Föstudagur 22.7.2011 - 22:26 - 5 ummæli

Arkitektúr í Dalvík-„BERG“ menningarhús

Ég var á árlegri fjallaferð í síðustu viku með vinum mínum og kom við á nokkrum stöðum á Norðurlandi.  Mér til mikillar ánægju varð á vegi mínum framúrskarandi arkitektúr á allmörgum stöðum norðanlands.

Ein byggingana var “Berg” menningarhúsið á Dalvík sem var formlega tekið í notkun þann 5. ágúst 2009.

Húsið er í eigu Sparisjóðs Svarfdæla sem afhenti bæjarstjórn Dalvíkur það til afnota fyrir íbúa Dalvíkurbyggðar.

Í húsinu er aðstaða fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi svo sem listsýningar, tónlistarflutning og menningartengda ferðaþjónustu, auk aðstöðu fyrir ráðstefnuhald.  Bókasafn Dalvíkurbyggðar hefur fengið  glæsilega aðstöðu í húsinu.

Húsið minnti nokkuð á Norræna Húsið í upphafi hvað varðar starfssemi. Þarna var góður salur, aðlaðandi bókasafn og kaffistofa með útsýni í “rétta” átt.  Efnisval er frumlegt og jafnframt spennandi. Hinsvegar er eins og það halli á hvað varðar laus húsgögn og grænlitaða ofanábyggingin hefur ekki augljósan rökstuðning eins og í Norræna Húsinu.

Það sem einkum vakti athygli mina var afstöðumyndin og hvernig húsið er staðsett í bæjarskipulaginu miðsvæðis nálægt ráðhúsinu og heilsgugæslunni.

Af afstöðumyndinni má lesa skýra sýn á nágrennið. Aðkoma er augljós. Úti og innirými spila vel saman. Gætt er að sólargangi og útsýni og ekki síður helstu vindáttum. Ekki veit ég hver sá um lóðarhönnun en hún var hógvær og rökrétt.

Ég óska höfundi Fanneyju Hauksdóttur arkitekt FAÍ og sveitarfélaginu til hamingju með frábært hús sem gaman var að heimsækja.

Salur er fallega hlutfallaður og er í góðum innbyrðis tengslum við anddyri, kaffistofu og bókasafn.

Til suðvesturs er sólrík útiverönd. Heilsugæsla Jóns Haraldssonar arkitekts í baksýn.

Efnisval endurspeglar litinn í fjöllunum i grendinni.

Úr kaffistofunni sem er miðpunktur hússins er útsýni til fjalla handan Eyjafjarðar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.7.2011 - 13:58 - 29 ummæli

“Gulli Helga byggir”

Kollegi minn vakti athygli á sjóvarpsþættinum “Gulli byggir” þar sem Gulli Helga húsasmiður hefur verið fenginn til þess að endurnýja og breyta kjallara í 65 ára gömlu húsi í Reykjavík.  Allt er tekið upp og úr gerð sjónvarpsþáttaröð.

Þetta getur orðið skemmtilegt og fróðlegt sjónvarpsefni sem ber að taka fagnandi.

Undir leiðsögn Gulla og fagmanna á hverju sviði vinna að verkinu íbúar og eigendur húsnæðisins, ásamt vinum og ættingjum.  Eftir því sem virðist hefur enginn arkitekt eða tæknimaður verið kallaður til.  Hinsvegar er leitað ráðgjafar innanhússarkitekts.

Það vakti athygli kollega míns að ekki kom að breytingunum löggiltur arkitekt og var það tilefni þess að hann leitaði til Byggingafulltrúaembættisins í Reykjavík.  Þá kom í ljós að ekki voru skráðar neinar teikningar í tölvukerfi embættisins vegna yfirstandandi breytinga og endurnýjunar hússins Nesvegur 48.  Einungis er að finna frumgögn í skjalasafni þess.  Þau gögn sem starfsmenn embættisins gátu bent honum  á  eru aðalteikning frá árinu 1946 og upprunaleg teikning af ofnalögnum.

Það er rétt hjá kollega mínum að þarna vantar nokkuð á þær ráðleggingar sem Gulli Helga færir áhorfendum.  Viðhald húsa er ekki byggingaleyfisskylt en eftir að hafa horft á þáttinn sýnist mér að þarna sé verið að breyta lögnum, herbergjaskipan virðist vera breytt og fl. Slíkar breytingar þarf að gera uppdrætti af og sækja um formlegt leyfi til framkvæmdanna.

Byggingafulltrúa er kunnugt um þetta tiltekna mál og hlýtur að taki á því og gera rótæka athugasemd við verklag og ráðgjöf Gulla Helga því fólk má ekki halda að svona megi fara fram án þess að það sé skráð og samþykkt. Þetta þarf hann að gera svo eftir sé tekið. Geri hann það ekki er það ámælisvert enda gerir embættið athugasemdir af minna tilefni en þessu í sínum daglegu störfum.

Það má enginn byggja í leyfisleysi, heldur ekki Gulli Helga.
Þátt Ríkisjónvarpsins má sjá á eftirfarandi slóð:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4580055/2011/07/04/

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.7.2011 - 12:43 - 3 ummæli

Vaktarabærinn, Garðastræti

Vaktarabærinn, Garðastræti   23  í Reykjavík hefur verið endurbyggður eftir mælingum  og ráðgjöf arkitektastofunnar ARGOS.  Minjavernd hf hafði með höndum framkvæmdir.  Verkinu lauk nú á vormánuðum og  húsið hefur verið auglýst til sölu

Vaktarabærinn var kallaður svo eftir Guðmundi Gissurarsyni vaktara sem talið er að hafi byggt húsið 1848 eða skömmu áður. Guðmundur var vaktari bæjarins frá 1830 til 1865 og tók við starfinu af föður sínum.

Embætti vaktara hafði verið í Reykjavík með hléum frá 1780 en vaktari vakti yfir bænum og fylgdist með hvort allt væri með feldu og lét vita ef ólag var á hlutunum. t.d. bruni, flóð eða óspektir.  Í  dönskum smábæjum gengu þeir um á næturnar og hrópuðu hvað klukkan var og og létu vita að allt væri í lagi :“Klokken er tre og alt maar vel“ , hrópuðu þeir.

Húsið var hluti bæjarhúsanna í Grjóta, eins elstu bæjanna í Reykjavík og þess sem Grjótaþorpið heitir eftir.

Farið var að búa í húsinu 1868 svo skráð sé þegar Stefán Egilsson, sem átt hafði húsið í tæpt ár seldi það Ingiríði Ólafsdóttur ekkju. Hann keypti það svo reyndar aftur 1880. Kona Stefáns var Sesselja Sigvaldadóttir, ljósmóðir. Synir þeirra voru Sigvaldi Kaldalóns tónskáld, Snæbjörn togaraskipstjóri, Guðmundur glímukappi og Eggert söngvari, sem allir fæddust í húsinu nema sá yngsti Eggert. Stefán seldi Jóni E. Jónssyni húsið árið 1889.

Búið var í húsinu fram á miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar. Í manntölum kemur fram að um 1930 og fram til 1962 búa að jafnaði 6-7 manns í húsinu þegar skráð er.

Vaktarabærinn var að öllum líkindum fyrsta timburhúsið sem byggt var í Grjótaþorpi, fyrir utan hús Innréttinganna við Aðalstræti. Vaktarabærinn er jafnframt eina húsið sem eftir stendur af bænum Grjóta sem var hjáleiga frá Víkurbænum, ein af átta slíkum sem getið er í Jarðabókinni 1703, en jörðin var lögð hinum nýstofnaða kaupstað Reykjavík til við stofnun hans 1786. Húsið er friðað skv. ákvæðum þjóðminjalaga  þar sem hús reist fyrir 1850 eru sjálfkrafa friðuð, ekki er gefin út sérstök friðlysing frá menntamálaráðuneytinu heldur gildir hið almenna ákvæði.

Í júni 2008 afsalaði Reykjavíkurborg Minjavernd hf. húseigninni Garðastræti 23, sem tók þar með að sér endurgerð hússins. Húsið var mælt og teiknað þá um haustið og í framhaldi af því fengið leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til að fjarlægja skúrana sem byggðir höfðu verið við austur og norðurhlið hússins.

Húsið er lítið, einlyft bindingshús, upphaflega klætt utan með reisfjöl, svo sem enn má sjá, þak klætt skarsúð með rennisúð þar á ofan, tvöföldu timburþarki. Hlaðið var í bindinginn, kalkað innan eða klætt bjóstþili í stofu, panel í herbergjum og gólf borðaklædd, bitar ýmist strikaðir eða klæddir strikuðum borðum.  Byggð var lítil forstofa við húsið að austanverðu með stiga á loftið.  

Ofanritaður texti er að mestu fenginn af heimasíða arkitektastofunnar ARGOS. Guðmundur Ingólfsson hjá Ímynd tók ljósmyndirnar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.6.2011 - 12:04 - 29 ummæli

Lækjargata, „Glæsilegt andsvar“

 

Ómar Ragnarsson skrifaði í gær góðan pistil um byggingar í miðborg Reykjavíkur þar sem “glæsilegt andsvar við steinsteypubáknatrúnni” á horni Lækjargötu og Austurstrætis er til umfjöllunar og segir m.a.:

“Fyrir 40 árum var stefnan varðandi byggingar í miðborg Reykjavíkur skýr:  Ryðja skyldi burtu „fúaspýtukofum“ á borð við Bernhöftstorfuna og reisa í staðinn glæsilegar steinsteypuhallir, nýtt Stjórnarráðshús í stað Bernhöftstorfunnar og verslunar- og skrifstofuhallir eða íbúðablokkir, hvar sem því yrði við komið. 

Við vesturenda Austurstrætis reis tákn steinsteypuáráttunnar, Morgunblaðshúsið, og elsta kvikmyndahús Norðurlanda, Fjalakötturinn, var rifinn”. 

……..

Og Ómar heldur áfram:

“Raunar finnst mér það ekki fjarstæð framtíðarsýn að þegar Morgunblaðshúsið sé orðið nógu gamalt og lúið verði það jafnað við jörðu og húsin, sem þar stóðu áður endurreist, verði þetta fyrsta hjarta Reykjavíkur loksins farið að líkjast því sem það hefði alltaf átt að vera. 

Svona steinsteypubákn hafa víða erlendis verið brotin niður og eldri húsagerðir reistar í staðinn, ekki aðeins vegna sögulegra sjónarmiða, heldur hefur reynslan sýnt að það borgar sig peningalega að búa til aðlaðandi og manneskjulegt umhverfi. 

Húsin, sem voru endurreist á horni Austurstrætis og Lækjargötu eru glæsilegt andsvar við steinsteypubáknatrúnni, sem enn má sjá í fullum blóma í formi niðurníddra húsa, sem menn hafa keypt að því er virðist til þess að láta þau eyðileggjast svo að hægt verði að reisa í staðinn steinsteypubákn. 

Ekki var svo lítill slagurinn sem stóð um húsin tvö vestast við Laugaveginn og kyrjaður söngurinn um „ónýtar fúaspýtur“ og „öfgafulla varðveislustefnu“.

Sem betur fer tókst Ólafi F. Magnússyni og fleiri góðu fólki að bjarga þessum húsum og ekki má gleyma stórgóðu framlagi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar hann kynnti samsvarandi málefni frá stórum og smáum borgum í Evrópu og sýndi fram á tvöfalt gildi varðveislustefnunnar, hið menningarsögulega gildi og hið efnahagslega og þjóðfélagslega gildi”. 

Af þessu tilefni er ástæða til að hugleiða spurningu Hildigunnar Sverrisdóttur arkitekts í fyrirlestri sínum á dögunum. En hún spurði, hvað mundi vera gert ef t.d. Njála hyrfi úr öllum bókahillum landsmanna? Yrði ráðinn ritfær maður, til dæmis Andri Snær Magnason, til þess að skrifa bókina aftur og byggja hana á samtölum við þá sem höfðu lesið hana og ýmsum rannsóknum?

Hildigunnur vildi sjálf ekki svara þessu en það vil ég gera.

Mitt svar er: Já.

Ég þakka Ómari Ragnarsyni fyrir góða grein sem ég tók bessaleyfi og birti kafla úr. Slóðin að pistli Ómars er þessi:

http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1175538/

Húsin á horni Lækjargötu og Austurstræti er endurreist samkvæmt teikningum frá arkitektastofunum Argos, Gullinsnið og Studío Granda og ber verkið höfundum sínum gott vitni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.6.2011 - 12:15 - 4 ummæli

Skemmtiefni um skipulag

Hér er bráðskemmtileg skrípamynd frá árinu 1948 þar sem er verið að lýsa þeim hugmyndum sem liggja að baki svokallaðra „New Towns“ á Bretlandseyjum.

Þarna er tekið á mörgum grundvallaratriðum í borgarskipulagi sem enn eru í fullu gildi þó myndin sé orðin 63 ára.

Myndbandið er  skemmtilegt og margir geta ýmislegt af því lært. Sem dæmi er þarna lagt til að séð sé fyrir matvöruverslun í íbúðahverfum.

Í vesturbæ Reykjavíkur hefur helstu matvöruverslunum verið beint út úr íbúðahverfinu og út á Granda þar sem samkvæmt skipulagi er stefnt að  hafnar- og iðnaðarstarfssemi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.6.2011 - 12:18 - 9 ummæli

„Borgir fyrir fólk“ – Jan Gehl

.

Gréta Björnsdóttir sem heldur úti vefsíðunni Hugmynd.dk benti mér á eftirfarandi slóð að fyrirlestri Jan Gehl sem fluttur var fyrir nokkrum dögum.

Fyrirlesturinn byggir á bók Gehls,  “Byer for mennesker” sem kom út á síðasta ári  og fjallar um  manneskjuna  sem þungamiðju borgarskipulagsáætlana.

Jan var kennari á Akademíunni í Kaupmannahöfn þegar ég gekk þar í skóla og ritstýrði merkilegu efni um lága þétta íbúðabyggð. Frægust bóka hans er “Livet mellem husene” sem kom út fyrir um 40 árum og stöðugt er verið að endurútgefa.  Bókin hefur verið þýdd á tugi tungumála.

Ef þú hefur um tvennt að velja til þess að verja 100 mínútum.  Annarsvegar að horfa á nánast tilgangslausan fótboltaleik í sjónvarpinu á 100 mínútum eða hinsvegar að nota tímann til þess að horfa á þetta myndband er valið auðvelt.  Horfðu  á myndbandið sem hér fylgir. Ef þú hefur tíma til að horfa á tvo fótboltaleiki í sjónvarpinu þá skaltu sleppa því og horfa á þennan fyrirlestur tvisvar í staðinn. Þú sérð ekki eftir því.

Í raun ættu allir sem láta sig varða skipulags- og umhverfismál að nýta sér þetta tækifæri. Hér er um sérstaklega áhugavert efni að ræða fyrir  kjörna fulltrúa sveitarfélaga, ráðgjafa, fulltrúa hverfafélaga, foreldrafélaga og aðgerðarsinna í skipulags og umhverfimálum.

14.06. 2011     kl 23.15

Lesandi síðunnar, Davíð Guðmundsson, benti á fyrirlestur Jan Gehl um sama efni sem fluttur er á ensku. Ég hef ekki hlýtt á hann en geri ráð fyrir að einhverjir sem ekki eru sterkir á danska tungu geti haft gagn af þessari útgáfu:

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.6.2011 - 20:48 - 25 ummæli

Reiðhjólavæðing Kaupmannahafnar

Hér gefur að líta skemmtilegt myndband um svokallaða “Copenhagenisation” eða reiðhjólavæðingu Kaupmannahafnar þar sem nú er svo komið að meira en helmingur fullorðinna notar reiðhjól til þess að ferðast til og frá vinnu.

Kaupmannahöfn hefur alltaf verið hjólreiðaborg en hún hefur vaxið sem slík á undanförnum árum.

Þarna er stutt viðtal við Jan Gehl sem spyr hvort ástæðan fyrir fjölgun hjólandi sé umhyggja fólks fyrir umhverfinu? Hann svara að það hafi hjálpað smávegis.  Svo spyr hann hvort  aukning hjólreiða sé vegna þess að fólk áliti það heilsusamlegt? Og hann svarar aftur að það sé líka smá hluti af ástæðunni fyrir auknum hjólreiðum.  Þá spyr hann hvort fólk noti reiðhjólin vegna þess að það sé ódýrara? Hann telur það skipti ekki miklu  máli.

Og svo í lokin segir hann að Kaupmannahafnarbúar hafa valið reiðhjólið fyrst og fremst vegna þess að það er fljótlegur og þægilegur ferðamáti í borginni. Besti kosturinn!!

Semsagt að reiðhjólið er .i Kaupmannahöfn tekið fram yfir aðra kosti vegna þess að það er fljótlegra og þægilegra en aðrir valkostir. Aukaatriði er að hjólreiðar mengi minna, stuðli að betri heilsu og sé hagkvæmari en einkabílaþráhyggjan sem hefur ráðið í skipulagsmálum og samgöngumálum hér á landi um áratugaskeið.

Gestgjafi myndbandsins er hinn skeleggi Richard Quest frá CNN

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2011 - 23:16 - 11 ummæli

Arkitaktanám og stéttarvitund

Ég sótti skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur í hádeginu í dag þar sem Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt var að pæla í “stétt”.

Hún bar saman ýmsar stéttir og setti þær í samhengi. Hún fjallaði um nám í arkitektúr og starfsþjálfun arkitekta annarsvegar og lækna hinsvegar. Það er margt líkt með þessum tveim stéttum þegar kemur að námi þeirra og starfsþjálfun.

Hildigunnur lagði fram reynslusögur frá Danmörku þar sem kom fram að meðaltími sem arkitekt notar til þess að ljúka námi sínu í háskólaskóla eru 7 ár.

Í Danmörku er álitið að arkitektinn sé ekki fær um að taka að sér fullvaxið verkefni fyrr en eftir 5-7 ára starfsþjálfun að loknu háskólanámi.

Það er viss samhljómur þarna milli arkitekta og lækna.

Fyrir utan menntun arkitekta fjallaði Hildigunnur á spennandi hátt um viðhorf arkitekta til fagsins.

Hildigunnur spurði áleitinna akademiskra spurninga á borð við hvað mundi vera gert ef t.d. Njála hyrfi úr öllum bókahillum landsmanna? Hún spurði hvort ráðinn yrði ritfær maður, til dæmis Andri Snær Magnason, til þess að skrifa bókina aftur og byggja hana á samtölum við þá sem höfðu lesið hana og ýmsum rannsóknum?

Þetta var tímabær fyrirlestur enda er vinna arkitekta vanmetin og umfjöllun um arkitektúr nánast engin hér á landi.   Það er eins og arkitektastéttin sé á hliðarlínunni í stað þess að leiða umræðuna.

Hildigunnur kallaði eftir gagnrýni og rökræðum í stétt arkitekta og samfélagsins.

Þetta var dæmigerður akademiskur fyrirlestur sem skildi aheyrandann eftir fullan gagnrýnna og skapandi hugleiðinga.

Meðan á erindi Hildigunnar stóð fór ég að velta fyrir mér stéttarvitund arkitekta og hvort samstaðan og fagleg umræða sé tiltölulega lítil hér á landi vegna þess að við lærðum okkar fag í mörgum löndum og á mörgum tungumálum. Það er stundum eins og  stéttinn tali ekki sama tungumál eða sé ekki á sömu bylgjulengd þegar umræðan er annarsvegar.

Ég minntist þeirra væntinga sem gerðar voru til menntunar í faginu hér á landi og vonina um að umræða yrði þéttari og faglegri við það að menntun arkitekta væri flutt til Íslands og allir töluðu sama tungumálið.

Þegar kennsla í arkitektúr var að hefjast hér á landi var mikið rætt um hvort hún skildi vistuð í Háskóla Íslands eða Listaháskólanum og sitt sýndist hverjum. Lendingin varð LHÍ þrátt fyrir að félagsfundur Arkitektafélagsins hafði mælt með öðru.

Maður spyr sig hvort valið hafi haft áhrif á þróun stéttarvitundar arkitekta á þeim 10 árum sem liðin eru? Hvort tækifæri til rannsókna væru önnur ef námið væri vistað innan veggja Háskóla Íslands?  Mér skilst að það séu nú einungis tvær heilar fastar stöður í arkitektúrdeild LHÍ

Spurningin er hvort HÍ  hafi sterkari tengsl við fræðasamfélagið en LHÍ og hvort þar gæfist betra tækifæri til þess að styrkja tengslanet arkitekta við samfélagið í heild sem gagnast arkitektunum þegar á vinnumarkað er komið?

Eru tengsl arkitektanema við samfélagið kannski ekki mikið öflugri nú en áður en námið var flutt heim, vegna smæðar LHÍ?

Er ástæða til þess að endurmeta stöðu og staðsetningu náms í arkitektúr og skoða stöðuna í ljósi umræðu um fækkun háskóla hér á landi?

Er ástæða til þess að nota tækifærið og sameina skild fög, arkitektúr, skipulag, innanhússhönnun og landslagsarkitektúr í einum stórum skóla, Háskóla Íslands, nú eða LHÍ?

Þessi fög eru nú kennd í fjórum af sjö háskólum hér á landi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.5.2011 - 12:28 - 10 ummæli

STEINAR OG STERKIR LITIR

Í formála bókarinnar STEINAR OG STERKIR LITIR (Skálholtsútgáfan 1965) talar Björn Th. Björnsson um hinar „þöglu listir“. Þar á hann við að myndlist og skúlptúr tali hljóðlaust til augans.  Hinsvegar talar tónlist, leiklist og ritlist til eyrans.   Ég velti fyrir mér hvar Björn hefði flokkað byggingarlistina. Ætli hún sé ekki hlóðlátust allra lista.  Því er nefnilega þannig háttað að byggingalistin gefur ekki frá sér hljóð þó hún kunni að endurvarpa því. Menn tala ekki einusinni um arkitektúr hér á landi. Það er sífellt verið að fjalla um myndlist í prent- og ljósvakamiðlum og því er hún ekki algerlega þögul. Menn ræða myndlist meðan byggingalistin situr hjá garði og fær nánast enga umfjöllun. Það er varla talað um byggingarlist hér á landi.

Ástæðan er meðal annars sú að fræðin hafa verið flutt hingað frá svo mörgum löndum og mörgum málsvæðum með menntun arkitekta að sameiginlegt tungumál um greinina hefur aldrei orðið til. Arkitektarnir tala sitt hvort tungumálið og hver hefur sín viðmið frá sínu skólalandi. Þetta hefur haft áhryf á umræðuna.

Þegar stofnað var til arkitektúrnáms hér á landi í Listaháskóla Íslands var von til þess að breyting yrði á. Vonast var til þess að arkitektasamfélagið og þeir sem fjalla um byggingarlist færu að tala sama tungumálið, íslensku.

Nú hefur verið kennd byggingarlist hér á landi til BA prófs í 10 ár án þess að merkjanleg aukning á umræðu um byggingalist og skipulagsmál hafi átt sér stað. Ég hef rökstuddan grun um að eitthvert enskudekur sé á ferðinni í arkitektúrdeild LHÍ. Því til stuðnings nefni ég að nemar skólans kynntu verkefni sitt á ensku í ráðhúsi Reykjavíkur fyrir nokkru!

En meðan  umfjöllun um byggingarlist er í skötulíki verður maður  að meta það svo að byggingalist sé hljóðlátust allra listgreina.

Ég er búinn að skrifa sérsniðna vefsíðu um arkitektúr, skipulag og staðarprýði í bráðum tvö ár. Viðtökurnar hafa verið framar vonum og hafa skrifin hér ítrekað orðið tilefni umfjöllunar í  prentmiðlum, ljósvakamiðlum og á örum vefsíðum.

Það sem veldur mér vonbrigðum er viðhorf fólks til umfjöllunarinnar. Þegar eitthvað fær hrós þá er það talin málefnaleg umfjöllun og á hinn bóginn þegar einhverju er hallmælt er umræðan talin ómálefnaleg. 

Þó ég fái mjög mikinn stuðning frá kollegum mínum þá eru einstakir farnir að kasta fæð á mig vegna skrifanna. Það er auðvitað óþarfi vegna þess að tækifæri er til að gera athugasemdir og leiðrétta  strax ef eitthvað er ónákvæmt  eða rangt í færslunum.(Ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa tjáð sig í athugasemdarkerfinu og með því gefið arkitektúr rödd. Athugasemdirnar eru nú orðnar hartnær þrem þúsundum)

Einn afgerandi kostur vefmiðla  er einmitt að þeir eru gagnvirkir. Sá sem leggur út og segir skoðun sína býður uppá andmæli, eða viðbætur í athugasemdarkerfinu. Að þessu leiti standa vefmiðlar langt framar öllum öðrum miðlum. Vefmiðill getur sérhæft sig jafnvel mjög þröngt þannig að hann nær til fámenns hóps lesenda með sérhæft áhugasvið.

Vefmiðill er  hraðvirkur og nær á örskotsstund yfir alla heimsbyggðina. Og þegar mikið liggur við er hægt að koma skilaboðum eða fréttum til allra sem áhuga hafa á nokkrum mínútum. Á vefmiðli er hægt að birta ljósmyndir og teikningar, talað mál og kvikmyndir. Þetta er ekki hægt í prentmiðlum.

Gallinn við vefmiðla er að þeir njóta ekki mikillar virðingar. Menn bölsótast út í vefmiðla og telja þá óáreiðanlega og ómerkilega. Ástæðan fyrir því er sú að það er talsvert til af sóðabloggi. En það er líka mikið til af sóðablaðamennsku og sóða blaðaútgáfu. En maður útskúfar ekki blaðaútgáfu þó til sé sóðablaðamennska. Það sem maður gerir er að velja. Maður les ekki hvaða vefsíðu sem er frekar en hvaða prentmiðil sem er.

Hjálagt eru myndir af málverkum eftir Tryggva Ólafsson myndlistarmann. Ég endurtek hugmynd um að koma fyrir myndlist í tónlistarhúsi allra íslendinga, Hörpu.


Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.5.2011 - 10:24 - 6 ummæli

Svartur litur Hörpunnar



Maður hefur lært um skilaboð litanna. Sagt er að rautt sé litur ástar og rómantíkur, næmni, hita., hlýleika og orku. Grænn leiðir hugann að rólegheitum, frjóssemi, grósku, náttúrunni og peningum. Hvíti liturinn er oft tákn um tærleika, sakleysi, hreinlæti, hlutleysi, rýmistilfinningu en líka litur sorgar.

En svart, hvað segir svarti liturinn? Hann er oft tákn um hið illa og syndsamlega. Hann er líka vísbending um vald, mátt, kraft, styrk og gáfur. En hann er ekki síður litur sorgar og dauða. Og svarti liturinn er á okkar dögum talinn smart. Sennilega  er það rétt, allavega  er hann “inn”.

Þetta eru svona hinn almmenni skilgreiningur á litunum.

Til viðbótar kemur persónuleg tilfinning einstaklinganna fyrir litunum sem byggist á reynslu og upplifunum á lífsleiðinni og getur verið margvíslegur. Alla litina er að finna á pallettunniog svo er það auðvitað samsetning þeirra sem skiptir mestu.

Þar liggur listin.

Gísli Halldórsson arkitekt hélt því fram fyrir áratugum að hús ættu ekki að vera svört á litinn. Sérstaklega á norðlægum slóðum þar sem dagsbirta er takmörkuð mánuðum saman á ári hverju.

Þegar ég gekk inn í Hörpuna á dögunum kom mér þetta í hug og velti fyrir mér af hverju arkitektarnir ákváðu að velja svart sem ráðandi lit í almenna rými hússins?

Ég átti von á að upplifa ljóst og bjart rými innnan við allt glerið. Rými þar sem himinn og jörð mættust og rampar, svala-  og tröppugangar væru einskonar ský, “cloud nine”!

Það eru ekki bara gólfin sem eru svört heldur veggirnir og loftin líka. Mér finnst þetta ekki ósmekklegt en þetta er óvenjulegt, og athyglisvert.

Auðvitað á maður ekki að gagnrýna verk sem ekki er klárað og það geri ég ekki heldur en ég vek á þessu athygli. Svo er það líka það að húsið kemur til að hafa aðra áferð í skammdeginu en núna yfir bjartasta tíma ársins.

Annað sem vakti athygli mína var að í almennu rýmunum þar sem mikið er um stóra heillega veggfleti var hvergi að sjá myndlist.

Ég vil ljúka þessum pistil með því að gera tillögu um að úr því verði bætt og myndlist flutt inn í húsið  þannig að fléttaðar verða saman listgreinar þrjár; tónlist, myndlist og móðir listanna, arkitektúr.


Svört steinsteypan er slípuð og fallega unnin, sérstaklega á súlum á neðstu hæð hússins.

Ég gæti séð á þessum stóru veggflötum öfluga nútímamyndlist eftir málara á borð við Magnús Kjartansson, Sigurð Örlygsson eða Tryggva Ólafsson. Eigendur Hörpunnar, Ríkið og Reykljavíkurborg eiga gnægð af frábærum listaverkum í geymslum Listasafns Ríkisins og Listasafns  Reykjavíkur sem færu vel þarna.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn