Íslensk umræðuhefð er merkileg. Vonandi alveg einstök.
Arna Mathiesen arkitekt skrifaði ágæta grein í Fréttablaðið nýlega þar sem hún á hispurslausan og faglegan hátt velti fyrir sér ábyrgð þeirra sem að skipulagsmálum komu í aðdraganda hrunsins. Það var fjallað um grein hennar hér á þessum vef fyrir nokkru. Viðbrögðin voru ágæt en ekki í neinu hlutfalli við tilefnið og það sem var til umfjöllunar. Í mínum huga drap hún þarna á stórmáli.
Örnu, sem starfar fjarri íslenskum veruleika, mæltist vel í grein sinni og tók á máli sem þarfnast umræðu.
Þetta var drengilega gert hjá Örnu. En ég hef á tilfinningunni að hún skilji ekki umræðuhefð hér á landi frekar en ég. Við höldum að fólk sé að tala saman og leita lausna á vandamálum líðandi stundar með skoðanaskiptunum eins og við þekkjum annarstaðar.
En svo er ekki. Hér á landi lítur fólk á umræðuna sem átök milli einstaklinga, ekki átök milli hugmynda eða sjónarmiða. Umræðan er heldur ekki lausnamiðuð.
Við íslendingar tölum ekki saman. Við segjum sögur. Oftast sögur af hvorum öðrum og stundum eru sögurnar rætnar. Við tölum meira um menn en málefni.
Íslendingar ræða ekki málin, heldur skipa þeir sér í fylkingar, með og á móti. Þeir sem eru þeim ósammála eru strax skilgreindir sem óvinir. Og í framhaldinu hefst skotgrafarhernaður öllum til leiðinda og viðfangsefninu ekki til framdráttar.
Þetta viðhorf okkar íslendinga er ákaflega frumstætt. Fólk hér á landi fer í manninn í stað þess að einbeita sér að boltanum.
Svo móðgast fólk vegna sjónarmiðanna og kastar fæð á hvort annað í stað þess að þróa hugmyndirnar og leita sátta eða finna aðrar nýjar leiðir sem sammælast má um. Það er vart hægt að anda á verk arkitekta, þá fara þeir í fýlu í stað þess að bregðast við með málefnalegri umræðu.
Það er viðurkennt að besta leiðin til farsældar hér á landi er að vera viðhlægjandi áhrifamanna, eða skipa sér í sveit einhvers flokks manna eða helst koma sér í einhverja öfluga klíku.
En það færir samfélagið ekki til betri vegar.
Umræðan á ekki að vera átök milli manna heldur í mesta lagi átök milli hugmynda.
Gagnrýni sem oft stafar af þekkingarleysi, eða skort á upplýsingum, gefur gerendum tækifæri til þess að skýra út verk sín.
Maður bregst ekki við þekkingarleysi með árás á þann sem skortir þekkinguna og vill fá svör, heldur með því að upplýsa hann um málið.
Gagnrýni á akitektúr og skipulagsmál er oft byggð á viðhorfum til efnisins eða jafnvel smekk.
Það má hinsvegar leiða að því rök að skipulagsmál hafi verið vanhugsuð og stefnulaus hér undanfarna áratugi. Þetta er áberandi og það er jafnvel hægt að halda því fram að mistök hafi átt sér stað eins og dæmin sanna. Það blasir við að skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu hafa verið hin vandræðalegustu í aðdragana hrunsins og lengi áður.
Það þarf að viðurkenna vandann, greina sjúkdóminn og bregðast við honum. Þeir sem verða fyrir gagnrýninni mega ekki vera afundnir eða stinga höfðinu í sandinn eða bregðast við með þvermóðsku. Þeir eiga að svara gagnrýninni á sama vetvangi og hún er sttt fram, viðurkenna mistökin ef svo ber undir og leita lausna. Ekki haga sér eins og rjúpa við staur.
Gagnrýnandi eða málshefjandi í hvaða máli sem er sendir engan niður í skotgrafirnar eins og Arna nefnir í ummælum við nefnda færslu. Þvert á móti. Hann kallar til fólks og vill samtal. Hann leitar viðbragða og lausna.
Sá sem velur skotgrafirnar fer þangað sjálfur af fúsum og frjálsum vilja. Sennilga gerir hann það vegna þess að hann kann ekki að debattera. Telur sig vera í varnarstöðu eða með tapað mál. Honum finnst hann vera á á átakasvæði, í e.k. stríði. Hann sér ekki muninn á manninum og viðfangsefninu. Hann velur að þegja, leiða málið hjá sér eða bara ráðast á einhvern einstakling sem liggur vel við höggi.
Þetta er ömurleg afstaða en algeng.
Ég hef opnað tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á arkitektúr, skipulag og staðarprýði til að tjá sig á þessum vef. Viðbrögð hafa verið ágæt og vefurinn mikið lesinn. En viðbrögðin komu ekki frá mörgum sem beinlínis hafa komið að arkitektúr og skipulagsmálum. Arkitektar tjá sig helst ekki nema undir nafnleynd.
Af hverju skildi þetta nú vera?
Það má leiða að því líkum að ein ástæða þess aðarkitektar og íslendingar almennt tjá sig ekki opinberlega séu einmitt sú að það eru líkur á að það bitni á þeim persónulega. Þéir óttast eð verða flokkaðir og dregnir í dilka og eru hræddir um að eignast óvini í okkar litla þjóðfélagi vegna skoðanna sinna eða efasemda.
Þetta viðhorf er ástæðan fyrir því hvað margir vilja helst ekki tjá sig öðruvisi en undir nafnleynd ef sá möguleiki gefst.
Ég hef orðið var við fálæti í minn garð frá sumum kollega minna sem ég get einungis fundið eina skýringu á. Það er þessi vefur og þær umræður sem hér hafa vaknað.
Fleyg setning í lokin sem höfð er eftir grikkjanum Aristotle sem fæddist 384 fyrir Kristsburð:
“Sá sem forðast vill gagnrýni á ekki að gera neitt, ekki að segja neitt og ekki að vera neitt” eins og stendur á stuttermabolnum efst í færslunni.
Aðferðin sem aparnir velja; að heyra ekkert, sjá ekkert og segja ekkert leiðir samfélag þeirra ekki til framfara. Þessi mynd minnir á Ísland fyrir hrun og jafnvel líka Ísland í dag. Í apasamfélaginu næst enginn árangur eða framfarir, enda eru þetta auðvitað bara apar.
Umfjöllun um grein Örnu Mathiesen er að finna hér:
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/04/29/skipulagsmal-hver-axlar-abyrgdina/