Þegar borin eru saman mannvirkjalög hér á landi og í nágrannalöndunum verður maður strax í fyrstu grein var við mikinn áherslumun.
Í fyrstu grein íslensku laganna um markmið þeirra er fjallað um líf og heilsu manna, hagkvæmni, tæknilegar framfarir, orkunýtingu og fl. þ.h..
Hvergi í lagabálknum er fjallað um menningarlegt gildi mannvirkja og orð eins og byggingarlist, fagurfræði eða menningararfur koma þar hvergi fyrir.
Ef skoðuð eru samsvarandi lög í nágrannalöndunum kveður við annan, betri og menningarlegri tón.
Þar er arkitektúr, menningarverðmæti og fagurfræði lykilatriði og meginmarkmið lagasmíðarinnar.
Svo tekið sé dæmi af þeirri dönsku “Byggeloven” þá er strax í fyrstu grein sagt að tilgangur laganna sé að stuðla að arkitektóniskum gæðum í byggingunum (§ 1. Denne lov har til formål:…at fremme arkitektonisk kvalitet i byggeriet,) Þetta er stutt og án tvímæla hjá dönunum.
Í “Plan- og byggeloven” sem gildir í Noregi segir í fyrstu grein um tilgang laganna að hann sé að stuðla að fagurfræðilegri mótun umhverfisins (…estetisk utforming av omgivelsene). Og annarsstaðar að söguleg, arkitektónisk og önnur menningarleg verðmæti tengd útliti bygginga skuli varðveita eins og frekast er unnt.( at historisk, arkitektonisk eller annen kulturell verdi som knytter seg til et byggverks ytre, så vidt mulig blir bevart.) Norsku lögin taka einnig á fagurfræðinni í skipulagsmálum og víðar.
Í “Plan- og bygglag” í Svíþjóð er eins og annarstaðar á Norðurlöndunum tekið á menningu og byggingarlist ( (En byggnad ska … ha en god form-, färg- och materialverkan …) og þar er gerð sú krafa að í starfsliði bygginganefndar sveitarfélags sé að minnstakosti einn menntaður arkitekt. (Byggnadsnämnden ska ha minst en person med arkitektutbildning till sin hjälp …)
Ef mannvirkjalög nágrannalandanna eru skimuð verður maður undrandi á að hin íslensku “Lög um mannvirki” nr. 160/2010 skuli hafa komist í gegnum þingið án þess að tekið sé á fagurfræði, byggingarlist eða menningararf í þessum mikla lagabálki.
Hefur einhver sofið á verðinum eða vildu þeir sem sömdu og samþykktu lögin hafa þetta á annan hátt er á hinum Norðurlöndunum? Eru þetta góð eða gölluð mannvirkjalög?
Myndin efst í færslunni er síða úr Jónsbók, lögbók frá 1281 kennd við lögmanninn Jón Einarsson gelgju.