Mánudagur 17.1.2011 - 16:55 - 3 ummæli

45 ára gamalt sumarhús

 

Kollegi minn minnti mig á sumarhús sem Gehrdt Bornebusch arkitekt teiknaði fyrir tæpum 50 árum í Oddsherred í Danmörku.  Hann var að bera húsið í síðustu færslu minni við þetta gamla hús. Það er margt líkt með þeim. Þau byggja á sömu grunnhugmynd þó þau séu byggð með um 50 ára millibili í sitt hvorri heimsálfunni.

Eins og sést á afstöðumyndunum þá líkjast þessi hús hvoru öðru í meginatriðum. Bæði eru lokuð í aðra áttina og opin á móti birtunni og útsýninu í hina. Bæði taka mikið tillit til umhverfisins og láta náttúruna njóta sín. Danska húsið er mun minna að stærð og íburði en það ameríska. Annað eru rúmir 50 fermetrar en hitt tæpir 500. Ameríska húsið er mjög fínlegt í öllum frágangi og hlaðið margskonar tæknilegum þægindum. Það danska er gróft og útivistarlegt með tæknilegum þægindum í lágmarki.

Húsið er úr timbri og styður sig við boginn lokaðan múrsteinsvegg og opnast til suðurs að útsýni og skógarrjóðri. Þakið er klætt með grágrænni, nú mosavaxinni borðaklæðningu. Efnisvalið er gróft, frumstætt og náttúrulegt. Það mundi að líkindum skora 100% í BREEM  mati ef strætó gengi framhjá.

Gehrdt Bornebusch  sem er fæddur 1925 vann hjá Arne Jacobsen í byrjun sjötta áratugarins og var mikils metinn í dönsku arkitektaumhverfi um sína daga. Ekki veit ég hvort hann lifir enn.

Þennan texta má lesa í bók sem fjallar m.a. um þetta hús og það er arkitektinn sem hefur orðið:

“Jeg kan huske, at jeg satte mig ned på træstub, og begynte at skitsere på min tegneblok. Det tog vel et par minutter, så var huset tegnet, og som det ligger i dag, er det i alle væsentlige træk idendisk med denne, den förste skitse”.

Afsötðumynd og grunnmynd. Fríhendisskissa frá hendi arkitektsins.

Hlið að lokuðum sólríkum garði. Létt ásýnd með borðaklæddu þaki.

P.S.

Það er ekki auðvelt að afla sér upplýsinga um byggingar sem voru hannaðar fyrir tíma veraldarvefsins. Hvorki almennar upplýsingar né myndefni. Hinsvegar eru hinar ómerkilegustu byggingar að þvælast fyrir manni út um allt á vefnum. Sérstaklega ef þær eru teiknaðar af einhverjum tölvunördum eða arkitektum sem hafa slíka í þjónustu sinni.

Það er ekki mikið til á netinu um hús Bornebusch. Þær upplýsingar sem hér birtast er úr bók sem fyrrnefndur kollegi minn sendi mér ljósrit úr.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.1.2011 - 16:38 - 10 ummæli

Íbúðarhús í sveitinni

Íbúðarhúsið situr á basaltklöpp milli trjáa og því er gefið form sem tekur fullt tillit til lóðarinnar og aðstæðna þar. Húsið er í Washington fylki í Bandaríkjunum  þar sem í umhverfinu ríkir: vatn, hávaxin tré, basaltklappir, fjalllendi, lágvaxinn undirgróður og dýralíf.

Húsið fellur vel að landinu og ekki bara það, heldur er efnisval og litir í rökréttu samhengi við staðinn og umhverfið. Grunnmyndin er einföld og afstöðumyndin tekur að sama skapi á öllum grundvallargæðum og -göllum umhverfisins. Styrkir kosti staðarins og dregur úr göllum hans. Niðurstaðan er fallegt starfrænt hús með mikilli staðarvitund.

Á grunnmyndinni sést að húsinu er skipt í tvennt. Annarsvegar aðalhús og hinsvegar úthús, annex, fyrir gesti eða fullorðna fjölskyldumeðlimi.  Milli húsanna er yfirbyggð verönd með útivistaraðstöðu og grilli.

Húsið fékk verðlaunin Merit Award 2010 Honor Awards for Washington Architecture. Arkitektarnir eru Helitrope Architects í Seattle, Wasington USA. Myndirnar  eru fengnar af heimasíðu arkitektanna. Slóðin þangað er:

http://www.heliotropearchitects.com/

Þetta er góður staðbundinn arkitektúr sem er laus við kæki tíðarandans.

Grunnmynd.: Húsinu sem skipt er í tvennt, fangar landslagið og virðir það. Til hægri er aðalhúsið og til vinstri gestahúsið. Húsin tvö eru tengd saman með göngupalli og þaki eða „pergola“. Undir húsinu lengst til hægri eru rými fyrir bifreiðageymslu og annað slíkt.

Afstöðumynd.:  Höfuðáttirnar, útsýnið, landslagið í nálægð og fjarlægð setur mark sitt á hönnunina.  Hvort sem litið er til hússins eða frá því.

Inngangurinn gefur fyrirheit um það sem koma skal.

Séð úr eldhúsi fram í stofu og að anddyri.

Veröndin sem tengir húshlutana saman

Grill og útivistaraðstaða milli húshlutana tveggja.

Vinnuherbergi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.1.2011 - 09:13 - 8 ummæli

Nútíma klisjur í byggingalistinni.

Undanfarin nokkur ár hefur gengið yfir heiminn ákveðin gerð arkitektúrs sem hefur hvorki staðareinkenni né höfundareinkenni að neinu marki. Maður sér þetta um allan heim og stíllinn hefur engin landamæri. Einkennin eru samspil húshluta sem eru kassalaga og raðað saman eftir aðstæðum. Veggfletirnir eru hvítir, þökin hafa flata ásýnd og gluggarnir eru göt í veggjunum eða að þeir koma í bilin milli húshlutanna. Stundum er framið stílbrot með ásetningi þar sem timburklæðningu eða öðru smávægilegu er skotið inn  og  léttir manni oftast lundina.  Oftast er þetta einfalt og fallegt en virkar stundum svoldið sjalfsmiðað.

Sennilega er þetta algengasta húsform samtímans og svona hús er að finna í miklu upplagi um alla veröldina.

Húsin eru að sjálfsögðu misvel gerð. Myndirnar sem fylgja er af einu slíku í háum gæðaflokki er eftir Jorge Mealha, byggt í Portúgal.

Svipuð hús hafa verið byggð víða hér á landi undanfarin ár.  Þetta er skilt funktionalismanum og er smart en óskiljanlegt hafi maður gleraugu regionalismans á nefinu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.1.2011 - 23:00 - 8 ummæli

Nýtt Fangelsi í Danmörku

Arkitektastofan C.F. Möller, í Danmörku, hefur unnið samkeppni arkitekta um nýtt fangelsi þar í landi.  Þetta er í sjálfu sér ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að nú eru fangelsisbyggingar líka á dagskrá hér á landi.

Fangelsið í Danmörku er ætlað fyrir 250 fanga og á að byggja á eynni Falster fyrir sunnan Sjáland.

Vinningstillagan setur fram hugmynd um fangelsi í  dreifðri lágri byggð.  Það er að segja að fangelsinu er gefið bæjarlegt yfirbragð  og  er byggt umhverfis kjarna sem inniheldur  aðstöðu fanga til  margskonar menntunar-,  íþrótta og tómstundaathafna.  Þetta á að vera einskonar þorp eða samfélag.  Lóðin er um 15 hektarar með sex metra háum vegg umhverfis.   Þetta var að verulegum hluta landslagsverkefni þar sem áhersla er lögð á að draga úr áhrifum byggingarinnar í viðkvæmu demigerði dönsku landbúnaðar landslagi.

Talsmaður höfunda, Mads Mandrup arkitekt hjá C.F. Möller, segir  að byggingalistin skipti miklu máli fyrir fangana og þeirra upplifun og þroska innan múranna.  Þess vegna er lögð áhersla á mismunandi rými innan byggðarinnar þar sem sköpuð eru tækifæri til þess að njóta og upplifa á jákvæðan hátt rými og náttúru, skerpa sýn fanganna á félagslegu og náttúrulegu umhverfi sínu.  Sjálf byggingalistin vegur þungt þarna að mati Mandrups.

Að undangengnu forvali voru átta arkitektastofur valdar til þátttöku í samkeppninni. Það vekur athygli að þær eru allar danskar. Þarna var engin erlend stofa. Maður veltir fyrir sér hvernig þeir hafa farið að því frændur vorir, Danir, að sneiða frá reyndum fangelsisarkitektum Evrópusambandsins sem starfa utan Danmerkur. Það læðist að manni sá grunur að þarna hafi verið beitt einhverjum skynsamlegum tæknilegum viðskiptahindrunum.

Dönsku stofurnar voru auk C.F.Möller: Arkitema, schmidt hammer & lassen, Lundgaard & Tranberg, Erik Møller Arkitekter, PLH Arkitekter, Kjær & Richter og Henning Larsen Architects/Friis & Moltke saman.

Ég þekki sumar þessar stofur en veit ekki til þess að þær hafi komið að fangelsisbyggingu svo nokkru nemi eða séu sérfræðingar á því sviði. En arkitektar eiga að kunna að afla sér upplýsinga um það sem þeir taka sér fyrir hendur.  Og það geta þeir flestir með miklum ágætum. Það er einmitt einkenni starfs arkitekta að kunna að setja sig inn í og meta aðstæður og  starfrænar kröfur og spinna svo gott umhverfi sem fullnægir væntingum.

Samkeppnin var haldin í samvinnu við Danska Arkitektafélagið

Afstöðumynd

Ein  af sex fangaeiningum

Fangaklefar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.1.2011 - 00:16 - 9 ummæli

Faxagarður – skólaverkefni

Skoskur nemi í arkitektúr er að undirbúa  skólaverkefni sitt við arkitektaskólann “Mackintosh School of Architecture” í Glasgow. Verkefið heitir “Sailing & Maritime Akademi” í Reykjavíkurhöfn.

Arkitektaneminn sem heitir Richard Almond hefur  haft samband við mig í kjölfar lesturs bloggsins. Hann kann ekki orð í íslenku en notar forrit frá Google til þess að snara textanum á ensku og spyr svo upplýstra spurninga. Ótrúlegt!

Eins og áður sagði er neminn að hugsa um aðstöðu fyrir siglinga akademíu þar sem kennt er ýmislegt um siglingar og efni sem varðar sjóinn. þetta er hafnsækin starfssemi. Hann skoðaði fjórar steðsetningar og valdi að lokum, Faxagarð sem er næst Hörpu. Það kemur fram að honum finnst Harpa of  fyrirferðarmikil og á skjön við karakter borgarinnar. Richard kom til Íslands í haust og notaði tímann vel til þess að draga að sér anda staðarins.

Hann tekur eftir litunum, bárujárninu og  honum finnst stundum eins og staðsetning húsanna hafi ráðist af tilviljun.

Það er alltaf gaman að sjá og kynnast því hvernig útlendingar sjá okkar umhverfi og arkitektar eru sérstaklega þjálfaðir í að lesa umhverfi sitt þó sumir þeirra eigi erfitt með það.

Aðferðarfræðin er þekkt. Fyrst skoðar hann söguna.  Svo áttar hann sig á stöðunni eins og hún er í dag og að lokum skoðar hann framtíðaráform þar sem hann styðst við verðlaunatillögu í samkeppni um svæðið fyrir rúmu ári.

Teikningar Richards og ljósmyndir eru upplýsandi og gefa manni góða hugmynd um hvernig hann les umhverfið.  Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu. Leiðbeinandi hans á arkitektaskólanum er Graeme Massie, sem vann eimitt samkeppnina um Vatsmýrina á sínum tíma  ásamt samkeppni um Reykjavíkurhöfn fyrir rúmu ári þannig að hann hefur leibeinanda sem þekkir til í Reykjavík.

Verkefnið er á frumstigi  en það er gaman að skoða teikningar nemans og lesa um vangavelturnar hans og staðarvitund. Þær má nálgast  hér:

http://blog.rafolio.co.uk/

Reykjavíkurhöfn með verðlaunatillögu teiknaðri inn. Staðirnir sem voru skoðaðir eru merktir A, B, C og D

Reykjavík um aldamótin 1800 og svo aftur um aldamótin 1900

Fyrstu hugmyndirmeð reykvískum þakhöllum og byggingarefni.

Einhvernvegin hef ég það á tilfinningunni að þetta sé ekki íslenskur bátur sem Richard Almond notar hér. En það er fyrirgefið vegna þess hve myndin er falleg.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.1.2011 - 08:19 - 15 ummæli

Árbæjarsafn í Viðey-þétting byggðar

Allt frá því árið 1978 hefur mikið verið rætt um þéttingu byggðar í Reykjavík og hefur Reykjavíkurflugvöllur margsinnis verið dreginn inn í þá umræðu.  Eðlilega.

Vatsmýrin virðist í fljótu bragði vera augljós kostur enda blasa þar við á annað hundrað hektarar byggingalands í námunda við miðborgina.

Ég hef verið nokkuð flöktandi varðandi framtíð Vatnsmýrarinnar en er nú á þeirri skoðun að meðan ekki finnst annar staður fyrir Reykjavíkurflugvöll eigum við að gera ráð fyrir honum þar sem hann er um ókomna framtíð,  auðvitað  með einhverjum breytingum.

Land flugvallarins er talið um 140 hektarar.  Það er í fullri notkun og ekki er fyrirsjáanleg þörf fyrir það á næstu áratugum til annarra nota. Það má jafnvel segja að brotthvarf flugvallarins og uppbygging í Vatnsmýri sé árframhaldandi útþensla borgarinnar út yfir mýrar og móa.  Þetta segi ég með það í huga að þjónusta og almenningssamgöngur í úthverfum borgarinnar munu ekki batna eða aukast við uppbyggingu í Vatnsmýri. Sennilega þvert á móti.

Þétting byggðar getur farið fram þrátt fyrir flugvöllinn. Bent hefur verið á mikla þéttingarmöguleika víða innan núverandi byggðar fyrir utan að klára þarf þau lönd sem þegar hafa verið brotin undir byggð eins og blasir við víða, t.d. í Úlfarsárdal.

Samúel T. Pétursson hefur bent á möguleika á að breyta nokkrum götum í borgarstræti (Miklabraut og fl.), Gísli Marteinn Baldursson hefur  bent á mikla uppbyggingamöguleika í Skeifunni og svo mætti lengi telja.

Ég vil leyfa mér að dusta rykið af hugmynd um að flytja Árbæjarsafn út í Viðey. Við þá framkvæmd munu losna milli 15 og 25 hektarar lands sem nýta mætti til íbúðabyggðar. Þetta er kjörland fyrir íbúðabyggð í nánum tengslum við stofnbrautir, þjónustu og útivistarsvæði.  Ártúnsholtið hentar illa fyrir byggða- eða húsasafn. Viðey er hinsvegar kjörland fyrir slíkt sem væntanlega yrði kallað “Viðeyjarsafn”.  Í Viðey er meira og betra rými fyrir safnið og tengingin við Viðeyjarstofu er kostur.  Lagðar hafa verið fram raunhæfar hugmyndir um þetta og tillögur um brýr milli lands og eyjar.

Bara það land sem nú er frátekið fyrir Árbæjarsafn er milli 15 og 20% af byggingarlandi í Vatnsmýri.

Svo ég komi aftur að Vatsmýrinni þá væri ekki vitlaust að auglýsa skipulagssamkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar þar sem forsenda væri að flugvöllurinn yrði um kyrrt.  Slík samkeppni mun án vafa varpa nýju ljósi á þau tækifæri sem þar er að finna.

Hjálagðar eru teikningar af Árbæjarsafni eins og það gæti litið út á austurhluta Viðeyjar, þar sem þorpsbyggðin var á tímum Milljónafélagsins frá því skömmu eftir aldamótin 1900 og fram undir lok seinni heimstyrjaldarinnar. Teikningarnar fann ég á heimasíðu arkitektastofunnar ARGOS.  Þá koma tvær ljósmyndir teknar af Magnúsi Ólafssyni af sama svæði sem fengnar eru af ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.1.2011 - 15:36 - 5 ummæli

Framkvæmdasýslan-Vistvænar byggingar

Vistvænar byggingar hafa verið á dagskrá síðan í orkukreppunni uppúr 1970. Umræðan hófst, fyrir alvöru vegna kreppunnar,  þegar menn fóru að leita að úrræðum til þess að minnka orkunotkun húsa. Tilraunahús voru byggð þar sem húsin sjálf öfluðu allrar þeirrar orku sem á þurfti að halda vegna lífsins inni í húsunum og reksturs þeirra. Þetta voru kölluð  „núll energi hús“.

Seinna, um 1990, kom upp hugmyndafræði  sem skammstöfuð var LCA (Life Cycel Analysing) sem gekk út á að huga að umhvefisvænum efnum sem ekki eru hættuleg heilsu manna, eru heppileg til endurvinnslu og auðvelt að farga. Hugsað var til allra umhverfisþátta á líftíma byggingarinnar.  Borgarholtsskóli var hannaður undir þessum merkjum.

Tillaga, í arkitektasamkeppni hér á landi fyrir einum 15 árum, um „fjölbýlishús framtíðarinnar“ á vegum Húsnæðismálastofnunnar,  tók fullt tillit til sjónarmiða vistvænna bygginga og núgildandi matskrafa, (BREEAM og LEED) en fékk bágt fyrir einmitt vegna hugmynda höfunda un vistvæna hönnun.  Dómararnir skildu ekki viðfangsefið að fullu eða þeim fannst það ekki vísa til framfara eða betri framtíðar. Tillagan hlaut 3. sæti, en hefði verið ofar ef höfundar hefðu sleppt vistvænu sjónarmiðunum sem dómurunum þótti löstur.  Nú eru eru breyttir tímar, sem betur fer.

Framkvæmdasýsla Ríkisins hefur nú tekið frumkvæði í þessum efnum og lagt ríka áherslu á þetta þegar um nýbyggingar er að ræða. Það ber að hrósa þeim sem þar hafa ráðið ferð.  Nú eru nokkrar byggingar á vegum FSR fullbúnar eða í undirbúningi sem taka tillit til hugmyndafræðarinnar. Fyrsta byggingin sem er  fullgerð á vegum FSR með markvissri vistvænni hönnun að leiðarljósi er gestastofa við Sriðuklaustur,  Snæfellsstofa.

Ég veit ekki fullkomlega hvernig til hefur tekist en veit að staðsetningin gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið gagnrýnd með gleraugum vistvænnar hönnunar á nefinu. Til að skýra þetta betur þá er aðgengi og almenningssamgöngur veigamikið atriði varðandi vistvæna hönnun.  Áhrifafólk í skipulagsmálum hér á landi undanfarna áratugi hefur, að því er virðist ekki alltaf,  áttað sig á því.

Í tengslum við þetta starf hefur Framkvæmdasýslan gefið út veglegan og skemmtilegan bækling sem tekur á öllum aðalatriðum vistvænnar hönnunar. Bæklinginn má nálgast á þessari slóð:

http://www.fsr.is/library/5201

Ég mæli með að allir,  sem eitthvað hafa með húsbyggingar og skipulagsmál að gera eða hyggja á framkvæmdir, skoði bæklinginn. Hann fær hjá mér sex stjörnur af  fimm mögulegum eins og gárungarnir segja.

Gleðilegt ár

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.12.2010 - 09:44 - 17 ummæli

Gestastofa að Skriðuklaustri

 

Á árinu sem nú er að líða var opnuð gestastofa, upplýsingamiðstöð ferðamála fyrir Vatnajökulsþjóðgarð að Skriðuklaustri, “Snæfellsstofa”.  Þarna er um að ræða litla bygginu sem er um 750 m2. Mér hefur ekki hlotnast tækifæri til þess að skoða bygginguna en er sagt að hún beri af sér góðan þokka. Húsið tyllir sér léttilega niður í landslaginu þar sem áberandi brot er í hæðarlínum og gott útsýni er til fjalla.

Form Hússins er að sögn höfunda innblásið af eilífum sköpunarmætti jökulsins, hvernig hann ýmist brýtur sér leið eða hopar. Byggingunni er tyllt niður á landið þar sem brot er í hæðarlínunum og hún er látin svífa yfir landinu. Höfundar hússins eru arkitektar hjá Arkís www.arkis.is og í greinargerð þeirra segir m.a.:

“Vatnajökull þekur um 15% af Íslandi en veður- og náttúrufræðilegt áhrifasvæði hins mikilfenglega Vatnajökulsþjóðgarðs þekur næstum hálft landið og landgrunnið þar undan. Jaðrar jökulsins eru breytilegir og í stöðugri mótun vegna eldsumbrota og stöðugra veðurfarsbreytinga. Hlykkjóttar línur, langir bogar og önnur óregluleg lögun jökulsins er endurspegluð í gestastofum þjóðgarðsins.”

Þetta er augljóslega gott hús með grunnmynd sem geymir sterka hugmynd sem byggir á umhverfinu og starfrænum þáttum. Grunnmyndin sem hefur X form gengur fallega upp í sneiðingum og efnisval.

Hjálagt er afstöðumynd, grunnmynd og frábærar ljósmyndir Sigurgeirs Sigurjónssonar sem segja meira en 1000 orð.

Ég hef ekki komið austur á hérað síðan ég fór til þess að kveðja þá fallegu náttúru sem fór undir Hálsalón og því ekki hlotnast tækifæri til þess að skoða gestastofuna að Skriðuklaustri sem ber af sér góðan þokka. Ljósmyndir Sigurgeirs Sigurjónssonar sem hér fylgja vitna þar um.

BREEAM

Framkvæmdasýsla Ríkisins hefur undanfarið lagt áherslu á vistvænar byggingar. Þetta er eitthvað sem hefur verið stundað um árabil og oft nefnt LCA (Life Cycel Analysing) sem gengur út á að huga að umhvefisvænum efnum sem ekki eru hættuleg heilsu manna og eru heppileg til endurvinslu og auðvelt að farga. Hugsað er til allra umhverfisþátta á líftíma byggingarinnar. Borgarholtsskóli var hannaður undir þessum merkjum.

Nú hefur verið búið til sérstakt vottunarkerfi BREEAM (Building Reserarch Establishment Enviromental Assessment Method). Annað kerfi er LEED (Leadership in Energi and Environmental Deesign) sem þróað var af GBC (Green building Counsil) sem starfar hér á landi.

Gestastofa að Skriðuklaustri er ein þriggja bygginga sem eru fullbúnar eða á hönnunarstigi sem farið hafa í gegnum slíkt vottunarkerfi (matskerfi) Hinar eru Hús  íslenskra fræða og Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi.  Í Útboðslýsingu vegna hjúkrunarheimilis á Eskifirði fyrr á þessu ári var ætlast til að hönnun og framkvæmd færi í BREEAM vottun.

Ekki veit ég hvar það mál stendur nú.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.12.2010 - 14:19 - 13 ummæli

Austurstræti 22 í Reykjavík

Arkitektarnir hjá ARGOS, þeir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson hafa mælt upp og teiknað húsið að Aðalstræti 22 og sagt til um endurgerð þess eftir bruna árið 2007. Þeir lýsa sögu hússins í stuttu  máli með eftirfarandi hætti:

“Austurstræti 22 var reist 1801 af Ísleifi Jónssyni dómara. Fjórum árum seinna keypti stiftamtmaðurinn Trampe greifi húsið og gerði á því nokkrar endurbætur. Jörundur hundadaga-konungur handtók hann þar árið 1809 og settist sjálfur að í húsinu. Síðar bjuggu þar stiftsamtsmenn, þar var landsyfirréttur til húsa og Prestaskólinn um tíma. Frá 1915 og fram undir aldamótin síðustu var rekin verslun í húsinu og voru þá gerðar miklar breytingar, einkum á neðri hæð hússins. Upphaflega var það stokkahús, klætt listaklæðningu að utan og rennisúð á þaki en að innan þiljað og veggfóðrað. Húsið brann mjög illa síðasta vetrardag 2007 og ákváðu borgaryfirvöld þá að það skyldi endurbyggt sem næst upprunalegri gerð“

Hér er á ferðinni gott framtak að frumkvæði borgarinnar og tilhlökkunarefni að sjá og njóta framkvæmdanna þegar þær verða fullbúnar og komnar í notkun.  Þó öll mannanna verk séu umdeilanleg þá má fullvíst telja að ákvarðanir um endurreisn húsanna á horni Lækjargötu og Austurstrætis munu í tímans rás njóta skilnings og aðdáunnar komandi kynslóða.  Sama á við um endurbyggingu gamalla húsa hvert sem litið er,  svo sem til Vaktarabæarins við  Garðastræti eða til gömlu húsanna neðst á Laugarvegi. Vakning er að eiga sér stað hvað varðar þennan mikilvæga menningararf og vonandi halda menn vöku sinni um langa framtíð.

Ég vil ljúka þessu með því að vitna í erindi um „Hið jarðneska skjól“ sem Kristján Eldjárn flutti á húsfriðunarráðstefnu arið 1975,  fyrir 35 árum:

„Og þó verður því ekki neitað að húsamenningin er einn hinn nákomnasti lífsþáttur hvers einasta manns, svo sem eins og holdgróinn, hið jarðneska skjól þjóðarinnar frá kyni til kyns og um leið svigrúm og vettvangur fyrir sköpunarþörf og listgleði“

Grunnmynd og útlit að Austurstræti

Langsnið í Austurstræti 22

Hér að neðan eru ljósmyndir Guðmundar Ingólfssonar af Vaktarabænum í Garðastræti og  Aðalstræti 10. Bæði húsin voru endurbyggð samkvæmt uppfdráttum og tilsögn þeirra Gréters og Stefáns hjá ARGOS.  Myndirnar gefa vísbendingu um þann gæðaflokk sem stefnt er að varðandi endurbyggingu  Austurstrætis 22.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.12.2010 - 14:11 - 24 ummæli

Frank Gehry í Ástralíu

 

Frank Gehry er að vinna að byggingu fyrir University of  Technology í Sydney. (UTS) Þetta er fyrsta bygging Gehrys í Ástralíu og að líkindum sú síðasta enda er maðurinn orðinn 81 árs gamall. Þó verður maður að hafa í huga að góðir arkitektar lifa oft lengi. Frank Loyd Wright kláraði stórbyggingu eina þegar hann var 92 ára að aldri, árið sem hann dó.(Marin Center. St. Rafael CA.)

Hús UTS í Sydney er 11 hæða bygging sem verður úr múrsteini á einni hlið og með glerskífu hinumegin. Múrsteinninn er skýrskotun til hefðarinnar í Sydney og hin liðin  enduspeglar byggingarnar í nágrenninu. Það má segja að þarna sé einhver staðarvitund í gangi hjá gamla manninum.

Framkvæmdir munu hefjast á árinu 2012 og þeim á að ljúka árið 2014. Byggingin er um 16.000 fermetrar og á að kosta 150 milljón dollara sem gerir um 9300 dollara á fermetra sem er aftur rúm milljón íslenskra króna.

Eins og í flestum verkum Gehrys þá er útlitið meginviðfangsefið í byggingunum líkt og tíðkaðist áður en nýtjastefnan kom til sögunnar. Ég hef skoðað allnokkrar byggingar Gehrys og verð þrátt fyrir þetta að viðurkenna að það hallar oft furðulítið á starfræna þætti þegar þær eru skoðaðar nánar.  Allt sprellið, sem er að mestu órökstutt, þvælist ekki eins mikið fyrir funktioninni og maður gæti haldið.

Í einni setningu þá mundi ég skilgreina þetta hús Gehrys, eins og mörg önnur hans verka, sem skúlptúr. Hér sem skúlptúr til að læra í.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn