Sunnudagur 13.11.2011 - 19:08 - 16 ummæli

Konur sjá fleiri liti en karlar

Litblinda er í raun ekki blinda heldur ástand sem lýsir sér í erfiðleikum við að greina á milli lita.

20 sinnum fleiri karlar en konur eru með arfgenga litblindu.  Aðeins 0,4% kvenna er haldin þessum kvilla en 8% karla.   Þ.e.a.s. einn af hverjum 12 körlum og ein af hverjum 250 konum eru með arfgenga litblindu.

Þetta er gríðarlegur munur.

Svo er því líka haldið fram að ekki sé hægt að muna liti.  Litir eru svo háðir birtu og nærliggjandi efnum og litbrigðum að ekki er á minnið treystandi.

Konur sjá fleiri liti en karlar og þær þurfa fleiri liti á pallettuna sína en karlar.   Maður þarf ekki annað en að líta á snyrtiborð kvenna eða inn í fataskáp þeirra til þess að átta sig á því að litir skipta konur meira máli en karla.

Hér að neðan er tækifæri til þess að átta sig á litaskynjun sinni. Inni í litadýrðinni er að finna tölur og tákn sem ekki allir sjá.

Mér er sagt að á næst neðstu myndinni standi talan 5.

Ég viðurkenni fúslega að ég sé það ekki.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.11.2011 - 10:00 - 34 ummæli

Skipulagsslys-könnun

Af tilefni alþjóðlega skipulagsdagsins, 8. nóvember, efndi Skipulagsfræðingafélag Íslands (SFFÍ) til hádegisfundar um skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundinum sem haldin var í gær í Þjóðarbókhlöðunni voru flutt tvö erindi.

Annað hét “Veðjað á vöxt”, var flutt af Salvöru Jónsdóttur og  Ásdísi Hlökk Teódórsdóttir.

Hitt hét “Skipulagsmistök á höfuðborgarsvæðinu-Niðurstöður viðhorfskönnunar” sem flutt var af Agli Þórarinssyni meistaranema í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Fundurinn vel sóttur og erindin áhugaverð.

Egill Þórarinsson MS nemi  fór í sínu erindi yfir könnun sem hann gerði í vor um skipulagsslys/framkvæmdir. Það má deila um hvort hugtakið ”skipulagsslys” eigi rétt á sér vegna þess að  slys  gera ekki boð á undan sér en það gera skipulagsáætlanir

Hann spurði forvalinn hóp sérfræðinga, hvað þeim dytti fyrst í hug þegar hugtakið skipulagsslys er nefnt?

Í úrtakinu  voru  félagar í Arkitektafélagi Íslands, Félagi Íslenskra Landslagsarkitekta,  Skipulagsfræðingafélagi Íslands,  Samtökum tæknimanna sveitarfélaga og Félagi skipulagsfulltrúa.

Markmiðið var að skoða hvernig  umdeildar skipulagsáætlanir/framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu gátu orðið að veruleika. Það var einnig markmið meistaranemans að fá aðila sem koma að skipulagi til að tjá sig um skipulag höfuðborgarsvæðisins á gagnrýnan hátt.

Þetta var afar áhugaverð könnun.  Einkum vegna þess að svo virðist sem sérfræðingar séu nánast gagnrýnislausir hvað skipulag varðar og leggja lítið fram í opinberri umræðu.

Eftir að hafa hlustað á erindin og umræðuna í kjölfarið fékk ég það á tilfinninguna að skipulagsákvarðanir réðu sér sjálfar á sama hátt og hlutabréfamarkaðurinn.  Eða að atburðarrásin taki stundum völdin í skipulagsmálum líkt og á hlutabréfamörkuðum.  Enda er gengi hlutabréfa og skipulagsmál mjög tengd hagsveiflum.

Umræðan minnir mig á starfsmenn geriningardeilda bankanna fyrir hrun sem sögðu okkur hvað getur gerst á markaðnum og svo síðar skýra þeir út af hverju það gerðist ekki.  Sérfræðingar greiningardeildanna höfðu lítil áhrif á framvinduna eins og sérfræðingar í skipulagsmálum.

Það vakti athygli að enginn viðstaddra sá ástæðu til þess að verja þau átta  verk sem voru talin stærstu slys skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu með nokkrum hætti. Það má telja fullvíst að mörg þeirra sem þarna sátu hafi komið að ráðgjöfinni.  Maður veltir fyrir sér hver ástæðan sé.  Sennilega er hún sú að enginn viðstaddra taldi sig bera professional ábyrgð á þessum framkvæmdum.

Þetta er virkilegt vandamál.

Það ber að fagna könnun Egils Þórarinssonar sem vonandi stuðlar að virkari og opnari umræðu um skipulagsmál og fær fleiri til að hlusta og fleiri til að tala.

Efst er graf sem sýnir hvað svarendur töldu helstu skipulagsmistök á höfuðborgarsvæðinu. 

Þar trónir Höfðatorg hæst, næst koma Skuggahverfi sem var skipulagt fyrir um 20 árum og í sama sæti er Háskólinn í Reykjavík. Sennilega er Háskólinn í Reykjavík skólabókardæmi um hvernig skipulagið ákveður sig sjálft útfrá einhverjum forsendum sem alls ekki eru skipulagslegar. Þarna kom upp kapphlaup sveitarfélaga um að færa menntastofnuninni land sem lygtaði með lausn sem er í 2-4 sæti í könnun Egils um helstu skipulagsmistök á höfuðborgarsvæðinu.

Neðst er svo flokkun mistaka þar sem sést að álitsgjafar álíta háhýsi lang verst og svo koma opinberar byggingar og verslunarkjarnar nokkuð jöfn í öðru og þriðja sæti.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.11.2011 - 09:59 - 12 ummæli

Betri bæir – AÍ 75 ára

 

Logi Már Einarsson formaður Arkitektafélagsins tjáir sig hér m.a. um skipulagsmál í tilefni 75 ára afmælis Arkitektafélags Íslands.

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag. Formaðurinn hefur gefið mér leyfi til þess að birta greinina sem hann kallar “Betri Bæi” hér á vefsíðunni.

Gefum Loga orðið:

„Óbyggðir landsins eru okkur dýrmætar og mikilvægt að huga vel að því hvernig um þær er gengið. Þetta hefur mönnum orðið æ ljósara og hefur megináhersla umhverfisverndar á Íslandi snúist um víðernið. Það er þó ekki síst við skipulagningu þéttbýlis sem ná má árangri í umhverfisvernd. Skynsamleg þróun bæja getur skipt sköpum.

Ýmislegt hefur farið úrskeiðis í uppbyggingu þéttbýlis síðustu áratugi. Við höfum að miklu leyti byggt upp samkvæmt hugmyndafræði hinnar bandarísku bílaborgar, þar sem lykilhugtökin eru flokkun og aðgreining. Borg og bæir eru gisin, innviðir dýrir, almenningssamgöngur lélegar og almenningsrými oft illa skilgreind. Þá höfum við byggt okkur stærra íbúðarhúsnæði en skynsamlegt má teljast. Markmiðið hlýtur að vera að snúa af þessari braut.

Stjórnvöld hafa ekki horft á hlutina í nógu stóru samhengi og þann ávinning sem í því felst. Arkitektar bera þó auðvitað líka sína ábyrgð á þessari þróun. Sum okkar hafa ýmist villst af leið eða verið of leiðitöm í ofsaþenslu síðustu ára. Önnur hafa hins vegar hvergi hvikað frá gildum sínum og víða má sjá byggingar og skipulagssvæði sem bera metnaði og fagmennsku mjög gott vitni.

Byggingarlist lýsir vel menningarstigi og viðhorfi þjóðfélaga á hverjum tíma. Því eigum við að leggja áherslu á að góður arkitektúr einkenni þéttbýli. Góð byggingarlist auðgar umhverfið og hvetur til varðveislu arfleifðar okkar. Hún er aðlaðandi og fúnksjónell. Góður arkitektúr einkennist af og tekur tillit til menningar okkar og sérkenna.

Í framtíðinni þurfa orku- og umhverfisvænar lausnir einnig að einkenna góða byggingarlist.  Góð byggingarlist og skipulag auka lífsgæði, stuðla að verðmætasköpun og eru því hagkvæm.


Í þeirri viðleitni að snúa til betri vegar óskar Arkitektafélag Íslands, sem nú fagnar 75 ára afmæli, eftir aukinni og markvissri samvinnu við ríki, sveitarfélög og almenning um mótun skýrrar sýnar til langrar framtíðar“.

.

Logi Már Einarsson, formaður Arkitektafélags Íslands 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.11.2011 - 01:11 - 2 ummæli

Snillingurinn Charles Eames


Charles Eames (1907-1978) var tvímælalaust einn fremsti húsgagnahönnuður Bandatíkjanna á síðustu öld. Hann var „dropout“ í skóla og hætti eftir tveggja ára nám. Sumir segja að hann hafi verið ódæll og of framúrstefnulegur fyrir Washington University i St. Louis.

Hann vann undir miklum áhrifum af skandinavískri hönnun, einkum Ero Saarinen sem reyndar bjó vestra.

Hér að neðan eru myndir af nokkrum húsgagna hans og neðst er “trailer” úr heimildarmynd  um starf hans.  Myndin hefur ekki verið frumsýnd og lofar virkilega góðu ef marka má sýnishornið.

Hann skilgreindi sig sem funktionalista og fetar þar í fótspor Sullivan sem sagði „Form follows function“ og bætti um betur og sagði “If it is not funktional, it is not beautyful” .  Ég  get ekki verið meira sammála nokkurrri kennisetningu í hönnunarfræðum.  Haft var eftir verktaka einum „Form follows profit“ en það er önnur saga.

Efst er mynd af Eams og eiginkonu hans sem jafnframt var samstarfsmaður hans á teiknistofunni.


Lounge Chair frá 1956

DAW frá 1960

La Fonda frá 1961

Soft Pad Chaise 1968

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.11.2011 - 08:08 - 12 ummæli

Höfnin og Gamli Vesturbærinn

morgun, fimmtudag, verður haldinn fundur á vegum Torfusamtakanna þar sem fjallað verður um Reykjavíkurhöfn milli Hörpu og Sjóminjasafnsins.  Nokkur óvissa ríkir um þetta svæði og nærliggjandi reiti.

Undanfarna áratugi hefur átt sér stað umbreyting hafna í allri Evrópu og víðar.  Enginn annar staður í borgarlandslaginu hefur tekið jafn miklum og hröðum breytingum og hafnarsvæðin.

Flutningagámar,  þjónusta skipa og útgerða,  kranar,  ferjubryggjur og verksmiðjur eru á brott.  Fólksflutningar á sjó hafa líka minnkað eftir að flugsamgöngur jukust og bifreiðaeign landsmanna varð almennari.

Við þessa breytingu losnaði mikið land á hafnarsvæðum sem þurfti að finna annað hlutverk.

Í stað bygginga sem þjónuðu höfnunum og skipunum hafa víða komið íbúðir,  höfuðstöðvar stórfyrirtækja,  hótel og menningarbyggingar.

Skipum og bátum hefur fækkað og sumstaðar nánast horfið.

Spurningum á borð við,  hvernig á að nota gömlu hafnarsvæðin, hafa vaknað?   Hversu mikið á að byggja?   Fyrir hverja á að byggja?  Eða á eitthvað að byggja?  Þessar spurningar hafa ekki verið í almennri opinni umræðu.

Hér,  eins og stundum áður,  virðist atburðarásin hafa tekið völdin.  Einhver smáskammta- eða bútasaumsþankagangur virðist hafa verið ríkjandi.

Sú borg sem ég þekki best til,  Kaupmannahöfn,   hefur farið afar illa út úr endurmótun hafnarsvæðanna.  Nú er svo komið að það sjást ekki skip í gömlu höfninni sem hefur verið afhent stórfyritækjum, hótelum, menningarhúsum,  lúxusíbúðum og þ.h.  Byggingarnar á ”kajanum” hýsa ekki hafnsækna starfssemi eða þjónustu sem tengist höfninni eða sjónum.  Einstaka plastbátur og bátar með túrista í skoðunarferð sjást í höfninni.

Höfnin við Sundið er dauð.  Þarna er ekki höfn heldur „Waterfront“.

Spurningin er hvort ástæða sé til þess að óttast að Reykjavíkurhöfn sé að stefna í sömu átt og Kaupmannahöfn og aðrar svipaðar borgir?   Í átt að Waterfront án skipa?  Vilja borgarbúar að sú þróun verði ofaná hér í Reykjavík?  Viljum við höfn sem miðuð er við ferðamenn og bissnissmenn eða viljum við að höfnin verði hluti af daglegu lífi borgarbúa með smábátaútgerð og fiski- og matarmörkuðum ætluðum neytendum, svo dæmi sé tekið?  Eða er hægt að blanda þessu öllu saman?

Eru ekki einhver eftirsóknarverð gæði í því fólgnar að hafa virka hafnarstarfsemi við  miðborgina?

Er strandlengja Íslands ekki nógu löng fyrir lúxushótel, höfuðsetur stórfyritækja  og byggingar af þeim toga?

Svona vangaveltur eiga erindi á fund um höfnina og vonandi verður maður einhverju nær á morgunn.  Þetta er mál sem skiptir alla Reykvíkinga máli.

Það er ánægjulegt þegar grasrótarsamtök á borð við Torfusamtökin  boðar til fundar og hafa frumkvæði að umræðu um þetta viðkvæma mál.

Maður skynjar að það sé að byrja betri og opnari umræðuhefð hér á landi um skipulagsmál en tíðkast hefur.  Skipulags- og byggingasvið Reykjavíkur hélt fyrir nokkrum misserum almenna fundi þar sem sérstaklega var óskað eftir málefnalegri gagnrýni.  Vesturbæjarráð Reykjavíkur hefur átt frumkvæði að fundum með íbúum hverfisins þar sem skipulagsmál á frumstigi voru til umræðu.  Það er ástæða til að halda að umræðan sé að breytast eftir áratugaskeið þar sem þeir sem voru í einhverjum vafa um stefnu í skipulagsmálum borgarinnar voru litnir hornauga og umræðan var nánast lokuð í þröngum hópum.   Þá var skipulagið kynnt þegar vinnunni var lokið.  Svona virðist þetta ekki vera lengur.  Ágætt dæmi er forkynning á skipulagi Landspítalans við Hringbraut.  Þar er skipulagið kynnt rækilega á vinnslustigi og borgarbúum gefinn kostur á að segja sitt álit og hafa áhrif.  Þetta er ánægjuleg og skynsamleg breyting frá því sem áður var.

Líklegt er að skortur á opinni og málefnalegri umræðu  hafi  bitnað á borgarskipulaginu undanfarna áratugi.

Nú er öldin önnur.  Það er beinlínis vel séð að fólk blandi sér í umræðuna og láti í ljós vonbrigði sín eða velþóknun eftir atvikum.

Það verður því spennandi að heyra umræðurnar á fundinum annað kvöld sem hefst kl 20.00 á Cafe Haiti, Tryggvagötu 16 niður við Reykjavíkurhöfn.

Iðandi mannlíf í Reykjavíkurhöfn fyrir örfáum áratugum.

Reykjavíkurhöfn í deiglu

Í skipulagstillögunni að ofan er lagt til að nánast ný byggð komi á milli gamla miðbæjarins og Reykjavíkurhafnar. Það er eins og fleygur komi vestan úr Faxaflóa sem er rekinn milli Gömlu hafnarinnar og gamla miðbæ Reykjavíkur.

Að neðan er svokallað Mýrargötuskipulag.

Hér að neðan eru slóðar að nokkrum pistlum sem birst hafa hér á vefnum um Reykjavíkurhöfn og hafnir almennt undanfarið:

Reykjavíkurhöfn:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/11/18/reykjavikurhofn/

Framtíð Reykjavíkurhafnar:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/11/26/framtid-reykjavikurhafnar/

Höfnin í Kaupmannahöfn:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/11/24/hofnin-i-kaupmannahofn/

Þórshöfn í Færeyjum:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/11/29/thorshofn-i-faereyjum/

Mýrargötuskipulagið:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/08/15/reykjavikurhofn-myrargotuskipulagid/

Markaður við Reykjavíkurhöfn

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

Fiskimarkaður við Reykjavíkurhöfn

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/14/fiskimarkads-tilraun-i-reykjavik-2010/

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.10.2011 - 16:25 - 3 ummæli

1. nóvember-Listalausi dagurinn.

Bandalagi íslenskra listamanna, BÍL  stendur fyrir listalausum dag. sem verður n.k. þriðjudag .  Í  fréttatilkynningu frá BÍL segir m.a.:

“Margir líta á list sem sjálfsagðan hlut í umhverfi okkar og leiða sjaldan hugann að því hvaðan hún kemur eða hvernig hún verður til. Með því að taka einn dag í að velta fyrir sér hugmyndinni um líf án lista má komast að því hvaða þýðingu listirnar hafa fyrir hvert og eitt okkar. Á listalausum degi er fólk því hvatt til að takmarka aðgang að, slökkva á og lækka í öllum þeim listum sem það að nýtur alla jafna. Með því vonast aðstandendur listalausa dagsins til að hvert og eitt okkar átti sig betur á gildi listanna  og mikilvægi í daglega lífinu”.

Bandalagið ætlar að standa fyrir nokkrum táknrænum gjörningum og til hæðgðarauka hefur það  útbúið 15  boðorð sem almenningur getur farið eftir til að forðast allar listir þennan dag.  Takið sérstaklega eftir boðorði nr. 12 og 13:

1. Ekki fara á listasöfn, hönnunarsöfn, gallerí eða minjasöfn sem geyma listaverk.

2. Ekki horfa á myndlistarverk, þar með talin málverk, ljósmyndir, höggmyndir og innsetningar, hvort sem er úti sem inni.

3. Ekki fara á tónleika.

4. Ekki hlusta á tónlist, hvorki af CD, vínil, snældu, stafrænum tónlistarspilurum né snjallsímum (hringitónar meðtaldir).

5. Ekki spila tölvuleik með grafískri mynd.

6. Ekki fara á danssýningu.

7. Ekki lesa skáldsögu, ljóð eða nokkurn annan texta sem talist gæti til fagurbókmennta.

8. Ekki fara í leikhús.

9. Ekki horfa á kvikmynd, hvorki í bíó, af tölvu, í sjónvarpi né hverskonar skjá

10. Ef einhvers konar listaverk birtist í sjónvarpi, t.d. í fréttum eða auglýsingum, ber að loka augunum eða líta undan.

11. Ef tónverk heyrist í sjónvarpi eða útvarpi ber að lækka niður í tækinu.

12. Ekki horfa á byggingar sem eru hannaðar af arkitekt.

13. Ekki horfa á eða ganga um garða sem eru hannaðir af landslagsarkitekt.

14. Ekki horfa á eða ganga í sérhönnuðum fötum eftir fatahönnuð.

15. Ekki gera neitt eða njóta neins sem hægt væri að túlka sem list eða hefur í sér listrænt gildi, þar með talin verk dansara, hönnuða, kvikmyndagerðarmanna, leikara, myndlistar-manna, rithöfunda og tónlistarmanna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.10.2011 - 18:47 - 3 ummæli

Spennandi safn í Hollandi


Hollensku arkitektarnir á stofu Eric van Egeraat luku nýlega við að byggja stækkun á safni í Assen I Hollandi.  Af tilliti til umhverfisins er safnið grafið niður í jörðina.  Þetta er skemmtileg og skynsamleg nálgun fyrir að minnsta kosti tveggja hluta sakir.  Í fyrsta lagi misbýður þessi stóra bygging ekki umhverfinu og í annan stað færa arkitektarnir umhverfinu garð sem stuðlar að vistvænu umhverfi og skilar aftur því landi og gróðri sem byggingin tæki ella af jarðarkringlunni.

Þetta er sem sagt bygging sem tekur fullt tillit til umhverfisins bæði útfrá byggingarlist og vistvænum sjónarmiðum.

Teiknistofa Erick van Egeraat (hollendingur fæddur 1956) hefur vakið athygli fyrir verk sín undanfarin rúmlega 20 ár.  Þar kennir margra grasa og augljóst er að þau leita í smiðju fjölda arkitekta.  Ekki er að sjá að stofan hafi sterk einkenni eða eins og sagt er á dönsku “holdningu”.  Stofan tiplar á ýmsum hugmyndum víðsvegar að en kemur ekki með margar nýjar sjálf. Það er svosem ekkert við það að athuga þó arkitektar séu ekki alltaf að finna upp hjólið en þeir þurfa endilega að finna fjölina sína.

Til þess að skýra þetta birti ég myndir af hugmyndum  Eric van Egeraat að byggingum við höfnina í Kaupmannahöfn.  Þar sér maður fullkomna andstöðu við tillitsemina sem kemur fram í safninu í Hollandi.  Frá mínum bæjardyrum séð eru byggingarnar í Kaupmannahöfn bara tóm vitleysa.

Áhugasamir ættu að skoða heimasíðu stofunnar sem er full af brellum allskonar og svo frumleg að það hálfa væri mikið meira en nóg,  manni verður eiginlega um og ó.  Þar með er ég ekki að segja að þarna sé slæmur arkitektúr á ferð.  Þvert á móti.  Margt þarna er virkilega gott:

http://www.erickvanegeraat.com/


Afstöðumynd.  Þakið er í raun garður.  Aðalingangurinn er um gamalt hús, svipað og í Lousiana eftir Jörgen Bo og Vilhelm Wohlert í Danmörku.   Í gamla húsinu  er stigi og lyfta niður í safnið sem er að mestu neðanjarðar

Sneiðingin sýnir að viðbyggingin er nánast öll neðanjarðar.

Útlitið er svo nærgætið að það sést ekki

Teiknistofa Eric van Egeraat hefur lagt fram tillögu að nýbyggingum við höfnina í Kaupmannahöfn.  Þarna eru fyrir gömul pakkhús sem byggð eru úr gulum múrstein og þakið er með rúmlega 40° halla með rauðu „vingetegl“.  Veggirnir eru fletir með götum í þar sem koma djúp glugga- og hurðaop sem eru í samræmi við þykkt útveggjana.  Allt mjög sjarmerandi og í anda staðarins.

Hollenska arkitektastofan hefur lesið umhverfið þannig að hún telur húsin að ofan passi í umhverfið.  Ég veit ekki hvað maður á að halda.  Mér finnst þetta, eins og áður sagði,  tóm vitleysa.  Það er eins og einhver demón hafi haldið um tölvumúsina og teiknað nokkra púka sem hanga þarna á hafnarbakkanum.

Að neðan er hönnun sömu stofu af húsum í Lundúnum.  Ég þekki ekkert aðstæður þarna og vona að þetta eigi ekki eins illa við  og í Kaupmannahöfn.  En maður óttast það.  Arkitektarnir eru eins og margir stjörnuarkitektar tillitssamari á heimaslóð en erlendis.

„Varist stjörnuarkitekta“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.10.2011 - 14:30 - 4 ummæli

Einbýlishús Högnu Sigurðardóttur

 

Ein af perlum íslenskra einbýlishúsa er til sölu. Það er einbýlishús sem heiðurfélagi Arkitektafélags Íslands, Högna Sigurðardóttir, teiknaði fyrir tæpum 50 árum.

Húsið  er afar sérstakt og ber höfundareinkennum Högnu gott vitni. Það hefur löngum verið sagt að til þess að gott hús verði til þarf bæði góðan arkitekt og góðan verkkaupa. Ef annar bregst, bitnar það á verkinu.  Á húsinu Brekkugerði 19 í Reykjavík má sjá að arkitektinn og verkkaupinn hafa náð saman um byggingu hússins og náð að skapa eitt af bestu húsum sem byggð voru á íslandi á síðustu öld.

Högna fædd í Vestmannaeyjum 6.júlí 1929 og er því á 83 aldursári.

Ég leyfi mér að birta orðrétt yfirlit um feril Högnu af heimasiðu Hönnunarmiðstöðvar  Íslands:

“Högna útskrifaðist sem arkitekt frá École Nationale Supérieure des Beaux-Arts í París árið 1960 og hlaut sérstaka viðurkenningu skólans fyrir lokaverkefni sitt Garðyrkjubýli í Hveragerði. Þá þegar var áhugi hennar á sérkennum landsins, íslenskrar náttúru og veðurfars innblástur í frumlega og sérstaka byggingarlist, sem hún þróaði áfram í seinni verkum sínum. Högna hefur búið og starfað í Frakklandi allt frá námsárunum en jafnframt því skapað mörg bestu verka sinna hérlendis.

Henni hefur hlotnast fjöldi alþjóðlegra viðurkenninga fyrir verk sín, og tók meðal annars sæti í hinni virtu Frönsku Byggingarlistarakademíu árið 1992, auk innlendra viðurkenninga svo sem menningarverðlauna DV í byggingarlist 1994 og heiðursorða Sjónlistaverðlauna Listasafns Akureyrar 2007. Íbúðarhús sem hún teiknaði að Bakkaflöt í Garðabæ hefur verið valið sem ein af 100 merkustu byggingum 20. aldarinnar í Evrópu. Árið 2008 var Högna Sigurðardóttir kosinn heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands”. 

Litmyndirnar með færslunni eru fengnar af vef fasteignasölunnar Remax og svarthvíta myndin er af vef Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.10.2011 - 13:43 - 6 ummæli

Íslenskir arkitektar í fremstu röð

Það hefur marg komið fram að íslenskir arkitektar standa sig afskaplega vel í sínum störfum þegar verk þeirra eru sett  á mælistiku heimsins bestu fagmanna á sviði bygginalistar.

Í síðustu viku hlutu íslenskar arkitektastofur viðurkenningu fyrir framúrskarandi endurbyggingu og endurhæfingu eldri húsa. Að verðlaununum stendur virt stofnun sem heitir Fondation Philippe Rotthier pour l’Architecture í Belgíu.

Viðurkenninguna fengu stofurnar fyrir endurbyggingu á svonefndum brunareit á horni Lækjargötu og Austurstrætis í Reykjavík.

Arkitektastofurnar íslensku eru ARGOS: Arkitektastofa Grétars og Stefáns: Arkitektar Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson. Gullinsnið: Arkitekt Hjörleifur Stefánsson. Studio Granda: Arkitektar Margrét Harðardóttir og Steve Christer.

Viðurkenningin er fyrir bestu endurbyggingar í Evrópu s.l. 5 ár.  Valið stóð milli  framúrskarandi verka frá 19 löndum.

Dómnefndin skoðaði verkin sem voru 101 talsins í ljósi þess hvernig tókst að endurnýja húsin með tilliti til sögunnar og  hvernig tókst að tengja fyrr líf þeirra nýrri nútíma starfsemi. Dómnefndin taldi að öll verkin í  hæsta gæðaflokki og veitti 11 þeirra verðlaun eða sérstaka viðurkenningu.

Í dómnefnd  Philippe Rotthier stofnuninnar sátu 10 virtir dómarar frá 5 löndum.  Þar voru 7 arkitektar, einn blaðamaður, einn sagnfræðingur og einn hagfræðingur.  Stefán Örn Stefánsson arkitekt veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd arkitektanna við hátíðlega athöfn í arkitektúrsafninu í La Loge í Brussel þann 15. þessa mánaðar.

Það er ekki leiðinlegt að eiga fagmenn hér á landi sem hafa sýnt að þeir eru með þeim albestu í Evrópu hvað svona vinnu varðar. Það er ástæða til þess að óska þeim og arkitektastéttinni til hamingju með árangurinn sem mun vonandi vísa veginn og opna augu manna fyrir tækifærum sem finnast í gömlum húsum og ekki síður arfleifðinni. Ekki veitir af.

Það er rétt að geta þess að meðal verðlaunaðra verka í þetta sinn var „Neues Museum“ í Berlín sem einnig hlaut virtustu viðurkenningu byggingarlistar í heimi fyrr á árinu, Mies van der Rohe verðlaunin 2011.

Lækjargata/Austurstræti sem hlaut þessa virtu aðþjóðlegu viðurkenningu er afrakstur arkitektasamkeppni/hugmyndaleit sem haldin var hér á landi árið 2007.  Alls bárust 16 tillögur í samkeppninni sem allar voru teknar til dóms. 

Almenn ánægja var með niðurstöðu samkeppninnar þó ýmsir nýhyggjumenn hafi verið í vafa, eins og gengur.

Það má ekki gleyma dómnefndinni í samkeppninni sem sýndi nokkurn kjark þegar þau fundu tillöguna sem dæmd var til fyrstu verðlauna. Sérstaklega í ljósi þess að skiptar skoðanir eru um uppbyggingu eldri húsa á þennan hátt.  Í dómnefndinni sátu arkitektarnir Valdís Bjarnadóttir og Dennis Davíð Jóhannesson.  Auk þeirra sátu í dómnefndinni stjórnmálamennirnir Dagur B. Eggertsson, Óskar Bergsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir og fulltrúar hagsmunaaðila, þeir Björgólfur Guðmundsson og Lárus Blöndal.

Nú standa þessi hús þarna öllum sem að komu til sóma. Öllum frá borgarstjórn, gegnum samkeppnina, um dómnefnd til höfundanna og framkvæmdaaðila.  Sóma sem erlendir sérfræðingar hafa tekið eftir og flokkað  með því allra besta sem gert hefur verið af þessu tagi í Evrópu s.l. 5 ár.

Hér er slóðin að dómnefndaráli samkeppninnar:

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/frettir/2007/kvos_ba_klingur_loka_tg_fa.pdf

Um þetta verk hefur áður verið fjallað hér.  Sjá þessa slóð:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/06/24/laekjargata-glaesilegt-andsvar/#comments

Lesa má um  „Neues Museum“ í Berlín á þessari slóð:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/05/02/perla-i-berlin-mies-verdlaunin-2011/

Hér er greinargerð á ensku:

https://dl-web.dropbox.com/get/Prix%20Rotthier%20Reykjav%C3%ADk/Historic%20Corner.doc?w=aaaa75c6

Að ofan er tölviteikning úr samkeppninni/hugmyndaleitinni árið 2007

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.10.2011 - 19:05 - 14 ummæli

Skipulagshugmyndir – Landnotkun


Fyrir einum 35 árum var Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur og arkitekt að endurskipuleggja eldri hverfi Reykjavíkurborgar.  Gestur sem er mikill fræðimaður í skipulagsgerð  lagði til að landnotkun væri ákveðin öðruvísi en tíðkaðist.  Það er að segja að hann taldi að það ætti ekki að flokka borgina eftir landnotkun í eins miklu mæli og gert er.

Það áttu ekki að vera 10 hektarar  fyrir atvinnustarfssemi hér,  3 hektarar fyrir stofnanir þar,  5 hektarar  fyrir verslun og þjónustu annarsstaðar.  Og svo bjó fólk á fjórða svæðinu og loks  útivist og íþróttum  safnað á fimmta svæðið.

Hann taldi að það ætti að blanda þessu meira saman en gert hafði verið.

Hann var til dæmis með hugmyndir um að landnotkun miðborgarinnar yrði ákveðin lóðrétt.  Hann vildi ákveða í skipulagi að verslun yrði á jarðhæð,  þjónusta á 2- 3 hæð.  Það sama átti við um stofnanir og svo kæmu íbúðir efst og eða inni á milli og á jöðrum miðborgarinnar.

Af einhverjum ástæðum hættu skipulagsyfirvöld að leita í smiðju Gests þó svo að hann byggi yfir mikilli menntun og reynslu á sviði skipulagsmála.

Þetta kom mér í huga þegar ég var að skoða  gamlar teikningar eftir arkitektinn Léon Kríer sem var umsvifamikill og flinkur arkitekt á sínum tíma þó ég hafi ekki verið aðdáandi hans.  Krier er fæddur í Luxemburg og menntaður í Þýskalandi.

Teikngarnar sína tvennskonar borgarskipulög.  Annarsvegar þar sem borginni er skipt svæði eftir landnotkun.  Krier kallar þá nálgun  “ The ANTI-CITY  of  funktional zones”  eða  “ekki borg sem skipt er niður eftir starfssemi borgarhlutanna”.  (Sjá efst í færslunni)  Á þeirri mynd eru teiknaðar stórar umferðaæðar milli borgarhlutanna með miklum mislægum gatnamótum svipað og við þekkjum á höfuðborgarsvæðinu.

Hinsvegar er teikning af borg sem hann kallar ”The CITY of urban communities” (sjá að neðan)  eða “borg samfélaga” . Þar eru engar hraðbrautir innan borgarinnar, allt er fléttað saman og stuttar vegalengdir milli heimilis, þjónustu, verslunar o.s.frv.  Svo neðst er skissa þar sem hann líkir þessu við skákborð þar sem öllum svörtu reitunum er safnað saman á einn stað.

Þegar þetta er skoðað vaknar spurningin af hverju  fræðileg nálgun í skipulagsmákum varð undir.  Af hverju var skynsamlegum og reyndum lausnum í skipulagi ekki haldið að stjórnmálamönnum og þeim sem mestu réðu?   Hvar var og hvar er umræðan og aðhaldið þegar skipulagsmál eru annarsvegar?.

Mér finnst eins og  skipulagsákvarðanir hafi verið teknar undanfarna áratugi án upplýstrar opinberrar umræðu.

Af gefnu tilefni er bent á að ef smellt er tvisvar á myndirnar þá verða þær stærri og skarpari.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn