Ég var á árlegri fjallaferð í síðustu viku með vinum mínum og kom við á nokkrum stöðum á Norðurlandi. Mér til mikillar ánægju varð á vegi mínum framúrskarandi arkitektúr á allmörgum stöðum norðanlands.
Ein byggingana var “Berg” menningarhúsið á Dalvík sem var formlega tekið í notkun þann 5. ágúst 2009.
Húsið er í eigu Sparisjóðs Svarfdæla sem afhenti bæjarstjórn Dalvíkur það til afnota fyrir íbúa Dalvíkurbyggðar.
Í húsinu er aðstaða fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi svo sem listsýningar, tónlistarflutning og menningartengda ferðaþjónustu, auk aðstöðu fyrir ráðstefnuhald. Bókasafn Dalvíkurbyggðar hefur fengið glæsilega aðstöðu í húsinu.
Húsið minnti nokkuð á Norræna Húsið í upphafi hvað varðar starfssemi. Þarna var góður salur, aðlaðandi bókasafn og kaffistofa með útsýni í “rétta” átt. Efnisval er frumlegt og jafnframt spennandi. Hinsvegar er eins og það halli á hvað varðar laus húsgögn og grænlitaða ofanábyggingin hefur ekki augljósan rökstuðning eins og í Norræna Húsinu.
Það sem einkum vakti athygli mina var afstöðumyndin og hvernig húsið er staðsett í bæjarskipulaginu miðsvæðis nálægt ráðhúsinu og heilsgugæslunni.
Af afstöðumyndinni má lesa skýra sýn á nágrennið. Aðkoma er augljós. Úti og innirými spila vel saman. Gætt er að sólargangi og útsýni og ekki síður helstu vindáttum. Ekki veit ég hver sá um lóðarhönnun en hún var hógvær og rökrétt.
Ég óska höfundi Fanneyju Hauksdóttur arkitekt FAÍ og sveitarfélaginu til hamingju með frábært hús sem gaman var að heimsækja.
Salur er fallega hlutfallaður og er í góðum innbyrðis tengslum við anddyri, kaffistofu og bókasafn.
Til suðvesturs er sólrík útiverönd. Heilsugæsla Jóns Haraldssonar arkitekts í baksýn.
Efnisval endurspeglar litinn í fjöllunum i grendinni.
Úr kaffistofunni sem er miðpunktur hússins er útsýni til fjalla handan Eyjafjarðar.