Mánudagur 3.12.2012 - 16:42 - 28 ummæli

Ályktun arkitekta – Ný byggingarreglugerð

Arkitektafélagið hefur formlega skorað á stjórnvöld að fresta gildistöku nýrrar byggingarreglugerðar um óákveðinn tíma og sent ályktun þar að lútandi til stjórnvalda.

Arkitektafélagið telur margt í reglugerðinni þurfa á nánari skoðun að halda. Telur félagið að reglugerðin muni hafa í för með sér miklar kostnaðarhækkanir sem mun einkum bitna á ungu fólki og leiða til neikvæða áhrifa á lánastöðu almennings og m.fl.

Hér má lesa ályktunina í heild sinni.:

Að baki nýrri byggingareglugerð býr vilji til vistfræðilegra framfara og manneskjulegra samfélags. Arkitektafélag Íslands hefur ásamt Mannvirkjastofnun, Samtökum iðnaðarins og fleiri aðilum átt þátt í fundarherferð um landið þar sem ný byggingareglugerð hefur verið til umfjöllunar. Í ljós hefur komið að reglugerðin mun líklega hafa í för með sér miklar kostnaðarhækkanir. Það er áhyggjuefni, ekki síst þegar þjóðin er að rétta úr kútnum eftir fordæmalaust efnahagshrun. Allar hækkanir munu  óhjákvæmilegageraungu fólki og efnaminni erfitt um vik og auk þess leiða til neikvæðra áhrifa á lánastöðu almennings. Leiða má rök að því að þær miklu breytingar sem byggingareglugerðin hefur í för með sér muni jafnvel stuðla að minna jafnræði borgaranna í stað þess að auka það eins og stefnt er að.

Einsýnt er að margt í reglugerðinni þarfnast nánari skoðunar og undirbúnings. Arkitektafélag Íslands skorar á yfirvöld að fresta gildistöku reglugerðarinnar ótímabundið meðan heildarendurskoðun fer fram. Félagið lýsir sig reiðubúið til að koma með uppbyggilegum hætti að því verki.

Sjá einnig eftirfarandi tengla:

Tengill í grein Jóhanns Sigurðssonar arkitekts sem birstist í Fréttablaðinu nýlega. Neðst er teikning sem fylgdi grein Jóhanns sem sýnir áhryf reglugerðarinnar á grunnmynd lítillar íbúðar.:

http://www.visir.is/ny-byggingarreglugerd—ibudir-fyrir-alla-/article/2012712019981

Hér er tengill að nýlegri grein sem birt hefur verið á heimasíðu Arkitektafélagsins eftir Tryggva Tryggvason arkitekt og lögfræðing.:

http://ai.is/?p=4711

Og loks nýulegur pistil héðan af vefnum.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/11/25/ny-byggingarreglugerd-i-kreppu/

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.11.2012 - 15:16 - 19 ummæli

Frystigeymsla og myndlist á Grandanum.

 

 

Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður hefur sent síðunni eftirfarandi pistil þar sem hann fjalllar um byggingalist og myndlist á mjög áhugaverðan hátt. Þetta er tímabært efni sem hlýtur að vekja alla þá sem unna byggingalist og myndlist til umhugsunar. Í raun undrar það mig að arkitektar hafi ekki fyrir löngu tjáð sig um þetta merkilega mál sem Kristinn vekur hér athygli á.

Gefum Kristni orðið:

Nýverið auglýsti HB Grandi eftir áhugasömum listamönnum til að taka þátt í lokaðri hugmyndasamkeppni um listskreytingu á eða við frystigeymlu sem fyrirtækið hyggst reísa á Grandanum í Reykjavík. Auglýsingin var svona, með smávægilegum breytingum:

HB Grandi  auglýsir eftir myndlistarmönnum arkitektum til að taka þátt í forvali að lokaðri hugmyndasamkeppni um gerð listaverks frystigeymslu á og eða við suð-austurgafl nýrrar frystigeymslu sem mun rísa á fyllingunni austan við aðsetur HB Granda á Norðurgarði við Gömlu höfnina í Reykjavík.

Listaverkið Frystigeymslan mun verða ákveðið kennileiti við innsiglinguna að Gömluhöfninni og fjölbreytt athafnasvæði hennar að vestan verðu með Hörpu á aðra hönd. Verkið  Byggingin mun verða sýnileg víða að af hafnarsvæðinu.
Hugmyndiner að listamaðurinn arkitektinn, einn eða í samvinnu við annan myndlistarmann, vinniverk á suð-austurgaflbyggingarinnar, sjálfstættverkframanviðvegginn og/eða verk sem tengir saman veggflötinn skili listrænni byggingu og hugi að opnu útivistarsvæði austan hússins. Nýbygginginer 3.800 m2 heildarstærð, þar af er austurgaflinn  412 m2 og svæðið framan við er 1.300 m2, sem hugsað er sem og útivistarsvæði með göngustígum, dorgaðstöðu,  bekkjum ofl. Útveggir hússins verða úr stálbitum,  klæddir með setum og stálklæðningu að utan. Stálklæðningin verður ljósgrá standandi báruklæðning.

Þá er einnig tekið fram í auglýsingunni að samkeppnin sé unnin í samráði við SÍM – Samband Íslenskra myndlistarmanna. Valdir verða fjórir listamenn til að gera tillögu og fær hver og einn þeirra 250 þúsund krónur fyrir innsenda tillögu. Á heimasíðu HB Granda eru frekari upplýsingar um samkeppnina og uppdrættir og tölvumyndir af væntanlegri byggingu.

Af þessari samsettu auglýsingu að ráða hefði þetta því getað orðið spennandi verkefni, en er það augljóslega ekki.

Það er í mínum huga algerlega óskiljanlegt að bygging sem stendur á jafn mikilvægum stað og að er látið liggja í auglýsingunni skuli ekki falla undir neina fagurfræðilega mælikvarða eða fagleg vinnubrögð. Samt er staðurinn sagður mikilvægur og vísað til kennileita og sýnileika. Skv. uppdráttum er byggingin sem þarna á að rísa ekki arkitektúr, hún er frystihólf — mikill gólfflötur og stórir veggir með flötu dauðu þaki. Það er hinsvegar ekki þar með sagt að hún þurfi að vera svona. Ég held að í þessu tilfelli hafi menn misst af stórkostlegu tækifæri til að hanna byggingu sem geti verið fagurfræðilega áhugaverð og um leið það kennileiti sem lítið og fátæklegt listaverk á risavegg er ætlað að vera. Það er greinilegt að forsvarsmönnum hafnarinnar og HB Granda er ljóst mikilvægi staðarins, þeim er ljós “staðarandi” gömlu hafnarinnar og þeim er ljóst mikilvægi þess að gera umhverfið áhugavert í samhengi við borgarmyndina og umferð almennings. Slík atriði vega auðvitað þungt þegar rætt er um arkitektúr og myndlist, en í þessu tilfelli hafa þeir kosið að líta framhjá mikilvægasta atriðinu í málinu—arkitektúrnum sjálfum.

Hvert er hlutverk listaverksins í þessu samhengi? Jú, því er líklega ætlað að draga athyglina að staðnum og þá væntanlega um leið byggingunni sem það verður á eða við. Það ætti að mínu viti alls ekki að gera í þessu tilfelli. Það tapa allir á þeirri athygli.

Um þettaþarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð. Arkitektasamkeppni hefði verið eðlilegra fyrir svona verkefni,  bæði af hálfu skipulagsyfirvalda og Faxaflóahafna og ekki síður arkitekta og í henni hefði verið eðlilegt að vinna af listrænum metnaði—með eða án aðkomu myndlistarmanna.

Hvers vegna þykir ekki sjálfsagt og eðlilegt að frystigeymslur séufallegar eða falli vel að því um hverfi sem þær eru reistar í? Utanhússskraut breytir ekki vondum arkitektúr í góðan, en góður arkitektúr getur vel verið listaverk í sjálfum sér. Samvinna listamanna og arkitekta getur einnig skilað góðu verki, eins og fjöldi dæmas annar, en sú leið er allt of sjaldan farin hér á landi.

Kristinn E. Hrafnsson

Að neðan eru tölvumyndir af umræddum frystigeymslum og efst er mynd af einu af þekktum verkum  Kristins sem er einn af bestu myndlistarmönnum landsins. Myndirnar af geymslunni eru fengnar af vef Hbgranda.

Til frekari upplýsingar vek ég athygli á heimasíðu listamannsins:  www.keh.is

 

 Eins og sjá má á loftmyndinni mun frystigeymslan kallast á við Hörpu yfir hafnarkjaftinn.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.11.2012 - 22:51 - 36 ummæli

Ný byggingareglugerð í kreppu.

Síðastliðinn  föstudag var haldinn fundur um nýju byggingareglugerðina sem er nr.: 112/2012.

 Samtök iðnaðarins, Mannvirkjastofnun, Arkitektafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag byggingarfulltrúa stóðu fyrir fundinum.

Þetta var fjörugur, skemmtilegur og upplýsandi fundur. Öllum sem fundinn sóttu sáu að það var margt gott og skynsamlegt að finna í reglugerðinni nýju, en þeim var jafnframt jóst, að enganvegin er tímabært að taka reglugerðina að fullu í gagnið að svo stöddu.

Fyrir því liggja margar ástæður sem vel var gerð grein fyrir í erindunum.

Það skal af gefnu tilefni taka fram að sú flökkusaga að arkitektar séu steinar í götu framfara i málefnum fatlraðra er algerlega úr lausu lofti gripin. Þvert á móti eru arkitektar upp til hópa mjög meðvitaðir um baráttumál fatlaðra og styðja þau af öllu afli.

Í upphafi fundar flutti Friðrik Ágúst Ólafsson, forstöðumaður Meistaradeildar Samtaka Iðnaðarins, gott erindi um þá kostnaðarauka sem fylgja nýju reglugerðinni og margt fleira. Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, brást til eðlilega varnar verki sínu og gerði hann það af miklu kappi. Jóhannes Þórðarson, arkitekt FAÍ,  flutti síðan vel rökstutt erindi þar sem hann lagði til grundvallar hugtök í „Menningarstefnu í mannvikjagerð” frá árinu 2007.  Jóhannes sýndi fram á hvað stefnan vegur lítið í umræddri reglugerð og víðar í umhverfi byggingamála. Mér til mikillar gleði nefndi hann sérstaklega byggingaráform Landspítalans í því samhengi.

Því hefur verið haldið fram að þeir sem komu að samningu byggingareglugerðarinnar hafi verið andvígir því að á Menningarstefnuna væri minnst í reglugerðinni og að hugtök á borð við fegurð, smekkvísi, menningarverðmæti eða byggingarlist fengju þar eitthvað vægi.

Síðastur frummælanda var Magnús Sædal, formaður félags byggingafulltrúa sem sagði reynslusögur úr starfi sínu og taldi nýju reglugerðina góða og að hún ætti að taka gildi  sem fyrst. Magnús veittist nokkuð hart að verktökum og mátti skilja að reglugerðin væri að hluta viðbrögð við starfssemi þeirra

Mín upplifun á fundinum var sú að þarna væru embættismenn með öll tök á reglugerðarsmíðinni og að hún þjónaði einkum hagsmunum þeirra sjálfra og eftirlitskerfinu. Manni virtist þeim vera sama hvað breytingarnar munu kosta húsbyggjendur og kostnað vegna aukinna umsvifa  hins opinbera við margskonar eftirlitsstörf.

Guðrún Ingvarsdóttir glæsilegur fulltrúi kvenna í arkitektastétt lagði sitt til málanna, setti fram vel rökstuddar spurningar og sjónarmið, hikaði ekki við að mótmæla staðhæfingum embættismannanna sem virtust ekki átta sig á því að þeir eru og eiga að vera þjónar almennings og neytanda. Ekki boðberar embættismannavalds.

Guðrún í samvinnu SI lagði fram óháða og að því er virtist vel unna úttekt á hvað byggingareglugerðin kostaði neytendur. Úttektin gerir ráð fyrir að byggingakostnaður aukist um ein 10% þegar viðmiðið var hefðbundið þriggja hæða fjölbýlishús.

Því hefur verið haldið fram að þessi breyting á reglugerðinni muni leiða af sér framkvæmdastoppp hjá verktökum, auk þess sem því er haldið fram að neysluverðvsvísitala mun rjúka upp um 3-4 % með tilkomu reglugerðatinnar með tilheyrandi hækkun fyrir alla lántakendur.

Ein nýjung reglugerðarinnar er stóraukin krafa um einangrun húsa og skal hún vera sú sama hvar á landi sem er. Gildir einu hvort byggt sé þar sem er næg orka  sé í túnfætinum eins og t.a.m í Hveragerði eða á afskekktum stöðum þar sem upphitun er með olíu og niðurgreidd af hinu opinbera.

Í viðtali á Stöð2 í kvöld sagði Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt.:  „Orkukostnaður þyrfti að áttfaldast til að sá sparðnaður (sem aukin einangrun veitir) færi að skila sér. Það er það mikill aukinn fjármögnunarkostnaður og stofnkostnaður við bygginguna. Og ef við horfum til íslenskrar orku, sem við teljum nokkuð vistvæna, þá skýtur þetta nokkuð skökku við”.

Á fundinum kom fram að staðan í byggingaiðnaðinum og fjárhagsleg staða notenda almennt á Íslandi í dag er þannig að við höfum ekki efni á þessum breytingum. Krafan var frestun á gildistöku.

Eftir fundinn á föstudag get ég ekki séð annað en að nauðsynlegt sé að mæta kröfunni um frestun þar til sátt hefur náðst um reglugerðina og efnahagsástand verði með öðrum hætti hér á landi en nú er.

Sjá hér útskrift úr fréttum Stöðvar2 í kvöld:

http://www.visir.is/reglugerdin-gerir-husnaedi-dyrara-og-ovistvaenna/article/2012121129331

Hér er færsla þar sem fjallað er um ýmis atriði í nýju byggingareglugerðinni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/06/18/ologlegir-heitir-pottar-byggingareglugerd/

Og eldri færslu um mannvirkjalög:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/27/mannvirkjalog-%e2%80%93-ekki-fyrir-arkitekta/

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.11.2012 - 15:40 - 6 ummæli

Weiwei í Washington

 

 

Kínverski listamaðurinn Ali Weiwei minnir mig nokkuð á Ólaf Elíasson. Hann vinnur á svipaðan hátt með innsetningar, skúlptúra og ljósmyndir. Þeir vinna báðir á svipaðan hátt og arkitektar. Þeir fanga rýmið.  Helsti munurinn er sá að Weiwei er menningargagnrýnir, pólitískur og félagslega sinnaður sem Ólafur er ekki. Weiwei hefur þurft að sitja mánuðum saman í fangelsi vegna verka sinna og skoðanna. Báðir hafa þeir sterk tök á fagfurfræðinni sem oft skortir í nútímalistum að því er virðist.

Þeir hafa báðir unnið mikið með arkitektum. Til dæmis Ólafur með Henning Larsen í Hörpu og Weiwei við ólympíuleikvanginn í Beijing með arkitektunum Herzog og de Meuron.

Um helgina sótti ég sýningu í Hirshhorn museum í Washington þar sem verk Weiwei eru sýnd. Þetta var mikil upplifun og tvímælalaust hápunktur ferðarinnar til Wasington að þessu sinni.

Ég þakka Karli sem bendir á eftirfarandi myndband í athugasemdum. Myndbandið fjallar um sýninguna.

Ég birti hér að neðan nokkrar myndir sem ég tók á sýningunni.

Sjá einnig:http://blog.dv.is/arkitektur/2009/09/30/%e2%80%9cyour-house%e2%80%9d-eftir-olaf-eliasson/

 

Hér er innsetning um ólympíuleikvanginn í Beijing. Geometrísku kúlurnar á gólfinu minna á nálgun Ólafs Elíassonar og Einars Þorsteins arkitekts.

Hér hefur Weiwei raðað upp steypustyrktarjárni úr nokkrum barnaskólum sem hrundu í jarðskjalftunum í Sichuan í Kína árið 2008. Þarna fórust 65 þúsund manns og 18 þúsund fundust aldrei. Við hrun skólanna dóu um 7 þúsund börn. Stálteinarnir eru jafnmargir börnunum sem létu þarna lífið og vega um 37 tonn. Weiwei vekur hér athygli á því að samfélagið hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist og hættunni við því að einstaklingarnir vilja gleymast.

Weiwei vekur hér athygli á því að áður  var allt land í í Kína í eigu almennings. Nú er eignarhald með öðrum hætti þannig að athafnamenn fá tækifæri til þess að hrekja fólk í burt til þess að þeir fái að athafna sig. Þetta eru „fyrir og eftir“ myndir að hluta.

Hér stendur „Gleymdu öllu“ …..“Forget everything”. Dylan sagði “Don’t follow leaders”

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.11.2012 - 22:46 - 6 ummæli

Hallgrímur Helgason um borgarskipulagið

 

Hallgrímur Helgason rithöfundur hélt stórgott erindi í tengslum við arkitektúrsýninguna “New Nordic” á Louisiana norðan Kaupmannahafnar fyrir nokkru. 

Hann ræddi  byggingalist almennt og fór, ekki af tilefnislausu, nokkuð mikinn um skipulagsmál í höfuðborg Íslands og segir m.a.:

“In only fifty years it vent from being a lovely little harbour town to becoming a concrete monster tied up by motorways. Copenhagen was based on Paris and still looks sort of like a Paris of red bricks, while Reykjavík looks like “Rönne på Bornholm” surrounded by Los Angeles.

I´m not kidding.

Reykjavik is the most spread out city on the planet. It´s one of the major achievments of modern city planning how they managed to make people who live in a city of 100.000 spend on avrege one hour per day in their cars”.

Síðar ræðir  hann verslanamiðstöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu sem honum þykja ljótar og veltir fyrir sér hvort þær séu hannaðar fyrir blinda guðinn mammon og segir orðrétt: ”Maybe because here they´re designing for a blind God called Mammon”

Erindið má lesa í heild sinni í nýjasta eintaki ag ritinu “The Reykjavik Grapevine” sem kom út í síðustu viku og er dreift ókeypis og hægt er að nálgast víða. Þetta er skemmtilegt efni og lærdómsríkt að lesa hvernig rithöfundurinn sér borgina og byggingaliust hennar.

 

Hér að neðan er slóði að pistil um sýninguna „New Nordic“ á Louisiana

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/08/01/studio-granda-a-louisiana/

Og hér er annar um Los Angeles sem getið er í erindi Hallgríms.

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/05/10/los-angeles/

P.s. Lesendur verða að umbera að tilvitnanirnar í Hallgrím skulu vera á ensku.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.11.2012 - 14:16 - 11 ummæli

Nýtt hverfaskipulag í Reykjavík

Síðastliðinn föstudag var haldin ráðstefna við arkitektaskólann í Árósum þar sem ræddur var „arkitektúr hversdagsleikans“, „spariarkitektúr“, umbreytingu eldri hverfa  o.fl.

Það vekur sífellt athygli, að megin fókusinn á byggingalist er stilltur á „spariarkitektúr“. Það er að segja listasöfn, kirkjur, ráðhús, dómhús, tónlistarhús, æðri menntastofnanir o.s.frv.

Arkitektúr sem allir nota á hverjum degi eins og eldri hverfi (utan miðborganna), íbúðahúsin, verslanir, göngu- hjóla- og akstursleiðir og hinn mikilvægi félagslegi þáttur byggingalistarinnar fær yfirleitt minni athygli.

Um 200 arkitektar mættu á fundinn í Árósum til þess að ræða málin og ekki siður til þess að hlusta á Jan Gehl segja frá áratuga reynslu sinni af því að bæta „hversdagsarkitektúrinn“ og gera lífið betra á alla lund fyrir fólkið í hverfunum.

Fundarstjóri var hinn stóryrti, margyrti og stórmynnti sjónvarpsmaður, Clement Kjersgaard, sem margir kannast við. Með sínum þekkta bægslagangi og byrjaði hann á að spyrja Gehl:

“Hvernig notar maður arkitektúr til að breyta umhverfinu svo um munar fyrir allan almenning, þ.e.a.s. notendurna?”

Og Jan Gehl svaraði um hæl:

“Ég hef meira en 40 ára reynslu af því að leysa vandamál í skipulagi og arkitektúr. Það sjá ekki allir notendur vandamálin sem við er að stríða og enn síður tækifærin. Meginverkefni arkitektsins er að upplýsa íbúana um vandamálin og lausnirnar. Ef þessu er miðlað til íbúanna vaknar nánast alltaf áhugi þeirra fyrir verkefninu og áhugi fyrir arkitektúr og skipulagi vex almennt gríðarlega”.

Jan Gehl  telur kynningarferlið mikilvægan hvata til þess að breyta umhverfinu til hins betra og leggur hinn reyndi arkitekt áherslu á kynninguna, umræðu og þáttöku allra í ferlinu.

 Hann telur framgöngu og skoðanir arkitektanna og valdhafanna skipta minna máli. Ef ekki er tillit tekið til íbúanna og þeir fá ekki örvun til þáttöku í ferlinu verður niðurstaðan ekki eins farsæl. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á að það eru gríðarleg tækifæri að finna í eldri hverfum og  eldri húsum.

Það þurfi bara að vekja athygli á tækifærunum og beina umræðunni að þeim þá fara hlutirnir af stað.

Ástæðan fyrir að ég vek athygli á þessu nú er að Reykjavíkurborg er að fara að taka á umbreytingu hverfanna í borginni.  Reykjavíkurborg hefur auglýst eftir teymum arkitekta og sérfræðinga til þess að ráðast í gerð hverfaskipulags fyrir ein 8 hverfi borgarinnar. Í markmiðum borgarinnar er lögð áhersla á samráð við íbúana eins og Gehl leggur áherslu á. Borgin stefnir beinlínis að því að virkja „áhugasama hverfaforkólfa“  eins og það er orðað í þétt samstarf  með hönnunarteymunum.

Markmiðið er að auka gæði hverfanna með vistvænum úrlausnum að leiðarljósi. Vistvænnni og sjálfbærri lausnir geta falist samgöngum og þéttinu, eða annarri dreifingu þjónustu svo dæmi séu tekin.

Þetta er mjög spennandi mál sem fróðlegt verður að fylgjast með í náinni framtíð. 

Efst er ljósmynd af Jan Gehl sem tekin var á ráðstefnunni í Árósum.

Hér eru slóðar á tvö dæmi sem gefa visbendingu um hverfaskipulag sem fjallað hefur verið um á þessum vef.

Fyrst vesturbær sunnan Hringbrautar:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/19/vesturbaer-sunnan-hringbrautar/

 og skólavekefni þar sem Spöngin í Grafarvogi er viðfangsefnið:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/11/spongin-endurskodun-skipulags-2/

Og loks færsla sem fjallar um matvöruverslun og íbúðahverfin.

 http://blog.dv.is/arkitektur/2012/10/10/hafnarsvaedi-steinn-i-gotu-skipulagsstefnu/

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.11.2012 - 09:04 - 5 ummæli

ÍSLAND

 

Á einni gönguferða minna um fjöll og firnindi í sumar varð á vegi mínum rétt. Ég vissi ekkert af henni og átti svo sem ekki von á neinu sérstöku á þessum stað.  Það átti reyndar ekkert okkar sem vorum þarna á göngu von á mannvirki þarna.

En skyndilega blasti eitt við.

Mitt í afdalnum þar sem hvergi var að sjá mannanna verk blasti við fagurlega hannað og vel byggt gerði eða var það nátthagi?  Mannvirkið sat fallega í landslaginu og bar höfundum sínum gott og fagurt vitni.

Þetta var mannvirki, mitt í einskismannslandi okkar allra.

Hugakið “mannvirki” er það sem heitir á nútímamáli “hið manngerða umhverfi”.

Ég veit ekkert um þetta, hvorki um sögu þess né hverjir stóðu að því. Sannast sagna veit ég ekkert, um þetta en upplifunin var upphefjandi og þroskandi fyrir alla sem tilfinningu hafa fyrir samskiptum manns og náttúru.

En þetta var byggingarlist í sinni tærustu mynd, sprottin úr umhverfinu, unnin af hugsjón, útsjónarsemi og samviskusemi. Þarna fór saman hugur og hönd. Þetta var eitthvað fallegasta dæmi um “Architecure without architects”, sem ég hef séð hér á landi.

Ekki veit ég hver laun þeirra voru sem að mannvirkinu stóðu. En hitt veit ég að þeir voru verðugir launa sinna, hver svo sem þau voru. Sennilega fengu þeir minna en þeir áttu skilið líkt og arkitektar og iðnaðarmenn á Íslandi í dag. Nú þurfa arkitektar og iðnaðarmenn að lúta niður til þess að sjá sjálfum sér og sínum farborða. Þar kemur ekki einungis til lítil vinna heldur ekki síður undirboð og svik sem eru að verða lykilvopn í lífsbaráttu fólks í byggingariðnaði á hinu nýja Íslandi í dag,  ef marka má umræðuna og nýjustu tíðindi á markaðnum.

Hér að neðan er færsla um nútímalegan regionalisma þar sem efniviðurinn er tekin af staðnum sem mannvirkið er byggt og arkitektar koma við sögu.

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/#comments

Í brekkunni handan árinnar birtist steingarðar með þrem hólfum fagurlega staðsettur í grasi gróinni brekku sem veitir til suðvesturs.

 Byggingarefnið er sótt í umhverfið og stuðlabergið úr bjarginu ofar í brekkunni er lagt efst í hleðsluna.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.10.2012 - 12:00 - 6 ummæli

Skrifstofan „á götunni“

 

Ég spurði nokkuð umsvifamikinn blaðamann frá New York sem var hér á landi fyrir einum tveim árum hvar í borginni skrifstofan hans væri?

Hann svaraði: I actually work on the street”.

Hann býr íNew York og starfar að mestu þar. Hann lokaði skrifstofu sinni fyrir nokkrum árum og vinnur nú “á götunni” eins og hann orðaði það. Hann situr á kaffihúsum, almenningsgörðum og hótellobbýum með tölvuna sína og farsímann.

Þar vinnur hann vel tengdur.

Þetta gerir hann vegna þess að hann sá að hann var nánast aldrei á skrifstofu sinni heldur sífellt á ferðalögum eða á fundum eða viðtölum fjarri sinni föstu vinnustöð. 

Spurningin er hvort þetta sé breyting sem hefur þegar átt sér stað, hljóðlega?

Allavega sé ég víða í Reykjavík fólk sitja við vinnu sína á kaffihúsum. Rétt áðan voru einir 9 einstaklingar sem sátu á Kaffi-Tár í Bankastræti með tölvur sínar að vinna með sín mál. Það er ekki vafi á að þetta hentar mörgum ágætlega og á eftir að hafa vítæk áhrif á mannlífið og skipulag í borgum.

Ég nefni þetta hér vegna þess að fyrr í vikunni kom út merkilegur bæklingur eftir Jan Gehl þar sem hann kemur inná þessi mál. Allir sem láta sig þetta varða ættu að lesa hann eða skanna. Slóðin að bæklingnum ó pdf formi er þessi:

http://gehlarchitects.files.wordpress.com/2012/10/downloaded-here2.pdf   

Efst er mynd af aðstæðum sem verða sífellt algengari allstaðar í heiminum.

Maður við vinnu sína „á götunni“.

Hér að neðan er stikla úr 18 mínútna myndbandi sem nú er tíl sýnis á norrænu arkitektasýningunni á Lousiana í Danmörku ásamt mynd af forsíðu bæklingsins eftir Jan Gehl.

Ég mæli með því að fólk skoði stikluna sem er á ensku meðan bæklingurinn er á dönsku.       

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.10.2012 - 09:18 - 19 ummæli

Hafnarsvæði – Steinn í götu skipulagsstefnu

 

Það er opinber stefna borgarinnar að minnka umferð einkabíla innan borgarlandsins.

Þetta á að gera með því að auka þjónustu almenningsflutninga, leggja meiri áherslu á hjólandi og gangandi umferð og dreifa þjónustunni þannig að hún verði nær neytandanum og meira „í leiðinni“.

Og helst í göngu- eða hjólafæri.

Þetta eru raunhæf og góð markmið.

Ef þetta á að takast þarf að halda utan um stefnuna af mikilli festu.

En það getur verið bæði langur og grýttur vegur frá hugmynd að veruleika í þessu sem öðru. Hugmyndin liggur fyrir og nú þarf að ryðja öllum steinum úr götunni þannig að markmiðinu verði náð.

Eitt megin viðfangsefnið er skipulagslegs eðlis. Það er að færa þjónustuna nær neytandanum og staðsetja hana þannig að hún sé  sem oftast “í leiðinni” hvort sem ferðast er gangandi, hjólandi eða með almennigsvögnum. Út frá þessu má ekki víkja ef áætlunin á að ganga eftir.

Þetta hafa menn ekki alltaf haft í huga við skipulagsákvarðanir og látið einkabílinn ráða ferðinni og móta borgarskipulagið.

Einhverntíma um miðjan fyrsta áratug aldarinnar var gefið undir fótinn með að leyfa verslunarstarfssemi á hafnarsvæði borgarinnar. Þetta var við Fiskislóð. Ég man ekki nákvæmlega hver fékk fyrstu undanþáguna sem var rökstudd með að fyritækið Segull, sem þjónar útgerðinni fékk að opna þarna verslun. Svo kom hvað af öðru, Ellingssen sem er útgerðartengd verslun opnaði á hafnarsvæðinu. Svo komu Húsasmiðjan og BYKO.

Og loks fór matvöruverslunin að færast út úr íbúðahverfinu á hafnarsvæðið. Matvöruverslanirnar KRÓNAN, BÓNUS og Europrís opnuðu þarnna á hafnarsvæðinu við Fiskislóð. Í framhaldinu lagðist verslunarrekstur inni í íbúðabyggðinni nánast af með undantekningum.

Mér skilst að á þessum tíma hafi landnotkun í aðalskipulagi verið formlega breytt í samræmi við þessa óheillaþróun úr hafnarsvæði í takmarkað miðborgarsvæði.

Það var óheillaspor sem stuðlar að því að flytja þjónustuna fjær neytandanum og auka einkabílaumferð. Ekki er auðvelt fyrir núverandi borgarstjórn að breyta þessu í einum vetvangi, en hún ætti að geta gefið út einhverja stefnu sem kemur í veg fyrir frekari þróun í þessa átt, þar sem neytendum er nánast gert ókleyft að sækja þjónustuna gangandi eða hjólandi og einkabíllinn  festur enn frekar í sessi.

Nú hefur ný lágvöruverslun óskað eftir að fá að opna verslun á hafnarsvæðinu við Fiskislóð við hliðina á þeim tveim sem fyrir eru. Það er að segja að þriðja lágvöruverslunin er að opna þarna til þess að þjóna vesturbænum. Eðlilegt er að spyrja hvort þetta sé í samræmi við stefnu borgarinnar í umferðamálum?  Ef  þörf er fyrir þriðju lágvöruverslunina í borgarhlutanum hlýtur að vakna spurningin um hvar  rétt sé að staðsetja hana með tilliti til fyrrgreindrar stefnu borgarinnar í samgöngumálum?  Stefnir borgin að því að færa matvöruverslun alfarið út úr íbúðahverfunum almennt og auka þar með umfang einkabíla í borginni og leggja það með þungar byrgðar á borgarbúa? Á ekki að staðsetja matvöruverslunina á skipulagslegum forsendum?

Í borgarhluta 107 er mikið framboð af vannýttu eða ónotuðu verslunarhúsnæði sem hentar ágætlega fyrir verslanir af öllu tagi. Ég nefni nokkur hundruð fermetra verslunarhúsnæði við Dunhaga sem nú er notað fyrir Háskólautgáfuna(!) og verslunarhúsnæði við Hjarðarhaga auk mikilla tækifæra við Hofsvallagötu og Neshaga og víðar.

Nú liggur fyrir að  þriðja lágvöruverslunin opni á hafnarsvæðinu í byrjun desember. Ekki veit ég hvaða áhrif það mun hafa á þau fáu tækifæri sem matvöruverslun hefur í borgarhlutanum. En ég óttast lægra þjónustustigs í göngufæri.

Þarna er lagður stór steinn í skynsamlega þróun í átt að vistvænni borg þar sem fólk fer gangandi og hjólandi að sinna sínum daglegu erindum og einkabíllinn festur enn frekar í sessi.

Borgin þarf að fylgja stefnu sinni í þessu máli þannig að markmiðin í umferðamálum verði ekki fyrir borð borin. Eitt skrefanna er að endurskoða skilgreiningu landnotkunnar á hafnarsvæðinu og beina miðborgarþjónustunni þangað sem hún á heima og matvöruverslun og annarri þjónustu aftur inn í íbúðahverfin. Gera íbúðahverfin sjálfbær þannig að sem flesta þjónustu sé hægt að sækja gangandi og að einkabílaumferð sé í lágmarki.

Annars er betra heima setið en af stað farið í samgöngustefnunni.  Hvað gengur borginni til? Hverjum er hún að þjóna?

++++++

Efst í færslunni er mynd sem tekin er á hafnarsvæðinu úti á Granda. Þarna má sjá Bónus og Krónuna. Nú stendur fyrir dyrum að fjölga um enn eina lágvöruverslunina þarna á svæðinu eins og fyrr segir.  Skipulag nærliggjandi íbúðahverfis gerir ráð fyrir stórum matvörubúðum við Dunhaga og Hjarðarhaga. Mikil tækifæri er að finna fyrir verslun og þjónustu á horni Hofsvallagötu og Neshaga.

Tækifæri íbúanna til þess að geta gengið fallegar götur til  innkaupa þar sem þeir hitta sína næstu nágranna er tekin frá þeim og þeim gert að sækja verslun í einkabíl. Þetta virðist vera þvert á stefnu borgarinnar í samgöngumálum.

 

Að ofan er ljósmynd sem sýnir byggingar á horni Hofsvallagötu og Neshaga sem eru miðsvæðis í hverfi 107.  Þetta eru byggingar sem byggðar eru sem atvinnuhúsnæði og henta vel fyrir ýmsa þjónustu fyrir hverfið svo sem lágvörumarkað, heilsugæslu, bókasafn, ýmsa félagsstarfssemi og fl. Þarna eru nú ýmsar skrifstofur sem ekki þjóna hverfinu sérstaklega.

 

Í Vesturbæ sunnan Hringbrautar er ekki að finna í göngufæri, lágvöruverslun, bókasafn, heilsugæslustöð, fiskbúð, hverfisknæpu, byggingavöruverslun(isenkram-krambúð), pósthús, áfengisverslun, vefnaðarvöruverslun, fitnescenter og margt fleira. Ekki er að efast um að rekstrargrunnvöllur sé fyrir þessa þjónustu í hverfi af  þessari stærðargráðu. Ef fundin væri staður fyrir þ jónustu við íbúana innan íbúðahverfanna eða í tengslum við þau mun hverskonar „skutl“ á einkabílum minnka stórlega og álag á gatnakerfi borgarinnar minnka verulega.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.9.2012 - 22:25 - 17 ummæli

Arkitektúrblogg í 3 ár

 

Í dag eru rétt þrjú ár síðan ég setti fyrstu færsluna á þennan vef.

Þegar ég var beðinn um þetta, féllst ég á að prófa í svona þrjá mánuði og sjá svo til með framhaldið.

Ég fann strax að það var eftirspurn eftir svona skrifum og þeim var vel tekið.  Ég hafði óskaplega lítið fyrir þessu og hafði af þessu gaman, svo ég hélt áfram.

Það var engin ritstjórnarstefna önnur en að vera knappur í texta og forðast stóryrði. Fjalla um málefni en ekki menn. Í raun skrifaði ég bara það sem ég var að hugsa þá og þá stundina.

Ég hugsaði þetta sem pistla ætlaða almenningi í von um að vekjau pp almenna umræðu um efnið. Kannski einskonar almenningsfræðslu sem gæti hjálpað fólki til þess að fræðast um inntak byggingarlistar og skipulags.

Von er í því fólgin að upplýstir neytendur hjálpi arkitektum í þeirra starfi og leiða af sér betri byggingarlist og skipulag fyrir alla. Arkitektar vilja upplýsta og kröfuharða viðskiptavini.

Ég hef fengið mikið hrós fyrir þessa pistla frá miklum fjölda fólks þó fólk hafi sagt mér að það sé ekki sammála mér í öllu.  Enda ekki við því að búast þar sem pistlarnir eru komnir nokkuð á fimmta hundrað með tæplega milljón flettingum.

Athugasemdir eru komnar upp í rúmlega 4000 og nánast allar málefnalegar. Ég hef þurft að fjarlægja innan við 10 vegna orðbragðs og þess  að einstalingar voru dregnir inn í umræðuna með ósæmilegum hætti að mínu mati.

Pistlarnir hafa verið tilefni umfjöllunar í prent – og ljósvakamiðlum. Fólk hefur sent mér efni til birtingar,  menntaskólenemar, ráðherrar og allt þar á milli hafa sent mér einkapósta vegna umfjöllunar hér á vefnum. Ég hef haldið vefnum opnum fyrir aðsent efni og sýnt því þolinmæði að fólk skrifi athugasemdir undir hálfnefni eða dulnefni.

Ég hef þá skoðun að meiru máli skipti hvað er sagt í umræðunni en hver segir það.  Að málefnið skipti meiru máli en maðurinn.

Varðandi umræðuna almennt hef ég tekið eftir að arkitektar hafa tilhneigingu til þess að vera sífellt að tala við sjálfa sig og við hvorn annan um sitt fag.  Þeir fjalla um þessi mál með silkhönskum og telja nánast allt hrós málefnalegt en gagnrýni ómálefnalega. Þetta er áberandi og því þarf að breyta. Arkitektar þurfa að læra að tala til neytenda byggingarlistarinnar og tala við hann á máli sem hann skilur þannig að arkitetúrinn fari niður úr kúltúrsnobbinu til fólksins. Arkitektar eru meira í því að tala við kollega sína og vekja upp umræður þeirra í milli. Ég nefni erindi sem flutt hafa verið undir nafninu “Pælingar” og mörg málþing á vegum Arkitektafélagsins.  Á þessi málþing mæta nánast eingöngu arkitektar þar sem þeir mæra hvorn annan.

Það vita fáir hvað þarna fer fram aðrir en arkitektarnir sjálfir. Þeir koma til þess að hlusta á kollega sína og sjálfa sig.

Arkitektar eiga að hætta að tala við sjálfa sig og beina orðum sínum og kröftum til almennings. Þeir eiga að fara í skólana, í verslunarmiðstöðvar og þangað sem neytandinn er. Þeir eiga að temja sér tungutak sem allir skilja og reyna að einfalda hlutina.

Umræður um þennan málaflokk hafa nánast ekki átt sér stað hér á landi með örfáum undantekningum. Ég tek þó eftir að þær hafa aukist síðustu misserin. Ég vona að með þessum skrifum hafi náðst einhver hvatning til almennrar umræðu um þennan mikilvæga málaflokk þannig að hún breiðist út og verði almenn og algeng þar sem fólk kemur saman. Að byggingarlist fái svipað rými í umræðunni og bókmenntir, leiklist og tónlist.

Efst í færslunni er hluti úr málverki  eftir ítalann Chiroco, The Enigma of the day, (Gáta dagsins(!)) sem er metafysiskt.

Í málverkinu ríkja andstæður á borð við kyrrð, hreyfingu, skugga, sól, stóriðju. Eftir að hafa horft á myndina um stund fer maður að óska þess að eitthvað rjúfi kyrrðina.  En það er sama hvað maður horfir lengi.

Kyrrðinni verður ekki raskað í málverkinu svo það er best að horfa bara eitthvað annað.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn