Kollegi minn minnti mig á sumarhús sem Gehrdt Bornebusch arkitekt teiknaði fyrir tæpum 50 árum í Oddsherred í Danmörku. Hann var að bera húsið í síðustu færslu minni við þetta gamla hús. Það er margt líkt með þeim. Þau byggja á sömu grunnhugmynd þó þau séu byggð með um 50 ára millibili í sitt hvorri heimsálfunni.
Eins og sést á afstöðumyndunum þá líkjast þessi hús hvoru öðru í meginatriðum. Bæði eru lokuð í aðra áttina og opin á móti birtunni og útsýninu í hina. Bæði taka mikið tillit til umhverfisins og láta náttúruna njóta sín. Danska húsið er mun minna að stærð og íburði en það ameríska. Annað eru rúmir 50 fermetrar en hitt tæpir 500. Ameríska húsið er mjög fínlegt í öllum frágangi og hlaðið margskonar tæknilegum þægindum. Það danska er gróft og útivistarlegt með tæknilegum þægindum í lágmarki.
Húsið er úr timbri og styður sig við boginn lokaðan múrsteinsvegg og opnast til suðurs að útsýni og skógarrjóðri. Þakið er klætt með grágrænni, nú mosavaxinni borðaklæðningu. Efnisvalið er gróft, frumstætt og náttúrulegt. Það mundi að líkindum skora 100% í BREEM mati ef strætó gengi framhjá.
Gehrdt Bornebusch sem er fæddur 1925 vann hjá Arne Jacobsen í byrjun sjötta áratugarins og var mikils metinn í dönsku arkitektaumhverfi um sína daga. Ekki veit ég hvort hann lifir enn.
Þennan texta má lesa í bók sem fjallar m.a. um þetta hús og það er arkitektinn sem hefur orðið:
“Jeg kan huske, at jeg satte mig ned på træstub, og begynte at skitsere på min tegneblok. Det tog vel et par minutter, så var huset tegnet, og som det ligger i dag, er det i alle væsentlige træk idendisk med denne, den förste skitse”.
Afsötðumynd og grunnmynd. Fríhendisskissa frá hendi arkitektsins.
Hlið að lokuðum sólríkum garði. Létt ásýnd með borðaklæddu þaki.
P.S.
Það er ekki auðvelt að afla sér upplýsinga um byggingar sem voru hannaðar fyrir tíma veraldarvefsins. Hvorki almennar upplýsingar né myndefni. Hinsvegar eru hinar ómerkilegustu byggingar að þvælast fyrir manni út um allt á vefnum. Sérstaklega ef þær eru teiknaðar af einhverjum tölvunördum eða arkitektum sem hafa slíka í þjónustu sinni.
Það er ekki mikið til á netinu um hús Bornebusch. Þær upplýsingar sem hér birtast er úr bók sem fyrrnefndur kollegi minn sendi mér ljósrit úr.