verkefni sem voru tilnefnd til verðlaunanna á síðasta ári. Virðing verðlaunanna byggist auðvitað fyrst og fremst á því hvað er tilnefnt og verðlaunað að lokum. Í ár fannst mér þessi merku verðlaun setja nokkuð niður við það að sjá þetta hús fyrir aldraða í Portúgal, sem líkist frekar einhverri tölvuæfingu eða tölvuleik en húsi þar sem fólki er boðið upá að verja æfikvöldinu. Húsið líkist einna helst einhverskonar „mental hospital“ eða líkhús. Ég sem funktionalisti óska engum að þurfa að dvelja þarna eitt augnablik Hvað þá lagður nauðugur inn vegna öldrunar. Kynnast má þessu húsi nánar á eftirfarandi slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/04/04/hin-eftirsottu-mies-verdlaun-til-islands/

Svo er hér stuttur pistill um eitt af höfuðverkum Ludwig Mies van der Rohe

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/12/09/mies-van-der-rohe/

****************

P.S.

Til gamans er hér að neðan ljósmynd af Ólafi Elíassyni sem tekin var í eldhúsi heima hjá mér  í Kaupmannahöfn sennilega um 1970.

Þannig var að við hjónin áttum hús með garði í úthverfi borgarinnar (KBH). Vinum okkar inni í borginni þótti gaman að heimsækja okkur og njóta garðsins. Þeirra á meðal voru foreldrar Ólafs. Ég hef stundum haldið því fram (í gríni) að ég hafi kennt Ólafi að teikna. Enda var það þannig að öll börn elskuðu að fikta í vinnutækjum arkitektanemans  sem voru á þeim árum blýantur blað og einhverjir tússpennar. Því miður fóru öll þessi frumbernskuverk Ólafs í ruslið heima hjá okkur.

Picture1

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.1.2014 - 21:16 - 10 ummæli

Le Corbusier og höfundareinkennin

Eftir að arkitektar fóru að breyta vinnustöðum sínum úr arkitektastofum í arkitektafyritæki hefur hallað mikið á svokölluð höfundaeinkenni í byggingarlistinni.Byggingarlistin hefur að margra mati flast svoldið út við þessa breytingu.

Áður en fyritækin urðu algeng þekktu kunnátumenn verk einstakra arkitekta þegar þeir sáu þau.

Þetta er sama  og þegar talað er um tónlist, myndlist eða ritlist. Allir kunnáttumenn geta strax séð hver samdi tónverkið, málaði málverkið eða skrifaði bókina.

Þetta á við um alla listamenn, íslenska arkitekta jafnt sem erlenda.

Þau leyndu sér ekki höfundareinkenni Gunnlaugs Halldórssonar, Gísla Halldórssonar, Helga og Vilhjálms Hjálmarssona svo maður tali nú ekki um Högnu Sigurðardóttur o.s.frv.

Sama á við um þá erlendu, Alvar Aalto, Mies van der Rohe, Jörn Utzon, Corbusier og jafnvel minni spámenn á borð við Henning Larsen og Jörgen Bo. Þeirra verk báru svo sterk  höfundareinkenni  að enginn velktist í vafa um hver var höfundurinn.

Þetta er ekki hægt lengur þegar verk arkitektafyritæjanna eiga i hlut. Það er óljóst hver er höfundurinn. Höfundaeikennin eru að hverfa. Þegar þannig stendur  má kannski segja að listin hverfi svoldið úr byggingalistinni og verður meira svona iðnhönnun(!) Það er í raun að verða þannig að arkitektarnir sjálfir vita varla hver hannaði þó skráð sé hvaða einstaklingar unnu að verkinu.

Það er enginn í vafa hver málaði Guernicu eða samdi 9, symphoníuna. Það var bara ein persóna sem skapaði. Ekki tugir eð hundruð sérfræðinga og alls ekki tvö, þrjú eða fjögur fyritæki.

Svona er allt að breytast.

Einhverjir munu sennilega staldra við og segja að ég skilji ekki arkitektafyritækin og hvernig þau starfa. Jú ég geri það og er meðvitaður um að þau eru rekin  á öðrum forsendum en stofurnar. Þau eru í bissniss.

Le Courbusiere hafði sterk höfundareinkenni þó hann hafi oft skipt um nálgun á verkum sínum eins og Picasso í sínum verkum. En höfundareinkennin eru alltaf til staðar. Teiknistofa Corbusier og studio Picassos lögðust af eftir þeirra dag. Arkitektafyrirtækin halda áfram eins og um skipafélag sé að ræða.

Hjálagt eru nokkrar myndir af einu verki Le Corbusier. Á myndunum má skynja nærveru listamannsins í nánast hverju borði í steypumótunum

Þegar Le Corbusier var á Indlandi árið 1951 til þess að teikna byggingarnar í Chandigarh. nýrri höfuðborg í Punjab héraðs árið 1951 bað borgarstjórinn þar hann um að teikna höfuðstöðvar fyrir Mill Owners Assosiation í Ahmedabad.

Borgarstjórinn fór fyrir félagsskapnum.

Arkitektinn tók að sér verkið og lauk byggingunni árið 1954. Þetta er ótrúlega vel gerð byggin sem vert er að studera nánar

Það má bæta því við að Guðjón Bjarnason, íslenskur arkitekt er með nokuð umsvifamikla arkitektastarfssemi á Indlandi um þessar mundir. Gaman væri að fjalla um það hér á þessarri síðu við tækifæri.

Sjá hér færslu um srkitektafyritæki:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/11/09/%E2%80%9Carkitektafyrirtaeki%E2%80%9D/

AD Classics: Mill Owners' Association Building / Le Corbusier

Meistarinn virðist hikandi þar sem hann gengur upp stigann upp á þakgarð byggingarinnar

AD Classics: Mill Owners' Association Building / Le Corbusier

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.1.2014 - 11:07 - 7 ummæli

Arkitektúr til fólksins

 „Arkitektúr er allt of mikilvægur til þess að afhenda arkitektum einum forræði yfir honum“ stendur á skiltinu á myndinni að ofan.

Þetta er eitt af mörgum skiltum sem danska arkitektafélagið lét hengja upp á götum Árósa á degi byggingalistarinnar 1. október s.l.

Tilgangurinn var að ná til notenda byggingarlistarinnar, hins almenna borgara.

Fyrir meira en fjörutíu árum byrjuðu danskir arkitektar að beina umræðu um arkitektúr út fyrir þröngan hóp þeirra sjálfra.

Þeir byrjuðu fyrir alvöru að tala við notandann og upplýsa hann um arkitektúr og skipulag. Þeir fóru í skólana og töluðu á íbúaþingum. Fjölmiðlarnir juku umfjöllun um skipulag og arkitektúr. Og danirnir eru enn að. Undanfarin ár hafa verið tveir fastir þættir í danska ríkissjónvarpinu í hverri viku („Hammerslag“ og „Danmarks bedste hus“) þar sem efnið er til umfjöllunnar auk annarrar almennrar umræðu.

Danir bjóða upp á kennslu í byggingalist og skipulag í skólum. Þetta er ekki alltaf sérstakt fag heldur samtvinna þeir þessa kennslu öðrum námsgreinum grunnskólanna. t.a.m. félagsfræði, hagfræði, sögu og listum.

Hér á landi eru arkitektarnir aðarlega að tala hver við annann.

Íslenskir arkitektar mæta á opna fundi  til þess að hlusta á aðra arkitekta. Svo kinka þeir kolli hver fyrir öðrum og takast helst ekki á. Þeir tjá sig nánast ekki opinberlega og ef þeir gera það þá ber málfluttningurinn keim af einhverri upphafningu sem hinn almenni borgari hefur lítinn áhuga á. Hann skilur jafnvel ekki orðfæri sérfræðinganna og samhengið.

Hinn almenni borgari vill bara umhverfi sem virkar og hann hefur efni á. En hann vill og þarf að skilja samhengi hlutanna. Hann þarf að skilja skipulagið, arkitektúrinn og arkitektana sjálfa. Hann þarf að skynja að hann getur haft áhryf.

Borgarinn vill að arkitektinn og skipulagsfræðingurinn tali til sín á máli sem hann skilur og um málefni sem varðar hann sjálfan og hans félagslegu hagsmuni. Svo finnst honum auðvitað betra ef þetta lítur sæmilega út.

Ég hef reynt að halda þessari vefsíðu úti einmitt til þess að ná til hins almenna notanda byggingalistarinnar og skapa umræðu með þátttöku hans.

En það hafa ekki allir áhuga á arkitektúr, skipulagi og staðarprýði. Því miður er áhuginn miklu minni en tilefni er til.

Af hverju ætli það sé?

Sennilega m.a. vegna þess að flestir halda að þeir hafi ekki vit á efninu og þeirra skoðanir skipti ekki máli. Það er auðvitað skiljanlegt þegar þeim er ekkert kennt um efnið í skólum og lítið ef fjallað um það í fjölmiðlum.

Sennilega er líka einhverja skýringu að finna í því að sérfræðingarnir hafa tilhneigingu til þess að upphefja svo sérsvið sitt í málflutningnum að hinn venjulegi maður botnar ekkert í um hvað er verið að tala og brestur kjark til þess að taka þátt í umræðunni og hafa áhryf á þróunina.

Svo held ég persónulega að svokölluð kynningarferli sveitarfélaga vegi þungt. Borgararnir hafa slæma reynslu af kynningarferlum og grenndarkynningum. Það ferli skilar sjaldnast nokkrum árangri. Lítið er tekð tillit til athugasemda borgaranna eins og dæmin sanna. Hönnuðir, hagsmunaaðilar og jafnvel kjörnr fulltrúar virðast oft líta á þá sem gera athugasemdir sem andstæðinga sína. Það er auðvitað tóm vitleysa, Þeir sem gera athugasemdir eru auðvitað samstarfsmenn hönnuða, hagsmunaaðila og stjórnmálamanna.

Þarf ekki að taka á þessu?

Arkitektúrinn er ekkert öðruvísi en annað.  Maður hefur ekkert gaman af tónlist nema að  kunna að hlusta á tónlist og ekkert gaman að bókum nema kunna að lesa bækur. Við tónlistarkennslu í skólum eykst skilningur og ánægja þjóðarinnar af tónlistini. Sama á við um bókmenntir og myndlist. Ef þessar greinar væru ekki kenndar í skólum væri áhuginn fyrir þessum listgreinum svipur hjá sjón.

Byggingarlistin er hér útundan, hún er ekki kennd og fólk kann ekki að njóta hennar og gerir ekki nægjanlega miklar kröfur.

Arkitektar þurfa á kröfuhörðum og upplýstum neytendum að halda. Fyrst þegar þeir eru fyrir hendi byrja sérfræðingarnir og stjórnmálamennirnir að vanda sig og skapa arkitektúr fyrir fólk.

Það er komið nóg af arkitektúr fyrir arkitekta

 

„Arkitektúr hversdagsleikans fjallar um samskipti fólks“

„Hefur þú heilsað uppá nágranna þína í dag?“

„Arkitektúr fjallar ekki eingöngu um hvernig hann lítur út“

„Arkitektúrinn fjallar líka um hvað hann getur“

„Bókasafnið er kannski ekki það sama og Wikipedia“

„…en það er enn eitt af mikilvægustu félagslegu almenningsrýmunum“

„Hvernig mundir þú nota borgina ef allir bílarnir væru farnir?“

„…. mundir þú fjarlægja malbikið og setja grænar grasflatir í staðinn og nota svæðið til útivistar?“

„Það er gott að búa í velhirtu og fallegu húsi“

„… sá sem býr á móti þér nýtur hússins þíns enn frekar!“

„Sá blindi og heyrnarlausi nýtur einnig byggingalistarinnar“

„Gæði borgarrýmisins talar til allra skynfæra“

 

„Þetta er staðurinn sem byggingalistin fer til þess að deyja“

„Byggingalistin og skipulag gengur út á að skapa upplifanir“

„.. og fjallar aldrei eingöng um að skapa fallegt útlit“

.

.

Sjá einnig færslur um svipað efni

Um óskiljanlegt áhugaleysi á arkitektúr:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/08/oskiljanlegt-ahugaleysi-fyrir-arkitektur/

Um arkitektúrkennslu í grunnskólum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/13/arkitektur-i-grunnskolunum/

Um almenna fræðslu í skipulagi og byggingalist:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/21/fraedsla-i-byggingarlist/

Um hvernig byggingalistinni er haldið útundan í umræðunni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/16/byggingarlistin-er-utundan/

Myndirnar í færslunni eru fengnar af danskri vefsíðu og hef ég snarað texta nokkurra skilta á Íslensku.:

http://arkfo.dk/da/blog/arkitekter-burde-boble-lidt-mere

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.1.2014 - 14:46 - Rita ummæli

Jes Einar Þorsteinsson arkitekt

JES

Jes Einar Þorsteinsson kjörinn heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands

Jes Einar Þorsteinsson hefur verið ötull og áhrifamikill fulltrúi arkitektúrs á Íslandi og eftir hann liggja þekktar byggingar sem bera listfengi hans og fagmennsku gott vitni. Jes fæddist í Vestmannaeyjum árið 1934. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Ryekjavík stundaði hann nám í myndlist og arkitektúr í París og útskrifaðist sem arkitekt frá Ecole Nationale Supérieure des Beaux-Arts árið 1967. Á námsárunum vann hann í tvö sumur hjá Gísla Halldórsssyni arkitekt og með námi hjá Högnu Sigurðardóttur arkitekt og á ýmsum teiknistofum í París. Strax að námi loknu hóf Jes rekstur eigin teiknistofu sem hann hefur rekið í eigin nafni alla tíð. Jes Einar er án vafa kunnastur fyrir hönnun mannvirkja á sviði íþrótta og heilsugæslu. Má þar nefna íþróttamiðstöð og sundlaugar í Borgarnesi, Flateyri og Bolungarvík, Skeiðalaug á Brautarholti, búningshús við Laugardalslaug, íþróttahús í Njarðvíkum og að Laugum í Reykjadal. Á sviði heilsugæslu má nefna Sjúkrahúsin á Ísafirði og í Stykkishólmi, heilsugæslustöð, tónlistarskóla og bókasafn á Seltjarnarnesi og minni heilsugæslustöðvar víða um land, m.a. á Hvolsvelli og Vík í Mýrdal. Þá teiknaði Jes Einar Kirkjubæjarskóla á Síðu snemma á sínum ferli. Þó Jes hafi einkum unnið að stærri verkefnum er hann einnig höfundur að nokkrum athyglisverðum íbúðarhúsum, m.a Vogalandi 2 í Fossvogi, Einilundi 10 í Garðabæ og síðast en ekki síst eigin íbúðarhúsi og vinnustofu við Grjótasel 19 í Reykjavík.

Allan sinn starfsaldur hefur Jes Einar verið áberandi og leiðandi í félagsstarfi Arkitektafélagsins og lagt sitt af mörkum í hagsmunamálum arkitekta. Hann var formaður félagsins 1984-85, ritari 1971-72 og meðstjórnandi 1983 og 1986. Þá hefur hann setið í gjaldskrár-, samkeppnis- og siðanefndum félagsins og verið fulltrúi þess í stjórn Bandalags Íslenskra Listamanna. Mest er þó arfleifð hans í menntamálum stéttarinnar. Þar ber hæst vinna hans við ÍSARK og síðar við að stuðla að varanlegri kennslu í arkitektúr á háskólastigi á Íslandi. Jes var formaður skólanefndar ÍSARK frá 1994 og forstöðumaður sumarnámskeiðs ÍSARK 1996. Auk ævistarfs á sviði arkitektúrs hefur Jes Einar haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á myndlist og eru málverk eftir hann í eigu Listasafns Íslands.

.

.

Textinn að ofan er saminn af Pétri H. Ármannssyni arkitekt og myndin sem var tekin þegar Jes veitti heiðursnafnbótinni viðtöku á aðalfundi félagsins í nóvember s.l. er fengin af heimasíðu Arkitektafélags Íslands

Arkitektafélagið hefur verið spart á að veita félögum sínum þessa viðurkenningu. Ef ég man rétt þá var fyrsti heiðursfélaginn (1955) Sigurður Guðmundsson sem teiknaði Ausurbæjarskólann, Fossvogskapellu o.fl.  Annar (1969) var Gunnlaugur Halldórsson. Síðan liðu 23 ár þar til  Hörður Ágústsson var kjörinn (1992) og svo komu þau Guðmundir Kristinsson (2001),  Gísli Halldórsson (2002), Högna Sigurðardóttir (2008), Manfreð Vilhjálmsson (2011) og nú Jes Einar Þorsteinsson (2013).

Það vill svo til að  ég vann með Jes Einari á teiknistofu þeirra Gísla Halldórssonar, Ólafs Júlíussonar og Jósefs Reynis á Tómasarhaga 31, sennilega sumrin 1958 eð 1959. Við vorum báðir sumarstarfsmenn, Jes, sem var í námsleyfi frá París, sat og teiknaði perspektiv af sýninga- og íþróttahöll í Laugardal og ég vann sem sendill.

Það heillaði mig að sjá Jes teikna perspektiv af þessu mikla húsi með kúluþakinu og sjá teikninguna töfrast fram.

Hann notaði auðvitað fjölda hjálpalína sem hann flokkaði í þrjá liti eftir tilgangi þeirra og til þess að greina á milli lína sem höfðu mismunandi tilgang þannig að þetta færi ekki bara í eitt stórt rugl. Einn var blár, annar rauður og þriðji grænn. Í lokin teiknaði hann síðustu yfirferðina með svörtu. Allt var þetta gert með tússi blandað blýantsstrikum.

Niðurstaðan varð fullkomin.

Síðan þetta gerðist eru liðin 55-56 ár!

Ég óska Jes Einari Þorsteinssyni til hamingju.

Hér er umfjöllun um teiknistofu þeirra félaga Gísla, ÓLafs og Jósefs á Tómasarhaganum.

 http://blog.dv.is/arkitektur/2010/12/01/arkitektastofa-70-ara/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/19/demanturinn-a-hotel-loftleidum/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn