Mánudagur 4.2.2013 - 08:48 - 7 ummæli

Hannesarholt – Grundarstígur 10

 

 

 

Hannesarholt opnar formlega í lok vikunnar. Þar verður menningartengd starfsemi með veitingum og lístrænum uppákomum. Aðstandendur vilja með starfseminnni byggja „brú milli almennings og fræða“.

Húsið að Grundarstíg 10, Hannesarholt, hefur gengið í gegnum gagngera endurnýjun vegna þessa og byggt hefur verið við það.. 

Þarna í nýuppgerðu húsinu verður sjálfseignarstofnunin Hannesarholt rekin. Markmið stofnunarinnar er að efla jákvæða, gagnrýna hugsun í íslensku samfélagi, auka skilning á gildi sögunnar og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og samveru. Ekki veitir af því að styrkja og bæta gagnrýna og uppbyggilega umræðu hér á landi.

Húsið var byggt árið 1915 fyrir Hannes Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands. Húsið teiknaði Benedikt Jónasson verkfræðingur og þykir það ólíkt öðrum húsum í Reykjavík þeirra tíma. Þetta er voldugt tvílyft steinhús með mansardþaki, hátt til lofts og fallega skreytt innandyra og utan.

Benedikt var byggingarfulltrúi og bæjarverkfræðingur í Reykjavík á árunum 1911-1916. Hann teiknaði marga af vitum landsins fyrir Hafnarmálastjórn.  Benedikt Jónasson hafði næma tilfinningu fyrir byggingalist eins og sjá má af verkum hans. Grundartígur 10 er meðal 15 elstu steinsteyptu húsa í Reykjavík og var byggt í kjölfarið á Reykjavíkurbrunanum árið 1915.  Skriflegar heimildir benda til þess að bruninn hafi haft áhrif á gerð hússins.

Endurnýjun hússins sem var á höndum arkitektanna hjá ARGOS, þeirra Grétari Markúsyni, Stefáni Erni Stefánssyni í samstarfi við Árna Þórólfsson arkitekt. Byggt hefur verið við húsið einskonar jarðhýsi sem ætlað er til fyrirlestra og tónlistarflutnings. Salurinn  er um 100 fermetra fjölnotasalur sem tekur 70-80 manns í sæti. Endurnýjun hússins og viðbyggingin eru hvorutvegja sérlega vel heppnuð frá hendi arkitektanna. 

Það er mikil gæfa að það hafi tekist að finna leiðir til þess að hefja þetta merkilega hús til vegs og virðingar að nýju.

Nánar er hægt að fræðast um húsið og viðgerðir á því á heimasíðu Hannesarholts á þessari slóð: http://www.hannesarholt.is/husið/gengið-um-husið/

Heimasíða Hannesarholts er einhver sú besta sem ég hef séð af þessari gerð. Hér er slóð að miklum fróðleik sem er að finna á síðunni. Þar skrifar Guðjón Friðriksson af mikilli þekkingu um húsin við Þingholtsstræti.

http://www.hannesarholt.is/fro%c3%b0leikur/%c3%beingholtin/

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.2.2013 - 15:37 - 21 ummæli

Mistök í byggingaiðnaði og kerfin

 

Nú hefur þeim sem þróað hafa og selja ýmis teikniforrit, þjónustu- og gæðakerfi tekist að sannfæra markaðinn um að mistök í hönnun og framkvæmd megi minnka verulega með notkun vörunnar.

 Eitt forritanna er BIM  (Building Information Modeling).  BIM er þrívíddar likan sem kalla má byggingarlíkan eða sýndarveruleiki óbyggðra bygginga. Svo má bæta við lofuðum gæðakerfum á borð við ISO 9001 leggjast yfir heimsbyggðina.

Einhvern vegin hef ég á tilfinningunni að þetta sé ofmetið og að seljendur forritanna og gæðakerfanna hafi tiltölulega meiri hag af verklaginu en byggingariðnaðurinn sem þau eiga að þjóna. Samkvæmt því sem mér hefur verið sagt liggja ekki fyrir neinar rannsóknir sem styðja fullyrðingu seljenda  um að kerfin komi fyrir mistök að einhverju marki.

Þvi er nefnilega þannig háttað eins og sjá má af rannsókn Dr. Ævars Harðarsonar,  sem fjallað var um hér fyrir stuttu, að hönnun byggist mest á þekkingu og reynslu þeirra sem eru að hanna. Kerfin eru bara verkfæri í höndum einstaklinganna, ekkert annað

Góðir pottar tryggja ekki góðan mat.

Sú spurning vaknar hvort eitthvað sé vitað um hvort slík kerfi (t.d. BIM og gæðakerfin)  geti fyrirbyggt þá gerð af göllum sem Ævar hefur verið að rannsaka? Liggja fyrir einhverjar þekktar rannsóknir (unnar af öðrum en seljendum kerfanna) sem sýna að þessi forrit og kerfi hefðu getað afstýrt einhverjum hönnunarmistökum?  Ég man ekki eftir dæmi þess að forrit af nokkurri gerð hafi afstýrt hönnunarmistökum eða að kenna megi forriti eða vöntun á slíku, um mistök í hönnun eða framkvæmd. Þvert á móti hef ég heyrt af dæmum þar sem hönnunarkerfinu er kennt um og að gæðakerfin hafa stuðlað að dreifingu ábyrgðar.

Ég vil taka fram að ég er svo sem ekkert hissa á að mönnum hafi tekist að selja þesssi forrit þó ekki væri nema vegna þess hversu impónerandi það er að sjá allt húsið með öllum lögnum í þrívidd og  stöðugt uppfært á rauntíma. Það er stórkostleg sjón en ég spyr hvort það sé eitthvað gagn af þessu sem nemur fyrirhöfninni þegar hönnunin og framkvæmdin er annarsvegar?

Svo eru það gæðakefin sem farið er fram á. Það er auðvitað nauðsynlegt að hver ráðgjafi hafi gæðakerfi sem heldur utan um boðleiðir, verkferla og vistun gagna. En skipta stór vottuð gæðakerf einhverju máli? Auðvitað lítur það vel út þegar fyritækin geta státað af því að hafa aflað sér vottunar á t.a.m. ISO 9001.

Mér skilst að öll fyritækin sem komu að íbúðahúsunum fyrir austan þar sem komið hefur upp myglusveppir væru með vottuð gæðakerfi. Þetta á við um alla hönnuði, verktaka og þá sem fluttu inn og framleiddu byggingarefnið.

Samt eru húsin gölluð.

Spurningin er hvort öll þessi kerfi skili sér í meiri gæðum framleiðslunnar? Er þetta verklag ekki íþyngjandi fyrir litlar og meðalstór hönnunarfyritæki?. Stendur þessi þróun kannski í vegi fyrir sjálfri hugmyndavinnunni?. Eru tæknikerfin og skriffinnskan að taka völdin frá „studíounum“? Eiga hæfileikamiklir og hugumstórir ungir hönnuðir erfiðara uppdráttar vegna þessarrar þróunnar?

Er tilgangurin  með allri þessari skriffinskukerfum kannski fyrst og fremst að ná utan um stjórnunarvanda sem fylgir stórfyritækjum í hönnunarþjónustu, byggingariðnaði svo maður tali nú ekki um alþjóðlegum endurskoðunarfyritækjum sem allt of lítið hefur verið rætt um í kjölfar Hrunsins.

Hafa hagsmunasamtök hönnuða (AÍ, FRV og fl.) skoðað þetta og rætt undir formerkjum gagnrýnnar hugsunar? Eða eru kerfin þegar búin að taka völdin?

„Sá veldur er á heldur“

 Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/01/14/gallar-i-nutimalegum-byggingum/

 Ég vil nota tækifærið og vekja athygli á fyrirlestri Dr. Ævars Harðarsonar um galla í byggingum. Fyrirlesturinn verður haldinn fimmtudaginn 7. febrúar n.k. og er öllum opinn. Hann verður haldinn í Listaháskóla Íslands að Þverholti 11 kl 20.00 og ber hina ögrandi yfirskrift „ALLUR GÓÐUR ARKITEKTÚR LEKUR“ .

Sjá nánar hér:http://ai.is/?p=4903

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.2.2013 - 00:17 - 2 ummæli

Paul Mcartney – Frístundamálari

Það vita það kannski ekki margir en Paul Mcartney er áhugasamur frístundamálari. Paul hefur haft gaman af því að teikna allar götur frá því hann var í barnaskóla. Persónulegur vinur hans, hollenski málarinn Wilhelm de Kooning (1904-1997) er sagður hafa komið honum að striganum.

Þannig var að Paul var aðdáandi málarans og heimsótti hann alltaf þegar hann kom til New York þar sem listmálarinn bjó á Long Island.

Ég hef áður skrifað um myndlistarsýningu á Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn þar sem verk Bob Dylan voru til sýnis en hann er einnig virkur frístundamálari. Ég var nokkuð ánægður með verk Dylans en verð að viðurkenna að Paul Mcartney nær betur til mín.

Það má sjá að myndverk þeirra kolleganna er í nokkrum takti við tónlistina þeirra. Mcartney melodiskur og glaðvær í sínum myndum meðan Dylan alvarlegur og jafnvel þuglyndislegur í sínum verkum.

Myndin efst í færslunni er frá árinu 1994 og heitir „Unspoken Words“

Það hefur lengi verið vitað að Lennon var afkastamikill myndlistamaður strax á unglingsaldri. Uppúr 1970 þegar Yoko og John voru í Thy á Jótlandi voru mjög fínar myndir eftir bítilinn til sölu í galleríi í Kaupmannahöfn. Þetta voru myndir sem voru svona 40x60cm á stærð, sumar nokkuð erótískar ef ég man rétt. Flestar mjög fallegar, teiknaðar  á vandaðan pappír með rauðbrúnum lit, undirritaða og fallega rammaðar inn. Þær kostuðu um 3000 dkr sem voru tæplega mánaðarlaun fyrir óbreyttann skrifstofumann á þeim árum. Það má sjá vissa samsvörun eða tengsl milli mynda og tónlistar Lennons á svipaðan hátt og hjá Mcartney og Dylan

Ekki veit ég á hvað þessar myndir seljast í dag en það er væntanlega eitthvað hærra

Slóðin að færslunni um verk Dylan er þessi:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/05/bob-dylan/

Hér er Paul og Kooning ásamt hundi á heimili Koonings á Long Island árið 1983

Myndin að ofan heitir „Father Figure“ og er frá árinu 1992

Myndin að ofan heitir „ófullgerða syfonían“ og er máluð undir áhrifum frá Konning sem var vinur bítilsins.

„Gul Linda með píanói“ frá árinu 1988. Paul Mcartney lýsir verkinu svona:

A couple of people who have looked at my book singled this one out, a couple of women who said that is the picture they would like, and I am not sure why but I like it. This is Linda relax-ing in my room at home where I have the piano,and she is sitting on the couch and she was in yellow. So I made everything yellow. The piano isn’t really yellow, but I just thought it would be nice. Her hair was yellow, her blouse was yellow, so I made them all yellow. So it became a very yellow picture. It didn’t need brown or any of their real colors. This is interesting because this little stool here, this little piece here, was Rene Magritte’s. That was in a sale of the contents of his studio, and in this little thing here are his charcoals and his drawing pens and pencils exactly as he left them, including his spectacles. Maybe it was the atmosphere they liked. It’s very peaceful. I enjoyed making it. It is a very typical pose of Linda’s: the legs — this foot is slightly strange, but I like it — this shoe.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.1.2013 - 03:13 - 6 ummæli

Athyglisvert einbýlishús á Íslandi

Það er alltaf gaman að skoða einbýlishús. Einkum þegar þau eru vel gerð.

Hér fylgja nokkrar myndir af húsi eftir arkitektana Tryggva Þorsteinsson og Erlu Dögg Ingjaldsdóttur sem reka teiknistofuna Minarc í Los Angeles.

Húsið hefur vakið nokkra athygli á veraldarvefnum. Því miður finn ég hvorki grunnmyndir, sneiðingar né afstöðumynd af húsinu eða hvar hér á landi húsið stendur og því er ekki auðvelt að tjá sig um vinnu arkitektanna frekar en hér er gert.  Í minum huga leikur vafi á því hvort þetta sé í raun einbýlishús. Það er það rúmt um það að vel er líklegt að þetta sé einhverskonar sumarhöll á landsbyggðinni.

 Hinsvegar má kynnast verkinu og fl. betur á eftirfarandi slóðum:

http://www.archdaily.com/258160/ice-house-minarc/

http://minarc.com

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.1.2013 - 16:01 - 22 ummæli

Nýr landspítali á gömlum stað

 

 

Þegar Landspítalanum var valinn staður á þriðja áratug síðustu aldar voru gömlu mennirnir svo fyrirhyggjusamir að finna honum stað í jaðri byggðarinnar. Þeir töldu að þannig væri honum gefið svigrúm til stækkunnar og frekari þróunnar um ókomna áratugi.

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið skynsamlegt staðarval á þriðja áratug síðustu aldar enda hefur það sannað sig í þau 90 ár sem liðin eru.

Ekki veit ég hvernig á því stendur en þeim sem nú eru að undirbúa byggingu nýs spítala eru ekki sannfærandi um að skynsamlegt sé að byggja spítalann upp til framtíðar á sama stað og fundinn var fyrir tæpri öld. Skýrslur um staðarvalið og rökstuðningur er heldur ekki sannfærandi.

Maður veltir fyrir sér af hverju þeir sem nú eru að undirbúa nýja spítalabyggingu hafi ekki sömu fyrirhyggju og göml mennirnir á sínum tíma.

Í stað þess að horfa til langrar framtíðar með miklum þróunarmöuleikum hafa þeir valið nýja spítalanum stað þar sem þröngt er um hann, þar sem hann truflar umferð, þar sem hann ruglar staðarandann og framkallar óróleika í borgarlandslaginu og þar sem ekki er sátt um hann.

Og af hverju er ég að skrifa um þetta núna?

það er vegna þess a um helgina varð til nýtt orð sem nær yfir framkvæmdir sem öðlast sjálfstætt líf eða öllu heldur er skapað umhverfi  sem enginn ræður við.  Nýyrðið er „túrbínutrix“  sem á rætur sínar að rekja til þegar aðstandendur Laxárvirkjunnar höfðu keypt allt of stórar túrbínur fyrir virkjunina áður en búið var að kynna eða samþykkja virkjun af þeirri stærð sem hentaði túrbínunum. Túrbínurnar voru notaðar sem rök fyrir stærð virkjunarinnar ef ég skil rétt. Þetta hugtak var fyrst notað á vefsíðu Ómars Ragnarssonar og aftur brá því fyrir í Silfri Egils í gær.

Hér er slóðin að sulfri egils

http://www.youtube.com/watch?v=F0I1LNIPUKc

 Og bloggfærslu Ómars,

 http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1279311/

Í áætlunum um nýjan Landspítala er lagt í gríðarlegan kostnað með þungri stjórnsýslu án þess að sátt sé um staðsetninguna!  Það er ekki bara fjárfest í áætlunum heldur er búið að halda fleiri samkeppnir og hanna húsin að einum fimmta áður en samþykkt deiliskipulag liggur fyrir. Helstu rökin fyrir því að halda þessu áfram hafa í mörg ár verið þau að málið sé komið svo langt að ekki sé hægt að snúa við! Þegar staðurinn var valinn kynntu aðilar málsins að byggja ætti um 70 þúsund fermetra nýbyggingu fyrir spítalann þannig að byggingarmagn á svæðinu yrði um 140 þúsund fermetrar. Nú á fyrirliggjandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir tæplega 300 þúsund fermetrum á svæðinu.  Maður veltir fyrir sér hvort þarna sé á ferðinni svokallað „túrbínutrix“

Á þessari slóð er lauslega fjallað um stærðirnar:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/08/25/lsh-skipulag-audnarinnar/

Myndin í upphafi færslunnar er af mestum hluta höfuðborgarsvæðisins og sýnir það svæði sem hefur væntanlega verið fínkemmt áður en nýr staður fyrir framtíðarsjúkrahús allra íslendinga var valin staður. Rauði bletturinn sýnir hvar nú er verið að hanna nýtt sjúkrahús til langrar framtíðar.

Myndin að ofan er fengin að láni frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur og sýnir gamla og nýja Landakotsspítala. Þegar gamli spítalinn var orðinn of lítill fyrir starfsemina var ákveðið að byggja upp á sama stað. Nýbyggingin varð svo stór að hún ruglaði hverfisheildina auk þess sem hún rýrði verulega virði nærliggjandi húsa. Hús við Hrannarsstíg, Ægisgötu, Öldugötu, stýrimannastíg og víðar voru ekki þau sömu eftir og umhverfið allt leiðinlegra og verra en áður. Þegar fyrsta sjúkrahús borgarinnar í Þingholtsstræti (Farsótt) var orðið of lítið hefði verið tækifæri til að margfalda stærðina með viðbyggingum suður Þingholtsstræti, frá Spítalastíg að Skálholtsstíg. En það var sem betur fer ekki gert.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.1.2013 - 17:32 - 2 ummæli

Kvosin 1986 & 2011

 

„Guðmundur Ingólfsson er einn af máttarstólpunum í íslenskri ljósmyndun. Sýningin KVOSIN 1986 & 2011, samstarfsverkefni Ljósmyndasafns og Minjasafns Reykjavíkur, er byggð á myndum sem hann tók með 25 ára millibili. Myndirnar tók Guðmundur fyrst árið 1986 í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkur sem ýtti undir áhuga hans að skrásetja miðbæinn með markvissum hætti – á slóðum forvera hans og starfsbræðra,  Sigfúsar Eymundssonar og Magnúsar Ólafssonar, sem skrásettu svæðið um hundrað árum fyrr.

Þegar ljósmyndum Guðmundar frá þessum tvennu tímum er stillt saman birtast okkur þær breytingar sem orðið hafa miðbænum. Að öllu jöfnu teljum við að umhverfi Kvosarinnar standi í stað sem alls ekki er raunin þegar betur er að gáð. Hús hafa horfið, önnur verið byggð og götur og kennileiti breyst.“

Svo segir Jóhanna G. Árnadóttir verkefnastjóri hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur í sýningarskrá sem gefin var út í tilefni ljósmyndasýningar Lósmyndasafns Reykjavíkur sem opnaði nú síðdegis í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15.

Þetta er mögnuð sýning sem enginn má missa af.  Þarna eru „blöraðar“ minningar settar í „fókus“ eins og Einar Benediktsson formaður menningarmálanefndar Reykjavíkur orðaði það í opnunarræðu sinni.

Þegar bornar eru saman ljósmyndirnar frá 1986 við nútímann skynjar maður að gömlu húsin og gömlu rýmin virðast í einhverju „limbói“, þau vita ekki hvert stefnir eða hvert þau eru að fara og hver framtíðin verður.  Á nýju myndunum sér maður að stefnan hefur verið tekin í átt að meiri og vandaðri húsavernd en við mátti búast fyrir 25 árum.

Alls eru á sýningunni 104 ljósmyndir sem sýna staði með 25 ára millibili.

Sýningin sem opnaði í dag, stendur til 12. maí 2013

Slóð að vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur er þessi:

http://www.ljosmyndasafnreykjavikur.is/

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.1.2013 - 08:18 - 7 ummæli

Getur arkitektúr fyrirbyggt glæpi?

 

„Það er skýrt samhengi milli skipulags íbúðahverfa og tíðni glæpa og skemmdarverka“.

Þetta segir danski arkitektinn Bo Grönlund sem hefur s.l. 15 ár einbeitt sér að rannsóknum og ráðgjöf um möguleika til að nota arkitektúr og skipulag til þess að draga úr innbrotum og skemmdarverkum. Hann hefur auk rannsókna verið ráðgjafi fyrir meira en 60 sveitarfélög í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hvað þetta varðar.

 „Ég upplifi vaxandi áhuga fyrir að lækka tíðni glæpa með þeim tækjum sem skipulag og arkitektúr hefur yfir að ráða“  segir Grönlund í nýlegu viðtali.

Yfirgripsmiklar rannsóknir og reynsludæmi sýna að bæjarskipulag þar með talið lögun borgarrýma, form og lögun bygginga, götulýsing, garðar, lega gatna og göngustíga skipti miklu máli þegar innbrot og aðrir glæpir eru annarsvegar. Þá er betri yfirsýn, meiri umferð gangandi, hjólandi og akandi., félagsleg samskipti íbúanna og eignarhald mikilvægt í baráttu gegn glæpum.

Því er haldið fram að þar sem þetta allt fer saman geti  fækkun glæpa numið allt að 95% án þess að glæpir flytjist í önnur hverfi að marki.

Meðvituð hönnun og skipulag hvað þetta varðar getur dregið úr margvíslegum ófriði í hverfunum og aukið öryggi íbúanna.

Grönlund heldur því fram að arkitektúr í víðum skilningi geti beinlínis komið í veg fyrir innbrot, skemmdarverk og graffití. Hann bendir á að í Hollandi sé gefin út vottun um öryggi íbúðahverfa í þessu tilliti og segir að arkitektar þurfi að blanda sér í þessa umræðu.

Efst er mynd þar sem óvelkomnum er haldið utan íbúðagötunnar með múrum og grindarhliðum ásamt öryggismyndavélum og þess háttar lausnum. Að vissu marki er svona lokun vísbending til  afbrotamanna um að innan múrsins sé að finna verðmæti sem gætu gefið nokkuð í aðra hönd. Afbrotamennirnir tílka þessar aðstæður sér í hag vegna þess að sennilega erufáir heima og íbúarnir ekki félagslega tengdir á sama hatt og í hefðbundnum opnum húsagötum. Svona öryggisbúnaður stuðlar einnig að leiðinlegum líflausum aðstæðum með takmörkuðum félagslegum samskiptum sem ekki eru ákjósanlegar til búsetu.

Hér er slóð þarsem skoða má slíðrur úr fyrirlestri Bo Grönlund:

http://www.re-ad.dk/files/31559320/CPTED_KTH_2010_general_75dpi.pdf

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.1.2013 - 00:02 - 9 ummæli

Fellst björt framtíð í fortíðinni?

Eftir að hafa skoðað hugmyndir ungu arkitektanna um uppbyggingu í miðbæ Reyukjavíkur í síðustu færslu er ekki óeðlilegt að maður fari að efast um hvort þeir sem eru að véla með skipulagsmál hverju sinni hafi siðferðislega leyfi til að axla þá ábyrgð að þurrka fortíðina út eins og tillögur arkiitektanna fyrir 50 árum gerðu ráð fyrir? Þetta á reyndar sérstaklega við um aðalskipulag Bredstorf frá sjöunda áratugnum og margar skipulagsákvarðanir síðustu áratuga þar sem sagan hefur vikið fyrir þeim nútíma, sem þá var. Vonandi er sú hætta að mestu liðin hjá.

Þurfum við ekki að sameinast um að gera fortíðina að hluta framtíðarinnar?

Vera jákvæðari varðandi fortíðina og stíga varlegar til framtíðar en við höfum verið að gera?

Skipulagshugmyndir eldast og allar byggingar eldast. Jafnvel nýjustu húsin eiga eftir að eldast eins og nýfæddu börnin.

Byggingar eldast eins og fólk. Það koma rifur og sprungur í ytra byrðið og það verður niðurbrot af marvíslegu tagi. Burðavirki og tæknikerfi verða fyrir áföllum bæði í mönnum og mannvirkjum. Það kemur stundum leki og raki á hinum vandræðalegustu stöðum í mannfólkinu og í byggingum. Og þessi vandamál eða hrörnum gengur jafnt yfir bæði bestu byggingar og besta fólk.

Munurinn er sá að hægt er að endurnýja byggingarnar, halda þeim við og aðlaga nýjum kröfum og nýrri starfssemi.

Það er ekki hægt í sama mæli hvað mannfólkið varðar.

Varðandi byggingarnar koma upp tvær spurningar. Í fyrsta lagi vill fólk halda þeim við og gefa þeim þannig lengra líf. Og ef svarið er já,  þá vaknar ný spurning: Hvernig gerum við það?

Já ; Hvernig gerum við það?

Er svarið kannski fyrst og fremst að finna í skipulagsáætlunum?

Hugsum okkur að það hefði komið bullandi góðæri þarna uppúr 1960. Gnægð gulls hefði fundist í Esjunni. Þá er ekki ólíklegt að þessar hugmyndir ungu arkitektanna og fyrsta aðalskipulagsins hefðu orðið að veruleika.

Þá hefði enginn ferðamaður nennt til Reykjavíkur.   Þeir hefðu farið til Stuttgart!

Hefðum við viljað það?

Ljósmyndirnar sem fylgja færslunni eru af byggingum og umhverfi sem hefur verið í stöðugri hættu um áratugaskeið. Vonandi er þeim borgið.

Ljósmyndirnar tók Finnbogi Helgason tannsmiður

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.1.2013 - 19:27 - 21 ummæli

Reykjavík 1963 – framtíðarhugmyndir

Nýlega barst síðunni efni sem ekki hefur verið mikið fjallað um í rétt 50 ár. Það eru hugmyndir ungra arkitekta um þróun miðborgar Reykjavíkur. Þetta var unnið áður en hugtök á borð við „staðaranda“ og „söguleg vídd“ vor tekin inn í tungumálið.

Ungu arkitektarnir voru þeir Ormar Þór Guðmundsson og Haraldur V. Haraldsson ásamt þýskum skólabróður sínum. Leiðbeinandi þeirra var prófessor í skipulagsfræðum Rolf Gutbier.

Hugmyndir arkitektanna eru nokkuð róttækar og var fjallað um þær á sínum tíma í hinu vinsæla blaði VIKUNNI  þar sem þeir félagar segja:

„— Í Reykjavík sameinast flestir sterkustu þættir íslensks þjóðlífs. Sem höfuðborg er hún aðsetur alþingis, hæstaréttar og ríkisstjórnar, en hún er jafnframt miðstöð allrar verslunar, bæði innanlands og utan. Hér er iðnaðurinn öflugastur og fjármagnið mest. Og í Reykjavík er aðsetur helstu menningar- og listastofnana landsins. Lega borgarinnar verður að teljast allgóð. Að vísu nokkuð næðingssöm, en með fallegum vogum frá náttúrunnar hendi og fagurri útsýn í ýmsar áttir, góðum hafnarskilyrðum og jarðhita. En hún á fá gömul, falleg hús svo ekki sé talað um götur eða hverfi. Og hið nýja hefur víðast hvar ekki náð að vaxa saman, svo það er engin furða, þótt útlendingar sem hingað koma, líki borginni okkar stundum við gullgrafarabæ, eða í besta lagi sambland af gullgrafarabæ og „próvins“borg. Miðbærinn, hjarta borgarinnar, er hvað þetta snertir eins og flestir aðrir hlutar hennar. Eldvarnarveggir, eyður, bárujárnskumbaldar á víð og dreif innan um“.

Það er ekki ástæða til þess að halda öðru fram en að höfundum verksins og prófessors þeirra hafið þótt þetta skiplag vera til borginni til farsældar og þeir hafa án efa  deilt þeirri skoðun sinni með fjölda fólks. Þó verður að horfa á þessar hugmyndir með það í huga að þetta er skólaverkefni sem unnið var fyrir hálfri öld þegar menn töldu timburhús óvaranleg og einkabifreiðin samgöngutæki framtíðarinnar í borginni.

Almenn umræða gekk svo langt á þessum árum að einungis steinsteyt hús voru talin varanleg.  Timburhúsum var gefið hið gildishlaðna nafn, „bárujárnskumbaldar“.  Síðar hefur komið í ljós að vel byggð timburhús eru á flesta lund varanlegri en flestar steinsteypar byggingar síðari tíma.

Myndirnar sem fylgja færslunni lýsa best tillögunni ásamt tengli sem vísað er til að neðan.

Á efstu myndinni er horft til suðurs yfir gömlu höfnina og Tjörnina. Tjarnargatan er lögð niður og Grjótaþorpið horfið. Geirsgata er ekki til staðar og öll hús sunnan Frikirkjunnar eru horfn ( þar með talinn Miðbæjarskólinn, MR og öll Bernhöftstorfan) og ný hús komin í þeirra stað. Öll hús sunnan Laugarvegs og niður að sjó hafa vikið að Þjóðleikhúsin og safnahúsinu undanskildu. Það sem ráðhúsið er í dag er tvö 20 hæða háhýsi.

En lítum á tillögurnar með hjálp hjálagðra mynda sem ég fékk senda frá Birni Jóni Bragasyni framkvæmdastjóra kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. Hann hefur tekið saman efni um málið sem má nálgast hér: http://101reykjavik.is/2013/01/nyr-midbaer-1963/

Að ofan sést hvernig ungu arkitektarnir hafa breikkað suðurgötuna alla leið nður í Kvos. Hún er þarna 4 akreinar og endar sjálfsagt í bílastæðahúsi í miðborginni. Alþingi og Dómkirkjan standa þarna í grend við risavaxin háhýsi sem hýsa átti bæjarskrifstofur og ráðhús. Allt Grjótaþorpip er rifuð og þar með Morgunblaðshöllin og enn stærri hús byggð í þeirra stað með bifreiðastæðum á mörgum hæðum undir. Þarna átti a’ð vera fjármálahverfi borgarinnarNeðsti hluti Laugavegar og Laækjargata að austanverðu hefur allt verið rifið og ný hús risin í þeirra stað. Lagt er til að mikið verði byggt við Háskóla Íslands og við sunnanverða Reykjavíkurtjörn.

Hér er nánari útfærsla á neðsta hluta Leugarvegar og Hverfisgötu

Hér má sjá að allt umhverfi Tjarnarinnar hefur verið endurhannað ásamt skipulagi upp laugaveg og umhverfis Háskóla Íslands

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.1.2013 - 09:07 - 23 ummæli

Gallar í nútímalegum byggingum

Þekkt er sagan af því þegar Herbert Johnson (Johnson Wax) hringdi í arkitektinn sinn, Frank Lloyd Wright, og tjáði honum vandræði sín.  Hann var búinn að dekka borð fyrir kvöldmat í sumarhúsi sínu þegar þakið fór að leka  beint ofan á mitt borðstofuborðið.  Þetta var á Thanksgiving. Hinn heimþekkt arkitekt er sagður hafa haft lausn vandans og svarað um hæl: „Af hverju flytur þú ekki borðstofuborðið þannig að það standi ekki beint undir bununni“.

Þetta er saga sem sögð er af einum þekktasta arkitekt heims sem teiknaði hús sem er þekktara en arkitektinn sjálfur, sumarhúsið Falling Water.

Falling Water hefur tæknilega verið vandamál nánast frá því það var tekið í notkun árið 1930. Eins ótrúlegt og það kann að virðast og þrátt fyrir alla tæknilegu gallana er húsið álitið eitt af meistaraverkum byggingalistrinnar á síðustu öld og mikið dásamað.

Um miðjan november síðastliðinn varði akitektinn Ævar Harðarson doktorsritgerð sína frá háskólanum í Þrándheimi sem hann nefnir „Dristige Detaljer“.  Ritgerðin fjallar um galla í nútímabyggingum og þar er fjallað sérstaklega um Falling Water.

Í rannsóknum sínum kemst Ævar að því að nútímahús eru gölluð. Þar er mikið um rakavandamál, lekavandamál og margskonar niðurbroti í veggjum, þökum og gluggum. Þetta er svo mikið að algengur  kostnaður vegna gallanna er um 10% af byggingarkostnaðinum þar sem 5% er lagfært á byggingatíma og 5% síðar. Oft eru gallarnir enn meiri og stundum minni.

Ævar segir gallana megi oft rekja til forgangsröðunar þeirra sem stjórna framkvæmdinni og að helsta orsökin sé form og útlit, sem byggir á fagurfræðilegum viðmiðunum.

Mér sýnist að Ævar sé að segja að hönnuðir einbeiti sér að útliti frekar en traustum staðbundnum byggingaraðferðum. Þetta eru gömul vísindi og þarf ekki annað en að vitna í 10 bækur Vitruvíusar sem skrifaðar voru fyrir réttum 2000 árum en þar færir hann rök fyrir því að ekki sé skynsamlegt að byggja á sama hátt á Iberia skaganum (nú Spánn og Portúgal) og í Egyptalandi. Hann segir það vera vegna þess að veðurfar sé ekki það sama og byggingarefnið á staðnum mismunandi (fyrsta BREEAM kenningin?)

Þetta er mjög merkileg rannsókn hjá Ævari og tímabær. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Hvað mig varðar setur rannsókn Ævars stoð undir sannfæringu mína um að alþjóðahyggjan í byggingarlist sé frekar til bölvunar.  Og þá breytir engu hvort horft er til forma og sérkenna staðanna eða til tæknilegra úrlausna. Hvert hús á sinn stað og sinn tíma fagurfræðilega og tæknilega.

Svo má velta fyrir sér hvaðan hin fagurfræðilegu viðmið, sem Ævar telur til ama, komi . Líklegt er að þau komi úr  alþjóðlegum tímaritum sem leidd eru áfram af þeim fyrirmyndum sem stjörnuarkitektar eru.

„Vörumst stjörnuarkitekta“.

Dr. Ævar Harðarson mun kynna ritgerð sína og rannsóknir víða á næstu vikum. Hann heldur erindi í Listaháskóla íslands þann 7. febrúar n.k. og á ráðstefnu um veðurhjúp bygginga á Grand Hotel þann 25 janúar n.k.

Hér er slóð þar sem hægt er að nálgast ritgerðina í heild sinni.:

http://ntnu.diva-portal.org/smash/record.jsf?pid=diva2:572324

Þá er hér slóð að viðtali við Ævar á RUV sem sent var út nýlega:

http://www.ruv.is/menning/galladur-arkitektur

Og tveir pistlar sem tengjast efninu:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/19/varist-stjornuarkitekta/

Ljósmyndirnar sem fylgja færslunni tók  Helgi Solberg.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn