Sunnudagur 25.3.2012 - 22:47 - 26 ummæli

Allir íbúar jarðarinnar í einni borg!

 

 

 

Hvað mikið landsvæði  ætli færi undir eina borg þar sem allir tæplega 7 milljarðar jarðarbúar ættu heima?

Þeð fer eftir þéttleikanum

Að ofan er slík borg teiknuð inná kort af Bandaríkjunum og tengt þéttleika þekktra stórborga.

Borg borganna, París kemur þarna vel út meðan ástæða er til þess að hafa áhyggjur á borgum á borð við Houston í Texas, USA.

Þetta er umhugsunarvert fyrir okkur öll og varðar skipulagsmál, hagkvæmi, land- og orkunýtingu.

Hvernig ætli þéttleiki Reykjavíkur liti út í þessu samhengi?

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.3.2012 - 00:17 - 12 ummæli

Harpa myndast vel

Þótt mismunandi skoðanir séu meðal manna um Hörpu þá er óumdeilt að hún myndast vel.  Það er meðal annars ein af ástæðunum fyrir því að það er mikið fjallað um hana og víða í tímaritum og á netinu.

Ég vek athygli á vandaðri umfjöllun sem birtist á vef hins virta tímarits Dómus.  Þar er ágætt viðtal við Ólaf ElÍasson.

Myndir í færslunni eru fengnar af vef  Domus.

Slóðin að Dómusgreininni er þessi:

http://www.domusweb.it/en/architecture/eliasson-s-kaleidoscope/

Svo er hér einstaklega falleg hreyfimynd af húsinu sem ég mæli með að sé skoðað sem sýnir að byggingin virðist jafnvel fallegri í mynd en í raunveruleikanum.

Slóðin er þessi;

http://www.domusweb.it/en/video2/harpa-by-eliasson-and-henning-larsen/

http://www.domusweb.it/en/video2/harpa-by-eliasson-and-henning-larsen/

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.3.2012 - 21:51 - 17 ummæli

Stærsta draugaborg í heimi?

 

Jafnvel þaulhugsaðar skipulagsáætlanir geta farið úrskeiðis.

Stjórnvöld í Kina ákvaðu, í upphafi aldarinnar, að byggja nýja borg um 30 km frá borginni Ordos í eyðimörk Mongólíu. Þetta átti að verða fyrirmyndarborg, nokkurkonar Dubai þeirra Kínverja enda eru þar í grenndinni  miklar auðlindir.

Allt var þaulhugsað og ekkert til sparað.  Borgin er hlaðin menningarhúsum, íþróttamannvirkjum, görðum og útilistaverkum á torgum og í almenningsrýmum.

Þarna er mikil félagsleg dreifing hvað varðar íbúðahús og skapað rými fyrir alla. Færustu arktektar Kína voru fengnir til verksins.

En það sem gerðist var að af einhverjum ástæðumn  vill enginn búa þarna.   Borgin sem ætluð var fyrir um eina milljón íbúa er nú stærsta draugaborg veraldar.

Þeir sem þarna búa eru einkum  embættismenn og fjölskyldur þeirra, samtals um 5000 manns.

Það er mikið skrifað um þessa borg á netinu og þar kemur fram að borgin er orðin aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem langar að skoða mannlausa draugaborg.

Hjálagt eru nokkrar myndir af húsum og torgum borgarinnar. Neðst er svo  umfjöllun fréttastofunnar AlJazeera.

Lögreglumaður stendur á gatnamótum í miðborginni og stjórnar umferðinni

Auð breiðstræti

 

 

Háhýsi og trjágróður

Aðaltorg borgarinnar er hlaðið þríðvíðum verkum í yfirstærð

Líkan af borgarhluta

Vandaður landslagsarkitektúr!

Menningarhús Ordos, safn hannað af einum af stjörnuarkitektum  Kína, MAD.  Nánar má kynnast þessu húsi  á þessari slóð:

http://www.dezeen.com/2011/12/13/ordos-museum-by-mad/

 

Það er mikið um nútímalegan alþjóðlegan arkitektúr í borginni eins og húsið að ofan sem teiknað er af  kínverskum aðilum, en meðal verkfræðingar eru Buro Happold sem við þekkjum frá Bretlandi. Húsin  tvö að neðan eru dæmi um íbúðahús í draugaborginni.

Aðalleikhús borgarinnar

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.3.2012 - 17:15 - 2 ummæli

Hús Börge Mogensen

 

Það er ánægjulegt að verða vitni að aukinni athygli sem  RUV er farið að veita skipulagi og byggingalist undanfarið.

Þar ber að nefna þætti Lísu Pálsdóttur og Hjálmars Sveinssonar fyrir nokkrum misserum auk umfjöllun í Víðsja um ýmis verk.

Nú hefur morgunútvarp rásar 2, einhver vandaðasti og vinsælasti dægurmálaþáttur ljósvakans, fjallað nokkuð um efnið undanfarið.

Fyrst um eyðibýli, þá um Þingvelli og í gærmorgun var Borgþór Arngímsson með vandaðann pistil um hús danska stjörnuarkitektsins Börge Mogensen sem nýlega var selt einkaaðila.

Ég fékk leyfi RÚV til þess að birta pistil Borgþórs í heild sinni hér á þessum vef og nota tækifæri til þess að gæða hann nokkrum ljósmyndum.

Gefum Borgþóri orðið:

„Fyrir nokkrum dögum skipti íbúðarhús eins þekktasta húsgagnaarkitekts Danmerkur, um eigendur. Ekki eru allir jafn hrifnir af örlögum hússins sem nú er í einkaeigu.

 Börge Mogensen er tvímælalaust í hópi þekktustu húsgagna- og innréttingaarkitekta Dana fyrr og síðar.  Hann er þar á heiðursbekk með Arne Jacobsen, Hans Wegner, Kaare Klint, Erik Jörgensen, Poul Kjærholm, Finn Juhl og fáeinum öðrum.

Börge sem var fæddur 1914 lærði fyrst húsgagnasmíði, að því loknu lá leið hans á Konunglegu Listaakademíuna og þaðan lauk hann prófi sem arkitekt árið 1942.  Aðalkennari hans þar og helsti áhrifavaldur var Kaare Klint. Að loknu arkitektaprófinu réðst Börge Mogensen til dönsku samvinnu samtakanna, FDB og veitti þar um átta ára skeið forstöðu teikni- og hönnunarstofu.  Þar voru teiknuð húsgögn sem áttu að vera allt í senn: falleg, hagkvæm, endingargóð, létt og meðfærileg, og síðast en ekki síst skyldu þau vera á verði sem almenningur í landinu réði við.  Allt gekk þetta eftir, samvinnumublurnar, einsog þær voru kallaðar, náðu miklum vinsældum og á teiknistofunni urðu til húsgögn sem segja má að séu sígild. Mörg þessara húsgagna eru framleidd enn í dag og gömul Börge Mogensen húsgögn seljast eins og heitar lummur í antikverslunum og á uppboðsvefjum. Á þessum FDB árum varð meðal annars til hinn þekkti rimlasófi, hann fór þó ekki í framleiðslu fyrr en síðar enda ekki beinlínis ódýr.  Á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina varð dönsk hönnun þekkt víða um heim og nafn Börge Mogensen þar mjög áberandi.  Þess má geta að í samvinnu við Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt hannaði Börge Mogensen seint á fimmta áratugnum húsgögn í aðalbyggingu Búnaðarbankans við Austurstræti, meðal annars skrifborð bankastjóra.

Árið 1950 stofnaði Börge eigin teiknistofu sem hann rak til dauðadags en hann lést árið 1972, aðeins fimmtíu og átta ára.  Á þeirri teiknistofu urðu til mörg þekkt húsgögn, einkum sófar og stólar sem nú teljast sígildir. 

Árið 1958 flutti arkitektinn, ásamt fjölskyldu sinni í  nýtt hús í Gentofte.  Húsið hafði Börge sjálfur teiknað og ennfremur allar innréttingar og húsgögn.  Fram til þessa hefur húsið, sem er algjörlega óbreytt og með öllum upprunalegu húsgögnunum og innréttingunum, verið í eigu fjölskyldunnar.  Fjölskyldan ákvað hinsvegar fyrir nokkru að selja.  Þá hlupu margir til, arkitektar og safnamenn, og vildu að húsið kæmist í eigu opinberra aðila með það fyrir augum að það yrði gert að safni. Þeir bentu á að þarna gæfist einstakt tækifæri til að sýna verk eins helsta snillings danskrar hönnunar, eins þeirra manna sem lagt hefði grunninn að danskri nútímahönnun.  Danska hönnunarsafnið hafði mikinn áhuga á húsinu en þar eins og víða annars staðar liggja peningar ekki á lausu og þess vegna hafði safnið engin tök á að  festa kaup á því.

Í dönskum lögum um verndun og friðun er sá galli að þau ná ekki til húsa og húsbúnaðar sem heildar og þess vegna fellur íbúðarhús Börge Mogensen utan laganna.  Þegar þetta var ljóst fóru prófessorar við Listaakademíuna og fleiri á stúfana í þeim tilgangi að tryggja að húsið yrði  í opinberri umsjá.  Áður en til þess kom að þessi hópur gæti lagt fram tilboð um kaupin seldu börn arkitektsins hins vegar húsið einkaaðila sem hyggst flytja þangað inn með fjölskyldu sína.  Þessu lýsir einn prófessora við Listaakademíuna sem slysi, slysi sem hæglega hefði verið hægt að afstýra.“

Á þessari slóð má sjá nokkur húsgagna sem hönnuð eru af Börge Mogensen:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2012/02/07/borge-mogensen/

 Mikið af húsgögnunum á heimili arkitektsins eru frumeintök. Á sófanum má sjá að mikið hefur verið setið í þessu eðalhúsgagni.

Hér má sjá vinnustofu arkitektsins

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.3.2012 - 08:45 - 3 ummæli

Icelandair Group – Viðbygging

Nýlega voru kynnt áform um að bæta hæð ofan á skrifstofubyggingu Icelandair Group á Reykjavíkurflugvelli.

Nálgun arkitektanna vakti athygli mína vegna þess að þeir hafa lagt áherslu á staðinn, staðaranda og bygginguna sem fyrir er í stað þess að tengja lausnina arkitektóniskt við tíðaranda nútímans.

Hugmyndin sprettur af húsunum sjálfum sem eru í hugum margra táknmynd um bjartsýnisanda sjötta áratugarins. Tákmynd um áræðni frumkvöðla flugsins og ferðamannaiðnaðar skömmu áður en þotuöldin reið í garð  fyrir hálfri öld.

Höfundar sýna þessum menningararfi virðingu og reyna frekar að klára það verk sem þarna var hafið, en að nálgast það á forsendum okkar tíma.

Það er ánægjulegt að sjá  lausnina og skynja þá virðingu sem borin er fyrir tíðaranda þeim sem ríkti þegar húsið var byggt.

Þetta verk vekur mann til umhugsunar um viðbyggingar almennt, tengsl þeirra við staðinn og tíðarandann annarsvegar og við nútímann hinsvegar. Svona viðfangsefni hafa verið umdeild um áratugi þar sem menn velta fyrir sér hvora leiðina eigi að fara.

Nýja hæðin, sú fjórða verður alls um 1.400 fermetrar að stærð.

Hótel Loftleiðir og skrifstofubyggingin voru teiknaðar á Teiknistofunni Tómasarhaga 31, sem var fyrirrennari núverandi TARK arkitekta. Í þá daga voru eigendurnir þrír, þeir Gísli Halldórsson arkitekt, Jósep Reynis arkitekt og Ólafur Júlíusson byggingafræðingur sem sá um byggingar Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli  fyrir hönd teiknistofunnar Tómasarhaga 31.

Færslunni fylgja tvær ljósmyndir sem fengnar eru hjá TARK arkitektum.  Efst í færslunni er tölvumynd sem sýnir að ofanábygging skrifstofuálmunnar nær um það bil sömu hæð og núverandi hótelbygging og styrkir þar með samhverfuna.

Myndin að neðan er hluti efstu myndarinnar þar sem áhersla er lögð á að sýna hvernig byggingarnar mætast.

Með því að tvísmella á myndirnar stækka þær.

Sjá einnig færslu: http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/19/demanturinn-a-hotel-loftleidum/

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.3.2012 - 15:20 - 7 ummæli

Leiklist, bílar og byggingarlist

 

Í  bók sinni “Om at opleve arkitektur” skrifar professor Steen Ejler Rasmussen að byggingalist, ásamt málaralist og höggmyndalist hafi verið kölluð frá gamalli tíð “hinar fögru listir”.  Með þessu er átt að þær séu fagrar á að líta, að þær tali til augans eins og tónlist til eyrans.

Enn þann dag í dag dæmir fólk byggingarlistina eftir þvi hvernig hún lítur út utanfrá.  Bækur og greinar eru að mestu skreyttar með myndum af húsum séð utanfrá. Það eru oft engar afstöðumyndir eða grunnmyndir sem fylgja.

Þegar fagmaður dæmir byggingu nægir honum ekki eigöngu að fjalla um útlitið. Hann þarf að þekkja afstöðumynd, sneiðingu og grunnmyndir. Og til þess að vera góð bygging þarf þetta allt að falla saman með umhverfinu í eina starfræna heild.

Arkitektin vinnur með form, ljós og efni eins og myndhöggvarinn og með liti líkt og málarinn. En það sem er frábrugðið er að list arkitektsins er nytjalist.

Arkitektinn starfar einnig að hluta  eins og leikstjórinn og leikmyndahöfundur þar sem leikendur eru venjulegt fólk sem leikur óskrifaðann spuna.  Það er að segja leikrit þar sem ekkert er handritið.

Arkitektinn þarf að hafa tilfinningu fyrir því hvernig fólk notar bygginguna,  þannig að allt gangi eðlilega fyrir sig,  annars er byggingalistin misheppnuð.  Þetta er ótrúlega flókið því það sem er eðlilegt fyrir einn getur verið þvingandi fyrir annan.  Það sem er eðlilegt í dag getur verið óþægilegt eftir nokkra áratugi þegar lífsmunstur fólks er orðið annað.

Arkitektinn líkist leikstjóranum og leiktjaldamálaranum einnig á þann hátt að hann dregur sig til hlés þegar sýningin hefst.  Teikningar arkitektsins eru ekki markmið í sjálfu sér,  heldur leiðarvísir,  hjálpartæki fyrir þá sem byggja húsið.  Þessu má einnig líkja við tónskáld; Arkitektinn skrifar nóturnar sem hljóðfæraleikarar spila eftir á sín hljóðfæri.

Mikilvægt er að fólk sem skoðar byggingalist horfi ekki bara á  húsin sjálf  heldur einnig á lífið í húsunum og lífið í götum og görðum umhverfis þau.

Byggingalistin hefur verið kölluð móðir listanna. Kannski vegna þess að hún verður ekki umflúin. Arkitektúrinn er allstaðar, allt í kringum okkur, þar sem við búum,  störfum, verslum, ökum og sofum.

Ef við verðum þreytt á byggingarlistinni er ekki hægt að stinga henni upp í bókahillu eins og ritlistinni eða skrúfa fyrir hana eins og tónlistinni. Nei við verðum að umbera hana hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Með tilkomu kennslu í byggingarlist hér á landi fyrir meira en 10 árum átti ég von á vakningu í umræðunni um arkitektúr og skipulag. Ég átti von á að  menntastofnunin  einbeitti sér að því að færa umræðuna nær neytandanum.  Byggja upp tungumál sem allir skilja,  finna íslensk nothæf hugtök í stað erlendra slettna  eða slangurs sem oft skapa misskilning sem ruglar umræðuna.

Umræðan er eitthvað meiri og markvissari nú en áður en menntunin var flutt til landsins.  Það ber að þakka. En skólinn virðist vera  innhverfur og ekki nægilega virkur í umræðunni þegar horft er til hans utanfrá.  Skólinn þarf að taka sig á í þessum efnum og brúa bilið milli byggingalistarinnar og notendanna.

Markmiðið hlýtur að vera að fólk hugsi meira um bygingalist en það hefur gert fram að þessu. Jafnvel eins mikið og  bíla svo dæmi sé tekið.

Kröfur fólks til bíla eru skilgreindar í huga hvers manns.  Menn vita hvernig bíl þeir vilja og hversu miklu þeir vilja kosta til. Þegar um er að ræða hús og umhverfi veit fólk ekki hvað því finnst.  Því finnst jafnvel að því eigi ekkert að finnast um það.  Þetta sé bara svona.  Allt ákveðið ofanfrá eins og það komi frá Guði.

Bílar eru það fyrirferðamiklir í umræðunni að þeir hafa haft meiri áhrif á umhverfið en fólkið, sem þeir, húsin og skipulagið, á að þjóna. Ekki veit ég hvað er orsök og hvað  afleiðing í þessum efnum. En hitt veit ég að bílar eru of fyrirferðarmiklir í umræðunni og hafa of mikil áhrif á umhverfið meðan byggingalist og skipulag er næstum ekki rætt.

Bílar eru í raun orðnir að þægilegu umhverfisböli sem kostar meira en flesta grunar.

Þegar umfjöllun og skrif um byggingalist eru orðnar jafn almennar og faglegar og  um bíla, undanfarna áratugi, er markmiðinu náð.

Arkitektar, iðnaðarmenn og tæknimenn fá meðvitaðri viðskiptavini, notendurnir betri byggingar og þjóðin betra umhverfi.

Það þarf að auka og breikka alla umræðu um arkitektúr og skipulag umtalsvert,  kenna efnið í grunn- og framhaldsskólum og gera það að föstum þætti í þjóðmálaumræðunni. Arkitektar þurfa að hætta að tala að mestu við sjálfa sig um sitt fag og snú sér að notendum byggingalistarinnar og ræða við þá á máli sem þeir skilja

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.2.2012 - 23:16 - 12 ummæli

Landspítalinn – framvinda.

 

 

Á haustdögum 2009 skrifaði ég færslu um Landsspítalann við Hringbraut þar sem ég taldi að nauðsynlegt væri að ræsa almenna umræðu um framkvæmdina, hugmyndafræði og staðsetningu húsanna.

Ég óttaðist að atburðarrásin tæki völdin og að sjúkrahúsið yrði byggt án þess að sátt væri um það sem væri í vændum.

Í framhaldinu skrifaði ég fleiri færslur um málið og allnokkrir málsmetandi aðilar sendu pistla inn á þennan vef og lögðu sitt til málanna.  Í tengslum við færslurnar komu um 300 málefnalegar athugasemdir sem voru upplýsandi innlegg í umræðuna.

Þegar ég lít til baka sýnist mér að allt stefni í það sem ég óttaðist mest,  að atburðarrásin tæki völdin.

Í nóvember 2010 lagði Arkitektafélagið fram þá hugmynd að teiknistofunni Arkitektúr.is yrði falið að vinna deiliskipulag svæðisins í nánu samstarfi við notendur og eigendur spítalans.  Það er að segja að hefðbundið traust verklag yrði viðhaft.  Fyrst yrði gert deiliskipulag og í framhaldi yrði samkeppni um einstakar byggingar.  Teiknistofan  Arkitektúr.is  var talin fullfær um þessa vinnu enda komst hún í gegnum þröngt forval fyrir örfáum árum og hafði unnið til fyrstu verðlauna í samkeppni um verkið.

Verkefnastjórnin var á öðru máli og vildi efna til forvals og samkeppni þar sem allt var undir. Deiliskipulag og húsahönnun.

Arkitektafélagið taldi réttara að stefna að því að fá fram deiliskipulag áður en samkeppnin væri auglýst til þess að ekki væri lagt út í algera óvissu. 

Að loknu deiliskipulagi yrði efnt til samkeppi um einstakar byggingar.  Um sérhæfustu byggingarnar yrði keppt að undangengnu  forvali, aðrar í opinni samkeppni og sumar í einkaframkvæmd eða alútboði.  Arkitektafélagið taldi rétt að hanna byggingarnar og byggja í þeirri röð sem henta þætti, inn í staðfest deiliskipulag.

Skammsýnir aðilar, gullgrafarar, innan arkitektastéttarinnar hlupu útundan sér og gáfu félaginu og verkkaupa ekki tækifæri til þess að þróa þessa hugmynd og ræða frekar.

Verkefnisstjórn spítalans gaf sér ekki svigrúm til að ræða leið Arkitektafélagsins.  Hún vildi velja hönnunarteymi að undangengnu þröngu forvali og hanna húsin og skipulagið í einum áfanga.   Samflétta deiliskipulag og húsahönnun í einni slaufu.  Í kjölfar samkeppninnar yrði síðan samið við vinningshafa um að ganga frá deiliskipulaginu og skila 20% hönnunarvinnu vegna húsanna (!)

Þetta var óskynsamlegt fyrir margra hluta sakir

Hugmynd arkitektafélagsins byggði á traustum og þekktum vinnubrögðum sem falla að íslenskum byggingariðnaði og hentaði húsbyggjandanum afskaplega vel hvað allan undirbúning, fjármögnun og rekstur varðar.

Við  leið arkitektafélagsins væri staðan að líkindum önnur en í dag.  Annaðhvort væri búið að finna annan stað fyrir sjúkrahúsið sem sátt væri um eða  að gatnagerð væri hafin og allnokkrar arkitektastofur væru ýmist að vinna að hönnun húsa eða takandi þátt í samkeppnum um einstaka hluta spítalans.

Og hver er  staða verkefnisins í dag?  Hvernig vindur því fram?

Ég veit það ekki en hitt veit ég að það kom fram á opnum fundi skömmu eftir að hönnunarsamningur   var undirritaður að stefnt væri að því að framkvæmdir hæfust við gatnagerð á haustmánuðum 2011.  Það hefur ekki gengið eftir.

Mér skilst að hönnunatreymið sé að nálgast verklok hvað varðar hönnun húsanna samkvæmt samningi (20% hönnun) þó svo að deiliskipulagið sé enn í fullkominni óvissu. Það var reyndar forkynning á deiliskipulaginu í haust þar sem óskað var eftir athugasemdum. en það er ekki afgreitt.  Þetta er óvenjuleg staða og  illskiljanleg.

Mér heyrist að fólk sé almennt ekki á móti sjúkrahússbyggingnni sem slíkri. Hinsvegar skynja ég að verkefnisstjórninni hefur ekki tekist að sannfæra borgarana um staðsetninguna.

Það má vel vera að verkefnisstjórnin hafi unnið vel og að Hringbrautarstaðsetttingin sé sú besta en það þarf að vera breið sátt um málið.

Sátt þarf að nást um málið og hún næst einungis með tillitssemi og rækilegri kynningu á verkefninu þar sem allir hnútar eru hnýttir og óvissu eytt.

Þetta er áhyggjuefni sem þeir sem bera ábyrgðina þurfa velta fyrir sér og leysa.

Að neðan eru teglar á nokkrar færslur um þetta góða þjóðþrifaverkefni.

 Heimasíða Arkitektúr.is

 http://arkitektur.is/verk/haskolasjukrahus/index.php

 

 

Deiliskipulagstillaga-Greinargerð

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/frettir/2011/gogn/NLSH_03_Verkefnisl_sing_2011.02.03.pdf

 

Hér eru allar bokanir skipulagsráðs um málið.

http://gamli.rvk.is/vefur/owa/edutils.parse_page?nafn=SN110037

 

Umræður um málið á bloggsóðunnu Arkitektúr Skipulag og Staparprýði:

Landspítalinn Háskólasjúkrahús

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/11/11/landspitalinn-haskolasjukrahus/

Landspítali Háskólasjúkrahús, ummæli Ingólfs Þórissonar framkvæmdastjóra eignasviðs spítalans

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/11/16/landspitalinn-haskolasjukrahus-%e2%80%93-vidbot/

Landspítalinn – arkitektar – verktakar

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/12/11/landspitalinn%e2%80%93arkitektar%e2%80%93verktakar/

Björn Hallsson skrifar um Landspítalann

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/01/22/bjorn-hallsson-lsh/

Deiliskipulag Landspítalalóðar

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/01/26/deiliskipulag-landspitalalodar/

Gegnumgangur LSH samkeppnin

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/07/14/gegnumgangur-lsh-samkeppnin/

LSH samkeppni framhald

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/07/16/lsh-samkeppni-framhald/

Landspítalinn – Umferðamál

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/03/landspitalinn-%e2%80%93-umferdamal/

Landspítalinn Innlegg borgarfulltrúanna Dags B Eggertssonar og Gísla Marteins Baldurssonar.

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/04/landspitalinn-innlegg-borgarfulltrua/

Landspítali Öskubuskueinkenni

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/06/landspitali-oskubuskueinkenni/

LSH Stórkallalegt skipulag eftir Guðlaug Gauta Jónsson arkitekt.

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/09/lsh-%e2%80%93-storkallalegt-skipulag/

Sjónarmið heilbrigðisvísindafólks eftir Magnús Karl Magnússon yfirlækni og prófessor 

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/11/lsh-sjonarmid-heilbrigdisvisindafolks/

Nýr Landspítali við Barónsstíg og Eiríksgötu eftir Pál Torfa Önundarson yfirlækni og prófessor

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/12/nyr-landspitali-vid-baronsstig-og-eiriksgotu/

Landspítalinn þarf að hugsa út fyrir ramman

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/14/landspitalinn-tharf-ad-hugsa-ut-fyrir-rammann/

Íbúafundur um nýjan Landspítala eftir Guðlaug Gauta Jónsson arkitekt.

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/23/ibuafundur-um-nyjan-landspitala/ 

Menningarstefnan og Landspítalin

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/09/29/menningarstefnan-og-landspitalinn/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.2.2012 - 00:12 - 4 ummæli

Samkeppnir fyrr og síðar – Sýning.

 

Næstkomandi laugardag þann 25. febrúar opnar sýning í Norræna Húsinu um arkitektasamkeppnir fyrr og síðar.      

Tilgangur sýningarinnar er að vekja athygli á þeim tækifærum og gagnsemi sem felst í því að bjóða verk út í opinni samkeppni ásamt þeim nýjungum og fjölbreytileika sem þær hafa skilað.

Á sýningunni ber að líta nokkur dæmi um velheppnuð verk sem byggð hafa verið í kjölfar opinna samkeppna hér á landi.

Valin voru þrjú verk frá hverjum áratug frá því Þingvallasamkeppnin 1972 var haldin. Alls tólf verk.  Þeim til viðbótar voru einnig valin verk sem eru árangur minni samkeppna og samkeppna um skipulag. 

Ekki ber að skilja sem svo að hér sé um úrval að ræða heldur úrtak sem gefur sýningargestum hugmynd um þau tækifæri sem í opinni samkeppni felast.  Þetta eru allt glæsilegar tillögur sem hafa leitt af sér byggingar sem eru í úrvalsflokki og flestir þekkja.

Að baki hverrar tillögu í meðal arkitektasamkeppni liggja milli 500 og 600 tíma vinna. Þessa vinnu leggja arkitektarnir flestir fram endurgjaldslaust. Þetta er mikil fórn. Leiða má líkur að því að t.a.m. sú vinna sem liggur að baki 68 samkeppnistillögum um skipulag og hótel við Ingólfstorg, sem nú er í dómi, sé milli 20 og25 mannára vinna sem er nálægt því að vera heil starfsæfi.

Arkitektasamkeppni var fyrst haldin hér á landi árið 1927 fyrir réttum 85 árum. Verkefnið var Hallgrímskirkja í Reykjavík.

Frá þeim tíma  hafa verið haldnar hátt á annað hundrað opnar samkeppnir sem hafa skilað miklum og mörgum gersemum til þjóðarinnar og fært hana fram á við hvað byggingarlist varðar, stuðlað að umræðu og fært okkur tæknilegar og félagslegar framfarir. 

Sýningin verður opnuð á laugardaginn kl 16.00 eins og fyrr segir og eru allir áhugasamir boðnir velkomnir. Fyrir opnun sýningarinnar kl .14.00 verður í sal Norræna Hússins efnt til málþings  sem heitir: “ Byggingarlist og Samfélag“

Færslunni fylgja myndir af tveim sýningarspjöldum sem verða á sýningunni.

Efst er  sýningarspjald sem fjallar um 1. verðlaun í samkeppni um búnað á tjaldstæðum frá árinu 1984 sem arkitektarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson unnu með Einari E. Sæmundsen landslagsarkitekt og Gunnari St. Ólafssyni verkfræðingi.

