Hannesarholt opnar formlega í lok vikunnar. Þar verður menningartengd starfsemi með veitingum og lístrænum uppákomum. Aðstandendur vilja með starfseminnni byggja „brú milli almennings og fræða“.
Húsið að Grundarstíg 10, Hannesarholt, hefur gengið í gegnum gagngera endurnýjun vegna þessa og byggt hefur verið við það..
Húsið var byggt árið 1915 fyrir Hannes Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands. Húsið teiknaði Benedikt Jónasson verkfræðingur og þykir það ólíkt öðrum húsum í Reykjavík þeirra tíma. Þetta er voldugt tvílyft steinhús með mansardþaki, hátt til lofts og fallega skreytt innandyra og utan.
Benedikt var byggingarfulltrúi og bæjarverkfræðingur í Reykjavík á árunum 1911-1916. Hann teiknaði marga af vitum landsins fyrir Hafnarmálastjórn. Benedikt Jónasson hafði næma tilfinningu fyrir byggingalist eins og sjá má af verkum hans. Grundartígur 10 er meðal 15 elstu steinsteyptu húsa í Reykjavík og var byggt í kjölfarið á Reykjavíkurbrunanum árið 1915. Skriflegar heimildir benda til þess að bruninn hafi haft áhrif á gerð hússins.
Endurnýjun hússins sem var á höndum arkitektanna hjá ARGOS, þeirra Grétari Markúsyni, Stefáni Erni Stefánssyni í samstarfi við Árna Þórólfsson arkitekt. Byggt hefur verið við húsið einskonar jarðhýsi sem ætlað er til fyrirlestra og tónlistarflutnings. Salurinn er um 100 fermetra fjölnotasalur sem tekur 70-80 manns í sæti. Endurnýjun hússins og viðbyggingin eru hvorutvegja sérlega vel heppnuð frá hendi arkitektanna.
Það er mikil gæfa að það hafi tekist að finna leiðir til þess að hefja þetta merkilega hús til vegs og virðingar að nýju.
Nánar er hægt að fræðast um húsið og viðgerðir á því á heimasíðu Hannesarholts á þessari slóð: http://www.hannesarholt.is/husið/gengið-um-husið/
Heimasíða Hannesarholts er einhver sú besta sem ég hef séð af þessari gerð. Hér er slóð að miklum fróðleik sem er að finna á síðunni. Þar skrifar Guðjón Friðriksson af mikilli þekkingu um húsin við Þingholtsstræti.
http://www.hannesarholt.is/fro%c3%b0leikur/%c3%beingholtin/