Sunnudagur 29.12.2013 - 11:00 - 13 ummæli

Fléttað inn í borgarvefinn.

Fléttað inn í borgarvefinn.

Samkeppni arkitekta um stækkun Wallraf Richartz safnsins í miðborgarkjarna Kölnarborgar er nýlega lokið. Safnkostur safnsins er umfangsmikill fjársjóður klassíkra málverka  frá miðöldum fram á 20. öld en að auki  Fondation Corbund, trúlega glæsilegasta safn impressionista utan Frakklands. Verkefni samkeppninnar var að hanna sérstaka byggingu fyrir Corbundsafnið og skildi aðkoma nýbyggingar vera í því húsi sem fyrir er og með tengingu neðanjarðar. Markmiðið með þeirri skipan er  að í náinni framtíð verða tveir hlutar að einni heild. Á reitnum,sem stendur til boða er auk safnsins gert ráð fyrir íbúðarhúsum,verslunum m.a. fyrir myndlist og álíka rými : fylling í skarð gamals borgahluta nálægt Rínarfljóti.

Verðlaunatillagan var í hópi þeirra fáu , sem töldu eðlilegt að safnið verði sýnilegt og með sýningarsali á þrem hæðum, þó að safnið hafi upphaflega viljað hafa einn stóran sýningarflöt neðanjarðar.

Massi safnbyggingarinnar nýju er mjög ríkjandi og eini gluggi efri hæða er fyrst og fremst einskonar „sjónlína“ til gamla safnsins. En massinn er brotinn upp með mynstri tígulsteina, „ornament“ í  Rómverskum anda, en Rómverjar lögðu grunninn að Kölnarborg fyrir um 2000 árum. Slík mynstur tígulsteina eru að vísu alls ekki óþekkt í borginni þó ekki séu þau mjög áberandi.  

Meðferð steinsins bendir sterklega til þess að hér er á ferðinni „klassisk“ skynjun á arkitektúr,sem telja verður til undantekninga í byrjun 21. aldar,skynjun sem notar massiva ,þykka byggingarhluta, náttúrlegan tígulsteinn,einfalda heild og hefur almenna skýrskotun sem einkennir„klassíkar“  byggingar. Skynjun þessi er í anda arkitektsins Louis Kahn, en hann vildi  fyrst og fremst nálgast „frumteikn“ og nota þau sem form í grunnmyndir sínar og byggja með náttúrulegum byggingarefnum og láta massann virka.

Með þessari tillögu opnast upp ýmsar dyr,sem módernisminn lokaði fyrir. Dyr sem opnast á stað,sem einmitt hentar einkar vel fyrir slíkar hugmyndir.

Vissulega má halda því fram að nýtt hús  sé alltaf í einhverskonar samhengi,hvort sem er í borg eða náttúrinni, sem sagt arkitektar vinna aldrei „ex nihilo“. Vaxin umhverfi borga kalla þó á að fyrir hendi sé næmleiki og tillitsemi í samtali þess nýja við það gamla ef hver persónuleiki á að halda reisn sinni.     

Gamli bærinn í Köln var upphaflega byggður af Rómverjum og vökul augu sjá víða þau spor. Tillagan vísar beint til rómveskrar hefðar borgarinnar og tekur jafnframt mið af helstu staðareinkennum: en þetta tvennt  er sett í „tímalausa“ mynd sem fer vel og er hægt að segja að eigi heima á þessum stað.

„Around the corner“ kalla höfundar tillögunnar, þeir Christ+Gantenbein, Basel, nálgunaraðferð sína  og eiga þá við bæði  rými og tíma. En hún felur í sér að leita ekki langt yfir skammt eftir lausnum heldur þróa hugmyndir eingöngu út frá því sem staðurinn býður uppá.

Ítalir tala um að á þann hátt sé flétt  inní „tessuto urbano“ , borgarvefinn.

Líkja má svona vinnuaðferðir við gerð fúgu,sem fléttar sjálfstæðar raddir saman í eina heild.

Raddir sem fléttast saman og eru samt sjálfstæðar og spyrja má hvort þetta sé ekki eðlileg aðferð við að byggja borg ?

Slík nálgun er hins vegar lítið notuð í dag, en spyrja má hvort ekki sé komið nóg komið af egóisma og mainstream í stjörnuarkitektúr samtímans?

Tillagan gefur vonir um ,að safnbyggingin nýja verði með tímanum í hópi þeirra bygginga,sem Köln geti verið stolt af og þar með orðið fyrirmynd fyrir verk ,sem þróað er upp úr einkennum rótgróinna borga eins og Köln. Sú aðferð á reyndar ekkert síður erindi til borga, sem eiga sér styttri sögu að baki eins og t.d. Reykjavíkurborg.

Köln í des. 2013

Gunnlaugur Stefán Baldursson

.

.

Grein þessi barst síðunni frá Gunnlaugi Stefáni Baldurssyni arkitekt sem starfað hefur í Þýskalandi að mestu síðan hann lauk námi frá háskólanum í Karluhe. Hann hefur verið umsvifamikill arkitekt og rekið sína eignin stofu Siegen í Þýskalandi fra 1990, tekið þátt í samkeppnum með ágætum árangri auk þess að stunda kennslu í byggingarlist.

Efst og strax hér að neðan eru myndir af samkeppnistillögunni sem hér er til umfjöllunar og svo koma nokkrar myndir af Wallraf Richartz safninu í miðborgarkjarna Kölnarborgar

Sjá einnig umfjöllun Gunnlaugs um verk Louis I. Kahn á þessari slóð:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/25/louis-i-kahn-og-songvar-vidisins/

köln wallraf-richardz museum 2

 

 

Efni um staðhætti (genius loci) í eftirfarnadi greinum (Lesbók)Mbl. á vefnum.:

„Endalok sýndarmennsku í augsýn?“ 27.6.09

„Perlur með sögu og sál“ 16.01.10

„Samhljómar líðandi og liðinna tíma“ 10.07.11

Á Eyjunni, arkitektur,skipulag staðarprýði:

„Louis Kahn og söngvar víðsins“ 25.03.13    

.

.

.

30.12.2013

Eftirfarandi upplýsingum um höfund bætt við:

Gunnlaugur Stefán Baldursson settist  að í Kölnarborg  1973 þá nýútskrifaður arkitekt frá háskólaum í Karlsruhe.Hann vildi starfa í Miðevrópu í alþjóðlegu umhverfi og vera óháður  pólitískum og álíka samböndum,þ.e. að nálgast verkefnin eingöngu á faglegum grundvelli.

Hann fékk tækifæri til að starfa sem sjálfstæður arkitekt þegar hann vann samkeppni um aðalbækistöðvar ADAC í Köln 1984.

Gunnlaugur stofnaði 1990 teikinstofu í háskólabænum Siegen, nálægt Köln, þegar hann fékk 1. verðlaun fyrir tillögu af byggingu ZESS stofnuninnar við háskólann þar í borg. Jafnframt því fékk hann verkefni við endurgerð og breytingum á elstu kirkju borgarinnar,Martinikirkju, og nánasta umhverfi hennar .Það verk hlaut að framkvæmdum loknum hin eftirsóttu BDA verðlaun.

Undirstaðan fyrir fagvinnu Gunnlaugs er sá skilningur hans ,að byggingar falli eðlilega inní umhverfi og staðhætti.Auk þess vill hann forðast  of persónulegt dálæti, opna með nýjungagirni nýjar dyr og flétta saman hefð og nýjustu tæknimöguleika.     

Verkefni Gunnlaugs eru enn í dag árangur í arkitektasamkeppnum.

Nýlega var tillaga hans í samkeppni fyrir „samskiptamiðstöð“  stórfyrirtækis sem starfar á alþjólegum markaði ,valin til útfærslu.

Gunnlaugur Stefán hefur auk þess verið virkur á öðrum sviðum fagsins,bæði í samvinnu       við háskóla m.a. sem guest critic,auk fyrirlestra og kennslu.Hann hefur skrifað fjölda faggreina m.a.hefur hann hér á Eyjuni fjallað um Louis Kahn og nýjar byggingar í Evrópu og á Íslandi.

Benda má einnig á grein hans :„endalok sýndarmensku í augsýn?“ (Lesbók Mbl. 27.06.09) þar sem fjallað er um sambandið milli bygginga og saðareinkenna.

   Að neðan koma myndir af nokkrum verka Gunnlaugs. Ef smellt er tvisvar á myndina stækkar hún og verður skýrari.

ÜBERSICHT projekte2

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.12.2013 - 16:10 - 4 ummæli

Fallegasta Jólakortið – Fáskrúðsfjörður

 

 

 

 

argos isolett

 

„Fiskveiðar Frakka við Íslandsstrendur eiga sér rætur langt aftur í aldir. Mestar urðu þær á árunum 1830 til 1939 eða fram að seinni heimstyrjöld. En þá sóttu á fimmta þúsund sjómanna á meira en tvö hundruð seglskipum fiskveiðar á Íslandsmið. Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði var reistur 1903 og var einn þriggja spítala sem Frakkar reistu hér á landi á þessum árum. Hinir voru í Reykjavík og í Vestmannaeyjum.

Um svipað leyti var var Læknishúsið byggt en sjúkrakýlið og Kapellan höfðu verið reist nokkru fyrr.

Frakkar hættu rekstri spítalans 1939, skömmu seinna var spítalinn seldur á uppboði, fluttur yfir fjörðinn á Hafnarnes og breytt í fjölbýlishús en þar var nokkur útgerð og búskapur.

Læknishúsið var endurgert árið 1990 og var um skeiðráðhús Búðahrepps en spítalabyggingin var tekin niður og flutt aftur til Fáskrúðsfjarðar 2010. Verið er að leggja síðustu hönd á endurbyggingu húsanna og samtengingu þeirra undir Hafnargötuna, jafnframt því sem Sjúkraskýlið hefur verið endurbyggt í upphaflegu svipmóti og Kapellan flutt aftur við hlið þess og endurbyggð. Í byggingunum verður opnað hótel á næsta ári og sýning um fiskveiðar Frakka og tengslin við Ísland og Íslendinga. Verkefnið var unnið af ARGOS fyrir Minjavernd hf“.

 

Þetta er texti af einu jólakortanna sem bárust teiknistofu minni nú fyrir jólin. Kortið er frá arkitektastofunni ARGOS og er í samræmi við kort sem borist hafa þaðan um áratugi.  Kortin frá ARGOS eru teiknuð og með stuttum fróðleiksmola. Annarsvegar prýða þau falleg handunnin þrívíð teikning af einu verki frá árinu sem er að líða og svo arkitektauppdráttur af sama húsi. Oft, eins og í ár, grunnmynd og snið. Teikningunum fylgir svo stuttur texti þar sem sagt er frá völdu verkefni. Þetta eru falleg og fróðleg jólakort sem teiknuð eru „með hjartanu“ eins og einhver orðaði það.

Gleðileg Jól

Hjálagt eru teikningar af kortinu í á sem prentað er á grófan og þykkan, gráan pappír

 Sjá einng:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/02/22/argos-kynning/

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/01/23/teiknad-med-hjartanu/

 

Argosfáskrlettlett

 

Hér að neðan eru tvær myndir af spítalanum. Önnur fyrir endurbyggingu og hin meðan á endurbyggingu stóð

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.12.2013 - 00:10 - 10 ummæli

Aðkoma Lífeyrissjóða að Landspítalauppbyggingu og fl.

http://blog.dv.is/arkitektur/wp-content/uploads/sites/58/2011/09/nyr_landsspitali_498x230.jpg

Hér kemur fimmti og síðasti hluti umfjölunnar G. Odds Víðissonar um bygingaráform Landspítalans við Hringbraut. Hann lýsir hér áhuga sínum um að byggður verði nýr spítali sem fyrst og  frá grunni en á öðrum stað. Hann telur að ná megi mun betri starfrænum-, borgarskipulagslegum- og fjármálalegum árangri ef verkefnið yrði flutt  og fleiri þættir fléttaðir inn í lausnins. T.am. verðmætt land við Borgarspítala og við Hringbraut sem sjálfsagt er að nota undir starfsemi sem hentar staðum.

Gefum G. Oddi Víðissyni orðið.:

 

 

5 af 5 LSH Aðkoma Lífeyrissjóða.

Ég fagna þeirri ákvörðun margra lífeyrissjóða (LS) um að koma að mögulegri uppbyggingu á nýju húsnæði fyrir Landsspítala Háskólasjúkrahúss (LSH).

Ég tel afar brýnt að hannaður og byggður verði nýr spítali frá grunni. Það hámarkar hagræðingu í rekstri spítalans og jafnframt stuðlar að betri nýtingu rýma og almennrar skilgreiningar á nútíma sjúkrahúsi en ná má fram á lóð við Hringbraut og tengingar við eldri mannvirki. Jafnframt næst fram mikil byggingatæknileg hagræðing þar sem nútíma efnisnotkun og staðlar um sérhæft húsnæði yrðu notuð.

Það er eðlileg krafa LS, fjárfesta í þessu tilviki, að fara fram á að staðsetning LSH verði endurskoðuð þar sem það er skiljanlegt sjónarmið að LS vilji fjárfesta í heilstæðu nútíma mannvirki þar sem forsögn og þarfagreining hæfa nútíma spítala sem ætlað er að þjóna sjúklingum um langan tíma.

Það er jafnframt eðlileg krafa að ríkið óski eftir því að LS kaupi mannvirki og lóðir sem eru í eigu LSH við Hringbraut og í Fossvogi. Allavega ætti að skoða verðmæti þessara lóða og fasteigna og sjá hvaða áhrif það hefur á skuldbindingu ríkisins til lengri tíma, til lækkunar. Þau mannvirki og lóðir kæmu þá til með að vera eiginfjárframlag ríkisins til LS, ekki þyrfti þá að koma til 100% lánsfjármögnun til handa ríkinu sem verkkaupa (leigutaka).

Með hliðsjón af viljayfirlýsingu milli ríkisins og LS sem undirrituð var fyrir nokkru síðan, þar sem tekið er fram af hálfu LS um að þessi viðskipti verði arðbær er ljóst að skoða verður ofangreind atriði. Það vaknar einnig upp sú spurning hvaða viðskiptamódel aðilar ætla að brúka sín í milli. Getur verið að sú leið sem ríkið hefur oft farið þegar kemur að opinberu húsnæði dugi ekki nú þ.e. að fjárfestir leggi til mannvirki og ríkið leigi til langs tíma. Þarf kannski að færa það sem lán af hálfu ríkisins, sem er eflaust ekki á bætandi um þessar mundir.

Svæði LSH við Hringbraut er án vafa eitt verðmætasta byggingaland sem til er í borginni. Sú vinna sem nú fer fram hjá Borgarskipulagi Reykjavíkur vegna endurskoðunar á Aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2030, bendir til þess að áhersla verði lögð á töluverða þéttingu byggðar vestan Snorrabrautar/Elliðaáa m.a. með áherslu á svæði í og við Vatnsmýri. Svæði LSH ætti  því að falla vel að markmiðum skipulagsyfirvalda í Reykjavík.

Það verður að teljast ákjósanlegur kostur fyrir LS að athuga með kaup á landsvæði við Hringbraut og í Fossvogi, samhliða uppbyggingu á spítala á nýjum stað. LS myndu þá standa að þróun og uppbyggingu á þessu landsvæði og lóðum og auka þar með virði svæðisins enn frekar..

Þessir tímar nú, þrátt fyrir allt, fela í sér tækifæri fyrir viðkomandi  aðila og í reynd landsmenn alla. Ég tel þessi tímamót vera ákjósanleg til áframhaldandi skoðanaskipta um þessi mál og hvet ég alla til að skoða málefni uppbyggingar fyrir LSH með nýju hugarfari.

Það gilda ekki þau rök að haldið verði áfram að óbreyttu þar sem tekin hefur verið ákvörðun um staðsetninguna „fyrir löngu“. Það er ekki veikleiki að skipta um skoðun heldur reynist oftar en ekki styrkleiki hjá þeim sem þora.

Ég vil því hvetja stjórnvöld til að taka til gagngerrar endurskoðunar áætlanir um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut með það að leiðarljósi að finna honum annan stað og nýta lóðina með öðrum hætti. Það sé bæði hagur spítalans, notenda hans og starfsmanna , þróun byggðar í vesturhluta Reykjavíkur  og skili sér í öflugri og betri skipulagslegri heild höfuðborgarsvæðisins.

Tökum til hendinni, komum upp mannvirki sem hentar sem best fyrir starfsemi LSH, iðkum skynsama landnýtingu, förum vel með fjármuni almennings og umfram allt, vöndum okkur.

 

 

 

Lokaorð Odds í þessum greinaflokki bera þess merki að þarna eru lausnamiðuð sjónarmið á ferðinni sem eru öllum til góðs. Sjónarmið hans vísa til betri lausna fyrir sjúklinga, borgarskiðpulagið og efnahagslífið.  Ef einhver er ósammála sjónarmiðum Odds eða telja núverandi hugmyndir góðar þá óska ég sérstaklega eftir því að þeir láti rödd sína heyrast hér á vefnum eða annarsstaðar.

Efst í ærslunni er mynd sem sýnir lóð spítalans við Hringbraut fullbyggða. Fyrir liggur að þessi uppbygging mun eiga sér stað um marga áratugi og líklegt er að bara eftir 10-15 ár verði þessar hugmyndir úreltar eða að önnur og öðuvísi hugmyndir verði ríkjand. Líklegt er að þetta verði aldei  framkvæmt og þarna verði „skipulag auðnarinnar“ allsráðandi meðan flest okkar erum ofar moldu.

Og svo er  er vert að velta fyrir sér hvað gerist þegar lóðin er fullbyggð?

Ég tek undir með Oddi og segi: Sýnum manndóm og endrskoðum þetta allt saman og samræmum nýju aðalskipulagi borgarinnar áður en það er orðið of seint

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.12.2013 - 22:19 - 5 ummæli

Nýr Landspítali og heilbrigðisvísindasvið HÍ á Keldum

 

http://blog.dv.is/arkitektur/wp-content/uploads/sites/58/2013/06/%C3%9Er%C3%B3unar%C3%A1s.jpg

Hér birtist næstsíðasti hluti umfjöllunnar G. Odds Víðissonar arkitekts um byggingaráform Lanspítalans og staðsetningu hans í borgarlandslaginu. Hann fjallar hér um notkun landspítalalóðarinnar ef spítalanum yrði fundinn annar staður. Oddur færir rök fyrir gríðarlegum tækifærum fyrir Landspítalann til langrar framtíðar verði honum fundinn annar staður og hvernig staðsetning að Keldum samræmist markmiðu AR2010-2030 um umferðamál og fl.

4 af 5  Nýr Landspítali og heilbrigðisvísindasviðs HÍ á Keldum

Það er mat mitt að mjög líklega sé hagsmunum Landspítalans, gamla miðbæjarins, nýtingu samgöngumannvirkja, sem og borgarbúa og þjóðarinnar allrar sé best borgið með byggingu nýs Landspítala á svæði Keldna í austurborg Reykjavíkur. Þar sé jafnframt skynsamlegt að byggja upp læknavísindadeild Háskóla Íslands í nýju húsnæði ásamt rannsóknarmiðstöð á sviði heilbrigðisvísinda

Að sama skapi verði lóð spítalans við Hringbraut nýtt undir blandaða landnotkun fyrir íbúðir, þjónustu og skrifstofur, með áherslu á hið fyrst nefnda. Svæðið verði jafnframt skipulagt þannig að það geti virkað sem skipulagslegt bindilím milli eldri byggðar í Þingholtunum og nýrrar byggðar í Vatnsmýrinni.

Keldur eru afar stórt svæði sem geta tekið við öllum framtíðaráformum Landspítalans til langrar framtíðar og eflaust meira til. Nægt rými er til að byggja þar upp tengda starfsemi. Það má jafnvel vel færa rök fyrir því að á svæðinu verði byggð önnur tengd starfsemi sem getur notið góðs af nálægð við Landspítalann, s.s. endurhæfingarstöðvar, hjúkrunarheimili, íbúðir aldraðra og fleira sem skapað gæti samlegð.

Sem væntanlega stærsti vinnustaður landsins mun staðsetning hans á Keldum jafna álag á samgöngukerfi borgarinnar á álagstímum. Starfsfólks spítalans, sem býr í hinum mannmörgu íbúðahverfum austurborgarinnar munu að mestu ferðast innan borgarhlutans á leið sinni til og frá vinnu. Þeir starfsmenn, sem búa í vesturborginni eða nágrannasveitarfélögunum til suðurs munu ferðast „á móti straumnum“ eins og hann er í dag á morgnana, og til baka á kvöldin.

Í austurborginni eru mörg stór íbúðahverfi þar sem starfsmönnum bjóðast íbúðir á viðráðanlegra verði en á mörgum öðrum stöðum í borginn. Þeim er því gefinn kostur á að búa í næsta nágrenni við vinnustað sinn og þurfa þar af leiðandi ekki að ferðast yfir hálfa borgina á leið til og frá vinnu. Lífsgæði þeirra aukast fyrir vikið.

Unnt er að lækka byggingarkostnað verulega með því að sleppa bílakjallara og leysa þörf fyrir bílastæði með hefðbundnum yfirborðsbílastæðum.  Þau má vel gera aðlaðandi og fella inn í landslagið. Seinna meir mætti byggja bílastæðahús ofanjarðar , en þau eru hagkvæmari í uppbyggingu og rekstri en kjallari.

Starfsemi Tilraunastöðvarinnar á Keldum og framtíð hennar.

Í dag er rekin Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Það er sérstofnun sem tengist læknadeild HÍ, en hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag (www.keldur.hi.is). Þar eru stundaðar grunn- og þjónusturannsóknir í líffærameinafræði, örverufræði, ónæmisfræði, sníkjudýrafræði, lífefnafræði og sameindalíffræði í bæði líf- og læknisfræði bæði dýra og manna.

Ýmislegt virðist mæla með því að sá hluti Tilraunastöðvarinnar sem snýr að líftæknilegum- og læknisfræðilegum rannsóknum í dýrum geti t.d.  flust og samþættur starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, eða annan hentugri stað. Þar eru í dag stundaðar fjölþættar rannsóknir er lúta að meðferð, ræktun og nýtingu lands, búfjár og ferskvatnsdýra til framleiðslu matvæla og annarrar atvinnu- og verðmætasköpunar, þ.á.m. í sameindaerfðafræði. Það er þó auðvitað algerlega háð áliti sérfræðinga stöðvarinnar og tengdra aðila hvort slíkt sé gerlegt eða æskilegt. Með því væri hægt að byggja upp stórt þekkingarþorp fyrir heilbrigðisvísindi á Keldum. Þar væru saman komin nýr Landspítali, heilbrigðisvísindadeildir Háskóla Íslands og rannsóknarmiðstöð í líftækni- og læknavísinum ásamt annarri tengdri starfsemi með nægu rými til stækkunar og útvíkkunar til langrar framtíðar.

Efst í færslunni er kort sem sýnir hvernig fyrirhugaður samgönguás, AR2010-2030, gengur eftir endilangri borginni og tengir hana saman frá Vesturbugt að Keldum. Þarna er gert ráð fyrir fyrsta flokks vistvænum alenningssamgöngum sem binda mun borgina saman. Ef grant er skðað verður mönnum ljóst að núverandi lóð Landspítalans við Hringbraut tengist ekki þessum samgönguás. Enn alvarlegra er að  fyrirhuguð samgöngumiðstöð er ekki í tengslum við samgönguásinn. Það læðist að manni sá grunur að staðsetning samgöngumiðstöðvarinnar sé að mestu ákveðin á forsendum spítalans sem aftur er í ósamræmi við aðlskipulagið. Þannig má með rökum halda því fram að spítalinn og staðsetning hans sé helsta ógnun við hið bráðgóða og framsýna AR 2010-2030 sem nú er í rýni hjá Skipulagsstofnun.

Sjá einnig :


http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.12.2013 - 07:44 - 2 ummæli

3 af 5 LHS Stækkunarmöguleikar og samverkun hverfa.

Hér kemur þriðji hluti greinar Odds Víðissonar arkitekts þar sem hann fjallar um stækkunarmöguleika á lóðinni við Hringbraut og ýmsa erfiðleika á framkvæmdatíma. Oddur er sennilega einn reyndasti arkitekt samtímans hér á landi þegar kemur að framkvæmdastjórnun, fjárfestingum og rekstri bygginga. Hafa ber í huga að erindið var samið fyrir 4 árum og hefur sumt breyst lítillega í áætlunum spítalans síða. Það er þó ekkert sem neinu nemur í þessu stóra samhengi.

 

3 af 5 LHS Stækkunarmöguleikar og samverkun hverfa.

Að mati (staðarvals) nefndarinnar er stærð lóðarinnar við Hringbraut nægileg til að hún geti uppfyllt frekari stækkanir í framtíðinni. Þetta bendir til þess að stór hluti lóðarinnar muni verða óbyggður um langa tíð. Lóð sem segja má að gegni lykilhlutverki í að samþætta eldri byggð í Þingholtunum við nýja byggð í Vatnsmýrinni þegar og ef kemur að uppbyggingu þar. Það er álitamál hvort að slíkt fyrirkomulag samræmist markmiðum um eflingu miðborgarinnar með þéttingu byggðar vestan Elliðaáa.

Fyrirkomulag meginbygginga sjúkrahúss og háskólabyggingar gefa ekki góð fyrirheit um að jafnvel fullbyggð muni þau hafa áhrif að byggð norðan Hringbrautar og sunnan virki saman sem ein heild. Legudeildir snúa til suðurs og þurfa því, vegna hljóðvistarákvæða, líklega að vera langt frá umferðaræðinni. Sennilega er sama krafa gerð um skólahúsnæði og fyrirlestarsali, og því þurfa skólabyggingar sömuleiðis að vera fjarri umferðaræðinni. Fyrirkomulagið kallar því mögulega á víðáttumikið vannýtt rými meðfram Hringbraut, sem erfitt er að ímynda sér að virki vel sem tengiliður milli gamla borgarhlutans í Þingholtunum og nýs borgarhluta í Vatnsmýrinni.

Samþætting sjúkrahússtarfsemi við byggingaframlvæmdir.

Ein mótrök gegn því að byggja upp nýtt sjúkrahús við Hringbraut eru ekki nefnd í staðarvalsálitinu, en það er sú staðreynd að leggja þarf stóran hluta svæðisins undir vinnusvæði, vinnubúðir og efnislager með tilheyrandi efnistilflutningum og raski um alllangt skeið, Líklega allt að 24 mánuði, sem er sá tími sem fram kemur í álitinu. Þá eru ekki taldar með seinni tíma stækkanir og framkvæmdir. Það hlýtur að teljast neikvæður þáttur að vinna að slíkri uppbyggingu í næsta nágrenni við spítala í fullum rekstri.

Samþætting heilbrygðisvísindasviðs við Lanspítalann.

Það eru mjög sannfærandi rök færð fyrir því að staðsetja læknavísindadeild háskólans í næsta nágrenni við Landspítalann. Það virðist vera í samræmi við þá uppsetningu sem flestir háskólar með öfluga læknavísindadeildir njóta. Einnig kemur fram í áliti staðarvalsnefndar sú skoðun deildaráðs læknadeildar HÍ og annarra hagsmunaaðila við háskólann og Landspítalann þetta sama álit.

Þó fallast megi á þá augljósu röksemd að byggja upp Landspítalann og lækna- og heilbrigðisvísindadeild HÍ á sama stað og í mikilli nánd hvert við annað, þá vaknar upp mikilvæg spurning um það hversu mikill akkur sé í raun fólginn í nánd við aðra starfsemi og aðrar deildir Háskólans. Það virðist ekki há bestu háskólum heims á sviði læknavísinda að vera með aðrar deildir á öðrum svæðum. Það sem virðist skipta máli hins vegar er það að starfsemi og vísindastarf af sama toga sé í góðri nánd hvert við annað. Að heilbrigðisvísindadeild sé t.a.m. í góðri nánd við spítalastarfsemi og rannsóknarstarfsemi í heilbrigðisvísindum. En nánd við háskóla- og aðra starfsemi sem ekki er á tengdum sviðum virðist skipta mun minna máli.

Það er því mjög mikilvægt að fá úr því skorið hvort meginforsenda farsællar uppbyggingar beggja stofnana sé sú að Landspítalinn sé í sem mestri nánd við Háskólann – eins og staðarvalsnefndin kemst að orði – eða hvort meginforsendan sé sem mest nánd við læknavísindadeild Háskólans.

 

 

Efst er mynd af höfuðbyggingu Háskóla Íslands. G. Oddur Víðisson arkitekt veltir fyrir sér hvort nálægð heilbrigðisvísindasviðs skipti eins miklu máli og haldið er fram. Hann efast um það og rökstyður efasemdirnar með góðum rökum

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.12.2013 - 08:14 - 6 ummæli

2 af 5. LHS – Aðgengi og samgöngur

Hér í öðrum hluta raðar G. Odds Víðissonar arkitekts  um Landspítalann fjallar hann um samgöngur, nýtingu eldri bygginga og samverkun miðborgar og háskólasvæðis.

Í athugasemdarkerfinu vegna síðustu færslu veitti einn þeirra sem komið hafa að málinu andsvör og ábendingar sem voru mkilvægar og upplýsandi fyrir umræðuna.

Vonandi sjá einhverjir aðstandendur ákvarðanatöku um staðsetningu sjúkrahússins og deiliskipulagið ástæðu til þess að tjá sig um eftirfarandi sjónarmið Odds og verja verk sitt.

2 af 5. LHS – Aðgengi og samgöngur

(Staðarvals)Nefndin telur staðsetninguna við Hringbraut vera miðsvæðis og að í útjaðri þess séu mikilvægar umferðaræðar sem tengi úthverfi við miðborgina og borgina við landsbyggðina. Staðreyndin er sú að svæðið er ekkert sérstaklega miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Það er í raun í vesturhluta þess og í um 2,5 km frá þungamiðju þess. Það er jafnframt í vestanverðum útjaðri kjarna atvinnu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu sem hefur landfræðilega miðju sína u.þ.b. á Kringlusvæðinu.

Umræddar umferðaræðar eru Miklabraut og Bústaðavegur sem sannarlega má telja mikilvægar, en eru jafnframt geysilega ásetnar á álagstímum, ekki síst til norðurs og vesturs á morgnana, og til baka á kvöldin. Staðsetningin er því ekki góð m.t.t. umferðar starfsmanna úr fjölmennustu íbúahverfunum, sem flest eru töluvert austar og sunnar, né m.t.t. bráðaumferðar sjúkrabíla, nema til komi nýjar og mjög greiðfærar tengingar til austurs og suðurs með verulega háu þjónustustigi.

Svæðið er ekki heppilega staðsett m.t.t. sjúkraumferðar af landsbyggðinni þar sem aka þarf sjúkrabílum í gegnum kjarna byggðarinnar. Þar eru tafir í umferð einna mestar og verða áfram miklar á næstu árum og áratugum, þrátt fyrir uppbyggingu mannvirkja sem auka umferðarrýmd.

Það er vafamál hversu lengi sjúkrahús við Hringbraut verður í góðum tengslum við innanlandsflugvöll og samgöngumiðstöð. Verðmæti Vatnsmýrarinnar sem byggingarland vex frá ári til árs og skipulagslegur ávinningur af nýtingu þess undir aðra landnotkun eykst með degi hverjum. Ef reikna má með því að flugvallarstarfsemin leggist af er miðstöð almenningsvagna og langferðabifreiða mun betur komið í miðju atvinnu- og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu, t.d. við nánd við Kringluna.

Nýting eldri bygginga

Álit nefndarinnar byggist að hluta til á því að unnt væri að nýta eldri byggingar við Hringbraut að miklu leyti. Spurning er hvort núverandi byggingar uppfylli nútímakröfur um sjúkrahús án meiriháttar breytinga og kostnaðar. Forsendan um að með því væri unnt að spara fé við uppbyggingu með nýtingu eldri bygginga virðist því að einhverju leyti brostin.

Á meðan hefur lóðin við Hringbraut vaxið mjög mikið að verðmæti hin síðustu ár. Fjármagn, sem leysa mætti með sölu lóðarinnar undir aðra landnotkun myndi mjög líklega fara langt með að bæta upp kostnað vegna þess að hugsanlega þyrfti að byggja upp algerlega nýtt rými fyrir alla starfsemina á öðrum stað, þ.m.t. nýjan barnaspítala, kvennadeild og geðdeild.

Stuðningur og samverkun við miðborg og háskólasvæði.

Einn helsti styrkleiki staðsetningarinnar við Hringbraut, að mati nefndarinnar, er nánd og fléttun við miðborg Reykjavíkur. Þetta er byggt á því mati White-arkitekta, ráðgjafa staðarnefndarinnar, að unnt sé að flétta saman sjúkrahús við miðborgarbyggð og skapa samlegð við aðra þjónustuþætti og mannlíf. Þetta mat virðist hins vegar byggt á reynslu þeirra og rannsóknum af slíkum verkefnum í gömlum miðborgum Evrópu þar sem lungi starfsmanna notar almenningssamgöngur líkt og annað fólk sem þar starfar. Ný sjúkrahús í eldri miðborgum geta því vel haft jákvæð samverkandi áhrif á miðborgarstarfsemi og mannlíf, þar sem mikill fjöldi gangandi bætist við þann sem fyrir er á leið milli starfstöðva og stoppistöðva strætisvagna og lesta, að því gefnu að framboð bílastæði fyrir starfsmenn sé jafnframt haldið niðri og stýrt með hárri gjaldtöku eða öðrum leiðum.

Svo er ekki fyrir að fara í því tilviki sem hér um ræðir. Eins og áður segir býr fjöldi starfsmanna annars staðar en í miðborg Reykjavíkur og flestir aka til og frá vinnu í eigin bíl. Mjög hátt framboð ókeypis eða mikið niðurgreiddra bílastæða mun ekki breyta því.

Vinningstillaga um skipulag sjúkrahússins bendir til að erfitt verði að ná fram öðru markmiði White-arkitekta um samþættingu sjúkrahússins við miðborg Reykjavíkur, þ.e. með blöndun mælikvarða og að afmá skil hennar við nánasta umhverfi sitt. Það er margt sem bendir til þess að tilraunir til að samhæfa mælikvarða íbúðabyggðarinnar umhverfis spítalann og spítalann muni ekki ganga eftir. Að minnsta kosti ekki nema slíkt bitni á skipulagi og hönnun hans. Ráðgjöf White-arkitekta í þessu sambandi er því miður afar slök að þessu leyti og bendir margt til þess að þeir hafi lítt rannsakað eða ekki áttað sig á umhverfi lóðarinnar við Hringbraut.

Það er margt sem bendir til þess að óraunhæft sé að ætla að HÍ og spítalasvæðið muni ná landfræðilegri samvirki. Til þess er fjarlægðin milli þeirra einfaldlega of mikil.

Efst í færslunni er kort sem gert var vegna umerðaspár árið 2012. Þarna sést hvar viðamestu krossgötur borgarinnar  og höfuðborgarsvæðisins er að finna. Athygli er vakin á því að þarna eru sýnd göng undir öskjuhlíð í hlað Landspítalans. Þessi göng hafa verði lögð af samkvæmt AR 2010-2030


Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.12.2013 - 08:18 - 13 ummæli

1 af 5 – Landspítali við Hringbraut – nýtt tækifæri

Keldur

Síðunni var send ræða sem G. Oddur Víðsson arkitekt flutti á málþingi sem haldið var í húsnæði Íslenskrar Erfðagreiningar haustið 2009 um  byggingaráform Landspítalans.

Þar fjallaði hann um staðarval NLHS og benti á annmarka þess og önnur og betri tækifæri. Þetta er langt erindi em hentar ekki vel vefsíðu sem þessarri.  En ræða G. Odds Víðissonar á jafn mikið erindi í umræðuna nú og fyrir 4 árum .  Sérstaka athygli vekur að flest af því sem Oddur kemur inná er enn i fullu gyldi þó 4 ár séu liðin frá því að erindið var samið.

Á þeim árum sem liðin eru hefur margt breyst sem styður fremur vangaveltur  G. Odds Víðissonar en hitt.  Ber þar fyrst að nefna nýjar áherslur í AR 2010-2030 þar sem samgönguás eftir endilangri borginni vegur þungt.

Ég hef, með leyfi höfundar, skipt erindinu í kafla sem henta þessum miðli.

1 af 5

Landspítali við Hringbraut – nýtt tækifæri

Þann 18. Janúar 2005 tók þáverandi Ríkisstjórn Íslands ákvörðun um að heimila Landspítala háskólasjúkrahúsi að auglýsa skipulagssamkeppni um hönnun nýs spítala á lóð hans við Hringbraut. Sú ákvörðun kom í kjölfar álits starfsnefndar um framtíðaruppbyggingu háskólasjúkrahúss um að velja ætti hinum nýja spítala stað við Hringbraut. Hún byggir að mestu á rökstuðningi við val á Hringbraut sem framtíðarlóð sjúkrahússins og finna má í skýrslunni: „Framtíðarskipulag og uppbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahúss” frá 2002.

Það er mat mitt að endurskoða eigi þessa niðurstöðu starfsnefndarinnar. Ég tel að mikið í þeirri röksemdarfærslu, sem er til grundvallar staðarvalinu, sé í mörgum tilfellum byggt á heldur veikum grunni og jafnvel ákveðinni óskhyggju, sem er hvorki til bóta fyrir framtíð Landspítalans, Reykjavíkurborgar, Háskólans né þjóðarinnar í heild sinni.

Ég tel að hugsanlega sé of mikið gert af ávinningi vegna  nálægðar lóðarinnar við Háskóla Íslands. Jafnframt  að þekkingarmiðstöð í læknavísindum, með Landspítala og læknavísindadeild Háskóla Íslands, geti vel myndað öfluga og starfhæfa heild annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Fordæmi fyrir því má finna í mörgum helstu lækna- og heilbrigðis-miðstöðvum vestan hafs og austan.

Það er rökrétt að nýjum Landspítala og læknavísindadeild HÍ verði fundinn annar staður en við Hringbraut. Svæðið við Hringbraut mun gagnast borginni og samfélaginu betur verði það nýtt til annarra nota en undir starfsemi þessa, væntanlega stærsta vinnustaðar landsins.

Það er ekki orðið of seint að breyta ákvörðuninni og vinna má upp tafir hratt og vel. Bygging nýs spítala þarf ekki að tefjast verulega þótt ákvörðun um staðsetningu verði breytt, að því gefnu að finna megi aðra heppilega lóð sem er í eigu íslenska ríkisins. Sýna má fram á að kostnaðarauki sé óverulegur og spara megi verulega við byggingu nýrrar spítalabyggingar á öðrum stað en við Hringbraut. Það er ekki síst vegna mikilla lóðaverðmæta við Hringbraut sem leysa má út með sölu þeirra og setja í byggingu spítalans annars staðar. Einnig má spara mjög dýran og vandasaman bílakjallara sem fyrirhugaður er.

Ég tel að uppbygging nýs Landspítala og læknavísindadeildar HÍ ásamt tengdri rannsóknar-starfsemi á Keldum sé sennilega einn besti kosturinn sem til staðar er og að færa megi mjög góð og gild rök fyrir því. Rök sem verða lögð fram hér á eftir sem andsvar og mótrök við álit starfsnefndar um staðarval nýs Landspítala.

 

Efst í færslunni er loftmynd af landi Keldna sem er í eigu ríkissjóðs. Þarna er eystri endi vistvæns samgönuáss nýja aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Hinn endinn er við Vesturbugt í Reykjavíkurhöfn

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.12.2013 - 23:06 - 5 ummæli

Harpa – matarmarkaður – hús fólksins!

Nú um helgina var haldinn sérlega velheppnaður matarmarkaður í Hörpu.  Ég kom þangað uppúr hádegi á laugardag og varð strax undrandi yfir vöruúrvalinu og hvernig varan var pökkuð inn, kynnt og seld. Allt var þetta til fyrirmyndar, smekklega gert og af mikilli þekkingu. Seljendurnir sem jafnframt voru framleiðendur, þekktu vöru sína og komu kaupendur aldrei að tómum kofanum þegar seljandiin var spurður um vöruna.

Annað sem vakti athygli var stemmingin og andrúmið sem þarna var. Það ríkti gleði og ánægja með framtakið hvarvetna. Bæði meðal seljenda og kaupenda og þeirra sem voru bara forvitnir vegfarendur.

Það hefur lengi vantað matarmarkað hér í Reykjavík. Markað þar sem framleiðendur selja vöru sína. Flestir hafa kynnst matarmörkuðum á ferðalögum sinum erlendis. Það sem einknnir þá er að þar er leiðin frá framleiðanda til neytanda stytt verulega. Oft um marga milliliði. Í stórmörkuðum veit í raun enginn hvaðan varan kemur sem seld er. Starfsfólk stómarkaðanna þekkir ekki vörnua sem er boðin til sölu.

Það var ánægjuleg upplifun að koma í Hörpu  í þessum markaðsbúningi, iðandi af lífi. Hún hefur aldrei verð betri.

Frá hruni hafa menn mikið velt fyrir sér hvað gera ætti við Hörpu. Snemma í kreppunni var ákveðið að klára húsið í samræmi við fyrri áætlanir. Sennilega var það skynsamlegt.

En þessi velheppnaði matarmarkaður gefur tilefni til þess að velta fyrir sér hvort ekki sé tilefni til þess að hugleiða matarmarkað í húsinu til frambúðar. Endurskipuleggja opnu svæði hússns frá grunni (sem eru of stór) og koma fyrir vönduðu vöruhúsi þar sem matarmenning og íslensk hönnun fléttist starfrænt saman við tónlist og upphaflegar hugmyndir um notkun hússiins. Þarna yrði matur , músikk og hönnun. Þetta getur vel farið saman. Þá væri fyrst hægt að tala um menningarhús – menningarhús fólksins.

Svona starfssemi hentar vel á þessum stað. Hún tengist samgönguás aðalskipulagsina og væri aðdráttarafl fyrir jafnt ferðamenn sem alla íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þetta gæti orðið einskonar „Torvehaller“ Reykjavíkur með hámenningu á næstu grösum.

Hér fylgja nokkrar ljósmyndir sem ég tók með síma mínum í gær. Efst er yfirlitsmynd sem sýnir stemminguna og hluta þess fjölda fólks sem þarna var. Sennilega þúsundir.  Andrúmið og upplifunin var stórkostleg og eykur bjartsýni um framhaldið.  Að neðan koma svo nokkrar myndir af fjölbreyttum sölubásum framleiðenda og vörum þeirra.

Neðst er svo mynd sem tekin er hafnarmegin í Hörpu þar sem ekkert var að gerast fremur en venjulega. Hún sýnir það sem oftsinnis hefur verið bent á, að arkiektarnir sem hönnuðu húsið hafa ekki áttað sig á kostum staðsetningarinnar og snúið húsinu öfugt. Þeir hafa lagt áherslu á að tónleikagestir og aðrir gestir Hörpu þjáist af útsýni til einnar stærstu umferðaræðar borgarinnar og Seðlabankans en ekki komið auga á hið augljósa tækifæri sem bauðst með útsýni til vesturs og norðurs þar sem er Reykjavíkurhöfn og fjallahringurinn sem er eins og „fjólublár draumur“

Nokkuð hefur verið skrifað um matarmarkaði á þessum vef. Hér eru nokkrir tenglar:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/14/fiskimarkads-tilraun-i-reykjavik-2010/

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/10/hegningarhusid-safn-um-hrunid/

 

 

photo.JPG 1Kofareykt bjúgu frá Bjarteyjarsandi

photo.JPG4Íslenskt handverk: Konfekt frá Sandholtsbakaríi

photo.JPG3Sultur voru seldar af sultugerðarmanninum

photo.JPG2

Kökugerðarfólk kynnir og selur vöru sína

1511194_10152120734017718_1926953811_nÞaðvar sammekt með nánast öllum vörum sem í boði voru að umbúðir voru fallegar og vel hannaðar. Hér eru boðnar Makkarónur frá Matarkistunni.

1476170_10152129893338489_1514618560_n Bóndahjónin á Bjarteyjarsandi tilbúin til þess að selja vöru sína og svara viðskiptavinum sínum.

utiÞar sem útsýnið er best og fallegast, þar sem staðsetning Hörpu nýtur sín best var ekkert um að vera frekar en endra nær, enda snýr húsið að því er virðist öfugt.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.12.2013 - 09:55 - 13 ummæli

Þarf spítalinn að vera svona stór?

 

02-landspitali-1acrpolett

 

Það er aldrei of seint að beygja af rangri leið.

Eins og margoft hefur komið fram hefur ekki tekist að sannfæra mig og mikinn fjölda Reykvíkinga og landsmanna um að þær áætlanir sem nú er unnið að í uppbyggingu landspítalans við Hringbraut sé skynsamleg. Það er nánast sama hvernig litið er á málið, fjárhagslega, skipulagslega  eða framkvæmdalega. Þegar þannig stendur á er ástæða til þess að hugsa sig um.

Nýlega varð á vegi mínum grein eftir Guðrúnu Bryndísi Karlsdóttur sem er sjúkraliði og verkfræðingur. Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. mars 2012. Ég birti hér lokaorðin í grein Bryndísar þar sem hún fjallar um stærð spítalans. Greinina má lesa í heild sinni á þessari slóð:http://nyrlandspitali.com/vefpistlar/ymislegt/96-allskonar-vidh-hringbraut.html

Guðrún Bryndís nefnir niðurlagið: Þarf spítalinn að vera svona stór?

„Í fyrsta áfanga er áætlað að byggja 95-105.000 fermetra spítala fyrir lánsfé, afborganir af lánum verður nýr kostnaðarliður í rekstri sjúkrahússins. Í skýrslu norskra sérfræðinga frá 2009, er bent á að 300-400.000 íbúa þjónustusvæði  í Noregi þurfi um 90.000 fermetra spítala. Í fyrsta áfanga á því að byggja spítala sem nægir jafnmörgum Norðmönnum og allir íbúar þessa lands. Með því að nýta eldri byggingar áfram, eru fermetrar LSH orðnir fleirri en Norðmenn þyrftu. Getur verið að háskólasjúkrahús Íslands sé of metnaðarfull framkvæmd fyrir okkur í bili? Er ekki full ástæða að grípa tækifærið áður en það glatast og endurskoða staðsetningu í stað þess að velja lóð undir spítala eins og var gert fyrir rúmum áratug? Þarf ekki að meta fórnarkostnað borgarinnar sem felst í öllum þeim fjölda sem keyrir vestur í 101 til vinnu, öryggi sjúklinga þegar spítali er staðsettur í þungamiðju umferðar og því hvort það eigi bara að veita allskonar sjúkrahúsþjónustu við Hringbraut og hvergi annarsstaðar á landinu? Er ekki kominn tími til að skoða það sem vel er gert á einkareknum stofum og á smærri sjúkrahúsum?  Stærð nýs Landspítala mætti þá endurskoða m.t.t. þeirrar þjónustu sem á best heima þar og um leið velja honum heppilegan stað í borginni, þar sem margir búa, fáir vinna, vegakerfi landbyggðarinnar tengist borginni og þannig má létta á umferð um alla borgina“.

Það er einhvern vegin þannig með gildandi deiliskipulag að allir sem að því hafa komið hafa unnið vel að sínum verkum. Þeir sem gerðu forsögnina, þeir sem unnu samkeppnina, þeir sem unnu deiliskipulagið, þeir stjórnmálamenn og embættismenn sem veittu deiliskipulaginu brautargengi hafa unni af fagmennsku og með góðum ásetningi. Hinsvegar hefur svo mikið breyst í tímans rás að ekkert stendur eftir sem á að bera uppi þessar hugmyndir. Deiliskipulagið stendur á brauðfótum.

Allt er öðruvísi nú en það var þegar þessi vegferð hófst. Húsrýmisáætlunin hefur tvöfaldast, úr um 140 þúsund fermetrum í tæplega 300 þúsund, gildandi deiliskipulag stenst ekki lengur kröfur aðalskipulags Reykjavíkur, deiliskipulagið er ekki í samræmi við opinbera menningarstefnu um mannvirkjagerð frá 2007, það hefur ekki náðst almenn sátt um verkefnið, fjárhagslegt umhverfi er annað en fyrir áratug. Þetta er 2007 skipulag „per exalance“.

Þessi atriði og mörg fleiri gera það að verkum að nauðsynlegt er að endurmeta deiliskipulag spítalans, umfang þess og  staðsetningu. Deiliskipulagið er á margan hátt vanreifað og illa kynnt. T.a.m. er svo einfalt mál eins og bílastæðauppgjör hverfisins óuppgert ef marka má meistararitgerð Kristins Jóns  Eysteinssonar nema í HR sem kynnt var í Morgunblaðinu í gær.

Hér að neðan er kynningarmyndband sem gert er af aðstandendum deiliskipulagsins til þess að sanfæra þá sem á horfa um ágæti þess.

Ég ráðlegg öllum sem hugsa um þetta mál að horfa á myndbandið. Þeir munu þá sjá að þarna er um að ræða myndband sem inniheldur óskalista þeirra sem að þessu standa fremur en kynningu á deiliskipulagi. Í myndbandinu er ekker fjallað um meginviðfangsefi deiliskipulags á þessum stað. Aðlögn að aðliggjandi byggð er ekki nefnd, Staðsetning spítalans í borgarlandinu er ekki nefnd, Helstu lykiltölur eru ekki nefndar (bílastæðafjöldi, nýringarhlutfall og umfang byggiga). Nánast öllum lykilatriðum er sleppt meðan ýmis innri tengsl og samgönguleiðir innan spítalans eru tíunduð ítarlega.

Í mínum huga sýnir myndbandið ógnvekjandi framtíðarsýn sem við þurfum að beygja frá og leita að annarri og ásættanlegri niðurstöðu.

 

Hér er ágæt grein eftir Vilhjálm Ara Arason lækni:

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/05/05/nyr-landspitali-eins-og-slaemur-draumur-i-dos/

Og hér er heimasíða nýs Landsspítala þar sem þeirra sjónarmið eru rækilega útskýrð:

http://nyrlandspitali.is/islenska/forsida/

 

Og loks nýlegur pistill héðan af vefnum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/11/10/deiliskipulag-landspitalans-og-adalskipulag-reykjavikur/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.12.2013 - 15:29 - 4 ummæli

Reiðhjól fyrir hönnunarnörda!

pedalfactory-header Hér er kynnt reiðhjól fyrir hönnunarnörda. Þetta Hollenska hjól var kynnt síðastliðin sunnudag, 1. des. og hefur þá sérstöðu að vera að mestu úr krossviði, plasti og stáli og að það kemur í boxi ósamsett.

Sagt er að það taki 45 mínútur að skrúfa það saman og að það kosti 799 evrur.

Sandwichbike-by-Pedal-Factory_dezeen_12sqa

 

Sandwichbike-by-Pedal-Factory_dezeen_6

 

PedalFactory sem framleiðir hjólið fullyrðir að ef þú getur smurt þér samloku þá ert þú fær um að setja saman Sandwichbike , en það er nafn framleiðslunnar. Að neðan eru umbúðirnar og hjólið ósamsett.

Kassinn er með handfangi til hægðarauka.

 

Sandwichbike-by-Pedal-Factory_dezeen_8

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn