Föstudagur 1.3.2013 - 14:27 - 10 ummæli

Spennandi viðbygging

 

Þegar japanski arkitektinn Hironaka Ogawa kom á staðinn þar sem átti að byggja viðbyggingu við hús verkkaupans sá hann tvö glæsileg tré sem þurfti að fella vegna framkvæmdanna. Í stað þess að láta þau hverfa lagði hann til að þau yrðu tekin upp, berkinum fletta af, þau þurrkuð, reykt og notuð aftur í nýbyggingunni. Þetta er það sem sumir vilja kalla sögulega geymd í byggingarlistinni.

Þetta er skemmtileg nálgun sem víða má sjá þó ég hafi ekki séð þetta með þessum hætti áður svo ég muni. Ég hef séð svipað í Stellenbosch í Suður Afriku, Potsdamer Platz í Berlín, í Aðalstræti í Reykjavík og jafnvel heima hjá mér þar sem hliðið að bænum Engihlíð á Grímstaðaholti (Tómasarhaga) er látið standa sem söguleg geymd og minning um það sem áður var.

Varðandi viðbygginguna má auðvitað halda því fram að þetta séu bara tómir stælar hjá arkitektinum enda þvælast þessi tré bara fyrir í önnum dagsins  og  „funktionin“ er sennilega engin.

Að ofan getur að líta útlit nýbyggingarinnar sem veldur mér vonbrigðum þar sem hin alþjóðlega nútíma fagurfræði hefur tekið völdin. Þessi staðlausa alþjóðlega fagurfræði er auðvitað til leiðinda þegar til lengri tíma er litið og hugsað er til glóbaliseringar fagurfræðinnar.

Þeir sem komið hafa til Japan þekkja þessa glerjuðu svarbláu þaksteina sem eru einkennandi víða þar í landi. Húsin eru líka í vissu mátkerfi sem tekur oft mið af tatami mottunum japönsku. Arkitektarnir hafa getið setið á sér og gefið þessum einkennandi japanska staðaranda grið. Það er mikill léttir því margir arkitektar eru hnepptir í viðjar alþjóðlegrar tísku í byggingarlistinni.

Þessi tvö tré höfðu verið hluti af daglegu lífi fjölskyldunnar í meira en 35 ár og voru henni kær.

 Gólfinu var sunkað niður um 70 cm til þess að trén féllu inn í hugmynd grunnmyndarinnar.

 

 Snið

 

 

 

 Ísometría sem skýrir uppbygginguna. Ef grunnmyndin og sneiðingin með ljósmyndum eru borin saman sjást margir spennandi og hugvitsamlegir vinklar og smáatriði sem vert er að skoða nánar.

Ljósmynd frá framkvæmdatíma.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.2.2013 - 10:10 - 9 ummæli

Louis I. Kahn og söngvar víðisins.

 

 

 

Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt hefur sent síðunni fróðlega og skemmtilega grein um hinn merka arkitekt Louis I. Kahn. Fyrir dyrum stendur að opna merkilega sýningu á verkum hans í Vitra safninu og mun hún fara víða í framhaldinu. Gunnlaugur lauk námi í arkitektúr frá Universitat Fridericiana í Karlsrue í Þýskalandi árið 1971 0g hefur starfað þar í landi að mestu síðan. Hann hefur rekið eigin arkitektastofu í Siegen síðan 1990 og stundað kennslustörf samhliða.

Louis I. Kahn og söngvar víðisins.

Á seinni hluta hluta tuttugustu aldar og fram að heimskreppunni árið 2008, hafði hagvöxtur  í för með sér, að borgir og mannvirki þöndust hratt út og að því virðist, endalaust. Með álíka hraða víxluðust auðkenni þeirra frá einum stað til annars , þar sem einkenni mannvirkja var flutt á milli staða með endurtekningum og endursköpun. Vissulega komu fram fjölmargar góðar hugmyndir að mannvirkum sem líta á sem góðar fyrirmyndir, en mikilvægir eiginleikar eins og táknrænt hlutverk mannvirkja hurfu svo til alveg í skuggann eða gleymdust. Eftir að heimskreppan reið yfir hafa menn eins og arkitektinn Louis I. Kahn (1901-1974), verið dregnir fram í sviðsljósið líkt og opinberun um að tuttugasta öldin á til mannvirki sem vinna með táknræna eiginleika rýmis, efnis og inntaks líkt og finna má í  eldri tímabilum sögunnar.   

My Architecht.

Árið 2004 sló heimildamynd  Nathaniel Kahn í gegn á alþjóðlegum vetvangi og má segja að sé byrjunin á „endurfæðingu“ arkitektsins, Louis I. Kahn. Myndin fjallar um föður Nathaniel, Loius Khan, ævi hans og störf. Tveir þræðir eru megin uppistaða myndarinnar, annars vegar leit Kahns sem arkitekt að  „ fullkomnum“ verkum, og er tilbúinn til að fórna miklu í þeirri leit,  og svo leit sonar að föður, sem er gagnrýninn á fjarlægan föður en sú skoðun umbreytist að lokum í skilning á fórnarlund föður hans fyrir starfið.

Vitra Design safnið setur Kahn á svið

Næsta sumar mun Vitra Design safnið í Weil am Rhein, nálægt Basel, setja upp stóra yfirlitsýningu á verkum Kahn. En sýningin er fyrsta kynning verka hans með jafn yfirgripsmiklum hætti. Í framhaldi af uppsetningunni í Basel, mun sýningin ferðast víða um Evrópu og hafa meðal annars hafa viðkomu í Þjóðminjasafninu í Osló. Fyrirtækið Vitra framleiðir húsgögn í miklum gæðaflokki og hefur yfir að ráða höfundarétt hönnuða á borð við  Eames eða Noguchi.  Frammúrstefnuhönnuðir  hafa byggt upp margbrotinn húsakost fyirtækisins og má segja að þannig sé hægt að upplifa þversnið af fyrsta flokks hönnun síðari ára.

Hver var Louis I. Kahn?

Kahn er fæddur í Eistland. Hann flytur fimm ára gamall með foreldrum sínum til Fíladelfíu í USA og verður síðar bandarískur ríkisborgari . Foreldra hans voru dæmigerðir þýskumælandi  og  velmenntaðir Gyðingar. Móðir hans var hljóðfæraleikari og af hinni þekktu ætt tónlistarmanna Mendelsohn. Faðir hans handverksmaður og talað fjölda tungumála. Kahn erfði eiginleika foreldra og er ungur að árum jafnhæfur sem margverðlaunaður teiknari og píanóleikari í  kvikmyndahúsum. Skömmu eftir að hann lýkur námi í arkitektúr skellur heimskreppan á árið 1928. Kahn leggur um þær mundir upp í rúmlega ársferð um Evrópu, rannsakandi og teiknandi líkt og franski arkitektinn Le Corbusier gerði í  sinni frægu „Voyage d Orient“. Segja má að Kahn finni í þessari ferð þann tón sem átti eftir að einkenna viðhorf og verk til arkitektúrs alla æfi.   Það er hins vegar ekki fyrr en seinna sem hann verður staðfastur í þeirri sýn sem hann hafði til arkitektúrs og var það eftir dvöl sína á Róm árið 1950.

Rómarborg og saga hennar víkkar meðvitund hans með þeim hætti að hann veit fyrst nú hvernig hann vill vinna. Hann vildi hafna blóðlausum modernisma eftirstríðsáranna og upphefja í staðinn form sem fyllt eru tímalausum og táknrænum krafti. Á síðustu tveim áratugum ævi sinnar fær Kahn tækifæri til að vinna eingöngu að verkum sem voru hans eigin.  Er óhætt að segja að það sem eftir hann liggur frá því tímabili hafi  mikla reisn og eru tákn fyrir ákveðinn stað. Sem dæmi má nefna þinghúsið í  Pakistan. Kahn skapaði  fersk  tilbrigði af frummyndum sígildra bygginga og uppruna miðjaðarhafsmenningarinnar og tvinnar  saman  nútímann og  klassíska arfleið á mjög frumlegan og persónulegan hátt.

  Sagan, samfélagið, náttúran.

Kahn bendir á að saga ,samfélag og náttúra þurfa að haldast í hendur og geti ekki staðið einar og sér ef væntingar um góð borgar og húsrými eiga að verða að veruleika. Þetta sjónarmið vill hins vegar oft gleymast í dag,  því  sviplík  mannvirki spretta upp út um allan heim, sem oftar en ekki eru óháð staðareinkennum.  Vinnuaðferðir Kahn byggja á því að hann leitar til  frummynda í byggingarlist og með aðstoð grunnforma tekst að hanna mannvirki „óháð“ stíleinkennum sögunnar. Grískar heimspekihugsanir um táknræn form og form náttúrunnar mynda undirstöðu í sköpunum hans. Fyrsta dæmi um slíka hugsun birtist í litlu verki sem byggt var í bandaríkjunum árið 1955 og kallast  Trenton Bath House. Húsið eru fjórir  þaklæddir ferhyrningar sem mynda „grískan kross“ með opna miðju. Rýmið í miðjunni gegnir félagslegu hlutverki. Hápunktur og um leið lokaverk Kahns er hins vegar þinghúsið,  ásamt öðrum opiberum stofnunum,  í Dhaka í Banglades. Húsið var vígt árið 1983. Þinghúsið er án efa ein óvenjulegasta bygging sem reist hefur verið  á tuttugustu öld, meðal annars vegna þess að Kahn reisir útveggi sem eru óháðir innri notkun. Hér fær hugmynd hans um „leik ljós og skugga“ að njóta sín til fulls.  Yfirleitt eru byggingar Khans  opnar fyrir nýjum þróunum í samfélaginu og  geta „vaxið“ og  minnkað eftir þörfum án þess að missa einkenni og persónuleika sinn. Skipun rýma eftir einstökum hlutverkum myndar oft „miðju“, sem hefur félagslegu hlutverk að gegna  og líkja má við samkomurými. Verk Kahn eru þróuð  fyrir ákveðinn stað með áherslum sem skapast fyrst og fremst út frá umhverfiseinkennum, náttúru, veðurfarslegum þáttum eða þyngdarafls jarðar. En í meðförum hans  verður natura naturans, hin skapandi náttúra , að  natura naturata,s köpuð náttúra. Þannig eru t.d. byggingar á Indlandi eða í Dhaka klæddar veggjum, sem hafa það hlutverk að brjóta  sólargeisla  eða nota vindhreyfingar til kælinga.

 Kraftur Kahns

Hvernig verður sú geislun til, sem byggingar Kahns gefa frá sér?  Það eru einkum þrjár meginhugsanir,sem mynda grunninn. Fyrsta atriðið erð rými. Meginatriði góðra bygginga er alltaf rýmið: leyndardómsfullt og, óskýranlegt. Um rými er endalaust rætt, vegna þess að „we never know what space is“ eins og Kahn sagði. Markaðurinn er fullur af rými úr allskonar gerviplötum úr þunnum steini, blikki og ýmsu öðru. Kahn minnir okkur hins vegar á, að „hrein“ efni ,líkt og  járnbent steypa eða tígulsteinn mynda sannfærandi undirstöðu rýmis, því að ekkert er falið, allt er borið fram á náttúrulegan hátt.  Annað atriðið er massi.

Tuttugasta öldin vildi fyrst og fremst byggingar úr þunnum veggjum, ekki síst  glerveggjum sem slitu oftast öll tengsl við sögu og vöxt borga. En innirými  er eitthvað annað enn útirými og hversvegna á að að sleppa því sem er eðlileg tillfinning öryggis: massa steina og annara náttúrulegra efna? Kahn er fyrstur til að uppgötva aftur massa og mismuninn á  inni og útirými, hlutir,sem í sjálfu sér eru eðlilegir. Þriðja og síðasta atriðið eru svo Ljós og skuggar.

Kahn sagði eitt sinn að „sólin vissi fyrst hvað hún er stórkostleg þegar hún skein á vegg“ og hannaði veggi, sem undirstöður fyrir ljós og skugga. En hann leit svo á að með þeim hætti væri verið að byrja leik, sem væri lifandi og sýndi hvernig arkitektúr verður að vera í manneskjulegum hlutföllum.  Í innirými myndast líf einnig þegar sólarljós leikur um veggi þess, en að mati Khans getur rafmagnsljósadýrð nútímans aldrei keppt við sólina. Þetta sjónarhorn vinnu með massanum og gerir hann  lifandi og ýtir undir þá orku sem geislar af byggingum Kahns og á stóran þátt í að gera jafn eftirtektarverðar og þær eru í dag.

Í gömlu kínversku ljóði er ráðlagt  að leika ekki tónlist eldri valdhafa heldur að leika söngva víðsins, því þannig næst fram hátíðleiki, virðuleiki og listfengni þess, sem byggt er dag.   Er óhætt að heimfæra þau orð yfir á lífsstarf Louis I. Kahn.

Heimildir:

Louis Kahn:The Power of Architecture, Vitra designMuseum 2012.

Nýjustu skoðanir fagmanna um Kahn.  .

My Architect,USA 2003.

Einstök, ljóðræn, margverðlaunuð heimildamynd Nathaniel Kahn, son arkitektsins, m.a  „Best Documentary Feature“  Oscartilnefning 2004.

The Rome Letters.Rizzoli N. Y. 1997

Faglegt og persónulegt bréfasamband arkitektsins við Anne Tyng,  samstarfs og ástkonu hans um árabil. 

Færslunni fylgja ljósmyndir af nokkrum verka Kahn ásamt einni fríhendisteikningu meistarans.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.2.2013 - 12:02 - 8 ummæli

Húsnæðisvandi Landspítalans – Önnur nálgun

Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræði á Landspítala og prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild H.Í hefur sent eftirfarandi grein til birtingar á síðunni. Hér koma áhugaverð sjónarmið fram, sem varða uppbyggingu og skipulag á landspítalalóð.  Það hefur vakið athygli hversu lítið aðrir kostir um endurnýjun húsakosts Landspítalans hafa verið ræddir á opinberum vetvangi. Á þetta bæði við um staðsetningu og húsrýmisáætlun.  Hér er farið faglega yfir málið af þekkingu og metnaði.  Fróðlegt væri að fá við þessu viðbrögð. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. feb. 2013.

Gefum Páli orðið.:

Á Landspítala eru veikustu sjúklingar Íslands í verstu sjúkrastofum landsins. Núverandi húsnæði kemur í veg fyrir nauðsynlega samþættingu starfseminnar auk þess að vera heilsuspillandi fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk. Tækjabúnaður er úr sér genginn og ófullnægjandi. Laun heilbrigðisstarfsmanna eru þar lægst á Íslandi – og er þá ekki borið saman við löndin í kringum okkur.

Risavaxnar hugmyndir

Allt eru þetta brýn viðfangsefni; launamál, tækjaskortur og húsnæðismál spítalans. Fjárskortur kallar á ítrustu hagsýni. Ódýrast og raunhæfast er að halda við og nýta gömlu húsin við Hringbraut (um 60.000 m2) en reisa jafnframt viðbyggingar. Forsenda staðarvalsins er ekki síst nýting gömlu húsanna.

Í vímu fyrirhrunsáranna var hins vegar hannað nýtt sjúkrahús frá grunni við Hringbraut, risavaxin nýbygging (135.000 m2) neðan gömlu Hringbrautar frá Umferðarmiðstöð að Snorrabraut. Eftir hrun, þegar stjórnvöld slógu nýbyggingunni á frest, fékk Hulda Gunnlaugsdóttir þó stuðning við byggingu minna bráðaþjónustuhúss við Hringbraut, c.a. 60-70.000 m2.  Hefði spítalinn þá haft 120-130.000 m2 til afnota að meðtöldum gömlu húsunum. Það er þriðjungs aukning miðað við húsnæði á Hringbraut og í Fossvogi í dag. Samt var haldið áfram að hanna risabyggingar eins og ekkert hrun hefði orðið, mestmegnis á neðri torfunni neðan við gömlu Hringbraut, þ.e. svokallað SPITAL deiliskipulag (samtals um 220.000  m2 nýrra fermetra í tveimur áföngum í viðbót við það sem fyrir er á lóðinni). Ekkert tillit var tekið til forsagnar Reykjavíkurborgar. Ýmsir telja SPITAL hugmyndina vera miklu stærri heldur en starfsemin þarfnist næstu árin og nægir að benda þar á www.nyrlandspitali.com.  Á móti er sagt að verið sé að hanna til miklu lengri tíma, en leyfir staða þjóðarbúsins það? Kærir framtíðin sig um það?

Ásýnd Þingholtanna

Staðsetning og umfang SPITAL tillögunnar er með þeim hætti, að gömlu húsin (60.000 m2) munu nýtast illa. Þegar báðir áfangarnir hafa verið byggðir verða svo lítil not af gömlu húsunum. Og hvers vegna þá staðarvalið? Mikill ásýndarskaði verður að auki á Þingholtunum og hið glæsilega gamla spítalahús hverfur sjónum. Hver myndi reisa stórhýsi beint framan við Alþingishúsið og Dómkirkjuna? Meirihluti Reykvíkinga virðist ekki vera hrifinn að SPITAL tillögunni, sem skipulagsráð borgarinnar hefur þó samþykkt. Eftir stendur, að engin fjármögnun er í sjónmáli til svo stórra framkvæmda. Á sama tíma ganga tæki spítalans úr sér svo efna verður til almennra samskota honum til stuðnings og starfsemin er í uppnámi vegna slæmra kjara starfsfólks.

Það verður að byggja

Hvað er til ráða í húsnæðismálum spítalans? Fjármunir eru takmarkaðir en Landspítali hlýtur að forgangsraðast ofar t.d. Vaðlaheiðargöngum og jafnvel ofar fangelsi þegar takmörkuðu fjármagni ríkisins er skipt. Í ljósi breyttra aðstæðna og fjárskorts tel ég rétt að benda enn einu sinni á valkost sem ég hef ásamt Magnúsi Skúlasyni arkitekt sett fram og kynnt í ræðu og riti. Tillaga okkar er u.þ.b. 60-70.000 m2 stækkun spítalans á efri torfunni fyrir ofan gömlu Hringbrautina, mest þar sem Hjúkrunarskólinn stendur nú. Byggð yrðu um fjögurra hæða hús auk kjallara með praktískum tengingum milli húsa. Sú stækkun er á við tvo Borgarspítala.  Stækkunina má gera í áföngum. Miðja starfseminnar yrði bráðaþjónustuhús. Hugmynd þessi hlaut jákvæð viðbrögð hjá íbúasamtökum miðborgarinnar ólíkt SPITAL skipulaginu. Í Skipulagsráði Reykjavíkurborgar, sem upphaflega tók hugmyndinni vel, var henni síðar rutt af borðinu af höfundum SPITAL tillögunnar, sem beðnir voru um álit á henni þrátt fyrir augljósa hagsmunaárekstra. Hún hefur ekki verið skoðuð nánar svo höfundum hennar sé kunnugt um, allavega ekki af óvilhöllum aðilum.

Spítalinn og Hjúkrunarskólinn standa nú á efri torfunni ofan við gömlu Hringbrautina. Aðeins læknadeildarhúsið er á neðri lóðinni. Verulegur hæðarmunur er á efri- og neðri torfunni en það gerir tengingar við gömlu húsin erfiðar sé byggt á neðri lóð. Verði hins vegar byggt á efri torfunni (ofan gömlu Hringbrautar) eins og tillaga okkar gerir ráð fyrir er auðvelt að áfangaskipta verkefninu. Þannig má í senn ráðstafa fé til brýnna tækjakaupa og reisa fyrst þau hús, sem bráðasta þörfin er fyrir með góðri tengingu á öllum hæðum við gömlu húsin, sem munu nýtast vel áfram. Litir eru notaðir til að skýra áfangana á meðfylgjandi skýringarmynd:

  • ÁfangI 1 (svartur): Bygging bráðaþjónustuhúss, legudeilda, rannsóknastofuhúss, OG STÆKKUN “LÆKNAGARÐS.  Öll bílastæði starfsmanna flytjist á neðri torfuna og Læknagarður verði stækkaður til að taka við námsbraut í hjúkrun. Gamli Hjúkrunarskólinn/Eirberg verði rifin og bráðaþjónustuhús byggt þar. Í bráðaþjónustuhúsi verði a.m.k. bráðamóttaka, myndgreining, skurðstofur og gjörgæslur. Byggð verði stækkanleg álma til suðurs með einni legudeildarálmu í fyrstu (8 nýjum legudeildum). Í stækkuðu rannsóknastofuhúsi (K byggingu, teikning er til) verði auk núverandi miðlægrar kjarnarannsóknastofu (klíniskrar lífefnafræði og blóðmeinafræði), sýklafræði, veirufræði, ónæmisfræði, blóðbanki og líffærameinafræði. Tengibygging verði við CD álmu milli bráðaþjónustuhúss og kvennadeildar.
  • Áfangi 2 (rauður): LEGUDEILDIR:  Stækkun suðurálmu með tveim nýjum legudeildarálmum.
  • Áfangi 3 (grænn): til SEINNI TÍMA. Seinna mætti byggja í norður frá kvennadeild og í norður frá bráðaþjónustuhúsi og sunnan geðdeildarbyggingar.

Lokaorð:  Allt fé til spítalans er fengið úr ríkissjóði. Byggingarkostnaður, fé til tækjakaupa og launagreiðslna kemur allt úr vasa skattgreiðenda. Með því að byggja minna  og í smærri áföngum heldur en núverandi áætlanir gera ráð fyrir má ná öllum aðalmarkmiðum framkvæmdanna til næstu áratuga. Sá sparnaður sem næst gefur gefur svigrúm til að tryggja endurnýjun tækja og rétta hlut starfsfólks. Því er þessi tillaga endurtekin og sýnd í hugsanlegum áföngum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.2.2013 - 22:19 - 24 ummæli

Framúrskarandi deiliskipulag – Landsímareitur

Ég var á kynningu á skipulagi Landsímareits í ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Páll Gunnlaugsson arkitekt frá ASK arkitektum kynnti verkið með þeim hætti að manni finnst það vera í afar öruggum höndum.  Hann gerði enga tilraun til að sneiða hjá þeim atriðum sem mest voru gagnrýnd um það bil sem samkeppni um svæðið fór fram. Þvert á móti gerði hann sérstaklega grein fyrir þeim.

Eins og áhugasamir um skipulagsmál muna kannski gerði dómnefndin nokkur tilmæli í dómnefdaráliti til verðlaunahafa um breytingar á verðlaunatillögunni.  Þetta voru skipulagsleg atriði og minniháttar útfærslur. Fjöldi áhugasamra um deiliskipulag Kvosarinnar skrifaði greinar í blöð um ýmislegt er varðaði deiliskipulagið og um 12000 mótmæltu ýmsum fyrirhuguðum breytingum á skipulagi svæðisins með undirskrift sinni auk umræðu á vefsíðum og Facebook.

Eftir frekari vinnslu á verðlaunatillögunni virðist manni að skipulagsráði með hjálp skipulagshöfunda hafi tekist að mæta gagnrýninni að verulegu marki. Það er augljóst að hagsmunaaðilinn, Pétur Þór Sigurðsson, hefur verið skilningsríkur og allir hafa aðilarnir skilið mikilvægi þess að ná almennri sátt um málið. Sátt er sérstaklega mikilvæg þegar skipulagsákvarðanir eru teknar.

Skipulagsráð, ASK arkitektar og Pétur Þór Siguðsson eiga heiður skilinn fyrir niðurstöðuna og ég óska þeim til hamingju. 

Þetta er nefnilega ekki auðvelt því manni virðist oft henta þegar deiliskipulag er unnið í nánu samstarfi við hagsmunaaðila að hluti skipulagsvaldsins færist að hluta til hagsmunaaðlians.  Þetta gerist jafnt þegar einkaaðilar eiga í hlut og hið opinbera. Ég nefni dæmi af Höfðatorgi annarsvegar og Landspítalann hinsvegar þar sem manni virðist sátt hafi ekki náðst um verkefnið enda lítið tekið tillit til athugasemda úr samfélaginu og þeirra sem annt er um borgarskipulagið. Aðilum Landspítalaáætlunarinnar hefur ekki tekist að ná sátt um þá áætlun meðal borgaranna og jafnvel sýnt gagnrýnendum hroka.

Á Landsímareit er annað uppi á teningnum og er það mikið gleðiefni.

Aftur að skipulaginu. Auðvitað má stöðugt bæta allt sem gert er og ég á von á því að þróun Landsímareits og Ingólfstorgs eigi eftir að batna enn meir í höndum þeirra sem vinna að verkinu. Ég sakna þess samt að Ingólfstorg í núverandi mynd skuli ekki hafa verið tekið inn í skipulagið og því breytt til betri vegar.

Efst í færslunni er yfirlitsmynd sem sýnir svæðið úr lofti séð til suðaustur.

 Að neðan koma svo nokkrar myndir með skýringum En mikilvægast er að skoða kynningarefni sem er að finna á þessari slóð:

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/skipulagsm_l/mal_kynningu/hagsmunadilakynningar/1245-130220-kynning_almenningur.pdf

Í lokin vil ég segja að það vakti undrun mína hvað fáir mættu á kynningarfundinn í ráðhúsinu. Í ljósi allrar umræðunnar og 12 þúsund undirskrifta voru fundargestir mjög fáir. Kannski 50-60 manns.  Þarna voru ekki einusinni þátttakendur í samkeppninni eða ráðgjafar sem unnið hafa fyrir borgina að skipulagsmálum, heldur ekki sjónvarp eða ljósvakamiðlar að því er mér sýndist. Þetta styður fullyrðingu mína á eftirfarandi slóð þar sem segir að áhugi fyrir þessum málum er í skötulíki: http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/08/oskiljanlegt-ahugaleysi-fyrir-arkitektur/

 

 

Hér er horft til vesturs yfir Aysturvöll að Landsímahúsinu og gamla kvennaskólanum (Nasa) Nýbyggingin sem stendur framan við Landssímann þar sem nú eru bifreiðastæði. Nýbyggingin er með risi og kallast þar með á við byggingarnar handan við Kirkjustræti. Þak Landsímahússins hækkar lítillega með  mansardþaki og kvistum  sem eru svipaðir og á Hótel Borg handan Austurvallar.

 

 

Ásýnd Thorvaldsensstrætis að Austurvelli.  Þarna sést vel kvernig form nýbyggingar við kirkjustræti og hlutföll rýma við nærliggjandi byggð, hús handan götunnar og horn Aðalstrætis og Túngötu.

 

Hér gefur að líta ásýnd að Vallarstræti og Ingólfstorgi. Athygli vekur að það eru stórir gluggar sem ekki má byrgja að göngusvæði í Vallarstræti þar sem NASA er nú. Þarna eins og allstaðar á reitnum verður verslun og þjónusta á jarðhæðum ætluð almenningi.

 

 

Hér er horft yfir Víkurgarð sem snýr til suðvestur og verður ákjósanlegur til útivistar síðdegit Þarna verða vernduð tré sem fyrir eru. M.a elsta tré borgarinnar, silfurreynir sem þarna stendur. Allar jarhæðir verða með þjónustu á borð við verslanir, bjórstofur og kaffihús.

 

 

 Hér er að lokum yfirlitsmynd þar sem horft er til norðvesturs. Ég endurtek meðmæli mín með kynningarefninu sem nefnt var að ofan og er á þessari slóð: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/skipulagsm_l/mal_kynningu/hagsmunadilakynningar/1245-130220-kynning_almenningur.pdf

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.2.2013 - 16:31 - 33 ummæli

Hrun í frjálsu falli

Í framhaldi af færslum í síðustu viku  um þéttingu og þéttleika byggðar bárust síðunni eftrfarandi athugasemdir frá Örnu Mathiesen arkitekt sem fjalla um rökleysur fyrir nýju Aðalskipulagi í Reykjavík?  Þetta er gagnrýnin texti sem tekur á mjög mikilvægum málum í skipulagsumræðunni.

Myndefni og fyrirsögn eru frá Örnu komnar.

Óskandi hefði verið að nýtt aðalskipulag tæki sannfærandi á misheppnaðri skipulagsstefnu síðan fyrir 1970 sem magnaðist að áhrifum síðu stuárin fyrir hrun og til hverrar má rekja mörg aðalvandamál, einstaklinga, ríkis og sveitarfélaga þessa dagana.

Þetta virðist því miður ekki vera að ganga eftir þótt svo sé látið í veðri vaka. Rök ráðamanna með (eða án?) fulltingis fagfólks í stjórnsýslunni eru einföld, en ósannfærandi:

1. Þétta á byggð, bara í eða við miðbæinn til að sem flestir geti búið þar sem gott og fallegt er.

Ég spyr:

Af hverju á að þétta byggðina niðri í bæ þegar borgin liggur á upplýsingum um að þéttleiki byggðarinnar er hvað mestur einmitt þar og vel heppnaður, en miklu minni og of gisinn þar sem fjær dregur miðborginni?

Sjá:http://goo.gl/VkRe7.

Gæti þetta ekki leitt til óþarfrar eyðileggjandi þéttingar á kostnað hins góða og fallega miðsvæðis og væri ekki uppbyggilegra og göfugra að gera gott og fallegt annarsstaðar þar sem á skortir?

2. Það á «að reyna að minnka rekstrarkostnað heimilanna með því að gerafólki kleift að búa þar sem það getur dregið úr samgöngukostnaði» í og við miðbæ. 

Sjá http://goo.gl/0M5B8.

Þetta getur þýtt tvennt ólíkt:

a)      Er látið að því liggja og er raunhæft að  fólkið sem ekki býr í nálægð við miðborgina flytji búferlum í ný híbýli niðri í bæ til að geta nýtt sér þetta ‘nýja góða skipulag’?  Og þótt það væri hægt, hvað ætti þá að gera við ríflegan húsakostinn sem búið er að byggja úti um holt og hæðir?

Rífa?

b)      Eða, getur verið að ég sé að misskilja röksemdar færsluna?  Meina stjórnvöld að nýtt húsnæði miðsvæðis sé ætlað nýjum íbúum í höfuðborginni en ekki þeim sem búa í úthverfunum?  Eiga þeir þá að halda áfram með sín vandamál,  með tilheyrandi umferð, skort á þjónustu og atvinnutækifærum í næsta nágrenni?  Varla leysir þetta þá rekstrarkostnað úthverfafólksins eða minnkar umferðarþungann?

Þótt upplýst hafi verið um áformin í fleiri blaðagreinum eru markmiðin ennþá óskýr. 

Allir borgarbúar sem standa straum af  kostnaði við lóðakaup og skipulagsvinnu við áformin eiga heimtingu á nánari skýringum. Er verið að meina a eða b?

Það er skiljanlegt að ráðamönnum finnist erfitt að horfast í augu við raunveruleg vandamál úthverfanna, álíti þau táknræn fyrir hrunið og vilji helst ekki taka á þeim með töngum. En hér bregðast þeir hlutverki sínu.

Gert er lítið úr heilu hverfunum að íbúum meðtöldum með því að líta í hina áttina og fegra sig með ótrúverðugum sögum um hverfi sem í samanburði er allt í lagi með, eins og Miðbæinn og Vesturbæinn.

Það er nauðsynlegt að byggja nýja framtíðarsýn á hverjum stað á því sem getur gefið lífinu þar gildi. Þótt þeim sem búa niðri í bæ finnist það fínt þar,  þá finnst fleirum sinn fugl fagur.

Það er kannski ekki augljóst fyrir þá sem aldrei hafa búið í út hverfi hvaða kosti má finna þar, en skýringar eru nærtækastar í eldri skipulagsgögnum sem borgin sjálf lagði drög að og bera þar af leiðandi ábyrgð á.  Skipulögin taka fram kosti þessara staða (þótt ekki hafi verið fjölyrt um ókost áætlannanna eins og hefði betur verið gert, og ég er að reyna að gera nú varðandi hið nýja skipulag sem liggur fyrir).

Þar er talað um kostina við að lifa nálægt náttúrunni . Um þetta eru íbúar sammála enn í dag.  Nálægð við græn svæði af  eru hins vegar afskornari skammti niðri í bæ, og verða þau enn rýrari við fyrirhugaðar aðgerðir í skipulaginu sem unnið er að nú.  Við þróun úthverfanna þarf heldur ekki mikið að hafa áhyggjur af ógnun við eldri byggð, og ef hana er þar að finna getur hún nýst vel til að lifta hverfinu.

Í úthverfunum þarf sannarlega raunverulegar umbætur og betri nýtingu, bæði innan húss og utan, gjarna með þéttingu byggðar innan byggðra marka borgarinnar þegar húsakost, sem nú er ansi rúmur og ber að nýta betur, þrýtur. Í enn betri tengslum við náttúruna og í samhengi við viðeigandiog fjölbreytta atvinnusköpun inni í hverfunum sem léttir um ferðarálag og minnkar þeyting til og frá miðborginni.

Hér eru slóðar að fyrri færslum um málið:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/11/landnotkun-thetting-byggdar-borgarbragur/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/12/ofvaxid-gatnakerfi-thetting-byggdar/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/01/08/ofvaxin-stofnbraut-i-reykjavik/

 Að ofan er athyglisverð myns sem dýnir nýja vegi sem lagðir hafa verið á síðustu sex árum í ljósbláum lit. Appelsínuguli svæðin eru ætluð verslunarstarfssemi.

Einhver sem sá myndirnar sem fylgja í færslunnu spurði:

Hvað skyldi þetta hafa kostað og hverjir borguðu hvað? Er þetta ekki eins og Landsvirkjun? Það þarf fyrir alla muni að halda verkfræðingunum á ríkisspenanum uppi með nægri vinnu. Enda hafa verið enn frekari umbætur á vegakerfinu að sjá t.d. á leiðinni útúrbænum austur og norður. Án þess að neinn hafi sagt múkk!

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.2.2013 - 03:16 - 13 ummæli

Brú milli almennings og arkitektúrs

 

 

Ég vil leyfa mér að vitna í ágætt, uppbyggjandi og lausnamiðað viðtal við þau Arnór Víkingsson og Ragnheiði Jónu Jónsdóttur sem reka sjálfseignarstofnunina Hannesarholt við Gundarstíg í Reykjavík.  Þau segjast hafa keypt húsið til þess að laga það og varðveita það sem menningarverðmæti og opna húsið almenningi.

En þau vilja einnig nota húsið til þess að stuðla að betri umræðuhefð hér á landi, færa umræðuna „niður“ til almennings og „brúa bilð milli almennings og fræða“.  Húsráðendur í Hannesarholti eru ekki ánægðir með umræðuhefðina og benda á að umræðan er ekki keppni þar sem leitað er að sigurvegara, heldur skoðanaskipti. Þau segja að hún sé  ekki til uppbyggingar fallin eins og hún fer fram í dag. Hún einkennist af því að ráðist er í manninn fremur en málefnin.

Þetta sló mig nokkuð vegna þess að vefsíða mín hefur einmitt haft öðru fremur það markmið að „brúa bilið milli almennings og arkitektúrs“.

Ég hef kappkostað skiljanlegt íslenskt málfar,  lágmarkað fræðileg hugtök og sparað fræðilegar tilvitnanir sem títt eru notaðar af þeim sem ekki kunna skil á fræðunum, persónum og leikendum.

Ég hef gert tilraun til þess að ná utan um sem breiðasta svið umræðunnar og ögrað þannig að  hugsanlega náist til leikmanna í þeirri von að þeir staldri við og leggi kannski eitthvað til málanna. Ég hef margoft vitnað í Guðberg Bergsson sem saknar gagnrýni sem gagn er að í umræðunni hér á landi.

Óskatakmarkið var að ná til leikmanna og fá þá til að taka afstöðu og tjá sig um arkitektúr og skipulag. Breyttti litlu hvort það var gert í athugasemdarkerfinu, á Facebook, kaffistofum, en best er þegar málin eru rædd heima yfir kvöldmatnum með börnunum eða í skólastofunum.

Ég hef orðið fyrir perónulegum ónotum vegna faglegra sjónarmiða sem fram hafa komið á þessum vef. Þetta gerist þó að skýrt komi fram að það sé ekki allt mín persónulegu sjónarmið sem sett eru fram, heldur skoðanir sem eru í umræðunni víða og þurfa á að halda  umræðu á breiðum vetvangi. En ég læt þetta mér í léttu rúmi liggja í von um að stíllinn í umræðunni mun breytast á næstu árum. Og þar mun starfsemin í Hannesarholit skipta máli ef þeirra áform ganga eftir.

Það kann að vera að einhver haldi að þarna eigi ég við einhverja undirmálsmenn sem eru að agnúast í mér. Svo er alls ekki. Þarna eru á feðrinni „virtir“ aðilar úr minni stétt og svo ótrúlegt sem það kann að virðast líka einstaklingar úr hinu opinbera akademiska fræðasamfélagi. En það á reyndar ekki við nema um eina menntastofnun. Einstaklingar úr öllum öðrum æðri menntastofnunum hafa sýnt umræðunni áhuga. Ég er þakklátur fyrir það.

Efst í færslunni er myndband þar sem Papar syngja um litla kassa sem allir eru eins. Lagið var samið árið 1962 af Marvinu Reynolds (1900-1978) og flutti hún það sjálf 62 ára gömul  og sjá má á myndbandinu að neðan. Það sem er merkilegt við þetta er annarsvegar að texti lagsins var saminn þegar úthverfastefnan var komin á fulla ferð í BNA og vandamálið orðið sýnilegt. Manni sýnist að þrátt fyrir alla umræðuna í hálfa öld hafi lítið breyst. Textinn er jafn beittur og á meira erindi í umræðuna en nokkru sinni fyrr. Kassarnir í byggingalistinni  eru allavega meira áberandi nú en fyrir 50 árum.

Maður veltir fyrir sér hvort svona umræða skipti einhverju máli?

Hvort hún breyti einhverju?

Marvina Reynolds samdi líka fleiri þekkt lög sem urðu vinsæl með The Seekers og Joan Baze og fl. Ég nefni „What have they done to the rain“ sem fjallaði um geislavirkt  regn.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.2.2013 - 16:26 - 31 ummæli

Ofvaxið gatnakerfi – Þétting byggðar

 

Gatnakerfið í Reykjavík austan Elliðaáa þekur 51% af landinu. Byggð svæði þekja aðeins 35% meðan restin sem eru opin svæði, þekja 14%. Þetta eru auðvitað tölur sem vart er hægt að trúa.

En þær er að finna í drögum að skýrslu um landþörf samgangna sem unnin var undir forystu Haraldar Sigurðssonar og frábærs starfsfólks skipulags og byggingarsviðs borgarinnar árið 2004.

Ég nefni þetta nú í framhaldi af síðustu færslu til þess að tengja nýtingu lands við gatnakerfið og áhrif þess á umfang  og samfélagslegan kostnað vegna uppbyggingar og ekki síður rekstur kerfisins. 

Þegar gatnakerfið er skoðað í einstökum hverfum verður þetta sláandi. Eiginlega ógnvekjandi.

 Til dæmis segir í skýrslu skipulagssviðs að það eru 65 fermetrar gatna  á hverja íbúð í Heimahverfi meðan þeir eru næstum fimm sinnum fleiri í Staðahverfi eða 322.

Er það ásættanlegt að ráðgjafar leggi til svona fjárfestingu og rekstur gatnakerfis á borð við þetta á  skattgreiðendur. Auðvitað má fólk taka að sér að byggja allar þessar götur eftir sínu höfði og á sinn kostnað ef það óskar þess. En eiga íbúar t.a.m. í Heimunum að greiða niður stofnkostnað og rekstur gatna í Staðahverfi?

Er það góð ráðgjöf að leggja slíkan  kostnað úr sameiginlegum sjóðum í infrastrúktúr borgarinnar þegar maður veit betur?

Svo maður haldi sig við vestur og austurhluta Grafarholts þá væri fróðlegt að vita hvað margir fermetrar gatna eru á hverja íbúð í þeim tveim hverfishlutum sem þar eru.

Það vakna margar áleitnar spurningar þegar skýrslan er skoðuð en hana má lesa hér.:

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/adalskipulag/skyrslur/Land_oerf_samgangna-NER-HS2004.pdf

‘eg fjallaði áður um skýrsluna á þessari slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/16/landthorf-samgangna-og-thetting-byggdar/

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.2.2013 - 01:04 - 18 ummæli

Landnotkun-Þétting byggðar-Borgarbragur

 

Því hefur verið haldið fram að til þess að geta skapað sæmilegan borgarbrag með þjónustustarfssemi þar sem bæjarlíf þrífst og almenningssamgöngur geti borið sig þurfi svona 40 íbúðir á hektara eða sem nemur 100 íbúum á ha. Þetta eru tölur sem hafa verið á sveimi frá því í byrjun áttunda áratugarins þegar umræðan um lága þétta byggð fór á flug.

Ef ég man rétt  hafði Reykjavíkurborg einhverntíma á stefnuskrá sinni að þar yrðu um 25 íbúðir á hektara. Það er að margra mati of lágt.  Nær væri að stefna að 40 íbúðum á ha til þess að skapa nútíma borgarbrag með sæmilegri borgarþjónustu.

Lesandi síðunnar sendi hingað skýslu sem fjallar um landnotkun í íbúðahverfum. Skýrslan var  unnin  af Hlín Sverrisdóttur vegna aðalskipulags Reykjavíkurborgar árið 2000.

Það var fyrir 13 árum.

Í skýrslunni er borin saman þéttleiki einstakra minni hverfa annarsvegar og hinsvegar stærri eininga þar sem miðað var við póstnúmerakerfi borgarinnar. Borin var saman fjöldi íbúða á hektara, meðalstærð íbúða, skipting milli fjölbýlis og sérbýlis, fjöldi íbúa á íbúð og fleira.

Það er hægt að leggja út af þessum tölum á margvíslegan hátt og draga af þeim lærdóm.

Hér eru nokkur dæmi úr skýrslu Borgarinnar:

Svæði í Vesturbæ (Garðastræti, Öldugata, Framnesvegur) 70 íbúðir/ha
Grettisgata, Njálsgata, Bergþórugata 72,3 íbuðir/ha
Svæði á Skólavörðuholti 62,6 íbuðir/ha
Melar og Hagar 32 íbúðir/ha
Hlíðar 38 íbúðir/ha
Smáíbúðahverfi 26,5 íbúðir/ha
Seljahverfi 16 íbúðir/ha
Efra Breiðholt 25 íbúðir/ha
Rimahverfi 18,7 íbúðir/ha
Foldahverfi 14 íbúðir/ha

Af þessum tölum sést að nýjustu hverfin fara illa með landið og vannýta tækifærin. Ef rýnt er í skýrsluna má sjá að landnotkun er hvað best í neðra Breiðholti (Bakkar og stekkir). Hverfið sem er eitt af þeim best skipulaögðu á seinni tímum í borginni má sjá að á fjölbýlishúsasvæðinu eru  m 65 íbúðir á hektara og á sérbýlissvæði um 35 íbúðir á hektara. Þetta er þaulhugsað frá hendi skipulagshöfunda hvað varðar félagslega samsetningu, landnotkun og alla þjónustu.

Ég gerði það að gamin mínu og skannaði eitt eldri hverfanna og sá að þar mætti fjölga  íbúðum um nálægt 10% án þess að gera teljandi inngrip í séreinkenni hverfisins eða að ganga á þau gæði sem fyrir eru. Þetta er hverfishluti 107. Ef þetta gengi eftir mun íbúðum fjölga úr 32 íbuðum í 35 á hektara sem er undir óskastöðunni. Það finnast tækifæri í flestum hverfum borgarinnar til þess að auka þjónustu og gera hverfin hagkvæmari á flesta lund.

Ég mæli eindregið með að áhugasamir opni skýrsluna sem er mjög aðgengileg með tilheyrandi kortum. Það er líka gaman að skoða þessar tölulegu upplýsingar um hverfin sem lesandi býr í. Ég trúi því að folk líti á annan hátt á borgarskipulagið eftir að hafa kynnt sér þ etta og spyrji í framhaldinu lausnamiðaðra gagnrýnna spurninga.

Slóðin að skýrslunni er þessi:

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/adalskipulag/skyrslur/Thettleiki-ibudahverfa-juli-2000.pdf

Ef skoðuð eur skipulaög sem unnin voru  fyrir og eftir að  skýrslan frá 2000 var unnin, Grafarholtsskipulagið,  þá virðast mér áhrifin augljós þó ég geti ekki rökstutt það með staðfestum tölum.

Hverfin sem skipulögð voru og samþykkt á árunum 1999 og 2000 virðast gisin þannig að maður gæti haldið að  skipulagshöfundar og verkkaupi hafi álitið að landið væri ókeypis eða enskis virði. Gatnakerfið virðist ólógist og fullt af botlöngum án augljósrar félagslegrahverfis miðju, mikið er af einhverskonar grænum afgöngum af landinu og þar fram eftir götunum.  Sjálfsmynd hverfisins (Idenditet) mætti líka vera sterkari bæði félagslega, skipulagslega og arkitektóniskt. Blokkin sem strittar út úr brekkunni og tankarnir efst á hæðinni hjálpa þó eitthvað.

Það er eins og að skipulagshöfundarir hafi lesið landið vel með gleraugum arkitektanna en gleraugu skipulagsfræðingsins haf ekki verið sett á nefið.

Hinsvegar austan Jónsgeisla  í austurhluta Grafarholts hefur maður á tilfinnigunni að verðmiði hafi verið settur á landið og nýting þess aukin. Þessi hluti var samþykktur tveim árum eftir skýrslu Hlínar árið 2002.

Ég efast ekki um að fólkinu sem þarna býr líkar vel við sitt hverfi. Það er yfirleitt þannig að fólk er ánægt með sitt enda hefur það valið sér búsetu  þar sem það býr. En ég tel að þetta gæti verið miklu, miklu betra og hagkvæmara skipulag bæði fyrir sveitafélagið, íbúana og samfélagið allt með annarskonar nálgun.

Efst í færslunni má sjá Google loftmynd af umræddu hverfi.

Ég er ekki viss hverjir stóðu að Grafarholtsskipulaginu en það er rétt að geta þeirra sem báru ábyrgð á velgerðu skplulagi í neðra Breiðholti en það var teiknistofan Höfði með arkitektunum Knud Jeppesen, Guðrúnu Jónsdóttur, Stefáni Jónssyni og landslagsarkitektinum Reyni Vilhjálmssyni í teyminu. Yfirmaður skipulags Reykjavíkur á þeim tíma var sennilega Aðalsteinn Richter eða jafnvel Hilmar Ólafsson arkitektar.  Allt ástríðufullir skipulagsarkitektar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.2.2013 - 01:10 - 25 ummæli

Óskiljanlegt áhugaleysi fyrir arkitektúr

Þrátt fyrir að langmesti hluti af eignum og skuldum fólks sé bundin arkitektúr og skipulagi er málaflokkurinn nánast aldrei á dagskrá. Hann er sjaldan í umræðunni. Það er jafnvel eins og arkitektúr skipti ekki máli eða gleymist í önnum dagsins.

Þrátt fyrir að flest fólk verji meira en 95% af tima sínum í eða við hús eða á milli húsa lætur það sig litlu skipta um hvernig næsta umhverfi er mótað. Maður gæti haldið að fólk telji að skoðanir þess og þarfir skipti ekki máli og það geti ekkert við þróunina ráðið.

Arkitektúr er eina listgreinin sem ekki er hægt að ver án. Það er heldur ekki hægt að sniðganga hann. Hann er allt um kring og enginn lifandi maður á kost á að leiða hann hjá sér.

Byggingalistin er eina listgreinin sem allir þurfa að kunna njóta og læra að þola.

Ef þér leiðast bókmenntir þá hættir þú að lesa. Sama á við um tónlist, leiklist og myndlist. Ef þessar listgreinar fanga þig ekki lætur þú þær eiga sig. Lokar bókinni, sleppir að fara í bío, leikhús eða hljómleika.

En þú ert alltaf umkringdur arkitektúr, háður honum skuldar í honum eða átt eignir í honum en þú hefur engan áhuga á honum og villt ekkert ræða hann eða kynna þér ef marka má það rými sem málaflokknum egr gefið í umræðunni.

Af hverju er ég að segja þetta hér.

Það er vegna þess að ég er forviða hversu lítið er fjallað um byggingalist og skipulag í dægurmálaumræðunni. Nánast enginn fjallar um arkitektúr hér á landi með reglulegum hætti þannig að hægt sé að ganga að umræðunni á vísum stað. Það er ekkert fjallað um arkitektúr i fjölmiðlum nema þegar einhverjir aðrir hagsmunir tengjast efninu. Hagsmunir verktaka eða efnissala, pólitískir hagsmunir eða þá að það eru enhverjir beinir fjárhagslegir hagsmunir sem er umræðuefnið þegar arkitektúr eða skipulag skýtur upp kollinum í dægurmálaumræðunni. Aldrei byggingalistin eða skipulagið sjálft.

Og hver er ástæðan fyrir því?

Hún hlýtur að vera sú að fólki finnst þetta óinteressant og að byggingalistin skipti ekki máli eða komi því ekki við. Kannski heldur fólk að umræða hafi engin áhrif eins og þarna séu náttúruöfl á ferðinni eða að skipulag og arkitektúr komi frá Guði. Það er auðvitað tóm vitleysa og eina sem getur bætt ástandið eða haft áhrif er gagnrýnin uppbyggileg umræða.

Það er lítil  eftirspurn eftir umfjöllun um bygingalist. Ég verð þó að upplýsa að ég er afar ánægður með lesturinn á þessum vef og mér er því óskiljanlegt áhugaleysi fyrir efninu á öðrum  á öðrum miðlum. (ég vil árétta að ég held þessum vef úti einungis sjálfum mér til gamans þó það gleðji mig einnig að nokkur viðvarandi og vaxandi áhugi sé fyrir efninu)

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/16/byggingarlistin-er-utundan/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/13/arkitektur-i-grunnskolunum/

Efst í færslunni er ljósmynd af hluta Safnahússins við Hverfisgötu sem tekið var í notkun fyrir rúmum 100 árum. Fjallað er lítillega um bygginguna á þesari slóð.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/23/%e2%80%9cde-gustibus-non-est-disputandum%e2%80%9d/

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.2.2013 - 13:45 - 2 ummæli

Andrée Putman-Trendmaker

Hönnuðurinn Andrée Putman (1924-2013) átti sér óvenjulega sögu. Hún vakti ekki athygli að marki fyrr en hún var fengin til þess að hanna Morgan Hótelið í New York árið 1984, þá 59 ára gömul.  Verkefnum fór fjölgandi og stofnaði hún stofuna sína  “Andrée Putman Studio” árið 1997 og rak til ársins 2010, þegar dóttir hennar tók við.

Andrée Putman sem er kannski ekki mjög þekkt á norðurlönum og Engladi en vel þekkt engu að síður. Hún lést í fyrir hálfum mánuði á 88. áldurári.

Það sem vekur athygli er hversu seint á ævinni hún blóstrar í sínu starfi. Hún lærðu tónsmíðar á unga aldri og voru þær grunnurinn að hönnunarvinnu hennar. Þetta samrýmist því sem t.a.m Stravinsky og fleiri hafa sagt, að arkitektúr og tónlist eigi margt sameiginlegt. Því hefur verið haldið fram að “arkitektúr sé frosin tónlist”

Lífshlaup Putman skýtur einnig stoðum undir þá kenningu að litlu breyti hvar skapandi fólk grípur niður að ef það eru gott í einni listgrein þá á það auðvelt að tileinka sér aðra.

Hjálagt eru nokkrar myndir af verkum gömlu konunnar. Efst er mynd úr Morgan Hotel i New York. Öll verkin vann hún um og eftir eftir sextugt og flest um áttrætt.

Þetta eru mest verk fyrir einkaaðila, fallega gert og með sterk höfundareinkenni. Þetta eru fjölbreytt verk af marvíslegum toga, heimili, skrifstofur, verslanir, hótel og jafnvel innrétting Concordþotunnar.

Hún var „trendmaker“  sem svokallaðir „stjörnuarkitektar“ litu til og sjást áhrif hennar mjög víða í verkum arkitekta um allan heim.

Það má líka bæta því við að stjörnuarkitektar sem hafa haslað sér völl  hafa í raun sjaldnast haft nokkur teljandi áhrif til framfara á þeim stöðum sem þeir hafa slegið niður tjáldhælunum.

Enda kallðir „touch and go“ arkitektar milli manna.

Ég mæli með að áhugasamir skoði heimasíðu hennar. Slóðin er þessi.

http://studioputman.com

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn