Fimmtudagur 26.4.2012 - 14:39 - 4 ummæli

Áhugaverður fyririlestur Steven Holl

 

Hér er fyrirlestur sem Steven Holl hélt í Harvard í byrjun mánaðarins.

Sjálfur fyrirlesturinn tekur tæpan hálftima. Síðan eru umræður í klukkutíma.

Holl sýnir þarna nokkur verka sinna frá frumskissu til fullbúinna húsa.  Hann sýnir vatnslitaðar fríhendisteikningar sem eru greinandi og taka á aðalatriðunum varðandi þau verk sem hann kynnir.

Á einum stað segir hann við nemendur í Harvard: “Verið ekki hlýðin“ og bætir við að þau skuli ekki fylgja húsrýmisáætluninni, hún væri hvort sem er oftast bara, „bag of bananas” (í því fellst nokkur sannleikur)

Hann leggur áherslu á  að byggingin innra sé mikilvægari en ytra útlit.

Þetta er eitthvað sem arkitektar þurfa að velta meira fyrir sér. Þeir eru oftast gagnteknir af útlitinu en setja rými, birtu og starfræna þætti innandyra í annað sæti.

Svo talar hann um “Architecture of music” en hann talar lítið um skipulagsmál sem er einmitt einkenni stjörnuarkitekta sem flestir eru sjálfhverfir og hafa litla tilfinningu fyrir staðarandanum.

Í framhaldi fyrirlestursins er samtal milli Steven Holl og Scott Cohen.

Cohen kallar það umræður meðan Holl vill meina að þetta sé yfirheyrsla. Samtalið er hispurslaust og skemmtilegt fyrir þá sem hafa verulegan áhuga á byggingarlist.

Efst í færslunni eru vatnslitamyndir eftir Holl sem birtar eru í nýrri bók sem heitir “Scale”.  Þar eru birtar vatnslitamyndir og skissur eftir arkitektinn. Bókin kemur út n.k. laugardag þann 28. apríl.

Hér að neðan er svo fyrirlesturinn.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.4.2012 - 09:13 - 8 ummæli

Sjálfbært skipulag – Málþing í dag

Í dag miðvikudaginn 25. apríl  verður haldið málþing á vegum Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar HÍ  um sjálfbært skipulag.

Í fréttatilkynningu segir:

“Margir veigra sig því við löngum akstursleiðum, t.d. frá úthverfunum, og vilja frekar búa miðlægt. Til að geta dregið úr akstri og mætt óskinni um að búa miðlægt þarf að stefna að skipulagi sem eykur þéttleika í eldri hluta Reykjavíkur og leyfa meiri blöndun , t.d. með byggingu íbúðarhúsnæðis nálægt stórum vinnustöðum, eins og t.d. á Háskólasvæðinu. Þetta mundi minnka bílaumferð á Hringbraut og innan svæðins, fækka bílastæðum og spara fólki tíma”.

Málþingið verður haldið í stofu 132 í Öskju frá 15-17.

Aðgangur er ókeypis.

Þetta er afar áhugavert efni sem hefur verið í umræðunni í um 30 ára skeið. 

Þétting byggðar og hugmyndir um minni áherslu á einkabílinn í skipulaginu var mikið í umræðunni hér í Reykjavík á árunum um 1980. Þá var Guðrún Jónsdóttir arkitekt  forstöðumaður borgarskipulagsins í Reykjavík.

Eftir að hún lét af störfum var eins og þessi stefna hafi gleymst þar til nú undanfarin misseri að umræðan er endurvakin.

Í raun gekk þróuniní Reykjavík í þveröfuga átt. Útþennsla var mikil og þjónusa færð fjær notandanum.  Allt stefndi á verri veg hvað varðaði sjálfbærni.

Það er t.a.m. furðulegt að sjá hvernig skipulagsyfirvöld hafa stuðlað að því að matvöruverslun var flutt út úr borgarhluta 107 og út í Örfirisey á sama tíma og glæsileg verslunarhúsnæði er að finna í miðri íbúabyggðinni eins og sjá má við Dunhaga, Hjarðarhaga og viðar.

Nú er sérhannað matvöruverslunarhúsnæði víða í borgarhluanum notað fyrir annað. Nefna má óhentugt skrifstofuhúsnæði eða það sem verra er, óhentugt íbúðahúsnæði. Þessi óheillaþróun gerðist vegna skipulagsákvarðanna. Sennilega öllum nema verslunareigendum til ama.

Leikskólar í bæjarhlutanum sem byggðir voru á árunum eftir 1990 var dreift á að því er virtist á tilviljunarkenndan hátt um bæjarhlutann án tengingar við aðra þjónustu eða helstu göngu-, hjóla- og akstursleiðir og svo má lengi telja.

Fyrir þá sem skoða málið virðist skipulagið hafa verið stjórnlaust. Það gekk að því er virðist fyrst og fremst út á að útvega lóðir.

Það eru spennandi tímar frammundan hvað þetta varðar. Nýir tímar með nýju, vonandi óþægu fólki, með sterka skipulagssýn sem vinnur verk sín af ástríðu.

Nú virðist endurvitundarvakning vera að eiga sér stað í skipulagshugsun og framkvæmd.  Allt hefst þetta með almennri umræðu og málþingum á borð við það sem haldið verður í dag.

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/19/vesturbaer-sunnan-hringbrautar/

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.4.2012 - 19:21 - 12 ummæli

Hönnun gatna og borgarrýma

Það er marg sannað að hönnnun hefur áhrif á atferli og hegðun fólks og oftast í meira mæli en flesta grunar.

Í Skotlandi hafa yfirvöld unnið að opinberum leiðbeiningum um gatnahönnun  sem eiga m.a. að breyta hegðun fólks í umferðinni á óþvingaðan og eðlilegan hátt án boða og banna. Þær eiga að stuðla að betri götum og borgarrýmum.

Leiðbeiningarnar heita  „A Policy Statement for Scotland: Designing Streets

Nálgunin er ekki út frá hugsjónum verkfræðinnar sem gengur oft út á að fjárfesting vegna framkvæmdanna auki afkastagetu gatnanna.

Skotarnir nálgast verkefnið útfrá hugsjón um skemmtilegri og öruggari götur sem eru í samræmi við staðarandann.

Leiðbeiningar skotanna eru afar áhugaverðar fyrir hverfafélög, íbúasamtök og alla sem láta sig  sitt nánasta umhverfi varða.

Hjálagt eru myndir úr leiðbeiningarbæklingnum.

Leiðbeiningarnar má  sjá í heild sinni hér:

http://www.scotland.gov.uk/Resource/Doc/307126/0096540.pdf

Til vinstri sést hernig götuhorn eru gerð kröpp til þess að hægja á umferð og til þess að gera gönguleiðina eðlilegri. Hægramegin er unnið á forsendum bifreiðarinnar.

 

 

Hér er sýnt hvernig kröpp götuhorn geta einnig haft áhrif á betri sambúð hjólandi og akandi í umferðinni.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.4.2012 - 13:44 - 40 ummæli

Samkeppnismál í uppnámi eftir dóm.

 

 

 

 

“Auk dómnefndar og starfsmanna hennar, ritara, trúnaðarmanns og ráðgjafa er þáttaka óheimil þeim, sem rekur teiknistofu með þessum aðilum, er þeim nátengdur eða vinnur að verkefnum með þeim sem gæti haft áhrif á árangur viðkomandi í samkeppninni…… Meginreglan varðandi hæfi þáttakenda er sú að þeir beri sjálfir ábyrgð á hæfi sínu”

Þetta er hvorki flókinn né torskilinn texti.

En getur samt þvælst fyrir hinu ágætasta fólki.

Þetta er texti úr keppnislýsingu vegna samkeppni um hjúkrunarheimili fyrir aldraða á Eskifirði og fjallar um hæfi til þáttöku í samkeppninni.

Þessi texti á sér 60-70 ára gamla sögu í samkeppnisreglum Arkitektafélags Íslands. Öll þessi ár hafa þáttakendur í arkitektasamkeppnum borið mikla virðingu fyrir þessu ákvæði og allt gengið vel.

Menn hafa farið varlega og gætt þess að taka ekki þátt í samkeppnum leiki hinn minnsti vafi um vanhæfi þeirra til þáttöku.

Svo fyrir nokkrum misserum kom sú staða upp að samstarfsmaður eins dómarans í samkeppni um hjúkrunarheimilui aldraðra á Eskifirði tók þátt í umræddri samkeppni.  Og ekki bara það heldur skilaði samstarfsmaður dómarans ágætri tillögu og vann til fyrstu verðlauna.

Dómarinn og verðlaunahafinn höfðu á þessum tíma nýlokið við að hanna skóla í Mosfellsbæ í sameiningu ásamt því að taka þátt í samkeppni í fullu hagsmunasamstarfi.

Á lokavikum samkeppninnar sótti dómarinn um að hanna leikskóla í fullu samstarfi við verðlaunahafann.

Félagarnir, dómarinn og sá sem hann tók þátt í að veita fyrstu verðlau á Eskifirði hófu um svipað leyti samstarf um að hanna umræddan leikskóla og hafa nýverið lokið verkinu með sóma sýnist mér.

Dómaranum og keppenda var greinilega vel til vina.

Samkvæmt hefðbundnum skilningi er þarna um “nátengda” aðila að ræða “sem vinna saman að verkefnum”. Samkvæmt því mátti  fyrstuverðlaunahafinn vita að hann var vanhæfur til þáttöku.

Þegar niðurstaðan lá fyrir var hún eðlilega kærð til kærunefndar útboðsmála sem komst að þeirri niðurstöðu að svipta þyrfti vinnigshafann verðlaununum enda var hann álitin vanhæfur til þáttöku.

Það var almenn ánægja með þessa niðurstöðu úrskurðarnefdarinnar í hópi þáttakenda enda væri þarna ella  stigið skref inn á óheillabraut.

Þessu gat verðlaunahafinn ekki unað og höfðaði mál til riftunnar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Síðasta vetrardag fell í héraðsdómi Reykjavíkur dómur í málinu varðlaunahöfunum í vil.  Hérasðsdómarinn taldi riftunina ólöglega og keppendanum aftur dæmd fyrstu verðlaun. 

 Eftir að hafa lesið dóminn sýnist mér að dómarinn hafi ekki náð að kjarna málsins. Það hafi orðið flókið í hans huga þannig að hann gat ekki greint málið. Textinn er alls um 13 þúsund orð sem staðfestir þessa skoðun að mínu mati.

 Það er slæmur dómur sem þarna féll og mun hann leggja stein í götu samkeppnisumhverfisins hér á landi.

Málinu þarf að áfrýja og hagsmunaaðilar að taka þetta til rækilegrar umræðu.

Ef ekki verður brugðist við þessu er hætta á trúnaðarbresti milli útbjóðenda og keppenda í samkeppnum með þeim afleiðingum að arkitektar hætta að taka þátt.

Í raun eru samkeppnismál í uppnámi ef akki verður brugðist við þessari túlkun dómarans.

Þessi dómur er auðvitað fordæmisgefandi og fordæmið er slæmt. Ég held að Arkitektafélagið ætti að fá siðanefnd félagsins til þess að undirbúa vandaðan félagsfund um málið.

Hér má lesa dóminn í heild sinni:

http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E201101307&Domur=2&type=1&Serial=1&Words

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.4.2012 - 10:15 - 45 ummæli

129% dýrara að aka en fljúga?

 

 

 

Umræðan um staðsetningu flugvallar Vatnsmýrinni í Reykjavík hefur gengið nánast allar götur síðan bretar afhentu íslenska ríkinu flugvöllinn til umráða þann 6. júlí 1946.

Sumir álita að staðsetningin hafi valdið því að borgarskipulagið hafi ekki þróast eðlilega.

Aðrir telja á móti að staðseting flugvallarins hafi verið mikilvæg lyftistöng fyrir Reykjavík sem höfuðborg landsins.

Bæði sjónarmiðin eru góðra gjalda verð

Nú um helgina birtist í Fréttablaðinu auglýsing frá Flugfélagi Íslands sem sýndi að nú um stundir er 129% dýrara að aka til Akureyrar en að fljúga ef marka má auglýsinguna.

Í kvöldfréttum RUV í gærkvöld var bætt um betur og sagt frá þvi að búið væri að endurvekja áætlunarflug frá Reykjavík til Húsavíkur eftir 12 ára hlé.

Spurt er hvort þetta sé upphaf að betri tímum hvað varðar  almenningssamgöngur og flug?

Sýnir þetta okkur að við þurfum að stíga varlega til jarðar  hvað varðar hugmyndir um að leggja niður flugvöllinn í Reykjavík? 

Er ekki rétta að  leita annarra lausna til þess að þétta byggð vestan Elliðaáa?

Má ekki leysa þéttingarvandann  með mörgum smáum aðgerðum í stað þess að leysa hann með einu stóru pennastriki í Vatnsmýrinni?

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.4.2012 - 13:06 - 22 ummæli

Þéttleiki Reykjavíkur

 

Myndina að ofan fékk ég senda frá einum lesanda síðunnar.  Hún sýnir hvað heimsbyggðin þyrfti mikið landrými ef hún byggi öll í borg með svipaðan þéttleika og Reykjavík. Það er að segja  436,5 manns á hvern ferkílometra. (202,3 samkv. Wikipedia)

Að neðan er svo mynd sem birt var hér á vefnum fyrir nokkru sem sýnir aðrar borgir í svipuðu samhengi.

Gaman er að velta þessum myndum fyrir sér og spyrja sig og draga af þeim álygtanir.

Hvernig búum við og hvernig viljum við búa?  Hvernig viljum við nota jörðina og við hvaða aðstæður viljum við búa komandi kynslóðum efnahagslega og félagslega. Veltum fyrir okkur samgöngum og nýtingu auðlinda með þessari stefnu í skipulagsmálum

Hvernig væri heimurinn í dag ef allir byggju í borg eins og Reykjavík?

Menn eru mikið að ræða vistvænar lausnir í míkróskopiskum aðgerðum.  Menn eru að tala um BREEAM vottun á smák0fum út um allt.

En hvað með skipulagið?

Hvenær kemur að því að skipulagsyfirvöld geri vistvænar kröfur til skipulagsins sem telja eitthvað í stóra dæminu?

Mikið væri óskandi ef það væri gert.

Til dæmis að fram kæmi krafa um að ekki séu skipulagðir borgarhlutar þar sem forsenda samgangna væri einkabíll.  Heldur að almannasamgöngur væru litnar sömu augum og önnur stoðkerfi á borð við frárennsli neystluvatn, hita og rafmagn.

Um þessar mundir er svokallað Bredstorf aðalskipulag Reykjavíkur hálfrar aldar gamalt. Það varð fljótlega úrelt. Það byggði á einkabílismanum sem menn áttuðu sig skömmu síðar á að væri óvistvænn, mengandi, orkufrekur og gríðarlega kostnaðarsamur.

Í Danmörku og víðar byrjuðu menn á að úthýsa einkabílnum úr miðborgunum um 1960.

Þrátt fyrir þetta  og alla þá umræðu og þekkingu sem síðan hefur orðið til virðist manni ennþá víða hér á landi vera unnið í anda skipulags Peter Bredstorf frá 1962.

 

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/03/25/allir-ibuar-jardarinnar-i-einni-borg/

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.4.2012 - 22:20 - 7 ummæli

Húsaverndun – húsafriðun – húsaflutningar

Margir telja að það eigi rífa hús sem eru ekki í samræmi við tíðarandann, þjóna ekki lengur upphaflegu hlutverki sínu eða smella ekki inn í staðfest  deiliskipulag.  Stundum hafa deiliskipulagsáætlanir beinlínis lagt dauða hönd á ágæt hús. Sumir telja að rífa eigi hús sem ekki þjóna tilgangi sínum fullkomlega eða hafa það eitt sér til vansa að vera gömul.

Svo eru þeir sem vilja varðveita húsin á sínum upphaflega stað og vilja endurnýja þau í samræmi við breyttar kröfur samtímans, tæknilegar og starfrænt, en vilja ekki breyta þeim arkitektóniskt. Halda í anda húsanna og næsta umhvefis. Þeir vilja að húsin séu aðlöguð nýri tækni og þægindum og fái að gegna nýju hlutverki um ókomna tíð.

Enn aðrir telja að merkileg hús skuli flutt á heppilegri stað eða vistuð á húsasöfnum.

Svo eru þeir sem halda því fram að aðlaga megi öll hús að nýjum þörfum á breytilegum tímum.

Mig langar til þess að nefna tvær byggingar í Danmörku sem urðu fyrir þróuninni og hömluðu framförum þar sem þær áður stóðu. Þær höfðu báðar lifað sjálfa sig og það var ekki not fyrir  þær lengur. Þær stóðu líka í vegi fyrir þróun þess svæðis sem þær stóðu á. En sökum byggingalistarinnar var talið nauðsynlegt að vernda þau og  var miklu kostað til. Þær voru fluttar eins og þær lögðu sig í heilu lagi.

Þetta er annarsvegar Krudttårnet I Frederikshavn og hinsvegar flugstöð Vilhelms Lauritzsen á Klastrupflugvelli.     

Krudttårnet (púðurturninn) í Frederikshavn var byggður úr hlöðnu grjóti á árunum 1686-1690.  Í upphafi var gott rými umhverfis turninn en í aldanna rás þrengdi að honum og hans var ekki notið sem skildi eins og sjá má á ljósmyndinni efst í færslunni..  Árið 1974 var ákveðið að flytja þetta gamla 4500 tonna mannvirki 270 metra vegalengd þangað sem það nyti sín betur. 

Hitt húsið sem dæmi er tekið af er gamla flugstöðin á Kastrup eftir Vilhelm Lauritzen.  Byggingin er eitt besta dæmi í Danmörku um skandinavískan funktíonalisma.

Byggingin var byggð árið 1939.  Hún stóð í vegi fyrir frekari þróun og uppbyggingu á Kastrupflugvelli.  Í stað þess að rífa þessa góðu byggingu var ákveðið að flytja hana. Og í september 1999 var þriggja  hæða steinsteyptri byggingunni rúllað 3,5 kílometra á stað þar sem líkur eru til að hún fái að standa um ókomin ár.

Flugstöðvarbyggingin er ekki aðeins 250 árum yngri en púðurturninn heldur mun léttari og stærri. Flugstöðin er um 4000 fermetrer og vegur 2600 tonn, er 110 metra löng og 26 metra breið. 

Lesa má nánar um flutningin hér:

http://www.cph.dk/CPH/DK/PRESSE/Hvem+Hvad+Hvor/Fakta+ark/VL+terminalens+flytning.htm

Hér að neðan koma nokkrar ljósmyndir af flugstöðinni.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.4.2012 - 17:50 - 19 ummæli

Undarleg blokk fyrir 20 þúsund manns.

Á árunum 1936-1939 lét leiðtogi “Kraft durch fruende” Robert Ley byggja íbúðablokk á sex hæðum sem hýsa átti um 20 þúsund manns.  Blokkin sem byggð var í Rugen í Þýskalandi átti að verða 4.5 kílometrar á lengd.

Allar íbúðirnar höfðu útsýn til sjávar.

Þetta var þegar nasistar réðu ríkjum og allt byggðist á áætlunum með stórum patentlausnum og lífið milli húsanna skipti litlu.

Ekki náðist að ljúka framkvæmdinnni áður en stríð braust út.

Þetta er einhver undarlegasta framkvæmd í húsnæðisbyggingum síðustu aldar og dæmi um stórar patentlausnir stórhuga manna.

Húsið var byggt af nasistum í Prora við bæinn Rugen sem er í fyrrum austur Þýskalandi. Rugen er strandbær við Eystrasalt suðvestan við Borgundarhólm.

Upp úr heimstyrjöldinni var húsið notað sem flóttamannabúðir og um 1953 var það notað af rússneska hernum og síðar þeim austurþýska.

Árið 1990 yfirgaf herinn húsið sem nú er meiriháttar aðdráttarafl fyrir túrista.

Neðst er myndband sem sýnir verkið betur. Þar má sjá Adolf Hitler dáðst að áætlununum.

Hluti byggingarinnar hefur verið í mikilli niðurnýðslu

Allar íbúðir höfðu útsýn til sjávar

Arkitektastofan Atelier Kempe Thill vann samkeppni um að gefa húsunum nýtt líf fyrir ungt fólk. Hér er ein af teikningunum sem þau lögðu fram í samkeppninni árið 2004.

Að ofan er myndband sem sýnir verkið betur. Þar má sjá Adolf Hitler dáðst að áætlununum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.4.2012 - 10:48 - 28 ummæli

Rafrænar kosningar í Reykjavík.

Nú hefur Reykjavíkurborg gefið borgarbúum kost á að taka virkan þátt í ákvarðanatöku um framkvæmdir í hverfum borgarinnar. Þátttaka borgarbúa á sér stað með rafrænni kosningu sem er vel  þróuð og talin örugg.

Það er ánægjulegt að borgin skuli feta þessa slóð.

Þetta vísar vonandi til breyttrar stjórnsýslu og bjartrar framtíðar með aukinni umræðu og þátttöku borgarbúa. Frumkvæði þetta á vonandi eftir að þróast og ná fótfestu í sveitarfélögum víða um land.

Í kosningunum sem nú standa yfir er kosið um ýmsar minniháttar framkvæmdir og viðhaldsverkefni.

Í Vesturbæjarblaðinu er kosningin kynnt og nefnd nokkur verk sem íbúar Vesturbæjar geta kosið um.

Þar má nefna nýframkvæmdir á borð við að gera þrep niður í fjöru á Eiðisgranda, fjölga boltakörfum í Vesturbænum, setja upp reiðhjólaskýli við Hagaskóla og fleira í þeim dúr. Alt míkroskópisk verkefni í hinu stóra samhengi.

Svo er borgarbúum boðið að kjósa á milli nokkurra viðhaldsverka.  Já, kjósa um viðhald. Hverju á að halda við og hverju ekki?!

Eins og áður sagði þá er þetta vísir að nýrri og virkari stjórnsýslu. Maður veltir hinsvegar fyrir sér málunum sem kosið er um í þetta sinn.  Annarsvegar smávægilegar framkvæmdir og svo viðhaldsverk.  Í mínum huga eru þetta mál sem hverfisráðum er fullkomlega treystandi til að ráða framúr.

Svo maður haldi sig við Vesturbæinn þá hefði ég frekar viljað að íbúarnir hefðu verið spurðir um einhver stærri mál. Ég nefni sameiningu skólalóða við Hagatorg, eða uppbyggingu miðhverfis borgarhlutans við Hofsvallagötu sem gerð yrði að vistgötu.  Eða að fá að kjósa um verulega þéttingu byggðar í hverfi 107 samkvæmt einhverju hverfisskipulagi sem unnið yrði fyrir kosningarnar.

Þá væri upplýsandi ef borgin spyrði borgarbúa um afstöðu þeirra til stærri mála á borð við stoðkerfi borgarinnar. Til dæmis almenningssamgöngur, hjólreiðar, gatnakerfi og auðvitað staðsetningu og ásýnd Landspítala við Hringbraut.

Að spyrja borgarbúa um körfuboltavelli, stíga niður í fjöru eða þá viðhaldsverk virkar á mig eins og einhver dúsa, eða lýðræðisskrum.

Það væri óskandi að svona kosningafyrirkomulag yrði þróað áfram og að stjórnmálamenn  stórra og lítilla sveitarfélaga hefðu kjark til þess að hvetja til umræðna og spyrja kjósendur sína um álit á mikilvægari verkefnum en körfuboltaspjöldum og sjálfsögðum verkefnum á borð við  viðhaldsverk.

Kosningunum lýkur í dag. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim að þessu sinni vegna þess að ég hef ekki neina skoðun á þeim málum sem spurt er um. Ég hafði vonað að ég mæti kjósa um hvort stækka ætti ruslafötuna fyrir framan Björnsbakarí við Fálkagötu en svo er ekki enda sá ég í morgun  að hún hefur þegar verið stækkuð. Sennilega án aðkomu borgarinnar.

Það er sjálfsagt að allir þeir sem hafa skoðun á málunum sem kosið er um taki þátt.

Slóðin inná kosningarvefin er þessi:

https://kjosa.betrireykjavik.is/votes/authentication_options

 

Næsta skref hjá borginni verður vonandi að blanda íbúum í stærri ákvarðanir þar sem viðfangsefnið er vel undirbúið og hverfisbúar geta tekið upplýsta ákvörðun. Hér er hugmynd að breytingu á Hagatorgi. Ef tvísmellt er á myndina stækkar hún.

 

Svo má spyrja borgarbúa um stærri mál á borð við Landspítalann við Hringbraut og um stoðkerfi borgarinnar á borð við almenningssamgöngur, hjólreiðastíga og fleira þess háttar.

 

Stundum getur hin fúlasta alvara verið algert grín. Á myndbandinu að ofan gerir borgarstjórinn í Reykjavík grín að lýðræðinu í tilefni íbúakosninganna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.3.2012 - 00:20 - 12 ummæli

Náttúruperlan í Öskjuhlíð.

THG arkitektar hafa lagt fram tillögu  að breytingu Perlunnar á  toppi Öskjuhlíðar í Reykjavík í heilsulind og náttúrugripasafn.

Um er að ræða  núverandi húsnæði ásamt þvi að reisa viðbyggingu sem er að hluta neðanjarðar.

Í kynningu segir:

“Tillagan gerir ráð fyrir að byggð verði nýbygging norðan megin við núverandi byggingu sem er að hluta til neðanjarðar og hýsir náttúrugripasafn Íslands og aðra tengda safnastarfsemi, sem tengist íslenskri náttúru.

Einnig gerir tillagan ráð fyrir að byggð verði nýbygging undir heilsulind vestan megin við núverandi byggingu í tengslum við útilaugar sem umlykja munu núverandi byggingar.

Við gerð tillögunar hefur verið leitast við að aðlaga nýbyggingarnar sem mest að landi til að breyta sem minnst yfirbragði núverandi byggingar. Nýbygging undir náttúrugripasafn er 3.500 m2 að stærð og leitast hefur verið við að hafa  sýningarsali bjarta með útsýni til norðurs yfir borg og sund með fjallasýn.

Safnið sem er á einni hæð fylgir legu lands á pöllum niður með hlíðinni”.

Samkæmt tillögunni er nýbygging undir heilsulind  formuð inn í landið í tengslum við útilaugar á vesturhluta lóðarinnar og er lögð áhersla á að byggingin falli vel að landi og tönkum perlunnar.

Samkvæmt tillögunni mun veitingaaðstaða vera áfram á efri hæðum perlunnar eins og við þekkjum í dag.

Þetta er gott dæmi um hvernig almenn opin umræða getur haft áhrif til góðs.

Fljótlega eftir að ákveðið var að selja Perluna skrifuðu þau Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningarhönnuður og Hjörleifir Stefánsson arkitekt, dagblaðsgrein þar sem þau lýstu hugmynd um „Perlu í Perlunni“.  Hugmyndin gekk út á að koma fyrir Náttúruminjasafi Íslands í húsinu. Hugmyndinni var gefinn góður rómur.

Nú hafa verið kynntir uppdrættir sem sýna vandaða  tillögu sem gengur einmitt út á að gera Perluna að „Náttúruperlu“ eða náttúruminjasafni.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn