Miðvikudagur 16.3.2011 - 08:15 - 20 ummæli

Gölluð mannvirkjalög ?

Þegar borin eru saman mannvirkjalög hér á landi og í nágrannalöndunum verður maður strax í fyrstu grein var við mikinn áherslumun.

Í fyrstu grein íslensku laganna um markmið þeirra er fjallað um líf og heilsu manna, hagkvæmni, tæknilegar framfarir, orkunýtingu og fl. þ.h..

Hvergi í lagabálknum er fjallað um menningarlegt gildi mannvirkja og orð eins og byggingarlist, fagurfræði eða menningararfur koma þar hvergi fyrir.

Ef skoðuð eru samsvarandi lög í nágrannalöndunum kveður við annan, betri og menningarlegri tón.

Þar er arkitektúr, menningarverðmæti og fagurfræði lykilatriði og meginmarkmið lagasmíðarinnar.

Svo tekið sé dæmi af þeirri dönsku “Byggeloven” þá er strax í fyrstu grein sagt að tilgangur laganna sé að stuðla að arkitektóniskum gæðum í byggingunum (§ 1. Denne lov har til formål:…at fremme arkitektonisk kvalitet i byggeriet,)  Þetta er stutt og án tvímæla hjá dönunum.

Í “Plan- og byggeloven”  sem gildir í Noregi segir í fyrstu grein um tilgang laganna  að hann sé að stuðla að fagurfræðilegri mótun umhverfisins (…estetisk utforming av omgivelsene). Og annarsstaðar að söguleg, arkitektónisk og önnur menningarleg verðmæti tengd útliti bygginga skuli varðveita eins og frekast er unnt.( at historisk, arkitektonisk eller annen kulturell verdi som knytter seg til et byggverks ytre, så vidt mulig blir bevart.) Norsku lögin taka einnig  á fagurfræðinni í skipulagsmálum og víðar.

Í “Plan- og bygglag” í Svíþjóð er eins og annarstaðar á Norðurlöndunum tekið á menningu og byggingarlist (  (En byggnad ska … ha en god form-, färg- och materialverkan …) og þar er gerð sú krafa  að í starfsliði bygginganefndar sveitarfélags sé að minnstakosti einn menntaður arkitekt. (Byggnadsnämnden ska ha minst en person med arkitektutbildning till sin hjälp …)

Ef mannvirkjalög nágrannalandanna eru skimuð verður maður undrandi á að hin íslensku “Lög um mannvirki” nr. 160/2010 skuli hafa komist í gegnum þingið án þess að tekið sé á fagurfræði, byggingarlist eða menningararf í þessum mikla lagabálki.

Hefur einhver sofið á verðinum eða vildu þeir sem sömdu og samþykktu lögin hafa þetta á annan hátt er á hinum Norðurlöndunum?  Eru þetta góð eða  gölluð mannvirkjalög?

Myndin efst í færslunni er síða úr Jónsbók, lögbók frá 1281 kennd við lögmanninn Jón Einarsson gelgju.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.3.2011 - 09:00 - 2 ummæli

Lifandi skrifstofuinnrétting

Sænska fyritækið ”abstracta” hefur sett á markað óvenju létt og hreyfanlegt vinnustöðvakerfi fyrir opið svegjanlegt og lifandi  skrifstofulandslag.

Framleiðslan var kynnt og sýnd nýlegar á stóru hönnunarsýningunni í Stokkhólmi.

Í aðalatriðum er um að ræða hljóðdempandi skerm sem stendur á hjólum (með bremsu) og borðplötu á einum fæti. Vinnustöðina getur einn maður auðveldlega flutt til,  nánast með annarri hendi.

Kerfið kalla þau í samræmi við hreyfanleikann ”MOBI”.

Samkvæmt hugmyndafræðinni að baki MOBI á kerfið að auka sveigjanleika, skapa lifandi skrifstofuumhverfi og fækka fermetrum húsnæðis á hverja starfsstöð.

Með þráðlausu neti og símkerfi er þetta vænlegt val fyrir framsækin svegjanleg fyritæki.

Þarna kemur enn ein hugmyndin fram sem lýtur að betri og virkari nýtingu á því húsnæði sem til ráðstöfunar er.

Opna skrifstofulandslagið hafði þann tilgang í upphafi að efla samskipti milli starfsmanna og auka upplýsingaflæði og fletja út valdapíramítann og skapa umhverfi fyrir láréttan stjórnunarstíl. Tilgangurinn var líka, og ekki síður, að nýta húsnæðið betur.

Þegar tölvurnar komu þurfti aukapláss fyrir skjánna sem voru milli 60 og 70 cm djúpir. Vegna þessara djúpu skjáa urðu skrifborðin breiðari eða að skjárinn var settur í horn. Eitt úrræðið til að spara pláss á þessum tíma var að setja  lyklaborðið  í sérstaka útdraganlega skúffu.  Þegar flatskjáirnir komu varð til meira pláss og  skrifborðin mjókkuðu aftur um c.a. 20-25 cm.  Það eitt gerði það að verkum að hver vinnustöð þurfti ½ fermetra minna pláss en áður.  Með öðrum orðum má minnka 1000 manna vinnustað um 500 fermetra ef allir vinna í opnu skrifstofulandslagi eingöngu vegna tilkomu flatskjásins.

Hugmynd abstracta gengur út á frekari landvinninga í húsnæðismálum þeirra sem vinna við skrifborð.

Heimasíða abstracta er: http://www.abstracta.se/

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.3.2011 - 15:33 - 8 ummæli

Nystárlegt fjölbýlishús-Blönduð byggð

Siðan Le Corbusier kom fram með hugmyndir sínar um Unité d’Habitation hefur ekki verið unnið áfram með hugmyndina að marki fyrr en núna, ef frá eru taldar tilraunir Moshe Shafdie fyrir um 30 árum.

Húsið sem um ræðir er eftir danska arkitektinn Bjarke Ingels hjá BIG.  Þetta er fjöleignahús sem inniheldur fjölbreyttar hýbýlagerðir með 476 íbúðum ásamt skrifstofu- og verslunarhúsnæði þar sem vinna á fimmta hundrað manns. Húsið er í raun „blönduð byggð“

Byggingin er alls 61 þúsund fermetrar og er afar nýstárleg. Ekki er ólíklegt að í húsinu starfi og búi rúmlega 2000 manns. Í Byggingu Le Courbisiere er líka að finna verslun og þjónustu ásamt íbúðahúsnæði fyrir álíka marga.  Á þaki húss Corbusier er garður,  það er einnig á umræddu húsi en auk þess er þar að finna  e.k. raðhús með litlum einkagörðum.

Til þess að kynnast þessu nýstárlega fjölbýlishúsi betur er gagnlegt að skoða myndband sem fylgir færslunni. Þetta er alveg einstakt myndband þar sem höfundurinn skýrir verkið út með hjálp frumlegrar tölvutækni. Endilega skoðið þetta myndband sem er í tveim 6-7 mínútna hlutum.  Slóðin er hér.:

Ég birti hér í lokin almennan texta um verklag BIG sem Björn Hallsson hefur skrifaði við færslu um byggingu þeirra í Grænlandi. Lýsing Björns er sannfærandi og tek ég undir greiningu Björns sem fer hér á eftir.  Slóðin að færslunni um bygginguna í Grænlandi er þessi:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/02/14/graenland-big-is-getting-bigger/#comments

Gefum Birni Hallssyni orðið:

“…..Eitthvað er gott við verk allra arkitekta. Það á að sjálfsögðu við um verk BIG, sem hefur náð framgangi á skömmum tíma umfram marga. Sérstaklega er áhugavert að sjá nálgunaraðferðir í mörgum verkefnum þeirra og sniðugar útkomur í stórum dráttum hugmyndanna. Það verður hinsvegar að segja eins og er að á þeim punkti virðist þróun hugmyndanna stöðvast meira eða minna, sem er afskaplega miður.

Afraksturinn eru nánast undantekningalaust afar hráar hugmyndir sem ná því ekki að verða að full þróuðum lausnum. Yfirbragðið er gjarnan eins og fyrstu módel í frumgerð hugmynda sem síðan fá ekki frekari þróun. Ekki er gott að segja hvað veldur þessu, en það er áhugaverð spurning. Er það ákafi arkitektanna í að koma tillögum á framfæri, er það hugsanlega áhugaleysi umfram frum hugmyndir, er um að ræða skort á virðingu fyrir verkefninu, eða vantar hreinlega tilfinningu fyrir þróun góðra hugmynda þannig að þær nái að verða góðar lausnir í smáatriðum jafnt sem þeim stóru?……”

Að lokum endurtek ég meðmæli með myndbandinu sem er í tveim hlutum og tekur einar 13 mínútur samtals. Þetta er í raun stórbrotin kynning á húsinu bæði hvað varðar skipulag og hugmyndina að baki hönnun þess.



Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.3.2011 - 16:35 - 2 ummæli

Íslenskir arkitektar meðal þeirra bestu

Fyrir allnokkrum árum fengu dönsku arkitektarnir Christian Lund og Kirsten Kiser þá hugmynd að efna til sýningar  á litlum garðhúsum (Kolonihavehus) þar sem þrettán af kunnustu arkitektum heims yrði boðið að hanna ódýr smáhýsi af því tagi sem almenningur reisti í garðlöndum utan við stórborgir á árum áður. Samtímis átti að halda opna samkeppni milli minna þekktra arkitekkta om hús á sýninguna. Þannig átti að bera saman þá þekktu og minni spámenn.

Þetta eru smáhýsi sem eru velþekkt víða. Húsin eru örsmá (um 7,5 m2) á svona 200 fermetra lóðum sem notaðar voru til grænmetisræktunar o.fl. Hér á landi var áhugi fólks á matjurtarækt mikill eftir stríð og um 1950 voru um tvö þúsund fjölskyldur í Reykjavík með ræktunarreit. Stærsta ræktunarsvæðið var í Kringlumýri (þar sem nú eru mót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar), en auk þess voru garðlönd á Melunum, í Fossvogi, við Borgartún og í Laugardal. Í garðlöndum Reykvíkinga risu sumarskýli (Kolonihavehús) og jafnvel heilsársbústaðir sem nú eru flestir löngu horfnir undir malbik og steinsteypu.

Þátttaka í verkefni Lund og Kiser var mikil og tóku allir þekktustu arkitektar veraldarinnar þátt. Ég nefni Henning Larsen, Frank O. Gehry, Tadao Ando, Mario Botta, Ralph Erskine, Micael Graves, Arata Isozaki, Richard Meyer, Richard Rodgers og fleiri.

Það sem vaktir sérstaka athygli er að ein af vinningstillögunum var unnin af arkitektunum Hjördísi Sigurgísladóttur og Dennis Davíð Jóhannessyni. Tillaga þeirra varð hlutskörpust í samkeppninni hér á landi og komst í flokk með Kolonihavehúsum hinna heimsfrægu.

Hjördís og Dennis segja hugmynd sýna lýsa „garðskála sem sem felur í sér andstæðurnar í íslenskri náttúru og íslenskri þjóð. Neðri helmingurinn er lokað rými sem hægt er að leita skjóls í á myrkum vetrardögum. Í efri hluta hússins, undir gagnsæju hvolfþaki, er hægt að dást að miðnætursólinni, stjörnunum eða norðurljósunum.“

Efst í færslunni er blaðaúrklippa þar sem fjallað er um verk íslendinganna. Þar kemur fram að verkið er nú í eigu Louisiana listasafnsins í Danmörku sem fjallað var um í síðustu færslu. Verkið er geymt i „Pemanent Collection“ Louisiana og tilheyrir því.

Hér að neðan eru myndir af verkum nokkurra arkitekta. Efst er verki Dennis og Hjördísar. Þá koma tvær myndir af tillögu Richard Meyer. svo kemur verk Leo Krier, Michael Graves, Tadao Ando, Mario Botta og svo endar röðin aftur á skissu þeirra Dennis og Hjördísar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2011 - 23:45 - 4 ummæli

Louisiana í Danmörku

Einhver sagði einhverntíma: “Til hvers að fara til Danmerkur ef ekki væri það til þess að heimsækja Louisiana listasafnið?” *)

Umrætt nútímalistasafn er í Humlebæk á norður Sjálandi og er það vissulega virði einnar ferðar til Danmerkur a.m.k.

Það sem gerir safnið einstakt, byggingarlistarlega, er að það er í nokkrum byggingum sem tengdar eru saman með glergöngum sem slengja sig milli trjáa í landslaginu. Ef nefna ætti eitt dæmi um byggingu sem kallast á við umhverfið og nýtir kosti þess þá kemur mér Louisiana fyrst í hug. Ekki bara að byggingin taki sjálf tillit til landsins nær og fjær heldur upplifir gesturinn landið, náttúruna og umhverfið á eðlilegan og afslappaðann hátt þegar hann færir sig milli rýma safnsins. Og þá gyldir einu hvort hann er innan- eða utandyra. Safnið er ekki síður einstakt hvað varðar myndlistina.

Byggingarnar er konfekt fyrir unnendur byggingalistar, konfekt fyrir unnendur garðlistar og konfekt fyrir unnendur ósnortinnar náttúru. Þessu til viðbótar er þarna að finna úrvalsverk eftir bestu myndlistarmenn síðari tíma í vestrænum heimi.

Alexander Brun byggði þarna hús fyrir sennilega meira en 100 árum sem hann nefndi Louisiana eftir eiginkonum sínum þrem sem allar hétu Loise. Gamla húsið stendur enn og þjónar sem aðalinngangur í safnið.

Safnið er stofnað árið 1958, af Knud W. Jensen sem átti húsið á þeim tíma. Jensen réði tvo  arkitekta, þá Wilhelm Wohlert og Jörgen Bo til verksins. Þeir urðu síðar báðir prófessorar við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn.

Meðal listaverka í eigu safnsins má nefna verk eftir marga fremstu listamenn nútímans. Menn á borð við Roy Lichtenstein, Henry Moore Andy Warhole, Anselm Kiefer, Alberto Giacometti, Pablo Picasso, Yves Klein, Robert Rauschenberg, Asger Jörn, okkar mann Svavar Guðnason og marga fleiri

Eins og áður er getið skipar landslagið lykilhlutverk þarna. Landslagið samanstendur af  grasflötum  og hallandi grænum brekkum í átt að Eyrarsundi með áberandi stórum eðaltrjám og runnum sem mynda með útilistaverkum forgrunn útsýnis til sjávar. Á lóðinni eru þrívíð verk heimsfrægra manna eins og Jean Arp, Max Ernst, Alexander Calder (sonur Calders sem gerði Leifsstyttuna við Hallgrímskirkju) Henri Laurens, Louise Bougeois, Jean Miro og að sjálfsögðu Henry Moore.

Mér er hlýtt til Louisisana m.a. vegna þess að annar höfundanna Jörgen Bo var kennari minn og professor á Listaakademíunnin í Kaupmannahöfn. Það voru líka fleiri íslenskir arkitektar sem nutu kennslu hans. Ég nefni Sverri Norðfjörð heitinn, Albínu Thordarson, Dagnýju Helgadóttur,  og fl.  Stefán Thors skipulagsstjóri var einnig nemandi hans um tíma. Það má því ætla að þessir tveir heiðursmenn hafi skilað einhverju af kunnáttu sinni hingað til lands.

*) Mig minnir að það hafi verið Hörður Ágústsson myndlistarmaður og heiðursfélagi arkitektafékagsins sem sagði þetta þegar hann var í DK að skoða sýningu Man Ray í Louisiana fyrir einum 35 árum





Afstöðumynd og grunnmynd. Ljósgrái hlutinn er neðanjarðartenging milli álmana tveggja.


Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.3.2011 - 22:19 - 1 ummæli

Le Corbusier – Eintal

Það er ekki oft sem á vegi manns verður viðtal við Le Corbusier, og það á ensku. Viðtalið sem hlýða má á hér að neðan er tekið árið 1958, þegar hann var 71 árs gamall.  Hann segist hafa teiknað hús frá því hann var 17 ára að aldri.  Af lítillæti segir Le Corbusier í viðtalinu að sum húsa hans hafi verið “katastrofa” og endrum og eins hafi þau verið vel heppnuð.  Hann segir einnig  að hann vinni með höndunum og augunum þar sem poesían sé meginatriði.

Ég hafði alltaf á tilfinningunni að Le Corbusier hafi verið harður og jafnvel hrokafullur.  Annað kemur á daginn. Hann virðist einstakt ljúfmenni á að hlýða.

Þetta er skemmtilegt viðtal þar sem hann talar um sjálfan sig og byggingalistina. Það er kannski rangt að kalla þetta viðtal.  Þetta er frekar eintal, skemmtilegt eintal sem tekur rúmar þrjár mínútur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.3.2011 - 16:19 - 14 ummæli

“Skipulagsslys í uppsiglingu” ?

Í færslu minni síðastliðinn miðvikudag var kynnt deiliskipulagstillaga á horni Laugavegar og Vatnsstígs þar sem lagt er til að gjörbreyta ásýnd götunnar og auka byggingamagn verulega miðað við það em nú er. Í athugasemdum kemur fram að fólki sýnist að þarna sé „skipulagsslys“ í uppsiglingu.

Guðlaugur Gauti Jónsson, fyrrverandi formaður Arkitektafélags Íslands telur eftir að hafa kynnt sér málið að hér sé enn eitt skipulagsslysið í uppsiglingu og segir í athugasemd:  “Það er ótrúlegt að menn vilji rífa upp götumyndina frá Hverfisgötu til Laugavegs á þennan hátt” og síðar “Ég hélt í barnaskap mínum að við værum komin miklu lengra en þetta”.

Þau Hjördís og Dennis sem komið hafa að tillögugerð á þessu svæði vitna í bókun Vinstri grænna, Samfylkingar og F-lista frá fyrri tíð en þar stendur „Við allar ákvarðanir um uppbyggingu og skipulag í miðborginni ber að virða anda miðborgarinnar og samhengi sögunnar eftir því sem framast er nokkur kostur“.

Stefán Benediktsson sem einnig var formaður Arkitektafélags Íslands segir einnig í athugasemdarkerfinu:”Vatnsstígstorgið með skrýtna steypta húsinu var alltaf sannfærandi, en ég sé ekki hvaða forsendur knýja á um að rífa Einars Erlendssonarhúsið”. Þarna á Stefán við torgið í skipulagi Hjördísar og Dennis sem sjá má á uppdrætti að ofan.

Einn sem tjáði sig við umrædda færslu er EINAR, en hann segir “Það sem hefur gerst er að í deiliskipulagi margra reita í miðborginni er gefið fyrirheit um mikla aukningu á fermetrum bygginga. Oft svo mikla aukningu að lóðin og byggingarétturinn verður meira virði en húsið sem á lóðinni stendur. Þegar svoleiðis stendur á er ekki fjárhagslegur ávinningur af því að halda gömlu húsunum við og reitirnir slummvæðast”.

Þegar ég skrifaði færsluna var ég staddur erlendis og hafði ekki skoðað svæðið sérstaklega vegna færslunnar en gerði það rétt áðan. Niðurstaða mín er í takti við skoðanir þeirra sem tjáðu sig við fyrri færslu.  Mér sýnist að þarna þurfi að endurskoða skipulagshugmynd sem á rætur sínar einhversstaðar í góðærinu.

Er ekki rétt að endurskoða deiliskipulög reitanna í miðborginni og taka þá mið af breyttu umhverfi i efnahagsmálum og breyttu viðhorfi til eldri húsa, staðarandans og umhverfisins?

Efst er deiliskipulag Hördísar og Dennis. Þar má sjá liðlegra skipulag en það sem er nú í kynningu og meira í takti við bókun minnihluta skipulagsnefndar á sínum tíma.

Fyrri færslu og ummæli má lesa hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/03/02/deiliskipulag-vid-vatnsstig/

Tölvutækar myndir af skipulaginu má finna hér:

Deiliskipulagstillagan (PDF)

Skýringaruppdráttur (PDF)

Og hugleiðingu um deiliskipulög hér:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/02/09/gildistimi-deiliskipulaga/

Að neðan er svo mynd sem tekin var í suddanum á Vatnsstíg rétt í þessu.  Á myndinni sjást tvö hús sem munu víkja vegna deiliskipulagsins.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.3.2011 - 17:00 - 1 ummæli

Íslenskir arkitektar í 2. sæti-Alþjóðleg samkeppni

Fyrir nokkru var haldin samkeppni um nýja kirkju í bænum Hatlehol í nágrenni Ålesund í Noregi.  Alls bárust 123 tillögur sem allar voru teknar til dóms.

Fyrstu verðlaun hlaut dönsk arkitektastofa, Cornelius+Vöge.

Það sem vakti athygli mína var þáttaka tveggja íslenskra arkitekta í þessari stóru samkeppni. Það voru arkitektastofan arkitektur.is annarsvegar og Magnús G. Björnsson arkitekt hinsvegar. Það kann að vera að aðrir íslenskir arkitektar, sem mér er ekki kunnugt um, hafi líka tekið þátt.

Arkitektur.is hefur verið virk hér á landi meðan Magnús, sem lærði í Noregi, hefur starfað í Ástralíu um áratugi. Eitt helsta verk Magnúsar hérlendis er fjölbrautarskólinn á Sauðárkróki sem hann og Jóhannes Kjarval teiknuðu í samstarfi.

Árangur arkitektur.is var stórgóður og deildu þau öðru sætinu með norska arkitektinum Terje Grönmo. Og fengu þeir hvor um sig 100.000.- norskar krónur í verðlaun.

Þetta er glæsileg framistaða hjá arkitektur.is og sýnir enn einu sinni færni íslenskra arkitekta sem geta mælt sig með þeim bestu hvar sem er. 

Einn fagdómaranna í samkeppninni í Hatlehol, Arne Sæther arkitekt,  er kunningi minn og einn helsti sérfræðingur í kirkjubyggingum á norðurlöndunum. Arne hefur skrifað frábærar bækur um efnið. Fyrir svona 10 árum kom hann hingað til lands og hélt stórfróðlegt erindi um kirkjubyggingar, sögu þeirra og táknmál.

Það er óhætt að óska arkitektur.is til hamingju með árangurinn.

Efst er tölvumynd af kirkjuskipi í tillögu arkitektur.is.

Það er eftirtektarvert að ekkert hefur verið fjallað um þetta afrek arkitektur.is í fjölmiðlum.  Mig grunar að ef um væri að ræða tónlistarmenn sem væru í öðru sæti í alþjóðlegri keppni hefði pressan tekið betur við sér svo ég tali nú ekki um íþróttir. Ef íslenskir íþróttamenn hljóta annað sæti á alþjóðlegu móti er þeim boðið til Bessastaða. Jafnvel fegurðarsamkeppnir og slíkt vekja meiri athygli en toppárangur íslenskra arkitekta á alþjóðavettvangi. Þetta er líka að hlutatil pr. mál arkitektanna sjálfra. Ég verð þess stundum var að miðlungsverk og verk undir meðalgæðum eru að þvælast á vefmiðlum og í tímaritum. Þau virðast ekki vera þarna af eigin verðleikum heldur vegna þess að þeim er kerfisbundið hampað. Svo eru til framúrskarandi verk sem ekki fá þá umfjöllun sem þau eiga skilið.

Ég hef oft haldið því fram að afstöðumyndin skipti meira máli en margur gerir sér grein fyrir. Ég hef skoðað nokkkrar afstöðumyndir frá samkeppninni og sé að tillaga arkitektur.is er fallega og vel leyst. Þarna er einskonar skógarparkering þar sem flæði akandi og gangandi er liðlegt og hnökralaust. Aðkoma er skýr og blasir við  þegar inn á lóðina er komið.

Fyrstuverðlaunatillaga dönsku arkitektana Cornelius+Vöge

Kirkjuskip tillögu Magnúsar G. Björnssonar. Hér má nálgast frekari upplýsingar um Magnús:

http://www.worldarchitecture.org/world-architects/?worldarchitects=architectdetail&country=Australia&no=1722&title=Magnus%20G.%C2%A0Bjornsson

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.3.2011 - 12:15 - 7 ummæli

Deiliskipulag við Vatnsstíg

Fyrir nokkrum árum voru þrjár arkitektastofur fengnar til þess að gera deiliskipulag af lóðunum á horni Vatnsstígs og Laugavegar. Annarsvegar var það ARKD-Arkitektar Hjördís og Dennis og hinsvegar arkitektastofan Arkibúllan. Ég man ekki hver þriðja stofan var. Markmiðið var að tvinna saman aukið byggingamagn í deiliskipulaginu og samtímis að gera sögulegu umhverfi Laugavegar hátt undir höfði. Í skipulaginu eru gerðar kröfur til gæða bygginganna við Laugaveg.  Tillögurnar sýndu að það er mögulegt að tvinna saman uppbyggingu og varðveislu.  Í bók Snorra F. Hilmarssonar “101 Tækifæri” er fjallað um þetta skipulag og talað um að “varðveisla geti líka verið uppbygging” og kveður þar við nýjan tón.

Eftir samanburð var ákveðið að fela Arkibúllunni áframhaldandi vinnu og er skipulag þeirra nú í kynningu sem lýkur 7. mars.

Það er til margs að líta í skipulagsmálum og sjónarmiðin mörg þar sem stundum rekst hver á annars horn. Til viðbótar koma fjárhagslegir hagsmunir og samningar margskonar þar sem ýmsir fyrirvarar og ákvæði fylgja hverjum eigendaskiptum. Þegar vegfarandi gengur göturnar og dáist að umhverfinu aða hryllir við því þá byggist upplifunin á því sem hann sér og skynjar. Lögfræðiálit, reglugerðir og samningar milli einkaaðila er allt vegfarandanum ósýnilegt þó allt þetta hafi haft veruleg áhryf á niðurstöðuna. Hann dæmir eftir því sem hann sér.

Í Tillögunni er gert ráð fyrir að húsin Vatnsstígur 4 og Laugarvegur 33 A víki fyrir nýbyggingu. Efst í færslunni er mynd sem tekin var í kjölfar hústöku og bruna fyrir nokkrum árum. Það er þekkt aðferð víða um heim að láta byggingar eða hverfi „slummast“  og níðast niður til þess að vinna fylgi við stórar og arðbærar framkvæmdir.  Ég er ekki að segja að sú aðferðarfræði sé viðhöfð hér en það læðist að manni sá grunur að aðferðinni sé beitt í Reykjavík eins og víða annarsstaðar.

Ef skýringarmynd, sem vísað er til að neðan, er skoðuð sér  maður hvernig höfundar sjá fyrir sér götumyndina að framkvæmdum loknum. Þar er staðaranda breytt með nýbyggingu og tvær eldri byggingar fjarlægðar.  Ég velti fyrir mér hvort ekki sé farið og geyst í deiliskipulagi á stundum. Eins og hér. Ef horft er á götuna þá kallar hún ekki á deiliskipulag. Það sem þarf að gera er að finna húsunum og götunni hlutverk og gera húsin upp í samræmi við það. Það væri sómi af götunni með þeim byggingum sem þarna standa vel endurbyggðum.

Því miður hef ég ekki undir höndum tölvutækar myndir af skipulaginu og vísa því á eftirfarandi tengla:

Deiliskipulagstillagan (PDF)

Skýringaruppdráttur (PDF)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.2.2011 - 00:38 - 5 ummæli

Mies is More-Innrétting íbúða

Þær myndir sem hér fylgja eru allar teknar í íbúðahúsi eftir Mies van der Rohe í Lafayette Park í Detroit í Bandaríkjunum. Ljósmyndarinn er Hollendingurinn Corine Vermeulen sem býr þar í bæ. Myndirnar birtust með grein í New York Times fyrir nokkru og sýnir okkur hvernig íbúarnir læra á húsin og móta híbýli sín, hver eftir sínu nefi.

Það vakti athygli í húsi Palmars Kristmundssonar sem kynnt var hér fyrir nokkru hvað húsið var fyritækislegt í efnisvali, listskreytingu og húsgagnavali. Þar voru engir erfðagripir, fjölskyldumyndir eða annað sem gaf til kynna hverjir áttu þarna heima eða hvaðan þeir komu.

Sjá slóð:    http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/02/21/islenskir-arkitektar/

Á þeim myndum sem hér fylgja getur maður velt fyrir sér hvaða folk býr þarna, hvaða áhugamál það hefur o.s.frv.  þó allt þetta folk búi í samskonar íbúð.  Hvert heimili hefur sterkan karakter, séreinkenni sem speglar fortíð og persónur íbúana. Kannski er þetta það sem kallað er „architecture without architects“?   Við sjáum einfalt rými, stofuna, sem er í góðum hlutföllum með léttan stiga öðru meginn og  eldhús hinu megin. Við horfum frá stórum gluggavegg. Rymið virðist smella inn í kennisetninguna “less is more” enda er hvergi að sjá prjál eða óþarfa hlut frá hendi arkitektsins. Þrátt fyrir einfaldleika í byggingalistinni býr fólk sér heimili að sínum smekk, áhugamálum og að sínu skapi. Rýmið, stiginn og staðsetning eldhússins er fast allt annað breytilegt og meira………Mies is More.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn