Miðvikudagur 16.5.2012 - 04:16 - 27 ummæli

Að forðast gagnrýni

Íslensk umræðuhefð er merkileg. Vonandi alveg einstök.

Arna Mathiesen arkitekt skrifaði ágæta grein í Fréttablaðið nýlega þar sem hún á hispurslausan og faglegan hátt velti fyrir sér ábyrgð þeirra sem að skipulagsmálum komu í aðdraganda hrunsins. Það var fjallað um grein hennar hér á þessum vef fyrir nokkru.  Viðbrögðin voru ágæt en ekki í neinu hlutfalli við tilefnið og það sem var til umfjöllunar.  Í mínum huga drap  hún þarna á stórmáli.

Örnu, sem starfar fjarri íslenskum veruleika, mæltist vel í grein sinni og tók á máli sem þarfnast umræðu.

Þetta var drengilega gert hjá Örnu. En ég hef á tilfinningunni að hún skilji ekki umræðuhefð hér á landi frekar en ég. Við höldum að fólk sé að tala saman og leita lausna á vandamálum líðandi stundar með skoðanaskiptunum eins og við þekkjum annarstaðar.  

En svo er ekki. Hér á landi lítur fólk á umræðuna sem átök milli einstaklinga, ekki átök milli hugmynda eða sjónarmiða. Umræðan er heldur ekki lausnamiðuð.

Við íslendingar tölum ekki saman. Við segjum sögur. Oftast sögur af hvorum öðrum og stundum eru sögurnar rætnar. Við tölum  meira um menn en málefni.

Íslendingar  ræða ekki málin, heldur skipa þeir sér í fylkingar, með og á móti. Þeir sem eru þeim ósammála eru strax skilgreindir sem óvinir. Og í framhaldinu hefst skotgrafarhernaður öllum til leiðinda og viðfangsefninu ekki til framdráttar.

Þetta viðhorf okkar íslendinga er ákaflega frumstætt. Fólk hér á landi fer í manninn í stað þess að einbeita sér að boltanum.

Svo móðgast fólk vegna sjónarmiðanna og kastar fæð á hvort annað í stað þess að þróa hugmyndirnar og leita sátta eða finna aðrar nýjar leiðir sem sammælast má um. Það er vart hægt að anda á verk arkitekta, þá fara þeir í fýlu í stað þess að bregðast við með málefnalegri umræðu.

Það er viðurkennt að besta leiðin til farsældar hér á landi er að vera viðhlægjandi áhrifamanna, eða skipa sér í sveit einhvers flokks manna eða helst koma sér í einhverja öfluga klíku.

En það færir samfélagið ekki til betri vegar.

Umræðan á ekki að vera átök milli manna heldur í mesta lagi átök milli hugmynda.

Gagnrýni  sem  oft stafar  af þekkingarleysi, eða skort á upplýsingum, gefur gerendum tækifæri til þess að skýra út verk sín.

Maður bregst ekki við þekkingarleysi með árás á þann sem skortir þekkinguna og vill fá svör, heldur með því að upplýsa hann um málið.

Gagnrýni á akitektúr og skipulagsmál er oft byggð á viðhorfum til efnisins eða jafnvel smekk.

Það má hinsvegar leiða að því rök að skipulagsmál hafi verið vanhugsuð og stefnulaus hér undanfarna áratugi. Þetta er  áberandi og það er jafnvel  hægt  að  halda því fram að mistök hafi átt sér stað eins og dæmin sanna. Það blasir við að skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu hafa verið hin vandræðalegustu í aðdragana hrunsins og lengi áður.

Það þarf að viðurkenna vandann, greina sjúkdóminn og bregðast við honum. Þeir sem verða fyrir gagnrýninni mega ekki vera afundnir eða stinga höfðinu í sandinn eða bregðast við með þvermóðsku. Þeir eiga að svara gagnrýninni á sama vetvangi og hún er sttt fram, viðurkenna mistökin ef svo ber undir og leita lausna. Ekki haga sér eins og rjúpa við staur.

Gagnrýnandi eða málshefjandi í hvaða máli sem er sendir engan niður í skotgrafirnar eins og Arna nefnir í ummælum við nefnda færslu. Þvert á móti. Hann kallar til fólks og vill samtal. Hann leitar viðbragða og lausna.

Sá sem velur skotgrafirnar fer þangað sjálfur af fúsum og frjálsum vilja. Sennilga gerir hann það vegna þess að hann kann ekki að debattera. Telur sig vera í varnarstöðu eða með tapað mál. Honum finnst hann vera á á átakasvæði, í e.k. stríði. Hann sér ekki muninn á manninum og viðfangsefninu. Hann velur að þegja, leiða málið hjá sér eða bara ráðast á einhvern einstakling sem liggur vel við höggi.

Þetta er ömurleg afstaða en algeng.

Ég hef opnað tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á arkitektúr, skipulag og staðarprýði til að tjá sig á þessum vef.  Viðbrögð hafa verið ágæt og vefurinn mikið lesinn. En viðbrögðin komu ekki frá mörgum sem beinlínis hafa komið að arkitektúr og skipulagsmálum. Arkitektar tjá sig helst ekki nema undir nafnleynd.

Af hverju skildi þetta nú vera?

Það má leiða að því líkum að ein ástæða þess aðarkitektar og íslendingar almennt tjá sig ekki opinberlega séu einmitt sú að það eru líkur á að það bitni á þeim persónulega. Þéir óttast eð verða flokkaðir og dregnir í dilka og eru hræddir um að eignast óvini í okkar litla þjóðfélagi vegna skoðanna sinna eða efasemda.

Þetta viðhorf er ástæðan fyrir því hvað margir vilja helst ekki tjá sig öðruvisi en undir nafnleynd ef sá möguleiki gefst.

Ég hef orðið var við fálæti í minn garð frá sumum kollega minna sem ég get einungis fundið eina skýringu á.  Það er þessi vefur og þær umræður sem hér hafa vaknað.

Fleyg setning í lokin sem höfð er eftir grikkjanum Aristotle sem fæddist 384 fyrir Kristsburð:

“Sá sem forðast vill gagnrýni á ekki að gera neitt, ekki að segja neitt og ekki að vera neitt” eins og stendur á stuttermabolnum efst í færslunni.

Aðferðin sem aparnir velja; að heyra ekkert, sjá ekkert og segja ekkert leiðir samfélag þeirra ekki til framfara. Þessi mynd minnir á Ísland fyrir hrun og jafnvel líka Ísland í dag.  Í apasamfélaginu næst enginn árangur eða framfarir, enda eru þetta auðvitað bara apar.

Umfjöllun um grein Örnu Mathiesen er að finna hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/04/29/skipulagsmal-hver-axlar-abyrgdina/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.5.2012 - 00:11 - 19 ummæli

Harpa eins árs

 

Það er ekki framhjá því litið að tónlistarhúsið Harpa hefur verið mikil lyftistöng fyrir tónlistarlífið í Reykjavík síðan hún opnaði fyrir réttu ári. Þetta á ekki einungis við um Reykjavík heldur um landið allt.

Þessu ber að fagna. Harpa smitar út frá sér í bæjarlífinu og hefur glætt miðborginni lífi. Þetta á sér ekki bara stað vegna tómlistarinnar heldur líka vegna þess að húsið er opið öllum almenningi utan þess tíma sem tónlistarviðburðir eiga sér stað.

Það er vissulega fagnaðarefni að slíkt hús skuli nú standa og sinna blómlegri starfssemi við miðborg Reykjavíkur.

Nú þegar ár er liðið frá opnun er kominn tími til þess að tjá sig um bygginguna í skipulagslegu, arkitektónisku og starfrænu samhengi.

Það sem fyrst vekur athygli er stærð hússins í samanburði við borgina og þær byggingar sem næst standa. Byggingin er yfirþyrmandi hvað öll hlutföll varðar hvort sem litið er til manneskjunnar eða stórbygginganna í grennd. En er það ekki í lagi þegar um er að ræða byggingu sem hafði það markmið frá upphafi að verða eitt helsta kennileiti borgarinnar?

Þegar horft er á þann stað sem byggingin stendur gerir maður sér grein fyrir því að hann gefur einstakt tækifæri sem ekki er víða að finna. Fyrst er að nefna hið ægifagra útsýni til sjávar og fjalla. Fjærst er Snæfellsnes, nær kemur Akrafjall og Skarðsheiði. Svo er það Esjan, fjall reykvíkinga.  Allt er þetta umleikið síbreytilegum sjónum svo maður tali nú ekki um sólarlagið. Næst kemur svo sjálf Reykjavíkurhöfn iðandi af lífi.

Valið var að leggja áherslu á þessi gæði annarsvegar eða beina almenningsrýmunum að þungri umferðagötu og Seðlabankanum. Arkitektarnir hafa talið það síðarnefnda vega þyngra í þessu vali og fyrir því hljóta að vera einhverjar ástæður sem ekki blasa við.

Svo er það nándin við sjálfa höfnina og tengsl við göngustíg sem borgin og sveitarfélögin í nágrenninu hafa verið að leggja meðfram strandlengjunni. Hann er rofinn við Hörpu. Byggingin tengist meira borginni en höfninni. Í reynd er Harpa ekki í miklum tengslum við höfnina, hafið og fjallahringinn annarstaðar en sjónrænt frá  bakrýmum og korridorum.

Mikilvægur þáttur tónleikahalds er félagslegur. Það er að njóta tónlistarinnar í félagi við aðra og svo að hittast óformlega í tengslum við viðburði í almannarýmum. Þetta þarf að gerast á óþvingaðan hátt eins og maður sér víða í sambærilegum húsum erlendis og skynjaði jafnvel í anddyri Háskólabíós.

Þeir sem ég hef talað við eru sammála um að í hléum nær fólk ekki að hittast á eðlilegan óþvingaðan hátt. Allt virðist í einhverri óskipulagðri þvögu og fólk er að pota sér á mjóum svölum og göngum milli sala og glerhjúps.

Svo eru það inngangarnir. Þeir eru ómarkvissir. Maður veit aldrei hvaða hurð maður á að velja ef gengið er inn af torginu. Jafnvel hin verðlaunaða torghönnun visar ekki markvisst að einum aðalinngangi. Sennilega er ástæðan sú að í bílaborginni Reykjavík er ætlast til að gestir komi akandi á einkabíl til staðarins um bílakjallara. Þar er inngangurinn skýr og áberandi. Þegar inn í húsið er stigið úr bílageymslunni minnir andrúmið á uppgang í nútímalegri neðanjarðarjarnbrautarstöð þar sem flæði farþega skiptir meira máli en félagsleg og arkitektónisk upplifun.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna vinnuvöndun og frágang byggingarinnar. Þar má víða sjá frágang sem ekki nær þeim gæðum sem ætlast skal til í jafn metnaðarfullu menningarhúsi og hér er á ferðinni.

Hinsvegar er mikið fjallað um bygginguna í tímaritum og á vefmiðlum. Einhvernvegin grunar mig að þeim árangri sé helst þakka almanatenglum og fólki sem hefur lag á að koma verkum á framfæri í fjölmiðlum en hefur jafnvel aldrei barið húsið augum.

En  Harpa stendur þarna og er eins og áður sagði mikil lyftistöng fyrir tónlist og menningarlífið almennt í borginni og hér á landi.

Harpa verður líklega talin arkitektóniskt meistaraverk og hún verður alltaf  „kjúriositet“ sem laðar fólk að sér á svipaðan hátt og t.a.m. Hallgrímskirkja. Það er eithvað ójafnvægi milli byggingarinnar og verks Ólafs Elíassonar sem mér virðist bera bygginguna sjálfa ofurliði.

Svona blasir Harpa við mér en auðvitað sýnist sitt hverjum

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.5.2012 - 12:19 - 11 ummæli

Spöngin – Endurskoðun skipulags

 

 “Nýtt skipulag í Spönginni í Grafarvogi”  heitir verkefni sem nemar í Háskólans í Reykjavík  lögðu fram nú í vor.  Verkefnið er til MSc gráðu í áfanga sem heitir “Hagnýt verkefni í bæjarhönnun” undir Tækni- og verkfræðideild skólans.

Þetta er spennandi verkefni og vel unnið.  Þarna er í raun verið að endurskoða tiltölulega nýlegt skiðulag sem verður að skilja sem málefnalega gagnrýni á þær skipulagshugmyndir sem borgin studdist við áratugum saman.

Þarna er tekið á landnotkun, umferðaálagi, umferðaöryggi, gatna- og stígakerfi, þéttingu byggðar, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum, veðurfari og annarra þátta sem ættu að vera ráðandi við skipulagsákvarðanir.

Síðan er reynt að ná jafnvægi í hverfinu þannig að viss sjálfbærni náist í atvinnurækifærum og búsetu og að allt verði í göngufæri innan 400-800 metra radius frá miðhverfi Spangarinnar.

Dregið er úr mikilvægi einkabílsins í daglegu lífi íbúanna.

Þetta er gert með því að auka þéttleika byggðarinnar næst spönginni  og fjölga á auðum svæðum íbúðum um tæplega 700  auk að byggja tæplega 30 þúsund fermetra atvinnuhúsnæðis til viðbótar því sem þarna er.

Skýrsla nemanna er vel gerð og fallega myndskreytt. Þar eru tölfræðilegar upplýsingar og greiningar sem fólk hefur gott af að lesa með tilliti til þeirra eigin nærumhverfis hvar á landinu sem er.

Ég er sannfærður um að miklir möguleikar eru á þéttingu flestra hverfa borgarinnar samkvæmt þessu módeli.  Ég hef sjálfur séð að fjölga má íbúðum og atvinnutækifærum verulega í hverfishluta 107 án mikilla inngripa svo annað dæmi sé tekið.

Borgin ætti að einhenda sér í að endurskipuleggja hverfi borgarinnar með skynsömum áherslum og tilliti til meiri þéttingar og sjálfbærni í anda hugmynda nemanna við HR. Það blasa við miklir landvinningar öllum til gagns og gleði í öllum hverfum borgarinnar. Sama á við um deiliskipulög reitanna í miðborginni sem mörg hver dæmdu ágæt gömul hús til niðurrifs og tortímingar menningararfsins. Þau þarf flest að endurskoða með nútíma vinnulagi.

Skýrslu nemanna má finna á eftirfarandi slóð:

http://www.scribd.com/arn%C3%BE%C3%B3rt/d/92758101-N%C3%BDtt-skipulag-i-Sponginni-i-Grafarvogi

Nemendurnir eru Arnþór Tryggvason, Ester Anna Ármannsdóttir og Eva Þrastardóttir. Leiðbeinendur voru: Hrafnkell Proppe og Aldís Ármannsdóttir.

Nemarnir og skólinn geta verði stolt af þessu verkefni sínu sem er tilefni til mikillar og lausnamiðaðrar umræðu um þá hörmungarsögu sem skipulagsmál í borginni hefur gengið í gegnum undanfarna áratugi.

Á myndinni efst í færslunni er hverfið borið saman við miðborg Reykjavíkur. Ef horft er á myndirnar blasir við sú sóun lands sem þarna á sér stað. Þá blasir við ójafnvægi milli atvinnutækifæra og íbúðabyggðar. Í raun sýnist mannni að verkefni nemanna sé hörð málefnaleg gagnrýni á þær skipulagshugmyndir  sem borgin hefur stuðst við í um þriggja áratuga skeið.

Það er ánægjulegt að sjá að leiðbeinendur HR hafa stutt nemendur sína í vinnu við verkefni sem skiptir máli á Íslandi í dag og er tilefni til umhugsunnar og umræðu. Verkefni af þessum toga hafa einnig komið frá Háskólanum á Hvanneyri og HÍ. Ég sakna svipaðrar áræðni frá LHÍ sem mér virðist nokkuð einangraður frá því samfélagi sem hann á að þjóna.

Að neðan koma nokkrar skýringarmyndir. Ég ráðlegg áhugasömum að skoða sjálfa skýrslu nemanna til þess að fá dýpri kynningu á þessu ágæta verkefni.

Ef tvísmellt er á myndirnar verða þær stærri og skýrari.

 

Samkvæmt skýrslu nemanna er nýting reita á svæðinu frá 4 íbúðum á hektara upp í 23 íbúðir á hektara. Meðaltal, gróflega reiknað, er tæpar 14 íbúðir á hektara sem er rúmlega helming minna en eðlilegt má teljast í borgarskipulagi í úthverfum. Sem dæmi má nefna að á svokölluðum BÚR reit við Aflagranda í vesturbæ Reykjvíkur er þéttleikinn rúmlega 60 íbúðir á hektara.  Ég endurtek að samkvæmt skýrslu nemanna eru á einum reitanna  við Spöngina 4 íbúðir á hektara!  Maður á bágt með að trúa því að svonalagað geti gerst en auðvitað er einhver málefnaleg skýring til á þesari landnýtingu á þessum stað. En hún er ekki augljós.

 

Þéttingin á sér stað á opnum svæðum innan byggðarinnar. Eins og þeir vita sem til þekkja  er mjög gott aðgengi að frábæru útivistarsvæðum á jöðrum byggðarinnar meðfram ströndinni og víðar.

 

 

Skapað er þétt borgarumhvefi  með torgum, borgargötum og – strætum.

 

Nemarnir skoðuðu endurhönnun gatna með áherslu á gangandi og hjólandi umferð í „sjálfbærari“ borgarhluta.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.5.2012 - 21:17 - 6 ummæli

Fleiri gamlar myndir frá Reykjavík

Hér koma aftur nokkrar ljósmyndir úr smiðju Vigfúsar Sigurgeirssonar sem sýna hvernig Reykjavík leit út á árunum fyrir fyrri heimstyrjöld. Neðst er mynd eftir Ólaf K. Magnússon og  tvær eftir Sigfús Eymundsson.

Efst er ljósmynd tekin frá Gamla Garði til norðurs og miðborgina. Bjarkirnar við Bjarkargötuna eru vart sýnilegar vegna smæðar. Hringbrautin er þarna malarvegur. Húsið næst er óvenju fallegt í sínum hlutföllum og er snúið örlítið vegna staðsetningarinnar við götuhorn

Mikilvægt er að tvísmella á myndirnar til þess að stækka þær og skoða betur.

 

Hér er mynd sem tekin er til vesturs yfir byggðina við Túngötu og Hávallagötu. Seltjarnarnesið er nánast óbyggt. Þarna er þyrping húsa sem Gunnlaugur Halldósson teiknaði fyrir Félagsgarð. Þetta eru mjög vönduð parhús sem byggð voru um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Takið eftir að bakgarðar eru notaðir til kartöflu og grænmetisræktunar. Þarna var vísir af sjálfbærni í verki.

Lesa má frekar um þessi hús Hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/03/18/felagsgardur-gunnlaugs-halldorssonar/

 

Þessi mynd er tekin við Reykjavíkurhöfn á fyrsta sjómannadeginum þann 6. júni 1938. Þarna má sjá kolakranann og kolabinginn. Fjær er Sænska frystihúsið og bygging höfuðstöðva SÍS þar sem menntamálaráðuneytið er nú til húsa.

Myndin að ofan er ekki er eftir  Vigfús. Myndin er tekin af Ólafi K. Magnússyni ljósmyndari Morgunblaðsins tók við  Reykjavíkurhöfn og sýnir sjómenn gera að afla sínum.

Hér að neðan koma svo tvær ljósmyndir eftir Sigfús Eymundsson. Þær eru teknar á ofanverðri nítjándu öld og sýna Aðalstræti til suðurs annarsvegar og hinsvegar yfir Reykjavíkurhöfn í átt að Esjunni.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.5.2012 - 15:07 - 8 ummæli

Barónsstígur og Laufásvegur-c.a. 1935 og nú

Hér koma fjórar áhugaverðar ljósmyndir eftir Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndara sem teknar eru á Barónsstíg og á horni Barónsstígs og Laufásvegar.

Þessum ljósmyndum fylgja litmyndir sem teknar voru á svipuðum stað í gær og eru dæmi um hvað trjágróður hefur breytt götumyndinni víða í Reykjavík á undanförnum áratugum.

 Efst er Mímisvegur  2 sem var byggt 1930.  Húsið er fjólbýlishús með tveim stigagöngum og var byggt í tveim áföngum. Á síðustu myndinni í færslunni sést hvernig það leit út hálfbyggt. Fyrir ofan Mímisveg 2 er Barónsstígur 80 sem er afar glæsilegt hús með  mansard þaki,  byggt 1932.

Mikilvægt er að tvísmella á gömlu myndirnar til þess að njóta þeirra betur.

Að ofan og neðan eru  myndir af horni Laugásvegar og Barónsstíg. Húsið á horninu er frá 1932 og er teiknað af  Ágústi Pálssyni arkitekt fyrir Hermann Jónasson.  Takið eftir lósastaurnum þar sem skrúfað hefur varið á skilti sem segir að þarna sé strætisvagnastoppistöð á bláhorninu. Bílarnir sem voru  tækniundur þessa tíma eru fáir. Göturnar eru breiðar og hugsaðar til langrar framtíðar.

Á myndunum að ofan er horft norðvestur Laufásveginn. Lengst til hægri sést í hús Águstar Pálssonar  og næst kemur hús eftir Sigurð Guðmundsson arkitekt fyrir Helga Guðmundsson bankastjóra. Það vekur athygli hvað íslendingar hafa verið fljótir til þess að tileinka sér tærann funktionalisma á þessum árum.

Að ofan er loks mynd af Mímisvegi 2 bókstaflega hálfbyggðu húsinu. Endilega að tvísmella á gömlu myndirnar til að njóta þeirra betur.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.5.2012 - 19:53 - 3 ummæli

Gamlar myndir úr Landakotsturni frá um 1930

Það er alltaf gaman að skoða gamlar myndir af fólki eða umhvefi sem maður þekkir.

Gunnar Vigfússon ljósmyndari sem er sonur Vigfúsar Sigurgeirssonar sem einnnig var ljósmyndari hefur gefið mér leyfi til þess að birta hér nokkrar gamlar ljósmyndir eftir föður sinn.   

Síðunni er sýndur sá  heiður að fá tækifæri til þess að birta þessar ljósmyndir og þakka ég kærlega fyrir það.

Í næstu færslum verða birtar nokkrar áhugaverðar ljósmyndir sem Vigfús tók í Reykjavík og  víðar á landinu á ferðalögum sínum.

Vigfús Sigurgeirsson var fæddur árið 1900 og lést  árið 1984. Hann ferðaðist víða og eftir hann liggur fjöldi ljósmynda sem allar hafa sterk höfundareinkenni listamannsins.

Efst er ljósmynd af Vigfúsi þar sem hann mundar Leica myndavél sína með aðdráttarlinsu sem hefur verið komið fyrir á hana. Leica myndavélina eignaðist Vigfús eftir dvöl sína í New York þar sem hann ljósmyndaði mikið í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar.

Við byrjum á myndum sem Vigfús tók úr turni Kristskirkju við Landakot í Reykjavík.  Ef tvísmellt er á myndirnar stækka þær um leið og þær verða skýrari. Þá kemur í ljós hversu mikil gersemi þessar ljósmyndir eru.

Séð norður Ægisgötu. Takið eftir skipstjóravillunum sem eru að taka við gömlu timburhúsinum norðar og nær höfninni. Göturnar eru lagðar möl og þarna eru ljósastaurar og mikið af símastaurum. Áberandi á myndinni er hús Þorleifs Eyjólfssonar (1896-19689) húsameistara að Öldugötu 19, sem samþykkt var í byggingarnefnd 1930.  Þar er einungis búið að steypa kjallaraveggina.

Svo má sjá Landakotsspítalann gamla neðst til vinstri. Endilega tvísmellið á myndirnar.

Hér er horft norðaustur yfir Kvosina. Þessi mynd er tekin fljótlega eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnnar. Þarn sést að glæsibygging Búnaðarbanka Íslands eftir Gunnlaug Halldórsson arkitekt hefur náð fullri hæð. Þjóðleikhúsið blasir við ásamt húsum við Austurvöll. Bifreiðum er lagt beggja megin við Hólavallagötu enda var hún tvístefnugata.

 Hér er horft suðaustur yfir Tjörnina.  Sennilega er þessi mynd tekin skömmu fyrir stríð.  Hallgrímskirkju er ekki að sjá og Hlíðahverfið er bara holt. Athygli vekurað hvergi er trjágróður að sjá, enga bíla og ekkert fólk, en mikið af hágæða arkitektúr.

Ég man að Gunlaugur Halldórsson sem útskrifaðist frá konunglegu Dönsku listaakademíunni sagði að það hafo þótt  „bísna“  fínt að vera arkitekt á þessum áum.

Ég endurtek að gott er að tvísmella á myndirnar til þess að njóta þeirra betur.

Ef rýnt er vandlega í ljósmynd Vigfúsar Sigurgeirssonar sem tekin er niður Ægisgötu sést í sjóflugvél í Reykjavíkurhöfn. Þetta er stórmerkileg flugvél frá konunglega breska flughernum sem kom hingað gagngert í tengslum við Alþingishátíðina 1930.  Hín er af gerðinni Blackburn Iris. Einungis voru smíðaðar 5 (8) vélar af þessari gerð og flugu þær um allt breska heimsveldið enda með mikið flugþol. Í áhöfn voru 5 manns. Ekki veit ég hvað marga farþega vélin gat borið. En það fór eitthvað eftir því hvað langt flugið var.  Athygli vekur að farþegarnir sátu innandyra meðan flugmennirnir sátu úti í kuldanum líkt og kúskarnr sem stúrðu hestvögnum hefðarfólks nokkrum áratugum áður.

Myndin niður Ægisgötuna er einnig merkileg  fyrir þeirra hluta sakir að þarna voru einungis liðin 3 ár frá því að Lindberg flug einn síns liðs fyratur manna yfir Atlandshafið frá New York til Parísar.

Að neðan er myndband af þessari merku flugvél byggt á tökum frá 1926.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.5.2012 - 08:30 - 8 ummæli

Smekkur, stílbrot eða smekkleysa?

Prófessorinn minn, Jörgen Bo (hannaði m.a. Lousiana í Danmörku) sagði okkur nemendum sínum reynslusögu frá höfuðborg Brazilíu.

Sagan er af veitingastað á efstu hæð í háhýsi einu eftir Oscar Niemeyer í höfuðborginni.

Bo sagði frá því er hann gekk inn í nýtískulegt fordyrið og tók lyftuna upp á fimmtugustu hæð í þessu nýmóðins húsi. Þegar hann sté út úr lyftunni fann hann sig í svisnesskum fjallakofa!!

Þetta var einskonar “non place” eða engin staður, sagði prófessorinn. Þó þetta væri á 50 hæð í nýjum skýjakljúfi Oscars Niemeyer í Brasilia, fékk hann á tilfinninguna að hann væri ekki í Suðurameríku vegna þess að innrettingin væri úr svissneskum fjallakofa.

Þetta  var arkitektoniskt ekki Brasilía  en var samt í Brasilíu. Þetta var arkitektóniskt byggt á svissneskri menningararfleifð en var ekki í Sviss. Þetta var „non place“ .  Þetta var ekki „placemaking“ eins og arkitektar hugsa það hugtak.

Allir nemendurnir skildu skilaboðin og hlógu. Oft var vitnað í þessa yfirferð prófessorsins og regionalisminn fékk enn eina styrka stoð til að standa á í hugum nemanna.

Ég nefni þetta vegna þess að maður verður þess sífellt var að byggingar og innréttingar fylgja ekki kúltúr og anda staðanna.  Með glóbaliseringunni verður þetta sífellt meira áberandi.  Sömu húsin eru byggð allstaðar á jarðarkringlunni. Stundum eru þau hugsuð sem vörumerki. Ég nefni McDonalds og innréttingar í Marriott hótelunum. Þessi nálgun stenst auðvitað ekki.  Það vissi Vitruvíus og benti mönnum kyrfilega á fyrir um 2000 árum.

Maður sér nýleg sumarhús í sveit á Íslandi sem er  með svipaða nálgun og bjálkakofinn á fimmtugustu hæð í Brasilíu.  Bara með öðrum formerkjum. Þar er tekið andrúm sem maður þekkir frá straumlínulöguðum heimilum í borginni og það er flutt í annað umhverfi og verður rammi um annan lífsstíl í sveitinni. Sumarhúsin eru í raun eins og með sama andrúm og húsin í borginni, bara minni og á öðrum stað. Þetta andrúm er svo flutt í Íslenska sveitasælu á sama hátt og svisnesska arfleifðin í skýjakljúf í Brasilíu.

Maður sér þetta líka í ákveðinni gerð hótellobbía víða í Evrópu þar sem andrúmið er ekki í samræmi við staðarandan. Oft er ómögulegt að giska sér til hvar í heiminum maður er staddur þegar maður les í þau skilaboð sem arkitektinn sendir ferðamanninum með hönnun sinni.

Hótelin vilja vera nýmóðins og „lúkka“ rétt en ná ekki anda staðarins.  Niðurstaðan verður stundum slepjulegur minimalismi sem er ósköp þreytandi til lengdar.

Reyndar svo þreytandi að maður forðar sér oftast út úr lobbýinu eins fljótt og auðið er til þess að nema anda staðarins utan hótelsins. 

Efst í færslunni er mynd af svipuðum aðstæðum og prófessorinn nefndi. Dæmið er reyndar frá Ohio í Bandaríkjunum. Þarna er útsýnið íktar myndir af Ölpunum og allt sem svissneskast. En eina „nýjungin“ er  að gluggahlerarnir eru að innanverðu!! 

Orð PH koma í hugann:  „Vondur smekkur er ekki til,  það er bara til góður smekkur og hann er vondur“ 

Hér er færsla sem tengist efninu:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/10/01/facadismi/

Sjá einnig:

.http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.4.2012 - 23:36 - 28 ummæli

Skipulagsmál – Hver axlar ábyrgðina?

Arna Mathiesen arkitekt skrifaði stórgóða grein í Fréttablaðið í síðustu viku.

Þar fjallar hún m.a. um ábyrgð þeirra sem tóku skipulagsákvarðanir í aðdraganda Hrunsins og ryfjar upp að á Írlandi hafi spilling í borgarskipulagi og byggingarstarfssemi verið áberandi í uppgjöri Hrunsins þar í landi.

En hver var sviðsmyndin hér á landi?

Sveitarfélögin lögðu til lóðir sem ekki var þörf fyrir, á stöðum, sem ekki stóðust kröfur hugmyndarinnar  um sjálfbærari borgir. Ráðgjafar sveitafélaganna gerðu ekki athugasemdir og hönnuðu götur og torg. Bankarnir lánuðu af sparifé fólks til gatnagerðar og bygginga sem voru of margar og of stórar og enginn þurfti á að halda.  Verktakarnir byggðu húsin með aðstoð erlends vinnuafls og erlendra lána. Engin gerði athugasemdir og svo hlupu allir af vetvangi þegar ósköpin hrundu yfir einstaklinga, sparifjáreigendur og skattgreiðendur.

Vissu menn hvert stefndi eða voru engar hagtölur til um málaflokkinn?

Grein Örnu er sennilega í annað sinn sem þetta stóra mál kemur upp í opinberri umræðu. Hitt skiptið var í skýrslunni ”Veðjað á Vöxt”,  frá Háskólanum í Reykjavík.

Þrátt fyrir þennan inngang má ekki skilja grein Örnu sem tóman bölmóð. Þvert á móti er hún lausnamiðuð og setur í því sambandi fram jákvæðar spurningar sem gætu leitt okkur eitthvað áleiðis upp út þessum táradal.

Ég mæli með grein Örnu þar sem segir meðal annars:

„Staða íslenskra heimila í aðdraganda og kjölfar hrunsins“, skýrsla frá Seðlabankanum, sýnir að greiðsluvandi heimila hefur verið mestur þar sem nýbyggingar voru miklar í uppsveiflunni, í útkanti höfuðborgarinnar og í nágrannasveitarfélögunum. Hlutfall heimila á svæðinu sem ekki geta selt húsnæði eða samið um endurskipulagningu skulda (neikvætt eigin fé í húsnæði samhliða greiðsluörðugleikum) stækkar því lengra sem frá miðborginni dregur.

„Veðjað á Vöxt“, skýrsla frá Háskólanum í Reykjavík, lætur að því liggja að fagfólk sem undirritaði skipulög (lagarammar fyrir notkun einstakra svæða) hafi vitandi vits notað mjög óraunhæfar spár til að sýna fram á ríkulegt lóðaframboð í samkeppni við nágrannasveitarfélögin um íbúa vegna þrýstings frá stjórnmálamönnum og byggingariðnaði og því lagt fram skipulög sem enn eru í fullu gildi en ekki er eða var þörf fyrir. Afleiðingin er ofgnótt húsnæðis sem stendur tómt.

Staðsetning nýbyggðs íbúðarhúsnæðis í borgarmyndinni, dreift yfir vítt og breitt svæði innan sama tímabils, og sú staðreynd að hætt var við í miðjum klíðum, leiddi til hörguls á nálægri þjónustu. Skortur á almenningssamgöngum eykst í takti við fjarlægðina frá miðborginni. Hraðbrautir með tíu mislægum gatnamótum, sem lagðar voru heim í hverfin í boði ríkisins eru æ gagnslausari vegna hækkandi bensínverðs.

Þessi hegðun í aðdraganda Hrunsins sem Arna gerir að umtalsefni er meginorsök þess að byggingariðnaðurinn lagðist nánast af hér á landi og er vart farin að sýna lífsmark nú fjórum árum síðar. Fjárhagur heimilanna og sveitarfélaganna er á brauðfótum.

Ber einhver einhverja ábyrgð á þessu? Eða tók atburðarrásin bara völdin eins og oft vill gerast?

Myndin efst í færslunni fylgdi greininni í Fréttablaðinu. Rauðu deplarnir eru nýbyggingarsvæði góðærisins.

Greinina í heild sinni má finna á eftirfarandi vef þar sem einnig eru tilvísanir í heimildir þær sem Arna leggur til grundvallar

http://scibereykjavik.wordpress.com/2012/04/26/how-do-those-in-power-use-the-planning-of-the-city-to-realize-political-goals-hvernig-nota-stjornvold-skipulag-hofudborgarssvaedisins-til-ad-koma-markmidum-i-framkvaemd/

Arna Mathiesen arkitekt vinnur nu að rannsóknarverkefni: Hörgull og sköpun í hinu byggða umhverfi SCIBE.  Byggt umhverfi á Reykjavíkursvæðinu fyrir og eftir hrun er eitt viðfang rannsóknarinnar.

Og hér er slóð að efni sem fjallar um svipað mál í Kína;

 

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/03/19/staersta-draugaborg-i-heimi/

02.05.2012

kl.:21.45

Í ljósi ummæla að neðan hef ég bætt við betra korti af höfuðborgarsvæðinu. Kortið er úr smiðju Örnu Mathiesen. Rétt er að tvísmella á kortið til þess að skoða það betur.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.4.2012 - 20:02 - 8 ummæli

Umræður um Landspítala

Uppbygging Landspítalans við Hringbraut er mikilvægasta bygginga- og skipulagsmál sem fjallað er um nú um stundir hér á landi.  Miklar umræður eiga sér stað um verkefnið og  sitt sýnist hverjum.

Aðstandendur spítalans hafa haldið uppi upplýsandi vef sem heitir „Nýr landspítali“ . Þar má kynnast verkefninu frá bæjardyrum verkefnisstjórnar. 

Slóð:  http//nyrlandspitali.is

Aðilar sem eru ekki sannfærðir um verklag og staðsetningu spítalans hafa opnað vef  sem heitir „Hin hliðin“.  Þar er fjallað  um framkvæmdina frá þeirra sjónarhóli.

Slóð : http//nyrlandspitali.com

Á þessum tveim síðum er mikið efni þar sem hægt er að sækja fróðleik og sjónarmið sem styðja framkvæmdina annarsvegar og hinsvegar  sjónarmið þeirra sem telja hana óráð.

Í von um upplýsandi og málefnalega umræðu  er vakin athygli á þessum vefsíðum.  Aðalatriðið er að umræðan um þessa nauðsynlegu framkvæmd sé opin og lausnamiðuð.

Hér til hliðar undir yfirskriftinni “Landspítali” er hægt að nálgast slóðirnar tvær með því að smella á „Nýr Landspítali“  eða hinsvegar á „Hin hliðin“.

Þarna er einnig þriðji kosturinn; „Umræða“,  sem opnar áhugasömum möguleika á að tjá sig eða fylgjast með umræðunni. 

Þessi færsla er  formáli  umræðunnar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.4.2012 - 09:45 - 5 ummæli

Staðarvitund-Skólaverkefni

 

Það er alltaf gaman að skoða skóleverkefni arkitektanema. Þau gefa fyrirheit um það sem koma skal og segja okkur mikið um áherslur skólanna í náminu.

Stundum er sagt að það skipti engu hvað kennt er í skólunum bara að nemendurnir kunni vinnuaðferðirnar og hafi skoðun eða stefnu (“holdningu” á dönsku) og kunni að greina umhverfi að námi loknu.

Mig langar hér að kynna tvö verk eftir Magdalenu Sigurðardóttur sem útskrifaðist frá Arkitektaskólanum í Árósum nú síðla vetrar.

Það sem einkennir verkin er staðarvitund og hæfileikar arkitektsins til þess að nálgast staðarandann. Það gerir hún á kerfisbundinn hátt þannig að staðurinn er helsti áhrifavaldur hvað niðurstöðuna varðar.

Fyrra verkið er leikskól/vöggustofa í Skagen nyrst á Jótlandi og síðara verkið fjallar um Slippasvæðið í Reykjavíkurhöfn.

Þetta eru viðkvæmir staðir sem þarf að fara höndum um af nærgætni.

Í Skagen hefur Magdalena stúderað arkitektúr staðarins (sjá myndir efst í færslunni) og gert tilraun til þess að finna einhvern samnefnara fyrir anda hans. Í framhaldinu hannar hún nútíma hús inn í umhverfið. Það er að segja að hún hannar byggingu sem tekur tillit til staðarins frekar en til tíðarandans. Þetta gerir hún án þess að byggja fornminjar eins og hrekkur stundum uppúr nýhyggjumönnum byggingarlistarinnar sem sumir vilja kalla sig uppbyggingarsinna.  Allir sem hafa komið til Skagen sjá að í verkinu hefur tekist vel til.

Skagen er BA verkefni Magdalenu en því fylgdi ritgerð sem bar nafnið „steds bevidtshed“, eða staðartilfinning““

Það má get þess að nú stendur yfir sýning á BA verkefnum nema við LHÍ í Listasafni Reykjavíkur. Eftir að hafa skoðað þá sýningu sýnist mér skólinn vera í nokkurri sókn miðað við í fyrra.

Í verkefninu við Reykjavíkurhöfn viðurkennir Magdalena þá breytingu sem hefur oðið á hafnarsvæðinu sem var fiski- og iðnaðarhöfn.  Hún telur umbreytinguna óumflýjanlega og veltir fyrir sér hvernig bregðast skuli við án þess að höfnin missi sinn sjarma. Hún segist vilja vernda það gamla og samflétta það hinu nýja á geðþekkan hátt þannig að menning og saga mæti nútíma borgarstarfssemi svo úr verði heiksteypt arkitektónisk starfræn heild.

 

 

Hér að neðan má sjá þrjár myndir af verkefni Magdalenu sem tengist höfninni í Reykjavík. Ég vek athygli á afstöðumyndinni og því andrúmi sem kemur fram í 3D myndunum. Maður finnur nánast fiski- og sjávarilminn og skynjar kalda hafgoluna. Þarna er um að ræða raunsannar myndir án þess að klórófóm auglýsingarmenskunnar sé notað.

 Kynnast má verkum Magdalenu Sigurðardóttur betur á þessari slóð:

http://magdalenasig.wordpress.com/

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn