Sunnudagur 1.7.2012 - 06:39 - 6 ummæli

Ingólfstorg 2. verðlaun

Hér er kynnt sú tillaga sem hlaut annað sæti í tveggja þrepa opinni samkeppi um skipulag og hönnun svæðisins umhverfis Ingólfstorg í miðbæ Reykjavíkur. Tillaga sem hlaut þriðju verðlaun var kynnt í síðustu færslu.

Tillaga er unnin af arkitektastofunni Kanon ehf og i hönnunarteyminu voru Anna Sóley Þorsteinsdóttir, arkitekt FAÍ, Birkir Einarsson, landslagsarkitekt FÍLA, Halldóra Bragadóttir, arkitekt FAÍ, Helga Bragadóttir, arkitekt FAÍ, Helgi B. Thóroddsen, arkitekt FAÍ, Þorkell Magnússon, arkitekt FAÍ og Þórður Steingrímsson, arkitekt. Ráðgjafar voru Verkfræðiráðgjöf: Efla verkfræðistofa, Arinbjörn Friðriksson, verkfræðingur, Böðvar Tómasson, verkfræðingur og Ólafur Daníelsson, verkfræðingur.

Dómnefnd gaf tillögunni eftirfarandi umsögn:

„Tillagan gerir ráð fyrir að húsin við Aðalstræti 7 og Vallarstræti 4 saman og fram á Ingólfstorg.  Þar verða þau hluti af uppbyggingu á gömlu hótel Íslandslóðinni syðst á Ingólfstorgi.  Reiknað með fölbreyttri  miðborgarstarfsemi húsunum. Hótel er hannað inn í Landsímahúsið og í nýbyggingum við Vallarstræti og við Kirkjustræti. Skemmti- og samkomusalurinn Thorvaldsenstræti 2 er endurbyggður

Uppbygging á syðri hluta Ingólfstorgs skapar nýja sýn og áhugaverða uppbyggingarmöguleika. Við það að færa Aðalstræti 7 og Vallarstræti 4 út á torgið verður til heildstæð timburhúsabyggð sem gefur torginu fallega umgjörð.

Uppbygging við Kirkjustræti er áhugaverð og endurgerð Aðalstrætis 11  gefur fyrirheit um góðan ramma um Víkurgarð. Aðalinngangur í hótelið frá Víkurgarði er aðlaðandi og styrkir stöðu garðsins sem almenningsrýmis.

Umferðarskipulag fyrir gangandi og akandi vegfarendur er gott. Opnað er fyrir möguleika á að endurverkja sögulega tengingu Austurstrætis við Aðalstræti. Veltusund verður borgargata með húsum beggja vegna. Vallarstræti fær einnig heildstæðara götuform sem styrkir tengsl Austurvallar við Grjótaþorp.

Vandkvæði tillögunar felst í flókinni áfangauppbyggingu þar sem flutningur Aðalstrætis 7 og Vallarstrætis 4 er forsenda fyrir  nýbyggingu við Vallarstræti.  Ásýnd og hönnun nýbyggingar við Vallarstræti er ekki sannfærandi meðal annars með hliðsjón af sögulegu samhengi.

Uppbygging á suðurhluta Ingólfstorgs skapar sjálfstæða einingu sem tengist ekki hótelstarfssemi á svæðinu. Það er ókostur að bygging hótelsins við  Vallarstræti er alfarið háð þeirri uppbyggingu“.

Ég minni á að ef tvísmellt er á myndirnar stækka þær og verða skýrari.

Yfirlitsmynd af nágrenninu.

Ingólfstorg horft til suðurs

Hér má sjá starfssemi á jarðhæðum og önnur borgarrými.

Yfirlitsmynd yfir Víkurgarð og samkeppnisreitinn,

Séð suður Aðalstræti

Ásýnd frá Víkurgarði

Innan tíðar mun fyrstuverðlaunatillagan í samkeppninni verða kynnt hér á þessum vetvangi.

Sýning á öllum verkunum stendur í einn mánuð frá 29. júní til 29. júlí og er hún opin frá kl 14.00-18.00 að Thorvaldssensstræti 6, Landsímahúsinu.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.6.2012 - 15:46 - 10 ummæli

Ingólfstorg 3. verðlaun

Það er ánægjulegt hvað skipulags- og byggingasvið Reykjavíkurborgar hefur lagt mikla áherslu á opnar samkeppnir undanfarið.  Sviðið fetar skynsama slóð sem hefur skilað borgurunum góðu umhverfi. Auðvitað eru samkeppnir mikið álag á arkitektastéttina sem hefur lagt gríðarlega vinnu í tillögur sínar um áratugaskeið.  Framkvæmd samkeppna hefur almennt gengið vel og afraksturinn verið góður.

Síðdegis í dag, föstudaginn 29. júní, voru kynnt úrslit í tveggja þrepa samkeppni sem Reykjavíkurborg hélt í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um skipulag og hönnun á svæði sem afmarkast af Aðalstræti, Hafnarstræti, Veltusundi, Vallarstræti Thorvaldsensstræti og Kirkjustræti ásamt hótelbyggingu á svæðinu.

Fyrra þrep samkeppninnar var hugmyndasamkeppni, en síðara framkvæmdasamkeppni. Alls bárust 68 tillögur í fyrri hluta samkeppninnar víðsvegar að úr heiminum.

Ég ætla að kynna þrjár verðlaunatillögur í næstu færslum og byrja á þeirri sem hreppti þriðja sætið.

Það var sérstaklega ánægjulegt að verða þess vísari að höfundur var ungur arkitekt, Helgi Mar Hallgrímsson, sem stóð einn að tillögu sinni. Honum til aðstoðar við myndvinnslu var Fractal mind og tæknilegur ráðgjafi var Hallur Kristmundsson byggingafræðingur.

Þetta sýnir og sannar hvaða tækifæri felast í opnum samkeppnum. Bæði fyrir útbjóðanda og ekki síður unga arkitekta og litlar stofur. Þetta er sérlega athyglisvert í ljósi þess að einkum hið opinbera hefur stillt upp kröfum til þáttakenda i lokuðum samkeppnum sem eru þannig að hæfileikafólk á borð við Helga fæt ekki að koma nálægt samkeppnisborðinu. Þannig að hið opinbera fer oft illa með góða hæfileika og tækifæri sem eru í boði.

Ég ráðlegg fólki að tvísmella á mydirnar sem þá stækka og verða skýrari.

Hér fer á eftir umsögn dómnefndar um þriðjuverðlaunatillögu Helga Mar Hallgrímssonar arkitekts:

“Grunnhugmyndin  er einföld og skýr.  Tillagan felur í sér flutning húsanna sem nú standa við Vallarstræti 4 og Aðalstræti 7 út á Ingólfstorg. Þessum tveimur gömlu húsum er komið fyrir við Aðalstræti ásamt aðfluttu húsi sem saman mynda heildstæða götumynd.  Með þessu móti fær Ingólfstorg nýja og óvænta ásýnd þar sem timburhúsaröð myndar nýtt kennileiti við enda Austurstrætis. Lögun og yfirborðsmeðhöndlun torgsins er nokkuð sannfærandi.

Í nýbyggingu  við Vallarstræti og sunnanvert Ingólfstorg er komið fyrir hóteli. Hótelstarfsemin teygir sig yfir í hluta Landsímahússins.  Skemmti- og samkomustaðurinn við Thorvaldsenstræti 2 er endurbyggður í núverandi mynd.

Umferðaskipulag leggur áherslu á gangandi vegfarendur. Það orkar tvímælis að loka alfarið á umferðartenginu  Austurstrætis við Aðalstræti.

Í tillögunni er ekki tekið á uppbyggingu við Kirkjustræti. Nokkuð skortir á að Vikurgarður og nánasta umhverfi sé útfært á sannfærandi hátt.

Þetta er djörf tillaga sem vinnur skemmtilega með sögulega tilvísun. Engu að síður virkar húsaröðin við Ingólfstorg framandi.  Tilfærsla húsanna skapar ásýnd eldri timburhúsaraðar sem á sér ekki sögulega fyrirmynd.”

Efst í færslunni er yfirlitsmynd af Ingólfstorgi þar sem höfundur sýnir hugmynd sína að torgi með eldri húsum á þrja vegu og nýbyggingu sem tekur að formi og hlutföllum mið að því sem fyrir er.

Ég endurtek að mikilvægt er að tvísmella á myndirnar til að skoða þær betur.

Í næstu færslu verður fjalllað um 2. verðlaun.

 

Afstöðumynd og grunnmynd jarðhæðar sem sýnir hvaða starfssemi höfundur hefur í huga.

 

Horft suður Aðalstræti með Herkastalann í baksýn og Fógetahúsið til hægri

 

Ingólfstorg séð til suðurs

Tillagan sem hlaut önnur verðlaun verður kynnt hér eftir nokkra daga.

Sýning á öllum verkunum stendur í einn mánuð frá 29. júní til 29. júlí og er hún opin frá kl 14.00-18.00 að Thorvaldssensstræti 6, Landsímahúsinu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.6.2012 - 21:35 - 12 ummæli

LSH – Athugasemdum ekki svarað

 

 

Þegar drög að deiliskipulagi Landspítalans voru kynnt fyrir tæpu ári var borgarbúum gefin kostur á að gera athugasemdir við hugmyndirnar. Athugasemdunum átti að skila inn fyrir mánaðarmótin sept/okt 2011 eða fyrir um 9 mánuðum.

Ég sendi athugasemd sem laut að því hvort deiliskipulagið standist meningarstefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist frá árinu 2007. 

Þar  er mótuð skýr stefna vegna  framkvæmda í nábýli við eldri byggð. Orðrétt i menningarstefnunni  á blaðsíðu 23 stendur m.a. :

”Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er i eða við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa, götumynda og byggðamynsturs er nauðsynlegt að stjórnvöld framfylgi skýrri stefnu þar.”

Ég gerði athugasemdina annarsvegar vegna þess að ég hef efasemdir um deiliskipulagið og hinsvegar vegna þess að ég taldi ástæðu til þess að athuga hvort menningarstefnan hafi yfirleitt einhver áhrif. Og hvort einhver í kerfinu eða þeir sem að stefnunni stóðu héldu vöku sinni yfir „skýrri“ stefnu stjórnvalda í þessum efnum.?

Í einfeldni minni eða trú á að þetta tækifæri borgaranna til að gera athugasemdir yrði tekið alvarlega gerði ég ráð fyrir að hlé á yrði deiliskipulags- og hönnunarvinnunni þar til eftir að athugasemdunum væri svarað.

En svo var ekki og nú  9 mánuðum síðar hefur svar ekki borist. 

Mér skilst reyndar að engri athugasemd hafi verið svarað. Í raun finnst mér eins og þetta athugasemdarferli vera grín þar sem sá sem af borgaralegri þjónustulund og umhyggju fyrir borgarlandslaginu  gerir athugasemdina sé hafður að spotti. En það hlýtur auðvitað að vera einhver önnur ástæða fyrir því að athugasemdum hefur ekki verið svarað.

***

Það sem vekur líka athygli mína í umræðunni um spítalann er að menn eru sífellt að blanda hlutum saman og flækja hana.

Ég nefni dæmi.

Flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé að endurnýja húsakost Landsspítalans. Það er almenn sátt um þetta og ástæðulaust að fjölyrða mikið um það. 

Hitt er staðsetningin. 

Mjög margir, mikill meirihluti samkvæmt skoðanakönnun, efast um að lóðin við Hringbraut henti svona stórum byggingum. 

Margir sem taka þátt í umræðunni eru sífellt að blanda þessu tvennu saman og fólki er jafnvel álasað fyrir að vera á móti framförum í heilbrygðisþjónustu vegna þess að það óttast að húsin verði byggt á röngum stað. 

Þetta er ósanngjarn málflutningur þeirra sem eru fylgjandi uppbyggingunni við Hringbraut. Að blanda nauðsyn þess að endurnýja húsakost spítalans við áhyggjur fólks vegna staðsetningarinnar þvælir umræðuna og getur skemmt fyrir framkvæmdinni.

Stjórnvöld verða að hlusta á þá sem sýna málinu áhuga og finna lausn sem sátt verður um.

***

Hér er slóð að umfjöllun um spítalann og menningarstefnuna.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/29/menningarstefnan-og-landspitalinn/

Hér er slóð að menningarstefnu stjórnvalda. Ég ráðlegg fólki að kynna sér þessa merkilegu og vönduðu stefnu sem nú reyni á.:

http://www.fsr.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6051

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.6.2012 - 07:14 - 19 ummæli

Ólöglegir heitir pottar – Byggingareglugerð

 

Viða í erlendum arkitektatímaritum er fjallað um heita potta sem eru hluti af landslaginu. Þeir eru oft vel staðsettir og fallegir.

Færslunni fylgja myndir af þrem slíkum pottum.

Vinkona mín spurði af hverju við íslenskir arkitektar getum ekki teiknað slíka ægifagra potta sem nýtast bæði til baða og til augnayndis?  Af hverju arkitektar geti ekki hannað fallega potta sem eru hluti af landslaginu í stað þess að lyfta vatsfletinum sífellt upp um eina 40 cm?

Ástæðuna er að finna í bygginareglugerðinni, sem er að mestu samin af embættismönnum og án teljandi aðkomu arkitekta.

Reglugerðin bannar  frágang eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Í grein byggingareglugerðar nr.: 12.10.4 stendur.:  Setlaugar á lóðum íbúðar- og frístundahúsa skulu búnar læsanlegu loki til að hylja þær með þegar þær eru ekki í notkun. Barmur setlaugar skal vera a.m.k. 0,40 m yfir göngusvæði umhverfis hana.

Brunnlok skulu vera fest og þannig frágengin að börn geti ekki opnað þau.

Þótt mönnum gangi gott eitt til þá er þetta ágætt dæmi um þá forsjárhyggju sem víða er að finna í byggingarreglugerðinni. Þar eru mörg ákvæði sem ættu að vera á valdi þeirra sem hanna og fjárfesta. Ríkið virðist telja sig vita betur um hvernig folk vill búa og ekki bara það heldur tekur af því völdin.

Nokkur dæmi úr gildandi reglum:

Eldhús má ekki vera minna en 7 m2 þó nægir eldhúskrókur sé íbúðin minni en 50 m2. Sér geymslur skulu vera stærrin en 6m2 ef íbúð er yfir 80 m2.  Í hverri íbúð skal vera baðherbergi sem ekki er minna en 5 m2 og ef íbúðin er stærri en 110 m2 skal auk þess vera auka snyrting með handlaug og salerni. Í öllum íbúðum skal minnst eitt herbergi vera stærra en 18m2. Í hverri íbúð skal vera læsanlegur skápur til geymslu á lyfjum. Hverri íbúð skal fylgja skápur fyrir ræstingatæki. Í hverri íbúð skal vera bakaraofn og pláss fyrir uppþvottavél. Hverju íbúðarhúsi skal fylgja leiksvæði barna á lóð.

Einhvernveginn finnst manni að fólk megi sjálft meta hvort það telji sig þurfa tvær snyrtingar í íbúð sinni eða hvort það vilji fjárfesta í bakarofni eða læstum lyfjaskáp. Má íbúinn ekki ráða því sjálfur hvernig hann geymir lyfin sín. Af hverju er ekki ákvæði um það hvernig hann geymir áfengið sitt eða búrhnífana og skærin? Og er eitthvað á móti því að sleppa eldhúsi og útbúa eitt alrými þar sem er að finna glæsilega eldunaraðstöðu, borðstofuborð og aðstöðu til að horfa á t.a.m. sjónvarp ef fólk hefur áhuga á því?  Er ástæða til þess að krefjast þess að fjárfest sé i tveim snyrtingum ef fólk telur sig ekki þurfa á því að halda?  Af hverju á sá sem aldrei bakar að fjárfesta í bakarofni? Á þetta ekki að vera val?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.6.2012 - 16:43 - 2 ummæli

KOGGA sýnir keramik í Kaupmannahöfn

Einhver alflinkasti leirlistamaður landsins Kolbrún Björgólfsdóttir, KOGGA, opnar sýningu hjá Bredgade Kunsthandel í Kaupmannahöfn n.k. fimmtudag þar sem hún sýnir ein 70 verk.

KOGGA er lærð frá Danmarks Designskkole  og hefur stundað list sína hér á landi um áratuga skeið.  KOGGA er apstrakt expressionisti sem notar mikið grunnform á borð við píramida, kúlur og keilur.  Mörg verka sinna vann hún í náinni samvinnu við eiginmann sinn Magnús Kjartansson listmálara, sem lést fyrir nokkrum árum.

KOGGA sem hefur rekið Kogga keramik gallerí að Vesturgötu 2 um áratugi hefur haldið einkasýningar og samsýningar víða um lönd.

Ljósmyndirnar sem fylgja færslunni tók Elsa Björg Magnúsdóttir

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.6.2012 - 22:57 - 9 ummæli

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi

Ágætur lesandi síðunar hefur vakið athygli á ljóði eftir Davið Stefánsson frá Fagraskógi þar sem hann yrkir um skrifræði og skipulagshroka. Ljóðið birtist fyrst í ljóðabók Davíðs “Að norðan” sem út kom árið 1936, fyrir 76 árum. Eins og allir vita er pappírsvinna önnur og meiri nú en þá. Ég gæti ímyndað mér að vinna við arkitektúr og skipulag sé nálægt 80% pappírsvinna og 20% hugmyndavinna og sköpun.  Innifalið í pappírsvinnunni eru margþætt tölvuvandamál sem varða forrit, útprentanir o.fl.

Hér er ljóð Davíðs:

Það teygir sig vítt yfir bygðir og borg
og bólgnar af skipulagshroka,
en geigvænt er loftið af gjaldeyrissorg
og grátt eins og Lundúnaþoka.
En borgarinn fálmar sig bugaður inn
og biður um rétt til að lifa,
svo þjónninn, sem hímdi með hönd undir kinn,
má hamast að reikna og skrifa.

En þarna fær borgarinn skjal eftir skjal,
sem skráð er gegn réttlátri borgun,
og honum er vísað sal úr sal
og sagt – að koma á morgun,
og svona gengur það ár eftir ár,
því altaf er nóg að skrifa,
og altaf fær borgarinn skipulagsskrár
og skilríki fyrir að lifa.

Það lætur víst nærri, að þriðji hver þegn
sé þjónn eða skrifstofugreifi,
en flestum er starfið þó mikið um megn
og margur fær siglingaleyfi.
En borgarinn snýst þarna hring eftir hring
og hlýðir í orði og verki,
og loks þegar alt er þar komið í kring
er klínt á hann – stimpilmerki.

Að stofnunin eflist hvern einasta dag
mun afkoma þegnanna sanna,
og auðvitað reikna þeir ríkinu í hag
sem ráðstafa lífi manna.
En varla mun borgarinn blessa þau tákn,
né bætur þeim skriftlærðu mæla,
sem vilja að alt þetta blekiðjubákn
sé bænahús – krjúpandi þræla.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.6.2012 - 20:18 - 16 ummæli

Gamli Hæstiréttur í niðurníðslu

 

Gamla hús Hæstaréttar við Lindargötu er í slæmu ástandi.

Lesandi síðunnar vakti athygli á þessu og sendi hjálagðar ljósmyndir af gömlu Hæstaréttarbyggingunni. Þetta eru ljósmyndir sem sýna ástand hússins eins og það er nú.

Árið 1949 flutti Hæstiréttur inn í nýbyggingu sína við Lindargötu. Húsið var teiknað af einum ástsælasta arkitekt okkar íslendinga, Guðjóni Samúelssyni.  Rúmlega hálfri öld síðar, þegar rétturinn var orðinn of stór fyrir húsið flutti hann í nýbyggingu handan Lindargötu sem teiknað var af Studio Granda. Þetta var árið 1996 eða fyrir sextán árum.  Samkeppnin var haldin 1993.

Síðan þá hefur þetta fallega hús Guðjóns Samuelssonar staðið tómt og hirðulaust að mestu að mér er sagt.  Það ku eitthvað hafa verið notað af Þjóðleikhúsinu o.fl. en ekki mikið. Þetta fallega samhverfa hús sem er í nokkurskonar “palazzostíl” er nú í mikilli vanhirðu. Það er bókstaflega að grotna niður. Það ber ekki af sér góðan þokka að horfa uppá eina af sögufrægustu byggingum borgarinnar fara svona.

Hið opinbera hefur stutt viðhald bygginga með átakinu “Allir vinna”.  Átakið hefur gert það að verkum að viðhald borgar sig mun betur nú en áður. Menn fá virðisaukaskattinn endurgreiddann, allt er uppgefið og skattar og útsvar skila sér.  Þarna er kjörið verkefni fyrir flinka arkitekta og iðnaðarmenn i því harðæri sem nú hrjáir þessar stéttir.

Það sem þarf  fyrst að gera er að finna húsinu hlutverk. Vafalaust eru einhverjir að vinna að því einhversstaðar. Margt kemur til greina.  Það vekur athygli að ekki hafi verið hægt að nota húsið undir sívaxandi umsvif ríkisins. Hugsanlega væri hægt að nota það fyrir skrifstofur einhverrar sjálfseignarstofnunnar eða félagasamtaka. Þetta væri  einnig ágætur staður fyrir t.a.m. skrifstofur Bandalags Íslenskra Listamanna. En sennilega gengur það ekki vegna þess að einhverntíma var ákveðið að þarna væri “stjórnarráðsreitur” hvað landnotkun varðar. Það er að segja að reiturinn er frátekinn fyrir stjórnsýslubyggingar.

 

Einkastæði ráðherra við inngang hússins.

Húsið er að grotna niður og virðist á vegferð til tortímingar ef fram fer sem horfir.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.6.2012 - 12:16 - 12 ummæli

Nýbygging Glitnis við Kirkjusand

Um þessar mundir eru liðin 6 ár frá því auglýst var arkitektasamkeppni um nýjar höfuðstöðvar Glitnis banka. Samkeppnin var í tveim þrepum og skiðluðu 42 þáttakendur inn tillögum að byggingum sem áttu að vera um 90 þúsund fermetrar þar sem um 10 %  var íbúðahúsnæði.

Það er gaman að rifja þetta upp núna og staðsetja sig í góðæri byggingariðnaðarinns eitt augnablik.

Það sem vakti alltaf furðu mína var ráðstöfun lóðarinnar sem var í eigu Strætisvagna Reykjavíkur. Ég skildi ekki af hverju henni var úthlutað til banka. Mér fannst þarna ætti að byggja hús á borð við Háskólann í Reykjavík, Listaháskólann, höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur ásamt þéttri íbúðabyggð. En sú ósk min varð ekki að veruleika. Niðurstaðan er að við sitjum nú uppi með tvö skipulagsslys, ekkert húsnæði fyrir Listaháskólann og svo auða lóð á besta stað borgarinnar.

Hvernig ætli eignarhaldi lóðarinnar sé háttað?  Skilanefnd?  Erlendir kröfuhafar?

Færslunni fylgja myndir af fyrstuverðlaunatillögunni sem unin var af sænsku arkitektastofunni Monarken. Þetta er á margan hátt spennandi tillaga þó miklar efasemdir hafi verið á sínum tíma um hvort hugmyndin henti íslenskum vindum og reykvískum sólargangi.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.5.2012 - 11:04 - 13 ummæli

Danir stækka Landspítala sinn.

 

Fyrr í mánuðinum voru kynntar hugmyndir um stækkun Rigshospitalet í Kaupmannahöfn. Rikshospitalet er langstærsta sjúkrahús Danmerkur og í raun Landsspítali þeirra þar í landi.

Þetta er mega project sem hannað er af íslandsvinunum á arkitektastofunni 3XN í Danmörku.

Nýbyggingin sem verður um 68.000 m2 á að hýsa legudeildir fyrir um 300 sjúklinga, aðgerðardeildir og stuðningsrými. Til viðbótar koma þarna sjúkrahótel og bifreiðastæðahús sem er um 25.000 fermetrar. Framkvæmdum á að ljuka primo 2012 og kosta um 50 milljarða ísl. króna (1. 85 milljarða danskra)

Nýbyggingin tengist eldra húsi með tengigangi.

Efst er yfirlitsmynd. Ef tvísmellt er á myndirnar stækkar þær og verða nákvæmari.

Myndbandið sem fylgir færslunni lýsir byggingunni og hugmyndafræðinni að baki vel.

Brú tengir gamla og nýja húsið saman á 4. hæð.

Í nýbyggingunni verða um 300 einsmanns legustofur.

Eldri bygging sjúkrahússins til vinstri.

Almenn rými

Bifreiðastæðahús

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.5.2012 - 09:24 - 8 ummæli

Golden Gate

Í gær voru liðin 75 ár frá því að Golden Gate brúin við San Francisco var opnuð.

Frá árinu 1937 þegar hún var opnuð hafa meira en 2 milljarðar ökutækja farið yfir brúna sem er um tveggja kílómetra löng.  Brúin var aðeins 4 ár í smíðum.

Það hafa líka hörmungar gengið yfir brúna.  Alls 1558 einstaklingar hafa svift sig lífi með því að stökkva fram af Golden Gate (Gullna hliðinu). Nú er svo komið að milli 30 og 35 manns enda líf sitt á þessum stað á ári hverju eða einn á tíu daga fresti.

Helsti ráðgjafi vegan brúarsmíðinnar var arkitektinn Irving Morrow sem valdi henni lit sem kallaður er “International Orange” og hefur hún haldið lit sínum og reisn allar götur síðan.

Ég dvaldi stuttan tíma í Sausalito við norðursporð brúarinnar og notað brúna daglega. Það vakti athygli hve síbreytileg hún var ásýndum eftir veðurfari og tíma dags. Þetta er einhver glæsilegasta brú sem byggð hefur verið.

Efst eru tvær myndir. Önnur  tekin áður en brúin var byggð. Að neðan koma nokkrar sem teknar voru á byggingartímanum og við vígslu hennar og loks nýleg ljósmynd.

Frumdrög að brúnni.

Mynd tekin við opnun brúarinnar 28. Maí 1937.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn