
Það er opinber stefna borgarinnar að minnka umferð einkabíla innan borgarlandsins.
Þetta á að gera með því að auka þjónustu almenningsflutninga, leggja meiri áherslu á hjólandi og gangandi umferð og dreifa þjónustunni þannig að hún verði nær neytandanum og meira „í leiðinni“.
Og helst í göngu- eða hjólafæri.
Þetta eru raunhæf og góð markmið.
Ef þetta á að takast þarf að halda utan um stefnuna af mikilli festu.
En það getur verið bæði langur og grýttur vegur frá hugmynd að veruleika í þessu sem öðru. Hugmyndin liggur fyrir og nú þarf að ryðja öllum steinum úr götunni þannig að markmiðinu verði náð.
Eitt megin viðfangsefnið er skipulagslegs eðlis. Það er að færa þjónustuna nær neytandanum og staðsetja hana þannig að hún sé sem oftast “í leiðinni” hvort sem ferðast er gangandi, hjólandi eða með almennigsvögnum. Út frá þessu má ekki víkja ef áætlunin á að ganga eftir.
Þetta hafa menn ekki alltaf haft í huga við skipulagsákvarðanir og látið einkabílinn ráða ferðinni og móta borgarskipulagið.
Einhverntíma um miðjan fyrsta áratug aldarinnar var gefið undir fótinn með að leyfa verslunarstarfssemi á hafnarsvæði borgarinnar. Þetta var við Fiskislóð. Ég man ekki nákvæmlega hver fékk fyrstu undanþáguna sem var rökstudd með að fyritækið Segull, sem þjónar útgerðinni fékk að opna þarna verslun. Svo kom hvað af öðru, Ellingssen sem er útgerðartengd verslun opnaði á hafnarsvæðinu. Svo komu Húsasmiðjan og BYKO.
Og loks fór matvöruverslunin að færast út úr íbúðahverfinu á hafnarsvæðið. Matvöruverslanirnar KRÓNAN, BÓNUS og Europrís opnuðu þarnna á hafnarsvæðinu við Fiskislóð. Í framhaldinu lagðist verslunarrekstur inni í íbúðabyggðinni nánast af með undantekningum.
Mér skilst að á þessum tíma hafi landnotkun í aðalskipulagi verið formlega breytt í samræmi við þessa óheillaþróun úr hafnarsvæði í takmarkað miðborgarsvæði.
Það var óheillaspor sem stuðlar að því að flytja þjónustuna fjær neytandanum og auka einkabílaumferð. Ekki er auðvelt fyrir núverandi borgarstjórn að breyta þessu í einum vetvangi, en hún ætti að geta gefið út einhverja stefnu sem kemur í veg fyrir frekari þróun í þessa átt, þar sem neytendum er nánast gert ókleyft að sækja þjónustuna gangandi eða hjólandi og einkabíllinn festur enn frekar í sessi.
Nú hefur ný lágvöruverslun óskað eftir að fá að opna verslun á hafnarsvæðinu við Fiskislóð við hliðina á þeim tveim sem fyrir eru. Það er að segja að þriðja lágvöruverslunin er að opna þarna til þess að þjóna vesturbænum. Eðlilegt er að spyrja hvort þetta sé í samræmi við stefnu borgarinnar í umferðamálum? Ef þörf er fyrir þriðju lágvöruverslunina í borgarhlutanum hlýtur að vakna spurningin um hvar rétt sé að staðsetja hana með tilliti til fyrrgreindrar stefnu borgarinnar í samgöngumálum? Stefnir borgin að því að færa matvöruverslun alfarið út úr íbúðahverfunum almennt og auka þar með umfang einkabíla í borginni og leggja það með þungar byrgðar á borgarbúa? Á ekki að staðsetja matvöruverslunina á skipulagslegum forsendum?
Í borgarhluta 107 er mikið framboð af vannýttu eða ónotuðu verslunarhúsnæði sem hentar ágætlega fyrir verslanir af öllu tagi. Ég nefni nokkur hundruð fermetra verslunarhúsnæði við Dunhaga sem nú er notað fyrir Háskólautgáfuna(!) og verslunarhúsnæði við Hjarðarhaga auk mikilla tækifæra við Hofsvallagötu og Neshaga og víðar.
Nú liggur fyrir að þriðja lágvöruverslunin opni á hafnarsvæðinu í byrjun desember. Ekki veit ég hvaða áhrif það mun hafa á þau fáu tækifæri sem matvöruverslun hefur í borgarhlutanum. En ég óttast lægra þjónustustigs í göngufæri.
Þarna er lagður stór steinn í skynsamlega þróun í átt að vistvænni borg þar sem fólk fer gangandi og hjólandi að sinna sínum daglegu erindum og einkabíllinn festur enn frekar í sessi.
Borgin þarf að fylgja stefnu sinni í þessu máli þannig að markmiðin í umferðamálum verði ekki fyrir borð borin. Eitt skrefanna er að endurskoða skilgreiningu landnotkunnar á hafnarsvæðinu og beina miðborgarþjónustunni þangað sem hún á heima og matvöruverslun og annarri þjónustu aftur inn í íbúðahverfin. Gera íbúðahverfin sjálfbær þannig að sem flesta þjónustu sé hægt að sækja gangandi og að einkabílaumferð sé í lágmarki.
Annars er betra heima setið en af stað farið í samgöngustefnunni. Hvað gengur borginni til? Hverjum er hún að þjóna?
++++++
Efst í færslunni er mynd sem tekin er á hafnarsvæðinu úti á Granda. Þarna má sjá Bónus og Krónuna. Nú stendur fyrir dyrum að fjölga um enn eina lágvöruverslunina þarna á svæðinu eins og fyrr segir. Skipulag nærliggjandi íbúðahverfis gerir ráð fyrir stórum matvörubúðum við Dunhaga og Hjarðarhaga. Mikil tækifæri er að finna fyrir verslun og þjónustu á horni Hofsvallagötu og Neshaga.
Tækifæri íbúanna til þess að geta gengið fallegar götur til innkaupa þar sem þeir hitta sína næstu nágranna er tekin frá þeim og þeim gert að sækja verslun í einkabíl. Þetta virðist vera þvert á stefnu borgarinnar í samgöngumálum.

Að ofan er ljósmynd sem sýnir byggingar á horni Hofsvallagötu og Neshaga sem eru miðsvæðis í hverfi 107. Þetta eru byggingar sem byggðar eru sem atvinnuhúsnæði og henta vel fyrir ýmsa þjónustu fyrir hverfið svo sem lágvörumarkað, heilsugæslu, bókasafn, ýmsa félagsstarfssemi og fl. Þarna eru nú ýmsar skrifstofur sem ekki þjóna hverfinu sérstaklega.

Í Vesturbæ sunnan Hringbrautar er ekki að finna í göngufæri, lágvöruverslun, bókasafn, heilsugæslustöð, fiskbúð, hverfisknæpu, byggingavöruverslun(isenkram-krambúð), pósthús, áfengisverslun, vefnaðarvöruverslun, fitnescenter og margt fleira. Ekki er að efast um að rekstrargrunnvöllur sé fyrir þessa þjónustu í hverfi af þessari stærðargráðu. Ef fundin væri staður fyrir þ jónustu við íbúana innan íbúðahverfanna eða í tengslum við þau mun hverskonar „skutl“ á einkabílum minnka stórlega og álag á gatnakerfi borgarinnar minnka verulega.