Að neðan er 1. verðlaunatillaga ASK arkitekta frá árinu 2008 vegna skipulags miðbæjar Hveragerðis.

Ef tvísmellt er á myndirnar stækka þær og textinn verður læsilegur.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.2.2012 - 18:43 - 2 ummæli

Þingvellir – Hugmyndasamkeppni 1972

 

.

Í Morgunblaðinu  þann 13. mars 1920 var greint frá  ályktun Alþingis  um friðun og framtíð Þingvalla.

Í Morgunblaðsgreininni segir m.a orðrétt.: “Mál þetta er svo umfangsmikið, að sízt veitir af, að undirbúningur sé þegar hafinn og málið rætt. Og þetta er mál, er varðar alla þjóðina. Ekki væri það að tjóni að sem flestir, er til þekkja, gerðu tillögur um fyrirkomulag Þingvallar og mætti gjarnan efna til samkeppni um það og heita verðlaunum fyrir.”

Þetta var merkileg ályktun Alþingis, og svo virðist sem hér sé fyrst í riti minnst á samkeppni á skipulags- og byggingarsviði hér á landi. Þarna er einnig talað um friðun og framtíð svæðis. Það kemur heldur ekki á óvart að það hafi einmitt verið þjóðgarðurinn á Þingvöllum sem var fyrsta umfjöllunarefnið.

52 árum seinna, árið 1972 var efnt til hugmyndasamkeppni um framtíð, friðun og notkun Þingvallasvæðisins.

Hugmyndasamkeppnin sem boðin var út í tilefni af því að tveim árum seinna, árið 1974, var haldið veglega upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar á Þingvöllum.

Þetta var vönduð samkeppni sem tók á öllum aðalatriðum, er varða þennan helga stað og á fullt erindi til okkar í dag enda eru vandamálin þau sömu og flest enn óleyst.

Keppendur skoðuðu Þingvelli í fortíð, nútíð og framtíð. Fjallað var um söguna, náttúruna, nýtingu og uppbyggingu til framtíðar.

Það er rétt að minna á þessa samkeppni fyrir margra hluta sakir.  Í fyrsta lagi eru Þingvellir í deiglu og umræða um framtíð svæðisins að hefjast enn á ný eins og með ályktun Alþingis fyrir 92 árum.

Í öðru lagi eru úrlausnarefnin eru að mestu þau sömu í dag og fyrr, sagan og náttúran er sú sama.

Það er afarfróðlegt og skemmtilegt að kynna sér þær hugmyndir sem fram komu í samkeppninni.

Í tilefni af því að um þessar mundir eru liðin rétt 40 ár síðan umrædd samkeppni var haldin verður opnuð sýning á verðlaunatillögunum í Norræna Húsinu n.k. laugardag kl. 16.00 og eru allir sem áhuga hafa á Þingvöllum og nágrenni velkomnir á sýninguna.

 

Í Dómnefnd hugmyndasamkeppninnar 1972 sátu:

Eysteinn Jónsson fyrrv. ráðherra formaður, Gunnlaugur Halldórsson arkitekt, Haukur Viktorsson arkitekt, Þór Magnússon fyrrv. þjóðminjavörður, Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, Valdimar Kristinsson  cand. oecon.

Höfundar verðlaunatillagnanna voru:

1. verðlaun

Bjarki Zophaníasson arkitekt, Ásmundur Jakobsson og Vikar Pétursson.

2. verðlaun

Stefán Örn Stefánsson stud.ark, Stefán Thors stud. ark. og Einar E. Sæmundssen garðarkitekt ásamt teiknistofunni Höfða

3. verðlaun

Einar Þorsteinn Ásgeirsson arkitekt, Ingimundur Sveinsson arkitekt, Jón Eiríksson stud. scient og Jón Stefánsson verkfræðingur.

Efst í færslunni er mynd frá leiðangri Gaimard til Íslands 1834 og sýnir Almannagjá til norðurs.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.2.2012 - 22:56 - 11 ummæli

Þingvellir- Kárastaðastígur 1. verðlaun

 

Nýlega var haldin opin samkeppni um Kárastaðastíg sem liggur um Almannagjá á Þingvöllum. Samkeppnin var haldin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.

Hér er kynnt tillaga sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni sem unnin var af arkitektastofunni Studio Granda.

 Stígurinn liggur í gegnum Almannagjá og yfir sprungu sem kom skyndilega í ljós fyrir nokkrum misserum og þurfti að brúa.

Þetta er afskaplega vel unnin tillaga þar sem markmiðið er að náttúran njóti sín og maðurinn haldi sér til hlés. Tillögunni fylgdi greinargerð sem lýsir vel þeim hugmyndum sem að baki liggja. Þar er tekið á atkitektóniskri nálgun og tæknilegum útfærslum á máli sem öllum er skiljanlegt, án orðagjalfurs sem oft einnkenna slíkan texta. Ég leyfi mér að birta greinargerðina í heild orðrétt:

„Göngubrúin er upphaf gönguleiðarinnar um þinghelgina, þar sem enn má sjá sögulegar minjar og einstakar náttúrumyndanir. Mannvirkið er eins látlaust og mögulegt er enda annað vart við hæfi á þessum stað. Best væri að það væri ósýnilegt, en markmiðið er að það hverfi í landslagið, svo náttúran og sagan fái notið sín.  

Framkvæmdin er  einföld og hægt er þar sem tíminn er naumur og áhersla er lögð á að auðvelt verði að jarlægja mannvirkið án þess að nokkur ummerki sjáist.

Göngubrúin tekur við af sveigðum norðurenda útsýnispalls á Hakinu. Stór steinn lokar bilinu á milli handriða brúar og framlengds gangstígs frá útsýnispöllum og girðir fyrir gjánna sem þar er. Annar stærri steinn er við hinn enda brúarinnar, sem lokar fyrir sprungusvæðið þeim megin.

Steinarnir eru eins og verðir á sitt hvorum enda og á þeim mættu vera upplýsingaskildir t.d. um Grím geitskó á öðrum steininum og Úlfljót á hinum, eða segja frá málsvörn Eyjólfs Bölverkssonar í Brennumáli Flosa þórðarsonar sem sagt er aðhafi átt sér staðá Hakinu, af nógu er aðtaka.

Brúin sveigir lítillega og lagar sig að sprungunni svo hreyfingin er varla greinanleg. Hún liggur yfir grynnsta hluta sprungusvæðis, en til hliðar við dýpstu sprungurnar svo sjá má niður í myrkustu hyldýpi. Óreglulegur botn sprungunnar gerir það mögulegt að koma fyrir undirstöðum á vel völdum toppum með hæfilegu millibili. Langbitar unnir úr rekaviði sitja á undirstöðum og á þeim hvílir brúargólfið sem sagað er úr sitkagreni frá Skógræktinni í Skorradal. Horfið var frá Því aðgeragólfið gagnsætt, þar sem að skuggamyndun yrði alltaf of mikil til að sprungan nyti sín í gegnum gólfið og ekki er forsvaranlegt að lýsa upp sprunguna undir brúnni. Gangbreidd brúargólfs er 3m, svo hópar geti auðveldlega mæst. Yfirborðið er látið veðrast. Handrið er gert úr ryðguðum efnispípum í 1,6m fresti sem boltaðar eru í gegnum brúargólfið. Á milli þeirra er strengt net, ofiðúr basalttrefjum, en það er níðsterkt og þolgott efni í dökkum lit, gert úr sama efni og bergið í kring. Ryðliturinn og dökkt basaltið samlagast umhverfinu og hverfa í það. Efnisval miðar við að mannvirkið batni með aldrinum. Eftir að brúnni sleppir tekur gamli malarstígurinn við, endurbættur og mjórri, með grjóthleðsluköntum þar sem stígurinn teygir sig upp aðbrúarendanum.

Framtíðarbrú yfir Öxará, við Drekkingarhyl, gæti verið með sama gólfi og handriði og göngubrúin, en burðarkerfiðþyrfti að vera öflugra og yrði gert úr ryðbrúnum prófílum.

Tillagan snýst um lágmarks rask í gjánni og hefur það sjónarmið að maðurinn skuli halda sig til hlés á þessum helga stað“.

Það er  mikilvægt að kunna að draga sig til hlés og vera meðvitaður um hvenær lítillæti er dyggð. Það hefur tekist hér.   Studíó Granda hefur náð tökum á lítillætinu og laðað fram lausn sem lofar góðu.

Til þess að skýra þetta nánar minni ég á aðra tillögugerð sem unnin var á sama svæði. Þar kemur arkitektúrinn (arkitektinn) í fyrsta sæti, maðurinn í öðru og náttúran og sögustaðurinn rekur lestina í goggunarröðinni og hafnar í þriðja sæti.

Slóðin er hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/10/12/thingvellir-stadarvitund/

Teiknistofan Studio Granda hefur verið áberandi í samkeppnisumhverfinu undanfarna áratugi og unnið til nokkurra verðlauna. Fjallað hefur verið um stofuna allnokkru sinnum á þessum vef.

Hægt er að skoða allar tillögurnar í samkeppninni á þessari slóð:

http://www.thingvellir.is/frettasafn/nr/565

M.a. á þessari slóð:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/02/16/studio-granda-kynning/

Það er rétt að vekja athygli á því að n.k. laugardag opnar sýning í Norræna Húsinu sem fjallar um arkitektasamkeppnir síðastliðin 40 ár með útgangspunkti í hugmyndasamkeppni um Þingvelli árið 1972. Samkeppni sú var haldin í aðdraganda  1100 ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn